Hæstiréttur íslands

Mál nr. 45/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Þriðjudaginn 27

 

Þriðjudaginn 27. janúar 2004.

Nr. 45/2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Jón Höskuldsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. janúar 2004. Kærumálsgögn bárust réttinum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2004, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til 4. mars 2004. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Varnaraðili hefur játað aðild að flestum þeirra brota sem hann er grunaður um og rakin eru í hinum kærða úrskurði. Eins og þar er lýst eru þau framin á skömmum tíma. Í greinargerð sóknaraðila til Hæstaréttar kemur auk þess fram að verðmæti þýfis úr þeim innbrotum sem hann er grunaður um sé umtalsvert. Þá var varnaraðil dæmdur 27. janúar 2003 í Héraðsdómi Reykjavíkur í fangelsi í 18 mánuði og 28. maí sama ár í fangelsi í tvo mánuði, aðallega fyrir fjölmarga þjófnaði. Var honum veitt reynslulausn á eftirstöðvum refsingar samkvæmt dómunum í 300 daga 29. ágúst 2003, en fyrsta brot sem varnaraðili er nú grunaðar um að hafa framið átti sér stað þremur vikum síðar. Þegar til alls þessa er litið verður að ætla að varnaraðili haldi áfram brotum meðan málum hans er ekki lokið gangi hann laus. Er því fallist á með héraðsdómara að fyrir hendi séu skilyrði c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 til að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi. Verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2004.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að kærða X með lögheimili að [...], verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991 úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í málum hans en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 4. mars nk. kl. 16.00.

                [...]

                Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið sjö brot gegn almennum hegningarlögum og fíkniefnalöggjöf og gert eina tilraun til þjófnaðar frá því hann var látinn laus úr fangelsi 29. ágúst sl. en þá átti hann eftir að afplána 300 daga af eftirstöðvum fangelsisrefsingar.

                Með vísan til framanritaðs þykja uppfyllt skilyrði c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991.

                Verður krafa lögreglunnar í Reykjavík tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurði.  Ekki þykja efni til að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími en krafist er.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

 

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, með lögheimili að [...], sæti gæsluvarðhaldi allt til fimmtu­dagsins 4. mars 2004 kl. 16.00.