Hæstiréttur íslands
Mál nr. 394/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Kröfugerð
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Miðvikudaginn 10. september 2008. |
|
Nr. 394/2008. |
M(Guðni Á. Haraldsson hrl.) gegn K (Helgi Birgisson hrl.) |
M kærði úrskurð héraðsdóms, þar sem máli hans gegn K var vísað frá dómi sökum vanreifunar. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms. Vísað var til þess að fyrri krafa M á hendur K, um viðurkenningu á endurgjaldskröfu úr hennar hendi, væri ekki í samræmi við reifun kröfunnar og tilgreiningu á lagagrundvelli hennar. Þá þótti síðari krafa M, er laut að því að tiltekinn hluti séreignar K yrði talin hjúskapareign við fjárskipti þeirra, einnig vanreifuð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 8. júlí 2008 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. júlí 2008, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í máli þessu gerir sóknaraðili kröfu á hendur varnaraðila um viðurkenningu á endurgjaldskröfu úr hennar hendi á þeim grundvelli að hann hafi greitt afborganir af lánum sem henni hafi borið að greiða samkvæmt kaupmála þeirra. Vísar hann til 1. mgr. 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 til stuðnings þessari kröfu. Fallist er á með héraðsdómi að ekki sé samræmi í reifun kröfunnar og tilgreiningu á lagagrundvelli hennar. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur um þessa kröfu sóknaraðila.
Þá gerir sóknaraðili einnig kröfu um að 28,9% fasteignarinnar að X í Kópavogi verði talin hjúskapareign við fjárskipti vegna skilnaðar aðilanna. Í greinargerð til Hæstaréttar tekur hann fram að augljóst sé að átt sé við hjúskapareign varnaraðila. Hundraðshlutann í þessari kröfu hefur sóknaraðili reiknað út frá því hve hann telur stærð fasteignarinnar hafa aukist í fermetrum talið þegar byggt hafi verið við hana í kjölfar samþykktar bygginganefndar Kópavogs á árinu 1996. Jafnvel þótt dómstólar féllust á réttmæti tilkalls sóknaraðila til eignarinnar á þessum grundvelli yrði við ákvörðun hundraðshlutans í kröfunni að leggja mat á hver verðmætisaukning hafi orðið á eigninni við þessa viðbyggingu. Sóknaraðili hefur ekki reifað kröfu sína á þann veg að unnt sé að leggja dóm á þetta. Krafan er því vanreifuð og verður hinn kærði úrskurður einnig staðfestur að því er hana varðar. Að þessari niðurstöðu fenginni kemur varakrafa sóknaraðila um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar, sem gerð er á sama grundvelli og aðalkrafan, heldur ekki til álita.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, M, greiði varnaraðila, K, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. júlí 2008.
Mál þetta barst Héraðsdómi Reykjaness 25. apríl sl. frá skiptastjóra samkvæmt 112. gr., sbr. 122. gr. laga nr. 20/1991. Málið var þingfest þann 15. maí sl. og tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu varnaraðila að loknum munnlegum málflutningi þann 30. júní sl.
Sóknaraðili er M, [heimilisfang], Garðabæ, en varnaraðili K, [heimilisfang], Kópavogi.
Varnaraðili ítrekaði aðal kröfu sína um að málinu yrði vísað frá líkt og hann krefst í greinargerð sinni. Sóknaraðili krafðist þess að kröfu varnaraðila yrði hafnað og að málið hlyti efnismeðferð.
Kröfur sóknaraðila eru eftirfarandi:
1. Aðallega er þess krafist að varnaraðili verði dæmdur til þess að greiða sóknaraðila 34.274.933 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6.gr. laga nr. 38/2001 frá 8. apríl 2008 til greiðsludags en til vara að varnaraðili verði dæmdur til þess að greiða sóknaraðila 17.137.466 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 8. apríl 2008 til greiðsludags.
Við upphaf munnlegs málflutnings breytti sóknaraðili þessari kröfu í kröfu um viðurkenningu á sambærilegri endurgjaldskröfu.
2. Aðallega að viðurkennt verði með dómi krafa sóknaraðila þess efnis að 28,9 hundraðshlutar fasteignarinnar X, Kópavogi, verði taldir til hjúskapareignar og komi því til skipta við opinber skipti á búi aðila máls þessa, en til vara að viðurkennd verði endurgjaldskrafa til handa sóknaraðila úr hendi varnaraðila að fjárhæð kr. 15.317.000, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 8. apríl 2008 til greiðsludags.
3. Þá er þess krafist að varnaraðili verði dæmd til þess að greiða sóknaraðila málskostnað að mati réttarins.
Dómkröfur varnaraðila eru eftirfarandi:
1. Aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði vísað frá dómi og til vara að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
2. Þá er þess krafist að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða varnaraðila málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættu álagi að mati dómsins.
I.
Málsatvik eru þau að málsaðilar gengu í hjónaband þann [dagsetning] 1983. Þau slitu samvistum í mars 2007. Hinn 21. mars 2007 fór varnaraðili fram á það við sýslumanninn í Kópavogi að henni yrði veittur skilnaður frá sóknaraðila. Hinn 17. október 2007 var með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness bú aðila tekið til opinberra skipta og hinn sama dag var Ingi H. Sigurðsson, hrl. skipaður skiptastjóri.
Aðilar málsins keyptu á sínum tíma í sameiningu einbýlishúsið X, Kópavogi. Báðir aðilar áttu fyrir eignir sem þau lögðu fram við kaupin og var hlutur sóknaraðila meiri en hlutur varnaraðila.
Hinn [dags.] 1992 gerðu aðilar með sér kaupmála þar sem svo var um samið að fasteignin X, Kópavogi, skyldi verða séreign varnaraðila ásamt búsmunum sem upp eru taldir í skrá viðfestri kaupmálanum. Í kaupmálanum var samið um að varnaraðili tæki að sér að greiða eftirstöðvar áhvílandi veðskulda á séreign hennar sem þá voru kr. 6.590.752 en 5 veðlán hvíldu á eigninni. Sóknaraðili telur sig eiga endurgjaldskröfu á hendur varnaraðila vegna þess að hann hafi greitt af veðlánum séreignar varnaraðila og einnig fasteignagjöld af sínum tekjum.
Hinn 31. maí 1996 var samþykkt á fundi bygginganefndar Kópavogs viðbygging við einbýlishúsið X, Kópavogi. Breytingin fól í sér stækkun jarðhæðar um 25 fermetra og stækkun götuhæðar um 26,8 fermetra. Þá var þakkantur stækkaður. Þannig var samþykkt stækkun á húsinu úr 188,6 fm. í samtals 242,4 fm. eða um 28,9 hundraðshluta. Sóknaraðili telur sig hafa haft veg og vanda af stækkun hússins og greitt allan viðbótarkostnað. Kostnaður við stækkunina nam um kr. 6.2 milljónir. Lán vegna endurbóta fengust hjá Íbúðalánasjóði. Kostnaðaráætlun sem fylgdi umsókn til Íbúðalánasjóðs hljóðaði upp á kr. 3.945.000 en reyndist of lág þegar upp var staðið, eins og reyndar var gert ráð fyrir í umsókn aðila. Ekki var gerður viðbótarkaupmáli um viðbyggingu þessa sem var til þess að auka verðmæti séreignar varnaraðila svo miklu nam.
II.
Ástæða kaupmálans var að sögn sóknaraðila erfðaréttur barna hans af fyrra hjónabandi en varnaraðili taldi að réttur hennar gæti orðið fyrir borð borinn félli sóknaraðili frá. Nú hefur varnaraðili lagt fram kröfu um skilnað og gert þá kröfu að fasteignin X, Kópavogi, komi ekki til skipta þar sem hún sé séreign hennar en söluverð eignarinnar var um kr. 53 milljónir samkvæmt meðfylgjandi mati Fasteignasölunnar [...]
Heldur sóknaraðili því fram að hann hafi greitt af þeim lánum sem varnaraðili skyldi greiða af og hvíldu á séreign hennar, enda hafi varnaraðili ekki haft launatekjur árin 1992-2000. Þá hafi sóknaraðili einnig greitt fasteignagjöld af séreign varnaraðila frá gerð kaupmálans. Krafan byggist á því að varnaraðili hafi ekki greitt af lánum er hvíldu á íbúðinni, líkt og henni bar samkvæmt umræddum kaupmála. Því eigi varnaraðili að endurgreiða sóknaraðila þá fjárhæð sem greidd var úr búi þeirra hjóna og var til þess að auka virði séreignar varnaraðila.
Þá bendir sóknaraðili á að eftir að kaupmálinn var gerður hefur séreign varnaraðila að X, Kópavogi, verið veðsett fyrir öðrum lánum. Þannig voru tekin lán við Íbúðarlánasjóði árið 1997. Þá var eignin veðsett árið 1996 fyrir láni við Frjálsa Fjárfestingarbankann og BYR sparisjóð árið 2000. Öll þessi viðbótarlán hvíla á séreign varnaraðila og skv. kaupmálanum á hún ein að greiða af þeim.
Endurgjaldskrafa sóknaraðila sundurliðast þannig:
1. Fasteignagjöld af X, Kópavogi fyrir árin 1996-2007 kr. 1.434.120
2. Greiðslur af lánum við Íbúðalánasjóði árin 1992-2007 kr. 2.180.858
3. Greiðslur af láni við Íslandsbanka h.f., upphaflega að fjárhæð kr. 2.500
þúsund dags. 19. október 1992 kr 3.795.105
4. Greiðslur af láni við BYR sparisjóð, upphaflega kr. 2.000.000. kr. 2.089.461
5. Greiðslur af láni við Frjálsa Fjárfestingarbankanum, upphaflega að fjárhæð
kr. 3.200.000. kr. 4.301.499
6. Greiðslur af viðbyggingarlánum við Íbúðalánasjóð 1997-2007 kr. 2.347.172
4. Skuldabréfavextir óverðtryggðra skuldabréfa frá 1993 til 8. apríl 2008. kr. 18.216.997
Samtals kr. 34.274.933
Þess er aðallega krafist að varnaraðili greiði sóknaraðila kr. 34.274.933 með dráttarvöxtum, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá og með deginum í dag til greiðsludags. Með vísan til 8. gr. laga nr. 14/1905 er krafist vaxta á höfuðstól allt frá árinu 1993.
Til vara er gerð sú krafa að varnaraðili greiði sóknaraðila kr. 17.137.466, með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá og með deginum í dag til greiðsludags. Krafan byggist á því að greiðslur hafi ekki verið greiddar af varnaraðila heldur úr félagsbúi þeirra hjóna og því eigi sóknaraðili rétt á því að fá helming þeirrar fjárhæðar, auk vaxta, endurgreiddan.
Um rétt sinn vísar sóknaraðili til 107. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 og til 4. mgr. 109.gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl.
Krafa sóknaraðila um viðbyggingu:
Af hálfu sóknaraðila er þess krafist að við opinber skipti á félagsbúi hans og varnaraðila verði viðurkennd sú krafa hans að 28,9 hundraðshlutar fasteignarinnar X, Kópavogi, verði taldir til hjúskapareignar. Eignin var fyrir stækkunina árið 1996 samtals 188,6 fermetrar að flatarmáli en eftir stækkun samtals 242,4 fermetrar. Um er að ræða stækkun upp á samtals 53,8 fermetra eða rúma 28 hundraðshluta.
Ekki var svo um samið í kaupmála aðila að stækkun á séreign varnaraðila yrði séreign hennar, heldur einungis um það sem í stað séreignar kæmi. Þannig hefði þurft að semja sérstaklega um að stækkunin yrði séreign þar sem um svo veigamikla framkvæmd var um að ræða, líkt og umsóknir um lán til Íbúðalánsjóðs bera með sér. Á því er byggt að kaupmálar og séreignir sem myndast vegna þeirra séu undantekningar frá meginreglunni um helmingaskipti. Því þurfi að túlka ákvæði þeirra þröngt.
Til vara er þess krafist af sóknaraðila að viðurkennd verði endurgjaldskrafa honum til handa að fjárhæð kr. 15.317.000 auk dráttarvaxta, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá deginum í dag til greiðsludags. Miðast sú krafa við fyrrgreint verðmat Fasteignasölunnar [...]. sem verðmetur húsið í dag á kr. 53 milljónir miðað við sama hlutfall eða 28,9 hundraðshluta stækkun eignarinnar. Sá hundraðshluti nemur 15.317.000.
III.
Varnaraðili segir megin ágreiningsefni þessa máls lúta að kaupmálanum frá [dags.] 1992 þar sem fasteign og lausafjármunir eru gerðir að séreign hennar og koma því ekki til skipta við fjárslitin. Sóknaraðili telur sig eiga endurgjaldskröfu á hendur varnaraðila þar sem hann hafi greitt af veðlánum umræddrar eignar og einnig fasteignagjöld. Með vöxtum reiknar sóknaraðili endurgjaldkröfuna kr. 34.274.933. Samhliða krefst sóknaraðili viðurkenningar á að hann sé eigandi 28,9 hundraðshluta séreignarinnar, þar sem við hana hafi verið skeytt viðbyggingu árið 1996. Til vara gerir hann fjárkröfu.
Aðalkrafa varnaraðila um frávísun krafna sóknaraðila.
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila er fyrsta krafa hans, endurgjaldskrafa, byggð á 1. mgr. 107. gr., en skv. henni getur annað hjóna krafist endurgjalds hafi hitt hjóna notað eigur sínar, er koma skyldu til skipta, til þess að auka verðmæti séreignar sinnar. Í slíkum tilvikum yrði að meta til peningaverðs þá verðmætaaukningu sem orðið hefur á séreigninni og miða endurgjaldskröfuna við helming þeirrar fjárhæðar. Sóknaraðili gerir ekki kröfu um aukinn hlut við skiptin heldur hefur uppi fjárkröfu um að varnaraðili greiði honum, eins og hverja aðra skuld, tiltekna fjárhæð, eigi svo lága, að viðbættum vöxtum og dráttarvöxtum.
Í annarri kröfu sinni krefst sóknaraðili viðurkenningar á að hann eigi 28,9 hundraðshluta fasteignarinnar við X í Kópavogi. Varakrafa sóknaraðila undir þessum kröfulið er um greiðslu á kr. 15.317.000, auk dráttarvaxta. Svo er að skilja á málatilbúnaði sóknaraðila að síðastnefnda krafan standi sjálfstætt með fyrsta kröfulið þannig að heildarfjárkrafa sóknaraðila varðar greiðslu á kr. 49.591.933, auk dráttarvaxta. Ekkert mat liggur fyrir á ætlaðri verðmætaaukningu hússins vegna framkvæmdanna. Rétt er að geta þess að lauslegt mat á fasteigninni er kr. 53 milljónir og á henni hvíla lán líklega um kr. 15 milljónir.
Framangreindur málatilbúnaður sóknaraðila er að mati varnaraðila með miklum eindæmum og fer í engu eftir reglum laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum og verður því að mati varnaraðila ekki hjá því komist að vísa þessum kröfum sóknaraðila frá dómi.
Niðurstaða.
Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila er fyrsta krafa hans um viðurkenningu á endurgjaldskröfu byggð á 1. mgr. 107. gr. Í þeim tilvikum þar sem ákvæðið er talið eiga við yrði að meta til peningaverðs þá verðmætaaukningu sem orðið hefur á séreigninni og miða endurgjaldskröfuna við helming þeirrar fjárhæðar. Sóknaraðili gerir ekki kröfu um aukinn hlut við skiptin heldur hefur uppi kröfu um að viðurkennt verði að varnaraðili eigi að greiði honum, eins og hverja aðra skuld, tiltekna fjárhæð, að viðbættum vöxtum og dráttarvöxtum
Í annari kröfu sinni krefst sóknaraðili viðurkenningar á að hann eigi 28,9 hundraðshluta fasteignarinnar við X, Kópavogi. Varakrafa sóknaraðila undir þessum kröfulið er um viðurkenningu á endurgreiðslukröfu að fjárhæð kr. 15.317.000, auk dráttarvaxta.
Endurgjaldskrafa 1. mgr. 107. gr. laga nr. 31/1993 er svohljóðandi:
Nú hefur maki notað eigur sínar, er koma skyldu til skipta, til þess að auka verðmæti er ekki eiga að hlíta skiptum samkvæmt samningi makanna, ákvörðun gefanda eða arfleiðanda eða samkvæmt lagaákvæðum eða til að afla sér réttinda sem hafa verið þegin undan skiptum skv. 1. og 3. tölul. 102. gr. og getur hinn makinn eða dánarbú hans þá krafist endurgjalds af þessu tilefni. Sama gegnir um réttindi skv. 2. tölul. 102. gr. ef útgjöld til þessa fara út yfir eðlileg og sanngjörn mörk.
Telur dómari að þessi grein verði ekki túlkuð með öðrum hætti en þeim að sá sem verður fyrir því í hjúskap að annar makinn eykur verðmæti einhvers sem undanþegið er skiptum samkvæmt samningi þeirra á milli og notar til þess eignir sem áttu að koma til skipta getur vegna þessa krafist endurgjalds. Sá aðili í hjúskap sem eykur verðmæti sem eru þessu marki brennd í búinu með sínum eignum, hverjar sem þær kunna að vera, getur ekki haft uppi endurgjaldskröfu á þessum lagagrundvelli. Því á slík endurgjaldskrafa ekki við nema þegar annar makinn nýtir sína hjúskapareign til þess að auka verðmæti séreignar sinnar.
Með þessum rökum verður því að vísa frá héraðsdómi öllum kröfum sóknaraðila um viðurkenningu á endurgjaldskröfum á hendur varnaraðila.
Eftir stendur krafa sóknaraðila um að 28,9 hundraðshlutar fasteignarinnar X, Kópavogi, verði taldir til hjúskapareignar við skiptin. Að mati dómara er útilokað að átta sig á því á hverju sóknaraðili byggir kröfu sína um víkja eigi frá því ákvæði kaupmálans að þessi eign teljist séreign varnaraðila, þ.e hvort það leiði af túlkun á orðalagi kaupmálans þannig að þessi krafa hans næði fram að ganga ef beitt væri þröngri túlkun eða þá að þessi framkvæmd hafi verið svo veigamikil að um hana hefði þurft að semja ætti hún að rúmast innan kaupmálans sem séreign. Þá getur sóknaraðili þess ekki hvoru hjóna þessi hjúskapareign skuli tilheyra.
Er þessi síðast nefnda krafa að mati dómara svo vanreifuð, bæði hvað varðar lagagrundvöll og rökstuðning, að óhjákvæmilegt er að vísa henni frá.
Samkvæmt framansögðu er fallist á frávísunarkröfu varnaraðila.
Rétt þykir að aðilarnir beri hvor sinn kostnað.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kröfum sóknaraðila, M, á hendur varnaraðila, K, er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.