Hæstiréttur íslands
Mál nr. 413/2009
Lykilorð
- Skaðabótamál
- Líkamstjón
- Stefna
- Frestur
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 18. mars 2010. |
|
Nr. 413/2009. |
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Vífilfell hf. (Kristín Edwald hrl.) gegn Sigurði Skjaldberg (Steingrímur Þormóðsson hrl.) |
Skaðabótamál. Líkamstjón. Stefna. Frestur. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.
S krafðist skaðabóta úr hendi S hf. og V hf. vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi árið 2001. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að S hefði ekki gert í stefnu þá grein fyrir kröfu og sönnunargögnum um hana sem áskilið væri í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Hann hefði þingfesti málið á grundvelli stefnunnar án þess að fullnægt væri ákvæði 1. mgr. 95. gr. laganna. Hefði S leitast við að bæta úr þessu með matsgerð, sem hann hefði ekki aflað fyrr en síðar og ekki gert sundurliðaða og rökstudda kröfu fyrr en hann hefði aflað hennar og fengið til þess endurtekna fresti. Lög nr. 91/1991 gerðu ekki ráð fyrir að stefnandi fengi fresti eftir þingfestingu máls í því skyni að bæta úr annmörkum á málatilbúnaði í stefnu og skipti í því efni ekki máli þó að hinn stefndi andmælti ekki slíkum frestum. Var málinu því vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 22. júlí 2009. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara lækkunar á fjárhæð hennar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem hann nýtur á báðum dómstigum.
Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu 28. júní 2007 og var málið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. október sama ár. Í stefnu var aðallega gerð krafa um 15.000.000 krónur, en til vara 3.581.246 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta en að frádreginni tilgreindri innborgun. Í stefnunni var engin grein gerð fyrir kröfufjárhæðum. Við þingfestinguna var bókað: „Stefnandi fékk frest til frekari málatilbúnaðar til 13.12.2007.“ Á dómþingi þann dag lagði stefndi fram yfirmatsbeiðni. Málinu var síðan frestað tíu sinnum fram til 21. janúar 2009. Var ýmist bókað í þingbók að áfrýjandi fengi frest til greinargerðar eða stefndi til „frekari málatilbúnaðar“. Ekki er deilt um að frestir voru á þessu tímabili veittir til þess að stefndi gæti lagt fram yfirmatsgerð þá sem hann hafði óskað eftir. Á dómþingi 27. janúar 2009 var fært til bókar að láðst hefði við fyrirtöku málsins 18. desember 2008 að bóka um framlagningu yfirmatsgerðar og skjals með dómkröfum stefnda. Á síðastnefndu skjali kom fram að stefndi gerði kröfu um greiðslu á 4.830.655 krónum auk vaxta og dráttarvaxta en að frádreginni sömu innborgun og getið hafði verið í stefnu. Þá kom fram í skjalinu sundurliðun kröfu stefnda í miskabætur og bætur fyrir varanlega örorku og nokkrar skýringar á útreikningi þessara kröfuliða. Við munnlegan flutning málsins 22. apríl 2009 lækkaði stefndi kröfu sína í þá fjárhæð sem í héraðsdómi greinir. Áfrýjandi lagði fram greinargerð í héraði 26. febrúar 2009 og fjallaði þar um yfirmatsgerðina og kröfurnar sem stefndi hafði lagt fram um leið og hana 18. desember 2008. Áfrýjandi hreyfði ekki mótmælum við þeim hætti sem stefndi hafði haft á málatilbúnaði sínum og hér var lýst.
Af framansögðu er ljóst að stefndi gerði ekki í stefnu þá grein fyrir kröfu sinni og sönnunargögnum um hana sem áskilið er í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann þingfesti málið á grundvelli stefnunnar án þess að fullnægt væri ákvæði 1. mgr. 95. gr. laganna um framlagningu gagna sem varða málatilbúnað stefnanda við þingfestingu. Leitaðist hann við að bæta úr þessu með matsgerð, sem hann aflaði ekki fyrr en síðar og gerði ekki sundurliðaða og rökstudda kröfu fyrr en hann hafði aflað hennar og fengið til þess endurtekna fresti. Lög nr. 91/1991 gera ekki ráð fyrir að stefnandi fái fresti eftir þingfestingu máls í því skyni að bæta úr annmörkum á málatilbúnaði í stefnu og skiptir í því efni ekki máli þó að hinn stefndi andmæli ekki slíkum frestum.
Þeir annmarkar á málatilbúnaði stefnda í héraði sem hér hefur verið lýst leiða til þess að málinu verður vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.
Málskostnaður milli aðila í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms verður staðfest og gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti ákveðinn eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarákvæði hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, Sigurðar Skjaldberg, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 350.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. apríl 2009.
Mál þetta, sem var dómtekið 22. apríl sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigurði Skjaldberg, Bugðulæk 8, Reykjavík á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík, og Vífilfelli hf., Stuðlahálsi 1, Reykjavík, með stefnu lagðri fram 18. október 2007.
Stefnandi gerir þær dómkröfur, að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Vífilfell hf. verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 2.942.027 króna með 4,5% ársvöxtum af 227.790 kr. frá slysdegi, þ.e. 15. júlí 2001 til 22. nóvember 2008 en af stefnufjárhæð 2.942.027 kr. frá þeim degi til 18. janúar 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi og til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 2.576.712 kr. með sama vaxtafæti og í aðaldómkröfu.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndu krefjast þess aðallega að verða sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað. Til vara er krafist verulegrar lækkunar á dómkröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Málavextir
Stefnandi lenti í tveimur umferðarslysum árið 1996. Annars vegar á Akureyri í febrúar og hins vegar á Höfn í Hornafirði í október sama ár. Vegna þeirra er rekið Hæstaréttarmálið nr. 530/2008.
Hinn 15. júlí 2001 slasaðist stefnandi í árekstri. Samkvæmt lögregluskýrslu bar slysið að með þeim hætti að stefnandi var að aka bifreið sinni á hægri akrein norður Kringlumýrarbraut í átt að Borgartúni þegar hann lenti í árekstri við bifreiðina KL 339 á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Borgartúns. Bifreið stefnanda var flutt af vettvangi af Króki. Fram kemur í lögregluskýrslunni, að bremsuför bifreiðarinnar hafi verið um 10 metrar. Stefnandi taldi þetta allharðan árekstur. Við áreksturinn kastaðist hann fram og fann strax fyrir miklum óþægindum í hálshrygg og í herðum og niður með herðablöðum. Stefnandi kveður sér hafa versnað í mjóbaki og að hann hafi jafnframt fundið fyrir verkjum í hægri fæti. Sú bifreið sem ók á stefnanda var í eigu Vífilfells hf. og var ábyrgðartryggð hjá Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Hinn 17. júlí 2001 leitaði stefnandi fyrst læknis og kvartaði þá undan verkjum í brjósthrygg og milli herðablaða.
Hinn 23. júlí hóf stefnandi að vinna aftur.
Hinn 18. nóvember 2001 leitaði hann aftur læknis og fór þá í rannsóknir vegna þeirra áverka sem hann kvartaði undan.
Í matsgerð 7. mars 2003 er Björn Daníelsson lögfræðingur og Júlíus Valsson læknir gerðu, er komist að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski stefnanda eftir slysið 15. júlí 2001 sé 7 stig og varanleg örorka 5%. Stöðugleikapunktur er talin vera 15. október 2001, tímabundið atvinnutjón 100% frá slysdegi til 22. júlí 2001 og 50% frá 1. ágúst 2001 til 15. október sama ár. Þá var talið að þjáningabætur án rúmlegu væru frá slysdegi til 15. október 2001. Matsmenn töldu að einkenni slyssins mætti rekja til tognunaráverka í baki og mátu miska og örorku með tilliti til þess. Við mat á varanlegri örorku tóku matsmenn ekki tillit til andlegra afleiðinga líkamstjónsins.
Hinn 26. mars 2003 fór fram fyrirvaralaust lokauppgjör skaðabóta til stefnanda Lögmaður stefnanda undirritaði skaðabótakvittun vegna fullnaðaruppgjörs við móttöku þess.
Hinn 6. september 2005 lagði lögmaður stefnanda fram matsbeiðni til Héraðsdóms Reykjavíkur. Stefnandi gerði þá kröfu að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta að nýju þá áverka sem stefnandi varð fyrir í ofangreindum slysum. Dómkvaddir matsmenn, Sverrir Bergmann og Viðar Már Matthíasson, skiluðu af sér matsgerð 25. september 2006. Niðurstaða þeirra var sú að varanleg örorka stefnanda eftir slysið hafi verið 10% og varanlegur miski 7 stig. Í niðurstöðukafla matsgerðarinnar er sérstaklega tekið fram að um breytingar á heilsu stefnanda verði að líta til þess að í fyrri matsgerð hafi ekki verið tekið tillit til andlegra afleiðinga líkamstjónsins og vegna þessa verði breytingar á niðurstöðum matsgerðarinnar frá 7. mars 2003.
Hinn 4. nóvember 2007 óskaði stefnandi eftir dómkvaðningu yfirmatsmanna og voru Páll Sigurðsson, Kristinn Tómasson og Grétar Guðmundsson dómkvaddir. Niðurstaða þeirra í yfirmatsgerð dagsettri 22. nóvember 2008, var sú að batahvörf hefðu verið 15. janúar 2002, varanlegur miski vegna slyssins var metinn 10 stig og varanleg örorka 15%.
Með dómi Hæstaréttar Íslands frá 26. mars 2007 var kröfu stefnanda vegna slyssins 15. júlí 2001 vísað frá dómi. Mál þetta vegna sama slyss var síðan höfðað með birtingu stefnu í október 2007. Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi styður dómkröfur sínar við ákvæði bótakafla umferðarlaga. Að hann hafi orðið fyrir fébótaskyldu tjóni í umferðarslysinu, þannig að ákvæði bótakafla umferðarlaga eigi við, en ekki sé deilt um skaðabótaskyldu. Stefnandi byggir hins vegar á því í þessu máli, að þær bótaákvarðanir sem byggðar séu á matsgerð frá 7. mars 2003 fái ekki staðist, samkvæmt þeim afleiðingum slysanna sem síðar komu fram.
Kröfur sínar byggir stefnandi á því að hann hafi ekki, er hann tók við bótum vegna slyssins, skrifað undir að um endanlegar greiðslur væri að ræða. Einnig byggir stefnandi á neðangreindum málsástæðum:
Í fyrsta lagi byggir stefnandi dómkröfur sínar á, að þegar heilsa (heilbrigðisástand/miski/varanleg örorka) hans hafi verið metin í mars 2003, hafi ekki verið fyrirséð, að slíkar breytingar yrðu á heilsu stefnanda, miska og varanlegri örorku, sem raun varð á. Væntingar voru sannanlega um að vinnugeta stefnanda væri töluverð, þrátt fyrir áverkana. Því til grundvallar að vinnugeta stefnanda sé engin orðin, vísar hann til læknisvottorða Marínós P. Hafstein, Ásgeirs Karlssonar og Boga Jónssonar. Byggir stefnandi á, að geta hans til að afla vinnutekna sé um leið hans líkamlega og andlega heilsa, ástand líkama og sálar. Þegar byggt sé á hugtakinu „heilsu“ sé ekki hægt að aðgreina miska og varanlega örorku. Þessu til grundvallar bendir stefnandi á, að 11. gr. skaðabótalaga nefni breytingar á heilsu þannig, að miski eða varanleg örorka sé verulega meiri en áður var talið. Byggir stefnandi á, að svo sé einmitt í hans tilviki, eins og fram komi meðal annars í taugasálfræðilegu mati Smára Pálssonar frá 27. ágúst 2005. Miðað við niðurstöðu síðastgreindra vottorða sé um að ræða verulega hærra stig miska og örorku, en áður hafi verið miðað við. Þar með sé einnig fullnægt skilyrðum. 11. gr. laga nr. 50/1993 fyrir endurupptöku málsins.
Í öðru lagi reisir stefnandi kröfu sína og á, að lög nr. 50/1993 byggist á, að mat á miska og varanlegri örorku gangi greiðlega fyrir sig og gert sé ráð fyrir, að tjónþolar leiti til matslækna til mats á m.a. varanlegri örorku, sem fyrst eftir að áverkar þeirra komast í jafnvægi og ekki er að vænta frekari bata. Tímabundinni örorku ljúki, þegar ekki er að vænta frekari bata við svokallaðan stöðugleikapunkt. Á þeim tímapunkti ríði á, að niðurstaða fáist fljótlega um hver varanleg örorka sé, þar sem tjónþolar séu, frá þessum tímapunkti, án allra bóta og eigi oft erfitt uppdráttar, þar til endanleg niðurstaða fáist. Tryggingafélög greiði ekki tímabundnar örorkubætur lengur en eitt ár nema í sérstökum tilvikum. Tjónþolar verði og að treysta því, að möt matslækna séu traust og rétt grundvölluð. Er tjónþolar hafi fengið mat á örorku vegna slysa, sé ekki annað ráð til en byggja á viðkomandi mati, því mjög kostnaðarsamt og tímafrekt sé að biðja um viðbótarmat eða dómkvaðningu sérfróðra matsmanna, enda þótt einhver vafi sé í huga viðkomandi tjónþola gagnvart fyrirliggjandi mati. Einnig verði það til þess, að tjónþoli verði án bóta í langan tíma. Við þessa stöðu tjónþola bætist síðan, að þeir eru oftar en ekki í erfiðri samningsstöðu við viðkomandi tryggingafélag. Allt þetta geri að verkum að líta verði með sanngirni á málið, þar sem í ljós hafi komið, að miski og varanleg örorka sé verulega meiri en fram komi í því mati, sem fyrr var byggt á.
Í þriðja lagi byggir stefnandi dómkröfur sínar einnig á reglum kröfuréttar um rangar og brostnar forsendur. Byggir stefnandi á að 11. gr. skaðabótalaga hafi komið til viðbótar reglum um rangar og brostnar forsendur, sem enn séu því í gildi. Byggir stefnandi á, að þau læknisfræðilegu gögn sem nú hafi verið lögð fram staðfesti, að allar forsendur fyrirliggjandi matsgerða hafi brostið eða hafi frá upphafi verið rangar. Verði ekki á það fallist, að um sé að ræða forsendubrest að þessu leyti, sem ekki verði byggt á, þá felist í því þrenging á þeim reglum, sem áður giltu í þessum efnum á grundvelli meginreglna kröfuréttarins um rangar og brostnar forsendur og sanngirnisrök varðandi endurupptöku skaðabótamála vegna líkamstjóna. Þar með brjóti 11. gr. skaðabótalaga gegn 72. grein stjórnarskrár, en Hæstiréttur Íslands hafi í þremur dómsmálum 1998, bls. 1976, bls. 2002 og bls. 2233, viðurkennt að vinnugeta manna sé eignarréttindi, sem varin séu af 72. gr. stjórnarskrár.
Í fjórða lagi byggir stefnandi einnig á að fyrirliggjandi mat dómkvaddra matsmanna sé varla rétt hvað varðar varanlegu örorku hans, þar sem vinnugeta hans sé nánast engin, eins og öll hegðan hans og skattframtöl sýna, sem og tilraunir til skólagöngu. Byggir stefnandi á, að slíkur heilaskaði sem hann hafi hlotið, samkvæmt skýrslu Smára Pálssonar, hljóti að vega þyngra enn niðurstaða matsmanna bendi til, að minnsta kosti hvað varðar mat á varanlegri örorku. Byggir stefnandi einnig á, að hann hafi verið metinn með meira en 75% örorku samkvæmt staðli Tryggingastofnunar ríkisins, einmitt vegna þeirra áverka sem hann hafi fengið í tveimur síðustu slysunum. Útlokað sé að svo breytt bil sé milli þessara bótaákvarðana, enda þótt grundvöllur þeirra sé ekki sá hinn sami. Stefnandi bendir einnig á að í fyrirliggjandi mati dómkvaddra matsmanns sé komist að þeirri niðurstöðu að áverkar hans vegna síðustu tveggja slysa, nái ekki 75% örorku. Nú hafi annað komið í ljós samkvæmt mati lækna Tryggingastofnunar ríkisins, sem bendi ótvírætt til þess að fyrirliggjandi mat dómkvaddra matsmanna sé of varfærið hvað varðar að minnsta kosti varanlega örorku stefnanda.
Um lagarök vísar stefnandi til 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 1. mgr. 5. gr. sömu laga og þau rýmkandi lögskýringarsjónarmið, að skýra verði ákvæði 11. gr. tjónþola í vil sé vafi um lögskýringarleiðir. Þá vísar stefnandi til almennra reglna fjármunaréttar um endurupptöku mála og til reglna um brostnar forsendur, sem og til meginreglna 36. greinar samningalaga og þeirra neytendasjónarmiða sem sú grein byggist á. Stefnandi vísar og til þeirrar grundvallarreglu skaðabótaréttar að byggja eigi á sanngirnissjónarmiðum og að þegar fyrir hendi eru ábyrgðartryggingar, til að dreifa áhættu, eigi enn frekar að líta til slíkra sanngirnissjónarmiða. Stefnandi skírskotar einnig til bótaákvæða umferðarlaga dómkröfum sínum til stuðnings. Þá vísar stefnandi til 72. gr. stjórnarskrár og eignarverndarákvæða þeirra sáttmála sem Ísland hefur undirgengist. Bótafjárhæðina byggir stefnandi á 1. gr. skaðabótalaga, 4. gr. laganna og 1. mgr. 5. gr.
Málsástæður og lagarök stefnda
Krafa stefndu um sýknu af dómkröfum stefnanda er í fyrsta lagi reist á því að fram hafi farið fyrirvaralaust fullnaðaruppgjör milli stefnanda og stefnda, Sjóvár-Almennra tryggingar hf., hinn 26. mars 2003. Lögmaður stefnanda undirritaði, samkvæmt umboði, greiðslukvittun þess efnis að greiðsla stefnda væri fullnaðar- og lokagreiðsla vegna þess slyss sem stefnandi varð fyrir 15. júlí 2001. Í uppgjörinu er sérstaklega áréttað að með greiðslunni sé lokið öllum kröfum á hendur félaginu vegna slyssins, nema endurupptaka sé heimil samkvæmt skaðabótalögum.
Í öðru lagi byggja stefndu á því að skilyrði 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu ekki uppfyllt til endurupptöku. Ákvæði 2. málsl. 11. gr. skaðabótalaga hljóðar svo:
„Skilyrði endurupptöku er að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu tjónþola þannig að ætla megi að miskastig eða örorkustig sé verulega hærra en áður var talið.“ Stefndu telja að ekki hafi orðið ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu stefnanda frá því að uppgjörið fór fram. Því til stuðnings vísa stefndu sérstaklega til rökstuðnings dómkvaddra matsmanna og dómkvaddra yfirmatsmanna, en þar kemur beinlínis fram að heilsufar stefnanda hafi ekki versnað heldur verði breytt niðurstaða varðandi varanlega örorku og varanlegan miska rakin til annarra þátta en breytinga á heilsu. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 25. september 2006 segir orðrétt: ,,Þegar tekið er tillit til þess að [stefnandi] hefur lítið sem ekkert unnið eftir slysið í júlí 2001 og til þess að matsmenn telja að hann eigi að geta sinnt a.m.k. hálfu starfi eða jafnvel meira, telja matsmenn að hæfilegt sé að meta varanlega örorku hans eftir þetta síðasta slys sem 10%. Telja matsmenn að skýringin á því að niðurstaða þeirra er hærri en matsmannanna Björns Daníelssonar og Júlíusar Valssonar, sé sú að þeir hafi ekki tekið tillit til andlegra afleiðinga líkamstjónsins í mati sínu, svo sem hér er gert.” Í yfirmatsgerð, dags. 22. nóvember 2008 segir: „Heilsufar matsbeiðanda hefur versnað frá því sem fram kemur í matinu í mars 2000, sem nemur því er slysið 15. júlí 2001 bætir við. Matsmenn telja þó rétt að undirstrika að í samræmi við lýsingar hér í matsgerð þessari virðist heilsutjón matsþola eftir slysið 1996 vera víðtækara en fram kom í matsgerðinni. Þá gildir það sama að heilsutjón matsþola er samkvæmt framlögðum gögnum í þessari matsgerð gert verra en það sem fram kemur í matsgerð frá mars 2003. Þetta bendir þó ekki til þess að heilsufar matsbeiðanda hafi í sjálfu sér versnað, sem nemur öðru en því að ganga lengi með varanleg erfið mein. Matsmenn telja skýringu á muninum frekar liggja í því að matsbeiðandi er í dag mun betur rannsakaður og hafa því matsmenn betri möguleika á að átta sig á heilsutjóni hans nú en þá.“
Samkvæmt þessu er augljóst að ekki hafa orðið neinar ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu stefnanda. Hækkun varanlegrar örorku og varanlegs miska leiðir af ólíkum aðferðum sem beitt er í umræddum matsgerðum en ekki af breytingum á heilsufari stefnanda.
Þá hafna stefndu því alfarið að ætla megi að miskastig eða örorkustig stefnanda sé verulega hærra en talið var árið 2003.
Samkvæmt 11. gr. skaðabótalaga þurfa bæði ofangreind skilyrði að vera uppfyllt til að skylt sé að endurupptaka málið. Stefnandi hefur ekki á nokkurn hátt sannað að verulegar breytingar hafi orðið á heilsu hans af völdum slyssins sem ekki hefði verið unnt að sjá fyrir er hann samdi um fullnaðarbætur. Þar sem hvorugt skilyrðið er uppfyllt í máli stefnanda verður þegar af þeirri ástæðu að sýkna stefndu.
Stefndu mótmæla málsástæðu stefnanda um að skýra skuli 11. gr. skaðabótalaga á annan veg en eftir orðanna hljóðan. Þá er mótmælt málsástæðu stefnanda um að reglur kröfuréttar um brostnar og rangar forsendur eigi við eða geti vikið til hliðar skýru ákvæði 11. gr. skaðabótalaga sem setur ströng skilyrði fyrir endurupptöku fyrirvaralauss bótauppgjörs. Stefndu mótmæla því jafnframt að 11. gr. skaðabótalaga brjóti gegn ákvæði 72. gr. stjórnarskrár um vernd eignarréttarins.
Stefndu mótmæla umfjöllun um aðra málsástæðu stefnanda sem haldslausum hugleiðingum sem beri að virða að vettugi. Umfjöllun stefnanda er almenns eðlis og erfitt er að festa hendur á hvað í henni getur fallið undir að teljast eiginleg málsástæða. Framangreindur annar liður í stefnu felur í sér almenna umfjöllun um þær aðstæður sem tjónþolar kunna að vera í við öflun örorkumata vegna slysa og þá erfiðleika sem stefnandi telur vera á því að afla viðbótarmats eða mats dómkvaddra manna. Hvergi í þessari umfjöllun er hins vegar vísað til uppgjörs eða til þess hvaða réttarreglur veiti stefnanda umkrafin réttindi og eru málsástæðurnar ekki svo skýrar að ljóst sé undir hvaða lagaákvæði unnt sé að heimfæra þær. Fæst því hvorki séð að í framangreindri umfjöllun stefnanda felist málsástæður sem uppfylla kröfur e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 né að unnt sé að heimfæra umfjöllunina í öðrum lið í stefnunni undir lagaákvæði eða aðrar réttarreglur.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Til stuðnings varakröfunni er vísað til þeirra málsástæðna sem fram hafa verið færðar hér að ofan til stuðnings varakröfu eftir því sem við á.
Tölulegum grundvelli bótakröfu stefnanda er mótmælt, þar eð ekki verður séð að hann sé að fullu í samræmi við ákvæði skaðabótalaga, m.a. að því er tekur til vísitöluútreiknings.
Þá er í kröfu stefnanda tekið mið af 15% varanlegri örorku og 10 stiga varanlegs miska að frádreginni þeirri fjárhæð sem hann fékk greidda þann 26. mars 2003. Stefndu mótmæla þessari aðferð sem rangri og byggja á því að stefnandi eigi aðeins rétt á bótum vegna viðbótarörorkunnar, þ.e. 10% varanlegrar örorku og viðbótarmiskans, þ.e. 3 stiga varanlegs miska, og beri að miða bótauppgjör við það.
Skorað er á stefnanda að upplýsa um aðrar greiðslur frá þriðja manni er eiga að koma til frádráttar skaðabótum með vísan til 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999.
Stefndu mótmæla vöxtum eldri en fjögurra ára á stefnubirtingardegi sem fyrndum. Þá mótmæla stefndu því jafnframt að vextir skuli leggjast á bætur stefnanda fyrir varanlega örorku við fyrra tímamark en stöðugleikapunkt, sbr. 1. mgr. 16. gr. skaðabótalaga. Loks mótmæla stefndu því að dráttarvextir leggist við höfuðstól bótagreiðslna við fyrra tímamark en 18. janúar 2009, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en þá er mánuður liðinn frá því stefnandi lagði fram breyttar dómkröfur.
Um lagarök vísa stefndu til 1. mgr. 19. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála í héraði vegna frávísunarkröfu, 1.7., 11. og 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og 9. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá vísa stefndu til 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 vegna fyrningar kröfunnar og til 4. mgr. 4. gr. og 4. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, vegna frádráttar frá dæmdum skaðabótum. Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Forsendur og niðurstaða
Dómsmál þetta er vegna uppgjörs á slysi er stefnandi lenti í 15. júlí 2001. Stefndu hafa viðurkennt bótaskyldu og greiddu stefnanda, hinn 26. mars 2003, samtals 1.828.117 kr. í bætur vegna slyssins. Fyrirvari var ekki gerður við móttöku greiðslunnar. Til grundvallar lá matsgerð þeirra, Björns Daníelssonar lögfræðings og Júlíusar Valssonar læknis, en þeir mátu miskann til 7 stiga og varanlega örorku 5%. Ágreiningslaust er í málinu að í nefndri matsgerð var ekki tekið tillit til andlegra veikinda stefnanda.
Nú liggur fyrir yfirmatsgerð þeirra Grétars Guðmundssonar taugalæknis, Kristins Tómassonar geðlæknis og Páls Sigurðssonar prófessors. Niðurstaða hennar er sú að varanlegur miski, eftir slysið 15. júlí 2001, sé 10 stig og varanleg örorka 15%. Þá liggur það fyrir að í matsgerðinni er tekið tillit til andlegra veikinda stefnanda sem rekja megi til slyssins og í yfirmatsgerðinni segir að slysið í júlí 2001 virðist vera það slys sem hafi farið hvað verst með geðheilsu stefnanda. Spurningu um hvort heilsufar matsbeiðanda hefði versnað eftir að mat fór fram í mars 2000 og eftir mat í mars 2003 svöruðu yfirmatsmenn svo: „Heilsufar matsbeiðanda hefur versnað frá því sem fram kemur í matinu í mars 2000, sem nemur því er slysið 15. júlí 2001 bætir við. Matsmenn telja þó rétt að undirstrika að í samræmi við lýsingar hér í matsgerð þessari virðist heilsutjón matsþola eftir slysið 1996 vera víðtækara en fram kom í matsgerðinni. Þá gildir það sama að heilsutjón matsþola er samkvæmt framlögðum gögnum í þessari matsgerð gert verra en það sem fram kemur í matsgerð frá mars 2003. Þetta bendir þó ekki til þess að heilsufar matsbeiðanda hafi í sjálfu sér versnað, sem nemur öðru en því að ganga lengi með varanleg erfið mein. Matsmenn telja skýringu á muninum frekar liggja í því að matsbeiðandi er í dag mun betur rannsakaður og hafa því matsmenn betri möguleika á að átta sig á heilsutjóni hans nú en þá.“
Stefnandi krefst í málinu endurupptöku ákvörðunar um bætur fyrir varanlegan miska og örorku, sbr. 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Skilyrði endurupptökunnar eru þau að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda þannig að ætla megi að miskastigið og örorkustigið sé verulega hærra en áður var talið. Stefnandi ber sönnunarbyrðina í málinu.
Eins og framan greinir voru bætur til stefnanda gerðar upp án þess að mat lægi fyrir um andlegar afleiðingar slyssins. Þær komu ekki í ljós fyrr en síðar. Ekki er véfengt það sem kemur fram í niðurstöðu í yfirmatsgerðinni, að heilsufar stefnanda hafi í sjálfu sér ekkert versnað sem nemur öðru en því að ganga lengi með varanleg erfið mein og munurinn liggi í því að stefnandi sé betur rannsakaður nú en áður. Hins vegar skortir, eins og að framan greinir, á mat á þessum veikindum í fyrstu matsgerðinni en ekki hefur verið vefengt að þær séu afleiðingar slyssins. Þar sem ákvæði 11. gr. varðar endurákvörðun á bótafjárhæð, þá verða sömu forsendur að liggja til grundvallar báðum matsgerðunum. Því lítur dómurinn svo á uppfyllt sé það skilyrði 11. gr. skaðabótalaga að ófyrirsjáanlegar breytingar hafi orðið á heilsu stefnanda.
Hitt skilyrði ákvæðisins er að miska eða örorkustigið sé verulega hærra en áður var talið. Í bótauppgjörinu frá mars 2003 var miðað við 7% varanlegan miska og 5% varanlega örorku. Andlegir erfiðleikar stefnanda eru metnir til 3% varanlegs miska og 10% varanlegrar örorku. Að mati dómsins fullnægir þessi hækkun því skilyrði 11. gr. skaðabótalaga að um verulega hækkun sé að ræða.
Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að stefndu beri að greiða stefnanda dómkröfuna, sem ekki hefur sætt tölulegum mótmælum af hálfu stefndu. Ekkert liggur fyrir um að stefnandi hafi fengið greiðslur frá þriðja aðila sem koma eigi til frádráttar dómkröfunni. Vextir eldri en fjögurra ára eru fyrndir og er hér miðað við dagsetningu stefnu þar sem ekki liggur fyrir hvenær hún hafi verið birt. Með vísan til 9. gr. laga nr. 38/2001 skulu dráttarvexti reiknast frá 18. janúar 2009, en ný kröfugerð byggð á yfirmatinu var lögð fram 18. desember 2008.
Rétt þykir að málskostnaður milli aðili falli niður. Stefnandi hefur gjafsókn í málinu. Í ljósi þess að stefnandi rekur annað dómsmál vegna umferðarslysa þar sem sömu læknisfræðilegu gögn eru til staðar þykir rétt að greiddur sé helmingur útlagðs kostnaðar, þ.e. 1.057.200 kr., úr ríkissjóði og 800.000 kr. í málflutningsþóknun lögmanns stefnanda og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan ásamt læknunum Stefáni Carlssyni og Sveinbirni Brandssyni.
DÓMSORÐ
Stefndu, Vífilfell hf. og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefnanda, Sigurði Skjaldberg, 2.942.027 kr. með 4,5% ársvöxtum af 227.790 kr. frá 28. júní 2003 til 22. nóvember 2008 en af 2.942.027 kr. frá þeim degi til 18. janúar 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður milli aðila fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, Steingríms Þormóðssonar hrl., 800.000 krónur.