Hæstiréttur íslands
Mál nr. 378/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarvistun
|
|
Fimmtudaginn 19. júlí 2007. |
|
Nr. 378/2007. |
X(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl.) gegn Z (Helgi Birgisson hrl.) |
Kærumál. Nauðungarvistun
Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna kröfu X, um að fella niður nauðungarvistun á sjúkrahúsi, sem ákveðin var af dómsmálaráðuneytinu 2. júlí 2007.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júlí 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. júlí 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að fella niður nauðungarvistun á sjúkrahúsi sem ákveðin var af dómsmálaráðuneytinu 2. júlí 2007. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann þess að talsmanni sínum verði ákvörðuð þóknun vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun skipaðra talsmanna sóknaraðila og varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti verður ákveðin eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar héraðsdómslögmanns, og skipaðs talsmanns varnaraðila, Helga Birgissonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 10. júlí 2007.
Með beiðni dagsettri 5. júlí sl. hefur X, kt. [...], krafist þess að fellt verði úr gildi samþykki dómsmálaráðuneytisins frá 2. júlí sl um nauðungarvistun hans á deild 32A á Landspítala. Af hálfu varnaraðila, Z, móður sóknaraðila, var kröfunni mótmælt og þess krafist nauðungarvistunin héldi gildi sínu.
Með vísan til ákvæða 1. mgr. 31. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 var sóknaraðila skipaður talsmaður og var Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hdl. skipaður til starfans að ósk sóknaraðila. Varnaraðila var jafnframt skipaður verjandi, Helgi Birgisson hrl., með vísan til ákvæða 3. mgr. 10. gr., sbr. 4. mgr. 31. gr., lögræðislaga.
Með bréfi dagsettu 30. júní sl. óskaði varnaraðili eftir því við dómsmálaráðuneytið að sóknaraðili yrði nauðungarvistaður með vísan til ákvæða 19., ssbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga. Dómsmálaráðuneytið samþykkti nauðungarvistun sóknaraðila í bréfi dagsettu 2. júlí sl.
Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að ekki séu fyrir hendi skilyrði 3. mgr. 19. gr. lögræðislaga til nauðungarvistunar hans. Sóknaraðili gaf skýrslu hér fyrir dóminum í dag og kannaðist við að vera með geðhvarfasjúkdóm en kvaðst þó vera alheilbrigður nú. Aðspurður sagði hann að sér væri það hulin ráðgáta af hverju skyldmenni hans teldu nauðsynlegt að leggja hann inn á geðdeild. Kvaðst sóknaraðili nú taka þau geðlyf sem honum hefði verið ávísað áður en til innlagnarinnar kom.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að skilyrði nauðungarvistunar hafi verið og séu enn til staðar og er vísað til framlagðs læknisvottorðs Samúels J. Samúelssonar læknis og vitnisburðar Kjartans J. Kjartanssonar geðlæknis hér fyrir dóminum fyrr í dag. Kjartan kvað sóknaraðila hafa verið með alvarleg geðrofseinkenni við innlögn á geðdeildina og hefði hann verið mjög veikur. Ástandið hefði farið batnandi en þó einkum frá síðustu helgi og þakkaði hann það sterkum geðlyfjum sem sóknaraðila hefðu verið gefin frá innlögn. Taldi læknirinn að enn væri óhjákvæmilegt að nauðungarvista sóknaraðila enda þyrfti ástand hans að verða stöðugra áður en útskrift kæmi til greina. Aðspurður sagði læknirinn sjúkdómsinnsæi sóknaraðila enn vera skert.
Niðurstaða.
Í málinu liggur frammi læknisvottorð Samúels J. Samúelssonar, vaktlæknis Héraðsvaktar heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 30. júní sl. Í niðurstöðukafla vottorðsins kemur fram það mat læknisins að sóknaraðili sé haldinn alvarlegum geðsjúkdómi, manísku ástandi, sem krefjist tafarlausrar meðferðar á geðdeild. Ekki hafi tekist að fá sóknaraðila til að leita sér lækninga af sjálfsdáðum og því sé óumflýjanlegt að nauðungarvista hann svo unnt sé að veita honum nauðsynlega hjálp.
Kjartan J. Kjartansson geðlæknir staðfesti framangreinda niðurstöðu í framlögðu læknisvottorði Samúels J. Samúelssonar læknis um að sóknaraðili væri haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og samræmdust einkenni sóknaraðila því að um geðhvarfasýki væri að ræða. Ástand sóknaraðila hefði verið alvarlegt við innlögn og væri það óbreytt. Ástandið væri þó batnandi vegna þess að sóknaraðila hafi verið gefin sterk lyf eftir innlögnina. Kom fram það mat læknisins að nauðungarvistun væri enn nauðsynleg þar sem ástand sóknaraðila sé ekki nægilega stöðugt og þá væri sjúkdómsinnsæi hans enn skert.
Þegar litið er til þess sem að framan er rakið, framagnreinds læknisvottorðs, vættis geðlæknis hér fyrir dóminum og skorts sóknaraðila á innsæi í ástand sitt, er það niðurstaða dómsins að uppfyllt séu skilyrði 2. og 3. mgr. 19. greinar lögræðislaga fyrir nauðungarvistun sóknaraðila. Er kröfu sóknaraðila því hafnað.
Í samræmi við 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila og skipaðs verjanda varnaraðila úr ríkissjóði eins og nánar segir í úrskurðarorði.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Hafnað er kröfu sóknaraðila, X, kt. [...], um niðurfellingu nauðungarvistunar á sjúkrahúsi sem ákveðin var af dómsmálaráðuneyti þann 2. júlí 2007.
Þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hdl og skipaðs verjanda varnaraðila, Helga Birgissonar hrl., 62.250 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.