Hæstiréttur íslands

Mál nr. 321/2008


Lykilorð

  • Ærumeiðingar
  • Meiðyrði
  • Ómerking ummæla
  • Tjáningarfrelsi
  • Stjórnarskrá


Fimmtudaginn 29

 

Fimmtudaginn 29. janúar 2009.

Nr. 321/2008.

Gaukur Úlfarsson

(Sigurmar K. Albertsson hrl.)

gegn

Ómari R. Valdimarssyni

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Ærumeiðingar. Meiðyrði. Ómerking ummæla. Tjáningarfrelsi. Stjórnarskrá.

Ó höfðaði mál á hendur G vegna ummæla sem birtust á vefsíðu hans. Krafðist Ó þess að ummælin yrðu ómerkt og að G yrði gert að fjarlægja þau af vefsvæði sínu. Þá krafðist Ó miskabóta og fjárhæðar til að standa straum af birtingu dómsins í dagblöðum og þess að G yrði gert að birta forsendurnar og dómsorðið á vefsvæði sínu. Talið var að skoða mætti skrif G sem lið í almennri umræðu um stjórnmál í aðdraganda alþingiskosninga, en þau birtust í miðli sem opinn var hverjum sem vildi kynna sér þau. Ó hafi tekið þátt í þeirri umræðu á sama vettvangi. Talið var að ummæli G hafi verið ályktanir sem hann hafi talið sig geta reist á orðum Ó og yrði því ekki slegið föstu að þær hafi verið með öllu staðlausar. Það hafi verið á valdi hvers þess, sem kynnti sér greinar þær sem ummælin birtust í, að móta sér sjálfstæða skoðun á því hvort gildisdómar G hafi verið á rökum reistir, en gagnvart þeim sem ekki hafi verið sama sinnis hafi orð hans dæmt sig sjálf. Vegna þessa og að gættum rétti hans samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar voru ummælin ekki ómerkt. Af þeirri niðurstöðu leiddi að aðrar kröfur Ó voru ekki teknar til greina. Var G því sýknaður af kröfum Ó.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. júní 2008 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann sýknu af öðrum kröfum stefnda en um ómerkingu ummæla og verði þá málskostnaður á báðum dómstigum látinn falla niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Í héraðsdómsstefnu greinir stefndi frá því að hann sé framkvæmdastjóri og eigandi Íslenskra almannatengsla ehf. Þar er því lýst að það félag hafi meðal annars sinnt verkefnum við almannatengsl fyrir ýmis erlend fyrirtæki, sem hafi verið með starfsemi hér á landi. Meðal þeirra hafi verið ítalska félagið Impregilo SpA, sem var verktaki við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Jafnframt þessu sé stefndi ræðismaður fyrir El Salvador á Íslandi.

Í málinu liggur fyrir að í aðdraganda alþingiskosninga vorið 2007 fjallaði stefndi um ýmis málefni varðandi þær á vefsvæði á sínum vegum með heitinu www.omarr.blog.is. Þar birtust einnig tilsvör og athugasemdir frá fjölmörgum mönnum við einstakar greinar, sem stefndi lét frá sér fara. Áfrýjandi ber því við að stefndi hafi á þessum vettvangi verið eindreginn og yfirlýstur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og hafi verið vísað til vefsvæðis hans á titilsíðu fréttavefs Morgunblaðsins í lista yfir „vinsæl blogg“. Stefndi hafi í þessum skrifum sínum beint spjótum mjög að flokki Vinstri grænna og einstökum mönnum, sem skipað hafi sæti á framboðslistum hans við kosningarnar.

Meðal efnis af áðurnefndu vefsvæði stefnda, sem lagt hefur verið fram í málinu, er útskrift af grein, sem mun hafa birst 18. apríl 2007 og óumdeilt er að stafi frá honum. Í fyrirsögn þessarar greinar var varpað fram spurningu um hvort Paul Nikolov, sem eftir gögnum málsins átti sæti ofarlega á framboðslista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi norður við alþingiskosningarnar, vildi að nafngreindur maður „rotni í fangelsi“. Sá maður, íslenskur að uppruna, mun á þeim tíma hafa afplánað refsingu í Bandaríkjunum fyrir brot, sem hann hafði verið sakfelldur fyrir á unglingsaldri. Í grein stefnda var vikið að því að birst hafi um tveimur árum áður á tiltekinni vefsíðu skrif um mál þessa manns. Nokkru eftir það hafi birst á annarri vefsíðu tilsvar einhvers, sem ekki hafi nafngreint sig, en þar hafi komið fram sterkar skoðanir um þetta mál og sæi höfundur þeirra „ekki kjánaleg mistök óharðnaðs unglings sem annað en barnaníð af verstu gerð.“ Lítið væri að segja við slíkum skrifum ónafngreindra manna, sem níði af nafngreindu fólki skóna, en spurt var hvort sá málflutningur væri „sæmandi upprennandi þingmanni“ ef höfundurinn væri frambjóðandi stjórnmálaflokks í alþingiskosningum. Með nánar tilteknum hætti var í lok greinarinnar gefið til kynna að þessi skrif stöfuðu frá fyrrnefndum Paul Nikolov. Þá liggur einnig fyrir útskrift af annarri grein af vefsvæði stefnda, sem mun hafa birst 22. apríl 2007. Í henni var vikið að því að Paul Nikolov hafi á vefsvæði sínu gert að umtalsefni beint lýðræði og sagst hafa heillast af Íslandi vegna ríkra möguleika á því, enda væri unnt að fletta upp farsímanúmerum þingmanna eða senda þeim tölvupóst og panta viðtal. Benti stefndi á að hann hafi eitt sinn ætlað að hringja í Paul Nikolov af ákveðnu tilefni, en símanúmer hans hafi ekki verið í símaskrá og ekki hafi heldur reynst fært að finna netfang hans. Spurt var í lok greinarinnar hvort þetta væri beint lýðræði að hætti Vinstri grænna.

Í málinu liggur fyrir mynd af síðu úr Fréttablaðinu 24. apríl 2007, þar sem undir fyrirsögninni „Spurning dagsins“ sagði eftirfarandi: „Ómar, er skítt að vera á Kárahnjúkum?“ Í framhaldi af því kom svofellt svar: „Þeir sem gleyma að þvo sér um hendurnar geta lent í djúpum.“ Neðan við þetta var eftirfarandi skýring: „Fjörutíu verkamenn við Kárahnjúka voru óvinnufærir á föstudag út af niðurgangi og uppköstum. Heilbrigðisyfirvöld telja hreinlæti ábótavant. Ómar Valdimarsson er upplýsingafulltrúi Impregilo.“ Stefndi hefur ekki vefengt í málinu að ofangreint svar sé frá sér komið.

Í málatilbúnaði áfrýjanda kemur fram að hann hafi verið stuðningsmaður flokks Vinstri grænna í alþingiskosningunum 2007 og talið sér misboðið af umfjöllun um forystumenn hans á vefsvæði stefnda. Áfrýjandi birti 24. apríl 2007 grein á vefsvæði sínu www.ulfarsson.blog.is með fyrirsögninni „Aðal rasisti bloggheima“. Stefndi telur þessa fyrirsögn geyma meiðyrði í sinn garð og jafnframt þau ummæli í grein áfrýjanda, sem eru auðkennd með skáletri hér að neðan, en hún var í heild svohljóðandi: „Ég hef rætt töluvert um rasisma hér og bent á nokkra frambjóðendur frjálslyndra sem hika ekki við að bera útlendingahatur sitt á borð hér í bloggheimum. Nú hef ég fundið einn til, svæsnari en hinir lagðir saman, talsmann impreglio á Íslandi sem einmitt var í fréttum í gær vegna ömurlegs aðbúnaðar starfsmanna sinna og átti afar smekklaust komment varðandi það mál allt í fréttablaðinu í dag .. en hvaða máli skiptir það, þessir útlendingar lesa hvorteðer ekki íslensku blöðin. Nú hefur þessi ágæti piltur einsett sér að koma í veg fyrir það að fyrsti nýbúinn verði kjörinn á alþingi íslendinga. Hann ber á hann illa framsettan róg með dassi af samsæriskenningum um að hann hafi gerst sekur um gálgahúmor, ekki ósvipaðan og hann sjálfur gerðist sekur um í fréttablaðinu í dag. Þessi drengur virðist vera sérlega viðkvæmur fyrir húmor, hann stóð fyrir krossför gegn Jóni Gnarr á sínum tíma, þegar honum ofbauð annars afar fínt grín Jóns. Það hlýtur að vera óþolandi að lenda í klónum á svona tepru sem kýs að sjá ekki samfélagsgagnrýnina í einföldu gríni, heldur túlka allt svona bókstaflega til þess að hampa sjálfum sér í fjölmiðlum. Rógburðurinn og samsæriskenningarnar um aðild Pauls að gálgahúmor var ekki nóg fyrir þennan sjálfkjörna siðapostula heldur fann hann líka að því að ekki væri hægt að finna símanúmer Pauls í símaskránni, þar af leiðandi væru lýðræðishugmyndir VG fallnar um sjálfa sig. Ég vogaði mér að biðja hann í kommentakerfi hans um að hætta að drulla svona yfir sjálfan sig trekk í trekk, hann væri orðinn aðhlátursefni hér á vefnum en hinn lýðræðiselskandi Ómar R Valdimarsson kaus að stroka ummæli mín af síðu sinni og meina mér aðgang að kommentakerfi sínu. Hér fer maður fullur af mótsögnum. Ég mæli með því að þið ágæta fólk látið í ykkur heyra á kerfinu hans svo að útlendingahatur hans standi þar ekki óhaggað.“

Stefndi höfðaði mál þetta 14. maí 2007 og krafðist þess að framangreind ummæli áfrýjanda yrðu ómerkt og honum gert að fjarlægja þau af vefsvæði sínu, að áfrýjandi yrði dæmdur til að greiða sér 2.000.000 krónur í miskabætur og 800.000 krónur til að standa straum af birtingu forsendna dóms í málinu og dómsorðs í þremur dagblöðum og að áfrýjandi yrði skyldaður til að birta forsendurnar og dómsorðið á vefsvæði sínu. Auk þessa krafðist stefndi að tiltekin ummæli í annarri grein áfrýjanda, sem birtist á vefsvæði hans 24. apríl 2007, yrðu ómerkt og honum gert að fjarlægja þau. Í hinum áfrýjaða dómi var hafnað kröfum stefnda varðandi þau ummæli og eru því ekki efni til að greina hér frá þeim, enda unir hann við niðurstöður héraðsdóms. Þar var á hinn bóginn fallist á kröfur hans um ómerkingu þeirra ummæla, sem að framan greinir, og var áfrýjanda gert að fjarlægja þau af vefsvæði sínu ásamt því að birta þar forsendur og dómsorð hins áfrýjaða dóms. Áfrýjandi var enn fremur dæmdur til að greiða stefnda 300.000 krónur í miskabætur með nánar tilteknum vöxtum auk málskostnaðar, en hafnað var kröfu stefnda um greiðslu kostnaðar af birtingu forsendna dómsins og dómsorðs í dagblöðum.

II

Grein áfrýjanda, sem málið varðar, var birt í miðli, sem var opinn án endurgjalds sérhverjum þeim, sem kaus að kynna sér hana. Fallast verður á með áfrýjanda að þessi skrif megi skoða sem lið í almennri umræðu um stjórnmál í aðdraganda alþingiskosninganna 2007. Stefndi tók þátt í þeirri umræðu á sama vettvangi, meðal annars með þeim greinum, sem birtust á vefsvæði hans og áður var lýst. Hann hefur ekki andmælt fyrrgreindum staðhæfingum áfrýjanda um þá andstæðu tauma, sem þeir drógu hvor fyrir sitt leyti í þessari umræðu.

Þegar litið er til greinar áfrýjanda í heild og þá einkum þeirra atriða sem hann setti ummælin, sem stefndi krefst að verði ómerkt, í samhengi við er ljóst að áfrýjandi skírskotaði aðallega í þeim efnum annars vegar til áðurgreindra orða, sem höfð voru eftir stefnda í Fréttablaðinu í svari við svokallaðri spurningu dagsins, og hins vegar til skrifa um Paul Nikolov, sem birtust á vefsvæði stefnda 18. og 22. apríl 2007. Í grein áfrýjanda var sýnilega lagt út frá því að verkamennirnir við Kárahnjúka, sem getið var í skýringum Fréttablaðsins með spurningunni til stefnda, hafi verið útlendingar. Því hefur ekki verið borið við í málinu að sú tilgáta áfrýjanda hafi ekki verið á rökum reist, þótt ekki hafi verið vikið að þjóðerni þessara verkamanna í umfjöllun blaðsins eða svari stefnda. Þá var því haldið fram í grein áfrýjanda að stefndi hafi einsett sér að koma í veg fyrir að fyrsti svokallaði nýbúinn næði kjöri til Alþingis. Af samhenginu er ljóst að áfrýjandi hafi þar átt við Paul Nikolov. Í áðurnefndum greinum stefnda, þar sem deilt var af nokkrum þunga á þann mann, var ekki rætt um erlendan uppruna hans, sem nafn hans gefur þó til kynna. Því hefur á hinn bóginn ekki verið andmælt, sem haldið er fram í málatilbúnaði áfrýjanda og að nokkru var vikið að í niðurlagi greinar hans frá 24. apríl 2007, að stefndi hafi á vefsvæði sínu áskilið sér rétt til að fjarlægja af því athugasemdir eða tilsvör annarra við skrifum sínum og hann hafi að auki gert það í raun. Í gögnum málsins er útskrift af slíkum tilsvörum, sem munu hafa birst í 22 liðum í framhaldi af grein stefnda frá 18. apríl 2007, og var þar lítið sem ekkert lýst andstöðu við efni hennar. Meðal þessara tilsvara virðist hafa verið látin standa óáreitt athugasemd frá nafngreindum manni, sem lýsti þeirri skoðun að „það sannast sem sagt er, það á hvorki að leyfa útlendingum né glæpamönnum að bjóða sig fram til Alþingis“.

Í aðdraganda alþingiskosninganna 2007 voru málefni útlendinga, sem búsettir voru eða störfuðu hér á landi, meðal þeirra samfélagsmála, sem til umræðu voru. Að frátöldu orðalagi í fyrirsögn greinar áfrýjanda sneru ummæli hans, sem krafist er í málinu að ómerkt verði, beinlínis að því að stefndi hafi gerst ber að útlendingahatri. Í þeim efnum vísaði áfrýjandi sem áður segir til ummæla, sem höfð voru eftir stefnda í Fréttablaðinu 24. apríl 2007, og umfjöllunar stefnda í tveimur greinum á vefsvæði sínu um frambjóðanda við alþingiskosningarnar, sem mun vera af erlendu bergi brotinn. Líta verður svo á að þetta hafi verið ályktanir, sem áfrýjandi taldi sig geta reist á orðum stefnda sjálfs, og verður ekki slegið föstu að þær hafi verið með öllu staðlausar. Eins og áfrýjandi setti þessar ályktanir fram var á valdi hvers þess, sem kynnti sér grein hans, að móta sér á þeim grunni sjálfstæða skoðun á því hvort gildisdómar hans væru á rökum reistir, en gagnvart þeim, sem ekki voru sama sinnis, dæmdu orð áfrýjanda sig sjálf. Þótt þessi ummæli áfrýjanda hafi verið hvöss verða þau af þessum sökum og að gættum rétti hans samkvæmt 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar ekki ómerkt. Í fyrirsögn greinar áfrýjanda bar hann stefnda sem fyrr segir á brýn að vera „aðal rasisti bloggheima“. Eins og málið liggur fyrir verður ekki séð að tökuorðið „rasisti“ geti talist hafa einhlíta merkingu á íslensku, en úr því að áfrýjandi valdi þetta orð í fyrirsögn greinar sinnar verður að ætla að hann hafi með réttu eða röngu talið það skírskota til þeirrar afstöðu til útlendinga, sem meginefni greinarinnar var helgað. Að því virtu eru ekki heldur efni til að ómerkja tilvitnuð orð í fyrirsögn greinarinnar. Af öllu framansögðu leiðir að aðrar kröfur stefnda verða ekki teknar til greina.

Samkvæmt þessu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Gaukur Úlfarsson, er sýkn af kröfum stefnda, Ómars R. Valdimarssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2008.

Mál þetta, sem dómtekið var 24. janúar sl. er höfðað 14. maí 2007.

                Stefnandi er Ómar R. Valdimarsson, Barmahlíð 54, Reykjavík.

                Stefndi er Gaukur Úlfarsson, Fálkagötu 13, Reykjavík.

Dómkröfur

                Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í stafliðum A til C, sem stefndi er höfundur að og birti á vefsvæðinu www.ulfarsson.blog.is, þriðjudaginn 24. apríl 2007, klukkan 13:59, verði dæmd dauð og ómerk, og stefnda verði gert skylt með dómi að fjarlægja ummælin af vefsvæðinu:

1.             A.            „Aðal Rasisti Bloggheima“

B.            „Nú hef ég fundið einn til, svæsnari en hinir lagðir saman, talsmann Impreglio (sic) á Íslandi ...“

C.            „Ég mæli því með því að þið ágæta fólk látið í ykkur heyra á kerfinu hans svo að útlendingahatur hans standi þar ekki óhaggað."

2.             Þess er krafist að eftirfarandi ummæli í staflið A, sem stefndi er höfundur að og birti á vefsvæðinu www.ulfarsson.blog.is, þriðjudaginn 24. apríl 2007, klukkan 22:20, verði dæmd dauð og ómerk, og stefnda verði gert skylt með dómi að fjarlægja ummælin af vefsvæðinu:

A.            „Sem betur fer skapaði ég mér vinnu þar sem ég þarf ekki að svara fyrir alþjóðlegt glæpagengi í fjölmiðlum.“

3.             Gerð er krafa um að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda krónur 2.000.000 króna í miskabætur og beri dómkröfurnar vexti frá 24. apríl 2007 til 22. júní 2007, samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu en dráttarvexti samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

4.             Einnig er gerð krafa þess efnis að stefnda verði gert skylt að birta forsendur og dómsorð á vefsvæðinu www.ulfarsson.blog.is þegar dómur gengur í málinu, sbr. 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt.

5.             Þá er þess einnig krafist að stefndi verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti, auk virðisaukaskatts.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur stefnanda verði  stórlega lækkaðar.

                Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að mati dómsins.

Málavextir

                Stefnandi lýsir málsatvikum með þeim hætti að hann hafi birt umfjöllun á vefsvæði sínu, www.omarr.blog.is, 18. apríl 2007 undir yfirskriftinni „Vill Paul Nikolov að Aron Pálmi Ágústsson rotni í fangelsi?“ Þar var fjallað um afstöðu eins frambjóðanda stjórnmálaflokks, sem bauð fram til Alþingis 2007, til máls Arons Pálma Ágústssonar, sem afplánar dóm í Bandaríkjunum fyrir kynferðisbrot. Þann 22. apríl birti stefnandi síðan umfjöllun á sama vefsvæði undir yfirskriftinni „Beint lýðræði dagsins“, en þar hafi verið fjallað um hugmyndir þessa sama frambjóðanda um „beint“ lýðræði um leið og lýst hafi verið erfiðleikum stefnanda við að hafa samband við frambjóðandann. Umfjöllun stefnanda um frambjóðandann hafi verið mjög hófsöm í alla staði.

                Stefndi hafi tekið þessa umfjöllun um frambjóðandans óstinnt upp og þann 24. apríl 2007 hafi stefndi birt umfjöllun um stefnanda á vefsvæði sínu, www.ulfarsson.blog.is, undir yfirskriftinni „Aðal Rasisti Bloggheima“. Þar er stefnandi sagður vera svæsnari útlendingahatari en tiltekinn fjöldi útlendingahatara lagður saman. Í niðurlagi umfjöllunarinnar hafi stefndi síðan hvatt fólk til að láta í sér heyra á vefsvæði stefnanda svo að útlendingahatur stefnanda stæði þar ekki óhaggað.

                Síðar þennan sama dag, 24. apríl sl., hafi stefndi höggvið aftur í sama knérunn með ummælum sem birtust sem athugasemd á vefsvæði stefnda þar sem stefndi hafi lýst því yfir að vinna stefnanda fælist í því að svara fyrir alþjóðlegt glæpagengi í fjölmiðlum. Að kvöldi, 24. apríl sl., hafi stefnandi haft samband við stefnda og óskað eftir því að stefndi fjarlægði framangreind ummæli af vefsvæðinu. Að öðrum kosti væri stefnanda nauðugur einn kostur að leita réttar síns. Stefndi hafi ekki séð ástæðu til þess að verða við þessum óskum stefnanda en hafi skrifað í staðinn nýjan pistil á vefsvæði sitt með fyrirsögninni „Ómar R. Valdimarsson Ætlar að kæra mig ©“, þar sem hann hafi hreykt sér af því að vera aðeins búinn að vera í ,,blogglandi“ í rúmar tvær vikur og það væri strax búið að hóta honum málssókn.

                Daginn eftir, 25. apríl sl. klukkan 11:18, hafi stefndi ruðst fram á ritvöllinn á nýjan leik og skrifað pistil á vefsvæði sitt sem bar yfirskriftina „Hvenær Kemur Kæran?“ Þar hafi stefndi lýst því að hann hefði vaknað ofurspenntur þá um morguninn vegna yfirvofandi símtals frá lögfræðingi/lögfræðingum stefnanda. Síðar þennan sama dag, klukkan 14:25, hafi stefndi enn á ný skrifað pistil á vefsvæði sitt undir yfirskriftinni „Ég Bíð Og Bíð ómar ..“, þar sem stefndi hafi lýst yfir vonbrigðum með það hvað málshöfðun stefnanda tæki langan tíma, en stefndi vonaði að stefnandi fyndi smugu þann daginn til að standa við stóru orðin um málshöfðunina. Að kvöldi 25. apríl sl., klukkan 22:00, hafi stefndi síðan birt athugasemd á vefsvæðinu kaninka.net/stefan, þar sem hann sagði „hótanir“ stefnanda um málssókn vera innantómar og gott ef ekki að þær lífguðu bara svolítið upp á daginn.

                Þar sem stefndi hafi  ekki sinnt ítrekuðum áskorunum þess efnis að fjarlægja hin umstefndu ummæli af vefsvæði sínu, né ábendingum frá stjórnendum www.blog.is, sé stefnanda nauðugur einn sá kostur að höfða dómsmál þetta til að ná fram rétti sínum.

Stefndi telur málavöxtum lýst að takmörkuðu leyti í stefnu og sóknarskjölum og telur að mál þetta eigi sér lengri og meiri forsögu en þar komi fram og telur nauðsynlegt að lýsan aðdraganda samskipta aðila máls þessa í nokkru máli.

                Stefnandi hafi, í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 2007, verið mjög afkastamikill í skrifum á vef Morgunblaðsins og hafi haldið þar úti vefsíðu sem nefndist „omarr.blog.is“. Raunar hafi það pláss, sem stefnandi hafði, verið sett undir það sem Morgunblaðið nefndi „vinsæl blogg“ og ætla megi að skrif stefnanda hafi því verið mikið lesin, eins og raunar komi fram í birtum heimsóknum á vefsíðu hans.

Fram komi í skrifum stefnanda að hann sé eindreginn og yfirlýstur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins og beiti sér í skrifum sínum mjög harkalega gegn flokki Vinstri grænna og einstökum forsvarsmönnum þess flokks. Fram komi einnig að stefnandi sé upplýsingafulltrúi verktakans Impregilo sem annist framkvæmdir við virkjun á Kárahnjúkum og megi þar að einhverju leyti rekja andúð hans á flokki Vinstri grænna, en eins og alkunna sé, hafi sá flokkur beitt sér eindregið gegn virkjunum á hálendi Íslands, og þá gegn virkjunum á Kárahnjúkasvæðinu. Einnig komi fram í skrifum stefnanda mjög afturhaldssöm viðhorf m.a. til kvenna og umhverfismála.

Stefndi hafi verið stuðningsmaður flokks Vinstri grænna í alþingiskosningum vorið 2007 og megi vissulega skoða samskipti aðila máls þessa í því ljósi, a.m.k. að hluta til. Nauðsynlegt sé að taka dæmi af skrifum stefnanda og rétt að taka fyrst almenn dæmi og síðar dæmi af þeim skrifum sem endanlega hafi orðið tilefni að orðum stefnda og samskiptum aðila málsins eins og þeim sé lýst í sóknargögnum.

                Á vefsíðu sinni, þann 23. febrúar 2007, sé stefnandi að biðja almættið um að forða þjóðinni frá vinstri stjórn og fullyrði að Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, reki banka úr landi og eftir verði eingöngu hundasúrur og fjallagrös til útflutnings og þjóðin muni síðan nærast á útsýninu einu saman. Svo megi vænta skattahækkana.

Á vefsíðu þann 1. mars 2007, birti stefnandi skopmynd af Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri grænna, þar sem texti segi að hann vilji stofna netlögreglu og fylgi grein með þar sem talað sé niðrandi um Steingrím. Fram komi að þennan dag hafi 135.320 manns heimsótt vefsíðu stefnanda. Nokkur viðbrögð hafi orðið við þessum skrifum stefnanda og flest einhliða svívirðingar í garð formanns Vinstri grænna og sé þetta nefnt sérstaklega þar sem stefnandi hafi áskilið sér vald á vefsíðu sinni til að eyða öllum óviðurkvæmilegum skrifum.

                Á vefsíðu 11. mars 2007 hafi birst skætingur í garð Sóleyjar Tómasdóttur, ritara Vinstri grænna, sem greinilega sé ætlað að vera fyndinn, en lýsi best viðhorfi stefnanda til kvenna og baráttu sumra þeirra í jafnréttismálum. Ýmsir hafi haft þörf fyrir að lýsa viðhorfum sínum og látið ýmis orð falla, s.s. „brjálæðingar“, „netlögreglustjóri“, auk nokkurra klámfenginna athugasemda og sé enn vísað til þess að stefnandi hafði áskilið sér rétt til að eyða færslum af síðu sinni en hafi ekki gert það hér frekar en í öðrum sambærilegum tilvikum.

                Á vefsíðu þann 29. mars 2007 sé enn birt skopmynd af Steingrími J. Sigfússyni, formanni Vinstri grænna, þar sem hann eigi að vilja banna Internetið og fylgi því að venju ýmsar athugasemdir.

                Á vefsíðu þann 3. apríl 2007 sjái stefnandi ástæðu til að afbaka myndskeið úr indverskri kvikmynd þar sem bæði birtist fordómar gagnvart konum og einhliða barningur um ætluð viðhorf formanns Vinstri grænna til Internetsins. Svo virðist sem stefnandi hafi til þess dags fengið 166.187 heimsóknir á vefsíðu sína.

                Á vefsíðu þann 6. apríl 2007 birtist mjög gamaldags viðhorf stefnanda til umhverfismála þar sem tekið sé undir rök helstu afturhaldsmanna í þeim efnum. Allmargar athugasemdir hafi fylgt en ekki sé ástæða til að setja þær með skjölum málsins.

                Á vefsíðu þann 10. apríl 2007 komi enn fram endurtekningar á útúrsnúningi á orðum Ögmundar Jónassonar, þingmanns Vinstri grænna, með tilheyrandi athugasemdum og fram komi að þá sé komin 172.791 heimsókn á vefsíðu stefnanda.

                Á vefsíðu þann 23. apríl 2007 birtist sjónarmið stefnanda í þá átt að stefna Vinstri grænna muni færa líf landsmanna aftur til landnámsaldar og fylgi að venju athugasemdir lesanda vefsíðunnar.

                Á vefsíðu þann 23. apríl 2007 sjái stefnandi enn ástæðu til að niðurlægja Sóleyju Tómasdóttur, ritara Vinstri grænna, og birti myndband á vefsíðu sinni þar sem allt sé afbakað og gert afkáralegt. Að venju fylgi athugasemdir lesenda sem flestir taki undir með stefnanda og sumir bæti raunar um betur. Heimsóknir á síðu stefnanda séu þá 186.138.

                Á vefsíðu þann 6. maí 2007 sé enn birt myndband með skætingi um formann Vinstri grænna sem endi á orðunum „kjósið fúla á móti þann 12. maí“ og fullyrt að Vinstri grænir vilji helst af öllu fjölga umhverfisslysum.

 Á vefsíðu þann 12. maí 2007 sé enn birt mynd þar sem fólki sé hótað landauðn ef kosið sé til vinstri þann 12. maí s.l., og enn birt í því samhengi mynd af formanni Vinstri grænna.  Fleiri vefsíður sýni, svo ekki sé um villst, að stefnandi máls þessa sé eindreginn stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins.

Á vefsíðu 4. maí 2007 birti stefnandi aulafyndni um málfarsleg vandræði pólskra verkamanna. Nokkur fréttaflutningur spratt af veikindum verkamanna við virkjanirnar að Kárahnjúkum. Blaðamaður Fréttablaðsins leitaði til stefnanda, blaðafulltrúa Impregilo, verktaka við virkjanaframkvæmdirnar og sem svar við spurningu um hvort „skítt“ sé að vinna á Kárahnjúkum þá komi einfalt svar á þá leið að þeir sem hirði ekki um hreinlæti geti lent í „djúpum skít“. Ýmsum hafi fundist þetta svar kaldranalegt og niðurlægjandi gagnvart þeim sem höfðu veikst. Nokkrir höfðu í framhaldinu hörð orð um stefnanda án þess að það sé frekar rakið hér.

Stefndi kveðst hafa fylgst með skrifum stefnanda og hafi eðlilega verið verulega misboðið vegna þessa einhliða óhróðurs um Vinstri græna og forystumenn þeirra, sem þar birtust, enda skrif og áróður stefnanda kominn langt út fyrir það sem megi telja eðlilega pólitíska gagnrýni og raunar ekki hægt að jafna því við annað en það sem verst gerist í pólitískri umræðu. Sumt sé hreinlega barnalegt. Steininn hafi þó tekið úr þegar stefnandi hafi ákveðið að ráðast gegn Paul Nikolov, einum frambjóðanda Vinstri grænna, en hann hafi skipað sæti ofarlega í öðru Reykjavíkurkjördæminu. Stefnandi tengi áðurnefndan frambjóðanda við skrif manns sem skrifi undir dulnefninu „Jadetree“ en þau skrif séu um málefni Arons Pálma Ágústssonar, íslensks ríkisborgara, sem hafi verið dæmdur til þungrar refsingar í Texasríki í Bandaríkjunum, en saga þess máls sé alþekkt. Í skrifum stefnanda sé því með ákveðnum hætti komið á framfæri að Paul Nikolov sé höfundur þessara skrifa og sé fjallað á mjög niðrandi hátt um hann á vefsíðunni. Talsverð viðbrögð hafi orðið við þessum skrifum. Stefnandi hafi kosið að leggja þau ekki fram en þau séu lögð fram af stefnda. Þar komi m.a. fram að banna eigi útlendingum og glæpamönnum að bjóða sig fram til þings, sumir séu „kjaftstopp“, talað um að frambjóðandinn hafi ógeðfelldar skuggahliðar, vafi leiki á hvert sálarástand Paul Nikolovs sé, bréfin séu hræðileg og rétt að senda þau til allra fjölmiðla, afneitun Paul Nikolovs á skrífunum sé fáránleg, skrifin séu bæði ótrúleg og skammarleg o.s.frv. o.s.frv.

                Stefnandi hafi sömuleiðis vitað að ámóta skrif um Paul Nikolov höfðu áður komið fram á árinu 2006 þar sem einhver sem nefnir sig Alda Kalda skrifi á vefsíðu sinni nokkurn veginn það sama og stefnandi hafi raunar sett á sína síðu um sama mál og sé fullyrt að stefnandi hafi sótt hugmyndina að skrifum sínum á þessa vefsíðu. Þá sé fullyrt að stefnandi hafi vitað að Paul Nikolov hafi neitað því að vera höfundur þessara skrifa og því slegið fram fullyrðingum sínum gegn betri vitund og eingöngu komið þessum skrifum á framfæri til að ófrægja einn frambjóðanda VG sem lið í þeirri krossferð sem lýst sé hér að framan. Paul Nikolov komi aftur að leiðréttingu á framangreindum fullyrðingum og sé sú framsetning hógvær og eðlileg í alla staði. Þrátt fyrir þetta höggvi stefnandi í sama knérunn þann 11. maí 2007, daginn fyrir kosningarnar, og endurtaki fyrri fullyrðingar og tali um neyðarfundi hjá VG

Málsástæður stefnanda og lagarök

Ummæli í kröfulið 1, A til C

                Þess er krafist að ummæli í kröfulið 1, sem sé að finna á vefsvæðinu www.ulfarsson.blog.is. og stefndi beri ábyrgð á, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, verði dæmd dauð og ómerk.

                Það að stefndi skuli leyfa sér að kalla stefnanda rasista, sem ástundi útlendingahatur sé grafalvarleg aðdróttun að æru stefnanda. Ummælin séu þar að auki algjörlega úr lausu lofti gripin og hreinlega hugarburður stefnda, sem fái hvergi neina stoð í raunveruleikanum. Stefnandi sé framkvæmdastjóri og eigandi íslenskra almannatengsla ehf., sem sjái meðal annars um almannatengsl fyrir ýmis fjölþjóðleg fyrirtæki sem numið hafi land á Íslandi, auk þess sem stefnandi sé ræðismaður El-Salvador á Íslandi. Stefnandi sjái þannig um öll málefni tengd almannatengslum fyrir ítalska fyrirtækið Impregilo, sem sé aðalverktaki á Kárahnjúkum, en hjá fyrirtækinu starfi fólk frá öllum heimsálfum og af ýmsum kynþáttum. Allt tal stefnda þess efnis að stefnandi sé „rasisti“ eða útlendingahatari séu því eingöngu innantóm orð. Það að stefndi skuli kalla stefnanda, sem sé talsmaður þessa fjölþjóðlega fyrirtækis á Íslandi, rasista sé því alvarlegur hlutur. Stefndi hafi hins vegar ekki látið sér það nægja heldur hafi bætt um betur og sagt berum orðum að stefnandi væri svæsnari rasisti en tiltekinn hópur rasista samanlagður. Til að kóróna svo skömm sína hafi stefndi skorað á lesendur vefsvæðis síns að heimsækja vefsvæði stefnanda og láta þar í sér heyra svo að „útlendingahatur“ stefnanda stæði þar ekki óhaggað.

                Til þess beri fyrst að líta að í þeirri umfjöllun stefnanda, sem virðist vera kveikjan að þeim skrifum stefnda, sem innihaldi hin umstefndu ummæli, sé ekki neitt að finna sem hægt sé að kalla rasisma, kynþáttahyggju eða kynþáttahatur og geti réttlætt það að stefnandi sé kallaður rasisti, útlendinga- eða kynþáttahattari. Stefnandi hafi heldur ekki á öðrum stað né tíma látið sér nokkuð það um munn fara, sem ýtt geti stoðum undir þær fullyrðingar stefnda að stefnandi sé svæsinn rasisti og útlendingahatari.

Það verði að telja að ummæli stefnda varði við 234., 235., og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga enda ljóst að ummæli stefnda séu ærumeiðandi og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

Ummæli í kröfulið 2 A

                Þess er krafist að ummæli í kröfulið 2, sem sé að finna á vefsvæðinu www.ulfarsson.blog.is. og stefndi beri ábyrgð á, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, verði dæmd dauð og ómerk.

Stefnda virðist ekki hafa fundist nóg að gert með því að kalla stefnanda svæsinn rasista, sem legði stund á útlendingahatur, því síðar þann sama dag hafi hann látið þau orð falla um stefnanda að hann ynni fyrir alþjóðlegt glæpagengi. Hér sé á nýjan leik um alvarlega aðdróttun að ræða að æru stefnanda þar sem stefndi ásaki hann um að vera málsvara alþjóðlegs glæpagengis. Með þessum orðum sé stefndi að saka stefnanda um þátttöku í alþjóðlegri glæpastarfssemi sem sé refsiverð háttsemi, sem margra ára fangelsi liggi við, og þar að auki siðferðilega ámælisverð háttsemi í augum flestra. Með þessu vegi stefndi alvarlega að æru stefnanda, og sem fyrr séu ummælin algjörlega úr lausu lofti gripin og ósönn.

                Það verði að telja að ummælin varði við 234., 235., og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og því beri að ómerkja þau með vísan til 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga enda ljóst að ummæli stefnda séu hreinn uppspuni og þar að auki óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta ímynd stefnanda. Hagsmunir stefnanda af því að fá ummælin dæmd dauð og ómerk séu því miklir.

                Hvað varðar frekari rökstuðning fyrir ómerkingu ofangreindra ummæla vísist til umfjöllunar í málsatvikum og málsástæðum hér að ofan.

Miskabótakrafa

                Stefnandi byggir á því að tilvitnuð ummæli stefnda, sem viðhöfð hafi verið á vefsvæði stefnanda hafi fengið mjög á stefnanda andlega, enda um ærumeiðandi aðdróttanir að ræða, sem bæði séu rangar og bornar fram án þess að stefndi hafi nokkuð haft fyrir sér. Einnig sé ljóst að virðing stefnanda hafi beðið hnekki, sem og æra hans og persóna, þar sem því sé haldið fram um hann að hann sé svæsinn kynþáttahatari og þáttakandi í alþjóðlegri glæpastarfsemi.

                Eins og áður hafi komið fram sjái stefnandi um almannatengsl fyrir fjölþjóðleg fyrirtæki og sé þar að auki ræðismaður erlends ríkis á Íslandi og því sé það grafalvarlegur hlutur fyrir hann að sitja undir því ámæli að vera svæsinn kynþáttahatari. Það að stefndi skuli halda því fram um stefnanda að hann vinni fyrir alþjóðlegt glæpagengi sé einnig alvarleg aðdróttun að æru stefnanda og hafi skaðað hann og fyrirtæki sem hann reki.

                Krafa stefnanda um miskabætur sé byggð á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Við mat á miskabótum sé einnig vísað til grunnraka að baki 234., 235. og 236. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Vísað sé til 2. mgr. 15. laga nr. 57/1956 um prentrétt varðandi varnaraðild stefnda, en hann sé höfundur umfjöllunarinnar um stefnanda.

                Með vísan til þess er hér að framan segi sé ljóst að stefndi beri refsi- og fébótaábyrgð á efni umfjöllunar um stefnanda.

                Hvað varðar tjáningarfrelsi stefnda vísi stefnandi til 2. og 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar, en tjáningarfrelsi njóti ekki verndar þegar brotið sé gegn mannorði annarra manna.

                Þess sé krafist að stefndi greiði stefnanda málskostnað samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi og sé krafan byggð á 130 gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Þess sé krafist að dæmdur málskostnaður beri virðisaukaskatt.

                Um lagarök, vísi stefnandi til 234., 235., 236. gr. og 1. og 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem og grunnraka þeirra sem búi að baki framangreindum lagagreinum.

                Einnig vísi stefnandi til laga nr. 57/1956, um prentrétt, einkum 2. mgr. 15. gr. laganna. Þá vísi stefnandi til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra skaðabótareglna, s.s. sakarreglunnar.

                Krafa stefnanda um vexti og dráttarvexti á miskabótakröfu sé byggða á IV. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Þá sé krafa um málskostnað byggð á 130. gr. l. nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda og lagarök

                Eins og rakið sé í málavaxtalýsingu hafi stefnandi verið iðinn við að koma að áróðri gegn framboði Vinstri grænna vegna alþingiskosninganna nú sl. vor. Seint verði talið að málefnaleg sjónarmið hafi ráðið þar ferð heldur sé framsetningin öll á neikvæðum nótum og beri helst keim af því sem verst sjáist í bandarískri stjórnmálabaráttu. Undir lok kosningabaráttunnar ákveði stefnandi að koma höggi á einn frambjóðandann á afar ísmeygilegan og neikvæðan hátt. Hér eigi í hlut nýr Íslendingur sem raunar hafi vald á íslenskri tungu en þó ekki fullkomið. Af þeim sökum eigi hann erfiðara með að svara fyrir sig og taka til varna. Þá virðist sem í engu hafi verið tekið tillit til þess af hálfu stefnanda að umræddur frambjóðandi hafi neitað aðild sinni að þeim skrifum sem urðu tilefni árása stefnanda heldur sé gefið í með frekari fullyrðingar og árásir. Stefnandi hafi því með skrifum sínum gefið tilefni til viðbragða og harðra andsvara og í ljósi þess verði að skoða orð stefnda og þau orð verði stefnandi að þola.

Stefnandi leggi til skrif sín sem þátt í stjórnmálaumræðu, þó svo skrifin séu ekki stórbrotin, og eðlilegt að líta á hann sem „opinbera persónu“, eins og skilgreiningar á slíku hugtaki séu notaðar í málum af þeim toga, sem mál þetta snúist um. Dómaframkvæmd sýni að slíkir einstaklingar verði að þola hvassari gagnrýni og harðari orðaskipti en aðrir einstaklingar, sem ekki láti til sína taka á opinberum vettvangi. Orð stefnda séu eðlilegur gildisdómur um skrif stefnanda og þar sé ekki verið að vísa til refsiverðrar háttsemi á annan hátt. Í dómaframkvæmd, m.a. hjá Mannréttindadómstól Evrópu, sé litið svo á að ríkar heimildir séu til að láta í ljós gildisdóma ef ekki sé um að ræða fullyrðingu um refsiverða háttsemi.

                Í kröfugerð stefnanda séu tínd til fjögur atriði úr skrifum stefnda og rétt að fjalla um þau í þeirri röð eins og sett er fram í stefnu.

                Í fyrsta lagi sé gerð krafa um ómerkingu orðanna „aðal rasisti bloggheima“. Stefndi gefi sér að orðið „rasisti“ sé það sem stefnandi hnjóti um en hvorki orðin „aðal“ né „bloggheima" en væntanlega sé lítil þörf á að ómerkja slík almenn orð. Orðið rasisti hafi ýmsar merkingar og hafi stefndi notað þau í ýmsu samhengi. Þann 17. apríl 2007 skrifi hann um sjónarmið Frjálslynda flokksins en talsmenn þess flokks hafi verið ásakaðir um andúð gegn útlendingum í aðdraganda kosninganna vorið 2007. Orð stefnda í þessum skrifum séu að mestu endurtekningar á orðum annarra. Þann 20. apríl 2007 fjalli stefndi um viðhorf tiltekinna stjórnmálamanna sem höfði sérstaklega til kvenna í stjórnmálabaráttu og nefni að þau sjónarmið geti verið „rasísk“. Um skilning á orðinu „rasisti“ sé einnig vísað til álits Kristjáns Árnasonar, prófessors í íslenskri málfræði á dskj. nr. 39 og enskrar orðabókarskilgreiningar, en þar komi m.a. fram að orðið þurfi ekki að hafa aðra merkingu en þá að átt sé við hleypidómafullan mann, sem ekki þoli skoðanir sem fara gegn hans eigin.

Í öðru lagi sé krafist ómerkingar á orðunum „Nú hef ég fundið einn til, svæsnari en hinir lagðir saman, talsmann Impregilo á Íslandi.“ Stefnda sé ekki ljóst hvað hér sé átt við, en setninguna verði að tengja við skrif stefnda á vefsíðu 17. apríl 2007 og 24. apríl 2007 þar sem fjallað sé um talsmenn Frjálslynda flokksins, þetta sé almennt orðað og gildisdómur um viðhorf stefnanda. Þá sé ómerkingarkrafan allt of víðtæk. Varla vilji stefnandi fá þau orð ómerkt að hann sé talsmaður Impregilo en um þau störf stefnanda komi fram skýrar yfirlýsingar í sóknargögnum. Í þriðja lagi sé krafist ómerkingar á orðunum „Ég mæli með því að þið ágæta fólk látið í ykkur heyra á kerfínu hans svo að útlendingahatur hans standi þar ekki óhaggað.“ Hér sé einnig um almennt orðalag að ræða og settur fram eðlilegur gildisdómur um skrif stefnanda, sem hafi gefið ærið tilefni til andsvara og viðbragða, sbr. framlögð gögn. Einnig sé krafa þessi allt of víðtæk og erfitt að átta sig á ætluðum misgerðum.

                Að lokum sé krafist ómerkingar á orðunum „sem betur fer skapaði ég mér vinnu þar sem ég þarf ekki að svara fyrir alþjóðlegt glæpagengi í fjölmiðlum“. Í stefnu séu þessi orð oftúlkuð og langt í frá hægt að leggja þann skilning í orðin að stefnandi taki þátt í alþjóðlegri glæpastarfsemi. Eins og sjáist af samhenginu sé hér bein tenging við fyrirtækið Impregilo og þá atburði sem komu upp í framhaldi af umræðum um aðbúnað starfsmanna félagsins í aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunar. Þá sé hreinlega einnig verið að vísa til þess að í fjölda tilvika hafi verið talað og skrifað í þá átt að með þessum stórfelldu framkvæmdum á hálendinu væri í raun verið að vinna hryðjuverk á náttúru landsins. Ef einhver ætti að fetta fingur út í þessi orð sé það fyrirtækið Impregilo sjálft en ekki stefnandi. Impregilo sé ekki aðili að þessu máli og beri því að sýkna vegna aðildarskorts.

Allt að einu sé tjáningarfrelsi stefnda varið af 73. gr. laga nr. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en sáttmálinn hafi verið lögfestur, sbr. 1ög nr. 62/1994. Stefndi nýti málfrelsi sitt til að svara harkalega skrifum stefnanda sem beinst hafi gegn stjórnmálaflokki sem hann styður. Hann taki upp hanskann fyrir frambjóðanda Vinstri grænna, sem sé af erlendu bergi brotinn, þar sem honum sé alvarlega misboðið enda skrif stefnanda langt umfram eðlileg og málefnaleg stjórnmálaskrif. Ljóst sé að dómar hafi fallið undangengin ár í Hæstarétti Íslands og við Mannréttindadómstól Evrópu sem leyfi orðfæri og framsetningu í rituðu máli sem sé í mörgum tilvikum harðari og óvægnari en það sem hér sé fjallað um. Því séu sýknukröfur ítrekaðar.

Stefndi vísar til 80. gr. 1aga nr. 91/1991 XXV kafla 1aga nr. 19/1940, einkum 241. gr. laganna, 73. gr. 1. 33/1944 og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1ög nr. 62/1944, dóma Hæstaréttar Íslands í málunum 206/1977, 92/1991, 498/1993, 383/1994, 9/1997,280/1997, 272/2000, 181/2005, dóms Héraðsdóms Reykjaness 25.4.2007 og nokkurra dóma Mannréttindadómstóls Evrópu.

Niðurstaða

                Stefnandi hélt úti vefsíðu á vef Morgunblaðsins sem nefndist www.omarr.blog.is.  Stefnandi var afkastamikill í skrifum fyrir alþingiskosningar vorið 2007 og var yfirlýstur stuðningsmaður Sjálfstæðisflokksins. Stefndi var hins vegar stuðningsmaður Vinstri grænna.  Greinaskrif stefnanda sneru oft og tíðum að stjórnmálum og hafði hann ákveðnar skoðanir á flokki Vinstri grænna sem hann lét óspart í ljósi á vefsíðu sinni.  Hinn 18. apríl 2007 birti stefnandi umfjöllum á vefsvæði sínu undir yfirskriftinni „Vill Paul Nikolov að Aron Pálmi Ágústsson rotni í fangelsi?“ Í greininni er fjallað um afstöðu Pauls Nikolov, sem var í framboði til Alþingis 2007, til máls Arons Pálma Ágústssonar. En þar er gefið til kynna að Paul Nikolov, undir notendanafninu „jadetree“ og „grapevine“ hvetji til skrifa um að Aron Pálmi eigi að rotna í fangelsi.  Þann 22. apríl 2007 birti stefnandi umfjöllun um hugmyndir  þessa sama manns um „beint“ lýðræði og um leið lýsti stefnandi því hversu erfitt væri að ná í Paul Nikolov. Stefndi brást við þessum skrifum þann 24. apríl 2007 með því að birta færslu á vefsvæði sínu, www.ulfarsson.blog.is. Yfirskrift færslunnar var „Aðal Rasisti Bloggheima“ þar sem stefnandi er sagður vera svæsnari útlendingahatari en tiltekinn fjöldi útlendingahatara lagður saman. Í niðurlagi færslunnar hvetur stefnandi fólk til að láta heyra í sér á vefsvæði stefnanda svo að útlendingahatur stefnanda stæði þar ekki óhaggað. Síðar sama dag gerði stefndi athugasemd á vefsvæði sínu þar sem hann lýsti því yfir að vinna stefnanda fælist í því að svara fyrir alþjóðlegt glæpagengi í fjölmiðlum. Að kvöldi sama dags hafði stefnandi samband við stefnda og bað hann að fjarlægja ofangreindar færslur. Að öðrum kosti myndi hann leita réttar síns. Stefndi varð ekki við óskum stefnanda. Í kjölfarið skrifaði hann nýja grein inn á vefsvæði sitt með fyrirsögninni „Ómar R. Valdimarsson ætlar að kæra mig“. Daginn eftir, 25. apríl 2007, skrifaði stefndi nýjan pistil á vefsvæði sitt sem bar yfirskriftina „Hvenær kemur kæran?“ Þar lýsir stefndi því að hann bíði eftir kæru á hendur sér vegna skrifa sinna um stefnanda. Síðla sama dags skrifaði stefndi á ný færslu á vefsvæði sitt með yfirskriftinni „Ég bíð og Bíð Ómar“. Þar lýsir stefndi vonbrigðum sínum yfir því að stefnandi hafi ekki enn kært sig.

                Í 73. gr. stjórnarskrárinnar er mönnum tryggt tjáningarfrelsi. Samkvæmt  3. mgr. sömu greinar má aðeins setja tjáningarfrelsinu skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda og mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. 

                Í XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er að finna ákvæði til verndar ærumeiðingum og friðhelgi einkalífs.  Þar segir einnig, í  241.gr. laganna, að í meiðyrðamáli megi dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk ef sá krefst þess sem misgert er við.

                Í 1. kröfulið í stefnu krefst stefnandi þess að eftirfarandi ummæli stefnda, sem birt voru 24. apríl 2007 kl. 13:59 á vefsvæðinu www.ulfarsson.blog.is  verði dæmd dauð og ómerk og að stefnda verði gert skylt með dómi að fjarlægja ummælin af vefsvæðinu:

A.            „Aðal Rasisti Bloggheima“

B.            „Nú hef ég fundið einn til, svæsnari en hinir lagðir saman, talsmann                          Impreglio (sic) á Íslandi ...“

C.            „Ég mæli því með því að þið ágæta fólk látið í ykkur heyra á kerfinu hans svo að útlendingahatur hans standi þar ekki óhaggað.“

                Ljóst er að málsaðilar höfðu ekki sömu stjórnmálaskoðanir og studdu hvor sinn stjórnmálaflokkinn í aðdraganda alþingiskosninga 2007. Telja verður samkvæmt því sem fram hefur komið að framangreind ummæli stefnda um stefnanda megi rekja til umfjöllunar stefnanda um frambjóðandann Paul Nikolov, sem áður er rakin. Telja verður að í hugum flestra hafi orðið rasisti neikvæða merkingu og taki til aðila sem haldinn er fjandskap í garð fólks sem er af öðrum kynþætti en hann sjálfur. Sama er að segja um orðið útlendingahatur, þ.e. hatur á útlendingum. Í umfjöllun stefnanda um Paul Nikolov er hvergi fjallað um frambjóðandann sem útlending eða minnst á erlendan uppruna hans. Hefur ekki verið sýnt fram á í málinu að stefnandi hafi á öðrum stað eða tíma látið sér nokkuð um munn fara sem ýtt geti undir þær fullyrðingar stefnda að stefnandi sé svæsinn rasisti og útlendingahatari. Ummæli stefnda um stefnanda verður því að telja tilefnislaus. Vísað er til þess að stefnandi er talsmaður fyrirtækisins Impregilo á Íslandi, sem er fjölþjóðlegt fyrirtæki, og sá hann um öll málefni tengd almanntengslum. Þá er fram komið að stefnandi er framkvæmdastjóri og eigandi Íslenskra almannatengsla ehf. sem sér um almannatengsl fyrir ýmis fjölþjóðleg fyrirtæki sem hafa numið land á Íslandi.  Þá ber þess einnig að geta að stefnandi er ræðismaður El-Salvador á Íslandi.  Í ljósi þessa verður að telja ummæli stefnda mjög meiðandi fyrir stefnanda. Þótt stefnandi hafi tekið þátt í stjórnmálaumræðu á vefsíðu sinni, og sinnt þeim störfum sem að framan er getið, verður ekki fallist á að stefnandi sé opinber persóna í þeim skilningi að hann verði að þola meiri og sterkari gagnrýni en gengur og gerist.

                Er óumdeilt að stefndi er höfundur þeirra skrifa þar sem umdeild ummæli birtust og ber hann ábyrgð á þeim. Eru framangreind ummæli um stefnanda ærumeiðandi, þau eru óviðurkvæmileg og tilhæfulaus og til þess fallin að sverta ímynd hans. Teljast þau varða við 235. gr. laga nr. 19/1940. Ber að ómerkja þau, sbr. 241. gr. sömu laga.

                Í 2. lið kröfugerðar sinnar krefst stefnandi að eftirfarandi ummæli sem stefndi er höfundur að og birt voru á vefsvæðinu www.ulfarsson.blog.is, þriðjudaginn 24. apríl 2007, klukkan 22:20, verði dæmd dauð og ómerk, og stefnda verði gert skylt með dómi að fjarlægja ummælin af vefsvæðinu:

                A. „Sem betur fer skapaði ég mér vinnu þar sem ég þarf ekki að svara fyrir                                               alþjóðlegt glæpagengi í fjölmiðlum.“

                Sama dag, og skömmu áður en þessi ummæli birtust, hafði stefndi fjallað um stefnanda sem talsmann Impregilo á Íslandi. Verða ummæli stefnda ekki skilin öðruvísi en svo að hann telji fyrirtækið vera alþjóðlegt glæpagengi og vegur hann þannig að starfi stefnanda. Ummælin beinast hins vegar ekki að persónu eða æru stefnanda. Teljast þau ekki ærumeiðandi eða móðgandi í garð stefnanda og ber því að hafna kröfu stefnanda um ómerkingu þeirra.

                Samkvæmt framansögðu eru ummæli í fyrsta kröfulið dæmd dauð og ómerk. Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert skylt með dómi að fjarlægja ummælin af vefsíðu sinni. Ummæli sem birtast í dagblaði eða tímariti er ekki unnt að eyða eða fjarlægja. Auðvelt er hins vegar að fjarlægja skrif sem birst hafa á vefsíðu. Eðli máls samkvæmt verður þessi krafa stefnanda því tekin til greina.

                Stefnandi krefst þess jafnframt að stefnda verði gert skylt að birta forsendur dóms þessa og dómsorð á vefsvæði sínu þegar dómur gengur í málinu. Til stuðnings kröfu sinni vísar stefnandi til 22. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Í 1. mgr. umræddrar greinar segir: „Nú er höfundi eða útgefanda (ritstjóra) dæmd refsing, ummæli ómerkt eða fébætur dæmdar vegna efnis í blaði eða tímariti, og má þá ákveða í dómi, eftir kröfu þess, sem misgert er við, að tiltekinn hluti dómsins skuli birtur í ritinu.“ Í 2. mgr. segir að útgefanda (ritstjóra) sé skylt að birta framangreindan hluta dóms eftir kröfu dómhafa í fyrsta tölublaði, sem út kemur, eftir að dómur er birtur, og í síðasta lagi í öðru tölublaði, ef um dagblað er að tefla. Í 3. mgr. greinarinnar segir að birta skuli dómshlutann án endurgjalds og prenta hann með sama letri og meginmál ritsins og á þeim stað í tímaritinu, að eftir verði tekið.

                Eins og ákvæðið ber með sér tekur það til birtingar efnis í blöðum eða tímaritum en ekki til efnis sem birt er á vefsíðum. Ekki er til að dreifa lagaákvæðum um slík tilvik. Telja verður að efnislega sé um sambærileg tilvik að ræða enda staðreynd að mörg dagblöð eru gefin út á vefmiðlum.  Með lögjöfnun frá 22. gr. laga nr. 57/1956 ber því að taka til greina þá kröfu stefnanda að stefnda verði gert skylt að birta forsendur dóms og dómsorð á vefsvæði sínu þegar dómur gengur.  Er krafan tekin til greina eins og hún er fram sett.

                Stefnandi krefst miskabóta að fjárhæð 2.000.000 króna. Eins og áður er rakið felst í ummælum samkvæmt 1. kröfulið aðdróttun sem telja verður að sé virðingu stefnanda til hnekkis. Í þeim felst meingerð gegn persónu stefnanda og æru. Ber því að fallast á kröfu stefnanda um miskabætur. Eftir atvikum þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 300.000 krónur. Vaxtakröfu er ekki mótmælt sérstaklega.

                Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.

                Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

                Eftirfarandi ummæli eru dæmd dauð og ómerk:

                A. „Aðal Rasisti Bloggheima“

                B. „Nú hef ég fundið einn til, svæsnari en hinir lagðir saman, talsmann Impregilo á Íslandi ...“

   C. „Ég mæli því með því að þið ágæta fólk látið í ykkur heyra á kerfinu hans svo að útlendingahatur hans standi þar ekki óhaggað.“

Ber stefnda, Gauki Úlfarssyni, að fjarlægja ummælin af vefsvæði sínu www.ulfarsson.blog.is.

Ber stefnda jafnframt að birta forsendur og dómsorð dóms þessa á vefsvæði sínu www.ulfarsson.blog.is.

Stefndi, Gaukur Úlfarsson, greiði stefnanda, Ómari Valdimarssyni, 300.000 krónur í miskabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 24. apríl 2007 til 22. júní 2007, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.