Hæstiréttur íslands
Mál nr. 146/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
- Sératkvæði
|
|
Miðvikudaginn 7. mars 2012. |
|
Nr. 146/2012. |
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn X (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Sératkvæði.
Úrskurður héraðsdóms um
að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 2. mars 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til fimmtudagsins 29. mars 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 1. desember
2011 vegna þess brots sem honum er gefið að sök. Gæsluvarðhaldið hefur frá 11.
desember 2011 verið reist á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð
sakamála, þar sem meðal annars er kveðið á um að „sterkur grunur“ þurfi að
leika á að sakborningur hafi framið afbrotið og ætla megi varðhald „nauðsynlegt
með tilliti til almannahagsmuna.“ Sitji varnaraðili áfram í gæsluvarðhaldi þann
tíma sem getur í hinum kærða úrskurði mun gæsluvarðhald hans hafa staðið í um
fjóra mánuði.
Það er fjarri öllu lagi að uppfyllt séu skilyrði 2.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi varnaraðila.
Þannig er augljóst að ekki getur talist vera sterkur grunur um að hann hafi
framið brotið sem honum er gefið að sök. Vísast um rökstuðning fyrir þessu til
sératkvæðis míns 9. febrúar 2012 í máli nr. 84/2012 og sjónarmiða sem fram koma
í sératkvæði mínu 13. febrúar 2012 í máli nr. 95/2012, en báðir þessir dómar
varða mál sóknaraðila gegn varnaraðila. Auk þessa hefur sóknaraðili ekki
leitast við að sýna fram á að telja megi gæsluvarðhaldið nauðsynlegt með
tilliti til almannahagsmuna, svo sem einnig er tilskilið í lagaákvæðinu. Af
þessum ástæðum er einboðið að fella ber hinn kærða úrskurð úr gildi.
Úrskurður
Héraðsdóms Vesturlands 2. mars 2012.
Árið 2012,
föstudaginn 2. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Vesturlands sem háð er í dómsal
Héraðsdóms Suðurlands að Austurvegi 4, Selfossi af Hirti O. Aðalsteinssyni
dómstjóra kveðinn upp úrskurður þessi.
Ríkissaksóknari hefur gert þá kröfu að
ákærða, X, kt. [...], [...], [...], verði gert að
sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur
en til fimmtudagsins 29. mars 2012, kl. 16:00, aðallega á grundvelli 2. mgr.
95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði mótmælir kröfunni og
krefst þess að henni verði hafnað.
Krafan var tekin fyrir á dómþingi í gær en dómari tók sér frest til
dagsins í dag til að úrskurða um kröfuna.
Með úrskurði dómsins upp kveðnum 1.
desember sl. var ákærða gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála allt til laugardagsins 10.
desember sl. kl. 16:00 en hann hafði verið handtekinn 30. nóvember sl. grunaður um kynferðisbrot gagnvart 11 ára gamalli
dóttur sinni, A, kt. [...]. Úrskurðurinn var
staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands upp kveðnum 5. desember sl. Með
úrskurði dómsins upp kveðnum 11. desember sl. var ákærða gert að sæta
gæsluvarðhaldi allt til 6. janúar sl. kl. 16:00 á grundvelli 2. mgr. 95. gr.
sömu laga og var úrskurðurinn staðfestur með dómi Hæstaréttar upp kveðnum 14.
desember sl. Gæsluvarðhald ákærða var
enn framlengt á grundvelli sama lagaákvæðis með úrskurði upp kveðnum 6. janúar
sl. og var honum gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 3. febrúar kl.
16:00. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar upp kveðnum 11. janúar
sl. Enn var gæsluvarðhald ákærða framlengt á sama grunni og fyrr með úrskurði
upp kveðnum 4. febrúar s.l. og samkvæmt þeim úrskurði rennur gæsluvarðhaldið út kl.
16:00 í dag. Hæstiréttur staðfesti þennan úrskurð með dómi upp kveðnum 9.
febrúar sl.
Í greinargerð ríkissaksóknara kemur
fram að rannsókn málsins hafi hafist er lögreglunni á Akranesi hafi borist bréf
barnaverndarnefndar [...] 29. nóvember sl. Í bréfinu hafi verið tilkynnt um
ætlað kynferðisbrot kærða gegn brotaþola. Í kæru barnaverndarnefndar sé vísað
til bréfs námsráðgjafa [...]skóla á [...] 28. nóvember sl. þar sem vísað hafi
verið til upplýsinga sem námsráðgjafa hefðu borist um ætlað brot kærða.
Með ákæru útgefinni 5. janúar sl.
hafi ríkissaksóknari höfðað sakamál fyrir Héraðsdómi Vesturlands á hendur
ákærða fyrir kynferðisbrot gegn brotaþola, framin á tímabilinu maí til júlí
2011, að [...], [...]. Í ákæru sé ákærða
gefið að sök að hafa ítrekað látið brotaþola afklæðast, í fjögur aðgreind
skipti látið hana sjúga á sér kynfærin uns hann hafði sáðlát í munn hennar, í
þrjú aðgreind skipti sleikt á henni kynfærin, í eitt skipti reynt að hafa við
hana endaþarmsmök, eins og nánar sé lýst í ákæruskjali, og með því að hafa að
minnsta kosti í tvö aðgreind skipti þreifað með höndunum á berum brjóstum
hennar og jafnframt að hafa þá og í nokkur önnur skipti á sama ári spurt hana
hvort brjóstin á henni væru að stækka. Í
ákæru er sakarefnið talið varða við 1. og 2. mgr. 200 gr. og 1. og 2. mgr. 202.
gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. síðari breytingar. Af hálfu ákæruvaldsins hafi verið lögð
áhersla á að málinu verði hraðað eins og kostur er. Málið hafi verið þingfest 17. janúar sl.,
og hafi ákærð lýst sig saklausan af
ákæru. Aðalmeðferð hafi farið fram í
málinu 22. febrúar sl. og hafi málið verið dómtekið að loknum skýrslutökum og
málflutningi. Ákæruvaldið væntir þess
að dómur verði kveðinn upp í málinu innan skamms tíma, sbr. 1. mgr. 184. gr.
laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Ríkissaksóknari
telur gæsluvarðhald vera nauðsynlegt áfram vegna almannahagsmuna af sömu
ástæðum og lagðar hafi verið til grundvallar í fyrrgreindum hæstaréttardómum
frá 14. desember, 11. janúar og 9. febrúar sl.
Um sé að ræða ætluð gróf og endurtekin kynferðisbrot föður gegn
dóttur. Ríkissaksóknari telur að það
særi réttarvitund almennings og valdi almennri hneykslan í samfélaginu ef
ákærði, sem liggi undir sterkum rökstuddum grun um svo alvarleg kynferðisbrot
gegn dóttur, gangi laus á meðan mál hans er ólokið.
Eins og rakið hefur verið hér að framan
hefur ákærði setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008, síðast samkvæmt úrskurði
dómsins frá 4. febrúar sl. sem staðfestur var í Hæstarétti 9. febrúar sl. Í dómum Hæstaréttar sem gengið hafa um
gæsluvarðhald ákærða hefur verið fallist á með héraðsdómi að álykta megi af
gögnum málsins að sterkur grunur leiki á um að varnaraðili hafi framið afbrot,
sem að lögum geti varðað 10 ára fangelsi og að öðrum skilyrðum 2. mgr. 95. gr.
laga nr. 88/2008 sé fullnægt. Ríkissaksóknari krefst nú framlengingar
gæsluvarðhaldsins allt til fimmtudagsins 29. mars nk. kl. 16:00 á grundvelli 2.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði mótmælir kröfunni og
krefst þess að henni verði hafnað.
Gefin hefur verið út ákæra á hendur ákærða og eru ætluð brot hans talin varða við
1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr.
19/1940, sbr. 8. og 10. gr. laga nr. 40/1992, 2. og 4. gr. laga nr. 40/2003 og
9. og 11. gr. laga nr. 61/2007. Brot
gegn 1. mgr. 200. gr. almennra hegningarlaga varða fangelsi allt að 8 árum og
allt að 12 árum ef barnið er yngra en 16 ára og brot gegn 1. mgr. 202. gr.
laganna varða fangelsi allt að 16 árum ef barn er yngra en 15 ára. Aðalmeðferð
í málinu fór fram 22. febrúar sl. og er nú beðið dóms í því. Við upphaf aðalmeðferðar
var lagt fram B sálfræðings dagsett 20. febrúar sl. en þar kemur fram að
brotaþoli hafi fram að þeim degi frá 7. desember sl. sótt alls 7 viðtöl til
hennar. Fram hafi komið að hún sýni enn talsverð „forðunareinkenni“ þar sem hún
reyni ávallt að hafa eitthvað fyrir stafni svo hugsanir um ætlað kynferðislegt
ofbeldi herji ekki á hana. Slík „forðun“ sé eitt megineinkenni
áfallastreituröskunar og valdi ungum börnum oft mikilli streitu sem komið geti
fram í kvíðaeinkennum eins og virðist vera hjá brotaþola. Þá velti hún því
talsvert fyrir sér hvort hún megi hugsa um ætlað kynferðisofbeldi og hvort hún
eigi eða eigi ekki að gera það. Þá hafi hún tjáð sig lítillega um ætlað
kynferðislegt ofbeldi í viðtölum. Hún hafi rætt um það í frjálsri frásögn,
óaðspurð, að pabbi hennar hefði verið í vímu þegar hann hefði gert þetta og að
hún teldi að hann hefði annars ekki gert þetta. Þá hafi hún í verkefnavinnu
unnið á sama hátt og börn sem sætt hefðu
kynferðislegu ofbeldi og hafi ekkert komið fram sem bendi til annars en
að hún væri að vinna verkefni út frá eigin reynslu. Hún hafi ekki tjáð sig
frekar um það hvort hún haft verið að ruglast á draumi og veruleika og hvort hún hafi greint jafnöldrum frá
ætluðu kynferðisofbeldi af hálfu föður sökum þess að hún hafi skammast sín
fyrir að vera í samskiptum af kynferðislegum toga við aðila af sama kyni. Hafi
ekkert komið fram sem bendi til óheiðarleika í samskiptum stúlkunnar við
sálfræðinginn og hafi hún þörf fyrir þó nokkuð mörg viðtöl til viðbótar.
Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga
um meðferð sakamála nr. 88/2008 um alvarleika brota sem sterkur grunur er um að
ákærði hafi framið er því uppfyllt í máli þessu. Samkvæmt framangreindu
lagaákvæði er það skilyrði þess að gæsluvarðhaldi verði beitt að brot sé þess
eðlis að ætla megi gæsluvarðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Ákærði er grunaður um alvarleg kynferðisbrot gegn dóttur sinni og standa ríkir almannahagsmunir til þess að
menn sem sterklega eru grunaðir um svo alvarleg brot gegn ungum börnum, gangi
ekki lausir. Þá ber að líta til nýlegra fordæma Hæstaréttar Íslands í
sambærilegum málum og jafnframt fyrri dóma réttarins í máli ákærða.
Samkvæmt öllu framansögðu og með vísan til
rannsóknargagna verður því að telja að ákærði sé enn undir sterkum grun um að
hafa brotið kynferðislega gegn dóttur sinni og hefur að mati dómsins enn ekkert
komið fram sem breytt getur þessu mati og ber þar sérstaklega að líta til
vottorðs B sálfræðings sem lagt var fram við upphaf aðalmeðferðar málsins.
Með vísan til þess sem að framan
er rakið, atvika máls þessa og rannsóknargagna málsins verður með tilliti til
almannahagsmuna fallist á það með ríkissaksóknara að ætluð brot þau sem sterkur
grunur er um að ákærði hafi framið séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja
að hann gangi ekki laus á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómi, sbr. 2.
mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Er því fallist á kröfuna eins og nánar greinir í
úrskurðarorði.
Hjörtur O. Aðalsteinsson kvað
upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Ákærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli
hans, en þó eigi lengur en til fimmtudagsins 29. mars 2012 kl. 16:00.