Hæstiréttur íslands
Mál nr. 73/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
|
|
Fimmtudaginn
27. febrúar 2014. |
|
Nr.
73/2014. |
Magnús Þór Geirsson (Ásgeir Þór Árnason hrl.) gegn íslenska ríkinu (Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.) |
Kærumál. Frestur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms
þar sem máli M á hendur Í var frestað um óákveðinn tíma þar til dómur
Hæstaréttar í tilteknu máli hefði verið kveðinn upp. Í dómi Hæstaréttar var
vísað til þess að heimild 2. málsliðar 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála væri undantekning frá þeirri meginreglu einkamálaréttarfars
að hraða beri málsmeðferð og yrði hún því til samræmis skýrð þröngt. Af
orðalagi ákvæðisins og athugasemdum með frumvarpi til laganna væri ljóst að
frestunarheimildinni yrði fyrst og fremst beitt þegar úrslit um staðreyndir eða
önnur efnisatriði sem til umfjöllunar væru í öðru máli kynnu að hafa verulega
þýðingu fyrir þau atvik sem einhverju skiptu við úrlausn þess máls sem frestað
væri. Yrði máli ekki frestað á grundvelli heimildar 3. mgr. 102. gr. laga nr.
91/1991 án samþykkis aðila vegna þess eins að hagfellt þætti að bíða fordæmis
réttarins í hliðstæðu máli. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og
lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Árni Kolbeinsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. janúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2014, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var frestað um óákveðinn tíma eða þar til dómur Hæstaréttar í máli nr. 726/2013 hefur verið kveðinn upp. Kæruheimild er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka til málið til aðalmeðferðar svo fljótt sem auðið er. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar en til vara að kærumálskostnaður verði látinn niður falla.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta 31. maí 2012. Gerir hann aðallega kröfu um að varnaraðili greiði sér 1.590.151 krónu með nánar tilgreindum vöxtum en það er sú fjárhæð sem sóknaraðili hefur greitt í auðlegðarskatt, er á hann var lagður vegna eigna í árslok 2009. Reisir hann þá kröfu fyrst og fremst á þeirri málsástæðu að álagning auðlegðarskatts á grundvelli ákvæða laga nr. 128/2009 um tekjuöflun ríkisins og ákvæða síðari laga sem breytt hafa þeim lögum fari í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu. Þá hefur sóknaraðili uppi í málinu þrjár varakröfur, sem allar eru reistar á því að í ákvæðum fyrrnefndra laga um skattlagningu hjóna felist ólögmæt mismunun miðað við skattlagningu einstaklinga utan hjúskapar.
Málið var þingfest 19. júní 2012. Í þinghaldi 10. janúar 2013 var málinu frestað til aðalmeðferðar sem fram skyldi fara 4. júní 2013. Fyrirhugaðri aðalmeðferð var frestað utan réttar, en sá héraðsdómari sem farið hafði með málið lét af störfum. Nýr dómari tók við málinu og var aðalmeðferð þess fyrirhuguð 23. janúar 2014. Áður en að því kom sendi héraðsdómari lögmönnum aðila 14. janúar 2014 tölvubréf þar sem þeim var greint frá því að mál nafngreinds gjaldanda gegn íslenska ríkinu þar sem tekist væri á um sömu málsástæður hefði verið þingfest fyrir Hæstarétti 8. sama mánaðar. Teldi dómarinn einsýnt með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 að fresta ætti málinu þar til niðurstaða Hæstaréttar lægi fyrir. Í þinghaldi 23. sama mánaðar andmælti lögmaður sóknaraðila því að málinu yrði frestað og krafðist úrskurðar dómara. Lögmaður varnaraðila krafðist þess að málinu yrði frestað. Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp samdægurs.
Í 2. málslið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um heimild dómara til að fresta máli af sjálfsdáðum ef annað einkamál hefur verið höfðað út af efni sem varðar úrslit þess verulega eða stjórnvaldsmeðferð máls stendur yfir. Þessi heimild er undantekning frá þeirri meginreglu einkamálaréttarfars að hraða beri málsmeðferð og verður hún því til samræmis skýrð þröngt. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna var svo tekið til orða að þetta ætti við þegar atriði sem við meðferð máls kynnu að verða leidd í ljós eða slegið föstum hefðu verulega þýðingu fyrir málið. Af orðalagi ákvæðisins og framangreindum athugasemdum er ljóst að frestunarheimildinni verður fyrst og fremst beitt þegar úrslit um staðreyndir eða önnur efnisatriði sem til umfjöllunar eru í öðru máli kunna að hafa verulega þýðingu fyrir þau atvik sem einhverju skipta við úrlausn þess máls sem frestað er. Verður máli ekki frestað á grundvelli heimildar 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 án samþykkis aðila vegna þess eins að hagfellt þyki að bíða fordæmis Hæstaréttar í hliðstæðu máli. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er úr gildi felldur og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til aðalmeðferðar.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, Magnúsi Þór Geirssyni, 250.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2014.
Mál þetta var höfðað þann 31. maí 2012. Það var tekið til
úrskurðar um ákvörðun um frestun málsins 23. janúar 2014.
Stefnandi er Magnús Þór Geirsson, Vesturhúsum 10, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli við Lindargötu, Reykjavík.
Stefnandi
gerir aðallega kröfu til þess að stefnda verði gert að greiða sér 1.590.151
kr., með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, af. 318.031 kr frá 1.
ágúst 2011 til 1. september 2011, en af. 636.061 kr frá þeim degi til 1.
október 2011, en af. 954.091 kr. frá þeim degi til 1. nóvember 2011, en af
1.272.121 kr. frá þeim degi til 1. desember 2012, en af 1.590.151 kr. frá þeim
degi til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um
vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Til
vara gerir stefnandi þá kröfu að stefnda verði gert að greiða sér. 1.125.000
kr., með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, af 170.910 kr. frá 1.
september 2011 til 1. október 2011, en af 488.940 kr. frá þeim degi til 1.
nóvember 2011, en af 806.970 kr. frá þeim degi til 1. desember 2011, en af
1.125.000 kr. frá þeim degi til þingfestingardags, en með dráttarvöxtum skv. 1.
mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til
greiðsludags.
Til
þrautavara gerir hann kröfu um að stefnda verði gert að greiða sér 375.000 kr.,
með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, af 56.970 kr. frá 1. nóvember
2011 til 1. desember 2011, en af 375.000 kr. frá þeim degi til
þingfestingardags en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og
verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Til
þrautaþrautavara er krafan sú að viðurkennt verði með dómi að við álagningu
viðbótarauðlegðarskatts hjá stefnanda á árinu 2012 skuli hann, vegna samsköttunar
með eiginkonu sinni, njóta fríeignamarks að fjárhæð 150.000.000 kr. Í öllum
tilvikum krefst stefnandi þess jafnframt að stefnda verði gert að greiða sér
málskostnað eftir mati dómsins eða síðar fram lögðum málskostnaðarreikningi að
viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi
krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar.
Til
vara er þess krafist að stefnukröfurnar verði lækkaðar og að málskostnaður
verði látinn niður falla.
Þann 24. október sl. var kveðinn upp dómur Héraðsdóms Reykjavíkur
í máli nr. E-179/2013, Guðrún Helga Lárusdóttir gegn íslenska ríkinu. Málinu
var áfrýjað til Hæstaréttar og var það þingfest 8. janúar sl. en um er að ræða
mál réttarins nr. 726/2013. Með tölvubréfi 14. janúar sl. til lögmanna aðila
málsins vakti dómari athygli á því að rétt væri að fresta aðalmeðferð uns dómur
Hæstaréttar gengi í ofangreindu máli með vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr.
91/1991. Lögmaður stefnanda lýsti sig andsnúinn frestun.
Við
fyrirtöku í dag var lögmönnum gefinn kostur á að tjá sig og krafðist lögmaður
stefnanda þess að aðalmeðferð málsins færi fram. Hann taldi mál þetta ekki að
öllu leyti sambærilegt því máli sem var áfýjað til Hæstaréttar auk þess sem
málsástæður væru ekki nákvæmlega þær sömu. Þá taldi hann 3. mgr. 102. gr. laga
nr. 91/1991 ekki eiga við í þessu sambandi og stæði ekki heimild til frestunar
eingöngu í lögskýringartilgangi. Einnig
vék lögmaðurinn að þeim frestunum sem orðið hefðu á málinu. Frekari frestun
málsins væri í andstöðu við þá meginreglu að hraða skuli meðferð mála en
umbjóðandi hans ætti ekki að líða fyrir mannabreytingar innan dómstólsins. Þá
krafðist hann úrskurðar um frestun.
Lögmaður
stefnda krafðist þess að málinu yrði frestað með vísan til ofangreinds
lagaákvæðis. Hann taldi vafalaust að málsástæður í máli þessu væru í öllum
meginatriðum þær sömu og byggt væri á í máli nr. 726/2013. Í því máli væri
tekist á um það grundvallaratriði hvort lagasetning um auðlegðarskatt standist
stjórnarskrá og þar með hvort byggt verði á henni sem réttarheimild.
Að
gefnu tilefni skal tekið fram að við fyrirtöku málsins 10. janúar 2013 var
aðalmeðferð ákveðin 4. júní 2013. Aðalmeðferð var frestað utan réttar vegna
endurskipulagningar dagskrár í kjölfar tímabundinnar setningar dómara þessa
máls, sem þá hafði verið úthlutað málinu. Dómari reyndi á því tímabili að koma
til móts við lögmann stefnanda með því að setja aðalmeðferðina á dagskrá innan
þess tíma en án árangurs. Eftir skipun dómarans var málið strax sett á dagskrá
til aðalmeðferðar í dag 23. janúar 2014. Vegna óánægju lögmannsins með þá
tímasetningu var enn reynt að koma til móts við hann með tillögu sem hefði
leitt til þess að dómur í hans máli hefði legið fyrir fyrir lok árs 2013.
Lögmaðurinn gat hins vegar ekki fallist á það nema því aðeins að dómur yrði kveðinn
upp í hans máli áður eða samtímis og dómur í máli E-179/2013.
Að
mati dómara er í máli þessu í öllum meginatriðum byggt á sömu málsástæðum og
tekist verður á um í því máli sem nú hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. Telja
verður að úrslit þess máls skipti verulegu máli um úrslit þessa máls.
Með
vísan til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er máli þessu
frestað þar til dómur Hæstaréttar hefur verið kveðinn upp.
Sigríður
Hjaltested héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Máli þessu er frestað um óákveðinn tíma, eða þar til dómur
Hæstaréttar í máli nr. 726/2013 hefur verið kveðinn upp.