Hæstiréttur íslands
Mál nr. 552/2006
Lykilorð
- Skuldamál
- Aðild
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 29. mars 2007. |
|
Nr. 552/2006. |
Bros auglýsingavörur ehf. (Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) gegn Van Straaten B.V. (Tómas Jónsson hrl.) |
Skuldamál. Aðild. Sératkvæði.
V höfðaði mál á hendur B til greiðslu 30 reikninga vegna viðskipta málsaðila á nánar tilgreindu tímabili. Í málinu lágu fyrir gögn sem stöfuðu frá V og sýndu að V hafði framselt viðskiptakröfuna til G 31. desember 2003, en G mun vera í eigu sömu aðila og V. Þá lá fyrir í málinu yfirlýsing framkvæmdastjóra G um að krafan hefði verið framseld V aftur 1. janúar 2004. Fyrir Hæstarétt voru lögð gögn sem vörðuðu staðfestingu endurskoðanda V á því að V hafi, samkvæmt bókhaldsgögnum, átt hina umdeildu kröfu þann dag. Endurskoðandinn kom ekki fyrir dóm og engin bókhaldsgögn V frá janúar 2004 voru lögð fram í málinu. Þá gaf fyrirsvarsmaður V heldur ekki skýrslu fyrir dóminum. Var fallist á að V hefði ekki gegn mótmælum B tekist að sanna að félagið væri eigandi hinnar umstefndu kröfu. Var B því sýknað af kröfu V með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. október 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti verði felldur niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Stefndi gat þess ekki í upphafi málsmeðferðar, að hann hafi ekki átt kröfuna um tíma en eignast hana aftur. Gögn þar um komu fyrst fram þegar skorað var á hann að leggja fram bókhaldsgögn til stuðnings kröfunni. Fallist er á þá niðurstöðu héraðsdómara að málsástæða áfrýjanda um aðildarskort stefnda sé nægilega snemma fram komin. Byggir hún á því að gögn sem stafa frá stefnda sýna að hann framseldi viðskiptakröfu þá sem dómkrafa stefnda er reist á til félagsins Gunigroup B. V. Investors 31. desember 2003. Gunigroup B. V. Investors mun vera í eigu sömu aðila og stefndi. Fyrir liggur yfirlýsing frá framkvæmdastjóra þess félags um að krafan hafi verið framseld stefnda aftur 1. janúar 2004. Ný gögn hafa verið lögð fyrir Hæstarétti sem varða staðfestingu hollensks endurskoðanda stefnda á því að hann hafi, samkvæmt bókhaldsgögnum félagsins, átt umdeilda kröfu þann dag. Endurskoðandinn hefur ekki komið fyrir dóm og engin bókhaldsgögn stefnda frá janúar 2004 hafa verið lögð fram. Fyrirsvarsmaður stefnda hefur ekki gefið skýrslu fyrir dóminum. Verður að fallast á það að stefnda hafi ekki gegn mótmælum áfrýjanda tekist að sanna að hann sé eigandi hinnar umstefndu kröfu. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Bros auglýsingavörur ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnda, Van Straaten B.V.
Stefndi greiði áfrýjanda 700.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Sératkvæði
Jóns Steinars Gunnlaugssonar
Ég er sammála meirihluta dómara um að staðfesta beri niðurstöðu héraðsdóms þar sem fallist er á að málsástæða áfrýjanda um sýknu vegna aðildarskorts komist að í málinu.
Stefndi hefur viðurkennt að í árslok 2003 hafi krafa hans verið framseld til fyrirtækisins Gunigroup B.V. Investors í Hollandi. Hann byggir nú aðild sína að kröfunni á framsali sem hann síðar hafi fengið frá þessu fyrirtæki og hefur lagt fram gögn sem hann telur sanna þetta. Upplýsingar um þessi málsatvik voru stefnda tiltækar er hann höfðaði málið. Hann lét þeirra samt ekki getið og framsal er ekki nefnt í reifun hans þá. Ekki er útilokað að áfrýjandi hefði getað átt varnir gegn kröfunni, tengdar nefndum aðilaskiptum að henni, sem hann hefði þá getað gert grein fyrir í skriflegri greinargerð samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og aflað gagna um við málsmeðferðina. Er það að mínum dómi andstætt meginreglu nefndra laga um afdráttarlausan málflutning að leyfa stefnda að reifa kröfu sína á ný með fyrrgreindum hætti eftir að varnir áfrýjanda sem að þessu lutu komu fram. Verður þess vegna litið framhjá staðhæfingum hans um að hann hafi eignast kröfuna á ný við umrætt framsal. Málsvörn áfrýjanda um aðildarskort stefnda leiðir þá samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 til þess að sýkna beri hann af kröfu stefnda. Á þessum forsendum er ég sammála niðurstöðu meirihluta dómara um sýknu og einnig um málskostnað.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. október 2006.
I
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 11. september sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af Van Straaten BV, Schipolweg 939, 2143 CE Boesinghelied, Hollandi, á hendur Brosi, auglýsingavörum ehf., Síðumúla 33, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu hinn 25. nóvember 2004.
Dómkröfur stefnanda voru þær, að stefndi yrði dæmdur til þess að greiða 30.670,91 EUR, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, af 410,49 EUR frá 7. desember 2000 til 1. maí 2001, en af 756,27 EUR frá þeim degi til 8. maí 2001, en af 5.187,72 EUR frá þeim degi til 14. maí 2001, en af 6.152,00 EUR frá þeim degi til 21. maí 2001, en af 6.638,45 EUR frá þeim degi til 30. maí 2001, en af 8.044,03 EUR frá þeim degi til 20. júní 2001, en af 8.254,58 EUR frá þeim degi til 27. júní 2001, en af 8.980,63 EUR frá þeim degi til 2. júlí 2001, en af 11.066,21 EUR frá þeim degi til 5. júlí 2001, en af 15.210,13 EUR frá þeim degi til 20. júlí 2001, en af 15.636,68 EUR frá þeim degi til 24. júlí 2001, en af 21.328,56 EUR frá þeim degi til 26. júlí 2001, en af 21.757,38 EUR frá þeim degi til 31. júlí 2001, en af 23.921,55 EUR frá þeim degi til 2. ágúst 2001, en af 28.070,87 EUR frá þeim degi til 16. ágúst 2001, en af 29.404,98 EUR frá þeim degi til 31. ágúst 2001, en af 30.475,79 EUR frá þeim degi til 4. september 2001, en af 30.571,08 EUR frá þeim degi til 11. september 2001, en af 30.670,91 EUR frá þeim degi til greiðsludags. Þá var krafist vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. laga nr. 38/2001, er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti auk málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda voru þær aðallega, að hann yrði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi yrði dæmdur til þess að greiða honum málskostnað, en til vara að krafa stefnanda yrði lækkuð verulega og málskostnaður látinn falla niður.
Hinn 27. október 2005 var kveðinn upp dómur í máli þessu í Héraðsdómi Reykjavíkur, sem var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands. Með dómi Hæstaréttar hinn 18. maí 2006 var dómur héraðsdóms ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og uppsögu dóms að nýju.
II
Umdeild skuld er samkvæmt 30 framlögðum reikningum stefnanda vegna viðskipta málsaðila með ýmiss konar vörur og þjónustu, aðallega prentuð merki og flögg, á tímabilinu 23. nóvember 2000 til 23. ágúst 2001. Reikningarnir eru útgefnir á fyrirtækið Fjölprent á Íslandi, en það fyrirtæki sameinaðist stefnda í júní árið 2003.
Stefndi kveður málavexti vera þá, að Fjölprent ehf. hafi átt í viðskiptum við stefnanda á árunum 1997 fram til ársins 2001. Samskiptum aðila hafi lokið vegna ýmissa ágreiningsmála. Fjölprent ehf. og stefndi sameinuðust á miðju ári 2003.
Stefndi kveður viðskipti aðila hafa verið svokölluð reikningsviðskipti. Stefndi hafi greitt inn á viðskiptareikning stefnanda, í einstaka tilvikum ákveðna tiltekna reikninga, en í öðrum tilvikum án sérstakrar tilgreiningar. Stefnandi hafi ekki sent stefnda reikningsyfirlit síðan á fyrri helmingi ársins 2001.
Stefndi kveðst hafa skuldað stefnanda fé samkvæmt síðasta reikningsyfirliti, sem honum hafi borist frá stefnanda, en á tímabilinu frá 1. febrúar 2001 til 26. september 2003 hafi stefndi greitt samtals 36.565,43 EUR í peningum til stefnanda auk þess sem stefndi hafi hafnað móttöku á vörum frá stefnanda, vegna galla á vörunum, að verðmæti samtals 9.445,31 EUR, og hafi sú fjárhæð verið skuldfærð á viðskiptareikning stefnda í fullu samkomulagi við framkvæmdastjóra hans. Samtals nemi þessar innborganir 46.010,74 EUR og miðað við það hafi stefndi ofgreitt stefnanda. Stefndi kveðst ítrekað hafa krafið stefnda um reikningsyfirlit, en án árangurs.
Stefndi kveðst hafa innt síðustu greiðslu af hendi til stefnanda að fjárhæð 10.000 EUR inn á reikning eiginkonu framkvæmdastjóra stefnanda, hinn 26. september 2003, en framkvæmdastjóri stefnanda hafi sagt stefndu að greiða inn á þann reikning, eða inn á reikningsnúmerið 253169607. Framkvæmdastjóri stefnda innti þessa greiðslu af hendi, persónulega, vegna þess að hann hafi tekið það að sér persónulega að halda fyrirtækinu skaðlausu af viðskiptum Fjölprents ehf. við stefnanda í framhaldi af samruna Fjölprents ehf. og Bross ehf. í júlí 2003.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á 30 reikningum vegna viðskipta málsaðila á tímabilinu frá 23. nóvember 2000 til 23. ágúst 2001, en á þeim tíma hafi stefndi keypt af stefnanda vörur og þjónustu. Skuldin hafi ekki verið greidd af stefnda.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna kröfuréttarins um efndir fjárskuldbindinga.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefndi byggir kröfur sínar á því, að viðskiptin hafi verið reikningsviðskipti og staða þeirra viðskipta komi því einungis rétt fram á viðskiptareikningi. Stefnandi hafi kosið að stefna málinu inn á grundvelli reikninga, án þess að geta innborgana stefnda og því komi raunveruleg staða viðskipta aðila ekki fram í þeim gögnum sem stefnandi byggi kröfu sína á. Þetta komi glögglega fram á þeim greiðsluskjölum sem stefndi leggi fram í málinu, en þar séu ýmist tilgreind númer á reikningum eða ekki. Framlögð greiðsluskjöl stefnda til stefnanda nemi samtals hærri fjárhæð en umkrafðir reikningar.
Innborganir stefnda á tímabilinu 21. febrúar 2001 til 11. júlí 2001 hafi numið samtals 26.565,43 EUR. Verðmæti vara sem hafnað hafi verið af stefnda hafi numið 876.147 krónum, sbr. dskj. nr. 13, dagsett 20. september 2001, og miðað við gengi EUR á þeim degi, nemi sú fjárhæð 9.445,31 EUR. Þeim vörum hafi verið fargað af stefnda eftir beiðni stefnanda, þar sem stefnandi hafi talið þá aðferð betri en að endursenda vörurnar. Samtals hafi stefndi greitt stefnanda hærri fjárhæð en nemi stefnufjárhæð.
Varakröfu sína byggir stefndi á sáttaboði að fjárhæð 6.602,90 EUR, auk vaxta samkvæmt íslenskum vaxtalögum, sem stefndi hafi boðið stefnanda án viðurkenningar á greiðsluskyldu.
Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnanda. Greiðslukrafa stefnanda hafi verið sett fram í bréfi dagsettu 31. ágúst 2005 og eigi dráttarvextir að reiknast frá þeim degi samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Mótmælir stefndi að gildi hins staðlaða texta sem fram komi á reikningum hafi verið gildandi í viðskiptum aðila.
Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfu- og samningaréttar auk ákvæða 28. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Óumdeilt er að málsaðilar áttu í viðskiptum og keypti stefndi af stefnanda ýmsar vörur og þjónustu. Samkvæmt framburði fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnda við aðalmeðferð málsins hafði stefndi keypt þær vörur og þegið þá þjónustu sem krafist er greiðslu fyrir í málinu samkvæmt framlögðum reikningum.
Stefndi byggir á því að um reikningsviðskipti hafi verið að ræða og hafi allir umkrafðir reikningar verið greiddir. Auk þess sem þurft hafi að farga vörusendingu frá stefnanda, sem hafi verið gert með hans samþykki, og hafi andvirði þeirrar sendingar átt að koma til frádráttar skuld stefnda við stefnanda. Einnig hafi stefndi greitt 10.000 EUR inn á reikning nr. 253169607.
Við aðameðferð málsins, hinn 27. október 2005, óskaði stefndi eftir að koma að þeirri málsástæðu, að á því sé byggt að stefnandi eigi ekki lengur þá kröfu sem hann byggi dómkröfu sína á í málinu, sbr. dskj. nr. 35, þar sem staðfest sé að saldo á viðskiptareikningi stefnda sé 0 evrur og því sé um að ræða aðildarskort stefnanda. Lögmaður stefnanda mótmælti því að stefndi kæmi að nýrri málsástæðu þar sem hún væri of seint fram komin.
Í greinargerð stefnda var skorað á stefnanda að leggja fram viðskiptareikning Fjölprents ehf., en það fyrirtæki var sameinað stefnda hinn 1. janúar 2003, eins og að framan greinir. Stefnandi varð við þessari áskorun hinn 24. maí 2005 og lagði fram viðskiptayfirlit á dskj. nr. 35, sem sýndi að 31. desember 2003 hafi verið færð ráðstöfun 30 krafna, samtals að fjárhæð EUR 30.670,91, sem er stefnufjárhæðin. Texti hverrar færslu er: „Til minnis...millifærsla Fjölprent til Guni”, en þar mun vera átt við Gunigroup B.V. Investors. Að þessum færslum loknum var skuld stefnda við stefnanda tiltekin 0,00.
Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skulu málsástæður og mótmæli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Að öðrum kosti má ekki taka slíka yfirlýsingu til greina nema með samþykki gagnaðila. Þegar það er virt, að stefnandi lagði fram umræddan viðskiptareikning að áskorun stefnda í þinghaldi eftir að greinargerð hafði verið lögð fram, svo og það að fyrirsvarsmaður stefnanda gaf ekki skýrslu við aðalmeðferð málsins, eins og boðað hafði verið, verður að telja að málsástæða stefnda um aðildarskort, sem sett var fram við aðalmeðferðina, sé ekki of seint fram komin. Hins vegar liggur frammi yfirlýsing stjórnanda fyrirtækisins Gunigroup B.V. Investors, um að krafan hafi aftur verið framseld til stefnanda hinn 1. janúar 2004. Samkvæmt því er stefnandi réttur aðili málsins og verður því ekki fallist á að sýkna beri stefnda vegna aðildarskorts.
Eins og að framan greinir byggir stefndi og á því að krafan hafi verið greidd stefnanda. Í málinu nýtur aðeins við fullyrðinga fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnda, sem og starfsmanna stefnda, um að farga hafi þurft vörusendingu frá stefnanda. Gegn neitun stefnanda er því með öllu ósönnuð sú fullyrðing stefnda að þetta hafi verið gert með samþykki stefnanda og andvirði vörusendingar að fjárhæð 9.445,31 EUR eigi að koma til frádráttar stefnufjárhæðinni. Kemur þá til skoðunar hvort greiðsla að fjárhæð 10.000 EUR, sem stefndi innti af hendi inn á reikning nr. 253169607, eigi að koma til lækkunar dómkröfum, eins og stefndi heldur fram. Samkvæmt framlögðum greiðsluseðli var greiðsla þessi innt af hendi inn á reikning í eigu Van Straaten en ekki stefnanda og kemur þar ekkert fram fyrir hvað verið er að greiða. Þar sem ekki liggur fyrir að umrædd innborgun hafi borist stefnanda, er ekki unnt að fallast á, gegn neitun stefnanda, að um greiðslu á skuld stefnda við stefnanda hafi verið að ræða.
Með því að ekkert er fram komið sem sýnir fram á að stefndi hafi greitt stefnanda umkrafða skuld, samkvæmt framanrituðu, verður krafa stefnanda á hendur stefnda tekin til greina eins og hún er fram sett. Framlagðir reikningar stefnanda bera með sér að gjalddagi þeirra sé 14 dögum frá útgáfudegi og krefst stefnandi dráttarvaxta frá gjalddaga. Samkvæmt bréfi framkvæmdastjóra stefnanda, sem lagt var fram hinn 31. maí sl., kemur hins vegar fram að ekki hafi verið innheimtir vextir af skuldum stefnda í viðskiptum aðila. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, verður stefndi dæmdur til þess að greiða dráttarvexti af kröfunni mánuði eftir dagsetningu innheimtubréfs, eða frá 23. september 2004.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Bros, auglýsingavörur ehf., greiði stefnanda, Van Straaten B.V., 30.670,91 EUR, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 23. september 2004 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.