Hæstiréttur íslands

Mál nr. 399/2010


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 10. febrúar 2011.

Nr. 399/2010.

K

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

gegn

M

(Eva Dís Pálmadóttir hrl.)

Börn. Forsjá. Gjafsókn.

M og K deildu um forsjá og umgengnisrétt við dóttur þeirra, A. Í héraðsdómi var dómkvaddur sérfróður maður til að leggja mat á hæfni aðilanna til að fara með forsjána. Var M falin forsjáin, en héraðsdómur taldi það í samræmi við skýra niðurstöðu matmannsins, sem fengi styrka stoð í öðrum gögnum málsins. Í dómi Hæstaréttar var vísað í matsgerðina þar sem því hafi meðal annars verið lýst að hjá K hafi greinst „talsvert þunglyndi og samfara því áhætta vegna áfengisneyslu.“ Teldi matsmaðurinn að K þyrfti meðferð við þunglyndi og áfengisvanda og hann hefði ráðlagt K að leita hennar, en barninu væri ekki óhætt hjá K á meðan hún hefði ekki tekið á þessum vanda. Samkvæmt gögnum, sem K hefði lagt fram í Hæstarétti, hefði hún gengist undir áfengismeðferð frá 3. til 11. maí 2010. Ekkert væri á hinn bóginn fram komið um að hún hefði gert neitt annað til að ráða bót á þeim vanda, sem um ræddi í matsgerðinni. Að þessu virtu, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, var hann staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 22. júní 2010. Hún krefst að sér verði dæmd forsjá dóttur aðila, A, sem fædd er [...] 2007, til 18 ára aldurs hennar. Þá krefst áfrýjandi þess að kveðið verði á um inntak umgengni stefnda við stúlkuna og honum gert að greiða einfalt meðlag með henni. Loks krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi var undir rekstri málsins í héraði dómkvaddur sérfróður maður til að leggja mat á hæfni aðilanna til að fara með forsjá dóttur þeirra. Í niðurstöðum matsgerðarinnar var því meðal annars lýst að hjá áfrýjanda hafi greinst „talsvert þunglyndi og samfara því áhætta vegna áfengisneyslu.“ Teldi matsmaðurinn að áfrýjandi þyrfti meðferð við þunglyndi og áfengisvanda og var þess getið að hann hefði ráðlagt áfrýjanda að leita hennar, en barninu væri ekki óhætt hjá áfrýjanda á meðan hún hefði ekki tekið á þessum vanda. Samkvæmt gögnum, sem áfrýjandi hefur lagt fram í Hæstarétti, gekkst hún undir áfengismeðferð á Vogi á tímabilinu frá 3. til 11. maí 2010. Ekkert er á hinn bóginn fram komið um að hún hafi gert neitt annað til að ráða bót á þeim vanda, sem um ræðir í matsgerð. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, sem var skipaður sérfróðum meðdómsmönnum, verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Allur gjafsóknarkostnaður stefnda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

          Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

          Allur gjafsóknarkostnaður stefnda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 450.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Austurlands 28. maí 2010.

Mál þetta, sem höfðað var 16. október 2009, var tekið til dóms að aflokinni aðalmeðferð 16. apríl 2010.

Stefnandi er M, [...], [...].

Stefnda er K, [...], [...].

Stefnandi krefst þess að samkomulag hans og stefndu dags. 24. september 2008, um sameiginlega forsjá barnsins A, kt. [...], verði fellt úr gildi, að honum verði með dómi falin óskipt forsjá barnsins, að stefndu verði gert að greiða einfalt meðlag með barninu frá 1. október 2009 til 18 ára aldurs og jafnframt að dómari kveði á um inntak umgengnisréttar við barnið. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Skilja verður dómkröfur stefndu þannig að hún krefjist sýknu af kröfu stefnanda um honum verði fengin forsjá barnsins, sem og af kröfu hans um greiðslu meðlags.

Jafnframt krefst stefnda þess að henni verði með dómi veitt forsjá barnsins, að stefnandi verði dæmdur til greiðslu einfalds meðlags með barninu og að dómurinn kveði á um umgengni A við þann aðila málsins sem ekki fái forsjána. Þá krefst stefnda málskostnaðar án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt hér fyrir dómi.

Við aðalmeðferð málsins voru teknar skýrslur af aðilum. Þá gáfu skýrslu foreldrar stefnanda, B og C og móðir stefndu D, sem og fyrrum sambýlismaður stefndu og faðir yngra barns hennar, E. Tekin var skýrsla af F sálfræðingi, en hann var dómkvaddur til að vinna matsgerð í málinu og einnig af G sálfræðingi, sem vann forsjárhæfnismat á stefndu að beiðni barnaverndaryfirvalda í [...]. Þá voru teknar skýrslur af H, yfirfélagsráðgjafa félagsþjónustusviðs [...] og I, félagsáðgjafa hjá fjölskylduþjónustu [...]. Einnig gáfu skýrslur J, dagmóðir á [...] og K vinkona stefndu.

I

Í stefnu málsins er málsatvikum lýst með þeim hætti að málsaðilar hafi byrjað að búa saman haustið 2006, en samband þeirra hafi byrjað þá um vorið. Fyrst um sinn hafi þau búið hjá foreldrum stefnanda en haustið 2007 hafi þau flutt í eigin leiguíbúð. Þau hafi eignast barnið A [...]. [...] [...], en slitið samvistir í apríl 2008.

Hafi þau farið sameiginlega með forsjá barnsins í kjölfar sambúðarslita og geri það enn. Í upphafi hafi ekki verið gengið frá samkomulagi um umgengni, en fyrir tilstilli barnaverndarnefndar [...] hafi aðilar gert með sér samkomulag þann 22. apríl 2008 og hafi það falið í sér að barnið skyldi dvelja hjá stefndu frá þeim tíma og til 10. maí sama ár, en frá þeim tíma hafi barnið átt að dvelja hjá aðilum til skiptis tvær vikur í senn hjá hvoru þar til gengið hefði verið formlega frá sambúðarslitum, forsjá og umgengni. Samkomulag um sameiginlega forsjá hafi verið gert með formlegum hætti 24. september 2008 og hafi verið staðfest af sýslumanni. Lögheimili barnsins skyldi vera hjá stefndu. Ekki hafi verið kveðið á um umgengni í samkomulaginu.

Um það leyti sem barnið hafi átt afmæli í [...] [...] hafi stefnda fengið að flytja til stefnanda með barnið og búa hjá honum þar til hún hefði eignast barnið L, [...]. [...] [...]. Eftir að barnið hafi fæðst hafi hún búið með E barnsföður sínum. Í októberlok 2008 hafi barnið því byrjað á leikskóla á [...] og hafi verið þar fram yfir áramót 2008/2009. Barnið hafi einnig dvalið hjá stefnanda í 2 – 3 vikur í febrúar 2009 og hafi þá líka verið í leikskólanum. Að lokum hafi svo barnið dvalið hjá stefnanda fyrir tilstilli barnaverndarnefndar á tímabilinu mars 2009 til sumarsins 2009 og hafi þá einnig verið á sama leikskóla.

Í lok júní 2009 hafi stefnandi og fjölskylda hans haft samband við stefndu til að kanna hvort barnið ætti þá að snúa aftur til hennar en það hafi ekki hentað henni. Þau hafi því beðið eftir að stefnda hefði samband í því skyni að fá barnið aftur, en það hafi hún gert um miðjan júlí. Barnið hafi farið til stefndu í lok júlí 2009, en verið í umgengni við stefnanda. Kveður stefnandi að umgengni hafi eftir það verið háð duttlungum stefndu og hafi lítið verið tekið tillit til hentugleika stefnanda. Telji stefnandi að stefnda hafi sýnt af sér mikinn stífleika hvað umgengni varði, t.d. hvað varði að hafa reglu á henni eða leyfa stefnanda að hafa barnið í vaktafríum.

Stefnandi hafi reynt að ræða við stefndu um breytt lögheimili barnsins en hún hafi ekki verið til viðræðu um það. Barnaverndaryfirvöld muni einnig hafa rætt ýmsar breytingartillögur við hana en án árangurs. Þann 17. september 2009 hafi stefnandi lagt fram kröfu um breytta skipan forsjár barnsins hjá sýslumanni. Stefnda hafi hafnað kröfu um slíkt og sýslumaður því vísað málinu frá. Hafi stefnandi því talið sér nauðsynlegt með tilliti til allra aðstæðna að höfða forsjármál til óskiptrar forsjár dóttur málsaðila.

Í greinargerð stefndu er um málsatvik vísað til framangreindrar lýsingar í stefnu á málsatvikum með eftirfarandi athugasemdum og leiðréttingum:

Stefnda hafi óskað eftir fjárhagslegri aðstoð hjá félagsmálasviði [...] og hafi þá hafist afskipti félagsmálayfirvalda af hennar málum. Komið hafi athugasemdir til félagsmálayfirvalda utan úr bæ um stefndu og börn hennar. Þær athugasemdir hafi verið kynntar lögmanni hennar á fundi með félagsmálafulltrúa. Séu athugasemdirnar ýmist tilhæfulausar eða lúti að öðrum atriðum en aðbúnaði barnanna, t.d. um sóðaskap af völdum húsdýrs á svölum fjölbýlishússins þar sem stefnda hafi búið og að stefnda væri úti að skemmta sér með fíkniefnaneytendum o.s.frv. Varðandi það síðastnefnda hafi stefnda aldrei neytt fíkniefna og hafi boðið félagsmálayfirvöldum að hún geti hvenær sem er gengist undir fíkniefnapróf því til staðfestu að hún neyti ekki slíkra efna.

Því sé mótmælt sem fram komi í stefnu að umgengni barnsins við stefnanda hafi verið háð duttlungum stefndu. Þvert á móti hafi hún staðið nákvæmlega við alla samninga um umgengni og lagt sig fram um að verða við óskum stefnanda um að umgangast barnið. Telji stefnda að samkomulag þeirra málsaðilanna um umgengni og málefni barnsins sé býsna gott, en hins vegar hafi móðir stefnanda og aðrir skipt sér helst til mikið af þeirra málum. Það sé eina ósamkomulagið eða togstreitan sem unnt sé að tala um.

Nú í haust hafi slitnað upp úr sambúð stefndu og seinni barnsföður hennar, E, en þau hafi haldið heimili að [...] á [...]. Hafi þetta leitt til þess að stefnda hafi flutt með börnin þann 16. október sl. til foreldra sinna að [...] á [...]. E hafi flutt til sinna foreldra á [...].

Aðstæður stefndu á [...] séu góðar. Þar búi hún hjá foreldrum sínum og þremur systkinum, 16, 6 og 4 ára. Húsnæðismálin séu ágæt.

Fjármál stefndu séu þannig að í sambúð hennar og E hafi fyrirkomulagið verið það að stefnda hafi verið heimavinnandi og hafi ekki aflað tekna utan heimilis. Hún fái ekki lengur fæðingarorlofsgreiðslur vegna yngra barnsins og hafi ekki fengið vinnu eftir sambúðarslitin. Foreldrar hennar séu hins vegar algerlega reiðubúnir að hjálpa henni fjárhagslega. Þar bjóðist henni endurgjaldslaust húsnæði, fæði og annað viðurværi fyrir sig og börn sín meðan hún svo kjósi.

Stefnda hafi sótt um störf og sé að leita að atvinnu í [...] og hafi jafnframt sett sig í samband við félagsmálayfirvöld þar og bíði eftir leikskólaplássi fyrir börnin.

Undanfarnar vikur hafi stefnda dvalið talsvert hjá kunningjafólki hér eystra og leyft A að vera mikið með föður sínum. Á þeim tíma hafi málsaðilar einnig rætt talsvert sín á milli um sakarefni máls þessa.

II

Mál það sem hér er til úrlausnar var eins og fyrr segir höfðað 16. október 2009 og þingfest 20. sama mánaðar. Þann 3. nóvember 2009 sendi stefnandi dóminum kröfu um að dómurinn úrskurðaði um forsjá barnsins til bráðabirgða ásamt öðrum atriðum meðan málið væri til meðferðar. Í þinghaldi 7. desember þegar flytja átti málið um framangreindar kröfur var upplýst að barnaverndaryfirvöld hefðu með úrskurði 30. nóvember sama ár vistað barn aðila utan heimilis í tvo mánuði frá þeim degi. Var barnið vistað hjá foreldrum stefnanda á [...]. Að svo komnu máli féllu lögmenn frá kröfum sínum um bráðabirgðaúrskurð.

Að sameiginlegri ósk málsaðila var 15. desember 2009 dómkvaddur matsmaður, F sálfræðingur, til að framkvæma hefðbundið forsjárhæfnismat á málsaðilum. Lá matsgerð fyrir 6. apríl 2010.

Með tölvubréfi til dómsins 10. mars sl. óskaði lögmaður stefnanda eftir fyrirtöku málsins og boðaði að af hálfu hans yrðu kröfur til bráðabirgða hafðar uppi að nýju. Var málið tekið fyrir 15. mars og þar lögð fram beiðni um úrskurð til bráðabirgða samkvæmt 35. gr. barnalaga. Í síðastnefndri beiðni kemur fram um málsatvik að eftir að stefna hafi verið skrifuð hafi stefnda flutt með barnsföður sínum til [...], slitið samvistum við hann og flutt á [...] með barnið, a.m.k. að nafninu til. Þar hafi hún átt lögheimili síðan en þó dvalið fyrst á [...] og síðan á höfuðborgarsvæðinu frá því síðari hluta nóvembermánaðar 2009.

Þann 30. nóvember hafi barnaverndarnefnd [...] kveðið upp úrskurð þar sem bæði börn stefndu hafi verið kyrrsett utan heimilis hennar í tvo mánuði. Í samráði við stefnanda hafi verði ákveðið að barn málsaðila þessa máls skyldi vistað hjá foreldrum hans. Það hafi þá síðan fyrr í þeim mánuði dvalið á [...] og verið í leikskóla þar. Eftir að úrskurður hafi verið kveðinn upp hafi það dvalið hjá fósturforeldrum en notið ótakmarkaðrar umgengni við stefnanda sem hafi verið mikið með barnið. Eftir að úrskurðurinn hafi runnið út hafi barnið áfram dvalið hjá fósturforeldrum fyrir milligöngu barnaverndaryfirvalda með munnlegu samþykki stefndu.

Stefnda hafi ekki í lok febrúar sóst eftir að hitta barnið frá því í nóvember sl. og hafi dvalið í Reykjavík og á [...] hjá ýmsum aðilum. Fyrir milligöngu barnaverndaryfirvalda hafi stefndu verið flogið [...] í lok febrúar og hafi hún þá notið umgengni við barnið tvær helgar í röð. Fósturforeldrar hafi átt að sækja barnið í seinna skiptið þann 6. mars klukkan 17 en þegar þau hefðu verið búin að aka frá [...] til [...] hafi þau fengið þær upplýsingar að stefnda hafi síðan farið með barnið á [...]. Upplýsingar liggi nú fyrir um að stefnda hafi síðan farið áfram til [...] en ekki sé vitað hvort barnið hafi farið með eða dvelji á [...]. Barnaverndaryfirvöld í [...] og í [...] muni nú vera að afla upplýsinga um það. Til hafi staðið að stefnda hitti matsmann með barninu helgina 13. til 14. mars.

Tilraunum stefnanda til að leita sátta í gegn um lögmann stefndu hafi ekki verið svarað og því sé krafan sett fram.

Ekki kom til þess að úrskurður yrði kveðinn upp um síðastnefnda kröfu þar sem málsaðilar gerðu með sér dómsátt um fyrirkomulag umgengni meðan á meðferð forsjármálsins stæði. Var í sáttinni mælt fyrir um að barnið dveldi samfellt í tvær vikur hjá hvoru þeirra og yrði barnið ávallt sótt af þeim sem fá ætti barnið til sín.

Við aðalmeðferð kom fram að stefnda og barnsfaðir yngra barns hennar, E, hafa gert með sér samning um sameiginlega forsjá og hefur barnið lögheimili hjá föður. Er samningurinn að sögn tímabundinn og gildir til ársloka 2011. Þá kom einnig fram hjá stefndu í aðilaskýrslu hennar og einnig hjá E að þau veltu fyrir sér að hefja aftur sambúð, en um það hefði ekki verið tekin ákvörðun. Kvað stefnda að ef svo færi vissi hún ekki hvar þau myndu búa, það færi eftir því hvar þau fengju vinnu. E kvaðst vera atvinnulaus eins og stendur.

Þá liggur fyrir að eftir að matsmaður kannaði aðstæður stefndu á [...], þar sem hún bjó á heimili foreldra sinna, tók hún á leigu íbúð á [...] og er að sögn flutt þangað.

III

Í máli þessu liggja fyrir ítarleg gögn sem stafa frá barnaverndaryfirvöldum í [...] og lýsa afskiptum þeirra yfirvalda af málefnum stefndu og barna hennar, m.a. þegar hún var í sambúð með E. Þykir ekki ástæða til að rekja þau gögn sérstaklega. Þá liggur fyrir í málinu sálfræðilega álitsgerð á forsjárhæfni K unnin af G sálfræðingi að beiðni barnaverndarnefndar [...]. Óskaði nefndin eftir svari við nánar greindum 10 spurningum, en grein verður gerð fyrir þeim hér síðar. Greinir í matsgerðinni að G hafi hitt stefndu fimm sinnum á tímabilinu 31. janúar og fram í mars 2010 og lagði hann fyrir stefndu nokkur sálfræðipróf. Álitsgerðin er dagsett 31. mars 2010.

Rétt þykir að gera grein fyrir helstu niðurstöðum G hér en matsgerð hans er ítarleg. Fram kemur í matsgerðinni að stefnda hafi almennt verið til ágætrar samvinnu í viðtölum og svörum sálfræðilegra prófa. Hafi sálfræðingnum samt þótt hún oft svara yfirborðslega og af ónógri dýpt þegar um mikilvægar spurningar hafi verið að ræða, einkum um foreldrahæfni hennar sjálfrar og tengslin við börnin. Hún hafi hins vegar sagst ekki hafa meira að segja. Þegar talið hafi borist að stefnanda, móður hans og starfsmönnum barnaverndaryfirvalda hafi stefnda oft orðið stórorð, reið og jafnvel hótandi. Ljóst hafi verið að hún hafi talið þessa aðila reyna eins og þeir gætu að bregða fyrir sig fæti. Þá kemur fram að stefnda hafi virst leggja sig eðlilega fram við þau sálfræðilegu próf og matslista sem G hafi sett fyrir hana og efnislegar niðurstöður myndi ákveðinn rauðan þráð á milli sjálfsmats hennar og túlkunar prófanna.

Í niðurstöðukafla matsins greinir m.a. að í viðtölum hafi þær upplýsingar sem stefnda hafi gefið um veru sína og athafnir á [...] og [...] verið fremur yfirborðslegar og torvelt að fá fram nákvæmar lýsingar á atburðarásinni. Hins vegar hafi hún átt fremur auðvelt með að tjá andúð sína á þeim, s.s. tengdafólki og fagfólki, sem ekki hafi verið henni að skapi og hún hafi talið að ynni gegn sér. Það sé hins vegar ljóst að hún hafi verið í tveimur sambúðum og hafi eignast tvö börn. Hún hafi slitið þessum sambúðum og hafi ekki talið framtíð í þeim. Þar hafi komið til verulegt álag vegna lágra tekna, samskiptaörðugleika og ósamkomulags vegna uppeldisaðferða.

Niðurstöður sálfræðigreiningar sýni heildargreind stefndu á mörkum lágrar greindar og neðri meðalgreindar. Styrkleikar liggi helst í sjónræna og verklega sviðinu en veikleikarnir séu talsverðir á málsviðinu, í skilningi, þekkingu og á úrvinnslusviðum. Nokkrar styrkleikasveiflur séu á milli þátta sem geti gert stefndu örðugt að nýta greind sína nægilega vel.

Stefnda gefi ekki skýra heildarmynd af sér á persónuleikaprófum, en fram komi bæði jákvæðar og neikvæðar myndir. Hve jákvæð eða neikvæð myndin sé virðist ráðast nokkuð af ytra umhverfi og félagslegum aðstæðum sem stefnda sé í hverju sinni. Það komi þá jafnframt fram að stefnda eigi erfitt með að rísa undir félags-tilfinningalegu álagi. Þegar álagið aukist þá verði tilfinningasveiflurnar stærri og meiri og fram komi reiðivandamál og fjandsemi, hvatvísi og jafnvel þunglyndiseinkenni. Jafnframt glími stefnda við langvarandi kvíðavandamál (kvíðni) sem tengist aðlögunarvanda á ýmsa vegu. Talsverðar varnir séu til staðar og megi reikna með að stefnda sýni mikla andstöðu í meðferð og ráðgjöf.

Á álagsprófi fyrir foreldra þar sem félags-tilfinningalegt álag sé sett í uppeldislegt samhengi hafi mælingarnar verið merkjanlega fyrir ofan viðmiðunarmörk, Nokkuð há megingildi í heilsufari, þunglyndi móður og samskiptaörðugleikum við barnsföður dótturinnar hafi komið fram. Einnig komi fram að samskipti við dótturina veiti stefndu ekki næga örvun og umbun sem foreldri auk þess sem henni finnist telpan ekki eiga auðvelt með að aðlaga sig á sumum sviðum.

Stefnda dragi upp jákvæða en ekki nægilega djúpa mynd af sjálfri sér sem foreldri og tengslunum við börnin. Vissulega séu bæði börnin ung og stefnda hafi ekki verið mikið með dóttur sinni þegar hún hafi svarað þessum spurningum en þessi viðbrögð hafi verið almenn og hún hafi svarað því til að hún hefði ekki meira um málið að segja. G hafi ekki síst reynt að þrýsta á stefndu varðandi framtíðarhugmyndir hennar og hvernig hún hygðist útfæra sínar hugmyndir um uppeldi barnanna, einkum dóttur sinnar fyrst um sinn. Ekki verði sagt að slíkar útfærslur hafi komið fram. Í símtali við móður stefndu hafi komið fram að foreldrar stefndu muni styðja hana í foreldrahlutverkinu. Þá koma fram hjá G, í kafla sem ber yfirskriftina Lokaniðurstaða, svör við þeim tíu spurningum sem óskað hafði verið eftir að hann leitaði svara við.

1. Forsjárhæfni móður og skilningur hennar á þörfum og hagsmunum barnanna.

Svar G er að forsjárhæfni móður hafi hvort tveggja styrkar og veikar hliðar. Þær styrku felist í því að hún beri ást og umhyggju fyrir börnum sínum, sé góð við þau og vilji setja þeim mörk í uppeldinu og vilji að þeim farnist vel í lífinu. Engar ótvíræðar vísbendingar séu heldur um að hún hafi neytt fíkniefna. Veikleikarnir séu hins vegar þeir að stefnda hafi enga reynslu af því að bera ein alhliða ábyrgð á börnum sínum og hafi aldrei verið samfellt ein með þau, annast þau uppeldislega í sínu húsnæði samhliða því að vera eina fyrirvinnan.

2. Vilji móður til að annast uppeldishlutverk sitt.

Svar G er að í orðum láti stefnda í ljós fullan vilja til að annast uppeldishlutverk sitt og hún ráði vel við sumt af því, s.s. almenna umönnun og að setja börnunum mörk meðan börnin séu ung. Hins vegar sé ekki eins ljóst hve vel henni tækist að setja þeim mörk á unglingsárum, aðstoða þau við nám efri hluta grunnskólans og halda utan um alla heimils- og uppeldisþætti til langs tíma án þess að bresta úthald.

3. Persónulegir eiginleikar, andlegt atgervi og félagslegar aðstæður móður.

Svar G er að ekki sé fyllilega ljóst hver mótun stefndu sé, því hún gefi ekki fyllilega skýra mynd af sér, ef til vill vegna innri varna. Heildargreind stefndu sé almennt á mörkum lágrar greindar og lægri meðalgreindar. Ekkert bendi til annars en að hún geti almennt spjarað sig í almennri vinnu en hún muni ólíklega leggja í langskólanám. Verklegt starfsnám gæti þó hentað henni vel.

Persónuleiki stefndu hafi bæði ljósar og dökkar hliðar sem ráðist talsvert af því hverjar hennar ytri aðstæður séu hverju sinni. Við félagslega jákvæðar og styðjandi aðstæður líði henni vel og hún njóti sín. Þegar hún þurfi hins vegar að glíma við félags-tilfinningalegt álag komi upp áberandi kvíðaeinkenni, reiðivandamál, hvatvísi og jafnvel þunglyndi. Svör sem stefnda hafi veitt í uppeldislegu samhengi af þessum toga hafi mælst yfir viðmiðunarmörkum.

Félagslegar aðstæður stefndu hafi ekki verið fastmótaðar undanfarið. Hún hafi, eftir að hún hafi flutt að austan, verið til skiptis hjá foreldrum sínum á [...], í [...] hjá vinkonu sinni og á tímabili hjá vini sínum í [...]. Stefnda hafi látið uppi að hún muni sækja um vinnu og húsnæði á [...]. Það hafi hún ekki gert enn, svo G viti til. Hún virðist þó alltaf geta fengið húsaskjól á heimili foreldra sinna.

4. Andlegt ástand móður.

Svar G er að eins og komi fram hér að framan þá fari líðan stefndu nokkuð eftir því hvort hún telji sig þurfa að takast á við umhverfið eða ekki. Þegar henni finnist á bjáta þá versni ástand hennar samhliða því. Geðræn einkenni séu vissulega fyrir hendi í formi kvíðni (krónískur kvíði), þunglyndis, hvatvísi, tifinningasveiflna og reiðivandamála.

5. Þörf fyrir meðferð og/eða stuðningsúrræði og þá hvaða meðferð /stuðningsúrræði?

Svar G er að stefnda hefði þörf fyrir hugræna atferlismeðferð. Slík meðferð myndi fyrst og fremst beinast að því að gera stefndu kleift að taka á kvíða- og þunglyndiseinkennum en einnig reiðivandamálum. Hafi þetta meðferðarform skilað góðum árangri á þessum sviðum.

6. Hæfni móður til þess að nýta sér meðferð og/eða stuðningsúrræði.

Svar G er að það komi nokkuð skýrt fram í niðurstöðum persónuleikaprófs að stefnda sýni talsverðar varnir og telji sig ekki þurfa að breyta hegðun sinni. Hún sliti meðferðinni því líklega allt of snemma (ef hún hæfi hana) m.a. vegna þess að hún eigi í erfiðleikum með að tengjast fólki tilfinningalega.

7. Hverjir séu styrkleikar og veikleikar móður í uppeldislegu tilliti.

Svar G er að styrkleikarnir séu ást hennar og umhyggja fyrir börnunum og vilji til að vera þeim góð og að þeim líði vel. Einnig kveðist hún geta sett þeim mörk. Veikleikarnir séu samofnir reynsluleysi hennar á fjölmörgum sviðum s.s. að taka ein alhliða ábyrgð á barnauppeldi til langs tíma, geta stutt börnin námslega til langs tíma, samfara því að sinna heimilisstörfum og vinnu.

8. Tengsl milli móður og barna m.t.t. aldurs og þroska. Einnig tengsl annarra sem standi börnunum nærri.

Svar G, sem hann kveður aðeins byggjast á einhliða mati stefndu, er að hún telji tilfinningatengsl sín og barnanna vera jákvæð náin og gagnkvæm.

9. Hvort velferð eða þroska barnanna sé ógnað með því að alast upp í umsjá móður.

G kveðst kjósa að orða svar sitt þannig að það sé nauðsynlegt til þess að börnunum farnist vel í lífinu í umsjá stefndu að hún sjálf búi við félags-tilfinningalegt öryggi og nokkuð fyrirsjáanlega og trygga fjárhagslega afkomu. Einnig að stefnda sæki sér meðferð, sbr. tölulið 5 hér framan. Þá kveðst G vilja undirstrika mikilvægi þess að stefnda sæki viðurkennt uppeldisnámskeið, eitt eða fleiri. Það sé mjög nauðsynlegt að stefnda átti sig á því að uppeldi sé kerfisbundin vinna og til þess þurfi mikið úthald ef það eigi að takast.

10. Hvort hagsmunum barnanna sé „stefnt í verulega hættu“ fari móðir með forsjá þeirra.

G telur svarið vera nei en hafi megi svar við tölulið nr. 9 í huga.

IV

Eins og fyrr greinir var F sálfræðingur dómkvaddur að beiðni beggja málsaðila til að framkvæma forsjárhæfnismat.

Var í beiðninni óskað eftir mati og rökstuddu áliti um eftirfarandi atriði:

1. Hæfi aðila hvors um sig til þess að fara með forsjá barnsins, þ.á.m. helstu persónuleikaeinkenni og tengslahæfni.

2. Aðstæður hvors aðila, eftir því sem kostur væri.

3. Tengsl barnsins við aðila, eftir því sem kostur væri.

4. Stöðu og líðan barnsins og sérþarfir, ef við ætti, og getu foreldra til að sinna þeim.

Auk þess var þess óskað að matsmaður tiltæki í matsgerð annað það sem máli kynni að skipta vegna forsjár barnsins, sérstaklega með vísan til þeirra atriða sem tilgreind séu í athugasemdum við 2. mgr. 34. gr. í frumvarpi því sem varð að barnalögum nr. 76/2003. Einnig var óskað eftir mati á því hvernig best henti högum barnsins að haga umgengni þess við það foreldri sem það væri ekki búsett hjá. Sé þess vænst að matsmaður leggi fyrir aðila og barnið þau próf sem hann telji nauðsynleg til rökstuðnings matsgerðar sinnar.

Í matsgerð sem dagsett er 6. apríl 2010 greinir m.a. um framkvæmd matsins að athugun matsmanns hafi farið fram á tímabilinu 22. janúar til 26. mars 2010. Viðtöl og prófanir á föður hafi farið fram dagana 23. janúar og 26. mars og heimsókn til föður og barns á [...] hafi verið sama dag. Síðar í matsgerðinni kemur fram að matsmaður hafi hitt stefnanda ásamt A á þáverandi heimili hans að [...], [...], en hafi hitt stefnanda einan á nýju heimili hans að [...] á [...] þann 26. mars. Viðtöl og prófanir á stefndu hafi verið dagana 29. janúar, 4. og 9. febrúar og heimsókn til móður og barns á [...] hafi verið 13. mars. Í matsgerðinni er í sérstökum köflum fjallað um aðbúnað og aðstæður hjá stefnanda og stefndu. Athugun á aðstæðum stefndu fór fram á heimili móður hennar að [...] á [...]. Fyrir liggur í málinu að síðan þá hefur stefnda flutt í leiguhúsnæði að [...] á [...], en matsmaður hitti hana ekki þar.

Þá er frá því greint að athugun matsmanns hafi farið fram með viðtölum, sálfræðiprófum og með heimsóknum þar sem skoðuð hafi verið tengsl foreldra og barns. Vegna ungs aldurs barnsins hafi það ekki haft þýðingu að leggja fyrir fjölskyldutengslapróf. Notuð hafi verið fimm sálfræðipróf.

Þykir hér rétt að gera grein fyrir hverju prófi fyrir sig, eins og matsmaður gerir, og síðan að greina niðurstöðu viðkomandi prófs varðandi hvorn málsaðila fyrir sig.

Í matsgerð kemur fram um stefnanda að hann hafi verið samvinnuþýður við sálfræðipróf og hafi lagt sig fram og hafi tekið athugunina alvarlega.

Um stefndu segir að við sálfræðiprófun hafi hún verið samvinnuþýð og opinská þó hún hafi verið óörugg og í varnarstöðu til að byrja með. Hún hafi svarað af mun meiri hreinskilni en algengt sé hjá foreldrum sem eigi í forsjárdeilum.

Í fyrsta lagi hafi verið lagt fyrir málsaðila: Persónuleikapróf MMPI-II. Greinir í matsgerð að próf þetta sé í formi sjálfsmats. Það greini margvísleg geðræn einkenni eða kvilla og gefi vísbendingar um persónuröskun á klínískum kvörðum og viðbótarkvörðum. Það hafi nokkra réttmætiskvarða til að kanna trúverðugleika svara. Svör séu metin með tilliti til svörunar hjá stóru bandarísku úrtaki sem rannsóknir sýni að passi til viðmiðunar hérlendis.

Niðurstöður prófsins, að því er stefnanda varðar, benda til að hann hafi fegrað nokkuð þá mynd sem hann hafi gefið af sér svo sem algengt sé hjá foreldrum í forsjárdeilum. Engin einkunn hans á klínískum kvörðum prófsins slái út yfir almenn mörk. Á viðbótarkvörðum komi fram nokkrar áhyggjur hans af streituverkjum og líkamlegri heilsu (64 stig miða við meðaltal 50). Sjálfsstyrkur mælist nálægt meðaltali (56) og sömuleiðis sjálfstraust (59), en þar hafi hann hug á að styrkja sig og sé um sumt ósáttur við sjálfan sig. Vísbending sé um undirliggjandi reiði eða bælda andúð (72). Þeir sem fái svipaðar einkunnir séu oft hagsýnir og praktískir í athöfnum sínum, hafi frekar fá áhugamál en kunni vel að meta lífið. Þeir fari gjarnan hefðbundnar félagslegar leiðir og hafi jákvætt viðhorf til fjölskyldu sinnar og skynji frá henni stuðning.

Niðurstöður sama prófs að því er stefndu varðar eru sagðar benda til dapurleika og kvíða. Hún finni sig misskilda og beitta ósanngirni og skynji sig í varnarstöðu. Henni hætti til að verða vondauf, orkulaus og áhugalítil. Langvarandi þreyta, svefnleysi og martraðir hái henni. Þeir sem fái svipaða útkomu á prófinu séu gjarnan félagslega virkir og sæknir í spennandi umhverfi. Þeir geti haft sterka trú á eigin dómgreind og staðið fastir á sínum þrátt fyrir lágan sjálfsstyrk (30 stig miðað við meðaltal 50) og lágt sjálfstraust (19 stig). Trúlegt sé að stefndu hætti til fljótfærni og þess að lenda upp á kant við suma aðra án þess að átta sig almennilega á eigin þætti í atburðarás. Hún leiti eftir félagsskap og samþykki frá öðrum til að létta sér tilveruna og líða betur, en virðist þó hætta til að draga sig í hlé og falla í þunga þanka. Áfengisneysla stefndu sé líkleg til að auka vansæld hjá henni en hún teljist vera í áhættu varðandi áfengisfíkn (78 stig). Niðurstöður bendi til þess að hún þurfi faglega hjálp til að styrkja sig og bæta líðan sína.

Þá lagði matsmaður persónuleikapróf Eysencks (EPQ) fyrir málsaðila. Er prófinu lýst þannig í matsgerð að það sé í formi sjálfsmats. Prófið greini þrjá þætti persónuleika, innhverfu/úthverfu, harðlyndi/þýðlyndi og tilfinningasemi/stöðuglyndi. Einnig sé réttmætiskvarði sem mæli hreinskilni í svörum próftaka. Útkoma próftakenda sé borin saman við meðaltal úrtaks íslenskra svarenda af sama kyni og á svipuðum aldri.

Um niðurstöðu prófsins gagnvart stefnanda kemur fram í matsgerð að útkoma á réttmætismælikvarða sýni að stefnandi hafi fegrað þá mynd sem hann hafi gefið af sér. Taka verði niðurstöðum prófsins með þeim fyrirvara að trúlega geri hann frekar lítið úr sumum af sínum mannlegu brestum eða horfi framhjá þeim. Allar aðrar einkunnir séu innan eðlilegra marka. Hann mælist þýðlyndur og stöðuglyndur. Tilhneiging sé í átt að úthverfu sem bendi til þess m.a. að hann njóti sín vel í félagsskap og við að sinna skapandi og spennandi verkefnum.

Um niðurstöðu prófsins gagnvart stefndu segir að stefnda hafi svarað af hreinskilni þannig að trúlegt sé að prófunin gefi rétta mynd af henni. Líkur bendi til að hún geti notið sín vel hvort sem er í einveru eða félagsskap annarra. Útkoman bendi til þess að hún sé viðkvæm tilfinningalega og fái þrálátar áhyggjur og sektarkennd. Henni hætti til að pirrast yfir ýmsu sem margir geti leitt hjá sér og stundum finna fyrir einmanaleika og leiða á lífinu.

Í matsgerð eru í báðum tilvikum settar fram tölulegar niðurstöður framangreinds prófs varðandi hvorn aðila fyrir sig en ekki þykir ástæða til að taka umræddar töflur beint upp hér.

Matsmaður lagði fyrir aðila DIP-Q persónuleikapróf. Er prófinu lýst svo í matsgerð að það sé spurningalisti í formi sjálfsmats. Viðmið séu greiningarkerfin DSM IV og ICD-10 fyrir persónuleikaröskun. Einnig sé lagt mat á líðan og ástand viðkomandi yfir síðastliðið ár og síðastliðinn mánuð.

Í niðurstöðum varðandi stefnanda eru sagðar koma fram vísbendingar um tilhneigingu til þráhyggju og áráttu. Þeir sem fái svipaðar einkunnir eigi oft erfitt með að treysta öðrum, hafi óvenjulega sýn á hluti og fari ótroðnar slóðir. Þeir kunni vel við sig bæði í einveru og í félagsskap annarra. Þeir hafi gjarnan töluvert sjálfsálit, sækist eftir athygli annarra og geti verið áhrifagjarnir. Þeim hætti til að taka óþarfa áhættur, t.d. í hraðakstri eða peningaeyðslu. Stefnandi lýsi sér í mjög góðu andlegu ástandi um þessar mundir og finni ekki fyrir álagseinkennum en hafi fundið lítillega fyrir þeim síðastliðið ár.

Í niðurstöðum varðandi stefndu eru sagðar koma fram vísbendingar um að hún sækist eftir samveru við aðra og vilji vera opin með tilfinningar sínar, en eigi jafnframt erfitt með að treysta öðrum og óttist það að vera misskilin eða dæmd að ósekju. Þeir sem fái svipaðar einkunnir taki mótlæti nærri sér, finni til taugaspennu og hætti til að sveiflast nokkuð á milli þess að líða vel og illa án augljósra tilefna.

Matsmaður beitti á aðila mælikvarða Becks II á þunglyndi. Greinir í matsgerð að prófið sé í formi sjálfsmats og taki til 21 af greiningaratriðum fyrir þunglyndi. Miðað sé við líðan próftaka tvær vikur fyrir prófun.

Niðurstaða varðandi stefnanda er að ekki hafi komið fram vísbendingar um depurð, þó hann sé trúlega ívið daufari og áhugalausari en hann eigi að sér. Honum virðist hætta til harðrar sjálfsgagnrýni fyrir mistök sín. Vísbendingar séu um aukna svefnsemi og þreytu.

Niðurstaða varðandi stefndu er að fram komi vísbendingar um talsverða geðlægð sem lýsi sér m.a. í takmarkaðri von um að líf hennar breytist á betri veg. Stefnda finni til sektarkenndar og finnist refsing vera yfirvofandi. Hún fái lítinn svefn og verði lystarlaus. Hún finni fyrir einbeitingarskorti og eirðarleysi. Hún pirrist óþarflega, þreytist fyrr og finni sig orkulausari og grátgjarnari en áður.

Loks lagði matsmaður fyrir málsaðila CQ forsjárpróf. Lýsir hann prófinu þannig í matsgerð að þetta sé spurningalisti í formi viðtals sem taki til styrkleika og veikleika svarenda sem ábyrgra uppalenda barna. Útkoma sé skoðuð heildrænt með tilliti til útkomu sálfræðiprófa, athugunar málsgagna og annarra viðtala.

Um stefnanda segir svo í niðurstöðu matsmanns að hjá honum komi fram þeir styrkleikar að hann leitist við að setja hagsmuni barnsins í öndvegi og að skapa því öryggi í fjölskylduvænu umhverfi. Hann virðist hafa góðan vilja til að reynast A vel sem faðir og hafi lagt sig fram um að skapa henni heimili. Hann vilji taka ábyrgð varðandi framfærslu og umönnun hennar. Hann virðist fær um að eiga gott samstarf við aðra aðila varðandi barnið. Hann leggi áherslu á að setja henni viðeigandi mörk, vera henni góður leiðbeinandi og veita henni ástúð. Helstu veikleikar föður komi fram í takmarkaðri þekkingu á uppeldi, þroska og þörfum barna. Hann hafi reitt sig talsvert á reynslu og þekkingu annarra og læri jafnframt af þeim og æfi sig til að geta sinnt barninu betur. Hann virðist vera orðinn virkari og framfærnari í samskiptum við barnið en áður og taka þar aukið frumkvæði.

Í sambærilegri niðurstöðu varðandi stefndu kemur fram að á umræddu prófi komi fram þeir styrkleikar hjá henni að hún vilji leggja sig fram við að reynast börnum sínum vel og skapa þeim gott líf. Hún hafi myndað jákvæð og sterk tilfinningatengsl við dótturina og hjá henni hafi telpan verið glöðust að því er matsmaður hafi séð til. Það sem samkvæmt prófinu teljist draga úr forsjárhæfni hennar sé áhætta vegna áfengisneyslu. Auk þess sé hætta á því að stefnda noti áfengi til að deyfa þunglyndis- og kvíðaeinkenni sem auki hættu á fíkn og geti stuðlað að sjálfsvígshættu. Matsmaður telji að stefnda hafi ekki tekið á þessum vanda af þeirri festu sem þurfi og leitað viðeigandi hjálpar. Hann telji vafa leika á því að barninu sé óhætt hjá stefndu sé hún undir áhrifum áfengis. Stefnda hafi ekki neitað þessum vanda og hafi ekki útilokað að leita sér áfengismeðferðar en hafi sagst mótfallin hefðbundinni áfengismeðferð. Matsmaður hafi hvatt hana til þess að leita sér meðferðar við þunglyndi og hún hafi ekki útilokað að gera það en hafi óttast að það yrði notað gegn henni í forsjárdeilunni.

Í niðurstöðukafla matsgerðar kemur fram að foreldrar hafi verið samstarfsfúsir við athugunina og hafi lagt sig fram við að gefa upplýsingar. Móðir hafi verið opinskárri við að viðurkenna veikleika sína heldur en faðir sem hafi fegrað nokkuð mynd sína.

Styrkleikar K sem móður felist að mati matsmanns m.a. í hæfni hennar til tengslamyndunar við barnið. Á milli móður og barns hafi myndast jákvæð, sterk gagnkvæm geðtengsl. K sýni telpunni móðurlega ástúð, veiti henni jákvæða athygli, tali beint við hana og hlusti á hana. Í samskiptum þeirra sé knúsað, leikið og gantast. K virðist hafa gott lag á því að láta barninu líða vel hjá sér, taki vel eftir þörfum þess og sýni frumkvæði í samskiptum. Telpan virðist ánægð hjá móður og í samskiptum þeirra ríki gleði og hlýja. Telpan sækist eftir því að sitja í fangi móður og móðir að hafa hana í fanginu. Veikleikar móður sem uppalanda hafi komið fram í óvarlegu orðavali, s.s. hótun sem ekki hafi verið staðið við, og því að standa ekki við sett mörk s.s. þegar hún hafi viljað að telpan hætti að hlaupa fram og til baka. Móðir hafi litla atvinnureynslu en stefni að því að komast í fasta vinnu. Einnig stefni hún að því að koma sér upp eigin heimili en hún hafi nú herbergi hjá foreldrum sínum fyrir sig og barnið og fái þar fullan stuðning frá foreldrum sínum.

Matsmaður telji að K sé fær um að bera ábyrgð á telpunni þegar hún neyti ekki áfengis, en sú neysla skerði forsjárhæfni hennar. Söknuður skapist hjá móður við það að umgengni við dótturina hafi legið niðri um tíma og ótti um að verið væri að skilja þær að og reiði yfir því. Hjá móður greinist talsvert þunglyndi og samfara því áhætta vegna áfengisneyslu. Áfengisneysla samfara þunglyndi stuðli að vonleysi, fíkn og sjálfsvígshættu. Matsmaður telji að K þurfi meðferð við þunglyndi og áfengisvanda og hafi ráðlagt henni það. K hætti til að vera fljótfær, óráðþægin og snögg upp á lagið á þann hátt að samskipti hennar og samvinna við M varðandi barnið fari úr skorðum. Svo ásaki þau hvort annað um afskiptaleysi og áhugaleysi um barnið.

Styrkleikar M sem föður felist m.a. í sterkum vilja til að skapa barninu stöðugleika í lífinu. A sé greinilega hænd að föður sínum og leiti til hans eftir aðstoð og huggun. Hann hafi á sinn hægláta og rólega hátt myndað gott samband við telpuna og hún sé ánægð, finni sig örugga og líði vel í návist hans. Hún sækist eftir athygli hans og hann leggi sig fram við að mæta þörfum hennar. Við athugun hafi faðir frekar virst bregðast við því að barnið leitaði til hans heldur en hann hefði frumkvæði í samskiptunum.

Matsmaður telji að M sé fær um að bera ábyrgð á telpunni en að undirliggjandi reiði eða andúð yfir framkomu móður í hans garð trufli samvinnu hans við hana og dragi þannig úr forsjárhæfni hans. M virðist vanmeta mikilvægi umgengni móður og barns og skorta nokkuð félagslega hæfni til að halda uppi samvinnu við móðurina um barnið. Matsmanni virðist að M sé undir niðri enn reiður við K fyrir framhjáhald og höfnun og refsi henni með því að halda frá henni barninu og láta hana fá takmarkaðar upplýsingar. Það trufli samvinnu þeirra að M hafi ekki endanlega látið af von sinni um að fá K til sín aftur. Matsmaður telji að samvinna foreldranna gæti batnað við það að hann leitaði sér ráðgjafar við að vinna úr þessu.

A sé tengd báðum foreldrum jákvæðum og sterkum tilfinningaböndum, móður þó heldur meira en föður að því er virðist, sem trúlega tengist því að faðir hafi haft hlutverk fyrirvinnu fjölskyldunnar og hafi verið minna með telpuna framanaf heldur en móðir. Á heimilum beggja foreldra sé ekki annað að sjá en að telpunni líði vel og að hún eigi jákvæð samskipti við sitt fólk. Báðir foreldrar njóti stuðnings frá fjölskyldum sínum við umönnun hennar.

Móðir búi í foreldrahúsum á [...] og sé ætíð velkomin að dvelja þar með telpuna eftir því sem hún óski eða þangað til hún hafi komið sér upp eigin heimili. Hún hafi fengið að dvelja hjá vinum á [...] þegar hún eigi umgengni við son sinn og hyggist flytja suður og fá sér vinnu við heimili sonarins.

Faðir leigi íbúð í tvíbýlishúsi ásamt bróður sínum í næsta húsi við heimili foreldra þeirra á [...]. Þar hafi hann komið sér upp heimili til að hafa aðstæður fyrir telpuna og geti notið þar stuðnings frá fjölskyldu sinni. Varðandi heimilishald fyrir barnið sé hann lengra á veg kominn heldur en móðirin. Hann hafi breytt sinni vinnu og vinnutíma til að geta verið sem mest með barnið.

A hafi aðlagast umhverfinu á [...]. Henni gangi vel þar í leikskóla og sé talið mjög viðráðanlegt barn sem taki breytingum vel, taki fullan þátt í öllu og njóti sín vel með öðrum börnum. Með móður hafi telpan vanist því að vera á ferðinni milli staða og landshluta. Leikskólastjórinn á [...] segi að það sé ótrúlegt hve vel telpan taki því að hafa verið svona mikið á ferðinni á milli heimila og staða sem raun beri vitni. A eigi hálfbróður, L fæddan [...], sem sé sonur móður, en þau systkinin hafi lítið hist, m.a. vegna fjarlægðar á milli landshluta, en æskilegt sé að reynt verði að rækta systkinasamband þeirra með samræmingu á umgengnistímum. Drengurinn sé alinn upp af föður sínum í [...] á [...] og K hafi umgengni við drenginn samkvæmt samkomulagi við barnsföðurinn.

Í málinu liggi fyrir barnaverndartilkynningar um umönnun A hjá móður. Móðir segi þessar tilkynningar tilhæfulausar og telji að verið sé að hafa telpuna af henni. Faðir taki ekki afstöðu til réttmætis þessara tilkynninga en vilji að barnið njóti vafans og að öryggi þess sé tryggt. Hann segi að barnið hafi verið ánægt hjá móðurinni þegar þau hafi verið saman en að móðirin hafi ekki alltaf sinnt umönnun þess sem skyldi. Á hinn bóginn líti móðir svo á að faðir hafi ekki sýnt barninu fullan áhuga og látið henni og öðrum eftir að annast það.

Í málinu sakar móðir föður um að hafa ásamt móður hans tekið barnið frá henni og flutt það án samráðs [...]. Faðir telur að þetta hafi verið nauðsynlegt inngrip vegna öryggis barnsins þar sem hann hafi fengið vitneskju um að móðir hafi skilið barnið eftir í pössun hjá ókunnu fólki. Hvað sem rétt sé í þessum ágreiningi foreldranna sé brýnt að í þessu máli beini þeir athygli sinni að stöðu telpunnar og að ábyrgð sinni gagnvart henni og því að annast hana. Brýnt sé að deilurnar um telpuna verði útkljáðar og að foreldrarnir snúi sér að því að bæta samvinnu sína varðandi telpuna. Telpan eigi styðjandi fjölskyldur að beggja vegna sem mikilvægt sé að hún fái notið sem best. Ef deilur á milli foreldranna verði langvarandi bitni það mest á telpunni og koma þurfi í veg fyrir það. Mikilvægt sé að báðir aðilar og fjölskyldur þeirra leggi sig fram um að stuðla að friði og samvinnu um barnið.

Matsmaður telji mikilvægt að tryggt verði að barnið fái að njóta ríkulegrar umgengni við báða foreldra sína og fjölskyldur beggja vegna óháð því hvernig forsjárdeilu þessari ljúki. Umgengni á tveggja vikna fresti sé að mati matsmanns ekki vænlegur kostur til lengdar m.a. vegna langra ferðalaga, vinatengsla og samfellu í leiksskóla. Mögulegur kostur á umgengni geti verið ein vika í mánuði fram að skólaaldri og eftir það gæti skipst til jafns eftir nánara samkomulagi. Umgengni þyrfti að endurskoða út frá hagsmunum telpunnar ef í ljós kæmi að fyrirkomulagið hentaði ekki eða legðist illa í hana.

Matsmaður gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti þar matsgerð sína og svaraði spurningum lögmanna.

Aðspurður af lögmanni stefnanda um það hvort skilja mætti matsgerð hans þannig að forsjárhæfni stefndu hangi að einhverju leyti saman við að hún leiti sér aðstoðar vegna þunglyndis og áfengisneyslu, játti matsmaður því og kvaðst telja það brýnt að stefnda geri það. Aðspurður um hvort hann teldi líklegt að stefnda leitaði sér slíkrar aðstoðar kvað hann að hún hafi ekki verið því fráhverf þegar hann hafi talað um það við hana, en hún hafi sett skilyrði um það að það yrði ekki hefðbundin áfengismeðferð. Þetta hafi þurft að vera svolítið á hennar forsendum. Kvaðst hann ekki telja hana ólíklega til að leita aðstoðar ef það yrði lagt að henni með það. Þá var matsmaður inntur eftir því, þar sem í matsgerð kæmi fram um reiði stefnanda í garð stefndu, hvort hann hafi upplifað þetta að einhverju leyti í hina áttina. Kvað hann það hafa verið og hafi tengst því að henni hafi fundist að verið væri að taka af henni barnið.

Þá var matsmaður spurður að því hvort hann hefði myndað sér skoðun á því hvor aðila væri hæfari til að sinna uppeldi barnsins til lengri tíma. Kvað matsmaður að faðirinn hefði meiri framtíðarplön og væri búinn að koma sér upp meiri stöðugleika og sé búinn að vinna að uppbyggingu til framtíðar meira heldur en móðirin. Hjá henni sé meiri óstöðugleika bæði varðandi heimili og atvinnu, sem og það sem áður segi um hennar líðan og áfengisdrykkju ofan í þá vanlíðan sem skapi áhættu. Einnig sé hún í erfiðari stöðu með að hún eigi annað barn líka sem hún þurfi að sinna umgengni við, þannig að það sé álag í kring um það líka. Það sé því meiri óstöðugleiki og óvissa í kring um móðurina heldur en föðurinn. Hann hafi meira hugsað á stöðugleikanótum til framtíðar.

Þá var matsmaður spurður, í tilefni af því áliti hans að stefnda þyrfti að fara í meðferð, hvort hann hefði einhverja mynd af því hve mikil áfengisneysla stefndu sé. Kvaðst matsmaður vita að stefnda hefði gert minna úr drykkju sinni en efni standi til, en hann vissi ekki nákvæmlega hvað drykkjan sé mikil, en drykkja ofan í þá líðan sem þarna sé fyrir hendi sé áhættudrykkja og kvaðst matsmaður hafa áhyggjur af því ef hún væri með barn, með þessa líðan og undir áhrifum áfengis. Hann teldi það vera óöruggt.

Aðspurður um það hvort honum þætti sátt koma til greina í málinu og þá með hvaða hætti kvaðst hann telja það, með þeim hætti að A væri áfram í þeim aðstæðum sem hún sé í. Hann teldi að hún hafi aðlagast vel á [...] og margt gott sem þar sé í gangi og rúm umgengni við móðurina. Barninu sé vel óhætt inná heimili móðurinnar þar sem amman sé en það væri þá ekki á meðan stefnda væri ekki búin að vinna í þessu neysluvandamáli og varðandi þunglyndið. Hann telji að barnið ætti ekki að vera annarsstaðar en þarna á [...] þegar það væri hjá stefndu og það þurfi að vera tryggt að hún sé ekki með barnið sé hún undir áhrifum. Ef hún vinni í þessum málum gæti hún haft rúma umgengni og það geti horft til betri vegar.

Þá var borið undir hann hvernig það horfði við að nú lægi fyrir að stefnda hefði tekið á leigu húsnæði á [...]  og byggi þar ein taldi matsmaður að það gæti verið í lagi ef umgengni væri undir eftirliti félagsráðgjafa eða fjölskyldu stefndu.

V

Stefnandi kveðst byggja kröfu sína um óskipta forsjá á því að það sé barninu tvímælalaust fyrir bestu að lúta forsjá hans, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Stefnda hafi ekki viljað vera til samstarfs við stefnanda um breytt lögheimili eða breytt fyrirkomulag forsjár og telji hann allar forsendur fyrir sameiginlegri forsjá brostnar.

Stefnandi byggi á því að það gangi alfarið gegn hagsmunum barnsins að búa hjá stefndu sem ekki hafi getað búið því forsvaranlegt heimili. Stefnda hafi á þeim tveimur árum sem liðin séu frá því barnið fæddist dvalið með það um lengri eða skemmri tíma í [...], [...], [...], [...], [...], [...] og [...]. Stöðug barnaverndarafskipti hafi verið af heimili stefndu allt frá því hún hafi sjálf haft samband við félagsmálastjóra [...] eigi síðar en 31. janúar 2008, upphaflega til að óska eftir fjárhagsaðstoð. Fljótlega muni þó hafa orðið ljóst að vinna yrði mál hennar sem barnaverndarmál. Ýmsar barnaverndartilkynningar hafi borist eftir að upp úr sambandi stefnanda og stefndu hafi slitnað. Megi nefna sem dæmi tilkynningar vegna þess að stefnda hafi skilið barnið eftir hjá ýmsum aðilum og ekki sótt það fyrr en seint, jafnvel eftir nokkra daga. Einnig hafi borist tilkynningar vegna næringar barnsins, grunsemda um vímuefnaneyslu stefndu, um aðstæður á heimili hennar, óæskilega gesti, vanrækslu barnsins og bróður þess, sóðaskap o.fl. Þar að auki hafi barnaverndarnefnd borist tilkynningar frá hjúkrunarfræðingi í ungbarnaeftirliti og lögreglu. Fyrir liggi í málinu gögn frá barnaverndaryfirvöldum, m.a. úrskurður þar sem A var vistuð utan heimilis stefndu án vilja hennar á tímabilinu 30. nóvember 2009 til 31. janúar 2010.

Stefnandi hafi verulegar áhyggjur af andlegri líðan og velferð barnsins hjá stefndu og telji hana engan veginn í stakk búna núna til að sinna foreldraskyldum sínum. Andleg heilsa stefndu hafi ekki verið með besta móti og muni hún m.a. hafa þurft lyfjagjöf. Lyfjagjöfin hafi þar fyrir utan verið stopul og bæði hafi stefnda gleymt að taka lyf eða tekið of mikið af þeim og stefnandi þá annast barnið. Reglusemi eða stöðugleiki hafi ekki einkennt heimilishald hjá stefndu. Hún muni ekki vera í fastri vinnu og fjárhagsstaða hennar afleit.

Barnið sé mjög tengt stefnanda enda hafi umönnun þess og heimilishald verið að umtalsverðu leyti í höndum hans frá upphafi. Þrátt fyrir að stefnandi hafi þegar hann og stefnda hafi búið saman, unnið mikið og oft ekki komið heim fyrr en undir kvöldmatarleytið hafi hann sinnt eldamennsku, tiltekt og barnaumönnun eftir það. Vegna ungs aldurs barnsins hafi það ekki tengst yngra systkini sínu með slíkum hætti að skaðlegt gæti verið að aðalbúseta þeirra væri á sitthvorum staðnum. Aðstæður stefnanda séu þar fyrir utan hinar ágætustu. Hann búi í einbýlishúsi með þremur svefnherbergjum á [...]. Foreldrar stefnanda búi einnig á [...] og sé náið samband milli stefnanda, barnsins og þeirra. Stefnandi hafi allan þann stuðning sem hann þurfi frá þeim. Tveir af þremur bræðrum stefnanda séu einnig búsettir á [...], sem og amma hans og afi. Foreldrar stefndu búi á [...]. Stefnda hafi ekki búið hjá þeim alla æsku sína heldur hjá fósturforeldrum á ákveðnu tímabili. Barnið hafi sótt leikskólann [...] á [...] og standi til boða áframhaldandi leikskólapláss þar. Barnið hafi verið mjög ánægt á leikskólanum. Uppeldisaðstæður á [...] séu til fyrirmyndar. Samfélagið sé lítið og náið og eðli máls samkvæmt stutt í leikskóla og skóla. Stefnandi hafi fasta vinnu í fiskvinnslu á [...] og sé um dagvinnu að ræða og sé vinnudegi lokið um klukkan þrjú síðdegis. Hann geri sér grein fyrir að þarfir barnsins kunni að kalla á það að hann breyti vinnu sinni og sé hann tilbúinn til þess. Á [...] telji stefnandi að barnið geti öðlast þann stöðugleika sem það hafi ekki búið við hingað til í umhverfi sem það þekki og hafi hingað til verið eini fasti punkturinn í tilveru þess.

Stefnandi muni sjá svo um, verði honum falin forsjá barnsins, að það haldi eðlilegu tengslum við stefndu og að umgengni þeirra verði rúm. Vonir hans standi til þess að stefnda sinni umgengni við barnið eins og stefnandi hafi ávallt gert, en einhver misbrestur muni hafa verið á því að það hafi hún gert þegar barnið hafi dvalið hjá stefnanda síðastliðið vor.

Við munnlegan málflutning færði stefnandi auk þess rök fyrir máli sínu með vísan til gagna sem aflað var undir rekstri málsins, m.a. matsgerðar dómkvadds matsmanns, sem og álitsgerðar G sálfræðings og byggði lögmaðurinn á því að þessi gögn styddu í einu og öllu kröfur stefnanda í málinu. Þá gerði stefnandi þá kröfu að ef fallist yrði á kröfur hans að þá yrði kveðið svo á um í dómi að áfrýjun málsins frestaði ekki réttaráhrifum dóms.

Um kröfu sína um einfalt meðlag kveðst stefnandi vísa til 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 svo og 1. mgr. 53. gr. sömu laga um framfærsluskyldu foreldra og 2. mgr. 55. gr. sömu laga um lágmarksmeðlag. Upphafstími meðlags sé miðaður við sama tíma og í kröfu sem stefnandi hafi lagt fram hjá sýslumanni. Um kröfuna um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar vísist til 4. mgr. 34. gr. barnalaga sem og til 2. mgr. 46. gr. sömu laga þar sem fram komi réttur barnsins til að umgangast báða foreldra sína.

Um málskostnað kveðst stefnandi vísa til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og beri því nauðsyn til að fá dæmdan virðisaukaskatt á lögmannsþóknun úr hendi stefndu.

VI

Í greinargerð sinni kveðst stefnda byggja kröfu sínu um forsjá á því að hagsmunum A sé best borgið með því að forsjá hennar sé í höndum stefndu og að skaði hennar vegna aðskilnaðar aðila verði þannig miklum mun minni en verði forsjáin fengin stefnanda.

Stefnda telji sig hæfari til að fara með forsjána en stefnandi. Hún hafi meiri tíma fyrir barnið og meira að bjóða því og sé ábyggilegri sem foreldri heldur en stefnandi. Tengsl hennar við barnið séu góð. Auk þess sé afar kært með A og litla bróður hennar. Þau séu tilfinningalega tengd hvort öðru og mikilvægt fyrir heill þeirra beggja að þau fái að alast upp saman.

Stefnda telji stefnanda engar forsendur hafa til að ala upp barnið. Aðstæður hans séu ekki hentugar, hann vinni mikið og reyndin hafi verið sú að þegar hann hafi verið með barnið í umgengni þá hafi hann mikið til látið foreldra sína um að annast barnið.

Stefnda telji að auki að fái stefnandi forsjá barnsins megi búast við að henni verði torvelduð umgengni við barnið. Óttast hún að aðstandendur stefnanda muni að minnsta kosti beita sér til þess. Þetta atriði eigi samkvæmt 3. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 að skipta máli við úrlausn um forsjána.

Til stuðnings kröfu sinni um forsjá kveðst stefnda vísa til 2. mgr. 34. gr. barnalaga.

Krafa um meðlagsgreiðslur til stefndu úr hendi stefnanda séu studd við IX. kafla, sbr. 3. mgr. 34. gr. barnalaga. Stefnda miði kröfu sína við einfalt meðlag einsog það sé ákveðið af Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma og að meðlagsgreiðslur beri að miða við dómsuppsögu.

Stefnda krefjist þess að dómur ákveði umgengnisrétt sinn við A og vísi um það til 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Ekki séu forsendur til að setja fram kröfur um inntak umgengnisréttarins og sé krafist umgengnisréttar skv. nánari útlistun dómsins. Stefnda muni í málflutningi reifa sjónarmið sín um hvernig best væri að haga inntaki umgengnisréttar.

Við munnlegan málflutning byggði lögmaður stefndu m.a. á að upplýsingar sem fyrir lægju í málinu frá barnaverndaryfirvöldum í [...] væri að engu hafandi og stöfuðu af erfiðleikum í samstarfi H við stefndu. Þá var á því byggt að gögn málsins sýndu stefndu á mjög erfiðum tímum í lífi hennar. Hún sé ung, hafi eignast tvö börn og það hafi slitnað upp úr tveimur sambúðum sem hún hafi verið í. Hún hafi ekki átt í nein hús að venda hér fyrir austan og því þurft að leita á náðir foreldra sinna, oft með stuttum fyrirvara. Þá byggði lögmaðurinn á því að stefnda væri nú í góðu samstarfi við félagsmálayfirvöld í [...] og ætti þar vísa aðstoð og pláss hjá dagmömmu fyrir A. Þar hefði hún einnig komið sér upp húsnæði í nágrenni við ættingja sína. Þá var því lýst að stefnda væri tilbúin að gangast undir meðferð ef þyrfti og til þess vísað að matsmaður segði að hún væri vel í stakk búin til að nýta sér aðstoð sem í slíku fælist.

Þá mótmælti stefnda kröfu stefnanda um að kveðið yrði á um að áfrýjun frestaði ekki réttaráhrifum dóms félli málið stefnanda í vil.

Um málskostnaðarkröfu sína vísi stefnda til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og er málskostnaðar krafist án tillits til gjafsóknar sem stefndu hafi verið veitt fyrir dóminum.

VII

Þegar foreldra greinir á um forsjá barns skal dómur kveða á um hjá hvoru foreldra forsjá barns verði, eftir því sem barni er fyrir bestu, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Við mat á þessu ber að líta til allra þátta sem varða hagsmuni barnsins og hvernig þeim verður best borgið. Er þá litið til persónulegra eiginleika foreldra, tengsla foreldra við barn, atriða er varða daglega umsjá og umönnun barnsins, sjónarmiða er lúta að tengslum barnsins við systkini, húsnæðismál, liðsinni vandamanna og hvað séð verður um líkindi þess að það foreldri sem forsjá fær sé líklegt til að virða rétt barnsins til umgengni við hitt foreldrið, sem og önnur sjónarmið sem gerð er grein fyrir í athugasemdum við tilvitnaða lagagrein í frumvarpi því sem varð að barnalögum nr. 76/2003.

Samkvæmt framansögðu eru það hagsmunir barnsins sem eru í forgrunni. A er fædd [...]. [...] [...] og er því rétt rúmlega [...] ára og [...] mánaða að aldri. A á yngri hálfbróður sem býr hjá föður sínum í [...], en stefnda fer með forsjá hans sameiginlega með föður hans.

Stefnda hefur búið sér og A heimili á [...] fyrir stuttu, en hefur uppi áform um að hefja sambúð að nýju með síðari barnsföður sínum, en óvíst er að hennar sögn hvort af því muni verða og þá hvar þau muni búa. Þau eru bæði atvinnulaus. Foreldrar stefndu búa á [...]. Af gögnum málsins má sjá að tíðar breytingar hafa orðið á búsetu stefndu meðan barnið hefur dvalið hjá henni. Stefnandi hefur búið sér og A heimili í næsta húsi við foreldra sína á [...] og er það í samræmi við áætlanir sem hann kynnti matsmanni í matsvinnunni. Stefnanda var, eftir að mál þetta var höfðað, sagt upp störfum hjá [...] og hefur hann hafið störf í fiskverkun á [...]. Kveður hann vinnutíma þar henta betur fyrir barnið auk þess sem styttra sé þangað en til [...]. Á [...] hefur A dvalið um nokkurt skeið, með hléum, þegar hún hefur búið hjá stefnanda og eins þegar hún var vistuð hjá foreldrum stefnanda frá 30. nóvember 2009 til janúarloka 2010. Þar sótti hún leikskóla á þessum tíma. Fyrir liggja í málinu upplýsingar frá leikskólastjóra þessa leikskóla, [...], þar sem fram kemur að A sé mjög þægilegt og viðráðanlegt barn sem aðlagist fljótt. Hún taki flutningum og breytingum vel. Hún hafi byrjað ársgömul á leikskólanum og hafi verið þar síðan með hléum og í hvert skipti sem hún komi þá falli hún beint og þægilega inn í skólastarfið. Hún eigi vini og taki fullan þátt í því sem sé að gerast í þéttum ellefu barna hópi. Þykir leikskólastjóranum telpan standa sig ótrúlega vel í því að fara á milli heimila og vera á mismunandi stöðum ýmist hjá föður eða móður, eða öfum og ömmum.

Bæði eru málsaðilar ung að árum og reynslulaus í barnauppeldi. Þau njóta hins vegar bæði góðs stuðnings frá foreldrum sínum. Fyrir liggur að stefnandi hefur búið sér og barninu heimili í næsta nágrenni við foreldra sína þar sem hann getur nýtt sér stuðning frá þeim, en stefnda hefur flutt út af heimili foreldra sinna, þar sem hún bjó þegar matsmaður hitti hana með barninu, og hefur flutt í annað bæjarfélag. Þá er samkvæmt framburði stefndu sjálfrar óvissa með framtíðarbúsetu hennar og þá hvaða aðgang hún kynni þá að hafa að aðstoð móður sinnar, sem hefur verið henni helst innan handar.

Í niðurstöðu hins dómkvadda matsmanns greinir að báðir foreldrarnir hafi sterk tengsl við barnið en móðir þó ívið sterkari.

Einnig kemur fram að faðir sé lengra á veg kominn með að búa sér og barninu heimili og hafi fastmótaðri framtíðarsýn í foreldrahlutverkinu. Í skýrslu dómkvadds matsmanns fyrir dómi kom einnig fram sú afstaða hans að A hefði aðlagast vel aðstæðum á [...] og lét hann í ljós það álit að ekki ætti að taka barnið úr því umhverfi.

Eins og fyrr greinir á A yngri hálfbróður, L sem fæddur er í [...] árs [...]. Þau eru bæði ung að árum og L býr ekki hjá stefndu eins og er. Verður sjónarmiðum um þörf systkinanna til að rækta samband sitt og samneyti því ekki gefið sérstakt vægi við úrlausn málsins eins og það liggur nú fyrir.

Þykja þessi atriði sem að framan eru rakin fremur benda til þess að það sé A fyrir bestu að stefnandi fái forsjá hennar og hún haldi áfram að búa á [...].

Það sem hins vegar yfirskyggir önnur sjónarmið í málinu og eitt og sér er til þess fallið að ráða niðurstöðu er afdráttarlaus niðurstaða matsmanns um að barninu væri ekki óhætt hjá stefndu ef hún neyti áfengis og taldi hann að samspil þunglyndis og tilhneigingar til áfengissýki leiddi til þess að hans mati að barninu væri ekki óhætt hjá henni, gerði hún það. Taldi hann stefndu gera minna úr áfengisneyslu sinni en efni standi til. Að mati dómsins eru ekki efni til að draga þessa ályktun matsmannsins í efa. Þá verður ekki framhjá því horft að stefnda hefur ekki sýnt að hún telji að hún þurfi aðstoðar við heldur þvert á móti lagst gegn tillögum um að hún leiti sér aðstoðar. Er í þessu sambandi ekki nægilegt að mati dómsins að horfa aðeins til framburðar hennar hér fyrir dómi, heldur einnig til annarra atriða sem veitt geta vísbendingar um afstöðu hennar í þessum efnum. Kemur þetta hvað skýrast fram í skýrslu G sálfræðings, sem leiðir til þeirrar niðurstöðu hans að telja að ólíklegt sé að stefnda myndi hefja meðferð, hvað þá ljúka henni. Skiptir hér ekki mestu máli að stefnda skuli haldin umræddum sjúkdómum heldur sú staðreynd að hún hafnar tilvist vandamálsins. Fær sú afstaða hennar einnig ákveðinn samhljóm í viðbrögðum hennar við afskiptum barnaverndaryfirvalda af málum hennar í kjölfar tilkynninga. Má telja það rauðan þráð í gegn um mál þetta að stefnda þarf á hjálp að halda og er bent á það af ýmsum aðilum en þiggur ekki hjálpina og telur hana jafnvel boðna af illvilja, eins og barnverndarafskipti bera með sér. Verður að telja að þessi skortur á innsæi stefndu í aðstæður sínar og barna sinna og þörf fyrir aðstoð skerði verulega forsjárhæfni hennar.

Fram kemur í niðurstöðu dómkvadds matsmanns að stefnandi vill leggja sig fram um að læra að annast dóttur sína og hefur hann að mati dómsins sýnt þennan vilja sinn í verki og hefur ráðið sig í vinnu og leigt sér húsnæði í nágrenni við ættingja sem geta orðið honum til aðstoðar í foreldrahlutverkinu. Bendir niðurstaða hins dómkvadda matsmanns til þess að stefnandi muni ekki eiga í neinum erfiðleikum að nýta sér aðstoð annarra eftir því sem þörf er á og er hæfni hans til samstarfs lýst í matsgerð á þann veg að hún verður að teljast betri en stefndu. Ekki liggur heldur fyrir að barnaverndaryfirvöld hafi séð ástæðu til afskipta af A þann umtalsverða tíma sem hún hefur dvalið hjá stefnanda eða foreldrum hans. Auk þeirra sjónarmiða sem hér að framan er getið og dómurinn telur nægja til þeirrar niðurstöðu sem hér er fengin, koma fram í málinu fjölmörg sjónarmið og upplýsingar sem einnig styðja þessar lyktir málsins og er reyndar fátt sem mælir þeim í mót.

Það er samkvæmt framansögðu niðurstaða dómsins að í samræmi við skýra niðurstöðu matsgerðar dómkvadds matsmanns, sem fær styrka stoð í öðrum gögnum málsins, að A sé það fyrir bestu að stefnandi fari með forsjá hennar.

Er í ljósi þeirrar niðurstöðu skylt að kveða á um að stefnda greiði meðlag með barninu. Þykir hæfilegt að meðlagsgreiðslur hefjist 1. júní nk. og standi eins og lög gera ráð fyrir til fullnaðs 18 ára aldurs barnsins.

Í ljósi atvika málsins og búsetu aðila þykir rétt að umgengni verði með þeim hætti, meðan stúlkan er enn á forskólaaldri, að stefnda njóti umgengni við hana eina viku í mánuði. Hafa þarf í huga í þessu samhengi að umgengni þessi er ákveðin með tilliti til aðstæðna sem nú eru uppi, en ákvarða þarf um hana að nýju ef verulegar breytingar verða á aðstæðum aðila, búsetu eða fjölskylduhögum, eða þegar A kemst á grunnskólaaldur.

Umgengni eins og hún er hér ákveðin skal hefjast klukkan 16 fyrsta sunnudag hvers mánaðar og ljúka á sama tíma sunnudaginn á eftir. Samkvæmt samkomulagi því sem gildir milli aðila meðan á rekstri málsins stendur kom A til stefnanda laugardaginn 22. maí sl. og átti samkvæmt sáttinni að koma aftur til stefndu 5. júní nk. Rétt þykir að gefa A nokkurt svigrúm til að aðlagast hinum nýju aðstæðum og er því gert ráð fyrir að A dvelji áfram hjá stefnanda en hin reglulega umgengni eina viku í mánuði samkvæmt dómnum hefjist í fyrsta sinn 4. júlí nk. Ekki þykir ástæða til að kveða á um ríkari umgengni í sumarleyfi eins og atvikum máls þessa er háttað, eða kveða sérstaklega á um umgengni um jól og áramót. Þá eru ekki efni til að kveða á um það í dómi þessum hvernig kostnaði við umgengni skuli hagað, enda hlýtur sá sem umgengnisrétt nýtir að bera kostnað af því að ná í barn á heimili þess og skila því þangað aftur, nema foreldrar semji um annað. Verður þó að leggja áherslu á í þessu samhengi að foreldrum ber báðum að stuðla að því að umgengni geti gengið árekstralaust fyrir sig og það eru hagsmunir barnsins að geta átt umgengni og samvistir við báða foreldra sína, sem kallar á gagnkvæma tillitssemi foreldra þar sem þau láta hagsmuni barnsins ráða framar sínum eigin. Í ljósi þess að niðurstaða máls þessa felur í sér að A mun dvelja áfram á þeim stað þar sem hún hefur lengst dvalið á sinni stuttu ævi er ákveðið að áfrýjun fresti ekki réttaráhrifum dóms þessa.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði að meðtöldum málsvarnarlaunum lögmanns hennar, Gísla M. Auðbergssonar hdl. sem þykja hæfilega ákveðinn að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Halldór Björnsson dómstjóri og Álfheiður Steinþórsdóttir og Helgi Vilborg sálfræðingar kveða upp dóm þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en dómsuppsaga hefur dregist vegna embættisanna dómsformanns.

Dómsorð:

Stefnandi, M, skal fara með forsjá A, fæddrar [...]. [...] [...], til fullnaðs18 ára aldurs hennar.

Stefnda, K, skal greiða með stúlkunni einfalt meðlag eins og það er ákvarðað hverju sinni af Tryggingastofnun ríkisins frá 1. júní 2010 til 18 ára aldurs barnsins.

Umgengni barnsins við stefndu skal vera þannig, meðan barnið er enn á forskólaaldri, að hún skal standa samfellt í eina viku í mánuði frá fyrsta sunnudegi mánaðarins klukkan 16 til sama tíma sunnudaginn á eftir, í fyrsta skipti sunnudaginn 4. júlí 2010.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði þar á meðal málsvarnarlaun lögmanns hennar, Gísla M. Auðbergssonar hdl. sem þykja hæfilega ákveðin 376.500 krónur og er virðisaukaskattur meðtalinn í þeirri fjárhæð.

Áfrýjun dóms þessa frestar ekki réttaráhrifum hans.