Hæstiréttur íslands

Mál nr. 492/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


 

Mánudaginn 16. júlí 2012.

Nr. 492/2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

Y

(Jón Egilsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að Y skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari og Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson settir hæstaréttardómarar.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. júlí 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. júlí 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. ágúst 2012 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími. Að því frágengnu krefst hann þess að beitt verði úrræðum samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur föstudaginn 13. júlí 2012.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykja­víkur úrskurði að Y, kt. [...], verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. ágúst nk. kl. 16.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að föstudaginn 6. júlí sl. hafi lögreglu borist tilkynning frá [...] í [...] um að ráðist hefði verið að íbúa þar, hann sviptur frelsi sínu og rændur.  Tilkynningin hafi borist frá starfsfólki [...] sem hafði komið á heimili vinnufélaga síns þar skömmu áður vegna þess að þau söknuðu hans úr vinnu og höfðu áhyggjur af honum.  Þegar þau hafi komið að heimili hans hafi þau orðið vör við mannaferðir þar fyrir innan, sem hafi komið sér undan með því að fara út um svalir íbúðarinnar.

Árásarþolinn, A hafi þegar komið var að, verið bundinn og með límteip fyrir munni og mjög miður sín, með sýnilega áverka og af honum dregið.  A hafi gefið greinargóða lýsingu sem hafi komið heim og saman við Y sem lögreglan hafi handtekið í grenndinni eða við [...] í [...].

A hafi lýst atburði þannig að hringt hefði verið á dyrabjöllu hjá honum um klukkan 03:00 aðfaranótt föstudagsins.  Hann hefði þá verið sofandi, vaknað og farið til dyra.  Umsvifalaust hafi þá tveir menn ruðst inn í íbúðina og á hann.  Þeir hefðu strax yfirbugað hann, bundið og troðið einhverju upp í munn hans og sett límteip fyrir.  Þeir hefðu þjarmað að honum, beitt hann ofbeldi og hótunum af ýmsu tagi.  Þeir hefðu gefið honum skipanir um að gefa upp upplýsingar um bankanúmer  og aðgangsnúmer til þess að taka peninga út af bankareikningum hans.  A kvaðst hafa látið undan og hefðu mennirnir fengið hann til að millifæra af sínum reikningi á reikninga sem þeir kröfðu hann um að leggja inn á.  A sagði mennina hafa leitað verðmæta á heimilinu og tekið þaðan ýmis verðmæti. A kvað ofbeldið og frelsissviptinguna hafa staðið yfir frá 03:00 um nóttina þar til samstarfsmenn hans komu honum til hjálpar um klukkan 10:30 um morguninn.

Í samræmi við framburð A höfðu kr. 453.000 verið færðar af reikningi hans á bankareikning Y nr [...] um morguninn.

Þegar kærði Y hafi verið handtekinn hafi hann verið með í fórum sínum rúmlega 308.000 kr. í seðlum og skiptimynt, tvær lyklakippur og minnislykil sem hafi verið úr eigu A, ávísun stílaða á hann og blað, sem hafi komið heim og saman við það sem A sagði að sér hefði verið sýnt, með handskrifaðri kennitölu kærða, Y, og bankanúmeri hans.

Kærði X hafi verið handtekinn síðdegis laugardaginn 7. júlí sl. grunaður um aðild að málinu.  Hafi báðum kærðu verið gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. dóma Hæstaréttar Íslands nr. 482/2012 og 483/2012.

Rannsókn málsins sé langt á veg komin, en báðir kærðu, X og Y, hafi viðurkennt aðild sína að málinu.

Kærðu séu nú undir sterkum grun um aðild að sérstaklega alvarlegri árás og andstyggilegu brot, þar sem ruðst hafi verið inn á heimili brotaþola um miðja nótt, hann bundinn á höndum og fótum og teipað fyrir munn hans og hann þannig bjargarlaus beittur ofbeldi klukkustundum saman. Kærðu hafi svipt brotaþola frelsi sínu og haldið honum þannig nauðugum í ávinningsskyni. Með hótunum um ofbeldi og með því að beita hann ofbeldi hafi þeir knúið hann til að láta af hendi fjármuni auk þess sem kærðu hafi tekið ýmis verðmæti af heimili hans. Brot kærðu séu talin varða við 252. gr., 2. mgr. 218. gr. og 2. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Brot kærðu kunni að varða allt að ævilöngu fangelsi.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 séu uppfyllt.   Enda sé kærði nú undir sterkum grun um að hafa framið brot sem varðað geti allt að ævilöngu fangelsi og sé í eðli sínu svo svívirðilegt að almannhagsmunir krefjist þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi.  Það myndi valda mikilli hneykslun og særa réttarvitund almennings gengi kærði frjáls ferða sinna. 

Að svipta annan mann frelsi sínu með þeim hætti sem kærði hafi nú verið uppvís af sé eitt af alvarlegustu afbrotum sem lýst er í almennum hegningarlögum.  Að frátöldum landráðs- og stjórnskipunarbrotum X. og XI. kafla laganna séu einungis tvö önnur ákvæði sem bjóði ævilanga fangelsisrefsingu, þ.e. manndráp skv. 211. gr. og frelsissvipting skv. 193. gr. laganna.

Staða kærða í málinu sé sambærileg stöðu sakbornings í öðru svipuðu máli, sjá nánar dóma Hæstaréttar nr. 344/2011, 394/2011 og 449/2011. 

Kærði eigi að baki nokkurn sakarferil, sjá nánar meðfylgjandi sakavottorð.  Hann hafi nú síðast hlotið sex mánaða fangelsisdóm, sem bundinn sé skilorði til tveggja ára.  Það sé því ljóst að með broti þessu hafi hann rofið almennt skilorð dómsins.  Auk umrædds brots sé kærði Y undir sterkum grun um aðild að fjölda afbrota, sjá m.a.:

Mál 007-2011-[...]

Fyrir fíkniefnalagabrot, með því hafa föstudaginn 4. febrúar 2011, að [...],[...], haft í vörslum sínum í söluskyni samtals 34,55 g af amfetamíni og tvær kannabisplöntur sem lögregla fann við leit á heimili ákærða, og hafa um nokkurt skeið fram til þessa dags ræktað greindar plöntur. Kærði játaði sök við yfirheyrslu.

Mál 014-2011-[...]

Fyrir hylmingu, með því að hafa föstudaginn 20. maí 2012, haft í vörslum sínum GPS tæki, srn. PC 745876740043, sem fannst við leit lögreglu í bifreiðinni [...], við hús nr. [...] í [...], [...], en tækið fékk hann af óþekktum aðila í skiptum fyrir landa, vitandi að um þjófstolinn mun væri að ræða.

Mál 007-2011-[...]

Fyrir fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 14. september 2011, ekið bifreiðinni [...] (fastanr. bíls er [...]) vestur [...] í [...], sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis og óhæfur um að stjórna bifreið örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (vínandamagn í útöndunarlofti mældist 0,42 mg/l, amfetamín í blóði mældist 160 ng/ml), uns hann var stöðvaður af lögreglu við hefðbundið eftirlit á móts við [...],[...], og á sama tíma haft í vörslum sínum 0,31 g af amfetamíni og 2,94 g af sveppum sem fannst við leit lögreglu á ákærða.

Mál 007-2012-004298

Fyrir vopnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 25. janúar 2012, að [...],[...], haft í vörslum sínum skotvopn af gerðinni Record Chief 9mm Knall án þess að hafa skotvopnaleyfi, sem fannst við leit lögreglu á heimili ákærða.

Mál 007-2012-[...]

Fyrir þjófnað, með því að hafa föstudaginn 16. mars 2012, í félagi við C, kt. [...], brotist inn í íbúðarhús að [...],[...], og stolið þaðan tveim Cobra Micro Talk talstöðvum, vindlingaboxi, Yamaha hljómborði í svartri tösku, trompeti í brúnni tösku ásamt fylgihlutum, gítarmagnara, rafmagnsgítar, íslensku vegabréfi, tvem pörum af ermahnöppum, þrem sjónaukum, PSP leikjatölvu, Playstation 3 leikjatölvu, Nintendo Wii fjarstýringum, Nunchuck –Wii fjarstýringaviðbót, Playstation 3 fjarstýringu, íþróttatösku, Nintendo Wii leikjatölvu, sex tölvuleikjum, Ipod Nano 4GB, tveim bakpokum, fartölvutösku, gítartösku, handtösku, Canon myndavél ásamt linsu, skjalatösku, hliðartösku, taktmæli og Packard Bell TJ65 fartölvu, heildarverðmæti að fjárhæð kr. 1.141.090.- og lausafé kr. 11.000.- Kærði játaði sök við yfirheyrslu.

Mál 007-2012-[...]

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa að morgni laugardagsins 17. mars 2012, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði mældist 160 ng/ml, kókaín í blóði mældist 40 ng/ml, metýlfenídat mældist 15 ng/ml) frá Vesturhólum uns hann stöðvaði við [...] í [...].

Mál 012-2012-[...]

Fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa mánudaginn 26. mars 2012, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur um að stjórna bifreið örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (amfetamín í blóði mældist 85 ng/ml, kódein í blóði mældist 40 ng/ml) frá [...] við [...] á [...], uns hann var stöðvaður af lögreglu á [...] móts við [...],[...].

Mál 007-2012-[...]

Fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 27. mars 2012, tekið bifreiðina [...] af gerðinni Subaru Legacy Wagon, í heimildarleysi, til eigin nota þar sem hún stóð við hús nr. [...] að [...] í [...], og ekið henni, sviptur ökurétti, uns hann lagði henni við [...].

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála er þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Sterkur grunur leikur á að kærði hafi í félagi við X ráðist á og beitt mann líkamsmeiðingum, svipt hann frelsi sínu og rænt eins og að framan er lýst. Brotið er mjög alvarlegs eðlis og getur varðað allt að ævilöngu fangelsi. Verður fallist á að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er þannig fullnægt skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 og verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði, Y, kt. [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. ágúst nk. kl. 16.00.