Hæstiréttur íslands
Mál nr. 326/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Mánudaginn 15. júní 2009. |
|
Nr. 326/2009. |
Ríkissaksóknari(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanna.
Lagt var fyrir héraðsdóm að dómkveða matsmenn samkvæmt beiðni X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. júní 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum þann dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. júní 2009, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanna. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja matsmenn.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með dómi Héraðsdóms Norðurlands-eystra 16. desember 2008 var varnaraðili dæmdur í 6 mánaða fangelsi, skilorðbundið í tvö ár, fyrir brot gegn 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa sett gúmmíbolta upp í leggöng stúlku og skilið hann þar eftir án vitneskju hennar með þeim afleiðingum að hún fékk bólgur og alvarlega sýkingu í leggöng.
Samkvæmt 4. mgr. 220. gr. almennra hegningarlaga skal sá sæta allt að fjögurra ára fangelsi, sem í ábataskyni, af gáska eða á annan ófyrirleitinn hátt stofnar lífi eða heilsu annarra í augljósan háska. Eins og mál þetta liggur fyrir verður varnaraðila ekki meinað að afla læknisfræðilegs sönnunargagns um hvort lífi eða heilsu stúlkunnar hafi verið stofnað í augljósan háska, sbr. 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008. Hinn kærði úrskurður verður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja kunnáttumenn til að framkvæma mat samkvæmt beiðni varnaraðila.
Dómsorð:
Lagt er fyrir héraðsdóm að dómkveðja matsmenn samkvæmt matsbeiðni varnaraðila X.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. Júní 2009.
Með matsbeiðni móttekinni í dóminum 26. maí 2009 beiddist matsbeiðandi, X, dómkvaðningar matsmanna skv. ákvæðum XIX. kafla laga nr. 80/2008. Fram kemur að matið varði hæstaréttarmálið nr. 78/2009: Ákæruvaldið gegn X.
Málsatvikum er þannig lýst að matsbeiðandi sé ákærður í sakamáli og gefið að sök að hafa stofnað lífi eða heilsu Y í augljósan háska er hann í kynmökum setti gúmmíbolta, sem kynlífsleikfang, upp í leggöng hennar.
Er þess krafist að dómkvaddir verði tveir hæfir og óvilhallir kunnáttumenn á sviði smit- og kvensjúkdómalækninga. Lagt verði fyrir matsmenn að skoða sakargögn málsins og á þeim grundvelli gefa skriflegt álit á því hvort að notkun bolta sem hjálpartækis sé líkleg til þess að stofna lífi eða heilsu í augljósan háska.
Í matsbeiðninni kemur fram að þess sé óskað að lagt verði fyrir matsmenn að hraða mati eins og kostur sé. Matsgerðin verði lögð fram í Hæstarétti Íslands í málinu nr. 78/2009 en málið sé til flutnings 16. júní n.k.
Af hálfu ríkissaksóknara er þess krafist að matsbeiðninni verði hafnað. Er krafan á því byggð að matsbeiðnin sé of seint fram komin, þ.e. eftir framlagningu greinargerðar fyrir Hæstarétti. Þá liggi fyrir í héraðsdómi skýr framburður læknis. Einnig framburður ákærða sem hafi vitað að athæfið gæti skapað hættu. Loks liggi fyrir að konan hafi veikst. En síðast en ekki síst hafi héraðsdómur verið fjölskipaður og þar setið kvensjúkdómalæknir.
Þar sem það er mat dómsins að ekki sé sýnt að þörf sé á umbeðnu mati til þess að dómur verði lagður á málið verður beiðni matsbeiðanda um dómkvaðningu matsmanna hafnað, sbr. 1. mgr. 128. gr. laga nr. 80/2008.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Umbeðinni dómkvaðningu er hafnað.