Hæstiréttur íslands

Mál nr. 389/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Málskostnaður


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. október 2001.

Nr. 389/2001.

K

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

M

(Dögg Pálsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Málskostnaður.

Kærður var úrskurður héraðsdómara um málskostnað í máli, sem K höfðaði gegn M, þar sem hún krafðist forsjár barns þeirra. Náðist sátt í málinu þess efnis að K skyldi fara með forsjá barnsins, en M hefði rúman umgengnisrétt. Talið var að með hliðsjón af ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála væri rétt að hvor aðili bæri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. september 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. október sama árs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. september 2001, þar sem kveðið var á um málskostnað í máli sóknaraðila gegn varnaraðila, sem var að öðru leyti lokið með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði gert að greiða sér málskostnað í héraði, auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða kærumálskostnað.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. september 2001.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag, var höfðað 13. júní 2000.

Stefnandi er K, en stefndi M.

Mál þetta höfðaði stefnandi til þess að krefjast forsjár dóttur málsaðila, X, fæddrar 1992, en þau höfðu verið með sameiginlega forsjá barnsins. Fyrir aðalmeðferð málsins höfðu aðilar reynt að ná sáttum en án árangurs. Á öðrum degi aðalmeðferðar tókust sættir með aðilum um að stefnandi færi með forsjá barns þeirra og jafnframt um fyrirkomulag umgengni stefnda við barn sitt sem stefndi sætti sig við. Eftir þessar málalyktir var þess krafist af hálfu stefnda að málskostnaður milli aðila félli niður, en af hálfu stefnanda var krafist úrskuðrað dómara um málskostnað úr hendi stefnda.

Enda þótt stefndi hafi í máli þessu krafist þess að honum yrði falinn forsjá barnsins, má þó  ljóst vera, að hann þykir hafa lagt ríkari áherslu á rúman umgengnisrétt sinn við barnið. Stefnandi hefur á hinn bóginn krafist þess að breyting yrði á því fyrirkomulagi á umgengni sem hafði verið. Þegar horft er til þess að mál þetta hefur þannig í verulegum mæli snúist um ágreining um umgengni og að lyktir þess ágreinings hafa orðið með þeim hætti að stefndi er við þær sáttur, verður að telja rétt samkvæmt ofan sögðu og í ljósi 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að ákveða að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu. Þá þykir og rétt að ákveða að kostnaður af öflun sálfræðiskýrslu, 360.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Finnbogi H. Alexandersson, héraðsdómari, kveður úrskurðinn upp.

ÚRSKURÐARORÐ

Málskostnaður milli aðila fellur niður. Kostnaður af öflun sálfræðiskýrslu kr. 360.250 greiðist úr ríkissjóði.