Hæstiréttur íslands

Mál nr. 492/1998


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Sérálit


Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17

                                                                                                                 

Fimmtudaginn 18. mars 1999.

Nr. 492/1998.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

Sólrúnu Elídóttur

(Kristján Stefánsson hrl.)

Líkamsárás. Sérálit.

S var dæmd til fangelsisrefsingar fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa stungið mann með hnífi í brjóstið enda þótti sannað, gegn andmælum hennar, að hún hefði stungið manninn af ásetningi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 8. desember 1998 að ósk ákærðu. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd.

Ákærða krefst þess aðallega að hún verði sýknuð en til vara að refsing hennar verði milduð.

I.

Aðeins hinn fyrri af tveimur ákæruliðum er til endurskoðunar í Hæstarétti. Samkvæmt honum er ákærða sökuð um að hafa að kvöldi sunnudagsins 1. mars 1998, í íbúð sinni að Skógarhjalla 6, Kópavogi, stungið hnífi í brjósthol Viðars Björnssonar, tveimur sentimetrum til hægri við hægri brún bringubeins, milli 4. og 5. rifs, með þeim afleiðingum að hann missti mikið blóð og að um það bil einn lítra af blóði þurfti að tæma úr brjóstholi hans þegar hann leitaði læknis tveimur dögum síðar. Atvikum er lýst í héraðsdómi. Ákærða hefur viðurkennt að atburður þessi hafi átt sér stað og vísað á hnífinn. Hún heldur því aftur á móti fram að þetta hafi gerst fyrir slysni. Hafi hún verið við matseld í eldhúsi og hnífurinn, sem hún hafi haft í hægri hendi, hafi rekist í Viðar. Af framburðum þeirra má ráða að þau hafi átt í deilu um vín eða peninga. Hún kvaðst eftir atburðinn hafa hent frá sér hnífnum. Hún batt síðan um sár Viðars og bjó um hann á dýnu í íbúðinni. Hún þvoði einnig föt hans og reyndi að hreinsa burt ummerki atburðarins í íbúðinni. Ber að fallast á það með héraðsdómi að sannað sé að atburðurinn hafi átt sér stað á sunnudegi en það var ekki fyrr en á þriðjudagsmorgni að Viðar leitaði læknis. Var hann þá í fylgd ákærðu.

Samkvæmt vottorði skurðlæknis á Sjúkrahúsi Reykjavíkur, sem gefið var út í tilefni af rannsókn málsins, sagði Viðar við komu þangað að hann hefði verið stunginn í brjóstholið hægra megin tveimur dögum áður. Við almenna líkamsskoðun var hann „með hita 38.3, aukna hjartsláttartíðni eða 130 slög á mínútu og verulegt blóðþrýstingsfall í sitjandi stöðu miðað við liggjandi, allt teikn um blóðtap.“ Tveimur sentimetrum til hægri við hægri brún bringubeins, milli 4. og 5. rifs, var ríflega sentimeters langt sár með hrúðri á börmum og af útliti að dæma tveggja til þriggja daga gamalt. Blóðrannsóknir sýndu verulega lækkun á blóðrauða, sem studdi frekar það mat að um blóðtap hefði verið að ræða. Í ljósi þessa var lagður keri í hægra brjósthol og þaðan var svo tæmdur um það bil einn lítri af blóði. Viðari var síðan gefið blóð og hann vistaður á sjúkrahúsinu.

Í vottorðinu segir ennfremur að útlitið bendi til þess að um sár frá beittu áhaldi hafi verið að ræða, þar sem mar umhverfis það hafi verið mjög lítið og skurðbrúnir sársins hreinlegar. Þá segir þar ennfremur að við innlögn hafi röntgenmynd sýnt loft fyrir utan hægra lunga sem annað tveggja hafi komið vegna áverka á lungað ellegar utan frá gegnum sárið á brjóstvegginn. Hvort heldur sem væri hafi áverki þessi verið lífshættulegur í eðli sínu. Þegar sjúklingurinn hafi verið lagður inn á sjúkrahúsið hafi hann hins vegar ekki verið í yfirvofandi lífshættu.

Læknirinn sem gaf vottorðið sagði fyrir dómi að sár eins og það, sem hér var um að ræða, séu almennt stungusár. Sárið hafi gengið í gegnum brjóstvegginn en hann sé um það bil tveggja sentimetra þykkur á þessu svæði. Lækninum var sýndur hnífurinn sem ákærða segir að stungist hafi í Viðar. Sagði hann þá að eina leiðin til þess að valda slíku sári með hnífnum hefði verið sú að honum væri beitt beint fram. Til þess að um óhapp hefði verið að ræða hefði Viðar þurft að detta beint á oddinn á hnífnum.

II.

Af því sem að framan er rakið þykir ljóst að ákærða rak beittan hníf, sem hún hafði í hægri hendi, í Viðar Björnsson í framhaldi af rifrildi þeirra. Hnífurinn fór í gegnum föt hans og um það bil tvo sentimetra í gegnum húðina og inn í brjóstholið. Viðar sagði strax á sjúkrahúsinu og hefur haldið sig við það síðan að hann hefði verið stunginn. Hann hefur þó ekki viljað kæra ákærðu eða gera bótakröfur á hendur henni. Hegðun þeirra eftir atburðinn, svo sem henni er lýst í héraðsdómi, bendir til þess að þau hafi viljað koma í veg fyrir að lögreglan blandaðist í málið. Framburður Viðars fær stoð í framangreindu áliti læknisins.

Ákærða neitaði í fyrstu að hafa stungið Viðar. Framburður hennar fær heldur ekki stoð í vottorði eða framburði læknisins. Hún kom Viðari ekki undir læknishendur fyrr en á öðrum degi eftir atburðinn, en þau og vitnið Karl Valgarðsson eru sammála um að Viðari hafi liðið illa. Hefur því mati héraðsdóms ekki verið hnekkt að framburður ákærðu sé ósennilegur. Þykja fram komnar nægar sönnur fyrir sekt hennar. Henni mátti ekki dyljast hættan, sem af verknaði hennar stafaði, en samkvæmt framangreindu læknisvottorði var um að ræða lífshættulegan áverka. Verknaður ákærðu er réttilega heimfærður til refsiákvæðis í héraðsdómi.

Sakarferill ákærðu er rakinn í héraðsdómi. Auk annarra brota eru þar talin brot gegn lífi manna og heilsu, en 22. maí 1986 var hún dæmd í Hæstarétti fyrir brot á      1. mgr. 221. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 24. maí 1989 fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. sömu laga, en því broti svipar mjög til þess brots, sem hún er hér sakfelld fyrir. Ljóst er að hún kom hinum slasaða ekki undir læknishendur heldur reyndi að koma í veg fyrir að verknaðurinn kæmist upp og að fá Viðar til að falla frá kæru.

Samkvæmt sakarferli ákærðu og hegðun eftir atburðinn verður ekki hjá því komist að þyngja refsingu frá því er ákveðið var í héraðsdómi. Þykir refsing hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár, en frá því skal dragast gæsluvarðhaldsvist svo sem í héraðsdómi greinir.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærða greiði allan kostnað af áfrýjun málsins, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Hjörtur Torfason tekur fram, að hann telji refsingu hæfilega ákveðna í héraðsdómi.

                                                    Dómsorð:

Ákærða, Sólrún Elídóttir, sæti fangelsi í 5 ár og komi gæsluvarðhaldsvist hennar frá 7. til 10. mars 1998 með fullri dagatölu til frádráttar refsingunni.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest.

Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 120.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 17. nóvember 1998.

Ár 1998, þriðjudaginn 17. nóvember, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness sem háð er að Brekkugötu 2, Hafnarfirði af Guðmundi L. Jóhannessyni héraðsdómara og meðdómsmönnunum Finnboga H. Alexanderssyni og Sveini Sigurkarlssyni, héraðsdómurum kveðinn upp dómur í málinu nr. S-242/1998: Ákæruvaldið gegn Sólrúnu Elídóttur, sem dómtekið var 13. nóvember s.l. að lokinni vettvangsgöngu og endurflutningi, en það var áður flutt 27. ágúst s.l.

Málið er með ákæru útgefinni 23. júní s.l. höfðað gegn Sólrúnu Elídóttur, kt. 040556-2309, Áshamri 71, Vestmannaeyjum fyrir eftirgreindar líkamsárásir:

1. Með því að hafa að kvöldi sunnudagsins 1. mars 1998, í íbúð ákærðu að Skógarhjalla 6, Kópavogi, stungið hnífi í brjósthol Viðars Björnssonar, tveimur sentimetrum til hægri við brún bringubeins milli 4. og 5. rifs, með þeim afleiðingum að hann missti mikið blóð og að um það bil einn lítra af blóði þurfti að tæma úr brjóstholi hans þegar hann leitaði læknis tveimur dögum síðar.

2. Með því að hafa síðdegis fimmtudaginn 30. apríl 1998, í íbúð ákærðu að Skógarhjalla 6, Kópavogi, veitt Viðari Björnssyni áverka með hvössu eggjárni vinstra megin aftan á hálsi, með þeim afleiðingum að hann hlaut þar 1,5 sentimetra langan skurð.

Telst brot samkvæmt fyrri kafla ákæru varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20,1981, og brot samkvæmt síðari kafla við 1. mgr. 217. gr. alm. hgl., sbr. 10. gr. laga nr. 20,1981.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar, þar með talin hæfileg saksóknarlaun í ríkissjóð.

Ákærða hefur krafist þess aðallega að hún verði sýknuð af kröfum ákæruvaldsins í málinu, en til vara er þess krafist að hún verði dæmd til til vægustu refsingar sem lög heimili og verði hún skilorðsbundin og komi gæsluvarðhaldsvist ákærðu til frádráttar. Þá verði allur kostnaður sakarinnar að meðtöldum hæfilegum málsvarnarlaunum til skipaðs verjanda hennar hrl. Kristjáns Stefánssonar lagður á ríkissjóð.

I.

Málavextir.

1. Brjóstholsáverki.

Fimmtudaginn 5. mars s.l. kl. 2210 var hringt í lögreglustöðina í Kópavogi og tilkynnt um að á Sjúkrahúsi Reykjavíkur lægi Viðar Björnsson með brjóstholsáverka eftir hnífstungu. Tilkynnandi kvaðst vera skyldmenni Viðars, en vildi ekki láta nafns síns getið, en kvað atburðinn hafa átt sér stað síðastliðinn sunnudag í íbúð ákærðu Sólrúnar Elídóttur að Skógarhjalla 6, Kópavogi. Viðar hafði hringt í tilkynnanda um kl. 2100, en hann hafi verið tregur til að gefa upplýsingar um hvernig hann hafi hlotið áverkana, en er gengið hafði verið frekar á hann hefði hann sagt að fyrrverandi sambýliskona hans, ákærða Sólrún, hafi lagt til hans með hnífi í íbúð hennar sunnudaginn 1. mars og jafnframt hafði hann tekið fram, að hann ætlaði ekki að kæra hana fyrir verknaðinn. Tilkynnandi kvaðst óttast ákærðu og vísaði til þess, að Sólrún hafi stungið Viðar í brjóstholið fyrir 4-5 árum og 1996 hafi hún stungið hann í lærið við rassvöðva, en Viðar hafi ekki kært. Í framhaldi af þessari tilkynningu fór Páll Sigurðsson, rannsóknarlögreglumaður, á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og fékk þar staðfest hjá Jóni Baldurssyni yfirlækni deildarinnar, að Viðar hafi komið þangað á eigin vegum um kl. 1100 3. mars s.l. með brjóstholsáverka og taldi hjúkrunarfræðingur á deild B, þar sem sem Viðar lá, að áverkar hans væru eftir hnífstungu, en ekki náðist tal af lækninum sem annaðist Viðar, Þorvaldi Jónssyni, skurðlækni, sem var upptekinn í aðgerð. Daginn eftir höfðu lögreglumenn svo tal af lækninum, sem kvað Viðar hafa komið til hans frá Heilsugæslustöð Kópavogs að morgni 3. mars og verið með sár á brjósti og öðru lunga, sem hefði verið fallið saman. Sárið hafi ekki verið nýtt og gæti verið tveggja daga gamalt. Hann kvað Viðar hafa gefið óljós svör um hvernig hann hefði hlotið áverkann. Reynt var að fá að tala við Viðar, en hann vildi ekki tala við lögreglu og bar því fyrir sig, að hann væri of veikur og var það virt. Á Heilsugæslunni í Kópavogi var upplýst, að Viðar hefði komið þangað kl. 0945 í fylgd með ákærðu Sólrúnu og kvartað um verk í brjósti og reynst vera með sár á hægra brjósti og loftbrjóst. Hann hafði gefið óljós svör um hvernig hann hefði hlotið áverkann og ekki hafði sést blóð á fötum hans.

Í áverkavottorði sem Þorvaldur Jónsson, skurðlæknir gaf að ósk lögreglunnar í Kópavogi kemur þetta fram:

“Viðar Björnsson kemur á Röntgendeild Sjúkrahúss Reykjavíkur í Fossvogi að morgni þriðjudags 03.03.98 að tilvísan Sigurðar Inga Sigurðssonar heilsugæslulæknis á Heilsugæslustöðinni í Kópavogi. Við röntgenmyndatöku sést vökvi hægra megin í brjóstholi og loft utan við hægra lunga og er undirritaður því tilkallaður sem vakthafandi sérfræðingur á skurðlækningadeild þann sólarhring. Sjúklingur er í framhaldi af því lagður inn á skurðlækningadeild SHR.

Við innlögn á sjúkradeildina er sjúklingur illa til hafður og angandi af áfengislykt. Þó stilltur og meðfærilegur. Gefur þá sögu að hann, tveimur dögum áður, hafi verið stunginn í brjóstholið hægra megin, en segist ekki vita með hvers konar áhaldi það var, og vill engin frekari smáatriði veita og ber fyrir sig minnisleysi. Við almenna líkamsskoðun er sjúklingur með hita, 38,3, aukna hjartsláttartíðni eða 130 slög á mínútu og verulegt blóðsþrýstingsfall í sitjandi stöðu miðað við liggjandi, allt teikn um blóðtap. Hann er með grunn hruflsár í andliti. Tveimur sentimetrum til hægri við hægri brún bringubeins milli 4. og 5. rifs er ríflega sentimeters langt sár með hrúðri á börmum og af útliti að dæma tveggja til þriggja daga gamalt. Engin önnur áverkamerki greind á brjóstholi eða kviðarholi. Blóðrannsóknir sýna verulega lækkun á blóðrauðu, til frekari stuðnings því mati að um blóðtap hafi verið að ræða. Í ljósi þessa, sögu sjúklings og útlits á röntgenmynd var í staðdeyfingu lagður keri í hægra brjósthol og þaðan tæmdur út um það bil einn líter af blóði. Sjúklingi síðan gefin blóðgjöf og hefur síðar vistast á spítalanum.

Með tilliti til þeirra spurninga sem lagðar eru fram sérstaklega í beiðni yðar um vottorð fyrir þennan sjúkling skal upplýst:

a.Eini markverði áverkinn var ofangreint sár á brjóstvegg hægra megin eins og lýst er að ofan

b.Útlitið bendir til að um sár frá beittu áhaldi hafi verið að ræða, þar sem mar umhverfis var mjög lítið og skurðbrúnir sársins hreinlegar. Hvers konar áhald þetta hefur verið er hins vegar ekki hægt að fullyrða um af útliti sársins.

c.Sjúklingur hafði sannanlega blætt um það bil einn lítra inn í brjósthol hægra megin og þetta valdið yfirboðaeinkennum um lost. Röntgenmynd við innlögn sýndi að auki loft fyrir utan hægra lunga, sem annað tveggja hefur komið vegna áverka á lungað ellegar utan á gegnum ofannefnt sár á brjóstvegginn. Hvort heldur er, er áverki þessa eðlis lífshættulegur í eðli sínu. Þegar sjúklingur er lagður inn á sjúkrahúsið lá hins vegar ekki fyrir yfirvofandi lífshætta.

d.Ekki er frekari heimilda hér um að geta en koma fram að ofan.”

Þann 6. mars s.l. var ákærða handtekin og var grunuð um að eiga sök á framangreindum áverka á Viðari. Hún neitaði alfarið sakargiftum, en heimilaði húsrannsókn á heimili sínu að Skógarhjalla 6, Kópavogi og fór vettvangskönnunin fram síðar sama dag 7. mars og kom þetta fram við rannsóknina.

Skógarhjalli 6 er tvílyft og nýlegt steinhús, þar sem íbúð ákærðu er á efri hæð, en á neðri hæð eru tvær íbúðir. Þegar komið er inn í anddyrið á íbúð ákærðu, er innangengt úr því í lítið forstofuherbergi á vinstri hönd. Úr anddyrinu er og gengið inn í skála með salerni á vinstri hönd og svefnherbergi í framhaldi á vinstri hönd. Skáli og stofa eru samliggjandi. Á hægri hönd þegar komið er inn í skálann, er gengið inn í eldhús og á hægri hönd þegar komið er inn í það er þvottahús.

Við fyrstu skoðun á íbúðinni virtist allt eðlilegt og ekki sjá nein merki um átök. Við nánari skoðun kom í ljós að í svörtum poka í anddyrinu var sæng og dýnuhlíf, yfirdýna með blettum, sem ætla mætti að væru blóðblettir.

Við skoðun á svefnherbergi mátti sjá á norðurvegg um 60 sm ofan við höfðagafl rúmsins tvær litlar blóðslettur. Við skoðun á eldhúsi á suðurvegg og á gólfi í borðkrók mátti sjá allnokkrar blóðslettur og kám sem reynt hafði verið að þurrka upp. Í nýþvegnu og samanbrotnu taui sem var inni í stofu fannst pólóskyrta, sem merkt var V.B. í hálsmálið. Við skoðun kom í ljós, að framan á henni var lítið gat og á framanverðum streng hennar var blóðblettur. Þá fannst og í taustaflanum handklæði, sem í virtust vera blóðblettir. Í þvottaherbergi fannst gólfmoppa með rauðleitu kámi í og í sorpíláti voru sokkar með ætluðu blóði. Fatnaðurinn og tauið var haldlagt til frekari skoðunar og tekin voru blóðsýni af ætluðum blóðslettum í eldhúsi og svefnherbergi.

Eftir að húsrannsókn þessari var að mestu lokið, var tekin skýrsla af ákærðu hjá lögreglu. Hún neitaði enn að eiga sök á því, að Viðar hafi hlotið áverkana í brjóstholinu. Hún kvað Viðar vera fyrrum sambýlismann sinn og hafi þau búið saman í samtals 8 ár á níunda áratugnum, en sambúðinni hafi lokið vegna mikillar óreglu beggja. Hún kvað samskiptin eftir það hafa verið góð milli þeirra og væru þau góðir vinir. Hann hafi viljað hefja sambúð við hana, en hún hafið sambúð 1995 við núverandi eiginmann sinn, og þau búið saman frá þeim tíma. Hann sé sjómaður og dvelji langtímum að heiman. Hún kvað Viðar eftir 15. ágúst 1997 hafa farið í 6 mánaða fangelsisafplánun og verið nýbúinn að ljúka henni er hann hafi hringt heim til hennar mánudaginn 2. mars s.l. um kl. 1700-1800 og beðið um að fá að koma í heimsókn. Hún hafði ekki viljað fá hann í heimsókn, þar sem Karl Valgarðsson var gestkomandi á heimili hennar og hafði dvalið þar allt frá 3. febrúar s.l. og þau verið í töluverðri óreglu á þessu tímabili. Viðar hafi þá sagst hafa verið stunginn og viljað því koma heim til hennar. Hún hafði þá sagt honum að taka leigubifreið heim til hennar og boðist til að borga hana. Skömmu síðar hafi Viðar komið á leigubifreið og svo hringt dyrabjöllunni og hún opnað fyrir honum. Hún kvað hann hafa verið í dökkri úlpu, skyrtulausan, en í hvítum bol og hafði hún séð að á bolnum fyrir miðri bringu hans hafi verið u.þ.b. lófastór blóðblettur. Hún hafði ekki séð á göngulagi hans að hann hafi orðið fyrir miklum líkamlegum áverka, en eftir að hann hafði sest í stól í sjónvarpsherberginu gegn Karli fór hún að skoða áverkann hjá Viðari og séð að lítil skráma var fyrir á miðri bringu hans og blæddi smávegis úr henni. Hún hafði sótt sjúkragrisju og sett á sárið og hvatt Viðar til að fara á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, en hann hafnað því og talið að þetta myndi lagast. Hún kvaðst hafa spurt Viðar með hvaða hætti hann hafi fengið áverkann eða hver hafi ráðist á hann, en hann ekki gefið skýr svör þar um. Hún hafði þá ráðið það af svari hans að fyrr þennan dag hafi karlmaður ráðist á hann í Austurstræti eða Hafnarstræti. Hún hafði svo búið um Viðar á dýnum á gólfinu í stofunni áður en hún fór að sofa, sett kodda undir höfðalag hans og breitt yfir hann. Hún hafði þá rætt stuttlega við hann og fór hann þá að kúgast. Sótti hún þá fötu sem hún setti hjá honum og hann ældi í, en sofnaði svo. Um nóttina hafði hún vaknað við dynk og heyrði að Viðar var að kveinka sér og hafði og orðið vör við að hann var af og til að kveinka sér. Hún hafði því vakið hann um kl. 0900 um morguninn og kannað líðan hans og hann svarað því til að honum liði ekki vel og að tillögu hennar samþykkt að fara á Heilsugæslustöð Kópavogs. Hann hefði klætt sig sjálfur og þau farið saman á Heilsugæslustöðina og Viðar verið sendur þaðan á Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur. Henni var bent á að ekkert blóð hafi sést á fötum Viðars, er hann hafi komið á Heilsugæslustöðina. Hún kvaðst þá hafa látið hann hafa annan bol, dökkfjólubláan, sem hann væri sennilega í núna, og hún sennilega þvegið hvíta bolinn og jafnvel annan fatnað sem Viðar var í. Hún hafði svo heimsótt Viðar á Sjúkrahús Reykjavíkur seinni hluta dags 3. mars s.l. og haft tal af honum í síma 4. mars s.l.

Viðar Björnsson, kt. 240848-7759, gaf skýrslu hjá lögreglunni í Kópavogi 9. mars s.l. og var hann spurður um það með hvaða hætti hann hafi hlotið sár á brjóstið. Hann kvaðst vilja segja satt og rétt frá um mál þetta. Hann kvaðst hafa komið á laugardaginn til ákærðu og Karl Valgarðsson þá verið hjá henni. Viðar kvaðst svo hafa farið með ákærðu niður í bæinn um kvöldið með leigubifreið og komið heim til hennar síðar um kvöldið með öðrum leigubíl. Eftir það hafi hann dvalið alveg hjá Sólrúnu og ekki farið út, fyrr en hann hafi farið á heilsugæslustöðina og þau ásamt Karli setið að drykkju og verið mikið ölvuð og engir aðrir komið. Sannleikurinn væri sá, að það hafi verið ákærða sem hafi stungið hann í brjóstið og hélt hann að það hafi verið með hníf. Þetta hafi gerst í stofunni heima hjá henni síðari hluta sunnudags og hafi Karl Valgarðsson verið vitni að þessu og þau öll verið mikið ölvuð. Hann kvað hafa komið til deilna milli hans og ákærðu út af 9.000 krónum sem hún hafi verið með í rassvasanum. Hún hafi borið upp á hann, að hafa stolið peningunum, en þá hafi hún verið búin að gleyma að hún notaði þá sjálf til þess að greiða fyrir tvær flöskur af áfengi sem hún hafi keypt af leigubílstjóra. Hafi rifrildi þetta endað með því, að hún hafi lagt til hans í brjóstið og hann fundið að hún hafi stungið hann. Hann hélt að hún hefði verið með hníf, en vissi ekki hvað af honum varð. Ekki mundi hann til þess, að hún segði neitt áður en hún lagði til hans. Hún hafi skyndilega og allt í einu lagt til hans. Hann kvað engin átök hafa orðið, en hann orðið reiður vegna þess, að hún hafi verið að bera á hann þjófnað. Hann kvaðst ekki hafa verið búinn að sjá hana með hnífinn áður og hafi hann staðið á stofugólfinu nær eldhúsinu, þegar þetta gerðist. Hann kvað ákærðu strax hafa áttað sig á því hvað hún var búin að gera og farið að hjálpa honum. Það hafi blætt mikið, sárið hafi verið stórt og blætt á föt hans. Hann hafi farið á eftir inn í hjónaherbergið, og ef til vill inn í eldhús. Hann hafði ekki fundið mikið til fyrst á eftir. Ákærða hafi búið um sárið, komið með hrein föt fyrir hann og þau svo haldið áfram drykkju, en á þriðjudagsmorgun hafi hann farið á Heilsugæslustöðina og svo á Slysadeildina.

Á mánudagsmorguninn hafi hann og ákærða rætt um að segja ósatt frá atvikum og komið sér saman um að segja að þetta hafi gerst niður í bæ, en Karl hafi strax sagt að hann myndi ekki neitt um atburðinn. Hann kvað ástæðuna fyrir því að hann hafi tekið þátt í því að segja ósatt hafi aðeins verið þá, að hann hafi ætlað að bjarga ákærðu, en þetta hafi verið í þriðja sinn sem hún hafi lagt til hans með hnífi. Hugsun hans hafi einnig verið sú, að honum hafi þótt gott að geta komið til hennar til að drekka.

Hann taldi sig geta átt von á einhverjum hefndarráðstöfunum vegna þess að hann hefði nú sagt satt frá og hætt að ljúga. Hann kvaðst hafa verið klæddur í svartar gallabuxur og í drapplitaða prjónapeysu, hnepptri í kragann og kvað pólóskyrtuna sem fundist hafði við rannsókn á heimili ákærða vera þessa peysu.

Eftir að Viðar hafði gefið framangreinda skýrslu var aftur tekin skýrsla af ákærðu sem nú vildi breyta fyrri framburði. Hún kvað atvikin hafa verið þannig, að Viðar hafi hringt í hana á föstudaginn af veitingahúsinu Keisaranum og viljað koma með mann í heimsókn, en hún verið treg til þess, en þó samþykkt. Þeir hafi komið um kl. 1800, en maðurinn sem hún vissi engin deili á, hafði stutta viðdvöl hjá henni. Hún, Viðar og Karl hafi sofið í hjónarúminu um nóttina, en Viðar farið í burtu daginn eftir og verið frá í einhvern tíma. Hann hafði svo komið aftur og viljað fá hana með á Keisarann og hún slegið til og farið með honum. Þau hafi farið tvö, tekið leigubifreið að Keisaranum, stoppað þar mjög stutt og svo tekið leigubifreið aftur heim. Hún hafði í ferðinni keypt tvær flöskur á svörtum. Hún hafði átt að eiga 9.000 krónur í rassvasanum, en ekki fundið peningana er hún kom heim og sagt Viðari að skila þeim. Hún hafði leitað á honum og fundið lítið vasaútvarp, sem hann hafði stungið á sig. Hún hafði verið að sjóða slátur og skera utan af rófum. Hún hafði sagt Viðari að fara út og þar með hafi hnífurinn farið í hann. Þetta hafi gerst í eldhúsinu þar sem þau Viðar voru tvö, en Karl hafði verið inni í stofu. Hún hafði staðið við eldhúsborðið og verið að flysja rófur. Viðar hafi verið við endannn á borðinu hjá ísskápnum. Hún kvaðst hafa verið að biðja hann með góðu að fara út og boðist til að láta hann fá peninga fyrir leigubifreið. Þá hafi hún haldið á hnífnum í hægri hendi og verið að benda til hans með hnífnum. Hann hafi ekki viljað fara nema Karl færi líka og lotið niður að henni og hafi hnífurinn þá rekist í brjóstið á honum. Hún kvað þetta hafa verið um kvöldmatarleytið, en var ekki viss um hvaða dag, en taldi þó að það hefði verið daginn eftir. Á mánudaginn um kl. 1300-1400 hafi verið komið með frystikistu til hennar og Viðar viljað hjálpa til við að bera hana inn, en hún ekki viljað það, þar sem hann hafi verið slappur eftir að hnífurinn rakst í hann. Hún lýsti með svipuðum hætti og áður hvernig hún hafi hlúð að Viðari og viðbrögðum hans. Hún kvað ekki hafa komið til átaka milli þeirra áður. Hún var spurð um deilur þeirra og kvað hún þá sögu Viðars, um hvernig hnífurinn hafi lent í brjósti hans vera ranga og einnig væri það rangt að þetta hafi gerst í stofunni. Hún kvaðst svo hafa sleppt hnífnum eftir að hann hafði lent í Viðari og svo hafi hann lent með öðrum eldhúshnífum hennar. Hún kvað hafa blætt úr Viðari í eldhúsinu og ef til vill víðar. Hún kvaðst hafa þvegið fötin sem hann var í þ.á m. peysuna.

Ákærða hefur lýst atvikum hér fyrir dómi í meginatriðum á sama veg og hjá lögreglu, en nánar greinir hún svo frá að hún hafi ætlað að sjóða slátur og rófur í greint sinn, en Viðar hafi viljað fá vín og hún sagt honum að hann fengi ekki meira vín, fyrr en búið væri að borða. Hún kvaðst svo hafa sagt honum að koma sér út og gæti hann tekið leigubifreið sem hún myndi borga fyrir hann. Hún kvaðst þá hafa verið að flysja rófur, en átt eftir að skera þær í fjóra parta. Hún hafi haldið eldhúshnífnum sem hún notaði við þetta, í hægri hendi. Viðar hafi verið kominn inn í eldhús og komið að henni þar sem hún var að reyna að skera rófurnar í fjóra parta og spurt hvort hún ætlaði að reka hann út og hún játað því, ef hann væri með læti út af víni, en kvaðst ekki hafa ógnað honum með hnífnum. Hún kvaðst hafa ýtt Viðari frá sér með vinstri hendi og sagt honum að fara í síma til að hringja í leigubifreið. Þá hafi hann komið nær henni og hnífurinn þá rekist í hann og lent einhversstaðar framan á honum. Honum hafi brugðið, en samt ekki hrópað. Hún kvaðst hafa orðið að hætta við að skera rófurnar, því að henni hefði brugðið svo við þetta. Hún hafði tekið hnífinn úr brjóstholinu á Viðari og hent honum frá sér til að athuga hvað hefði gerst og svo farið að huga að Viðari. Hún kvað þetta hafa verið slys en ekki ásetning hjá sér. Það hafi blætt mikið úr Viðari og henni ekki staðið á sama og viljað að hann færi til læknis. Hann hafi ekki viljað það, og sagt að þetta væri allt í lagi, þetta myndi lagast. Henni hafi verið svo brugðið, að hún hafi hætt við að sjóða rófurnar, sest niður og fylgst með honum. Hann hafi samt fengið sér “sjúss”. Hún hafði svo tekið fram dýnu og látið Viðar leggjast á hana í stofunni hjá eldhúsinu, en hann verið mjög þyrstur og hún því haft hann nálægt eldhúsinu. Hún kvað Viðar hafa hljóðað af sársauka um nóttina og henni þá liðið ennþá verr. Um morguninn hafi hún sagt við Viðar, að hún hlustaði ekki á hann og farið með hann á Heilsugæslustöð Kópavogs. Hún kvað Viðar ekki hafa verið lengi á spítala, og hefði hún og Karl hitt hann ölvaðan niður á Hlemmi þegar hann kom af spítalanum. Ákærða taldi það vera afbrýðisemi af hálfu Viðars, sem réði því að hann teldi hana eiga sök á stungunni af ásetningi. Hún kvað Viðar vera fyrrverandi sambýlismann sinn, sem alltaf hafi elskað hana og væru þau vinir þó að þau væru skilin. Hann virtist samt hata hana meira og meira af því að hún hafi byrjað að búa með góðum manni sem ekki sé “alki” heldur skipstjóri. Hatrið hafi aukist eftir að hann hafi frétt að hún hafi gifst þessum manni. Hún kvað það hafa komið fram hjá Viðari er hún og Karl hittust þarna á Hlemmi, að þess vegna hafi hann ákveðið að kæra hana fyrir að hafa stungið hann og sérstaklega af því að hún hefði lent í því áður að stinga mann. Hún kvaðst hafa sagt við Viðar á Hlemmi. “Hvað ertu að gera mér, sem ég hef ekki gert”, en hann vissi sjálfur, að hún hafi ekki gert þetta. Þá hafi hann sagst hafa verið svo sár yfir því að liggja á spítala og ákveðið þetta af því að hann hafi verið reiður. Hann vilji hana aftur, en fái ekki, af því að hún sé gift góðum manni og verði gift honum áfram og allt til æviloka og því láti Viðar svona við hana. Hún kvaðst þá hafa spurt Viðar hvers vegna hann tæki þetta ekki til baka þar sem hún hafi ekki gert þetta. Hann hafi þá sagt “Auðvitað geri ég það, ég elska þig það mikið, að ég ætla ekki að ljúga upp á þig. Hann hafi svo farið blindfullur til RLR, en þar hafi ekki verið tekið mark á honum.

Viðar Björnsson bar vitni hér fyrir dómi. Vitnið kvaðst hafa komið föstudagskvöldið 27. febrúar s.l. heim til ákærðu og þau ásamt Karli Valgarðssyni setið að drykkju um helgina. Seinni partinn á sunnudag eða þá undir kvöld hafi orðið rifrildi milli þess og ákærðu og Karl verið viðstaddur. Rifrildið hafi magnast og það ákveðið að fara út, en samt boðið ákærðu að leita á sér fyrst. Hún hafi gert það, og það næsta sem vitnið vissi af sér var að það hafi fundið mikinn verk í brjósti og svo fór að blæða úr því. Það kvaðst hafa verið við eldhúsið, en samt inni í stofu. Karl hafi verið innar í stofunni. Það kvaðst aldrei hafa séð hníf. Það hafði orðið mjög máttlaust og lagst á gólfið og ákærða komið til hjálpar og bundið að sárinu. Það kvaðst hafa verið þarna eftir þetta rúma tvo sólarhringa og deyft sig með víni. Það kvaðst ekki hafa beðið um, að sóttur yrði læknir, heldur viljað bíða og sjá til. Ákærða hafi viljað að það færi til læknis, en það vitað að það myndi bara kosta lögreglu, vesen og leiðindi. Það kvaðst hafa verið þarna allan mánudaginn og það og ákærða þá rætt hvernig haga skyldi sögu af atburðinum. Á þriðjudaginn hafi þrautirnar verið orðnar það miklar að það hafi verið tilneytt að fara til læknis. Borið var undir vitnið lýsing ákærðu á því hvernig vitnið hlaut áverkann. Vitnið var visst um, að það hafi verið á leið út úr stofunni, er það hafi fundið fyrir verk fyrir brjóstinu og hnigið niður og þetta gerst í stofunni við eldhúsdyrnar. Það kvað ákærðu ekki hafa verið í eldhúsinu og það hafði ekki orðið vart við að ákærða hafi á þessum tíma verið að flysja rófur eða sjóða slátur né minntist það þess að það hafi neitt verið eldað á þessum tíma. Það kvað engar hnippingar hafa orðið á milli þeirra áður en það fékk sárið á brjóstið og ítrekaði að það hafi ekki séð hnífinn í hendi ákærðu áður. Það vildi þó ekki fullyrða að hún hafi ekki getað hafa farið inn í eldhús áður og vísaði til skýrslu sinnar hjá lögreglu, sem það taldi rétta. Það kvaðst hafa verið í 6 daga á sjúkrahúsi að jafna sig eftir sárið og kvaðst svo hafa hitt ákærðu og Karl nokkru síðar eða 30. apríl s.l. Hún hafi þá viljað að það drægi kæruna til baka og það verið til í það, en það hafi ekki verið hlustað á það hjá lögreglu vegna þess hve ölvað það var.

Aðspurt hvers vegna það hafi ekki gert bótakröfu í málinu, sagði vitnið að það væri búið að þekkja ákærðu mjög lengi og alltaf borið hlýhug til hennar. Það kvaðst alltaf hafa komið vel fram við hana, þrátt fyrir að þetta hafi komið fyrir.

Vitnið Karl Valgarðsson, sjómaður, Ránargötu 6, Reykjavík, kt. 101239-4899, hafði verið á heimili ákærðu framangreinda helgi. Það kvaðst hafa verið inni í sjónvarpsherbergi og ekki fylgst með því sem fór fram á milli ákærðu og Viðars og gat ekki sagt til um það, hvernig stungusár Viðars var tilkomið. Það kvaðst þarna um nóttina hafa farið fram í eldhús, til að fá sér að drekka, þar sem það var þyrst. Viðar hafi þá legið á dýnu í stofunni. Hann hafi sagst vera að deyja úr þorsta og það fært honum að drekka. Hann hafi þá talað um að hann væri slæmur í öxlinni og hann ætti erfitt með að snúa sér við. Það kvaðst þá ekki hafa vitað um að Viðar hefði hlotið áverka og hann ekkert minnst á það við það. Það kvað hann hafa klárað allt úr ísskápnum sem þar var að drekka og viljað meira að drekka daginn eftir, og verið slappur. Það kvað þau öll og hafa blandað sér vín og fengið sér að drekka daginn eftir. Viðar hafi byrjað í drykkjunni, en svo ekki haft lyst, og viljað fá að hvíla sig um daginn, og fengið það, en hann hafi neitað að fara til læknis, þó að honum væri boðið það. Vitninu fannst, að hann væri betur kominn hjá lækni, fyrst að hann hefði ekki einu sinni lyst á víni, þá hlyti að vera komið illa fyrir honum.

Við skýrslutöku hjá lögreglu bar vitnið, að ákærða og Viðar hafi verið að ræða saman inni í stofu nóttina eftir að það hafi verið að sinna honum vegna hans mikla þorsta, og það þá spurt hvað hafi komið fyrir og Viðar þá ekki sagt annað, en að hann og ákærða hafi verið að deila út af 9000 krónum. Það minntist þess og að Greiðabíll hafi komið með frystikistu heim til ákærðu og það aðstoðað við að bera hana inn, en þá hafi Viðar verið inni í stofu illa haldinn af verkjum.

Vitnið Þorvaldur Jónsson, skurðlæknir, Akraseli 11, Reykjavík, kt. 141151-3559, staðfesti læknisvottorð sitt og bar nánar um atvik að því. Það kvað Viðar Björnsson hafa komið 3. mars s.l. á Röntgendeild Sjúkrahúss Reykjavíkur frá Heilsugæslu Kópavogs vegna mæði og takverks í brjósti. Það hefði verið kallað til af sérfræðingi á deildinni til að skoða myndir af Viðari, sem talinn var þurfa meðferðar við á skurðstofu. Það hafði skoðað Viðar á röntgendeildinni og hafi hann verið með öll venjuleg einkenni blóðtaps, án þess að vera blóðugur. Hann hafi verið með blóðþrýstings-og hjartsláttartölur, sem eingöngu sjáist í sambandi við blóðtap, og líklegt þótti að sá vökvi sem var í brjóstholinu væri blóð. Það kvað sárið í brjóstholi Viðars hafa verið tveggja til fjögurra daga gamalt, en í því hafi verið byrjandi gróandi, sem ekki myndi koma fyrr en eftir tvo daga, en það hafi samt verið það laust í sér að það gat ekki verið meira en fjögurra daga gamalt. Einkennin á áverkanum hafi borið með sér, að um stungusár var að ræða sem veitt hafi verið með áhaldi, sem hafi nægilega sterka egg til að skera húð. Allir vefir undir húð á þessum stað væru mýkri en húðin og veittu minni mótstöðu. Það kvað þannig þurfa egg af einhverri gerð, sem geti skorið húðina eða vefinn, en þarna hafi húðin ekki verið kramin eða marin í kringum áverkastaðinn eins og gerst hefði ef notað hefði verið sljótt áhald. Vitninu var sýndur hnífurinn, sem ákærða kvað Viðar hafa rekist á. Það kvað sárið geta stafað frá stungu með þessum hníf, ef honum væri beitt beint fram með oddinn og dygði ekki til að einhver styddi sig að honum. Það kvaðst telja sárið vera lífshættulegt. Sárið hafi verið djúpt um 2 sm á lengd. Loft hafi verið í brjóstkassa, sem geti haft tvær skýringar. Annað hvort að lungað hafi orðið fyrir áverka og það lekið loft út úr því eða að strax eftir að ytri áverki er veittur sogist andrúmsloft inn í brjóstholið við venjulegar öndunarhreyfingar. Það kvað ekki unnt að segja til um hversu hröð blóðsöfnunin verði við þessar aðstæður og það væri fremur tilviljun að blóðtapið skyldi ekki vera þrír lítrar fremur en einn lítri og að lungað skyldi ekki vera algerlega samfallið. Það kvað Viðar vera mikinn reykingamann með slæm lungu, og því hætta meiri, með eitt starfhæft lunga. Hann hafi verið í mikilli lífshættu. Það kvað verk vegna slíks stungusárs vera staðbundinn, en verkur frá loftbrjósti eða vökva í brjóstholi væri takverkur um allt brjóstholið sem versni við allar öndunarhreyfingar og taldi að verkur Viðars í öxl eða herðablaði væri vegna vökvans í brjóstholinu og ertingar í þind. Það kvað Viðar einu sinni hafa sagt, er það ræddi við hann, að hann hafi orðið fyrir hnífsstungu, en er gengið hafi verið frekar á hann með það, hafi hann ekki viljað gefa frekari upplýsingar.

Vitnið Sigríður B. Blöndal, húsmóðir, Skógarhjalla 6, Kópavogi, kt. 240448-2549, býr á neðri hæð hússins að Skógarhjalla 6, undir íbúð ákærðu. Það hafði komið heim til sín um kl. 0400-0500 aðfaranótt 1. mars s.l. og höfðu þá verið mikil læti og stympingar í íbúð ákærðu. Það hafði hringt í lögreglu um hádegisbil á sunnudag og þá voru búin að vera látlaus læti í íbúð ákærðu. Því fannst hafa verið þar 2-3 manneskjur og kannaðist það ekki við rödd neinnar manneskjunnar. Það kvað hafa verið sömu lætin eftir að lögreglan kom og allt fram til kl. 1800-1900 , en þá hafi allt dottið í dúna logn.

Við leit á heimili ákærðu 6. mars s.l. hafði lögreglan fundið rautt kám á svæði við frystikistu og eldhúsborð og mátti sjá af verksummerkjum, að reynt hafði verið að hreinsa upp rauða kámið, en strikför og blettir voru sýnilegir.

Blóðprófun á einum blettanna gaf jákvæða svörun. Lögreglan tók sýni af blóðinu á eldhúsgólfinu. Þá hafði og verið tekið blóðsýni úr Viðari Björnssyni vegna rannsóknarinnar. Blóðsýnin sem tekin voru af blóðblettunum á eldhúsgólfinu voru send til DNA rannsóknar til könnunar á því hvort þau væru úr Viðari með samanburði á þeim og sýninu sem tekið úr honum. Samkvæmt upplýsingum frá Gunnlaugi Geirssyni prófessor við Rannsóknarstofuna í læknisfræði um gang rannsóknarinnar hafði reynst illmögulegt að greina þau sýni sem tekin voru á vettvangi þannig að ekki var von á að marktækar niðurstöður næðust af sýnunum.

2.Hálsáverki.

Fimmtudaginn 30. apríl s.l. kl. 0947 var Lögreglunni í Kópavogi tilkynnt að maður hefði komið að Skógarhjalla 4 og sagst hafa verið stunginn með hnífi af konu að Skógarhjalla 6. Er lögreglumennirnir komu á staðinn var maðurinn farinn í leigubifreið ásamt öðru fólki úr Skógarhjalla 6. Lögreglumennirnir stöðvuðu leigubifreiðina stuttu síðar við gatnamót Þverbrekku og Nýbýlavegar og voru farþegar í bifreiðinni, ákærða, Viðar Björnsson og Karl Valgarðsson sem voru öll, að mati lögreglumannanna, mjög drukkin og voru þau flutt á lögreglustöðina í Kópavogi.

Í ljós kom að Viðar var með áverka á hnakka og var fluttur á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, þar sem gert var að sárum hans.

Í vottorði Ársæls Kristjánssonar læknis kemur fram, að Viðar kom á slysadeildina 30. apríl s.l. kl. 2030 og var með skurð aftan á hálsi vinstra megin, sem var 1 1/2 sm langur en ekki djúpur. Skurðurinn hafði virst vera eftir hvasst bitjárn og var saumaður saman með þremur sporum.

Föstudaginn 1. maí var tekin skýrsla af Viðari, um hvernig áverkinn á hálsi hans væri til kominn. Hann kvaðst hafa hitt ákærðu og Karl Valgarðsson á veitingastaðnum Keisaranum 27. apríl s.l. og ákærða þá beðið hann að koma með sér að Skógarhjalla 6, til að þrífa með sér íbúðina sem hún væri að skila af sér og hann samþykkt. Það og ákærða hafi svo farið að drekka saman og ræða saman og hún óskað eftir að hann drægi til baka kæru á hendur henni fyrir líkamsárás sbr. liður 1 hér að framan. Hann hafði gefið henni ádrátt um það, en svo var farið að Skógarhjalla 6, þar sem haldið var áfram áfengisneyslu og þau verið þar í stöðugri áfengisneyslu. Um hádegisbilið 30. apríl hafði hann svo farið með ákærðu á Lögreglustöðina í Kópavogi til að draga fyrri framburð sinn til baka og hafði hann þá fundið vel til áfengisáhrifa og honum verið vísað frá vegna ölvunar, en bent á að koma aftur. Ákærða hafi svo ávítt hann fyrir að vera fullur við að draga framburð sinn til baka. Eftir að hafa ekið um borgina og keypt áfengi og tóbak var farið að Skógarhjalla 6, þar sem enn var setið að drykkju, en það hafði þó reynt að þrífa stofurnar og svefnherbergið og að því loknu um kl. 1700 hafði hann sest niður með ákærðu og Karli við víndrykkju. Er líða tók á drykkjuna hafi ákærða farið að rífast um áfengisflösku, sem Karl hafði útvegað, en Viðari hafði leiðst rimman og ákveðið að fara. Hann hafði klætt sig í jakkann, gengið inn í eldhús og fengið sér vatn að drekka úr eldhúskrananum með því að beygja sig undir hann, en þá hafi hann snúið baki í stofudyrnar. Þegar hann hafði reist sig við upp frá vaskinum hafði hann ekki vitað fyrr til en hann hafi fundið eitthvað högg og sársauka aftan á hálsinum á sér. Hann hafði snúið sér strax við og ákærða þá staðið fyrir aftan hann, en ekki hafði hann séð hana með neitt í höndunum. Hann hafði þreifað aftan á hálsinum og fundið að það blæddi og strax spurt ákærðu, af hverju hún hafi gert þetta. Hún hefði svarað því til að þetta hefði verið slys og sagt um leið “Þú dattst á hnífinn”. Hann hafði þá ætlað að hringja á hjálp og gengið í átt að þráðlausum síma sem hafi verið á stofuborðinu, en ákærða tekið tækið og falið það og því komið í veg fyrir að hann hringdi. Hann hafði þá tekið það til ráðs að fara út úr húsinu, en samt beðið ákærðu að gefa sér eitthvað að drekka og hún þá látið hann fá hálft glas af óblönduðu vodka, sem hann hafði drukkið í einum teig. Hann hafði svo gengið að húsi í nágrenninu og sagt nágrannanum hvað gerst hefði og beðið hann að hringja í síma 112 og óska eftir sjúkrabifreið. Meðan hann var að bíða eftir sjúkrabifreiðinni hafði komið leigubifreið að heimili ákærðu og hún komið út ásamt Karli og verið með kött í fanginu og er þau hafi verið að fara inn í leigubifreiðina hafi hún kallað í hann og boðið honum far. Hann hafði þegið það og sest inn í leigubifreiðina, en lögreglan komið á vettvang í því og handtekið þau öll. Hann gerði kröfu um að þeim sem væri valdur að áverkanum yrði refsað og ætlaði og að gera bótakröfu á hendur honum.

Viðar hefur haldið sig að mestu við þennan framburð hér fyrir dómi, en hefur þó dregið nokkuð í land, og talað um að hann hafi fengið mikinn verk í aftanverðan hálsinn og ákærða þá staðið næst honum, en talaði ekki um að hann hefði fengið högg. Hann kvaðst hafa verið mjög drukkinn er hann var að bogra við vaskinn og kvaðst ekki muna hvort hann hafi rekist í kranan eða viftu þar. Hann minntist þess heldur ekki að hafa talað um áverkann á hálsinum í leigubifreiðinni er þau fóru frá Skógarhjalla 6. Þá kvaðst hann hafa sagt húsráðanda að Skógarhjalla 4 að hann hafi fengið áverka á hálsinn en vildi ekki kannast við að hann hafi þá talað um að hann hafi verið stunginn af ákærðu.

Ákærða hefur bæði hjá lögreglu og hér fyrir dómi alfarið neitað því að vera völd að hálsáverkanum hjá Viðari og kvaðst ekki hafa vitað að hann hafi verið skaddaður á höfði þegar hann hafi farið út í greint sinn. Hjá lögreglu kvað hún Viðar hafa sagt, að hann finndi til aftan á hálsinum, og hún þá sagt honum að hann hlyti að hafa dottið á eitthvað, en hún hafi ekki séð neitt blóð eða annað sem bent hafi til þess að hann hafi fengið áverka. Hún neitaði að hafa falið símann fyrir Viðari og hindrað hann í að hringja eftir að hann kvartaði um að finna fyrir verk í hálsi. Hún kvað Viðar hins vegar hafa misst símann í gólfið og hann bilað og hún tekið hann þá upp og reynt að gera við hann, en ekki getað. Hún kvaðst því litlu síðar eftir að Viðar var farinn hafa orðið að fara í hús nr. 10 við Skógarhjalla til að láta hringja í leigubifreið fyrir þau. Hún sýndi lögreglunni símann sem reyndist vera óvirkur og það var og staðfest, að hún hafði látið hringja fyrir sig í leigubifreið. Hún kvaðst hafa setið fram í leigubifreiðinni er hún fór frá Skógarhjalla 6 og kannaðist ekki við að hafa rætt um hálsáverkann í leigubifreiðinni eins og fram komi í framburði leigubifreiðarstjórans Rögnvaldar Ólafssonar og sé framburður hans alrangur. Hún kvað það heldur ekki rétt hjá Viðari að þeim hafi sinnast út af áfengi í greint sinn, heldur hafi hún tekið eftir því að Tindavodkaflaska, sem átti að vera í poka í eldhúsinu var horfin og hún borið upp á Viðar að hafa tekið hana og það komið á daginn að hann hafði sett hana í buxnastrenginn á sér og hafi hún tekið hana af honum.

Vitnið Karl Valgarðsson mundi óljóst eftir atvikum, enda kvaðst það hafa verið blindfullt og illa haldið eftir að hafa verið meira og minna fullt allan aprílmánuð. Það mundi þó eftir að hafa verið með Viðari og ákærða á heimili hennar eftir að búið var að flytja búslóðina til Vestmannaeyja, og einungis verið þar eftir stóll og borð, sem átti að fleygja. Það minntist þess að Viðar var eitthvað að taka bletti af veggjum með þvegli, en ákærða var að hreinsa af skápum, en það hafi ekki fengið að taka þátt í þrifum og því bara haldið áfram að drekka. Það mundi ekki eftir neinu rifrildi eða ágreiningi milli ákærðu og Viðars. Það sagðist koma alveg af fjöllum er það var spurt um þennan ágreining, hvað þá að ákærða hafi ráðist á einhvern hátt á Viðar. Það mundi ekki hvernig það hefði farið frá Skógarhjalla 6 í greint sinn og hélt að það væri að vakna í herbergi sínu á Hjálpræðishernum, er það vaknaði í fangageymslunni að Hverfisgötu í Reykjavík morguninn eftir.

Vitnið Stefán Rúnar Bjarnason, Skógarhjalla 4 í Kópavogi, kt. 231154-4559, kvað dyrabjöllunni hafa verið hringt hjá því með miklu ofboði. Það hafði farið til dyra og þar fyrir utan verið maður, sem beðið hafi um að hringt væri í síma 112, þar sem hann hafi verið stunginn eða skorinn aftan í hálsinn. Það hafði beðið konuna um að hringja í lögreglu, en nokkur bið hafi orðið á því að hún kæmi. Maðurinn hafði fengið að setjast á stól og hafði greint frá því, að hann hafi verið í samkvæmi hjá fyrrverandi sambýliskonu sinni Sólrúnu Elídóttur, að Skógarhjalla 6 og á milli þeirra hafi orðið ágreiningur út af brennivíni og hann verið stunginn. Það kvað manninn ekki hafa lýst því nánar hvernig það hefði gerst né hvaða áhald hafi verið notað, en fram hafði komið að konan hafði stungið eða skorið hann áður með svipuðum hætti. Það sagði hjá lögreglu, hann hafi sagt að þetta væri tilfinningamál hjá þeim og konan þyrfti á aðstoð að halda. Vitnið kvað svo hafa komið leigubifreið að Skógarhjalla 6 og hafi þá komið þaðan ákærða með kött sinn í fanginu og með henni mjög drukkinn maður. Kötturinn hafi látið ófriðlega og hún misst hann og svo farið að leita að honum. Það kvað hinn slasaða nú hafa viljað snúa við blaðinu og draga í land með að fá aðstoð og viljað fara með ákærðu og sest fram í leigubifreiðina. Hann þá verið nokkuð brattur og ekki reiður. Það hafði séð sárið á hálsi hans og lítið sem ekkert blætt úr því, en það samt boðið manninum þurrku. Það kvað ákærðu hafa þrifið í hægri öxl mannsins og dregið hann út úr bifreiðina og hann þá sest aftur í bifreiðina, en hún fram í eins og hún geri ævinlega er leigubifreið komi að sækja hana og gesti hennar.

Vitnið Rögnvaldur Ólafsson leigubifreiðarstjóri, Brautarholti 22, Reykjavík, kt. 190149-3589, kvaðst hafa farið í leiguakstur að Skógarhjalla 6, Kópavogi 30. apríl til að sækja þangað fólk. Út úr húsinu hafi komið kona með kött í fanginu, sem hún missti frá sér er hún nálgaðist bifreið þess. Kötturinn hafði tekið á rás og hún farið á eftir honum og leitað að honum nokkra stund án árangurs. Hún hafði svo farið aftur inn í húsið, náð í kassa með kattarsandi, komið svo út aftur með óreglumann sem það kannaðist við þ.e. Karl Valgarðsson. Það kvað kassann ásamt brennivínsflösku hafa verið sett í skott bifreiðarinnar, en svo hafi konan og Karl sest inn í aftanverða bifreiðina. Þegar halda hafi svo átt af stað hafi konan viljað taka með mann, sem var á svölum næsta húss og það kannaðist og við sem óreglumann þ.e. Viðar Björnsson. Hann hafi þá og komið upp í bifreiðina og sest í framsætið. Hann og konan hafi verið að kíta, en hann hafi haldið um hálsinn með servíettu. Það kvað fyrst hafa verið deilt um hvert skyldi fara, en svo hefði Viðar talað um að hún hefði stungið hann og hún tekið undir það. Hann hafi og vísað í fyrri atvik. Vitnið staðfesti skýrslu sína hjá lögreglu, en þar eru þessar orðræður hafðar eftir ákærðu og Viðari. Hann hafi ásakað hana um að hafa stungið sig og hún ekki neitað því, heldur viðurkennt það með orðunum “jú auðvitað varð ég að stinga þig”. Viðar hafi í þessum viðræðum beðið það um einhverja þurrku, vegna þess að hún hafi stungið hann. Það vissi ekki hvort blætt hafi úr Viðari, en eitthvað blóð hafi verið í þurrkunni. Lögreglan hafi komið stuttu eftir að aksturinn hófst og haft afskipti af farþegunum. Karl hafi ekkert sagt í bifreiðinni.

Þann 1. maí s.l. framkvæmdi lögreglan húsleit á heimili ákærðu og beindist leitin einkum að bitjárni, sem gæti hafa verið notað við að veita Viðari áverka á aftanverðan hálsinn 30. apríl s.l. Ekkert slíkt áhald fannst. Þá fundust ekki blóðblettir í íbúðinni eða við hana, né fannst blóð á ýmsum munum sem voru haldlagðir svo sem skærum, borðáhöldum o.fl.

Þann 13. nóvember fór dómurinn í vettvangsgöngu að Skógarhjalla 6 og voru aðstæður í eldhúsinu skoðaðar að ákæranda og verjanda ákærðu viðstöddum.

II.

Niðurstöður.

1. Um 1. lið ákæru.

Ljóst er af játningu ákærðu og öðrum rannsóknargögnum, að hún heldur á eldhúshníf, í hægri hendi sem fer inn í brjósthol Viðars, og á eftir rykkir hún hnífnum úr sárinu og fleygir í gólfið. Þá er víst að það líða um tveir sólarhringar frá þessum atburði, þar til Viðari er komið til læknis. Bæði hnígur framburður Viðars og Þorvaldar Jónssonar læknis að þessu og framburður ákærðu og Karls Valgarðssonar. Þau tala bæði um, að daginn eftir atburðinn, hafi verið komið með frystikistu heim til ákærðu, og þá hafi Viðar verið það illa haldinn eftir stungusárið, að hann hafi ekki getað aðstoðað við að flytja hana inn í íbúðina. Það hefur því verið morguninn þar á eftir, sem Viðar var fluttur til læknisskoðunar. Af framburði Viðars verður ráðið að hann hafi fengið stungusárið á brjóstið á sunnudagskvöldið og er vætti Sigríðar Blöndals því og til styrktar og þykir mega miða við það í málinu. Í framangreindu vætti Þorvaldar Jónssonar læknis kemur fram, að Viðar gefur strax í viðtali á Röntgendeild á sjúkrahúsi Reykjavíkur þá skýringu á brjóstholsáverka sínum að hann hafi orðið fyrir hnífstungu. Í skýrslu Viðars hjá lögreglu, sem tekin er strax eftir að hann hafði jafnað sig nokkuð eftir brjóstholsáverkann og meðan að ákærða var í gæsluvarðhaldi kemur fram, að í framhaldi af rifrildi milli hans og ákærðu hafi hún lagt til hans og stungið hann í brjóstið. Taldi hann hana hafa gert það með hnífi, en hann hefði þó hvorki séð hnífinn áður né vitað hvað varð af honum. Þetta samrýmist framburði ákærðu, sem kvaðst hafa verið með hníf í hægri hendi. Þrátt fyrir að ákærða hafi síðar viljað fá Viðar til að falla frá kæru, hefur hann í vætti sínu hér fyrir dómi í megindráttum haldið fast við skýrslu sína hjá lögreglu. Framburður ákærðu um það að eldhúshnífurinn hafi rekist í Viðar fyrir slysni og hann átt sök á því þykir harla ósennilegur og verður hann metinn í ljósi þess, hve óstöðug ákærða hefur verið í framburði sínum og einnig í ljósi þess álits Þorvaldar Jónssonar læknis, að til að veita Viðari þann brjóstáverka sem hann fékk, hafi ekki dugað til að hann styddi sig að hnífnum heldur hefði orðið að beita hnífnum beint fram með oddinn.

Augljóst er, þegar framburður ákærðu og Viðars eru skoðaðir og bornir saman við vætti Sigríðar Blöndal, að ákærða átti í illindum og rifrildi rétt áður en hann fékk áverkann. Það er álit réttarins þegar allt er virt í málinu megi telja að fram sé komin lögfull sönnun um að ákærða hafi stungið Viðar með hnífnum í eða í framhaldi af rifrildinu og veitti honum það stungusár, sem hún er sökuð um í ákæru með þargreindum afleiðingum.

Svo sem fram kemur í læknisvottorði og vætti Þorvaldar Jónssonar læknis, var brjóstholsáverkinn þess eðlis, að hann var lífshættulegur og tilviljun ein réð að ekki hlaust bani af. Þó að ekkert liggi fyrir um, að ákærða hafi viljað valda Viðari fjörtjóni, hlaut hún samt og að gera sér grein fyrir því að það var stórhættulegt að valda Viðari slíku stungusári í brjóstholið og mikilvægt að koma honum strax undir læknishendur til að koma í veg fyrir að afleiðingar yrðu alvarlegar. Hún lét samt undir höfuð leggjast í um tvo sólarhringa, að kalla á læknisaðstoð og verður að meta ákærðu það til sakar. Henni bar við þessar aðstæður að líta fram hjá óskum og mati Viðars um að ekki væri þörf á lækni.

Með hinni hættulegur atlögu að Viðari hefur ákærða gerst brotleg við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningalaga sbr. lög nr. 20/1981, en líkamstjón það sem hann varð fyrir fellur að lýsingu 1. mgr. greinarinnar.

2. Um 2. lið ákæru.

Viðar hefur talið, að áverkinn á aftanverðum hálsi hans væri til kominn vegna þess, að ákærða hafi skorið hann með eggjárni, er hann hafi verið að reisa sig upp eftir að hann hafði beygt sig niður í eldhúsvaskinn til að fá sér vatn að drekka beint úr krana, en hún hafi staðið hjá honum. Hann hafi samt ekki séð hana leggja til sín né séð eggjárn eða annað í höndum hennar. Hjá lögreglu sagði hann, að hann hafi sakað hana um áverkann og hún þá haldið því fram að það hafi orðið slys. Hér fyrir dómi hefur Viðar dregið nokkuð í land, kvaðst ekki hafa fundið fyrir höggi, heldur verk í hálsinum er hann reisti sig upp. Ákærða hefur, svo sem rakið er að framan, alfarið neitað að eiga sök á þessum áverka. Í vætti Rögnvaldar Ólafssonar kemur að vísu fram, að hún hafi gengist við því í bifreið hans, að hafa stungið Viðar. Stangast það á við framburð Viðars, sem kvað ekki hafa verið rætt um þetta tilvik í leigubifreiðinni. Vitnið Rögnvaldur er samt ekki nógu öruggt í framburði sínum. Það kvað Viðar hafa setið í framsæti bifreiðarinnar, en telja má það upplýst í málinu að ákærða sat frammi í bifreiðinni, en Viðar aftur í. Ekki bendir hegðun Viðars eftir að hann fékk hálsáverkann til þess að ákærða hafi gert gróflega á hlut hans, en hann biður hana um að fá að drekka og þiggur hálft glas af víni um leið og hann fer.

Við vettvangsgöngu að Skógarhjalla 6 kom í ljós, að gufugleypir eða eldhúsvifta er vinstra megin við vaskinn þegar staðið er fyrir framan hann og eru ekki hvassar brúnir á hlífinni utan um viftuna, heldur eru þær fremur ávalar og má telja útilokað að Viðar hafi hlotið skurðinn á hálsinn við að lenda utan í brúninni eða utan í skápinn hægra megin.

Þegar allt er virt í málinu, og einkum það ósamræmi sem í framburði vitnanna Viðars Björnssonar og Rögnvaldar Ólafssonar og að engin verksummerki um átök fundust við húsleit skömmu eftir atburðinn þykir varhugavert gegn eindreginni neitun ákærðu, að telja að nægileg sönnun sé fram komin um að hún hafi valdið Viðari þeim hálsáverka sem hún er sökuð um í 2. lið ákæru og ber að sýkna hana af þeirri sök.

III.

Refsingar o.fl.

Ákærða hefur frá árinu 1973 hlotið 15 refsidóma, auk þess að í fjögur skipti hafa verið gerðar við hana sáttir og henni gert að greiða sektir fyrir brot á áfengis- og umferðarlögum og þá verið svipt ökuleyfi.

Ákærða hefur í allt verið dæmd til að hlíta fangelsi í 6 ár og 9 mánuði þar af voru 8 mánuðir skilorðsbundin refsing skv. dómum 3. maí 1974 og 7. nóvember 1978 og hafði hún haldið þargreint skilorð. Í dómum þessum hefur hún aðallega gerst brotleg við 155. gr., 244. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga, en þó í eitt skiptið 19. júní 1986 fyrir brot á 1. mgr. 221. gr. alm. hegningarlaga og í síðasta dómnum sem kveðinn var upp í Sakadómi Reykjavíkur 15. nóvember 1988, sbr. dómur Hæstaréttar 24. mars 1989, hlaut hún fangelsi í 3 ár og 6 mánuði fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Fimm dómanna eru sektardómar vegna brota á umferðarlögum og er ákærðu í fjögur skiptin auk greiðslu sektar gert að hlíta ökuleyfissviptingu.

Ákærðu var, 27. maí 1992 af Fangelsismálastofnun ríkisins, veitt reynslulausn í 1 ár á eftirstöðvum 184 dögum, en afplánaði þær eftirstöðvar frá 12. okt. 1992.

Við refsimat í málinu verður að hafa hliðsjón af framangreindum sakarferli og einnig framferði hennar eftir verknaðinn, en ljóst er að hún reyndi að hylja sporin eftir hann og hún reyndi að fá Viðar til að falla frá kæru í málinu.

Að þessu virtu þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 4 ár.

Rétt þykir, að gæsluvarðhaldsvist hennar frá 7. til 10. mars s.l. komi til frádráttar refsingunni sbr. 76. gr. almennra hegningarlaga.

Dæma ber ákærðu til greiðslu alla sakarkostnaðar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð sem ákveðast kr. 120.000,- og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hrl. Kristjáns Stefánssonar, sem ákveðast kr. 150.000,- og svo verjandalaun vegna réttargæslu, sem áður var ákveðin.

Dómsorð:

 Ákærða, Sólrún Elídóttir, sæti fangelsi í 4 ár og komi gæsluvarðhaldsvist hennar frá 7. til 10. mars s.l. með fullri dagatölu til frádráttar refsingunni.

Ákærða greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð 120.000 krónur og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hennar hrl. Kristjáns Stefánssonar 150.000 krónur.