Hæstiréttur íslands

Mál nr. 492/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Ákæruvald
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Föstudaginn 2

 

Föstudaginn 2. desember 2005.

Nr. 492/2005.

Ákæruvaldið

(Sigurður Tómas Magnússon

 settur ríkissaksóknari)

 gegn

A

(Gestur Jónsson hrl.)

B

(Einar Þór Sverrisson hdl.)

C

(Kristín Edwald hrl.)

D

(Jakob R. Möller hrl.)

E og

F

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

 

Kærumál. Ákæruvald. Kröfugerð. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Höfðað var opinbert mál á hendur A, B, C, D, E og F og var ákæra í málinu í 40 liðum. Var 32 liðum ákærunnar vísað frá dómi þannig að eftir stóðu 8 liðir. Ríkislögreglustjóri óskaði eftir því við ríkissaksóknara að hann tæki til athugunar þau gögn sem legið hafi að baki þeim 32 ákæruliðum, sem vísað hafði verið frá dómi, til að ganga úr skugga um það hvort efni væri til að höfða mál að nýju á grundvelli þeirra. Ríkissaksóknari taldi sig ekki bæran til að stýra umræddri athugun og óskaði eftir við dómsmálaráðherra að settur yrði annar löghæfur maður til verksins. Skipaði dómsmálaráðherra S til að fara með málið. Í þinghaldi í máli vegna þeirra 8 ákæruliða sem ekki hafði samkvæmt framansögðu verið vísað frá dómi kom upp ágreiningur um það hvort S færi með ákæruvald í því máli einnig. Taldi héraðsdómari svo ekki vera og kvað upp úrskurð þar að lútandi. S kærði úrskurðinn til Hæstaréttar og krafðist viðurkenningar á því að hann hefði verið bær og haft almennt og sérstakt hæfi til að fara sem settur ríkissaksóknari með ákæruvald í sakamálinu í nefndu þinghaldi. Talið var að í opinberum málum gilti meginregla sú sem fram komi í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem nauðsynlegt sé til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Yrði litið svo á að settan saksóknara hafi  af einhverjum ástæðum skort hæfi til að fara með málið í umræddu þinghaldi eða síðar, yrði að líta svo á að ekki hefði verið mætt í þinghaldið af hálfu ákæruvaldsins. Var talið að í málinu hefði ekki á þetta reynt, heldur hefðu aðeins verið settar fram kröfur af hálfu ákæruvalds, sem fælu í sér beiðni um að dómstólar láti frá sér fara almenna staðfestingu á því að settur ríkissaksóknari sé bær til að fara með ákæruvald í málinu, svo og um almennt og sérstakt hæfi hans til þess. Á kröfur sem þessar yrði samkvæmt áðurgreindri reglu ekki felldur dómur og bæri því af sjálfsdáðum að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Settur ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. nóvember 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2005, þar sem kveðið var á um það að Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, væri ekki bær til að fara með ákæruvald í þeim hluta máls á hendur varnaraðilum, sem ekki var vísað frá héraðsdómi með dómi Hæstaréttar 10. október 2005. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og staðfest að „Sigurður Tómas Magnússon hafi verið bær og haft almennt og sérstakt hæfi til þess að fara sem settur ríkissaksóknari með ákæruvald í sakamálinu nr. 1026/2005 í þinghaldi 16. nóvember 2005.“ Til vara er þess krafist að staðfest verði að settur ríkissaksóknari sé bær og hafi almennt og sérstakt hæfi til að fara með ákæruvald í málinu frá og með 24. nóvember 2005.

Varnaraðilar krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Þá krefjast varnaraðilar kærumálskostnaðar.

I.

Með ákæru 1. júlí 2005 höfðaði ríkislögreglustjóri mál á hendur varnaraðilum, þar sem þau voru borin sökum samkvæmt 40 liðum hennar. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 17. ágúst sama ár. Með úrskurði 20. september 2005 vísaði héraðsdómari málinu frá dómi vegna annmarka, sem ákæran þótti haldin. Sá úrskurður var kærður til Hæstaréttar, sem með dómi 10. október 2005 í máli nr. 420/2005 staðfesti niðurstöðu héraðsdómara að því er varðaði 32 liði ákærunnar, en lagði á hinn bóginn fyrir dóminn að taka til efnismeðferðar sakargiftir á hendur varnaraðilum samkvæmt átta liðum hennar.

Með bréfi til dóms- og kirkjumálaráðherra 13. október 2005 greindi ríkissaksóknari frá því að 11. sama mánaðar hafi hann að beiðni ríkislögreglustjóra ákveðið samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 19/1991 „að taka til athugunar þau gögn málsins sem liggja að baki ákæruliðunum 32 til þess að ganga úr skugga um hvort efni væri til þess að höfða mál að nýju á grundvelli þeirra gagna.“ Kvaðst ríkissaksóknari síðan hafa orðið þess var að óhlutdrægni hans væri dregin í efa af ástæðum, sem nánar voru raktar í bréfinu. Af þeim sökum tilkynnti hann ráðherra að hann teldi sig „ekki bæran til að stýra athugun á áðurnefndum gögnum og taka síðan ákvörðun um afgreiðslu málsins sem ríkissaksóknari. Er því nauðsynlegt að settur verði annar löghæfur maður til þess verkefnis ...“. Í framhaldi af þessu var Sigurður Tómas Magnússon settur ríkissaksóknari með bréfi dóms- og kirkjumálaráðherra 21. október 2005 „til að fara með framangreint mál og taka sem ríkissaksóknari allar þær ákvarðanir sem máli þessu tengjast þar með talið að fara með heimildir ríkissaksóknara varðandi þau ákæruefni sem eftir standa í málinu nr. 420/2005.“

Ríkislögreglustjóri fór þess á leit við settan ríkissaksóknara í bréfi 15. nóvember 2005 að hann tæki við rekstri málsins nr. 1026/2005 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem til meðferðar voru þeir átta liðir ákærunnar 1. júlí 2005, sem ekki hafði verið vísað frá dómi. Settur ríkissaksóknari varð við þeirri ósk samdægurs og mætti hann af hálfu ákæruvaldsins þegar málið var tekið fyrir á dómþingi 16. nóvember 2005. Dómurinn beindi þá til verjenda varnaraðila og setts ríkissaksóknara að málið yrði reifað með tilliti til þess hvort sá síðastnefndi væri bær til að fara með þennan hluta málsins, þar sem álitamál gæti verið hvort ríkissaksóknari hefði vikið sæti að þessu leyti og kynnu því að hafa brostið skilyrði til að setja annan mann í hans stað. Verjendur létu í ljós þá afstöðu að settur ríkissaksóknari væri ekki bær til að fara með þennan hluta málsins af framangreindri ástæðu, en ef ekki yrði á það fallist væri því haldið fram að dóms- og kirkjumálaráðherra hafi verið vanhæfur til að setja ríkissaksóknara til að fara með málið að þessu leyti. Settur ríkissaksóknari krafðist þess á hinn bóginn að úrskurðað yrði að hann væri bær til að fara með málið og að það fengi efnismeðferð fyrir dómi. Einnig krafðist hann þess að úrskurðað yrði að dóms- og kirkjumálaráðherra hefði ekki brostið hæfi til að setja ríkissaksóknara. Með hinum kærða úrskurði var sem áður greinir kveðið á um að settur ríkissaksóknari væri ekki bær til að fara með ákæruvald í þeim hluta málsins, sem rekinn væri fyrir dómi á grundvelli þeirra átta liða, sem eftir stæðu af ákærunni 1. júlí 2005.

Eftir uppkvaðningu hins kærða úrskurðar ritaði dóms- og kirkjumálaráðherra bréf 24. nóvember 2005 til ríkissaksóknara, þar sem óskað var eftir því að hann upplýsti og staðfesti eftir atvikum formlega að hann hefði vikið sæti að því er varðar heimildir ríkissaksóknara gagnvart ríkislögreglustjóra í þeim þætti máls ákæruvaldsins á hendur varnaraðilum, sem rekið væri fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Ríkissaksóknari staðfesti samdægurs með bréfi til ráðherra að hann hefði ekki einungis vikið sæti vegna athugunar á gögnum, sem legið hefðu að baki þeim hluta málsins samkvæmt ákæru 1. júlí 2005, sem vísað hefði verið frá héraðsdómi, heldur einnig vegna þeirra ákæruliða, sem enn væru til meðferðar fyrir dómi. Með bréfi til setts ríkissaksóknara, sem einnig var ritað 24. nóvember 2005, áréttaði síðan ráðherra að hann færi með heimildir ríkissaksóknara í þeim hluta málsins, sem væri rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

II.

Eins og ráðið verður af framansögðu greinir aðilana á um það hvort ríkissaksóknari hafi 13. október 2005 jafnframt vikið sæti í máli varnaraðila að því er varðaði þann hluta þess, sem rekinn er fyrir héraðsdómi á grundvelli átta liða ákærunnar 1. júlí 2005, og hvort Sigurður Tómas Magnússon hafi af þeim sökum réttilega verið settur ríkissaksóknari til að fara með málið að því leyti. Einnig deila aðilarnir um hvort dóms- og kirkjumálaráðherra hafi verið vanhæfur vegna ákvæða 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að setja ríkissaksóknara í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verða dómstólar ekki krafðir álits um lögfræðileg efni eða hvort tiltekið atvik hafi gerst nema að því leyti sem er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Sú meginregla réttarfars, sem ákvæði þetta er reist á, gildir jöfnum höndum um einkamál og opinber mál. Bresti settan ríkissaksóknara af annarri hvorri framangreindra ástæðna vald til að fara með málið, sem nú er rekið fyrir dómi, yrði að líta svo á að ekki hafi verið mætt af hálfu ákæruvaldsins þegar það var tekið fyrir á dómþingi 16. nóvember 2005 eða að svo fari í síðara þinghaldi, sbr. 1. mgr. 123. gr. laga nr. 19/1991. Í málinu reynir ekki á þetta, heldur eru settar fram kröfur af hálfu ákæruvaldsins, sem fela í sér beiðni um að dómstólar láti einungis frá sér fara almenna staðfestingu á því að settur ríkissaksóknari sé bær til að fara með ákæruvald í málinu, svo og um almennt og sérstakt hæfi hans til þess. Á kröfur sem þessar verður samkvæmt framansögðu ekki felldur dómur. Ber því af sjálfsdáðum að fella hinn kærða úrskurð úr gildi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. nóvember 2005.

Að tilmælum dómsformanns, sem er skylt að gæta að valdheimildum handhafa ákæruvaldsins, sbr. t.d. Hrd. 1993/12, hafa sérstakur ríkissaksóknari í málinu og verjendur ákærðu reifað það álitaefni, hvort hinn sérstaki ríkissaksóknari sé bær til þess að fara með þann hluta máls þessa, sem ekki var vísað frá dómi í Hæstarétti 10. október sl.  Komi það til, að hinn reglulegi ríkissaksóknari hafi ekki vikið sæti í þeim hluta málsins og því kunni skilyrði að hafa brostið til þess að setja sérstakan ríkissaksóknara yfir þann hluta.  Hefur hinn sérstaki ríkissaksóknari krafist þess að úrskurðað verði, að hann sé bær til þess að fara með þennan hluta málsins og að málið verði tekið til efnismeðferðar.  Af hálfu verjenda er þess krafist, að úrskurðað verði að hinn sérstaki ríkissaksóknari sé ekki bær til þess að fara með þennan málshluta.

Málavextir.

Í þinghaldi 14. þ.m. var af hálfu ákærandans í málinu, ríkislögreglustjóra, lagt fram afrit af bréfi Sigurðar Tómasar Magnússonar, sérstaks ríkissaksóknara, dagsetts 11. þ.m. til ríkislögreglustjóra.  Þar kemur fram, að hinn sérstaki ríkissaksóknari telur sig hafa fengið með lögformlegum hætti frá dómsmálaráðherra þær heimildir, sem ríkissaksóknari hefur gagnvart ríkislögreglustjóra, sem ákæranda samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála, varðandi þau ákæruefni, sem eftir standa í málinu eftir að hluta þess hefur verið vísað frá dómi.  Hefur hinn sérstaki ríkissaksóknari svo tekið sjálfur við rekstri málsins, samkvæmt bréfi 15. nóvember sl.

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra 1. júlí sl.  Með dómi Hæstaréttar Íslands 10. október sl. var ákærunni vísað frá dómi að undanskildum tveimur síðustu köflunum, samtals átta liðum.  Fyrir liggur að ríkislögreglustjóri gekk á fund ríkissaksóknara daginn eftir dóm Hæstaréttar og ákvað ríkissaksóknari þá að taka til athugunar þau gögn málsins sem legið höfðu að baki þeim hluta ákæru, sem vísað var frá dómi, til þess að ganga úr skugga um það hvort efni væri til þess að höfða mál að nýju á grundvelli þeirra gagna.  Hinn 13. október ritaði ríkissaksóknari dómsmálaráðherra bréf þar sem sagði að hann teldi sig, af ástæðum sem þar voru tilgreindar, “ekki bæran til að stýra athugun á áðurnefndum gögnum og taka síðan ákvörðun um afgreiðslu málsins sem ríkissaksóknari”.  Væri því nauðsynlegt að annar löghæfur maður yrði fenginn til þess verks, sbr. 1. mgr. 30. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.  Verður ekki annað ráðið af bréfi ríkissaksóknara en að hann hafi þar einungis sagt sig frá þeim hluta málsins, sem vísað var frá dómi.  Hinn 21. október sl. gaf dómsmálaráðherra út umboðsskrá til Sigurðar Tómasar Magnússonar lögfræðings þar sem hann var settur til þess, sem sérstakur ríkissaksóknari, “að fara með framangreint mál og taka sem ríkissaksóknari allar þær ákvarðanir sem máli þessu tengjast þar með talið að fara með heimildir ríkissaksóknara varðandi þau ákæruefni sem eftir standa í málinu”.  Þá liggur það fyrir í málinu að hinn reglulegi ríkissaksóknari álítur þann hluta málsins vera sér óviðkomandi og hann hefur í bréfi til dómsformanns 3. nóvember sl. sagt að umboðsskrá dómsmálaráðherra til Sigurðar Tómasar Magnússonar hafi “að efni til” verið gefin út í samráði við hann, þ.e. hinn reglulega ríkissaksóknara, og að hinn sérstaki ríkissaksóknari fari með “þær heimildir sem í umboðsskránni getur”. 

Niðurstaða.

Samkvæmt 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991, sbr. lög nr. 84, 1996, er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds.  Lög um meðferð opinberra mála hafa byggt á því frá setningu laga nr. 82, 1961, er ákæruvald var fært frá dómsmálaráðherra til ríkissaksóknara, að saksóknarinn sé í meginatriðum  sjálfstæður gagnvart dómsmálaráðherra um meðferð ákæruvaldsins.  Verður að telja að heimildir dómsmálaráðherra til þess að fara með eða hlutast í meðferð þess valds, séu tæmandi taldar í þessum kafla laganna, sbr. 1. og 2. mgr. 26. gr., 5. mgr. 28. gr. og  1. mgr. 30. gr.  Leiðir af því að ráðherra er óheimilt að taka einstakt mál undan forræði ríkissaksóknara og setja yfir það sérstakan ríkissaksóknara, nema hinn reglulegi ríkissaksóknari hafi áður vikið sæti í því, sbr. 1. mgr. 30. gr.  Skiptir þannig ekki máli hvort ríkissaksóknari samþykkir eða lætur afskiptalaust að dómsmálaráðherra skipi sérstakan ríkissaksóknara í einstökum málum.  

Bréf hins reglulega ríkissaksóknara til dómsmálaráðherra 13. október sl. verður, sem fyrr segir, ekki skilið á annan veg en þann, að með því víki hann sæti einungis að því er tekur til þess hluta málsins, sem vísað var frá dómi í Hæstarétti 10. október sl.  Mikilsvert er að enginn vafi leiki á því hver fari með ákæruvald í hverju máli og heimild ákæranda til að fara með það vald verður því að vera skýr og ótvíræð.  Þau atvik, að samráð hefur verið haft við ríkissaksóknara um efni umboðsskrárinnar til hins sérstaka ríkissaksóknara og að hinn reglulegi ríkissaksóknari hefur síðar lýst því yfir að hann líti svo á að þessi hluti málsins sé því embætti óviðkomandi og að hinn sérstaki ríkissaksóknari fari með þær heimildir sem í umboðsskránni greinir, geta ekki komið í stað formlegrar og ótvíræðrar yfirlýsingar ríkissaksóknara um það að hann víki sæti, áður en annar er settur yfir málið.  Samkvæmt þessu og því sem áður sagði um stöðu ríkissaksóknara gagnvart dómsmálaráðherra, verður að telja að ekki hafi verið heimilt að fela hinum sérstaka ríkissaksóknara að fara með þennan málshluta og að sú stjórnarathöfn hafi jafnframt verið ógild að þessu leyti.  Verður að líta svo á að hinn reglulegi ríkissaksóknari fari enn með ákæruvald í þeim hluta málsins sem ekki var vísað frá dómi í Hæstarétti 10. október sl.  Er því rétt að úrskurða, ex officio, að hinn sérstaki ríkissaksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, sé ekki bær til þess að fara með ákæruvald í þeim hluta málsins sem ekki var vísað frá dómi.

Af hálfu ákærðu hefur verið gerð sú krafa að úrskurðað verði að dómsmálaráðherra hafi verið vanhæfur til þess að setja sérstakan ríkissaksóknara til þess að fara með valdheimildir ríkissaksóknara varðandi þau ákæruefni sem eftir standa í þessu máli.  Eðli málsins samkvæmt kemur sú krafa ekki til álita hér.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Hinn sérstaki ríkissaksóknari, Sigurður Tómas Magnússon, er ekki bær til þess að fara með ákæruvald í þeim hluta málsins sem ekki var vísað frá dómi í Hæstarétti Íslands 10. október 2005.