Hæstiréttur íslands
Mál nr. 497/2011
Lykilorð
- Vörumerki
|
|
Fimmtudaginn 1. mars 2012. |
|
Nr. 497/2011. |
Kvikk þjónustan
ehf. (Þórey S. Þórðardóttir hrl.) gegn Nýjum
tímum ehf. (Kristján B. Thorlacius hrl.) |
Vörumerki.
K ehf. taldi
að notkun N ehf. á orðinu „kvikk“ í atvinnustarfsemi
þess síðarnefnda bryti í bága við óskráð vörumerki sitt. Ekki var fallist á það
með K ehf. að fyrrgreint orð teldist svo einkennandi fyrir starfsemi félagsins
að með því væri gefið skýrt til kynna að það ætti uppruna sinn hjá K ehf. og
vörumerkið greindi þannig vöru þess frá vörum annarra. Var því ekki talið að
vörumerkjaréttur hefði skapast með notkun orðsins í starfsemi K ehf. Var N ehf.
því sýknað af kröfum K ehf.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. ágúst 2011. Hann krefst þess
aðallega að stefnda verði bönnuð notkun á auðkennunum „Kvikkfix“,
„KvikkFix“ og „Gallerí KvikkFix“
í atvinnustarfsemi sinni, hvort sem er í kynningum, á heimasíðu, í símaskrá eða
á annan sambærilegan hátt. Jafnframt krefst áfrýjandi þess að stefnda verði
gert að fjarlægja skilti með nafninu „KvikkFix“ af
verkstæðishúsi sínu að Vesturvör 30c í Kópavogi og að hann verði dæmdur til að
láta fella úr gildi vörumerkjaskráninguna „KvikkFix“,
orð- og myndmerki með lykilhluta á dropalöguðum fleti, allt að viðlögðum
dagsektum að fjárhæð 100.000 krónur frá dómsbirtingu. Til vara er þess krafist
að stefnda verði gert skylt að breyta auðkennum sínum „Kvikkfix“,
„KvikkFix“ og „Gallerí KvikkFix“
þannig að orðið „Kvikk“ verði ekki notað í þeim.
Jafnframt að stefnda verði gert skylt að breyta skráningu vörumerkis síns „KvikkFix“, orð- og myndmerki með lykilhluta á dropalöguðum
fleti, þannig að orðið „Kvikk“ verði ekki notað í
því, allt að viðlögðum dagsektum að
fjárhæð 100.000 krónur frá dómsbirtingu. Þá krefst áfrýjandi þess að stefndi
verði dæmdur til að greiða sér 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1.
mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og vertryggingu frá 16. janúar 2010 til
greiðsludags. Að lokum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir
Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi fallið frá málsástæðum sem reistar voru á
að stefndi hafi með vörumerkjanotkun sinni brotið gegn 5. gr. og 13. gr. laga
nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Ágreiningur í máli þessu lýtur einkum að því hvort orðið „kvikk“ sé það almennt lýsandi orð að það hafi ekki nægjanleg
sérkenni til skráningar sem vörumerki, heldur sé öllum heimilt að nota það orð
í vörumerki sínu, en því heldur stefndi fram. Þá er deilt um hvort óskráð
vörumerki áfrýjanda hafi öðlast sérkenni við notkun hans, jafnvel þótt nafnið
kunni að vera almenns eðlis, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki,
og hvort firmanafn áfrýjanda sé það frábrugðið vörumerki stefnda að ekki sé
fyrir hendi ruglingshætta í skilningi 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 14. gr.
laganna.
Samkvæmt fyrri málslið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997 er meginregla
laganna sú að vörumerki, sem ekki telst uppfylla skilyrði laganna um skráningu,
geti ekki skapað vörumerkjarétt með notkun. Í síðari málslið ákvæðisins er sú
undantekningarregla að vörumerki, sem ekki telst uppfylla skilyrði laganna um
sérkenni við upphaf notkunar, geti skapað vörumerkjarétt ef merkið öðlast
sérkenni við notkun. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að vörumerki
áfrýjanda teljist svo einkennandi fyrir starfsemi hans að með því sé gefið
skýrt til kynna að það eigi uppruna sinn hjá honum og vörumerkið greini þannig
vöru hans frá vörum annarra. Er þannig ekki fullnægt skilyrðum fyrrnefndrar
undantekningarreglu laganna. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til
forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og
greinir dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Kvikk þjónustan ehf., greiði stefnda,
Nýjum tímum ehf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 1. júní 2011.
Mál þetta, sem var dómtekið 12. maí sl., var höfðað 20.
janúar 2011.
Stefnandi er Kvikk Þjónustan ehf.,
Bíldshöfða 18, Reykjavík.
Stefndi er Nýir Tímar ehf., Vesturvör 30c, Kópavogi.
Stefnandi krefst þess
aðallega að stefnda verði bönnuð notkun á auðkennunum „Kvikkfix“,
„KvikkFix” og „Gallerí
KvikkFix” í atvinnustarfsemi sinni, hvort sem er í kynningum, á
heimasíðu, í símaskrá eða á annan sambærilegan hátt, og að honum verði gert að
fjarlægja skilti með nafninu KvikkFix af
verkstæðishúsi sínu að Vesturvör 30c í Kópavogi að viðlögðum dagsektum, 100.000
krónum á dag frá lögbirtingu dómsins, en til vara að stefnda verði dæmt skylt
að breyta auðkennum sínum „Kvikkfix“, „KvikkFix” og „Gallerí
KvikkFix” þannig að orðið „Kvikk” verði
ekki notað í þeim að viðlögðum dagsektum, 100.000 krónum á dag frá lögbirtingu
dómsins. Jafnframt krefst stefnandi þess aðallega að stefndi verði dæmdur til
að láta fella úr gildi vörumerkjaskráninguna „KvikkFix“,
orð- og myndmerki með lykilhluta á dropalöguðum fleti, að viðlögðum dagsektum,
100.000 krónum á dag frá lögbirtingu dómsins, en til vara að stefndi verði
dæmdur skyldur til að breyta skráningu vörumerkis síns „KvikkFix“,
orð- og myndmerki með lykilhluta á dropalöguðum fleti, þannig að orðið „Kvikk” verði ekki notað í því að viðlögðum dagsektum,
100.000 krónum á dag frá lögbirtingu dómsins. Stefnandi krefst þess einnig að
stefndi verði dæmdur til að greiða honum 1.000.000 krónur, ásamt dráttarvöxtum
samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 16. janúar 2010 til greiðsludags
og að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti, skv. 12. gr. vaxtalaga,
fyrst 16. janúar 201l. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og
málskostnaðar.
I
Stefnandi rekur alhliða
bifreiðaverkstæði með starfsstöðvar að Bíldshöfða 18 í Reykjavík og að
Drangahrauni 1 í Hafnarfirði. Sigurður Halldórsson stjórnarformaður stefnanda
rak frá árinu 1992 bifreiðaverkstæði sem einkafyrirtæki undir heitinu og
vörumerkinu Kvikk Þjónustan. Í ársbyrjun 2008 var
einkafyrirtækinu breytt í einkahlutafélag. Stefnandi kveður að allt frá árinu
1992 hafi bifreiðaverkstæðið lagt upp úr því að hafa upp á að bjóða góða og
skjóta þjónustu fyrir viðskiptavini sína. Nafngiftinni „Kvikk
þjónustan“ hafi verið ætlað að vísa til skjótrar og góðrar viðgerðarþjónustu en
þar liggi faglegur metnaður stefnanda. Stefnandi notar veffangið www.kvikk.is sem var skráð í júní 2004. Auk þess notar hann
netföngin kvikk@kvikk.is og
siggi@kvikk.is.
Stefndi lýsir starfsemi
sinni þannig að hann reki víðtæka þjónustustarfsemi fyrir bíleigendur í starfsaðstöðu sinni að Vesturvör 30c,
Kópavogi. Þar sé bíleigendum boðið upp á margvíslega þjónustu undir vörumerkinu
KvikkFix. Stefndi sérhæfi sig helst í olíu- og
síuskiptum, dekkjaþjónustu, bremsum, pústkerfum, dempurum og gormum, kúplingum,
rafgeymum, rúðuþurrkum og ljósaperum. Stefndi dreifi bón og hreinsivörum fyrir
bifreiðar til viðskiptavina um land allt. Boðið sé upp á að viðskiptavinir geti
komið án þess að panta tíma og beðið á meðan þjónustan sé veitt og jafnvel að
bíllinn sé sóttur til eiganda og skilað til hans aftur að lagfæringu lokinni.
Stefndi rekur á starfsstöð sinni sýningaraðstöðu fyrir listamenn undir heitinu
Gallerí KvikkFix. Veffang stefnda er www.kvikkfix.is.
Þann 28. apríl 2009 sótti
stefndi um skráningu vörumerkisins „KvikkFix“ sem
orð- og myndmerki. Fyrirsvarsmaður stefnda segir að hann hafi fengið þær upplýsingar
að hann yrði að skrá merkið sem myndmerki eða stílfærðan texta, en hann gæti
ekki fengið einkarétt á orðinu „kvikk“ þar sem það
væri of almenns eðlis til að fá skráningu. Umsókn stefnda var tekin til
meðferðar og var merkið skráð 31. júlí 2009. Auglýsing um skráninguna var birt
15. ágúst sama ár. Andmælatími vegna skráningarinnar var tveir mánuðir frá
birtingu, sbr. 21. gr. laga um vörumerki nr. 45/1997. Engin andmæli komu fram
við skráninguna á þeim tíma. Skráning vörumerkisins gildir til 31. júlí 2019.
Stjórnarformaður
stefnanda kveðst í október 2009 hafa séð auglýsingu frá stefnda í blaði og
fundið aðra auglýsingu á netinu þar sem fram hafi komið að stefndi reki
bifreiðaverkstæði undir vörumerkinu „KvikkFix” og
noti einnig vörumerkið „Gallerí KvikkFix”. Yfir inngangi verkstæðis stefnda
að Vesturvör 30c í Kópavogi hangi skilti með merkinu KvikkFix
en framan við orðin sé mynd af lykilhluta á rauðum dropalöguðum fleti. Í
netauglýsingunni hafi meðal annars komið fram að stefndi reki þar
bílaverkstæði. Í símaskrá sé auglýsing stefnda með orðinu KvikkFix
eins og á skiltinu næst fyrir neðan skráningu stefnanda. Þar fyrir neðan sé
skráð „Kvikkfix“ með símanúmerum. Nafn hins stefnda
félags sé ekki í símaskrá.
Stefnandi kveðst vorið
2010 hafa ætlað að freista þess að fá skráð í vörumerkjaskrá merki sitt „Kvikk Þjónustan“ en hafi þá verið tjáð að stefndi hefði
þegar fengið skráð merkið „KvikkFix.“ Hafi hann því
ákveðið að leggja ekki inn vörumerkjaumsókn.
Stefnandi ritaði stefnda
kröfubréf 16. janúar 2010, og jafnframt félagsmönnum stefnda persónulega. Engin
viðbrögð urðu við því. Stefndi kveður að sér hafi ekki verið kunnugt um að til
staðar væri ágreiningur um heimildir hans til að nota merkið í starfsemi sinni
fyrr en hann hafi fengið bréf frá lögmanni stefnanda í janúar 2010.
Við aðalmeðferð málsins
gáfu skýrslu Sigurður Halldórsson fyrirsvarsmaður stefnanda, Arnar Sigurðsson
meðeigandi að stefnanda, Hinrik Morthens
fyrirsvarsmaður stefnda og vitnin Sigurður Magnús Þorbergsson, Gunnlaugur
Magnússon, Bjarni Jónsson, Páll Stefán Erlendsson og Hafþór Agnar Unnarsson.
II
Stefnandi kveðst hafa
skráð í hlutafélagaskrá einkahlutafélagið Kvikk
Þjónustan og hafi jafnframt notað orðmerkið „Kvikk
Þjónustan“ sem vörumerki við alhliða bifreiðaviðgerðir allt frá árinu 1992.
Stefnandi telji að of nærri sér sé höggvið þar sem bæði sé mikil orðlíking með
merkjunum og þjónustulíking sé alger og þar af leiðandi hætta á að villst verði
á auðkennum hans og auðkennum stefnda og fyrirtækjum þeirra, enda starfi þeir á
sama markaði. Stefnandi telji upptöku og notkun auðkennanna „KvikkFix“ og „Gallerí
KvikkFix” fara í bága við firmarétt sinn og vörumerkjarétt. „Kvikk“ sé aðalatriði og forliður í báðum merkjunum og gefi
í skyn skjóta þjónustu, þótt þau verði ekki talin lýsandi fyrir starfsemina.
Fyrirtækin séu í beinni samkeppni. Vörumerki stefnanda styðjist við langa
notkun og markaðsfestu. Stefnandi telji að sérstök hætta sé á að villst verði á
fyrirtækjunum tveimur, sbr. 4. gr. og 6. tl. 1. mgr.
14. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki. Kynningu og skráningu stefnda sé þannig
háttað, t.d. í símaskrá, að þeir sem hyggist hringja í stefnanda vegna
bílaviðgerða hringi af vangá í stefnda og stefnandi verði þannig af viðskiptum.
Stefnandi þekki þess dæmi að viðskiptavinur hafi mætt til stefnanda í framhaldi
af símtali við stefnda og talið sig hafa átt samtalið við stefnanda.
Byggt sé á lögum nr.
45/1997 um vörumerki, einkum 1.-5. gr., 7. gr., 13. gr., 1. mgr. 14. gr., 28.
gr., 29. gr., 32. gr., 1. mgr. 42. gr., 1. mgr. 43. gr., 1. ml.
44. gr. og 45. gr., sbr. 41. gr., eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 67/1998, 82/1998, 13/2000 og 54/2004, lögum
nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum
viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins,
einkum 5. gr., 1. mgr. 6. gr., 8. gr., f.-lið 1. mgr. og 2. mgr. 9. gr., 1.
mgr. 12. gr., 13. gr., 14. gr. og 15. gr. a., eins og þeim hafi verið breytt
með 2. gr. laga nr. 50/2008, og loks 1. mgr. 10. gr. firmalaga nr.
42/1903.
Tilvitnuð lagaákvæði
tengist málsástæðum stefnanda eins og hér segi: Stefnandi sé lögaðili í
skilningi 1. gr. laga um vörumerki. Hann hafi notað vörumerkið KVIKK Þjónustan frá því félagið hafi verið stofnað og þar á
undan hafi aðalhluthafi félagsins, Sigurður Halldórsson, notað það um árabil,
eða allt frá árinu 1992. Sigurður hafi lagt félaginu til vörumerkið við stofnun
þess. Einkaréttur stefnanda byggist þannig á langri og óslitinni notkun, sbr.
2. tl. 1. mgr. 3. gr., 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 13.
gr. laga um vörumerki.
Stefndi kunni að halda
því fram að orðið „Kvikk“ hafi ekki til að bera
nægileg sérkenni til að öðlast vörumerkjavernd í skilningi 1. mgr. 13. gr. laga
um vörumerki. Stefnandi vilji því leggja áherslu á síðari málslið 2. mgr. 3.
gr. laganna þar sem segi að vörumerki sem teljist ekki uppfylla skilyrði
laganna um sérkenni við upphaf notkunar geti skapað vörumerkjarétt ef merki
öðlist sérkenni við notkun. Stefnandi telji vörumerki sitt uppfylla öll
skilyrði til að öðlast vörumerkjavernd og í ljósi fyrrgreinds ákvæðis 2. mgr.
3. gr. ætti slíkt að vera vafalaust. Ljóst megi vera af fyrirliggjandi gögnum
að vörumerkjaréttur stefnanda hafi stofnast með notkun samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 3. gr., sbr. 2. mgr. 3. gr. laga um vörumerki, sbr.
og 2. mgr. 13. gr. sömu laga.
Stefnandi telji vörumerki
stefnda of líkt sínu merki og firma, þannig að villst verði á þeim. Stefndi
hafi heimildarlaust tekið upp merkin og noti þau í atvinnurekstri sínum, sem sé
hinn sami og stefnanda, sbr. 1. og 2. tl. 1. mgr. 4.
gr. og 4. og 6. tl. 1. mgr. 14. gr. laga um
vörumerki. Stefnandi hafi orðið þess var að stefndi noti merkin sem nafn á
rekstri sínum og sem vörumerki. Hann hafi merkið á skilti á húsi því sem
starfsemi hans fari fram í og noti þau í allri markaðssetningu sinni, t.d. með
því að auglýsa í blöðum og á netinu undir hinum umdeildu auðkennum án þess að
nefna firma sitt. Vafalítið séu merkin á bréfsefni hans, nótum og
reikningseyðublöðum. Alla þessa notkun telji stefnandi ólögmæta gagnvart sér og
að kröfur sínar sem lúti að notkun nái til alls þessa og meira til sem
sambærilegt megi telja, sbr. 5. gr. laga um vörumerki. Eins og fyrr greini
telji stefnandi sig hafa verið búinn að eignast vörumerki sitt fyrir notkun,
samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 3. gr., sbr. 6. tl. 1. mgr. 14. gr., laga um vörumerki áður en stefndi hafi
farið að nota sín merki og látið skrá eitt þeirra. Eldri réttur stefnanda gangi
því framar og útiloki stefnda frá því að öðlast umræddan vörumerkjarétt, sbr.
7. gr. laga um vörumerki. Þar sem vörumerkjaréttur stefnanda eigi að ganga
fyrir eigi vörumerkjaskráning stefnda að falla úr gildi, sbr. 28. gr., 29. gr.
og 32. gr. laga um vörumerki. Krafa um bann við notkun merkjanna byggist á 42.
gr. og málshöfðunarrétturinn á 45. gr. sömu laga.
Stefnandi telji stefnda hafa hluta nafns síns
heimildarlaust í firma sínu og telji bann 10. gr. laga nr. 42/1903 um
verslanaskrár, firmu og prókúruumboð eiga við um hluta nafns eins og nafn í
heilu lagi. Þótt aðeins sé getið um nafn manns í ákvæðinu verði að telja
ákvæðið ná einnig til firma með rýmkandi lögskýringu. Ákvæði þetta sé orðið á
annað hundrað ára gamalt og auðkennaréttur hafi þróast þannig að þessi
lögskýring sé eðlileg.
Stefnandi
telji ágang stefnda á auðkennarétt sinn fara í bága við bann 5. gr. og 13. gr.
laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og að stefndi sé sekur um óréttmæta
viðskiptahætti, með því að villa á sér heimildir, geta ekki um sitt rétta nafn
í kynningu og velja fyrirtæki sínu heiti og auðkenni sem sé til þess fallið að
villst verði á því og rekstri stefnanda, sbr. 9. gr.
laga nr. 57/2005.
Stefnandi kveðst setja
varakröfur sínar fram með það fyrir augum að dómurinn geti gripið til þess ráðs
að fella orðhlutann Kvikk/kvikk
úr auðkennum stefnda með þeim hætti að ekki verði lengur talið að gengið sé á
rétt stefnanda og viðbrögð stefnda við kröfum stefnanda samrýmist slíku úrræði.
Krafan í lið 3 sé um
skaðabætur og endurgjald fyrir hagnýtingu merkisins samkvæmt 43. gr. vörumerkjalaga.
Gert sé ráð fyrir að þótt tjón verði ekki nægilega í ljós leitt þá verði
hæfilegt endurgjald ekki talið nema lægri fjárhæð en einni milljón króna, en ef
bæði verði dæmdar bætur og fégjald þá takmarkist samanlögð fjárhæð við umkrafða
upphæð. Stefnandi líti svo á að tjón sitt og auðgun stefnda sé mun meiri en sem
svari dómkröfu en telji sig vart geta sýnt fram á það með óyggjandi hætti.
Dómurinn geti því ákveðið fjárhæð bóta og fégjalds innan ramma dómkröfunnar að
álitum þar sem nægar líkur séu til að tjón og auðgun nemi ekki lægri fjárhæð en
krafan.
Um málskostnað vísar
stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega
129. og 130. gr.
III
Stefndi krefst sýknu af
öllum kröfum stefnanda. Hann telur að fullyrðingar stefnanda um líkindi og
ruglingshættu með firmaheiti stefnanda og vörumerki stefnda, eigi ekki við rök
að styðjast. Vörumerki hans sé skráð sem orð- og myndmerki. Það feli því bæði í
sér mynd af dropalöguðum fleti með lykilhluta og orðið „KvikkFix“.
Dropalagaði flöturinn sé appelsínugulur á litinn en letur orðsins svart. Merkið
sé því mjög skýrt framsett, ekki sé bara um að ræða stílfærðan texta og sé
merkið mjög ólíkt því merki sem stefnandi hafi látið útbúa vegna síns reksturs.
Á heimasíðu stefnanda
megi sjá að hann noti firmaheiti sitt með mynd af bíl. Þá sé orðið „kvikk“ skrifað með bláu letri. Á heimasíðu símaskrárinnar, www.ja.is,
megi einnig sjá að stefnandi hafi sett firmaheiti sitt fram með bláum og
svörtum stöfum og með mynd af bíl. Merki stefnanda og stefnda séu því mjög ólík
og engin hætta á að nokkur ruglist á þeim þó að þeir noti báðir orðið „kvikk“ sem hluta af merki sínu. Stefnandi hafi engin gögn
lagt fram sem sýni fram á ruglingshættu með merkjum hans og stefnda. Almennt
verði einnig að meta ruglingshættu út frá sjónarhóli neytandans, sem jafnan sé
talinn tiltölulega vel upplýstur og athugull. Ljóst sé að engin hætta sé á að
neytandi ruglist á svörtu og appelsínugulu merki stefnda og bláu og hvítu merki
stefnanda þó að þau innihaldi bæði orðið „kvikk“. Þá
bendi stefndi á, með hliðsjón af upplýsingum um sérhæfingu stefnanda af
heimasíðu hans, að sérsvið þeirra skarist ekki nema að mjög litlu leyti.
Pústþjónusta sem stefnandi sérhæfi sig fyrst og fremst í, sé ekki nema eitt af
mörgu sem stefndi annist um á sviði þjónustu við bifreiðareigendur. Það sé því
hvorki merkjalíking með vörumerki stefnda og firmaheiti stefnanda né
vörulíking, nema að ákaflega takmörkuðu leyti.
Af hálfu stefnanda sé á
því byggt að það sé fyrst og fremst notkun orðsins „kvikk“
í vörumerki stefnda sem fari í bága við rétt hans enda sé það „aðalatriði og
forliður í báðum merkjunum“ eins og segi í stefnu. Í því sambandi bendi stefndi
á að samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki sé það skilyrði
skráningar vörumerkis að merkið sé til þess fallið að greina vörur
merkiseiganda frá vörum annarra. Þá segi í ákvæðinu að tákn eða orðasambönd sem
teljast algeng í viðskiptum eða notuð eru í daglegu máli teljist ekki
nægjanlegt sérkenni. Í þessu felist að enginn geti öðlast einkarétt á notkun
orða eða tákna sem feli í sér almenna lýsingu á vöru eða þjónustu.
Stefndi byggi á því að
orðið „kvikk“ sé þess eðlis að það feli eingöngu í
sér almenna lýsingu á vöru eða þjónustu. Orðið megi rekja til enska orðsins „quick“ sem þýði „hraður“, „fljótur“ eða „skjótur“ á
íslensku, samkvæmt ensk-íslenskri orðabók. Hafi orðið „kvikk“
fengið þessa sömu merkingu í almennri notkun í daglegu tali hjá almenningi.
Verði að teljast ljóst að allur almenningur skilji orðið á þann hátt enda enska
og tökuorð sem aðlöguð hafi verið íslensku orðin Íslendingum mjög töm.
Merking orðsins „kvikk“, þ.e. „hraður“ eða „skjótur“, sé mjög almenns eðlis
og sé ekki einskorðuð við þjónustu fyrir bifreiðaeigendur. Merking þess geti
raunar átt við flestar tegundir þjónustu við neytendur sem og aðra. Almenningur
tengi orðið því alls ekki við tiltekna vöru eða tiltekinn mann. Samkvæmt 1.
mgr. 13. gr. laga nr. 45/1997 sé ekki hægt að skrá orð eða orðhluta sem séu
jafn almenns eðlis og orðið „kvikk“. Enda væri það
mjög óeðlilegt og óréttmætt að einn atvinnurekandi gæti tálmað öðrum að nota
jafn almenn orð eða orðhluta sem aðrir þurfi að nota í sínum viðskiptum. Hafi
þannig í réttarframkvæmd ekki verið fallist á að einn aðili geti takmarkað svo
rétt annarra til almennra orða eða orðhluta. Í þessu sambandi megi geta þess að
nú þegar séu fimm skráð vörumerki hjá Einkaleyfastofu sem hafi orðhlutann „hrað“ fremst, sem gefi til kynna að einn aðili geti ekki
helgað sér notkun á slíku orði eða orðhluta og bannað öðrum að skrá eða nota
viðkomandi orð eða orðhluta í rekstri sínum. Auk þess séu fleiri skráð merki
sem innihaldi orðhlutann „hrað“. Þá megi benda á að
hjá Einkaleyfastofu finnist fleiri vörumerki sem skráð hafi verið á Íslandi þar
sem orðhlutinn „kvikk“ sé notaður og komi fyrir. Auk
þess megi sjá í Firmaskrá að mörg firmaheiti innihaldi annað hvort orðið, „kvikk“ eða „hrað“.
Stefnandi byggi á því að
hann hafi öðlast vörumerkjarétt fyrir notkun samkvæmt 2. tl.
1. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997. Þessum málatilbúnaði sé alfarið hafnað af hálfu
stefnda þar sem útilokað sé að stefnandi hafi getað öðlast rétt að fyrrgreindu
orði eða orðhluta með þeim hætti. Skilyrði þess að vörumerkjaréttur stofnist
fyrir notkun sé samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997 að vörumerki uppfylli
skilyrði laganna fyrir skráningu. Eins og áður hafi verið rakið teljist orðið „kvikk“ ekki hafa nægjanlegt sérkenni til þess að hægt sé að
skrá það, sbr. 13. gr. laga nr. 45/1997. Það sé því byggt á, af hálfu stefnda,
að stefnandi geti ekki hafa eignast einkarétt á orðinu „kvikk“
með notkun þess í firmaheiti sínu. Firmaheiti stefnanda, „Kvikk
þjónustan ehf.“ sé í heild einnig mjög almenns eðlis og gæti allt eins átt við
hvaða hraðþjónustu sem er, hvort sem þar sé um að ræða þvottahús fyrir fatnað,
bónstöð fyrir bíla, sendlaþjónustu eða hvað eina annað þar sem áhersla er lögð
á hraða þjónustu. Að mati stefnda sé því óyggjandi að firmaheiti stefnanda hafi
ekki þau sérkenni eða aðgreinanleika sem gerð séu að skilyrði í 13. gr. laga
nr. 45/1997. Stefndi telji hins vegar að vörumerki hans, „KvikkFix“,
sé mun meira lýsandi fyrir þá þjónustu sem hann veiti enda byggi hugmyndafræði
reksturs stefnda á því að veita hraða og góða þjónustu þar sem viðskiptavinir
geti meðal annars beðið á meðan þjónustan sé veitt. Það útleggist á íslensku
sem „hröð viðgerð“ eða „hröð lagfæring“ sem mun líklegra sé að almenningur
tengi við bifreiðaviðgerðir.
Í 2. ml.
2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997 sé að finna undantekningu frá því að
vörumerkjavernd geti ekki stofnast fyrir notkun ef vörumerki fengist ekki
skráð. Í henni felist að vörumerki geti mögulega öðlast sérkenni í skilningi
13. gr. laga nr. 45/1997 með notkun. Stefndi bendi á að um sé að ræða
undantekningu sem beri að túlka þröngt. Hann bendi ennfremur á að því almennara
sem merki sé, því víðtækari þurfi notkun þess að vera til að það öðlist
sérkenni. Stefndi telji að þessi skilyrði séu alls ekki uppfyllt varðandi merki
stefnanda. Merki stefnanda sé mjög almenns eðlis, eins og áður hafi verið bent
á, og það sé langt frá því að vera nógu þekkt meðal almennings til þess að svo
geti verið. Stefnandi hafi lagt fram gögn um auglýsingar hans í fjölmiðlum í
gegnum tíðina og telji þau styðja að merki hans hafi öðlast sérkenni fyrir
notkun. Því sé alfarið hafnað af hálfu stefnda. Auglýsingar sýni ekki fram á þekkingu
almennings á merkinu, markaðsfestu þess eða útbreiðslu. Þar að auki hafi stór
hluti framlagðra auglýsinga stefnanda verið birtar eftir skráningu merkis
stefnda. Stefnandi geti því alls ekki byggt þá fullyrðingu sína, að hann hafi
öðlast betri rétt en stefndi fyrir notkun, á þeim. Þá sé vegna þessa alls ekki
um að ræða mikla birtingu á vörumerki stefnanda.
Í stefnu sé minnst á dæmi
um vörumerki sem gæti öðlast sérkenni fyrir notkun úr athugasemdum með
frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 45/1997 um vörumerki, þ.e. merkið
„Kvöldblaðið“. Það myndi samkvæmt athugasemdunum að jafnaði ekki uppfylla
skilyrði laganna um sérkenni, en ef það væri notað í mörg ár og ef það næði
útbreiðslu og festu á markaði myndi það getað öðlast sérkenni. Stefndi telur að
þetta dæmi eigi augljóslega að skírskota til vörumerkis eins og „Morgunblaðið“
sem nánast hver Íslendingur þekki, enda blaðið búið að vera í birtingu frá
1913. Stefndi telji að vörumerki stefnanda standist ekki samanburð við slík
merki og að því sé á engan hátt hægt að fallast á að merki hans hafi öðlast
sérkenni fyrir notkun samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997 með vísan til
þessa. Þá bendi stefndi á að það segi einnig í athugasemdum með frumvarpinu að:
„Með víðtækri notkun getur vörumerki síðan öðlast sérkenni og skapað
vörumerkjarétt.” Stefndi telji algjörlega ósannað að notkun stefnda á merki
sínu sé víðtæk í þessum skilningi.
Jafnvel þó fallist væri á
að vörumerki stefnanda, í heild sinni (bæði orð og mynd saman), hefði öðlast
sérkenni, telji stefndi að stefnandi geti ekki hafa öðlast einkarétt á orðinu „kvikk“ eins og hann virðist halda fram. Stefndi hafi því á
engan hátt brotið gegn vörumerkjarétti hans með því að nota orðið í vörumerki
sínu. Í því sambandi bendi hann á að samkvæmt 15. gr. laga nr.
45/1997 nái vörumerkjaréttur sá, er menn öðlist við skráningu ekki til þeirra
hluta merkis sem ekki sé heimilt að skrá eina sér. Stefndi telji að það
eigi einmitt við um orðið „kvikk“ og að sambærileg
regla hljóti að eiga við einnig um merki stefnanda þó að það sé ekki skráð.
Af hálfu stefnanda hafi
því verið haldið fram að stefndi hafi hagað skráningu í símaskrá þannig að mjög
hætt sé við því að þeir sem hyggist hringja í stefnanda vegna bifreiðaviðgerða
hringi í vangá í stefnda og stefnandi verði þannig af viðskiptum. Þessu sé
alfarið hafnað af hálfu stefnda enda séu vörumerki stefnanda og stefnda mjög
ólík eins og áður hafi verið bent á. Þá telji stefndi rétt að benda á að ef
leitað sé á vef símaskrárinnar, www.ja.is, með leitarorðinu „kvikk“ eingöngu sé eina félagið sem komi upp stefnandi, Kvikk þjónustan ehf. Af þessu sé ljóst að skráningu eða
notkun stefnda á vörumerkinu KvikkFix hafi alls ekki
verið beint gegn stefnanda eða hagsmunum hans enda hafi fyrirsvarmenn stefnda
verið grandlausir um notkun stefnanda á þessu vörumerki. Í því sambandi sé
meðal annars bent á þá athugun sem gerð hafi verið hjá Einkaleyfistofu áður en
vörumerki stefnda hafi verið tekið til skráningar.
Stefndi telji því
samkvæmt ofansögðu að notkun hans á vörumerki sínu hafi ekki með neinum hætti
brotið í bága við rétt stefnanda. Vegna þess telji stefndi ennfremur að
stefnandi geti ekki byggt á 4. gr. laga nr. 45/1997 í málinu. Þá geti stefnandi
ekki byggt á því að vörumerki stefnda sé ekki skráningarhæft samkvæmt 14. gr.
laga nr. 45/1997. Stefnandi hafi einnig byggt á því að réttur hans gangi framar
rétti stefnda vegna þess að merki hans sé eldra, sbr. 7. gr. laga nr. 45/1997.
Stefndi telji að ákvæðið eigi ekki við í málinu enda sé merki hans ekki þess
eðlis að það valdi ruglingi með merki stefnanda, líkt og áskilið sé. Loks bendi
stefndi á, með hliðsjón af öllu framansögðu, að ákvæði laga nr. 45/1997 um
afnám skráningar (28. og 32. gr.), bann við notkun (4. og 42. gr.), bann við
skráningu (14. gr.), skaðabætur (43. gr.) og hindrun á misnotkun (44. gr.) eigi
ekki við í málinu. Af þeim sökum verði að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.
Þá telji stefndi að hann
hafi á engan hátt brotið gegn lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum
og markaðssetningu líkt og stefnandi hafi haldið fram. Viðskiptahættir hans
hafi í allan stað verið eðlilegir. Þá hafi hann á engan hátt reynt að villa um
fyrir eða blekkja neytendur. Honum hafi raunar verið mjög umhugað um að skrá
vörumerki sitt til þess að fá úr því skorið hvort það skaraðist á við annað
merki Með vísan til 6. tl. 1. mgr. 14. gr. laga nr.
45/1997 framkvæmi Einkaleyfastofa ávallt leit að merkjum í þeim flokkum sem
vörumerki óskast skráð fyrir og vörumerkið sem sótt sé um skráningu á gæti
mögulega brotið gegn. Engin slík merki hafi komið fram við leitina. Stefndi
hafi því talið sig hafa gengið úr skugga um að ruglingshætta með vörumerki hans
og örðu merki væri ekki til staðar. Öllum kröfum sem gerðar séu á grundvelli
laga 57/2005 sé því hafnað af hálfu stefnda.
Stefnandi hafi einnig haldið
því fram að stefndi hafi brotið gegn 10. gr. laga nr. 42/1903 um
verslunarskrár, firmu og prókúruumboð. Stefndi hafni því alfarið. Fyrir það
fyrsta sé einkaréttur eigenda firmaheita sem innihaldi almenn lýsandi orð mjög
takmarkaður. Firmaheiti þurfi líkt og vörumerki að bera ákveðin sérkenni til
þess að þau njóti verndar. Firmaheiti stefnanda beri ekki slíkt sérkenni.
Stefndi bendi í öðru lagi á að hann hafi ekki notað í vörumerki sínu eða
firmaheiti nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns. Þó íslenskir
dómstólar hafi talið heimilt að beita lögjöfnun frá 10. gr. laga nr. 42/1903,
þannig að einnig sé óheimilt að firmaheiti innihaldi vörumerki annars aðila, þá
eigi það eingöngu við þegar ruglingshætta sé til staðar. Stefndi hafi ekki
tekið merki stefnanda, „Kvikk þjónustan“ í merki sitt
og engin ruglingshætta sé til staðar eins og áður hafi verið rakið.
Af hálfu stefnda sé á því
byggt að verði þrátt fyrir allt þetta engu að síður fallist á málatilbúnað
stefnanda, telji stefndi að skaðabótakrafa stefnanda sé alltof há. Stefnandi
hafi gert kröfu um skaðabætur að fjárhæð 1.000.000 krónur úr hendi stefnda
ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 16. janúar
2010. Bótakröfuna byggi stefnandi á 43. gr. laga nr. 45/1997. Um mat á tjóni
vegna brota á vörumerkjarétti samkvæmt ákvæðinu gildi almennar reglur.
Stefnandi hafi á engan hátt sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna
notkunar vörumerkis stefnda. Þá telji stefndi að taka verði mið af því að hann
hafi verið í góðri trú þegar hann hafi skráð vörumerki sitt. Eins og áður hafi
komið fram hafi hann fengið þær upplýsingar við skráningu merkisins að engin
félög á sama markaði hafi nýtt merki sem hætta væri á að rugluðust við hans.
Ennfremur hafi engin andmæli komið fram við skráningu merkisins.
Varðandi
dráttarvaxtakröfu stefnanda þá sé tilgreiningu stefnanda og framsetningu á
dráttarvaxtakröfunni mótmælt sem ófullnægjandi, þar sem ekki sé tilgreint á
hvaða greinum vaxtakrafan byggi. Samkvæmt dómaframkvæmd sé ekki nægjanlegt að
vísa til III. kafla vaxtalaga í heild sinni. Þá hafni stefndi því að hægt sé að
miða upphafsdag dráttarvaxta við 16. janúar 2010, þ.e. við dagsetningu
kröfubréfs stefnanda. Í fyrsta lagi sé um að ræða mjög óumdeilda og óljósa
kröfu sem ætti þar af leiðandi aldrei að bera dráttarvexti fyrr en við
uppkvaðningu dóms um hana. Í öðru lagi beri skaðabótakröfur dráttarvexti
samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 að liðnum mánuði frá þeim degi er
kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til að meta
tjónsatvik og fjárhæð bóta, sbr. 9. gr. sömu laga. Engin gögn eða upplýsingar
sem hafi sýnt fram á að stefnandi ætti rétt yfir vörumerki stefnda eða að hann
hefði orðið fyrir tjóni vegna notkunar þess hafi fylgt kröfubréfi hans. Þá
verði ennfremur að miða við mánuð frá þeim tíma sem slík gögn hafi verið lögð
fram. Stefndi telji því að ekki sé hægt að miða upphafsdag dráttarvaxta við
dagsetningu kröfubréfs eins og stefnandi hafi miðað við.
Að lokum sé kröfum
stefnanda um dagsektir sérstaklega mótmælt sem of háum og ósanngjörnum. Ljóst
sé af dómaframkvæmd í sambærilegum málum að dagsektir séu mun lægri en
stefnandi hafi krafist og þar að auki sé að jafnaði veittur mun lengri frestur
til aðgerða en frá lögbirtingu dóms.
Stefndi byggi einkum á
lögum nr. 45/1997 um vörumerki, sérstaklega 13. gr. og 3. gr. laganna, og
almennum reglum vörumerkja- og einkaleyfaréttar. Varðandi kröfu um málskostnað
vísist til 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vegna
athugasemda við dráttarvaxtakröfu stefnanda sé vísað til ákvæða laga nr.
38/2001 um vexti og verðtryggingu, sérstaklega 9. gr.
IV
Stefnandi hóf rekstur
bifreiðaverkstæðis árið 2008, en fyrir þann tíma, allt frá árinu 1992, hafði
fyrirsvarsmaður hans rekið bifreiðaverkstæði sem einkafirma undir sama heiti. Í
júní 2004 fékk stefnandi skráð veffangið www.kvikk.is,
auk þess sem hann notar netföngin kvikk@kvikk.is og siggi@kvikk.is.
Stefndi rekur þjónustustarfsemi fyrir bíleigendur undir nafninu KvikkFix. Þá hefur hann á starfsstöð sinni sýningaraðstöðu
fyrir listamenn undir heitinu Gallerí KvikkFix.
Stefndi fékk vörumerki sitt skráð hjá Einkaleyfastofu í júlí 2009 og hefur
skráð veffangið www.kvikkfix.is.
Aðilar
málsins starfa báðir við viðgerðir á ökutækjum. Stefndi telur þá þjónustu sem
hann veiti mjög ólíka þjónustu stefnanda. Hjá honum sé til dæmis boðið upp á
biðstofu með aðstöðu fyrir börn, kaffistofu, listagallerí, tölvuver og lesstofu
sem viðskiptavinir geti nýtt sér á meðan þeir bíði eftir því að bíllinn þeirra
sé þjónustaður. Þá sérhæfi stefnandi sig í pústþjónustu, en það sé einungis
einn af þeim þáttum sem stefndi starfi við. Þó að áherslur í starfsemi aðila
séu ekki þær sömu starfa þeir báðir á sama sviði og sinna báðir ýmsum þáttum
bifreiðaviðgerða. Verður því talið að notkunin sé á líku sviði í skilningi 4.
gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki.
Myndmerki þau sem aðilar
nota í rekstri sínum eru ólík. Stefnandi notast við mynd af bíl við firmaheiti
sitt og bláan lit. Myndmerki stefnda er af appelsínugulum dropalöguðum fleti
með lykilhluta.
Stefnandi byggir á að
ruglingshætta sé á firmaheiti hans Kvikk þjónustan
ehf. og orð- og myndmerki því sem stefndi hafi fengið skráð hjá Einkaleyfastofu
í júlí 2009, KvikkFix. Stefnandi byggir á því að hann
eigi sökum notkunar einkarétt til vörumerkisins, sbr. 2. tl.
1. mgr. 3. gr., 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 13. gr. laga nr. 45/1997. Þá sé
ruglingshættu fyrir að fara, sbr. 1. og 2. tl. 1.
mgr. 4. gr. og 4. og 6. tl. 1. mgr. 14. gr. laganna.
Orðið „kvikk“ er íslenskun á enska orðinu „quick“.
Merking þess orðs samkvæmt orðabókum er hraður, röskur, fljótur, snöggur, snar
eða kvikur. Segja má að orðið kvikk hafi öðlast þessa
merkingu í daglegu tali, þó það sé ekki að finna í íslenskri orðabók. Orðið
vísar ekki til þeirrar þjónustu sem málsaðilar bjóða upp á heldur getur átt við
um hvaða starfsemi sem er. Samkvæmt framlögðum gögnum hefur það verið notað í
heitum nokkurra fyrirtækja og hefur þá væntanlega verið ætlað að vísa til
skjótrar þjónustu. Þá hafa verið lögð fram gögn sem sýna að ýmis konar félög
hafa verið skráð með heiti sem byrjar á orðinu „hrað“
og sýnast sum þeirra starfa á líkum sviðum. Með vísan til framangreinds verður
að telja að orðið „kvikk“ sé almennt lýsandi orð sem
hafi ekki nægjanlegt sérkenni til skráningar sem vörumerki, heldur sé öllum heimil
notkun þess.
Stefnandi telur að þrátt
fyrir að vörumerki hans hafi hugsanlega ekki uppfyllt skilyrði vörumerkjalaga
um skráningu í upphafi hafi vörumerkjaréttur skapast þar sem það hafi öðlast
sérkenni með notkun hans, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 45/1997. Telja verður að
hugsanlegt sé að vörumerki stefnda hafi öðlast nægilegt sérkenni fyrir notkun
þótt nafnið sé almenns eðlis, en þá sé um að ræða merki stefnanda í heild
sinni, en ekki orðið „kvikk“ eitt og sér. Samkvæmt
15. gr. laga nr. 45/1997 nær vörumerkjaréttur sá sem menn öðlast við skráningu
ekki til þeirra hluta merkis sem ekki er heimilt að skrá eina sér.
Þegar orð- og myndmerki
aðila, auk veffanga þeirra, eru virt í heild þykir firmanafn stefnanda það
frábrugðið vörumerki stefnda að ekki sé fyrir hendi ruglingshætta í merkingu 1.
mgr. 4. gr. og 1. mgr. 14. gr. laga nr. 45/1997 um vörumerki.
Stefnandi hefur jafnframt
vísað til 10. gr. laga nr. 42/1903 um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.
Stefndi hafi notað hluta nafn síns heimildarlaust í firma sínu. Með vísan til
þess sem áður hefur komið fram um takmarkað sérkenni orðsins „kvikk“ verður kröfu stefnanda byggðri á þessu ákvæði
hafnað.
Þá hefur stefnandi vísað
til þess að notkun stefnda á heitinu KvikkFix brjóti
gegn lögum nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.
Stefndi sé sekur um óréttmæta viðskiptahætti með því að villa á sér heimildir,
geta ekki um sitt rétta nafn í kynningu og velja fyrirtæki sínu heiti og
auðkenni sem sé til þess fallið að villst verði á því og rekstri stefnanda.
Algengt er að fyrirtæki notað annað heiti yfir þjónustu sína en heiti
fyrirtækisins. Ekkert er komið fram sem bendir til þess að stefndi hafi reynt
að villa á sér heimildir eða ná viðskiptum frá stefnanda. Stefndi fékk
vörumerki sitt skráð hjá Einkaleyfastofu og var ekki talið að skráning
merkisins bryti í bága við réttindi annarra. Þykir ekkert fram komið um að
viðskiptahættir hans hafi verið á einhvern hátt óeðlilegir.
Með hliðsjón
af framangreindu verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Samkvæmt
niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um
meðferð einkamála verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem
þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir settur héraðsdómari kveður upp þennan
dóm.
D ó m s o r ð :
Stefndi, Nýir Tímar ehf., er sýkn af kröfum stefnanda, Kvikk Þjónustunnar ehf., í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 350.000 krónur í málskostnað.