Hæstiréttur íslands

Mál nr. 489/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Framhaldssök
  • Sakarauki


                                     

Þriðjudaginn 30. september 2008.

Nr. 489/2008.

Þrotabú Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf.

(Skúli Bjarnason hrl.)

gegn

Eignarhaldsfélaginu Hara ehf. og

Önnu Maríu Oddsdóttur

(Árni Pálsson hrl.)

 

Kærumál. Framhaldssök. Sakarauki.

Héraðsdómur vísaði sakaraukningu og framhaldssök frá í máli þar sem þrotabú T hf. hafði áður höfðað mál gegn E ehf. og krafðist riftunar á afsali T hf. á nánar tilgreindri byggingarlóð og til greiðslu 7.500.000 króna með nánar tilgreindum vöxtum. Fjárhæðina studdi þrotabúið við álit löggilts fasteignasala á verðmæti lóðarinnar með fyrirvara í stefnu um dómkvaðningu matsmanns ef til andmæla kæmi af hálfu E ehf. Eftir að slík andmæli komu fram fékk þrotabúið dómkvaddan matsmann til að meta verðmæti lóðarinnar og var stefnufjárhæð í framhaldssök studd við matsgerðina. Þrotabúið höfðaði einnig sakaraukningu gegn A þar sem í ljós kom við rekstur málsins að umræddri byggingarlóð hafði verið afsalað til A án endurgjalds. Eins og atvikum málsins var háttað var talið að skilyrði 29. gr. laga nr. 91/1991 til að auka við fyrri kröfu í málinu, hefðu verið fyrir hendi og að ekki bæri að meta þrotabúinu til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur á hendur E ehf., í einu lagi, í upphafi. Þá hefði aukning á fyrri kröfu hvorki verið til þess fallin að raska grundvelli málsins né að auka E ehf. vinnu við vörn sína. Þá var talið að skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um sakaraukningu hefðu jafnframt verið fyrir hendi og að dómkröfur á hendur E ehf. og A ættu rætur að rekja til sömu aðstöðu, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Var úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. ágúst 2008, þar sem vísað var frá dómi framhaldssök og sakaraukningu í máli, sem sóknaraðili hafði áður höfðað á hendur varnaraðilanum Eignarhaldsfélaginu Hara ehf. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og þeim dæmdur kærumálskostnaður úr hendi sóknaraðila.

I

Sóknaraðili höfðaði málið upphaflega 13. september 2007 gegn varnaraðilanum Eignarhaldsfélaginu Hara ehf. og krafðist þess annars vegar að rift yrði afsali Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. á byggingarlóð nr. 6 við Bakkasíðu á Akureyri með framkvæmdum við sökkul þar og að varnaraðili yrði dæmdur til að greiða 7.500.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum. Fjárhæðina studdi hann við álit löggilts fasteignasala á verðmæti lóðarinnar, en í stefnu áskildi hann sér rétt til að leita eftir mati dómkvadds manns um það. Eftir að andmæli komu fram frá varnaraðilanum um ætlað verðmæti lóðarinnar fékk sóknaraðili dómkvaddan mann til að meta það og styðst stefnufjárhæð í framhaldssök við mat hans. 

Þeirri staðhæfingu sóknaraðila hefur ekki verið mótmælt að hann hafi ekki fengið bókhaldsgögn Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. í hendur fyrr en verulega var liðið á málshöfðunarfrest samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Einungis hluti bókhaldsgagnanna hafi fengist afhentur. Eins og atvik málsins eru vaxin verður ekki talið að meta beri sóknaraðila til vanrækslu að hafa ekki gert kröfur sínar á hendur nefndum varnaraðila í einu lagi í öndverðu eða óskað eftir dómkvaðningu matsmanns þegar við þingfestingu málsins, sbr. 29. gr. laga nr. 91/1991. Þá er aukning á fyrri kröfu hvorki til þess fallin að raska grundvelli málsins né að auka varnaraðilanum vinnu við vörn sína. Verður krafa sóknaraðila að þessu leyti tekin til greina.

II

Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. afsalaði áðurnefndri lóð á Akureyri til varnaraðilans Eignarhaldsfélagsins Hara ehf. 12. desember 2005, sem afsalaði henni aftur til varnaraðilans Önnu Maríu Oddsdóttur 28. sama mánaðar. Síðara afsalið var innfært í þinglýsingabók sýslumannsins á Akureyri tveimur dögum síðar. Sóknaraðili styður kröfu sína í málinu við það að í fyrrnefnda afsalinu sé tekið fram að kaupverð fyrir lóðina sé að fullu greitt. Engin staðfesting hafi hins vegar fundist í bókhaldsgögnum sóknaraðila á því að varnaraðilinn Eignarhaldsfélagið Hara ehf. hafi greitt fyrir lóðina og því verið talið að henni ásamt sökkulframkvæmdum hafi í raun verið afsalað án þess að endurgjald kæmi fyrir. Þessi varnaraðili hafi því auðgast við sölu rúmlega hálfum mánuði síðar og að afhending Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf. væri riftanleg. Þessi mynd af málavöxtum hafi einnig stuðst við það að í síðara afsalinu sé tekið fram að kaupverð varnaraðilans Önnu sé að fullu greitt. Það hafi ekki verið fyrr en með greinargerð frumstefnda í málinu að í ljós kom að varnaraðilinn Anna hafi ekkert endurgjald innt af hendi fyrir lóðina og yfirlýsing um greiðslu í afsali til hennar því ekki verið rétt. Ekkert tilefni hafi gefist til að höfða málið gegn varnaraðilanum Önnu fyrr en að fengnum þessum upplýsingum.

Í 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 greinir frá því með hvaða skilyrðum er unnt að stefna nýjum aðila eftir þingfestingu máls til að svara til sakar með þeim, sem þegar hefur verið stefnt. Samkvæmt því, sem að framan er rakið, verður sóknaraðila ekki metið til vanrækslu að hafa ekki stefnt varnaraðilanum Önnu þegar í upphafi. Þá eiga dómkröfur á hendur báðum varnaraðilum rætur að rekja til sömu aðstöðu, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Verður fallist á kröfu sóknaraðila sem beint er að varnaraðilanum Önnu.

Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfur sóknaraðila, Þrotabús Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., á hendur varnaraðilum, Eignarhaldsfélaginu Hara ehf. og Önnu Maríu Oddsdóttur, til efnismeðferðar.

Hvor varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. ágúst 2008.

Mál þetta var tekið til úrskurðar 18. júní sl. Það er höfðað þann 13. september 2007 af þrotabúi Trésmiðju Fljótsdalshéraðs hf., Austurvegi 3, Selfossi, á hendur Eignarhaldsfélaginu Hara ehf., Vaðlatúni 12, Akureyri.

Í þessum þætti krefst stefndi þess að framhaldssök verði vísað frá dómi og málskostnaðar.

Sakaukastefnda krefst þess að sakaukasök verði vísað frá dómi og málskostnaðar.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfum verði hrundið og málskostnaðar.

I.

Í frumstefnu eru gerðar þær dómkröfur að rift verði með dómi ráðstöfun með afsali dagsettu 12. desember 2005, þar sem Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. afsalaði til stefnda byggingarlóð við Bakkasíðu 6 á Akureyri ásamt tilheyrandi sökkul­fram­kvæmdum.  Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 7.500.000 krónur ásamt nánar greindum dráttarvöxtum og málskostnað.

Stefndi tók til varna og segir m.a. í greinargerð hans í frumsök að sakaukastefnda, Anna María Oddsdóttir, sé nú þinglýstur eigandi fasteignarinnar Bakkasíðu 6.  Sé því óljóst hvernig riftun á afsali sem hafi verið gefið út til stefnda geti sætt riftun eins og krafist sé.  Hafi stefndi afsalað lóðinni til Önnu Maríu og því sé spurning hvort stefnandi hafi lögvarða hagsmuni af riftun.

Þá kemur fram í greinargerð stefnda að stefnandi hafi látið við það sitja að leggja fram mat löggilts fasteignasala og í því mati komi ekkert fram um verðmæti lóðarinnar, en framkvæmdir séu metnar ásamt henni. Framkvæmdirnar hafi aldrei verið eign stefnanda.

Að beiðni stefnanda var matsmaður dómkvaddur 20. desember 2007.  Var matsgerðin lögð fram í dómi 3. apríl sl. Jafnframt höfðaði stefnandi þá framhaldssök til hækkunar á dómkröfum stefnanda um 100.000 kr. ásamt nánar greindum dráttarvöxtum. Einnig höfðaði hann þá sakaukasök á hendur Önnu Maríu Oddsdóttur, Hamratúni 36, Akureyri og krefst þess að sakaukastefndu verði gert að greiða sér dómkröfur óskipt með aðalstefnda.

II.

Sakaukastefnda styður frávísunarkröfu sína við það að í fyrsta lagi sé skilyrði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91, 1991 um samlagsaðild ekki uppfyllt, þar sem í aðalmálinu sé gerð krafa um riftun á afsali frá Trésmiðju Fljótsdalshéraðs ehf. til stefnda.  Sé helst að skilja svo að stefnandi krefjist nú riftunar á afsali frá stefnda til sakaukastefndu.  Sé því ekki um sama atvik, aðstöðu eða  löggerning að ræða og vandséð að þessi krafa eigi stoð í XX. kafla laga nr. 21, 1991.  Í öðru lagi telur sakaukastefnda að skilyrði um að það verði ekki metið stefnanda til vanrækslu að hafa ekki stefnt nýja aðilanum áður en málið var þingfest sé ekki uppfyllt.  Telur hún augljóst að stefnanda hafi verið kunnugt um að hún var þinglýstur eigandi að Bakkasíðu 6 þegar hann höfðaði málið gegn stefnda, enda sé ljósrit af afsali til hennar lagt fram við þingfestingu.  Séu því ekki skilyrði til að höfða málið gegn sakaukastefndu löngu eftir að aðalmálið var þingfest.  Með sakaraukningu sé verið að flækja málið og gera það erfiðara úrlausnar og sömu málsástæður eigi ekki við um kröfur á hendur aðilum. Séu atvik önnur þó að þau blandist nokkuð saman.

Af hálfu stefnanda er vísað til að naumur tími hafi verið orðinn til málshöfðunar þegar upplýst hafi verið um í nægilegum mæli um þau atvik sem mál þetta er sprottið af.  Þá hafi ekki verið tilefni til að höfða sakaukasökina fyrr en við lestur greinargerðar stefnda, þar sem sök sé varpað á sakaukastefndu, en víðsvegar sé vísað á sakauka­stefndu í greinargerð stefnda.

III.

Í stefnu kemur fram að þann 12. desember 2005 hafi Trésmiðja Fljótsdalshéraðs hf. afsalað greindri lóð til stefnda, en stefndi hafi síðan rúmlega tveimur vikum síðar afsalað lóðinni til sakaukastefndu, þ.e. þann 28. desember 2005.  Verður því að telja að stefnanda hafi verið unnt í upphafi að höfða málið gegn báðum stefndu. Verður því að virða stefnanda það til vanrækslu í skilningi 3. mgr. 19. gr. laga nr. 91, 1991 að hafa ekki höfðað málið þegar í upphafi gegn sakaukastefndu. Verður þegar af þeirri ástæðu fallist á kröfu hennar um frávísun sakaraukningarinnar, en rétt þykir að málskostnaður falli niður.

IV.

Frávísunarkrafa stefnda í framhaldssök er studd við það að með framhalds­sökinni sé stefnandi að hækka upphaflega kröfugerð sína á grundvelli matsgerðar sem hann hafi aflað eftir að málið var þingfest og stefndi hafði skilað greinargerð.  Kveðst stefndi telja að stefnandi hefði auðveldlega átt að geta aflað matsgerðar mun fyrr, en ráðið verði af málsskjölum að hann hafi leitað eftir mati löggilts fasteignasala 4. september 2007 og engin skýring sé á því hvers vegna ekki hafi verið ráðist í matið fyrr.  Samkvæmt 29. gr. laga nr. 91, 1991 sé heimilt að auka við kröfur eftir þingfestingu máls, verði það ekki metið til vanrækslu að hafa ekki gert kröfuna alla í upphafi.  Verði að túlka ákvæðið þannig að oft séu tilvik, þar sem ekki hafi verið vitað um kröfur og því afsakanlegt að hafa þær ekki uppi í öndverðu.  Þar sem nú sé verið að breyta grundvelli málsins með því að leggja fram matsgerð sé ekki um annað að ræða en að vísa framhaldssökinni frá dómi.

Stefnandi vísar til þess að skammur tími hafi verið til málshöfðunar og ekkert tóm til að bíða með hana meðan aflað væri matsgerðar dómkvadds matsmanns.  Hafi því verið miðað við verðmat löggilts fasteignasala, en áskilnaður verið uppi um að dómkveðja matsmann yrði fjárhæð mótmælt.  Hafi einmitt svo verið gert vegna mótmæla stefnda gegn því að á áliti fasteignasalans yrði byggt.  Hér sé eingöngu verið að hækka fjárkröfuna og málsgrundvellinum sé á engan hátt raskað.

V.

Samkvæmt 29. gr. laga nr. 91, 1991 er það skilyrði fyrir höfðun framhaldssakar að vanrækslu stefnanda verði ekki kennt um að framhaldskrafan hafi ekki komið fram þegar í upphafi.  Stefnandi hefur gert grein fyrir því að of skammur tími hafi verið til málshöfðunar til að ætlað yrði að matsgerðar yrði aflað áður. Stefnandi átti þó þann kost, vildi hann ekki miða endanlegar dómkröfur við verðmat fasteignasala, að krefjast ríflegri fjárhæðar en ella og óska eftir dómkvaðningu matsmanns samhliða þingfestingu máls, til að byggja endanlegar kröfur sínar á.  Stefnandi kaus hins vegar að byggja á verðmati fasteignasalans.  Verður að líta svo á að stefnandi hafi þannig kosið að leggja þann grundvöll að málinu að miða fjárkröfuna við verðmat löggilts fasteignasala, þótt hann áskildi sér rétt til að afla mats dómkvadds matsmanns ef verðmat fasteignasalans yrði vefengt.  Að þessu athuguðu verður fallist á það með stefnda að skilyrði fyrir höfðun framhaldssakar séu ekki uppfyllt.  Verður framhaldssök því vísað frá dómi, en rétt þykir að málskostnaður falli niður milli aðila í þessum þætti málsins.

Úrskurð þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ :

Sakaukasök og framhaldssök í máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.