Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-13

A og Öryrkjabandalag Íslands (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
Tryggingastofnun ríkisins og íslenska ríkinu (Ingvi Snær Einarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Áfrýjunarfrestur
  • Viðurkenningarmál
  • Skaðabætur
  • Varakrafa
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 2. febrúar 2024 leita A og Öryrkjabandalag Íslands leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til réttarins dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2023 í máli nr. E-2665/2023: A og Öryrkjabandalag Íslands gegn Tryggingarstofnun ríkisins og íslenska ríkinu. Gagnaðilar leggjast ekki gegn beiðninni.

3. Beiðnin lýtur að varakröfu leyfisbeiðenda um að viðurkennt verði að gagnaðilar beri sameiginlega skaðabótaábyrgð á því fjártjóni sem orðið hafi vegna þess að sérstök uppbót á lífeyri samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi verið skert með óheimilum hætti. Með héraðsdómi var fallist á aðalkröfur leyfisbeiðenda að undanskilinni kröfu um dráttarvexti. Í niðurstöðu dómsins fólst að varakrafa leyfisbeiðenda kom ekki til umfjöllunar í málinu en það var eina krafan sem þeir beindu að íslenska ríkinu.

4. Svo sem fyrr segir beindist upphafleg málsókn leyfisbeiðenda að Tryggingarstofnun ríkisins og íslenska ríkinu. Beiðni stofnunarinnar um leyfi til áfrýjunar var samþykkt með ákvörðun réttarins 14. febrúar 2024, nr. 2024-4. Ósk leyfisbeiðenda um leyfi til áfrýjunar lýtur að því að halda til haga varakröfu sem beinist sameiginlega að Tryggingarstofnun ríkisins og íslenska ríkinu sem hefur ekki áfrýjað málinu fyrir sitt leyti.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að þeir hafi ekki haft tilefni til áfrýjunar fyrr en Tryggingarstofnun ríkisins áfrýjaði dóminum fyrir sitt leyti. Leyfisbeiðendur hafi fyrst fengið vitneskju um það með bréfi Hæstaréttar 9. janúar 2024 þar sem þeim var veittur kostur á að tjá sig um leyfisbeiðni stofnunarinnar. Að því virtu telur leyfisbeiðandi að dráttur á áfrýjun málsins hafi verið nægilega réttlættur, sbr. 2. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991. Um skilyrði 175. gr. laga nr. 91/1991 vísar leyfisbeiðandi til þess sem rakið er um gildi og þýðingu málsins í beiðni Tryggingarstofnunar 9. janúar og umsögn leyfisbeiðenda af því tilefni 24. sama mánaðar.

6. Heimildarákvæði 2. mgr. 177. gr. laga nr. 91/1991 er undantekning frá meginreglu um fjögurra vikna frest til að sækja um áfrýjunarleyfi. Þær skýringar sem leyfisbeiðandi hefur gefið á því að ekki var sótt um áfrýjunarleyfi innan tímamarka 1. mgr. 177. gr. laganna fullnægja ekki þeim áskilnaði sem tilgreindur er í 2. mgr. greinarinnar. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni leyfisbeiðenda hafnað.