Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-271

Gárungarnir ehf. og Sigurður Gísli Björnsson (Þorsteinn Einarsson lögmaður)
gegn
tollstjóra (Sigurður Skúli Bergsson tollstjóri)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Fasteign
  • Þinglýsing
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 20. desember 2018 leita Gárungarnir ehf. og Sigurður Gísli Björnsson leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 7. sama mánaðar í málinu nr. 746/2018: Sigurður Gísli Björnsson og Gárungarnir ehf. gegn tollstjóra, á grundvelli 6. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Tollstjóri leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu tollstjóra um að felld verði úr gildi þinglýsing á tilgreindu skjali um eignarheimild Gárunganna ehf. að tiltekinni fasteign og því vísað frá þinglýsingu. Í úrskurði héraðsdóms sem staðfestur var í Landsrétti var krafa tollstjóra tekin til greina með þeim rökum að skjalið hafi falið í sér riftun á fasteignakaupum sem hafi farið í bága við 4. mgr. 51. gr. laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Hafi þinglýsingarstjóra því borið að vísa skjalinu frá þinglýsingu, sbr. 2. mgr. 7. gr. þinglýsingalaga.

Leyfisbeiðendur byggja einkum á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni þar sem skjalið hafi falið í sér yfirlýsingu um afsal fasteignarinnar frá Sigurði til Gárunganna ehf. en ekki riftun á fyrri kaupum Sigurðar á fasteigninni af félaginu. Það sé ekki óheimilt að lögum að seljandi og kaupandi fasteignar semji eftir útgáfu afsals um að kaup gangi til baka og að seljandi eignar verði aftur þinglýstur eigandi hennar. Þá telja leyfisbeiðendur að ekki verði fundin fyrir því stoð í 6. og 7. gr. þinglýsingalaga að vísa skjalinu frá þinglýsingu. Vísa leyfisbeiðendur jafnframt til þess að niðurstaða Landsréttar sé reist á mati réttarins á ætluðu efni skjalsins, en slíkt gangi gegn þeirri meginreglu að ekki verði skorið úr um efnisleg réttindi að baki skjali í máli sem þessu, sbr. dóm Hæstaréttar 22. ágúst 2012 í máli nr. 414/2012. Loks byggja leyfisbeiðendur á því að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni þeirra.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Ekki eru uppfyllt önnur skilyrði samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 til að heimila kæru í málinu. Er beiðninni því hafnað.