Hæstiréttur íslands

Mál nr. 196/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi


                                                         

Mánudaginn 15. apríl 2013.

Nr. 196/2013.

Hampiðjan hf.

(Jóhannes Bjarni Björnsson hrl.)

gegn

Motus ehf.

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

Kærumál. Vanreifun. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.

H hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem skaðabótamáli sem félagið hafði höfðað á hendur M ehf. var vísað frá dómi sökum vanreifunar. Talið var að ef þörf hefði verið á frekari upplýsingum í málinu þá hefði héraðsdómari átt þess kost að beina því til aðila að afla þeirra eftir dómtöku málsins með þeim hætti sem um ræðir í 104. gr. laga nr. 91/1991. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. mars 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 22. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2013, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og rakið er í hinum kærða úrskurði fól sóknaraðili varnaraðila að innheimta kröfu á hendur norsku fyrirtæki vegna reikninga samtals að fjárhæð 526.521,73 danskar krónur. Telur sóknaraðili að vegna vanrækslu starfsmanns varnaraðila við innheimtu kröfunnar hafi hún fallið niður sökum fyrningar.

Í hinum kærða úrskurði er komist að þeirri niðurstöðu að augljóst sé að íslensk lög um lagaskil hefðu aldrei verið lögð til grundvallar niðurstöðu norskra dómstóla um kröfuna. Af almennum athugasemdum sem fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar verði ráðið að þau hafi verið sett í því skyni að samræma íslenskar lagaskilareglur um samningsskuldbindingar þeim reglum sem giltu um það atriði í aðildarríkjum ESB. Hafi sóknaraðili ekki upplýst hvort slík lög hafi verið sett í Noregi eða að norskum dómstólum beri á öðrum grundvelli að fylgja þeirri reglu um lagaval sem hann telji leiða til þess að danskar fyrningarreglur gildi um umræddar viðskiptakröfur. Verði sóknaraðili að bera hallann af skorti á sönnun um þessi atriði. Þá hafi varnaraðili ekki fært sönnur á að umræddar kröfur hafi átt að fyrnast á þremur árum, en honum beri að leiða í ljós efni erlendra réttarreglna sem hann byggi málsvörn sína á. Þá kemur fram í hinum kærða úrskurði að með tilliti til fyrningar kröfunnar skuli taka mið af stöðu hennar 7. maí 2008 en þá hafi verið rúm fjögur ár og fjórir mánuðir liðnir frá gjalddaga elsta reikningsins og rúm tvö ár og átta mánuðir frá gjalddaga yngsta reikningsins. Hafi því grundvallarþýðingu um ætlað tjón sóknaraðila hvort viðskiptakröfurnar hafi fyrnst á þremur, fjórum eða fimm árum. Þar sem málið hafi verið vanreifað um þetta af hálfu beggja aðila bæri að vísa málinu í heild frá héraðsdómi.

Hafi verið þörf á þeim upplýsingum sem að framan er getið átti héraðsdómari kost á að beina til aðila að afla þeirra eftir dómtöku málsins með þeim hætti sem um ræðir í 104. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.

Rétt þykir að kærumálskostnaður falli niður.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2013.

         Mál þetta, sem var dómtekið 24. janúar sl., er höfðað 16. maí 2012 af Hampiðjunni hf., Skarfagörðum 4 í Reykjavík, gegn Motusi ehf., Laugavegi 97 í Reykjavík.

         Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 789.325 danskar krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 5. október 2011 til greiðsludags. Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 526.521 danska krónu með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. október 2007 til 5. október 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

         Stefndi gerir aðallega þá kröfu að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, en til vara að dómkröfurnar verði lækkaðar verulega. Í báðum tilvikum gerir stefndi kröfu um málskostnað.

II.

         Hinn 13. febrúar 2004 gerði stefnandi, sem er fyrirtæki sem framleiðir meðal annars veiðarfæri, samning við stefnda, sem þá hét Intrum á Íslandi ehf. Með samningnum, sem ber yfirskriftina Innheimtusamningur, tók stefndi að sér innheimtu vanskilaskulda fyrir stefnanda með þeim hætti sem þar er lýst. Í 2. gr. staðlaðra skilmála hans segir að stefnandi sé samstarfsaðili Intrum Justitia AB og að samningurinn gildi fyrir „Millilandainnheimtu, sem merkir innheimtur á fyrri stigum, áður en tilefni er til lögfræðilegra aðgerða auk þess sem hann veitir Intrum á Íslandi umboð til að sjá um lögfræðiinnheimtu fyrir kröfuhafa“. Þar segir einnig að samningurinn nái til „Kröfuvaktar sem er þjónusta ætluð til innheimtu þeirra krafna sem ekki hefur tekist að fá greiddar þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir“ án lögfræðilegra aðgerða og lögfræðiinnheimtu. Í 3. gr. skilmálanna segir jafnframt að millilandainnheimtuferlið hefjist fljótlega eftir að vanskil hafi orðið samkvæmt ákvörðun kröfueiganda. Áhersla sé lögð á að bera virðingu fyrir þeim sem skuldar og þess gætt að varðveita og treysta viðskiptasambandið milli hans og kröfueiganda. Þá segir í skilmálunum að stefndi annist „sendingu innheimtumála í lögfræðiinnheimtu ef þess er óskað“. Í 12. lið samningsskilmálanna segir: „Millilandainnheimtuferli (án lögfræðilegrar innheimtu) skal að jafnaði lokið innan 100 daga frá því að krafa er móttekin til innheimtu hafi ekki verið samið um greiðslufrest. Innheimtu hverrar kröfu sem ekki fæst greidd skal lokið með flutningi í kröfuvakt, flutningi í lögfræðilega innheimtu eða afskrift kröfu og veitir Intrum kröfuhafa ráðleggingar við val á viðeigandi meðferð fyrir hverja kröfu.“ Í 13. lið samningsskilmálanna kemur fram að stefndi „taki að sér umsjón með lögfræðiinnheimtu að aflokinni hefðbundinni Millilandainnheimtu að höfðu samráði við kröfuhafa“.

         Samningur þessi gilti í eitt ár og var uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara. Yrði samningnum ekki sagt upp innan þess tíma framlengdist hann sjálfkrafa í eitt ár í senn. Ekki liggur annað fyrir en að samningur þessi hafi verið í gildi er atvik þau, sem mál þetta snýst um, áttu sér stað.

         Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hafi árið 2003 tekið yfir danskt félag, N.P. Utzon, og breytt nafni þess í Hampidjan Danmark AS. Fyrir yfirtökuna hafði danska félagið, í gegnum dótturfélag sitt UAB Utzon, sem eftir yfirtökuna fékk heitið UAB Hampidjan Baltic, verið í samstarfi við norska félagið Selstad AS um tiltekin verkefni í Litháen. Samstarfsverkefni þetta var rekið undir merkjum litháíska félagsins UAP Muradéja, sem mun hafa verið að helmingi í eigu UAB Utzon og að hálfu leyti í eigu norska félagsins. Eftir því sem fram kemur í gögnum málsins var samstarf þetta fólgið í því að litháíska félagið framleiddi garn með vélum sem það leigði af Selstad AS. Átti UAP Utzon að nota vélarnar og greiða UAB Muradéja fyrir garnið, sem aftur átti að nota þær tekjur til að greiða Selstad AS leigugjald fyrir vélarnar. UAP Utzon átti síðan að selja norska félaginu garnið, samkvæmt tiltekinni áætlun.

         Auk framangreinds samvinnuverkefnis Selstad AS og N.P. Utzon munu fyrirtækin hafa verið í föstu viðskiptasambandi. Þar sem stefnandi var í samkeppni við norska félagið var ljóst að eftir yfirtök þess á N.P. Utzon yrði ekki framhald á viðskiptum milli félaganna. Selstad AS mun þó hafa haldið áfram um tíma að kaupa netagerðarefni af Hampidjan Danmark AS. Í málinu liggja frammi tveir reikningar sem N.P. Utzon gaf út vegna slíkra viðskipta frá nóvember og desember 2003, samtals að fjárhæð 136.339,67 danskar krónur, og 13 reikningar frá Hampidjan Danmark AS á hendur Seldstad AS, sem gefnir voru út á tímabilinu frá 27. janúar 2004 til 15. júlí 2005, samtals að fjárhæð 390.182,06 danskar krónur. Fjárhæð reikninganna nam samtals 526.521,73 krónum.

         Af gögnum málsins verður ráðið að norska félagið hafi hafnað greiðsluskyldu sinni samkvæmt framangreindum reikningum. Hinn 22. ágúst 2005 var gerður samningur í Litháen milli dótturfélags stefnanda, UAB Hampidjan Baltic, og Selstad Holding AS, móðurfélags Selstad AS, um slit á félaginu UAB Muradéja og uppgjör milli félaganna vegna samstarfsverkefnisins. Í 6. lið samningsins segir í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda: „SELSTAD HOLDING AS sem og dótturfélög þess munu gera upp fyrir lok september, alla gjaldfallna vörureikninga til Hampidjan Danmark AS.“ Fram kemur í 7. lið samningsins að eftir greiðslu reikninganna myndi UAB Hampidjan Baltic gefa út kreditreikninga að fjárhæð 50.000 litháísk lít vegna galla í þegar afhentum vörum. Þá segir í lok samningsins að hann muni „leysa allan ágreining milli fyrirtækjanna hvað varðar UAB „MURADÉJA““. Samningur þessi er undirritaður af framkvæmdastjóra UAB Hampidjan Baltic, Hirti Erlendssyni, og framkvæmdastjóra Seldstad Holding AS, Hans Petter Selstad.

         Greiðslur á fyrrgreindum reikningum bárust ekki. Af þeim sökum mun UAB Hampidjan Baltic ekki hafa efnt fyrrgreindan 7. tölulið samningsins frá 22. ágúst 2005. Í júní 2006 var Hampidjan Danmark AS slitið, en við það tók stefnandi yfir kröfur samkvæmt framangreindum reikningum á hendur Selstad AS.

         Með bréfi 21. september 2006 fól stefnandi stefnda að innheimta reikningana. Í bréfinu var ekki vikið að því að Selstad AS hefði hafnað greiðsluskyldu eða gerð grein fyrir fyrrgreindum samningi frá 22. ágúst 2005.

         Í athugasemdakerfi stefnda, þar sem skráðar eru athugasemdir og samskipti í tengslum við innheimtu fyrrgreindra reikninga, kemur fram að 25. október 2006 hafi Jóni Oddi Guðjónssyni, starfsmanni stefnanda, verið tilkynnt í tölvuskeyti að Selstad AS hefði mótmælt kröfunni, en ekki viljað gefa upp á hverju mótmælin væru reist. Var óskað eftir frekari upplýsingum frá stefnanda. Hinn 27. október 2006 er skráð að haft hafi verið samband frá stefnanda og forsaga málsins útskýrð. Hafi viðkomandi starfsmaður stefnanda ætlað að senda starfsmanni stefnda „þetta allt saman í tölvupósti auk samninga sem gerðir voru“. Næsta færsla fór fram 22. júní 2007, en þar segir að engin gögn hafi borist frá kröfuhafa síðan í október og því sé málinu lokað. Í október 2007 var gerð athugasemd af hálfu stefnanda við að málinu hefði verið lokað. Úr varð að stefnandi sendi stefnda samning „sem gerður var við Selstad“. Þau gögn munu hafa verið send til Noregs og málið endurvakið. Hinn 7. maí 2008 var stefnanda tjáð að greiðandi mótmælti áfram greiðsluskyldu. Hefði innheimtu verið lokið á milliinnheimtustigi. Upplýst var að tengiliður stefnda í Noregi hefði átt fund með „sínum lögfræðingi“ sem mælti með „að fara með málið í lagalegar aðgerðir, til að fá dóm í málinu“. Upplýst var að „kostnaðurinn við það er 1720 NOK“ og var stefnandi inntur eftir því hvort hann samþykkti „þann kostnað“. Svar barst um hæl þar sem fram kom að stefnandi væri þessu samþykkur.

         Í gögnum málsins kemur fram að stefnandi hafi grennslast fyrir um innheimtu kröfunnar með tölvuskeyti 24. febrúar 2011. Var stefnanda þá tjáð að enn hefði „ekkert frést af greiðslum frá Selstad“. Greiðslu væri sífellt lofað en ekki væri við það staðið.

         Með bréfi stefnda 2. október 2011 var stefnandi upplýstur um að starfsmaður Intrum í Noregi, sem unnið hefði að málinu, hefði brugðist „skyldum sínum með alvarlegum hætti“. Hafi hann lítið gert til að innheimta kröfuna „heldur spunnið lygavef um framgang málsins og falsað gögn þar um“. Síðan segir í bréfinu: „Á því tjóni sem þetta kann að hafa valdið er viðurkennd bótaskylda. Hins vegar telur Intrum í Noregi að það skorti á um að tjón sé sannað og sömu afstöðu hefur tryggingafélag félagsins tekið. Motus ehf. á ekki annars kost en að taka sömu afstöðu.“ Stefndi óskaði eftir því að frekari upplýsingar yrðu veittar um samskipti stefnanda og Selstad AS, en félagið norska hefði frá upphafi neitað greiðsluskyldu, án þess að færa fyrir því rök. Bent var á að fyrningartími kröfuréttinda séu þrjú ár í Noregi og því hafi „lunginn af þeim reikningum“ sem málið snúist um verið fyrndur þegar ákvörðun hafi verið tekin um að hefja lögfræðilega innheimtu 7. maí 2008, nema að fyrning þeirra hafi verið rofin. Í þessu sambandi var vikið að samkomulagi Selstad Holding AS og UAB Hampidjan Baltic og spurt hvort það hefði verið efnt af aðilum að öðru leyti en því sem lyti að greiðslu umræddra reikninga. Þá var einnig spurst fyrir um hvort aðrar ástæður gætu legið því til grundvallar að Selstad AS hefði ekki efnt samkomulagið að þessu leyti. Einnig var óskað upplýsinga um hvort til væru pantanir og gögn um afhendingu á þeim vörum sem reikningarnir tækju til. Í niðurlagi bréfsins var upplýst að Intrum í Noregi hefði viðrað þá skoðun sína að best væri að stefnandi beindi kröfum sínum beint þangað ef vilji Hampiðjunnar stæði til þess.

         Með bréfi lögmanns stefnanda 14. nóvember 2011 var tilgreindum spurningum stefnda svarað. Einnig voru færð rök fyrir því að kröfurnar hefðu verið ófyrndar þegar þær voru sendar til innheimtu. Krafðist stefnandi þess að stefndi greiddi sér 536.140,73 danskar krónur í skaðabætur auk 250.000 íslenskra króna.

         Upplýst er að stefndi hefur ekki orðið við þessari kröfu og því er málið höfðað.

III.

1. Málsástæður og lagarök stefnanda

         Stefnandi kveðst byggja kröfugerð sína á því að starfsmaður á vegum stefnda hafi valdið sér tjóni sem stefnandi beri skaðabótaábyrgð á samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. Hafi stefndi viðurkennt bótaskyldu en málsaðila greini á um hvaða tjón hafi orðið af háttsemi starfsmannsins.

         Stefnandi tekur fram að elstu reikningarnir sem málið snúist um hafi verið gefnir út af N.P. Utzon á hendur norska félaginu Selstad AS. Í kjölfar þess að stefnandi hafi tekið danska félagið yfir hafi nafni þess verið breytt í Hampidjan Danmark AS. Hafi nokkrir reikninganna verið gefnir út í nafni þess félags. Stefnandi hafi síðan tekið viðskiptakröfurnar yfir í júní 2006 í kjölfar slita á Hampidjan Danmark AS. Því hafi stefnandi verið réttur eigandi viðskiptakrafnanna þegar þær hafi verið sendar til innheimtu hjá stefnda. Því sé stefnandi réttur aðili til sóknar í málinu.

         Af hálfu stefnanda er tekið fram að stefndi hafi falið systurfélagi sínu í Noregi að innheimta viðskiptakröfur sínar á norska félagið Selstad AS. Óumdeilt sé að starfsmaður systurfélags stefnda hafi brugðist starfsskyldum sínum með vítaverðum hætti eins og rakið hafi verið. Hafi hann hegðað sér með saknæmum og ólögmætum hætti og telur stefnandi að háttsemi hans hafi valdið stefnanda tjóni sem sé sennilega afleiðing háttseminnar. Hafi stefndi þegar viðurkennt bótaskyldu á tjóni sem stefnandi kann að hafa orðið fyrir vegna vanrækslu starfsmannsins. Því sé eingöngu deilt um hvert sé tjón stefnanda vegna háttseminnar.

         Stefnandi telur að hin bótaskylda háttsemi hafi leitt til þess að hann hafi glatað kröfum sínum á hendur Selstad AS vegna umræddra viðskiptakrafna. Reikningar þeir sem um sé að ræða nemi samtals 526.521,73 dönskum krónum eins og nánar verði rakið síðar í tengslum við umfjöllun um kröfugerðina.

         Stefnandi byggir á því að Selstad Holding AS, sem sé móðurfélag Selstad AS, hafi með samkomulagi, dags. 22. ágúst 2005, viðurkennt og lofað að gera upp skuldir félagsins við Hampidjan Danmark AS. Stefnandi bendir sérstaklega á að samkomulagið sé undirritað af Hans Petter Selstad, framkvæmdastjóra skuldarans Selstad AS, en hann sé einnig framkvæmdastjóri móðurfélagsins Selstad Holding AS. Stefnandi byggir einnig á því að önnur atriði samningsins hafi ekki áhrif á kröfu hans, enda fjalli þau um uppgjör milli UAB Hampidjan Baltic og Selstad Holding AS.

         Stefnandi byggir á því að hann hafi orðið fyrir tjóni þar sem framangreindar kröfur hafi ónýst í höndum stefnda og séu nú fyrndar. Samkvæmt viðurkenndri reglu í alþjóðlegum einkamálarétti gildi um samningsskuldbindingu lög þess lands sem skuldbindingin hefur sterkust tengsl við, sé ekki samið um lagaval. Samkvæmt reglum alþjóðlegs einkamálaréttar hafi samningsskuldbinding sterkust tengsl við það land þar sem sá sem aðalskylduna ber hafi aðalstarfsstöð sína, sbr. einnig 2. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar. Hampidjan Danmark AS, dótturfélag stefnanda, hafi líkt og nafn félagsins gefi til kynna verið skrásett í Danmörku og þar hafi aðalstarfsstöð félagsins verið. Ljóst sé að Hampidjan Danmark AS hafi borið aðalskylduna í samningssambandinu við Selstad AS sem hafi falist í afhendingu á vörum til síðarnefnda félagsins sem síðan hafi borið að greiða fyrir með peningum. Því hafi dönsk lög gilt um umþrættar skuldbindingar og hafi fyrningarfrestur krafnanna því verið fimm ár, sbr. 1. gr. hinna eldri dönsku fyrningarlaga nr. 274/1908. Með það í huga sé ljóst að enginn af þeim reikningum, sem óskað hafi verið eftir að yrðu innheimtir, hafi verið fyrndir þegar þeir hafi verið sendir til innheimtu 21. september 2006.

         Stefnandi bendir einnig á að að Selstad Holding AS hafi með samkomulaginu frá 22. ágúst 2005 viðurkennt að félagið, og dótturfélög þess, myndu greiða útistandandi kröfur stefnanda á hendur Selstad AS. Álitamál sé hvort stefnandi hafi með þessu slitið fyrningu krafnanna og að nýr fyrningarfrestur hafi byrjað að líða frá þeim degi. Stefnandi telur þetta ekki hafa þýðingu við úrlausn málsins. Annars vegar sé mjög óljóst hvort umrædd viðurkenning uppfylli skilyrði 2. gr. eldri dönsku fyrningarlaganna til að slíta fyrningu. Hins vegar sé ljóst að jafnvel þótt fyrningu krafnanna hefði verið slitið með samkomulaginu, hefði nýr fimm ára fyrningarfrestur byrjað að líða frá 22. ágúst 2005 í samræmi við 2. gr. eldri dönsku fyrningarlaganna og hefðu kröfurnar því fyrnst fimm árum síðar eða 22. ágúst 2010. Kröfurnar séu því fyrndar í dag og hefur stefnandi orðið fyrir tjóni af þeim sökum, enda geti hann ekki innheimt kröfurnar lengur hjá skuldara.

         Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann eigi rétt á því að verða eins settur fjárhagslega og hefði tjón ekki orðið. Tjón stefnanda nemi þeim fjárhagslega mismun sem sé á þeirri atburðarás, sem ætla megi að hefði orðið ef hið bótaskylda atvik hefði ekki átt sér stað, og þeirri sem varð í raun. Stefnandi hafi ekki fengið neitt greitt upp í þær kröfur sem hann hafi falið stefnda að innheimta. Stefnandi telur að ef rétt hefði verið staðið að innheimtu krafnanna hefði hann fengið höfuðstól krafnanna greiddan auk dráttarvaxta til greiðsludags.

         Höfuðstóll reikninganna hafi samtals numið 526.521,73 dönskum krónum. Kröfufjárhæð í aðalkröfu sé fundin út með því að bæta við höfuðstól reikninganna 7% dráttarvöxtum, sem séu lágmarksdráttarvextir samkvæmt 5. gr. dönsku vaxtalaganna nr. 583/1986 með síðari breytingum og d-lið 3. gr. tilskipunar 2000/35/EB um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum, frá gjalddaga hvers reiknings til 5. október 2011, en frá þeim degi sé krafist íslenskra dráttarvaxta, eins og að neðan greini. Stefnandi kveðst styðja þessar reikniforsendur þeim rökum að hefði réttilega verið staðið að innheimtu krafnanna hefði fyrningu dráttarvaxta verið slitið og vextirnir haldið áfram að safnast til greiðsludags. Dráttarvextirnir hafi ekki verið höfuðstólsfærðir milli ára við útreikning þeirra þar sem slíkt sé almennt ekki heimilt í dönskum rétti. Aðalkrafa stefnanda sundurliðist því með svofelldum hætti:

Dagsetningar krafna

Gjalddagar krafna

Reikningur

Höfuðstóll í DKK

    Dráttarvextir í DKK

 til 2. okt. 2011

Samtals

31.12.2003

31.12.2003

136.339,67

74.096,82

210.436,49

27.01.2004

27.02.2004

SI000120

102.079,60

54.346,04

156.425,64

18.03.2004

18.04.2004

SI000166

10.717,20

5.536,92

16.254,12

18.03.2004

18.04.2004

SI000167

13.542,50

6.996,58

20.539,08

06.05.2004

06.06.2004

SI000249

3.483,00

1.766,95

5.249,95

08.06.2004

08.06.2004

SI000321

13.267,80

6.725,67

19.993,47

09.06.2004

09.06.2004

CI00000024

725,00

367,37

1.092,37

30.11.2004

30.12.2004

SI000694

91.518,00

43.349,03

134.867,03

08.12.2004

08.01.2005

SI000698

61.801,60

29.165,21

90.966,81

29.12.2004

29.01.2005

CI00000046

10.828,35

5.065,86

15.894,21

01.04.2005

01.05.2005

SI000850

16.672,75

7.407,80

24.080,55

30.06.2005

30.07.2005

SI000938

17.926,26

7.654,51

25.580,77

30.06.2005

30.07.2005

SI000939

44.520,00

19.010,04

63.530,04

15.07.2005

15.08.2005

CI00000061

3.100,00

1.314,66

4.414,66

Samtals

526.521,73

789.325,19

         Stefnandi krefst í öllum tilvikum dráttarvaxta frá 5. október 2011 og vísar í því sambandi til 9. gr. laga nr. 38/2001, en þá hafi mánuður verið liðinn frá því að starfsmaður stefnanda hafi sent fyrirsvarsmanni stefnda kröfu um skaðabætur í tölvupósti, dags. 5. september 2011. Verði ekki fallist á dráttarvexti frá 5. október 2011 byggir stefnandi á því að hann eigi rétt á dráttarvöxtum frá 14. desember 2011, en þá hafi verið liðinn mánuður frá því að stefnandi sendi stefnda kröfu um skaðabætur bréfleiðis hinn 14. nóvember 2011.

         Varakröfuna kveður stefnandi setta fram ef dómurinn fellst ekki á að krafa stefnanda á hendur Selstad AS eigi að bera 7% dráttarvexti samkvæmt 5 gr. dönsku vaxtalaganna nr. 583/1986, með síðari breytingum, frá gjalddaga krafnanna til greiðsludags. Gerir stefnandi þá kröfu um greiðslu á höfuðstól krafnanna eins og hann komi fram á ítarlegum gjalddagalista. Stefnandi telur að ef rétt hefði verið staðið að innheimtu krafnanna hefði hann a.m.k. fengið höfuðstól þeirra greiddan.

         Þá krefst stefnandi jafnframt vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Ljóst sé að hið bótaskylda atvik í skilningi ákvæðisins hafi orðið vegna samfelldrar háttsemi starfsmanns stefnda. Þykir stefnanda rétt að miða við að hið bótaskylda atvik hafi orðið þegar stefnandi hafi sent stefnda kröfur sínar til innheimtu eða 21. september 2006. Stefnandi reikni vexti fjögur ár aftur í tímann frá þeim degi er stefndi viðurkenndi bótaskyldu sína með bréfi, dags. 2. október 2011. Skaðabótavextir fjögur ár aftur í tímann frá þeim degi séu þannig ófyrndir. Þannig sé krafist vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 2. október 2007 til 5. október 2011, en frá þeim degi sé krafist íslenskra dráttarvaxta í samræmi við það sem að ofan greini um dráttarvexti af aðalkröfu.

         Stefnandi kveðst byggja kröfu sína á almennum reglum skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga og reglum um ábyrgð sérfræðinga á tjóni sem þeir valdi viðskiptamönnum við framkvæmd starfa þeirra. Einnig sé vísað til viðurkenningar stefnda á bótaskyldu en með því hafi hann gefið stefnanda loforð sem hann sé bundinn af samkvæmt almennum reglum kröfu- og samningaréttar. Málskostnaðarkrafa stefnanda eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Um heimild til kröfusamlags vísar stefnandi til 1. mgr. 27. gr.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

         Stefndi byggir aðallega á því að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinu tjóni vegna þeirra atvika sem mál þetta fjalli um, en til vara að tjón hans geti aldrei numið nema litlu broti af dómkröfunum. Af hans hálfu er á það bent að Selstad AS hafi allt frá upphafi innheimtutilrauna samstarfsaðila stefnda mótmælt greiðsluskyldu sinni.

         Stefndi tekur fram að af stefnu megi ráða að greiðsluskylda Selstad AS kunni að eiga sér stoð í samkomulaginu frá 22. ágúst 2005 og fyrri samningum og viðskiptum aðila. Sé það svo að samkomulagið bindi stefnanda og Selstad AS byggir stefndi á því að þá verði að líta á efndir þess heildstætt. Heldur stefndi því fram að efnisatriði þess, hafi ekki verið efnd, eða þá aðeins að litlu leyti, en um það hafi stefnandi veitt afar takmarkaðar upplýsingar. Hafi samkomulagið bundið aðila hafi fyrri lögskiptum lokið, nema að þessu samkomulagi væri rift, en af gögnum málsins verði ekki séð að það hafi verið gert. Því hafi innheimta reikninganna verið haldlaus. Stefnandi hefði því átt að sækja efndir samkomulagsins en hann hafi ekki óskað eftir að stefndi gerði það.

         Af hálfu stefnda er á það bent að stefnandi hafi aldrei lagt fram önnur gögn um tilvist og efni krafna sinna en afrit reikninga. Stefnandi hafi ekki lagt fram pantanir, fylgibréf, afhendingar­­seðla eða móttökukvittanir vegna meintra krafna. Þá hafi stefnandi engar upplýsingar lagt fram um samskipti sín, utan eins tölvuskeytis frá 11. apríl 2006, eða þeirra aðila sem hann leiði rétt sinn frá, við Selstad AS. Slík samskipti hljóti þó að vera til, og er á því byggt að stefnandi hafi vitað, eða mátt vita, að kröfunum yrði mótmælt. Þessum upplýsingum hafi hann leynt bæði fyrir stefnda og samstarfsaðila stefnda í Noregi. Stefnandi hafi þannig afhent kröfurnar til innheimtu sem óumdeildar skuldir vegna úttekta á vörum, þegar að baki viðskiptunum hafi legið flókin og margháttuð samskipti og samstarf og greinilegur ágreiningur hafi verið milli aðila. Þetta megi sjá bæði á fyrrgreindu samkomulagi, sem stefnandi hafi reyndar upplýst um fljótlega í innheimtuferlinu, og á fyrrgreindu tölvuskeyti, sem fyrst hafi verið upplýst um í máli þessu. Stefnandi hafi þannig í engu lagt fram sannanir fyrir efni eða tilvist meintrar kröfu, gegn eindreginni neitun Selstad AS á greiðsluskyldu. Hann komi máli sínu ekki í ferli sem lögfræðilegu ágreiningsefni, sem ætlast hafi mátti til af honum sem alþjóðlegu fyrirtæki.

         Stefndi kveðst byggja á því sjálfstætt að hvorki stefnandi, eða þeir aðilar sem hann leiði rétt sinn frá, né Selstad AS, hafi verið aðilar að samkomulaginu 22. ágúst 2005. Þegar af þeirri ástæðu hafi það ekki getað rofið fyrningu krafna samkvæmt reikningunum.

         Stefndi byggir enn fremur á því að það sé rétt mat hjá lögmanni samstarfsaðila síns í Noregi, sbr. bréf hans 10. janúar 2012 að norsk lög eigi að gilda við innheimtu meintra krafna í Noregi. Þá sé og á því byggt að ef talið verði að stefndi beri ábyrgð á meintu tjóni stefnanda geti það tjón ekki numið nema höfuðstólsfjárhæð og vöxtum sam­kvæmt norskum lögum, til þess dags er meintar kröfur féllu niður sökum fyrningar, en fyrningartími að norskum rétti er þrjú ár á kröfum vegna sölu lausafjár. Eftir það tímamark ætti að líta til ákvæða laga um vexti af skaðabótakröfum, ef vexti ætti á annað borð að greiða.

         Stefndi byggir á því að allar meintar kröfur stefnanda á Selstad AS, nema ef til vill samkvæmt þremur reikningum, hafi verið fyrndar þegar óskað hafi verið lögfræðilegra aðgerða 7. maí 2008. Þeir þrír reikningar sem um ræði séu allir með skilmálunum „30 days net“ og séu þessir:

                               DKK  17.926,26 útgefinn 30.06.2005

                               DKK  44.520,00 útgefinn 30.06.2005

                               DKK    3.100,00 útgefinn 15.07.2005

         Samtals séu þessir reikningar að fjárhæð 65.546,26 DKK.

         Stefndi kveðst byggja á því sjálfstætt að svo stutt hafi verið til fyrningar fyrrgreindra þriggja reikninga, þegar ákveðið var að grípa til lögfræðilegra aðgerða, og upplýsingar frá stefnanda svo takmarkaðar, að ekki hafi verið til staðar réttmætar væntingar hans um að samstarfsaðila stefnda tækist að rjúfa fyrn­inguna. Því geti sú staðreynd að fyrning hafi ekki verið rofin ekki talist saknæm háttsemi. Engin skilyrði séu því fyrir bótaskyldu. Til stuðnings þessari málsástæðu áréttar stefndi að nauðsynlegar upplýsingar hafi ekki legið fyrir. Málshöfðun að svo búnu hefði leitt til tapaðs dómsmáls, með kostnaði sem af slíku leiði. Öllum þessum upplýsingum hafi stefnandi haldið fyrir sig, en vitað eða mátt vita að þær voru nauðsynlegar til að málatilbúnaður umboðsmanns hans stæðist skoðun. Þetta leiði til þess að verði háttsemi samstarfs­aðila stefnda talin saknæm verði tjónið ekki sennileg afleiðing, þar sem ómögulegt hafi verið að ná fram dómi að svo búnu. Að auki, en ekki síst, hafi skort á orsakasamhengi.

         Verði niðurstaða dómsins sú að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni byggir stefndi á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á það á hverju bótaskylda stefnda sé reist. Hann mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda sem rangri og ósannaðri að stefndi hafi tekið á sig bótaskyldu umfram það sem leiða kunni af lögum. Engin viðurkenning stefnda á bótaskyldu felist í bréfi stefnda frá 2. október 2011.

         Þá byggir stefndi sjálfstætt á því að stefndi beri ekki ábyrgð á sviksamlegri háttsemi starfsmanns samstarfsaðila síns í Noregi. Af hálfu stefnanda hafi ekki verið bent á neina þá háttsemi stefnda sem uppfylli skilyrði þeirra bótareglna sem hann vísi til, en þær geri ráð fyrir saknæmri og ólögmætri hegðun og takmarki ábyrgð við sennilega afleiðingu. Sjálfstætt sé byggt á því að stefnandi hafi vitað að starfsmenn stefnda myndu ekki sinna innheimtunni, heldur eingöngu hafa milligöngu um að fá aðila í heimaríki skuldara til að gæta hagsmuna sinna. Stefndi hafi ekki ábyrgst, hvorki beint né óbeint, störf eða árangur þess aðila eða starfs­manna hans.

         Þá tekur stefndi fram, að þrátt fyrir að stefnandi byggi ekki á þeirri sérreglu skaðabótaréttarins, sem hafi verið nefnd húsbónda­ábyrgðar­reglan eða vinnu­­­veitandaábyrgðarreglan, sé framkoma starfsmanns samstarfsaðila stefnda í Noregi svo fjarri starfsskyldum hans að hún falli utan ábyrgðar­sviðs þeirrar reglu, auk þess sem sú regla taki ekki til starfsmanna annarra en húsbóndans/vinnuveitandans sjálfs.

         Þá hafi stefnandi ekki upplýst um það með hvaða hætti hann hafi eignast hinar meintu kröfur fyrr en við þingfestingu þessa máls, sem leiddi til þess að kröfunni varð ekki með réttum hætti haldið til laga. Þá sé sjálfstætt byggt á því að hafi Selstad AS átt mótbárur gegn upphaflegum kröfuhöfum, verði stefnandi að una þeim.

         Stefndi byggir á því að engar heimildir standi til þess að reikna danska dráttarvexti á kröfuna né heldur að reiknaðir og dæmdir verði vextir, dráttarvextir eða aðrir vextir, á kröfuna í dönskum krónum.

         Af hálfu stefnda sé einnig byggt á því að vilji stefnandi krefjast skaðabóta úr hendi íslensks aðila beri honum að gera það í íslenskum krónum. Ljóst sé að stefnda væri ómögulegt í núverandi lagaumhverfi að afla gjaldeyris til að greiða dóm­kröfuna í dönskum krónum. Ef krafan yrði dæmd í dönskum krónum væri í raun verið að verðtryggja dómkröfurnar miðað við gengi þess gjaldmiðils, og eins og dómkrafan sé úr garði gerð væri „verðbótaþáttur“ vaxta vegna stöðu íslensku krón­unnar einnig á hana lagður.

         Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda er á því byggt að dómkrafa stefnanda sé til muna of há og að stefnandi hafi ekki lagt fram gögn sem nægi til sönnunar á kröfum hans. Þá sé þess ekki gætt að vextir séu ekki höfuðstóls­færðir oftar en á tólf mánaða fresti.

         Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi til almennra reglna skaðabótaréttarins um skaðabætur utan samninga og reglna um ábyrgð sérfræðinga á tjóni sem þeir valda viðskiptamönnum sínum við framkvæmd starfa sinna, almennra reglna um skuldbindingargildi samninga, skyldu til að efna fjárskuldbindingar og laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Vegna takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum vísar stefndi almennt til laga um gjaldeyrismál, nr. 87/1992, með áorðnum breytingum og stjórnvaldsfyrirmæla. Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 19/1991.

IV.

Niðurstaða

         Eins og rakið hefur verið telur stefnandi sig eiga skaðabótakröfu á hendur stefnda þar sem hann hafi orðið fyrir tjóni með því að krafa, samtals að fjárhæð 526.521,73 danskar krónur, sem stefnandi fól stefnda að innheimta hjá norska félaginu Selstad AS, hafi fallið niður sökum fyrningar. Telur stefnandi að rekja megi tjón sitt til saknæmrar vanrækslu af hálfu stefnda, þar sem ekki hafi verði gripið til nauðsynlegra, lagalegra úrræða til að ná fram efndum kröfunnar. Í samræmi við almennar sönnunarreglur hvílir sönnunarbyrðin á stefnanda um að hann hafi orðið fyrir tjóni sem stefnda beri að bæta honum.

         Stefndi er fyrirtæki sem tekur að sér að innheimta fjárkröfur fyrir viðskiptamenn sína meðal annars á hendur erlendum skuldurum í gegnum samstarfaðila sína erlendis. Á grundvelli samnings aðila 13. febrúar 2004 og að beiðni stefnanda tók stefndi að sér „umsjón með“ innheimtu kröfunnar á hendur Selstad AS, við svonefnda millilandainnheimtu, sbr. einkum 3. og 12. gr. samningsskilmálanna. Stefndi tók einnig að sér „umsón með“ lögfræðiinnheimtu kröfunnar, sbr. 13. gr. í skilmálunum, eftir að stefnandi samþykkti að grípa til slíkra úrræða 7. maí 2008. Stefnandi var ekki í samningssambandi við samstarfsaðila stefnda í Noregi og öll samskipti um innheimtu kröfunnar voru milli starfsmanna stefnanda. Ekki verður séð að stefndi reisi sýknukröfu sína á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Þá er til þess að líta að í bréfi stefnda til stefnanda 2. október 2011 segir að viðurkennd sé bótaskylda á því tjóni sem vanræksla starfsmanns Intrum í Noregi kunni að hafa valdið. Ágreiningur lúti því einungis að því hvort fyrir liggi að tjón hafi hlotist af vanrækslunni. Þegar jafnframt er litið til þess sem segir í niðurlagi bréfsins verður að líta svo á að stefndi hafi með þessari yfirlýsingu fallist á að unnt sé að beina skaðabótakröfunni að sér þó að hin saknæma vanræksla hafi átt sér stað hjá Intrum í Noregi. Að þessu gættu er stefnda ekki unnt að bera það fyrir sig í máli þessu að útilokað sé að hann geti borið skaðabótaábyrgð á háttsemi starfsmanns samstarfsaðila síns í Noregi.

         Ágreiningur aðila lýtur að svo búnu að því hvort stefnandi hafi beðið tjón af vanrækslu Intrum í Noregi við innheimtu kröfunnar. Stefndi mótmælir því og telur á það hafa skort að kröfunni hafi verið fylgt úr hlaði af hálfu stefnanda á þann veg að höfða hafi mátt mál til innheimtu reikninganna í tæka tíð gegn Selstad AS í Noregi. Hafi stærsti hluti kröfunnar meðal annars verið fyrndur þegar óskað hafi verið eftir því að kröfurnar færu í löginnheimtu. Í því sambandi er rétt að taka fram að stefnandi hefur ekki borið því við að stefnda hafi verið rétt að innheimta kröfuna í öðru landi en heimaríki skuldara. Við úrlausn á framangreindu álitefni er því óhjákvæmilegt að taka mið af þeim lagareglum, sem lagðar hefðu verið til grundvallar í skuldamáli stefnanda gegn Selstad AS í Noregi, og hvers vænta mætti um árangur stefnanda af slíkri málshöfðun þar í landi, sem og af samningi stefnanda og stefnda.

         Viðskiptakröfur þær sem stefnandi fól stefnda að innheimta áttu rætur að rekja til kaupa norska félagsins Selstad AS á vörum af danska félaginu Hampidjan Danmkark AS, áður N.P. Utzon. Samkvæmt framlögðum reikningum átti að greiða kaupverðið í dönskum krónum með því að greiða inn á reikning danska félagsins í viðskiptabanka þess í Danmörku. Þar sem samningsaðilar voru frá tveimur löndum reyndi eftir atvikum á reglur um lagaval í alþjóðlegum viðskiptum við innheimtu kröfunnar. Þá ber að taka fram að mótmæli Selstad AS á greiðsluskyldu virðast ekki hafa verið reist á því að reikningarnir væru rangir í einhverjum skilningi. Þá er til þess að líta að framkvæmdastjóri Selstad AS, Hans Petter Selstad, undirritaði samning fyrir hönd móðurfélags skuldarans 22. ágúst 2005, þar sem lofað var að gera reikningana upp fyrir lok september það ár. Þessi samningur virðist hafa verið afhentur stefnda meðan á millilandainnheimtu stóð. Hefur stefndi ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að skort hafi frekari gögn um viðskiptin frá stefnanda svo höfða hafi mátt mál gegn Selstad AS í því skyni að fá aðfararhæfan dóm um kröfuna.

         Ágreiningur er milli aðila um hvort viðskiptakröfurnar á hendur Selstad AS hafi fyrnst á þremur árum í samræmi við norskar reglur, eins og stefndi heldur fram, eða hvort taka eigi mið af fimm ára fyrningartíma í samræmi við 1. gr. danskra fyrningarlaga nr. 274 frá 1908, sem í gildi hafi verið á þeim tíma sem hér skipti máli. Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til reglna alþjóðlegs einkamálaréttar þess efnis að sé ekki samið um lagaval milli samningsaðila í alþjóðlegum viðskiptum eigi að fylgja lögum þess lands sem skuldbindingin hefur sterkust tengsl við. Hann skírskotar í þessu sambandi til 1. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar, en þar kemur fram að að jafnaði skuli líta svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem sá aðili, sem efna á aðalskyldu samningsins, býr við samningsgerðina.

         Í skuldamáli stefnanda gegn Selstad AS í Noregi er augljóst að íslensk lög um lagaskil hefðu aldrei verið lögð til grundvallar niðurstöðu norskra dómstóla. Af almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 43/2000 verður ráðið að þau hafi verið sett í því skyni að samræma íslenskar lagaskilareglur um samningsskuldbindingar þeim reglum sem giltu um það atriði í aðildarríkjum ESB. Efni laganna sé reist á Rómarsamningnum frá 19. júní 1980 um þetta efni, en aðildarríkjum ESB sé skylt að eiga aðild að honum. Af þessum sökum séu þrjú norræn ríki aðilar að Rómarsamningnum, þ.e. Finnland, Danmörk og Svíþjóð. Í athugasemdunum segir það eitt um réttarstöðuna í Noregi að þar sé unnið að lögfestingu ákvæða á svipuðum nótum og frumvarpið fól í sér. Stefnandi hefur hvorki upplýst að slík lög hafi verið samþykkt og tekið gildi í Noregi né að norskum dómstólum beri á öðrum grundvelli að fylgja þeirri reglu um lagaval sem hann telur leiða til þess að danskar fyrningareglur gildi um umræddar viðskiptakröfur. Verður hann að bera hallann af skorti á sönnun um þessi atriði, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gegn andmælum stefnda hafa því ekki verið færðar sönnur á að dönskum fyrningarreglum um almennan, fimm ára fyrningarfrest hefði verið beitt í skuldamáli stefnanda gegn norska fyrirtækinu Selstad AS fyrir norskum dómstólum. Að teknu tilliti til málatilbúnaðar stefnanda verður heldur engu slegið föstu um áhrif samkomulags Selstad Holding AS og UAB Hampidjan Baltic frá 22. ágúst 2005 á fyrningu kröfuréttar stefnanda á grundvelli hinna umdeildu reikninga samkvæmt norskum rétti.

         Eins og að framan greinir telur stefndi að viðskiptakröfurnar á hendur Selstad AS hafi fyrnst á þremur árum í samræmi við norskar reglur. Stefndi hefur hins vegar ekki lagt fram nein gögn um reglur í Noregi um fyrningu viðskiptakrafna, hvað þá sýnt fram á að norskir dómstólar hefðu byggt á almennum reglum þar í landi um þriggja ára fyrningartíma þó að krafan eigi rætur að rekja til viðskipta milli landa þar sem ólíkar fyrningarreglur gilda. Stefndi hefur því ekki fært sönnur á að umræddar kröfur hafi átt að fyrnast á þremur árum, en honum ber að leiða í ljós efni erlendra réttareglna, sem hann byggir málsvörn sína á, sbr. fyrrgreinda 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991.

         Stefnandi reisir málatilbúnað sinn á því að kröfur þessar hafi, hvað sem þessum ágreiningi líði, allar verið ófyrndar þegar hann óskaði eftir liðsinni stefnanda við að innheimta reikningana 21. september 2006. Þær hafi síðan fyrnst í höndum stefnda og aðila sem hann beri ábyrgð á.

         Stefnandi er fyrirtæki sem leggur stund á alþjóðleg viðskipti og má ætlast til þess að stjórnendur þess búi yfir grunnþekkingu á fyrningu viðskiptakrafna. Í ljósi samnings aðila frá 13. febrúar 2004 mátti stefnanda því vera það ljóst að með því að fela stefnda innheimtu krafna á hendur Selstad AS með bréfi 21. september 2006 yrði í fyrstu ekki gripið til úrræða sem gátu slitið fyrningu þeirra einhliða. Það yrði ekki gert nema með aðgerðum sem fólu í sér lögfræðiinnheimtu samkvæmt 13. gr. í samningsskilmálunum. Í málinu liggur fyrir að stefnanda hafi verið tilkynnt 25. október 2006 að kröfunum hefði verið mótmælt af skuldara. Í kjölfarið virðist starfsmaður stefnanda hafa útskýrt málavexti að einhverju leyti og tjáð starfsmanni stefnda að frekari gögn um málið yrðu send. Þau gögn virðast ekki hafa borist fyrr en um ári síðar. Verður stefnda ekki um það kennt að innheimta viðskiptakrafnanna hafi verið látin bíða frekari upplýsinga frá stefnanda. Millilandainnheimtu var fram haldið eftir að frekari gögn voru send til Intrum í Noregi haustið 2007. Selstad AS hafnaði áfram greiðsluskyldu og voru viðskiptakröfurnar ekki settar í löginnheimtu fyrr en 7. maí 2008. Lá þá fyrst fyrir beiðni af hans hálfu um aðgerðir sem voru fallnar til þess að slíta fyrningu krafnanna.

         Í ljósi fyrrgreinds samnings aðila og framangreindra samskipta telur dómurinn ófært við úrlausn á því ágreiningsefni sem hér er til umfjöllunar að taka mið af stöðu krafnanna með tilliti til fyrningar þegar stefnandi leitaði fyrst eftir liðsinni stefnda við innheimtu þeirra 21. september 2006, heldur beri að líta á atvik eins og þau horfðu við 7. maí 2008. Þá voru rúm fjögur ár og fjórir mánuðir liðnir frá gjalddaga elsta reikningsins og rúm tvö ár og átta mánuðir frá gjalddaga yngsta reikningsins. Það hefur því grundvallarþýðingu um ætlað tjón stefnanda hvort viðskiptakröfurnar á hendur Selstad AS hafi fyrnst á þremur, fjórum eða fimm árum. Eins og rakið hefur verið er málið vanreifað um þetta atriði af hálfu beggja aðila og er af þeim sökum ógjörningur að leysa úr dómkröfum þeirra. Í því ljósi ber að vísa málinu í heild frá dómi.

         Mál þetta er skaðabótamál, en almennt hvílir sú skylda á tjónþola að færa sönnur á að hann hafi beðið tjón af saknæmri háttsemi tjónvalds. Það hvíldi því á stefnanda að leiða í ljós að þær viðskiptakröfur, sem dómkröfur hans byggjast á, hafi gegn andmælum stefnda verið ófyrndar á þeim tíma er hann fól stefnda löginnheimtu þeirra. Eftir sem áður er málinu vísað frá dómi þar sem málsreifun hvorugs aðila varpar ljósi á hvaða reglum um lagaval hefði verið beitt í skuldamáli stefnanda gegn Selstad AS fyrir norskum dómstólum. Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að stefnandi greiði stefnda málskostnað. Í ljósi atvika þykir hann hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

         Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist fram yfir frest samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991, en dómari og aðilar töldu óþarft að málið yrði flutt að nýju.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

         Máli þessu er vísað frá dómi.

         Stefnandi, Hampiðjan hf., greiði stefnda, Motusi ehf. 400.000 krónur í málskostnað.