Hæstiréttur íslands

Mál nr. 665/2016

Mango Tree B.V. (Hróbjartur Jónatansson hrl.)
gegn
Mogul Holding ehf. (Halldór Þ. Birgisson hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Vanreifun
  • Réttaráhrif dóms
  • Frávísunarúrskurður felldur úr gildi

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli MT á hendur MH var vísað frá dómi. Í málinu krafðist MT viðurkenningar á innlausnarskyldu MH á forgangshlutum sínum í MH og greiðslu nánar tiltekinna fjárhæða. Talið var að þótt MT hefði hagað orðalagi viðurkenningarkröfu sinnar á þann hátt að um ræði innlausn á „forgangshlutum“, sem þó væru ekki lengur til í því horfi að gengnum dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012, væri augljóst að hann ætti þar við hlutabréf sín í MH. Ylli þetta ekki slíkum óskýrleika í málatilbúnaði MT að vísa bæri málinu frá dómi. Þá væri í hinum kærða úrskurði réttilega að því vikið að MT héldi fram málsástæðum sem efnisleg afstaða hefði verið tekin til í áðurnefndum dómi. Niðurstöður þess dóms um þær málsástæður hefðu ekki réttaráhrif í þessu máli samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála heldur sönnunargildi um atvik að baki málinu, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. september 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 7. október sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2016, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Í málinu gerir sóknaraðili kröfu um að viðurkennd verði innlausnarskylda varnaraðila á forgangshlutum sínum í félaginu að nafnverði 1.082.250 krónur auk þess sem hann gerir aðal- og varakröfur um greiðslu nánar tilgreindra fjárhæða með vöxtum. Þótt sóknaraðili hafi kosið að haga orðalagi viðurkenningarkröfu sinnar á þann hátt að hann ræði um innlausn á „forgangshlutum“, sem þó eru ekki lengur til í því horfi að gengnum dómi Hæstaréttar 28. febrúar 2013 í máli nr. 418/2012, er augljóst að hann eigi þar við hlutabréf sín í varnaraðila. Veldur þetta ekki slíkum óskýrleika í málatilbúnaði sóknaraðila að vísa beri málinu frá dómi. Á þessu stigi máls verður heldur ekki fullyrt að sóknaraðili geti ekki haft lögvarða hagsmuni af því að halda til dóms viðurkenningarkröfu sinni, þótt hún sé í raun aðeins málsástæða fyrir fjárkröfum hans, færi svo að annmarkar þættu vera á fjárkröfunum sem stæðu í vegi efnisdómi um þær.

Í hinum kærða úrskurði er réttilega að því vikið að sóknaraðili haldi öðrum þræði fram málsástæðum sem efnisleg afstaða var tekin til í áðurnefndum dómi Hæstaréttar. Niðurstöður þess dóms um þær málsástæður hafa ekki réttaráhrif hér samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 heldur sönnunargildi um atvik að baki málinu samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar. Við efnisúrlausn málsins yrði að taka afstöðu til þess hvort svo sé ástatt um einstaka málsástæður sem sóknaraðili heldur fram nú en þetta getur ekki valdið því að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Að öðru leyti en að framan greinir eru ekki slíkir annmarkar á málatilbúnaði sóknaraðila að varðað geti frávísun málsins. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. september 2016

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 5. september sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Mango Tree B.V., Laan Copes van Cattenburch 52, 2585BB‘s-Gravenhage, Hollandi á hendur Mogul Holding ehf., Bankastræti 10, Reykjavík, með stefnu birtri 25. janúar 2016.

Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði innlausnarskylda stefnda á forgangshlutum stefnanda í stefnda að nafnvirði ISK 1.082.250 og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda sem hér segir:

Aðallega USD 10.061.633 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags en til vara með 8% ársvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara 1.232.650.674 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags.

Til þrautavara USD 6.121.035 ásamt dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags en til vara með 8% ársvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.

Til þrautaþrautavara 656.284.262 kr. ásamt dráttarvöxtum skv. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 28. janúar 2012 til greiðsludags.

Í öllum tilvikum er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

Stefndi, Mogul Holding ehf., gerir þá dómkröfu að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og krefst málskostnaðar að skaðlausu.

Fyrirhugað var að mál þetta yrði flutt efnislega 5. september sl. Hinn 1. september sl. ákvað dómari hins vegar að gefa lögmönnum kost á að tjá sig um kröfugerð stefnanda, hvort skilyrðum 80. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt sem og áhrif dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 418/2012 á málið.

Í þessum þætti málsins krafðist stefnandi þess að það fengi efnisdóm. Stefndi hafnaði þeirri kröfu og krafðist málskostnaðar í þessum þætti málsins.

I

                Í stórum dráttum eru málsatvik á þá leið, að stefndi var stofnað á árinu 2000 í því skyni að setja upp sýningar á leikritinu Hellisbúanum (e. Caveman) í Þýskalandi og hét þá Leikhúsmógúllinn ehf. (hjáheiti Theater Mogul). Starfsemi stefnda vatt upp á sig og náðust samningar við höfund leikritsins um uppsetningar þess í fleiri Evrópulöndum.

Snemma árs 2006 bauðst stefnda að kaupa sýningarrétt á leikritinu um allan heim gegn greiðslu 16,5 milljóna USD. Þáverandi hluthafar stefnda, systkinin Óskar, Signý og Sigyn Eiríksbörn ásamt föður þeirra, Eiríki Óskarssyni, Guðmundi Magnasyni og Bergsveini Jónssyni, leituðu þá nýrra fjárfesta til að koma að stefnda og taka þátt í að auka hlutaféð verulega og úr varð að félagið Brú II ehf. skráði sig fyrir nýjum hlutum í stefnda hinn 21. ágúst 2006.

Þegar samið var um þátttöku nýrra eigenda hluta í félaginu og fjárframlög var gert hluthafasamkomulag dags. 21. ágúst 2006. Í því var meðal annars samið um forkaupsrétt og takmarkanir á framsali hluta. Sama dag var gerður samningur um ,,áskrift að forgangshlutum með breytirétti“ í félaginu. Þá var samþykktum félagins breytt til samræmis við þá samninga sem gerðir höfðu verið. Þar var tilgreind skipting hluta í almenna hluti og forgangshluti, sérstök réttindi forgangshluta og aðrar reglur um þá.

Hinn 30. nóvember 2007 gerðu Brú II annars vegar, og Sigyn, Signý, Óskar og Eiríkur hins vegar, með sér hluthafasamkomulag. Með því var samið um hverjir skyldu vera stjórnarmenn í félaginu.

Hinn 23. júlí 2008 var undirritaður samningur allra hluthafa í félaginu sem nefndur var ,,Samþykki hluthafa og eftirgjöf“. Stofnhluthafar höfðu óskað eftir að kaupa hlut Brúar II og um leið hluthafans Jons Larsson. Þar var samið um að stofnhluthafar mættu framselja hluti sína í félaginu, án þess að aðrir hluthafar neyttu forkaupsréttar eða annarra réttinda, sem þeir kynnu ella að öðlast við framsalið. Í skrá um eigendur hluta í félaginu, sem staðfest var af stjórn 9. september 2008, var skipting hluta í almenna hluti og forgangshluti.

Hinn 28. júlí 2008 samþykktu allir hluthafar Leikhúsmógúlsins ehf. framsal Brúar II og Lime á hlutum í félaginu til stefnanda, Mango Tree B.V. Tókst stefnandi, Mango Tree B.V., á hendur skuldbindingar Brúar II við stefnendur samkvæmt hluthafasamkomulaginu.

Hinn 15. desember 2008 samþykktu stjórnir einkahlutafélaganna Leikhúsmógúlsins ehf. og dótturfélagsins Mogul Holding ehf., en sömu menn sátu í stjórnum beggja félaganna, að sameina þau þannig að hið síðarnefnda rynni inn í hið fyrrnefnda og að samþykktir þess giltu eftir samrunann, en félagið skyldi þó bera nafn hins síðarnefnda. Sameiningin skyldi miðast við 30. júní 2008 og gögn um sjálfan samrunann, þar með talið samþykktir félagsins, voru móttekin hjá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra 13. mars 2009. Samkvæmt hlutaskrá í félaginu frá mars 2009 voru eigendur hluta hinir sömu og fyrir samrunann og skipting eignarhluta hin sama. Samruni stefnda við dótturfélag sitt tók gildi 30. júní 2008, sbr. dómsorð Hæstaréttar Íslands í máli nr. 418/2012.

Hinn 3. apríl 2009 ritaði stefndi bréf fyrir hönd hluthafanna Signýjar, Óskars og Sigynjar Eiríksbarna og Eiríks Óskarssonar föður þeirra. Í bréfi lögmannsins var því lýst að þau hefðu falið honum að tilkynna að litið væri svo á, að í kjölfar sameiningar Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf., hefðu allir hlutir í félaginu breyst sjálfkrafa í almenna hluti á grundvelli liðar iii í 5. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins. Var því jafnframt lýst að fjölskyldan teldi forsendur brostnar fyrir hluthafasamkomulagi frá 30. nóvember 2007, þar sem forgangshlutir hefðu breyst í almenna hluti. Var þess krafist að hluthafafundur yrði haldinn og þar tekinn fyrir dagskrárliðurinn kjör stjórnar. Af hálfu stefnanda var því mótmælt að samruni móðurfélagsins Leikhúsmógúlsins ehf. og dótturfélagsins Mogul Holding ehf. hefði þau áhrif á stöðu forgangshluta sem stefndi héldi fram.

Hinn 25. júní 2009 höfðuðu Sigyn, Signý og Óskar Eiríksbörn ásamt föður sínum, Eiríki Óskarssyni, hluthafar í stefnda, Mogul Holding ehf., mál hendur stefnanda og Bergsveini Jónssyni og Ástu Þórarinsdóttur, fyrir hönd Mogul Holding ehf., með eftirfarandi kröfugerð:

„Stefnendur gera aðallega þær dómkröfur (I) að viðurkennt verði að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., kt. 4501100-3660 (áður Leikhúsmógúllinn ehf.), hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt Mogul Holding ehf., kt. 600106-2600, (II) að hluthafasamkomulag, dagsett 30. nóvember 2007, milli Mango Tree B.V. (áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A, SICAR), annars vegar og stefnenda hins vegar, verði dæmt ógilt og (III) að lagt verði fyrir stefnda, Mogul Holding ehf., að viðlögðum dagsektum, að gera þær breytingar á samþykktum félagsins sem nauðsynlegar eru til samræmis við breytingu forgangshluta í almenna hluti.

Til vara (I) að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf., verði dæmt ógilt, (II) að lögð verði sú skylda á stjórn stefnda, Mogul Holding ehf., að viðlögðum dagsektum, að boða til hluthafafundar þar sem kosið verði um nýjan stjórnarformann í samræmi við reglur laga um einkahlutafélög nr. 138/1994.

Til þrautavara (I) að ákvæði 2. mgr. 21. gr. samþykkta stefnda, Mogul Holding ehf., verði breytt og (a) frestur félagsins gagnvart forgangshluthafa sem krefst greiðslu á sínum hluta matsverðs verði lengdur í allt að 365 daga, (b) að félaginu sé einungis skylt að greiða forgangshluthafa, sem krefst þess, hluta hans í matsverðinu að fengnu skriflegu mati endurskoðanda félagsins sem sýni að greiðslan muni ekki leiða til ógjaldfærni félagsins, þ. á m. hvorki til greiðslustöðvunar né gjaldþrots þess næstu 12 mánuði eftir að greiðslu skal inna af hendi, og (c) að óháðu fjármálafyrirtæki verði falið að leggja mat á verðmæti félagsins.“

Hinn 27. janúar 2010 krafðist stefnandi innlausnar á grundvelli gr. 3.6 í áskriftarsamningi aðila þar sem kveðið var á um að forgangshluthafar gætu að þremur árum liðnum frá kaupum forgangshlutanna krafist innlausnar félagsins á hlutum sínum á verði sem samsvaraði annaðhvort sanngjörnu markaðsverði skv. mati aðila eða Straums Burðaráss eftir atvikum, eða forgangsverði forgangshluta við slit, eins og það var orðað.

Hinn 6. maí 2011 hafnaði meirihluti stjórnar þessari innlausnarkröfu á þeim grunni að krafan væri óskýr. Í bréfi stjórnarinnar sagði að höfnunin byggðist á því að innlausnarkrafan væri „að formi til og efnislega gölluð“ og „ekki hafi með innlausnarkröfunni sjálfri né í framhaldi af afhendingu kröfunnar verið uppfyllt eða fylgt eftir ákvæðum samþykkta félagsins og áskriftarsamnings um formleg eða efnislega meðferð kröfunnar“, eins og sagði í bréfi stjórnarformannsins.

Hinn 7. júní 2012 gekk dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli því sem höfðað var 25. júní 2009. Niðurstaðan var sú að viðurkennt var að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., hefðu breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt Mogul Holding ehf., þann 30. júní 2008, og fellt var úr gildi hluthafasamkomulag, dagsett 30. nóvember 2007, milli stefnda Mango Tree B.V., áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A., SICAR, annars vegar og stefnenda hins vegar. Dómi þessum var áfrýjað til Hæstaréttar.

Hinn 28. febrúar 2013 kvað Hæstiréttur upp dóm í málinu með eftirfarandi dómsorði.

Viðurkennt er að forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. kt. 450100-3660, hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt, Mogul Holding ehf., kt. 600106-2600, 30. júní 2008, undir nafni hins síðarnefnda.

Fellt er úr gildi hluthafasamkomulag 30. nóvember 2007, milli áfrýjanda Mango Tree B.V., áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A., SICAR, annars vegar og stefndu, Eiríks Óskarssonar, Óskars Arnar Eiríkssonar, Signýjar Eiríksdóttur og Sigynjar Eiríksdóttur, hins vegar.“

                Hinn 21. mars 2013 krafðist stefnandi enn á ný innlausnar á hlutum sínum í félaginu og vísaði til 24. gr. samþykkta félagsins. Í bréfinu var vísað til þess að stefnandi ætti, m.a. með hliðsjón af framangreindum dómi Hæstaréttar og með vísan til 24. gr. samþykkta stefnanda, rétt til þess að fá innleystan hlut sinn í félaginu og fá greitt út kaupverð forgangshluta sinna auk arðs og eignarhluta sinn að tiltölu við samruna Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf., með sama hætti og ef Leikhúsmógúlnum ehf. hefði verið slitið. Gerði stefnandi því kröfu um að stefndi greiddi sér tiltekna fjárhæð sem svaraði umræddum hagsmunum eða myndi a.m.k. viðurkenna greiðsluskyldu sína á framangreindum grunni. Þá var í bréfinu jafnframt vísað til þess að stefnandi ætti, auk innlausnar á upphaflegu kaupverði og samningsbundnu 8% álagi árlega, rétt til útgreiðslu af eignum félagsins að tiltölu við eignarhlutdeild stefnanda í hinu sameinaða félagi. Stefnandi skoraði á stefnda að upplýsa um eignastöðu félagsins til þess að unnt væri að reikna út viðbótarhlutdeild stefnanda í verðmætum stefnda.

Hinn 23. apríl 2013 svaraði stjórn stefnda og hafnaði kröfum stefnanda um greiðsluskyldu, sem og skilningi stefnanda á efni 4. mgr. 24. gr. samþykkta stefnda.

Hinn 27. júní 2013 höfðaði stefnandi mál á hendur stefndu sem er efnislega samhliða því máli sem hér er til meðferðar. Stefndi krafðist frávísunar málsins. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. 9. janúar 2014, var þeirri kröfu hafnað. Í kjölfarið, eða hinn 24. mars 2014, lagði stefnandi fram matsbeiðni sem hljóðaði upp á að hinn dómkvaddi matsmaður svaraði eftirtöldum spurningum:

„1. Hvert er innlausnarverð 1.082.250 forgangshluta Mango Tree B.V. í Mogul Holding ehf., á grundvelli þeirrar aðferðar sem tilgreind er í 24. gr. samþykkta Mogul Holding ehf., dags. 21. ágúst 2006 og 24. febrúar 2009 (fylgiskjal nr. 4. og 28), sbr. einkum ákvæði 2.-4. mgr. 24. gr.

2. Hver er fjárhæð útgreiðslu til Mango Tree B.V. miðað við 1.082.250 forgangshluti eða 22,81% eignarhlutdeild Mango Tree B.V. í verðmætum Mogul Holding ehf., á grundvelli:

1. þeirrar aðferðar sem tilgreind er í 24. gr. samþykkta Mogul Holding ehf., að frádregnu innlausnarverði forgangshluta,

2. þeirrar aðferðar sem tilgreind er í ákvæði 3.2 í áskriftarsamningi, dags. 21. ágúst 2006, eftir greiðslu forgangsfjárhæðar,

3. þeirra aðferða sem tilgreindar eru í ákvæði 3.6 í áskriftarsamningi, dags. 21. ágúst 2006.“

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. maí 2014 var beiðni um dómkvaðningu matsmanns hafnað. Sú ákvörðun var kærð og með dómi Hæstaréttar í máli nr. 374/2014 var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja matsmann í samræmi við beiðni stefnanda í máli þessu.

Á dómþingi hinn 18. júlí 2014 var Haukur Gunnarsson, löggiltur endurskoðandi hjá KPMG, dómkvaddur samkvæmt beiðninni og matsgerð hans dags. 3. desember 2014 var lögð fram í þinghaldi 6. mars 2015.

Svör matsmanns við matsspurningum voru eftirfarandi:

„1. Innlausnarverð er tilgreint miðað við upphaflegt kaupverð í USD reiknað yfir í ISK miðað við gengi USD = ISK 122,51 í byrjun nóvember 2014 (aðferð A) og innlausnarverð miðað við upphaflegt kaupverð í ISK (aðferð B). Niðurstaðan er 10.061.633 USD eða 1.232.650.674 ISK samkvæmt aðferð A og 633.763.267 ISK samkvæmt aðferð B.

2. Eftirfarandi eru svör við spurningu 2:

    1. Útgreiðsla að frádregnu innlausnarverði forgangshluta nemur ISK 0 samkvæmt aðferð

        A en ISK 22.520.996 samkvæmt aðferð B.

     2. Sama svar og í 2.1.

     3. Virði forgangshluta við slit nemur samkvæmt aðferð A 6.121.035 USD eða   

         702.449.964 ISK og samkvæmt aðferð B 656.284.262 ISK.“

Undir rekstri málsins breytti stefnandi kröfugerð sinni og krafðist stefndi þá frávísunar þess. Með úrskurði Héraðsdóms 21. desember 2015 var kröfum stefnanda vísað frá dómi.

Með erindi stefnanda 10. febrúar 2015 til endurupptökunefndar, sbr. mál nr. 2/2015, fór stefnandi þess á leit að hæstaréttarmálið nr. 418/2012, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 28. febrúar 2013 yrði endurupptekið. Því hafnaði nefndin með úrskurði dags. 23. október 2015.

Með stefnu þingfestri 25. janúar 2016 var mál þetta síðan höfðað.

II

Þar sem í máli þessu er til skoðunar hvort málatilbúnaður stefnanda fullnægi skilyrðum 80. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að tilgreina þann hluta stefnu orðrétt:

„32. Stefnandi byggir dómkröfur sínar á þeirri málsástæðu að stefnda sé skylt að innleysa hlutabréf hans í félaginu og greiða sér bæði upphaflegt kaupverð forgangshlutabréfanna auk arðs og sem nemur hlutdeild hans í eignum félagsins hvort heldur sé miðað við 1) ákvæði gr. 3.6. í áskriftarsamningnum á dskj. nr. 4 og 21. gr. samþykkta stefnda sem voru í gildi til maí 2013. eða 2) ákvæði gr. 3.2. í áskriftarsamningi á dskj. nr. 4, sbr. og 24. gr. samþykkta stefnda sem voru í gildi til maí 2013

33. Stefnandi byggir á því að hann hafi, að því marki sem skiptir máli við úrlausn þessa máls, eignast öll réttindi og tekið yfir allar skyldur Brúar II ehf. og Brú II Venture Capital Fund S.C.A., SICAR og Lime Tree B.V. skv. áskriftarsamningnum á dskj. nr. 4 á grundvelli sérstaks samnings um það frá 23. júlí 2008 sbr. dskj. nr. 6 og 17. En í þeim samningi segir m.a:Félagið og hluthafar samþykkja…Mango Tree B.V. sem hluthafa og aðila að samningnum með öllum þeim réttindum sem eigendum forgangshluta eru fengin með samningnum.“

34. Stefnandi byggir á því að hann hafi verið forgangshluthafi í stefnda allt þar til hlutaskrá félagsins og ákvæðum samþykkta félagsins um forgangshluti var breytt í maí 2013 að gengnum dómi Hæstaréttar í máli nr. 418/2012. En líkt og nánar verður rakið síðar fór stefnandi fram á innlausn annars vegar með bréfi dags. 27. janúar 2010, sbr. dskj. 16, sbr. einnig ítrekun þess erindis á dskj. 25, og hins vegar með bréfi dags. 21. mars 2013, sbr. dskj. 26.

35. Samruni stefnda og dótturfélagsins tók gildi 24. febrúar 2009 þegar hann var samþykktur af stjórnum samrunafélaganna sbr. 102. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Við staðfestingu samrunans sköpuðust skilyrði fyrir stefnanda til að krefjast innlausnar á grundvelli hans.

36. Samþykktir félagsins, eins og þær voru orðaðar allt fram til maí 2013 kváðu á um skiptingu hluta í almenna hluti og forgangshluti og ber félagi að fara eftir gildandi samþykktum sínum. Samþykktum félags verður eingöngu breytt með lögmætum hætti á hluthafafundi félagsins og tekur breytingin ekki gildi fyrr en hún hefur verið skráð í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 68. gr. ehfl. Er fráleitt að ætla að dómur Hæstaréttar í máli 418/2012 hafi breytt samþykktunum með afturvirkum hætti. Þá ber einnig að líta til þess að stefnandi var skráður fyrir 1.082.250 forgangshlutum í hlutaskrá stefnda, sem staðfest var af stjórn félagsins, allt fram til maí 2013, sbr. dskj. 9 og 14.

37. Þá var jafnframt litið svo á af hálfu stefnda að forgangshlutir væru virkir allt þar til eftir dóm Hæstaréttar í máli 418/2012 og breytingu samþykkta stefnda í kjölfar þess dóms. Á hluthafafundum félagsins réðust réttindi hluthafanna af skiptingu hluta félagsins í almenna hluti og forgangshluti, sbr. fundargerðir á dskj. 18-20 og 35-36. Á hluthafafundi dags. 7. júní 2011 var t.a.m. úrskurðað um það af hálfu fundarstjóra að hlutaskrá félagsins, eins og hún lægi fyrir fundinum, skyldi gilda, sbr. dskj. 18. Samkvæmt 1. mgr. 55. gr. ehfl. fer hluthafafundur með æðsta vald í málefnum félagsins og eru ákvarðanir hluthafafundar um að leggja til grundvallar téða flokkaskiptingu bindandi fyrir félagið sjálft og hluthafa þess.

38. Að framangreindu er ljóst að þegar stefnandi var forgangshluthafi allt til maí 2013 er samþykktunum var breytt og hlutaskránni í kjölfarið. Réttarstaða stefnanda gagnvart félaginu allt til þess tíma markaðist því af stöðu hans sem forgangshluthafa.

39. Innlausnarkrafa stefnanda er, í fyrsta lagi, byggð á því að stefnda hafi borið að fallast á innlausnarkröfuna sem stefnandi setti fram var í janúar 2010 sbr. dskj. nr. 16 með vísan til gr. 3.6 í áskriftarsamningnum, sbr. gr. 21 í samþykktunum. Sú krafa var sett fram á grundvelli 21. gr. samþykkta félagsins og gr. 3.6. í áskriftarsamningnum. Þar segir að hvenær sem er að liðnum 3 árum frá útgáfu forgangshlutanna geti eigendur þeirra hlutabréfa krafist innlausnar hluta sinna á verði sem samsvari annað hvort sanngjörnu markaðsverði hlutanna eða forgangsverði forgangshluthafa við slit. Innlausnarrétturinn nær ótvírætt til allra þeirra hluta sem voru gefnir út á grundvelli áskriftarsamningsins á dskj. 4 og veitir þeim hluthöfum innlausnarrétt sem áttu forgangshlutabréf útgefin á grundvelli hans án tillits til þess hvort að forgangsbréfin hefðu breyst í almenna hluti eður ei. Þegar stefnandi óskaði innlausnar á þessum grundvelli í janúar 2010 sbr. dskj. nr. 16. voru liðin u.þ.b. 3 ár og 5 mánuðir frá útgáfu hlutanna. Á þeim tíma voru sannarlega í gildi tveir hlutaflokkar í félaginu, forgangshlutir og almennir hlutir skv. samþykktum félagsins og hlutaskrá sbr. dskj. nr. 5, 29 og 14. Stefndi hafði ekki hlutast til um að breyta hlutaflokkum úr tveimur í einn almennan flokk og voru samþykktirnar þá í fullu gildi og margstaðfestar af stjórn stefnda eftir samruna félaganna. Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur var ekki kveðinn upp fyrr en árið 2012 og dómur Hæstaréttar gekk á árinu 2013. Að gengnum dómi Hæstaréttar, og eftir að stefnandi krafðist innlausnar að nýju, breytti meirihluti hluthafa félagsins samþykktum og hlutaskrá og komu þær breytingar því ekki til framkvæmda fyrr en löngu eftir að stefnandi hafði sett fram innlausnarkröfu sína, í janúar 2010. Þá er einnig áréttað, það sem áður segir, að í millitíðinni voru haldnir fjölda hluthafafunda þar sem hluthafar taka ákvörðun um að leggja til grundvallar flokkaskiptingu félagsins í forgangshluti og almenna hluti og réðust réttindi hluthafanna á fundunum af þeirri flokkaskiptingu.

40. Höfnun stefnda á innlausn ríflega einu og hálfu ári síðar var á þeim forsendum að hún væri óljós en ekki á þeim forsendum að stefnandi ætti ekki skráða forgangshluti í félaginu eða að gr. 3.6. í áskriftarsamningnum á dskj. nr. 4 ætti ekki við. Dráttur stjórnar stefnda á að verða við henni veldur ekki tómlætisverkunum enda mátti stefnda aldrei með réttu líta svo á að stefnandi hefði fallið frá kröfu sinni um innlausn.

41. Dómur Hæstaréttar í málinu 418/2012 hefur ekki önnur áhrif en að heimila stefnda að fella forgangshlutinn niður án atbeina stefnanda sem forgangshluthafa að gengnum dómi en hafði ekki afturvirk áhrif, sbr. þau ummæli í dómnum að „Verði fallist á kröfu stefndu, verður sú breyting á, að þeir sem eiga forgangshluti í félaginu verða eigendur almennra hluta“. Dómur Hæstaréttar í ofangreindu máli haggar hvorki réttindum stefnanda sem forgangshluthafa skv. samþykktum félagsins né áskriftarsamningnum á dskj.nr. 4. Hæstiréttur tekur sérstaklega fram í dómi sínum að „um eftirfarandi uppgjör í kjölfar slíks viðurkenningardóms [um að forgangshlutabréf hafi fallið niður] verður ekki dæmt í þessu máli“ og verður ekki önnur ályktun dregin af þessu en innlausn á forgangshlutum stefnanda sé óhjákvæmileg afleiðing af samrunanum, í samræmi við það sem stefnandi krefst. Er a.m.k. ljóst af þessum ummælum að dómurinn felur ekki í sér sjálfkrafa niðurfellingu forgangshluta enda myndi þá ekkert uppgjör eiga sér stað.

42. Þá er á því byggt, að stefnandi eigi skýlausan rétt á innlausn á forgangshlutum sínum í stefnda í kjölfar samruna Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf. með sama hætti og ef stefnda hefði verið slitið vegna skýrra og beinna fyrirmæla 24. gr. samþykkta félagsins sem í gildi voru er samruninn var staðfestur. Stefnda beri því einnig af þeim ástæðum að leysa til sín þau forgangshlutabréf stefnanda sem hann átti er samruninn tók gildi og greiða stefnanda annars vegar, sem nemur kaupverði forgangshlutabréfanna skv. áskriftarsamningi 21. ágúst 2006 að viðbættu 8% ávöxtun p.a. að frádregnum þegar greiddum forgangsarði og hins vegar, sem nemur 22,81% af hreinni eign stefnda en stefnandi átti 22,81% af heildarhlutafé félagsins þegar samruni Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf. átti sér stað.

43. Stefnandi byggir nánar á því að ótvírætt sé að samruni félaganna falli undir 24. gr. samþykkta sem voru í gildi þegar samruni Leikhúsmógúlsins ehf. og Mogul Holding ehf. átti sér stað. Af niðurstöðu Hæstaréttar í málinu nr. 418/2012 um það hvernig skýra beri iii) lið, 5.mgr. 4.gr. samþykkta stefnda, sem í gildi voru við samruna félaganna, þ.e. að ákvæðið fæli í sér bein fyrirmæli um að forgangs hlutabréf skyldu breytast í almenna hluti án tillits til þess hvort að Leikhúsmógúllinn ehf. sameinaðist dótturfélagi sínu eða öðrum félögum, og án tillits til þess að hluthafar félagsins samþykktu samrunann með þeim réttaráhrifum að forgangshlutaflokkurinn félli niður, leiði að skýra beri 4. mgr. 24. gr. samþykkta stefnda með sama hætti þannig að samruni félaganna veki upp rétt til handa stefnanda sem forgangshluthafa í yfirtökufélaginu til þess að fá forgangshluti sína innleysta á grundvelli þeirrar aðferðar sem tilgreind er í 24.gr. samþykktanna.

44. Í 2. og 3. mgr. 24. gr. samþykkta stefnda er giltu allt til maí 2013 er kveðið á um hvernig ákvarða skuli innlausnarverð til forgangshluthafa við slit félagsins. Þar segir: „Við slit á félaginu skulu forgangshluthafar eiga rétt á úthlutun verðmæta félagsins umfram almenna hluthafa sem hér segir að því tilskildu að eignir félagsins við slit þess séu nægar.

Áður en kemur til úthlutunar til almennra hluthafa skal greiða forgangs hluthöfum fjármuni sem svara til kaupverðs þeirra að hlutum í félaginu við skráningu nýrra forgangshluta í ágúst 2006 að viðbættu 8% álagi fyrir hvert ár sem liðið er fyrir hvert ár sem liðið er hafi það ekki verið greitt út til hluthafa á tímabilinu.

Eftir forgangsúthlutun til forgangs hluthafa skal úthlutun annarra verðmæta til forgangshluthafa og hluthafa vera i samræmi við reglur hlutafélagalaga eins og um einn hlutaflokk væri að ræða.“

45. Í 4.mgr. 24. samþykktanna segir: „Eigendur forgangshluta eiga sama rétt til að fá verðmæti greidd út úr félaginu í skiptum fyrir hluti þeirra ef félagið sameinast eða er yfirtekið af öðru félagi, meirihluti þess seldur eða verulegur hluti eigna þess er seldur ef hluthafar félagsins verða ekki eigendur meirihluta í því félagi sem lifir eftir slíkar breytingar.“

46. Samkvæmt 4. mgr. 24. gr., sbr. 2. og 3.mgr., átti stefnandi rétt til innlausnar hluta sinna og fá greidd út verðmæti úr félaginu í skiptum fyrir hluti þeirra við samrunann þannig að fyrst skyldi félagið greiða stefnanda sem næmi kaupverði forgangshlutabréfanna við útgáfu þeirra í ágúst 2006 að viðbættu árlegu 8% álagi en að frádregnum greiddum arði og því til viðbótar sem næmi hlutfallslegri eign hans í hlutafé félagsins.

47. Af þessu öllu leiðir að stefnandi á skýran rétt til þess að fá eignarhluta sinn í stefnda innleystan í samræmi við stefnukröfurnar.

48. Mótbára stefnda gegn innlausnarkröfu stefnanda á þessum forsendum er sú, sbr. dskj.nr. 28., að skýra beri 4. mgr. 24. gr. samþykktanna á annan hátt en leiðir af beinu orðalagi greinarinnar og þeirri skýringaraðferð sem stefndi og aðrir hluthafar en stefnandi, byggðu á í hæstaréttarmálinu nr. 418/2012 þ.e. að samruni félaganna, án tillits til annars, skyldi leiða til niðurfellingar forgangshlutabréfanna. Í 5. mgr. 4.gr. lið iii) segir í fyrsta málslið „ef félagið sameinast öðru félagi,“ og féllst Hæstiréttur á þann skilning fjölskyldunnar að málsliðinn yrði að skýra einan og sér án tillits til síðari málsliða í ákvæðinu og í ákvæðinu fælust bein fyrirmæli um að forgangshlutabréf skyldu falla niður við samruna, þó samruninn væri innan samstæðu. Í 4.mgr. 24. gr. samþykktanna sagði „ef félagið sameinast eða er yfirtekið af öðru félagi,“. Augljóst er að beita verður sömu aðferð við skýringu 4. mgr. 24.gr. samþykktanna og Hæstiréttur gerði í málinu nr. 418/2012 enda ákvæðin algerlega sambærileg um það að mæla fyrir um tiltekið réttarástand hluthafa félagsins „ef félagið sameinast“. Sú skýringaraðferð felur í sér innra samræmi milli ákvæða samþykktanna og byggir á þeirri grunnforsendu fyrir áskrift að hlutum í Leikhúsmógúlnum ehf. í ágúst 2006, sem fram kemur í áskriftarsamningnum á dskj nr. 4 sem félagið og eldri hluthafar voru aðilar að, að félagið, nú stefndi sem sameinuð félög, myndi tryggja forgangshluthöfum forgang til arðs og innlausnar umfram almenna hluthafa í félaginu við tilgreindar aðstæður. Ef 4. mgr. 24 gr. sbr. 2. og 3. mgr. s.gr. væri túlkuð og skýrð með öðrum hætti en sambærileg setning í 5. mgr. 4. gr. samþykkta félagsins er ljóst að slíkt ósamræmi í ákvæðum samþykktanna hefði í för með sér óeðlilega auðgun fyrir stefnda og almenna hluthafa félagsins og að sama skapi forsendubrest fyrir kaupum stefnanda á forgangshlutum félaginu. Hlutafé að kaupvirði 7,8 milljónir USD næmi þá aðeins 22,81% af almennu hlutafé félagsins, væri áhrifalaus minnihluti hlutafjár án nokkurra sérréttinda sem stefnandi hefði keypt á gríðarlegu yfirverði, langt umfram aðra almenna hluthafa í félaginu.

49. Þá byggir stefnandi kröfu sína að þessu leyti, á þeirri málsástæðu að gr. 3.2. í áskriftarsamningi dags. 21. ágúst 2006 milli Brú II ehf., annars vegar og hluthafanna Guðmundar Magnasonar, Óskars Ö. Eiríkssonar, Sigyn Eiríksdóttur, Signýjar Eiríksdóttur, Bergsveins Jónssonar og Óskars Eiríkssonar og stefnda, hins vegar, feli í sér ótvíræða skyldu fyrir stefnda að innleysa forgangshlutabréf stefnanda fyrir upphaflegt kaupvirði forgangshlutabréfanna auk hverskonar áunnins en ógreidds arðs ef samruni eigi sér stað. Ákvæðið er svohljóðandi í íslenskri þýðingu, sbr. dskj. nr. 31:

„Forgangur við félagsslit: Komi til þess að félaginu verði slitið eða tekið til gjaldþrotameðferðar skulu eigendur forgangshluta eiga rétt á að fá í sinn hlut á undan almennum hlutum fjárhæð sem samsvarar upphafskaupverðinu á hlut að viðbættum áföllnum en ógreiddum arði (forgangsfjárhæð við slit). Eftir greiðslu forgangsfjárhæðar við slit samkvæmt framansögðu til eigenda forgangshluta skal það sem þá er eftir af eignum renna til eigenda almennra hluta og forgangshluta í hlutfalli við eignarhlut miðað við breytirétt forgangshluta. Samruni, yfirtaka, sala á ráðandi hlut eða nær öllum eignum félagsins skal talin jafngilda slitum (eða breytingu á yfirráðum) ef hluthafar Theater Mogul ehf. eiga ekki meirihluta þeirra hluta sem eru í umferð í því félagi sem fer með yfirráðin eftir sölu“

50. Eðli málsins samkvæmt verður innlausnarkrafa á grundvelli samruna aðeins virk þegar samruninn er staðfestur. Það að samruninn skyldi reikningslega miðast við 30. júní 2008 fól ekki annað og meira í sér en það að nýr efnahags- og rekstrarreikningur sameinuðu félaganna skyldi miðast við þann dag, sbr. 2. mgr. 96. gr. ehfl. Réttur forgangshluthafa til þeirra úrræða sem 21. gr. eða 24. gr. samþykktanna heimilar skertist því ekki vegna samrunans enda voru forgangshlutaflokkur ekki felldur niður fyrr en með nýjum samþykktum stefnda sem tóku gildi í maí 2013.

51. Ef svo ólíklega færi að innlausnarskylda stefnda gagnvart stefnanda yrði ekki viðurkennd á grundvelli 21. gr. eða 24. gr. samþykkta félagsins, byggir stefnandi á því að stefndi sé a.m.k. skuldbundinn á grundvelli aðildar sinnar að áskriftarsamningnum á dskj nr. 4, til að innleysa forgangshlut stefnanda með sömu aðferð og greinir í 2. og 3. mgr. 24.gr. samþykktanna, á grundvelli ákvæða gr.3.2. í áskriftarsamningnum en þar er innlausnaraðferðin tilgreind. En ótvírætt er að stefnandi er aðili að áskriftarsamningnum á grundvelli yfirlýsingar um það í „Consent & Waiver“ samningnum á dskj. nr. 6, s.s. áður er vikið að. Þá er sérstaklega áréttað að áskriftarsamningurinn stendur sjálfstætt samhliða samþykktum stefnda og er stefndi bundinn af honum á grundvelli almennra reglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Breyting á samþykktum félagsins hefur ekki áhrif á gildi áskriftarsamningsins eða réttarstöðu stefnanda gagnvart stefnda á grundvelli hans.“

           Varðandi sundurliðun kröfugerðar er stuðst við matsgerð Hauks Gunnarssonar.

III

Í greinargerð stefnda kemur fram að í héraðsdómsmálinu E-2746/2013 hafi stefndi gert kröfu um frávísun málsins í stefnu. Vegna kröfunnar var kveðinn upp sérstakur úrskurður 9. janúar 2014 þar sem kröfu stefnda um frávísun málsins var hafnað. Engu að síður kemur fram í niðurstöðukafla úrskurðarins að í málinu séu „reifaðar málsástæður sem hafnað var í því fyrra [hæstaréttarmál nr. 418/2012] og koma því hér ekki til álita [þ. e. í máli 2746/2013]“. Málið dróst síðan á langinn, m.a. vegna matsbeiðni og matsgerðar, en lauk með frávísun, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur 21. desember 2015. Eins og áður segir er það mál, sem þessi greinargerð fjallar um, í öllum meginatriðum það sama og héraðsdómsmálið E-2746/2013. Því eiga þau sjónarmið sem vísað er til hér að framan og lýst er í frávísunarúrskurðinum frá 9. janúar 2014 ekki síður við í þessu máli en í fyrrgreindu héraðsdómsmáli.

Með vísan til 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála ber því í máli þessu að líta fram hjá sumum málsástæðum stefnanda sem hann hafði uppi í hæstaréttarmáli nr. 418/2012. Í úrskurðinum er hins vegar ekki tilgreint nákvæmlega hverjar séu þær málsástæður en ætla má af lestri greinargerðar stefnda í því máli, að þar sé átt við málsástæður sem byggja á túlkun á ákvæði iii) liðar 5. mgr. 4. gr. samþykkta stefnda (sjá bls. 6 í stefnu), túlkun hans á efni 24. gr. samþykkta stefnda, sérstaklega 4. mgr. greinarinnar (sjá bls. 7 í stefnu), og túlkun á grein 3.2 í áskriftarsamningi (sjá bls. 7 í stefnu). Í héraðsdómsmálinu, sem síðar varð hæstaréttarmál nr. 418/2012 var byggt á málsástæðum sem voru grundvallaðar á efni þessara þriggja ákvæða auk þess sem ákvæðin voru sérstaklega tilgreind. Verður slíkum málsástæðum því ekki komið að í þessu máli, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála. Ber að líta alfarið fram hjá þessum málsástæðum við úrlausn máls þessa.

Varðandi einstakar málsástæður stefnanda tekur stefndi eftirfarandi fram.

Í 34. lið stefnu sé byggt á því að stefnandi hafi verið forgangshluthafi í stefnda allt þar til hlutaskrá hafi verið breytt í maí 2013. Þessu sjónarmiði mótmælir stefndi með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 418/2012 sem sé bindandi fyrir sakarefnið, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála.

Í 35. lið stefnu segir að samruni stefnda við dótturfélag sitt hafi tekið gildi 24. febrúar 2009, sbr. dskj. nr. 10–13. Í dskj. nr. 11 komi skýrt fram að sameiningin miðist við 30. júní 2008 og í dómi Hæstaréttar í fyrrgreindu máli komi skýrt fram að forgangshlutir hafi breyst í almenna hluti sama dag og sameiningin átti sér stað. Lágu dskj. nr. 10–13 fyrir í hæstaréttarmáli nr. 418/2012 og mynduðu grunn að málsástæðum stefnda í því máli. Verði skjölin því ekki á nýjan leik notuð sem hluti af málsástæðum í þessu máli, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála.

Í 36. lið stefnu sé vísað til þess að samþykktum stefnda hafi ekki verið breytt fyrr en í maí 2013 og verði samþykktunum eingöngu breytt með lögmætum hætti á hluthafafundi félagsins og taki breytingin ekki gildi fyrr en hún hefur verið skráð í fyrirtækjaskrá Ríkisskattstjóra. Segir síðan að „fráleitt er að ætla að dómur Hæstaréttar í máli 418/2012 hafi breytt samþykktunum með afturvirkum hætti“. Jafnframt vísar stefnandi til hlutaskrár stefnda.

Stefndi telur að þessi málatilbúnaður standist ekki nokkra skoðun. Í hæstaréttarmáli nr. 418/2012 var tekist á um réttaráhrif þess að stefndi sameinaðist dótturfélagi sínu 30. júní 2008, þ.e. hvort sameiningin hefði sjálfkrafa leitt til þess að forgangshlutir í stefnda breyttust í almenna hluti. Úr þessu álitaefni leysti Hæstiréttur með afgerandi hætti. Dómurinn felur í sér að samþykktir stefnda voru ólögmætar frá nefndri dagsetningu að telja að því er varðar allar tilvísanir til forgangshluta. Stefnandi geti því ekki nú byggt neinn rétt á þessum ákvæðum samþykktanna. Ákvæðin töpuðu gildi sínu 30. júní 2008. Því sé það rangur skilningur stefnanda að forgangshlutir væru áfram virkir eftir 30. júní 2008. Þá sé ljóst að í þessum málatilbúnaði felst tilraun af hálfu stefnanda til að fá dómstóla til að fjalla um sama sakarefni á nýjan leik í andstöðu við 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála.

Í 39. lið stefnu kemur fram að innlausnarkrafa stefnanda sé í fyrsta lagi á því byggð að stefnda hafi borið að fallast á innlausnarkröfuna sem stefndi setti fram 27. janúar 2010 á grundvelli greinar 3.6 í áskriftarsamningi, sbr. 21. gr. samþykkta stefnda. Með vísan til hæstaréttardóms í máli nr. 418/2012 er ljóst að umfjöllun um þetta atriði skiptir engu máli við úrlausn máls þessa enda er innlausnarkrafan sett fram tæpum 19 mánuðum eftir að forgangshlutir höfðu breyst í almenna hluti.

Stefndi telur að sérstaka athugasemd verði að gera við það orðalag stefnu, sbr. 41. lið, þar sem segir að dómur Hæstaréttar í máli nr. 418/2012 hafi ekki „önnur áhrif en að heimila stefnda að fella forgangshlutinn niður án atbeina stefnanda sem forgangshluthafa í kjölfar samrunans“. Þessi ummæli séu röng þar sem í dómnum segir að viðurkennt sé að forgangshlutir hafi fallið niður við samruna stefnda við dótturfélag sitt og er nákvæmlega tiltekið í dóminum hvenær það gerist eða 30. júní 2008.

Í 43. lið stefnu sé því haldið fram að stefnandi eigi innlausnarrétt gagnvart stefnda í kjölfar samruna stefnda við dótturfélag sitt. Sé um það vísað til 24. gr. samþykkta stefnda. Stefndi tekur fram að hann telur að stefnandi geti ekki í máli þessu teflt þessari grein fram sem málsástæðu enda var það gert í greinargerð hans (þá í hlutverki stefnda) fyrir héraðsdómi í hæstaréttarmáli nr. 418/2012. Sé greininni beitt þar sem málsástæðu gegn dómkröfum stefnanda í því máli. Eins og dómur Hæstaréttar í málinu sýnir var ekkert tillit tekið til þessarar málsástæðu við úrlausn þess máls en dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila um þær kröfur sem séu dæmdar þar að efni til, sbr. 1. mgr. 116. gr. eml.

Þá byggir stefnandi innlausnarkröfu sína á túlkun á efni greinar 3.2 í áskriftarsamningi, (49.–51. liður í stefnu). Stefndi telur að stefnandi geti ekki í máli þessu teflt grein 3.2 fram sem málsástæðu enda var það gert í greinargerð hans (þá í hlutverki stefnda) fyrir héraðsdómi í hæstaréttarmáli nr. 418/2012. Sé greininni beitt þar sem málsástæðu gegn dómkröfum stefnanda í því máli. Eins og dómur Hæstaréttar í málinu sýni var ekkert tillit tekið til þessarar málsástæðu við úrlausn þess máls en dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð einkamála og niðurstöðukafla frávísunarúrskurðar í máli E-2746/2013. Ber því við úrlausn máls þess að víkja þessari málsástæðu til hliðar.

Að lokum mótmælir stefndi sundurliðun kröfugerðarinnar.

 

IV

Í máli þessu gerir stefnandi bæði viðurkenningarkröfu og fjárkröfu, þ.e. að viðurkennd „verði innlausnarskylda stefnda á forgangshlutum stefnanda í stefnda að nafnvirði ISK 1.082.250 og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda sem hér segir“: Síðan er í aðal- til þrautaþrautavarakröfu gerð krafa um greiðslu mismunandi fjárhæða.

Eins og að framan er rakið höfðuðu Sigyn, Signý og Óskar Eiríksbörn, ásamt föður sínum Eiríki Óskarssyni, sem eru hluthafar í stefnda, Mogul Holding ehf., mál, hinn 25. júní 2009, á hendur stefnanda, Mango Tree B.V. og Bergsveini Jónssyni og Ástu Þórarinsdóttur fyrir hönd Mogul Holding ehf. með eftirfarandi aðalkröfu. „Stefnendur gera aðallega þær dómkröfur (I) að viðurkennt verði að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., kt. 4501100-3660 (áður Leikhúsmógúllinn ehf.), hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt Mogul Holding ehf., kt. 600106-2600, (II) að hluthafasamkomulag, dagsett 30. nóvember 2007, milli Mango Tree B.V. (áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A, SICAR), annars vegar og stefnenda hins vegar, verði dæmt ógilt og (III) að lagt verði fyrir stefnda, Mogul Holding ehf., að viðlögðum dagsektum, að gera þær breytingar á samþykktum félagsins sem nauðsynlegar eru til samræmis við breytingu forgangshluta í almenna hluti.“

Ágreiningi þessum lauk með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 418/2012 og eftirfarandi dómsorði. Viðurkennt er að forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. kt. 450100-3660, hafi breyst í almenna hluti við samruna félagsins við dótturfélag sitt, Mogul Holding ehf., kt. 600106-2600, 30. júní 2008, undir nafni hins síðarnefnda.

Fellt er úr gildi hluthafasamkomulag 30. nóvember 2007, milli áfrýjanda Mango Tree B.V., áður Brú II Venture Capital Fund S.C.A., SICAR, annars vegar og stefndu, Eiríks Óskarssonar, Óskars Arnar Eiríkssonar, Signýjar Eiríksdóttur og Sigynjar Eiríksdóttur, hins vegar.“

Er mál þetta var tekið fyrir 5. sept. sl. hélt stefnandi því fram að mál þetta væri hvorki milli sömu aðila né um sama sakarefni væri að ræða og hæstaréttarmálið nr. 418/2012. Í hæstaréttarmálinu er verið að fjalla um lögskipti málsaðila þessa máls eða fyrirrennara þeirra. Dómurinn telur það hafið yfir vafa að forgangshlutir þeir sem breyttust í almenna hluti samkvæmt dómi Hæstaréttar séu hinir sömu og stefnandi er að gera kröfu um að innleystir verði samkvæmt kröfugerð málsins og um sömu málsaðila sé að ræða, eða fyrirrennara þeirra.

Á það er fallist að málin fjalli um hvort sitt sakarefnið. Grundvöllur máls þess er fór til Hæstaréttar er aðallega viðurkenningarkrafa um að forgangshlutir í stefnda, Mogul Holding ehf., (áður Leikhúsmógúllinn ehf.), hafi breyst í almenna hluti við samruna félaganna. Hins vegar virðist mál það sem hér er undir vera krafa um innlausnarskyldu stefnda, Mogul Holding á „forgangshlutum“ stefnanda í stefnda. Því er um sitt hvort sakarefnið að ræða. Hins vegar virðast málsástæður að sumu leyti vera þær sömu í báðum málunum. Þegar svo stendur á hefur eldri dómurinn þ.e. hæstaréttardómurinn jákvæð réttaráhrif og ber að leggja hann til grundvallar niðurstöðu í yngra málinu eftir því sem við á.

Samkvæmt 80. gr. eml. skal greina dómkröfur svo glöggt sem verða má. Geta dómkröfur hvort sem er verið viðurkenningarkröfur eða peningakröfur. Samkvæmt 2. mgr. 114. gr. sömu laga skal aðalniðurstaða málsins dregin saman í dómsorði. Svo sem að framan greinir er gerð viðurkenningarkrafa og verði hún tekin til greina eru fjárkröfur settar fram í fjórum kröfuliðum. Telja verður verulegum vandkvæðum bundið að verða við viðurkenningarkröfunni, vegna orðalags hennar. Að mati dómsins er ekki unnt að setja í dómsorð að viðurkennd sé innlausnarskylda stefnda á „forgangshlutum“ stefnanda í stefnda, þar sem forgangshlutir í Leikhúsmógúlnum ehf. breyttust, samkvæmt dómsorði Hæstaréttar í málinu nr. 418/2012, í almenna hluti við samruna félagsins við stefnda 30. júní 2008. Hæstaréttardómurinn verður ekki skilinn á annan veg en þann, að ekki hafi verið til neinir forgangshlutir eftir 30. júní 2008 og þar af leiðandi er kröfugerðin, eins og hún er sett fram, ekki dómtæk. Samkvæmt orðalagi viðurkenningarkröfunnar byggja fjárkröfurnar á henni og eru kröfurnar því tengdar. Því verður að telja að hún sé ekki dómtæk í heild sinni.

Þá segir í e-lið 80. gr. laga um meðferð einkamála að í stefnu skuli greina, svo glöggt sem verða má, málsástæður þær er stefnandi byggir málssókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Skal þessi lýsing vera gagnorð og svo skýr að það fari ekki milli mála hvert sakarefni er. Með málsástæðu er átt við staðhæfingu um atburð eða staðreynd, sem aðili telur hafa þá afleiðingu í för með sér samkvæmt lögum að krafa hans verði tekin til greina.

Eftir kröfugerð um viðurkenningu á „forgangshlutum“, gera málsástæður ráð fyrir að stefnandi hafi átt „forgangshlut“ í stefnda allt til maí 2013. Einnig miðast útreikningur fjárkrafna málsins við það tímamark. Þetta er gert þrátt fyrir dóm Hæstaréttar í málinu nr. 418/2012, sem kveður á um að forgangshlutir stefnanda hafi breyst í almenna hluti 30. júní 2008. Þá liggur fyrir í málinu að stefndu fóru fyrst fram á innlausn forgangshluta sinna í stefnda með bréfi 27. janúar 2010. Miðað við dóm Hæstaréttar um að forgangshlutir stefnanda, eða fyrirrennara hans, hafi breyst í almenna hluti 30. júní 2008, er framsetning málsástæðna í máli þessu haldin óskýrleika. Svo virðist einnig sem stefnandi tefli að hluta fram sömu málsástæðum í báðum málunum og að Hæstiréttur hafi tekið afstöðu til hluta málsástæðnanna í dómi sínum frá 2012. Ekki er þó nein grein gerð fyrir þessu atriði. Þetta veldur því að málatilbúnaðurinn verður ruglingslegur og uppfyllir ekki skilyrði um glöggan málatilbúnað og að samhengi málsástæðna sé ljóst. Því telur dómurinn að ekki sé uppfyllt skilyrði e-liðar 80. gr. eml.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er málinu vísað frá án kröfu.

Að fenginni þessari niðurstöðu ber stefnanda að greiða stefnda málskostað svo sem greinir í úrskurðarorði.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

                Málinu er vísað frá dómi án kröfu.

                Stefnandi greiði stefnda, Mogul Holding ehf., 750.000 kr. í málskostnað.