Hæstiréttur íslands
Mál nr. 442/1998
Lykilorð
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
|
|
Fimmtudaginn 29. apríl 1999. |
|
Nr. 442/1998. |
Íslenska ríkið (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn þrotabúi Skeiðarinnar ehf. (Karl Axelsson hrl.) |
Gjaldþrotaskipti. Riftun.
Gert var árangurslaust fjárnám hjá félaginu S og í kjölfarið krafðist sýslumaðurinn í H gjaldþrotaskipta á búi S, þar sem m.a. var lýst kröfum ríkisins á hendur S vegna opinberra gjalda utan staðgreiðslu og virðisaukaskatts. Áður en krafan var tekin fyrir í héraðsdómi voru þær kröfur sem sýslumaðurinn hafði til innheimtu fyrir ríkið greiddar í tveimur áföngum. Að kröfu annars lánadrottins var kveðinn upp úrskurður um gjaldþrotaskipti á búi S. Krafðist þrotabú S riftunar á umræddum greiðslum til ríkisins. Talið var að greiðslur S til ríkisins hefðu skert greiðslugetu félagsins verulega og að sýslumanni hefði með engu móti geta virst greiðslan venjuleg. Var skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga 21/1991 til að rifta umræddum greiðslum talið fullnægt og niðurstaða héraðsdóms um riftun staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. nóvember 1998. Hann krefst aðallega sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að tildæmd fjárhæð verði lækkuð og málskostnaður látinn falla niður.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins hafði Skútan hf. með höndum veitingarekstur í Hafnarfirði. Með samningi, sem er sagður hafa verið gerður 1. mars 1996, seldi félagið Eldun ehf. lausafjármuni vegna rekstrarins, þrjár bifreiðir og firmanafn sitt fyrir 1.681.000 krónur, sem skyldu greiðast með víxli á gjalddaga 1. febrúar 1997. Nafni félagsins mun hafa verið breytt eftir þetta í Skeiðina ehf. Forráðamenn þess munu vera foreldrar forráðamanna Eldunar ehf.
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði gerði fjárnám 26. nóvember 1996 hjá Skeiðinni ehf. samkvæmt beiðni Dreifingar hf. fyrir kröfu að fjárhæð samtals 84.839 krónur. Við gerðina mætti fyrirsvarsmaður fyrrnefnda félagsins og kvað það hafa hætt starfsemi. Það gæti ekki greitt kröfuna og ætti engar eignir. Var gerðinni þannig lokið án árangurs. Á grundvelli þessarar gerðar krafðist sýslumaðurinn í Hafnarfirði gjaldþrotaskipta á búi félagins með bréfi 16. janúar 1997, þar sem meðal annars var lýst kröfum áfrýjanda á hendur því vegna opinberra gjalda utan staðgreiðslu og virðisaukaskatts frá árinu 1996, að eftirstöðvum alls 896.108 krónur. Fyrir liggur að sýslumaðurinn hafði 14. nóvember 1996 krafist fjárnáms fyrir þessum kröfum, en afturkallað beiðni um gerðina í byrjun desember sama árs. Lífeyrissjóður matreiðslumanna krafðist gjaldþrotaskipta á búi félagsins með tveimur bréfum 23. janúar 1997. Þar var því meðal annars lýst að sjóðurinn ætti kröfur á hendur félaginu að fjárhæð samtals 637.133 krónur vegna ógreiddra lífeyrissjóðsiðgjalda. Fyrirkall mun hafa verið birt fyrir forráðamanni félagsins vegna kröfu sýslumannsins í Hafnarfirði um gjaldþrotaskipti, þar sem boðað var að hún yrði tekin fyrir á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness 31. janúar 1997. Áður en til þess kom voru kröfurnar, sem sýslumaðurinn hafði til innheimtu fyrir áfrýjanda, greiddar í tveimur áföngum, annars vegar með innborgun að fjárhæð 184.156 krónur 9. janúar 1997 og hins vegar með 892.521 krónu 30. sama mánaðar. Síðargreinda daginn voru jafnframt greiddar kröfur Lífeyrissjóðs matreiðslumanna með samtals 646.939 krónum. Kröfur þessara tveggja lánardrottna um gjaldþrotaskipti voru afturkallaðar í kjölfarið. Hins vegar stóð þá eftir krafa um gjaldþrotaskipti á búi félagsins frá Íslandsbanka hf., sem taldi til kröfu á hendur því að fjárhæð alls 8.334.837 krónur. Á grundvelli hennar var kveðinn upp úrskurður um gjaldþrotaskipti á búi félagsins 21. mars 1997. Frestdagur við skiptin er 16. janúar 1997, en þann dag barst Héraðsdómi Reykjaness krafa Íslandsbanka hf. um gjaldþrotaskiptin.
Í málinu liggur fyrir ljósrit af víxli að fjárhæð 1.681.000 krónur, sem Eldun ehf. mun hafa látið af hendi til greiðslu kaupverðs samkvæmt fyrrnefndum samningi við Skútuna hf. Ber skjalið með sér að víxillinn hafi verið áritaður um greiðslu á 150.000 krónum, sem hafi verið inntar af hendi til sýslumannsins í Hafnarfirði 9. janúar 1997, og 1.539.460 krónum, sem hafi verið lagðar á reikning á nafni Skeiðarinnar ehf. við Búnaðarbanka Íslands 29. sama mánaðar. Sá reikningur var stofnaður síðastgreindan dag og nefnd fjárhæð greidd inn á hann. Samdægurs var öll innistæðan tekin aftur út af reikningnum með tveimur útborgunum, annars vegar að fjárhæð 646.939 krónur og hins vegar 892.521 króna. Eru þetta sömu fjárhæðir og greiddar voru Lífeyrissjóði matreiðslumanna og sýslumanninum í Hafnarfirði 30. janúar 1997, eins og áður er lýst.
Í málinu krefst stefndi riftunar á fyrrnefndum greiðslum til sýslumannsins í Hafnarfirði og endurgreiðslu úr hendi áfrýjanda á 1.042.521 krónu. Er þar um að ræða samtölu þeirra greiðslna, sem voru inntar af hendi til sýslumannsins af andvirði víxils Eldunar ehf., svo sem áður er lýst.
II.
Eins og málið liggur fyrir verður að leggja til grundvallar að Skeiðin ehf. hafi ekki átt aðrar eignir en fyrrnefndan víxil að fjárhæð 1.681.000 krónur áður en þær ráðstafanir voru gerðar í janúar 1997, sem krafa stefnda um riftun lýtur að. Samkvæmt kröfuskrá, sem skiptastjóri stefnda gerði að loknum kröfulýsingarfresti, hafa lánardrottnar félagsins, níu að tölu, lýst kröfum á hendur þrotabúinu að fjárhæð samtals 14.144.553 krónur. Af fyrrnefndri eign vörðu forráðamenn félagsins sem áður segir 1.042.521 krónu til að greiða að fullu kröfu áfrýjanda á hendur því. Nokkru fyrr lýsti forráðamaður félagsins það ófært við fjárnám um að greiða kröfu að fjárhæð 84.839 krónur. Í þessu ljósi verður að telja fjárhæðina, sem var greidd sýslumanninum í Hafnarfirði í þágu áfrýjanda 9. og 30. janúar 1997, hafa skert greiðslugetu félagsins verulega.
Þegar fyrri greiðsla Skeiðarinnar ehf. barst sýslumanninum í Hafnarfirði hlaut hann að hafa haft vitneskju um árangurslaust fjárnám, sem hann hafði sjálfur gert hjá félaginu nokkru áður. Þegar síðari greiðslan barst hafði sýslumaðurinn krafist gjaldþrotaskipta á búi félagsins. Vegna árangurslausa fjárnámsins gat sýslumanninum ekki dulist að félagið væri ógjaldfært, það stæði í skuld við aðra og engar horfur væru á að breytinga væri að vænta á gjaldfærni þess, enda var tekið fram við gerðina að það væri hætt starfsemi. Af þessum sökum gat sýslumanninum með engu móti virst greiðslan vera venjuleg eftir atvikum.
Samkvæmt framansögðu er fullnægt skilyrðum 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að rifta umræddum greiðslum Skeiðarinnar ehf. til áfrýjanda 9. og 30. janúar 1997, en því ákvæði verður beitt jöfnum höndum um greiðslur, sem eru inntar af hendi fyrir frestdag og eftir það tímamark. Þegar af þessari ástæðu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um kröfu stefnda um riftun.
Engin efni eru til að verða við kröfu áfrýjanda um lækkun á endurgreiðslukröfu stefnda. Verður áfrýjandi því dæmdur til að greiða stefnda 1.042.521 krónu með dráttarvöxtum frá 27. september 1997, en þá var mánuður liðinn frá því að skiptastjóri stefnda lýsti yfir riftun og krafði áfrýjanda fyrst um endurgreiðslu, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og mælt er fyrir um í dómsorði.
Dómsorð:
Ákvæði héraðsdóms um riftun skal vera óraskað.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda, þrotabúi Skeiðarinnar ehf., 1.042.521 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 27. september 1997 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 1. október 1998.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 4. september sl., að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað af þrotabúi Skeiðarinnar ehf., kt. 480875-0369, Ingólfsstræti 3, Reykjavík á hendur íslenska ríkinu, kt. 540269-6459, með stefnu þingfestri 18. desember 1997.
I.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að rift verði með dómi greiðslu skuldar með óvenjulegum greiðslueyri að fjárhæð krónur 1.042.521, sem inntar voru af hendi fyrst 9. janúar 1997 krónur 150.000 og síðan 30. janúar 1997 krónur 892.521, sbr. 134. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda krónur 1.042.521 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. síðari breytingar af krónum 150.000 frá 9. janúar 1997 til 30. janúar 1997, en af krónum 1.042.521 frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu, samkvæmt mati dómsins.
Til vara krefst stefnandi þess, að rift verði með dómi greiðslu skuldar, sem á ótilhlýðilegan hátt er stefnda til hagsbóta á kostnað annarra og sem leiðir til þess að eignir þrotamannsins verða ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, að fjárhæð krónur 1.042.521, fyrst 9.janúar 1997 krónur 150.000 og síðan 30. janúar 1997 krónur 892.521, sbr. 141. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst stefnandi þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda krónur 1.042.521 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. síðari breytingar af krónum 150.000 frá 9. janúar 1997 til 30. janúar 1997, en af krónum 1.042.521 frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu, samkvæmt mati dómsins.
Til þrautavara gerir stefnandi þær dómkröfur, að rift verði með dómi greiðslu skuldar, sem fram fór eftir frestdag að fjárhæð krónur 892.521, þann 30. janúar 1997, sbr. 139. gr. laga nr. 21/1991 og að rift verði með dómi greiðslu skuldar, sem á ótilhlýðilegan hátt er stefnda til hagsbóta á kostnað annarra og sem leiðir til þess að eignir þrotamannsins verða ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum, að fjárhæð krónur 150.000, þann 9. janúar 1997, sbr. 141. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda krónur 1.042.521 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. síðari breytingar af krónum 150.000 frá 9. janúar 1997 til 30. janúar 1997, en af krónum 1.042.521 frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu, samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnda verði tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt mati dómsins.
Til vara krefst stefndi þess, að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og að málskostnaður verði í því tilviki felldur niður.
II.
Stefnandi höfðar mál þetta til riftunar og endurgreiðslu á ráðstöfunum forsvarsmanna Skeiðarinnar ehf.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness uppkveðnum 21. mars 1997 var bú Skeiðarinnar ehf., kt. 480875-0369, tekið til gjaldþrotaskipta og héraðsdómslögmaðurinn Sigurbjörn Þorbergsson skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Frestdagur við skiptin var 16. janúar 1997. Félagið hafði áður heitið Skútan ehf. Við skiptameðferð var upplýst að eigendur félagsins, Eygló Sigurliðadóttir og Birgir Pálsson höfðu selt rekstur þess og lausafé til Eldunar ehf., en það félag var í eigu sona þeirra. Samkvæmt kaupsamningi dagsettum 1. mars 1996 var umsamið kaupverð hins selda krónur 1.681.000, er skyldi greiðast með víxli samþykktum af Eldun ehf., útgefnum 29. mars 1996 af Skútunni ehf. og með gjalddaga 1. febrúar 1997. Við skýrslutöku hjá skiptastjóra báru fyrirsvarsmenn hins gjaldþrota félags að félagið hefði hætt starfsemi í febrúar 1996 og fasteign félagsins verið seld á uppboði hinn 23. júlí 1996.
Lýstar kröfur í búið eru krónur 14.144.553, allt almennar kröfur, en kröfulýsingafrestur rann út 18. júní 1997. Auk þess barst krafa frá lífeyrissjóðnum Lífiðn, eftir lok kröfulýsingarfrests. Var þeirri kröfu lýst sem forgangskröfu, að fjárhæð krónur 114.451. Ekki hefur verið aflað samþykkis kröfuhafa fyrir því að krafan verði tekin á kröfuskrá, sbr. 1. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991.
Við rannsókn skiptastjóra á málefnum búsins kom í ljós að hinn 29. janúar 1997, 13 dögum eftir frestdag, voru lagðar inn á bankabók félagsins í Búnaðarbanka Íslands, Hafnarfirði, krónur 1.539.457. Sama dag var fyrrgreindur víxill áritaður um greiðslu og teknar út krónur 892.521. Hinn 30. janúar 1997 voru sýslumanninum í Hafnarfirði greiddar krónur 892.521 vegna ógreidds virðisaukaskatts. Hinn 9. janúar var víxillinn áritaður um innborgun að fjárhæð krónur 150.000 vegna greiðslu, sem samþykkjendur víxilsins inntu af hendi beint til sýslumannsins í Hafnarfirði. Sýslumanninum í Hafnarfirði voru greiddar krónur 184.156 hinn 9. janúar 1997, upp í vangoldinn virðisaukaskatt vegna tímabilsins janúar og febrúar 1996, er féll í gjalddaga 5. apríl 1996. Var greiðslu dags. 9. janúar 1997 ráðstafað í kostnað krónur 10.000, dráttarvexti krónur 25.925, álag krónur 33.557 og höfuðstól krónur 114.679. Greiðsla á kröfu vegna virðisaukaskatts dags. 30. janúar 1997,að fjárhæð krónur 892.521, var ráðstafað fyrst upp í kostnað vegna gjaldþrotaskiptabeiðni, krónur 3.000, en eftirstöðvum upp í höfuðstól að fjárhæð krónur 275.113. Af heildargreiðslunni fékkst síðan greidd virðisaukaskattkrafa vegna tímabilsins mars og apríl 1996, sem féll í gjalddaga hinn 5. júní 1996, að fjárhæð krónur 614.408 hinn 30. janúar 1997. Voru greiddar krónur 47.943 í dráttarvexti, krónur 51.497 í álag, en afganginum krónum 514.968 til lúkningar á virðisaukaskatti, sem var í vanskilum. Kröfur sem greiddar voru til stefnda vegna ógreidds virðisaukaskatts af kaupverði lausafjárins voru samtals krónur 1.042.521.
III.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína um riftun á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991 á því að ekki skipti máli í hvaða formi viðtakandi greiðslu fái hana í endanlegri mynd heldur beri að líta til þess í hvaða formi greiðslan var þegar hún fór frá hinum gjaldþrota aðila. Allar eignir félagsins hafi verið seldar nákomnum aðila og greiðslufrestur veittur á söluverði eigna félagsins. Þegar söluverð hafi verið greitt hafi því verið ráðstafað til greiðslu skulda við tvo kröfuhafa, stefnda og lífeyrissjóðinn Lífiðn, en vanskil við þessa aðila gátu varðað fyrirsvarsmenn félagsins, foreldra kaupendanna, sektum og varðhaldi vegna fjárdráttar, sbr. ákvæði 247. gr. laga nr. 19/1940. Byggir stefnandi á því, að hin riftanlega greiðsla hafi í raun verið í formi þeirra lausafjármuna sem ráðstafað hafi verið með kaupsamningnum, dagsettum 1. mars 1996. Þegar greiðslan hafi farið frá hinu gjaldþrota fyrirtæki hafi hún verið í formi eigna, sem ekki geti talist venjulegur greiðslueyrir. Byggir stefnandi á því, að ekki fari á milli mála, að peningarnir sem stefnda voru greiddir hafi verið andvirði hinna seldu muna enda megi rekja þessa peninga eftir áritun um greiðslu á bakhlið víxilsins og hreyfingalista bankabókar. Þá bendir stefnandi á, að sá sem tekið hafi við peningunum hafi verið sonur stjórnarformanns hins gjaldþrota félags og fyrirsvarsmaður þess félags, sem keypt hafi lausafjármuni gjaldþrota félagsins. Byggir stefnandi á því, að innlögn peninganna á bankabók í eigu hins gjaldþrota félags og úttekt þeirra samdægurs hafi verið til málamynda og í því skyni gert að komast hjá riftunarreglum gjaldþrotaskiptalaganna. Alltaf hafi staðið til að þessir peningar yrðu nýttir til greiðslu skulda við þessa tvo kröfuhafa. Þannig sé kaupverðið miðað við eftirstöðvar skulda við þessa aðila. Þá hafi krónur 150.000 verið greiddar beint til sýslumannsins í Hafnarfirði, sem innborgun inn á víxilinn.
Skiptastjóri telur ástæðu til að tortryggja þær dagsetningar, sem fram hafi komið um lok rekstrar hins gjaldþrota félags. Einnig sé mjög á reiki hvenær raunveruleg afhending hins selda lausafjár hafi verið. Viðskiptin með lausaféð hafi verið milli fjölskyldumeðlima eða nákominna í skilningi gjaldþrotalaga, sem allir hafi haft atvinnu af veitingarekstri þrotabúsins og reksturinn haldið óslitið áfram á sama stað undir sama nafni og í raun staðið að rekstrinum af sömu aðilum og rekið hafi hið gjaldþrota félag. Hvatinn að baki því að gert hafi verið upp að fullu við þessa tvo almennu kröfuhafa umfram aðra hafi að öllum líkindum verið tilraun til að komast hjá refsingu fyrir brot á 247. gr. almennra hegningarlaga.
Varakröfu sína byggir stefnandi á því að greiðslur þessar hafi farið fram 13 dögum eftir frestdag. Kröfuhöfum hafi þar með verið mismunað og greiðslan þannig á ótilhlýðilegan hátt verið stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Einu eignir hins gjaldþrota félags hafi verið seldar og andvirðinu skipt á milli tveggja kröfuhafa, sem fengið hafi kröfur sínar að fullu greiddar, en aðrir kröfuhafar ekki neitt.
Stefnandi byggir á því, að stefnda hafi ekki getað dulist að hið gjaldþrota félag átti í fjárhagsörðuleikum. Þá bendir stefnandi á, að hefði greiðslan ekki átt sér stað hefði við úthlutun úr þrotabúinu verið unnt að úthluta upp í um það bil 10% lýstra krafna. Í þessu sambandi verði að líta til megintilgangs gjaldþrotaskipta að tryggja jafna stöðu kröfuhafa, þar sem gjaldþrotaskipti séu í grundvallaratriðum sameiginleg fullnustuaðgerð allra lánardrottna.
Þrautavarakröfu sína um riftun á grundvelli 139. gr. laga nr. 21/1991 byggir stefnandi á því, að um riftanlega greiðslu hafi verið að ræða, þar sem greiðsla á krónum 892.521 hafi verið innt af hendi eftir frestdag, eða þann 30. janúar 1997. Stefndi hafi haft kröfu sína í vanskilainnheimtu og verið eða mátti vera kunnugt um verulega fjárhagsörðugleika hins gjaldþrota félags. Árangurslaust fjárnám hafi verið gert hjá félaginu hinn 26. nóvember 1996 og hafi gerðin farið fram á skrifstofu innheimtumanns ríkissjóðs.
Kröfu um riftun greiðslu, sem fram fór hinn 9. janúar 1997, að fjárhæð krónur 150.000, byggir stefnandi á sömu málsástæðu og í varakröfu
Stefnda var hinn 27. ágúst 1997 sent bréf, þar sem lýst var yfir riftun á hinum umstefndu ráðstöfunum.
Stefnandi byggir kröfu um greiðslu stefnufjárhæðar á 142. gr. laga nr. 21/199.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1991.
Kröfu um vexti byggir stefnandi á ákvæðum vaxtalaga nr. 25/1987.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991
IV.
Stefndi byggir kröfu sína á því að hvorki séu efni til að fallast á riftun þeirrar greiðslu, sem fram fór hinn 9. janúar 1997 né hinn 30. janúar 1997. Greiðslurnar hafi ekki verið óvenjulegar eða ótilhlýðilegar og eðli sínu samkvæmt ekki á kostnað annarra kröfuhafa. Í fyrra tilvikinu hafi að minnsta kosti verið um að ræða greiðslu fyrir frestdag, en nokkuð sé á reiki hver hann hafi verið. Hafi frestdagur verið 16. febrúar 1997 miðað við það sem segi í úrskurði Héraðsdóms Reykjaness um það hvenær gjaldþrotabeiðni hafi borist dóminum, en mánuði fyrr eftir því sem haldið sé fram í stefnu og ráða megi af móttökustimpli héraðsdóms.
Stefndu mótmæla kröfu stefnanda á grundvelli 134. gr. laga nr. 21/1991. Engu skipti gagnvart stefnda hvaða viðskipti forráðamenn hins gjaldþrota félags hafi átt í áður en staðið hafi verið skil á lögboðnum gjöldum til stefnda. Stefndi sé á engan hátt nákominn hinu gjaldþrota fyrirtæki eða fyrirsvarsmönnum þess. Telur stefndi að reglur gjaldþrotaskiptalaga um riftun og endurgreiðslur vegna ráðstafana til nákominna séu bundnar við það er greiðslum sé ráðstafað til þeirra. Riftunarmál verði því ekki höfðað á hendur öðrum en þeim nákomnu, sem við greiðslum hafi tekið. Stefndi eigi ekki aðild að riftunarmáli sem höfðað sé á þeim grundvelli að greiðslur hafi verið inntar af hendi til nákominna og beri að sýkna stefnda af málatilbúnaði þess efnis, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Stefndi byggir á því, að greiðslur til stefnda hafi ekki verið með óvenjulegum greiðslueyri, heldur með peningum. Mótmælir stefndi því, að greiðslur hafi verið í formi lausafjármuna, sem seldir hafi verið 1. mars 1996. Þótt svo hafi verið hafi sú ráðstöfun átt sér stað löngu fyrir tímamark 1. mgr. 134. gr., en 2. mgr. þeirrar greinar geti ekki átt við, þar sem stefndi sé ekki nákominn hinu gjaldþrota félagi.
Þá telur stefndi málið vanreifað hvað varði þann málatilbúnað stefnanda, að kröfur stefnda um skil á virðisaukaskatti hafi verið vegna hinna seldu lausafjármuna. Greiðslurnar hafi ekki verið inntar af hendi fyrr en eðlilegt hafi verið, enda hafi þær verið fallnar í gjalddaga. Þá sé ósannað að greiðslurnar hafi skert greiðslugetu þrotamanns verulega. Líta beri til þess, að um lögboðin skil á virðisaukaskatti hafi verið að ræða, sem virðisaukaskattskyldum aðila hafi verið skylt að efna að viðlagðri refsiábyrgð. Um sé að ræða vörsluskatt eða veltuskatt af vöru og þjónustu, sbr. upphafsákvæði 3. gr. laga nr. 50/1988 sbr. og 40. gr. sömu laga. Skil á vörsluskatti hafi verið óviðkomandi greiðslugetu hins gjaldþrota félags, þar sem skilyrðislaust hafi borið að skila skatti af þeim viðskiptum, sem álagningin hafi sprottið af. Greiðslan hafi því verið venjuleg eftir atvikum.
Stefndi mótmælir varakröfum stefnanda byggðum á 141. gr. gjaldþrotaskiptalaga og telur skilyrði hennar ekki uppfyllt í málinu. Byggir stefndi á því, að lögboðin skil á virðisaukaskatti geti aldrei talist ótilhlýðileg ráðstöfun eða verið til hagsbóta stefnda á kostnað annarra kröfuhafa. Engu máli skipti í þessu sambandi gagnvart stefnda á hvern hátt viðskipti eða sala lausafjár hafi átt sér stað áður en greiðslan hafi borist stefnda. Kröfu um riftun eða endurgreiðslu vegna ótilhlýðilegra ráðstafana á eignum eða öðru verði aðeins beint að þeim aðila, sem tekið hafi við slíkri greiðslu. Stefndi eigi ekki aðild að máli um það hvort og að hvaða leyti ráðstafanir forráðamanna Skeiðarinnar ehf. hafi verið ótilhlýðilegar á þann hátt sem stefnandi telji. Þá hafi stefnandi ekki leitt líkur að því að Skeiðin ehf. hafi verið ógjaldfær er greiðslan hafi farið fram eða að félagið hafi orðið það vegna greiðslna til stefnda.
Stefndi mótmælir þrautavarakröfum stefnanda byggðum á 139. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Í fyrsta lagi taki ákvæðið aðeins til ráðstafana sem fram fari eftir frestdag. Einnig byggir stefndi á því, að forráðamönnum Skeiðarinnar ehf. hafi verið nauðsynlegt og lagalega skylt að standa skil á virðisaukaskatti, enda hefðu þeir að öðrum kosti orðið persónulega bótaskyldir vegna tjóns sömu fjárhæðar og skattinum hafi numið og hugsanlega bakað sér refsiábyrgð ef hún hafi ekki þegar verið komin til.
Stefndi byggir og á því, að enda þótt sýslumanni hefði verið kunnugt um greiðsluvanda Skeiðarinnar ehf. sé það ekki nægilegt skilyrði til að fallast á kröfur stefnanda í einhverjum atriðum. Starfsmönnum stefnda hafi ekki verið kunnugt um að gjaldþrotaskiptabeiðni hefði komið frá Íslandsbanka hf. eða að einkahlutafélagið hefði verið ógjaldfært er greiðslan fór fram. Hafi ekkert bent til ógjaldfærni er krafa stefnda fékkst að fullu greidd í janúarmánuði 1997.
Stefndi mótmælir sérstaklega fjárkröfum stefnanda byggðum á 142. gr. gjaldþrotaskiptalaga, þar sem ekki séu uppfyllt skilyrði riftunar samkvæmt framansögðu.
Stefndi telur, að eðli máls samkvæmt geti riftunarreglur gjaldþrotalaga eða ákvæði 142. gr. laganna ekki átt við um skil á virðisaukaskatti. Óeðlilegt sé og andstætt megininntaki þeirra reglna, sbr. fyrrgreind ákvæði laga um virðisaukaskatt, að stefndi skili til baka virðisaukaskatti.
Stefndi telur ekki skilyrði til að fallast á riftunarkröfur stefnanda að fullu. Taki riftun einungis til þeirra ráðstafana, að því leyti sem ákvæði gjaldþrotaskiptalaga, sem stefnandi byggi á, nái til og teljist uppfyllt í málinu. Jafnhliða og til stuðnings lækkunarkröfu sinni byggir stefndi á því, að einungis þær ráðstafanir sem ekki hafi beinlínis lotið að skilum á virðisaukaskatti, sæti riftun. Taki riftun og endurgreiðsla í því tilviki einungis til dráttarvaxta, álags og kostnaðar. Þá byggir stefndi lækkunarkröfu sína einnig á því að engin efni séu til að fallast á riftun og endurgreiðslu vegna þeirra ráðstafana sem fram hafi farið 9. janúar 1997, eða fyrir frestdag. Krefst stefndi því, að einungis verði í því tilviki viðurkennd riftun á 102.440 krónum, sem sé greiddur kostnaður krónur 3.000, dráttarvextir krónur 47.943 og álag krónur 51.497, en engin efni séu til að fallast á riftun höfuðstóls, þ.e. þeim virðisaukaskatti að fjárhæð krónur 790.081, sem skylt hafi verið að skila.
Verði fallist á riftun þeirrar ráðstöfunar, sem fram hafi farið 9. janúar 1997, krefst stefndi þess að einungis komi til riftunar á greiðslu að fjárhæð krónur 171.917 og eftir atvikum endurgreiðsla á þeirri fjárhæð, eða krónur 13.000 í kostnað, dráttarvextir krónur 73.863 og álag krónur 85.054.
Stefndi krefst þess, verði ekki á þessi rök hans fyrir lækkun fallist, að aðeins komi til riftunar á greiðslu að fjárhæð krónur 892.521 og greiðslu þeirrar fjárhæðar til stefnanda, en ekki fallist á kröfur stefnanda er lúti að riftun og endurgreiðslu vegna þeirra ráðstafana, sem fram fóru 9. janúar 1997, eins og málatilbúnaði stefnanda sé háttað. Vísar stefndi í því sambandi til áðurgreindra málsástæðna sinna, að ekki séu efni til riftunar á þeirri ráðstöfun sem fram hafi farið fyrir frestdag.
Stefndi mótmælir upphafstíma dráttarvaxta og telur að miða eigi hann við þingfestingardag eða dómsuppkvaðningu eða samkvæmt mati dómsins, sbr. 3. og 4. mgr. 9. gr. laga nr. 25/1987. Telur stefndi, að í fyrsta lagi sé unnt að dæma dráttarvexti frá 27. september 1997, er mánuður var liðinn frá bréfi skiptastjóra til sýslumannsins í Hafnarfirði.
Stefndi byggir kröfu sína um málskostnað á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V.
Stefndi var úrskurðaður gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness hinn 21. mars 1997. Frestdagur var 16. janúar 1997. Eins og fram hefur komið hætti félagið Skeiðin ehf. rekstri í febrúar 1996 og seldu eigendurnir rekstur þess og lausafé til ehf. Eldunar, sem var í eigu sona þeirra. Kaupsamningur vegna þessa er dagsettur 1. mars 1996 og var kaupverð hins selda krónur 1.681.000, sem greiðast skyldi með víxli, samþykktum af Eldun ehf. með gjalddaga 1. febrúar 1997.
Stefnandi byggir aðalkröfu sína á 134. gr. laga nr. 21/1991. Byggir hann þá kröfu sína á þeirri málsástæðu, að greiðslan hafi í raun verið í formi þeirra lausafjármuna, sem ráðstafað hafi verið með kaupsamningnum og því hafi verið greitt með óvenjulegum greiðslueyri. Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. gjaldþrotalaga er unnt að krefjast riftunar á greiðslu skuldar á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag ef greitt er með óvenjulegum greiðslueyri. Þar sem stefnandi byggir á því, að greiðslu hafi verið ráðstafað til stefnda með kaupsamningi 1. mars 1996, liðu meira en sex mánuðir frá þeirri ráðstöfun og þar til Skeiðin ehf. varð gjaldþrota. Þá eru stefndi og Skeiðin ehf. ekki nákomnir í skilningi 2. mgr. sömu greinar og verður riftun því þegar af þeirri ástæðu ekki studd við 134. gr. laga nr. 21/1991.
Kemur þá til athugunar hvort riftun verði reist á 141. gr. gjaldþrotalaga. Kemur þá fyrst til álita hvort félagið hafi verið gjaldfært, þegar það greiddi inn á skuld sína við stefnda á framangreindan hátt. Samkvæmt því sem fram er komið var andvirði hinna seldu eigna eina eign félagsins, en það hafði hætt rekstri í febrúar 1996 og fasteign þess seld á nauðungaruppboði í júlí 1996. Með vísan til þess telur dómurinn í ljós leitt, að félagði hafi verið ógjaldfært, þegar það greiddi stefnda á framangreindan hátt. Umsamið kaupverð hins selda var, eins og fram er komið krónur 1.681.000 og lýstar kröfur í búið voru að fjárhæð krónur 14.144.553. Greiðsla á krónum 1.042.521 til eins af kröfuhöfum verður að teljast ótilhlýðileg. Þó svo virðisaukaskattur sé vörsluskattur þá er rétthæð þeirra krafna á hendur þrotabúi almenn krafa í búið og hefur því ekki sérstöðu að því leyti.
Kemur þá næst til athugunar hvort stefndi hafi vitað eða mátt vita um fjárhagsstöðu Skeiðarinnar ehf. og greiðslan til stefnda hafi verið ótilhlýðileg eins og á stóð. Skuld Skeiðarinnar við stefnda var í vanskilum er umrædd greiðsla fór fram. Samkvæmt gögnum málsins hafði sýslumaðurinn í Hafnarfirði sent aðfararbeiðni á félagið í nóvember 1996, en sú beiðni var afturkölluð. Jafnframt liggur fyrir að á þeim tíma hafði verið gert árangurslaust fjárnám hjá félaginu og í janúar 1997 óskar innheimtumaður ríkissjóðs eftir gjaldþrotaskiptum á félaginu. Með vísan til þessa verður að telja nægilega fram komið að stefndi hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærni Skeiðarinnar ehf. bæði skömmu fyrir frestdag og eftir frestdag og þar með að greiðslan var ótilhlýðileg og til þess fallin að mismuna kröfuhöfum. Ber því að fallast á varakröfu stefnanda um að rift verði með dómi greiðslu skuldar, að fjárhæð krónur 1.042.521, fyrst 9. janúar 1997, krónur 150.000 og síðan 30. janúar 1997 krónur 892.521. Þá ber að fallast á kröfu stefnanda um bætur samkvæmt 142. gr. 3. mgr. laga nr. 21/1991, eins og þær eru settar fram í varakröfu hans, enda hefur ekki verið sýnt fram á að tjón stefnanda sé minna en þar er greint. Þá ber að dæma stefnda til að greiða vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. janúar 1997 af krónum 150.000 til 30. janúar 1997, af krónum 1.042.521 til þess dags er riftun var lýst yfir, eða 27. ágúst 1997, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags eins og krafist er í stefnu.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda til þess að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn krónur 200.000.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp dóm þennan.
Dómsorð:
Greiðslu Skeiðarinnar efh. til stefnda, að fjárhæð krónur 150.000 hinn 9. janúar 1997 og krónur 892.521 hinn 30. janúar 1997 er rift.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, þrotabúi Skeiðarinnar ehf., krónur 1.042.521, ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. laga nr. 25/1987 frá 9. janúar 1997 af krónum 150.000 til 30.janúar 1997, en af krónum 1.042.521 frá þeim degi til 27. ágúst 1997, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda krónur 200.000 í málskostnað.