Hæstiréttur íslands
Mál nr. 336/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Hæfi dómara
|
|
Miðvikudaginn 22. maí 2013. |
|
Nr. 336/2013.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Kærumál. Dómarar. Hæfi.
Dómur héraðsdóms í máli ákæruvaldsins gegn X var ómerktur af Hæstarétti vegna tiltekinna ágalla á meðferð málsins. Þegar það var aftur tekið fyrir í héraði krafðist X þess að þeir dómarar sem dæmt höfðu í málinu vikju sæti. Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms þar sem kröfu X var hafnað. Vísað var til þess að héraðsdómararnir væru ekki bundnir af fyrri úrlausn sinni í málinu. Þá hefði X ekki bent á önnur atvik eða aðstæður sem gætu verið til þess fallnar að draga óhlutdrægni dómaranna með réttu í efa, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2013 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að Arngrímur Ísberg héraðsdómari og meðdómsmennirnir Elsa Lára Arnardóttir og Guðrún Karlsdóttir vikju sæti í máli sóknaraðila gegn varnaraðila. Um kæruheimild er vísað til a. liðar 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði er það meginregla sakamálaréttarfars að héraðsdómari getur leyst efnislega úr máli þótt dómur, sem hann hefur kveðið upp í því, hafi verið ómerktur af æðra dómi, enda er hann ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni í málinu. Samkvæmt því verður ekki talið að ákvæði g. liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 standi almennt í vegi fyrir því að héraðsdómari leysi að nýju úr máli þegar þannig háttar til. Undantekning er gerð frá fyrrgreindri meginreglu í 3. mgr. 208. gr. laganna, en þar er svo fyrir mælt að hafi héraðsdómur verið ómerktur fyrir þá sök, að niðurstaða dómara um sönnunargildi munnlegs framburðar kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, megi þeir dómarar, sem skipa dóm í málinu við nýja meðferð þess í héraði, ekki vera hinir sömu og áður fóru með það. Hafi héraðsdómur verið ómerktur af öðrum ástæðum er á hinn bóginn ekkert því til fyrirstöðu að sömu dómarar leggi dóm á málið að nýju, sbr. dóm Hæstaréttar 4. júlí 2012 í máli nr. 466/2012.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. maí 2013.
Með dómi 28. september 2012 var ákærði sakfelldur fyrir nauðgun og dæmdur í 2 ára fangelsi. Hæstiréttur ómerkti dóminn 24. apríl síðastliðinn og vísaði málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar. Ástæða ómerkingarinnar var sú að héraðsdómari hafði hafnað kröfu verjanda ákærða um að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta hvort aðferðir hans við nuddið væru viðurkenndar.
Málið var tekið fyrir 13. maí síðastliðinn og dómur Hæstaréttar lagður fram. Í þinghaldinu krafðist verjandi ákærða þess að dómendur vikju sæti. Verjandinn kvað dómendur þegar hafa tekið afstöðu til sektar ákærða og trúverðugleika framburðar hans og vitna. Auk þess hafi þeir tekið afstöðu til aðferða hans við nuddið og þar með talið skýringar hans ótrúverðugar. Sækjandinn mótmælti kröfunni og krafðist þess að kröfunni yrði hafnað.
Það er meginregla sakamálaréttarfars að héraðsdómari getur leyst efnislega úr máli þótt dómur, sem hann hefur kveðið upp í því, hafi verið ómerktur af Hæstarétti, enda er hann ekki bundinn af fyrri úrlausn sinni í málinu. Samkvæmt þessu standa ákvæði g-liðar 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 almennt ekki í vegi fyrir því að héraðsdómari leysi að nýju úr máli þegar þannig háttar til. Önnur ákvæði þessarar málsgreinar eiga heldur ekki við í málinu. Í 2. mgr. 6. gr. segir að dómari sé vanhæfur til að fara með mál, hafi hann úrskurðað ákærða í gæsluvarðhald samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laganna. Því er heldur ekki til að dreifa í málinu. Loks er þess að geta að Hæstiréttur vísaði ekki til 3. mgr. 208. gr. laganna í dómi sínum. Samkvæmt því ákvæði mega sömu dómarar ekki dæma mál að nýju hafi Hæstiréttur ómerkt dóm vegna þess að hann taldi mat dómaranna á sönnunargildi munnlegs framburðar rangt svo einhverju skipti við úrlausn málsins.
Samkvæmt því sem nú hefur verið rakið eru ekki lagaskilyrði til þess að verða við kröfu ákærða um að dómarar málsins víki sæti og er henni hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð.
Dómarar í máli ákæruvaldsins gegn X víkja ekki sæti.