Hæstiréttur íslands
Mál nr. 289/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Vitni
|
|
Miðvikudaginn 2. maí 2012. |
|
Nr. 289/2012: |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (enginn) Y (Oddgeir Einarsson hdl.) Z (enginn) Þ (enginn) Æ og (Björgvin Halldór Björnsson hdl.) Ö (Arnar Þór Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Vitni.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem ákæruvaldinu var á grundvelli 2. málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála meinað að leiða fyrir dóminn sem vitni lögreglumann sem komið hafði að gerð skýrslu um starfsemi tiltekinna samtaka á Íslandi. Hæstiréttur vísaði til þess að lögreglumaðurinn hafði komið að rannsókn málsins og heimilaði að lagðar yrðu fyrir hann spurningar um skýrsluna, að því marki sem efnið lyti að sakargiftum á hendur ákærðu í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. apríl 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. apríl 2012, þar sem sóknaraðila var meinað að leggja spurningar fyrir vitnið A lögreglumann um efni skýrslu sem ber yfirskriftina „Starfsemi [...] á Íslandi“ og lögð hefur verið fram í málinu. Kæruheimild er í c. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og honum heimilað að leggja spurningar fyrir vitnið um efni skýrslunnar.
Varnaraðilarnir Y, Æ og Ö krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar, hver fyrir sitt leyti.
Varnaraðilarnir X, Z og Þ hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt fyrri málslið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 er það meginregla að hverjum manni er skylt að koma fyrir dóm og svara spurningum sem beint er til hans um málsatvik. Vitnaskylda í sakamáli er því bundin við að maður geti borið um málsatvik sem hann hefur skynjað af eigin raun. Frá þessari meginreglu er í síðari málslið sömu lagagreinar gerð undantekning þegar um er að ræða þann sem veitt hefur ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf, annað hvort við rannsókn máls eða ákvörðun um málsókn áður en mál er höfðað.
Eins og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu í dómi sínum 23. apríl 2012 í máli nr. 271/2012 að tveir af höfundum framangreindrar skýrslu yrðu ekki leiddir sem vitni í máli þessu vegna þess að þeir hafi ekki veitt lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf í skilningi síðari málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Öðru máli gegnir um vitnið A er hefur samkvæmt gögnum málsins komið að rannsókn þess sem lögreglumaður.
Í ákæru er varnaraðilum meðal annars gefið að sök að hafa brotið gegn 175. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með þátttöku í skipulagðri brotastarfsemi á vegum samtaka sem falli undir 2. mgr. lagagreinarinnar, sbr. 5. gr. laga nr. 149/2009. Í lögum nr. 88/2008 eru almennt ekki settar skorður við því að spurningum sé beint til vitna, sem leidd eru fyrir dóm, í því skyni að upplýsa mál nema þær séu tilgangslausar til sönnunar, sbr. 3. mgr. 110. gr. laganna. Að teknu tilliti til þessa er fallist á með sóknaraðila að heimilt sé að spyrja umrætt vitni um efni skýrslunnar að því marki sem efnið lýtur að sakargiftum í máli þessu.
Dómsorð:
Heimilt er að leggja spurningar fyrir vitnið A um efni skýrslu, sem ber yfirskriftina „Starfsemi [...] á Íslandi“, að því marki sem efnið lýtur að sakargiftum á hendur ákærðu í málinu.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 25. apríl 2012.
Mál þetta var tekið til úrskurðar fyrr í dag.
Aðalmeðferð í málinu hófst mánudaginn 23. apríl sl. Við skýrslutöku af vitninu A lögreglumanni fyrr í dag var því mótmælt af hálfu verjenda allra ákærðu í málinu að sækjandi legði spurningar fyrir vitnið um efni skýrslu rannsóknarhóps „í vélhjólagengjum“ á vegum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum sem ber yfirskriftina: „Starfsemi [...] á Íslandi“, en skýrslan er á meðal gagna málsins, sbr. dskj. nr. 29.
Sækjanda og verjendum var gefinn kostur á að tjá sig stuttlega um ágreiningsefnið og að svo búnu var málið tekið til úrskurðar.
Sækjandi krafðist þess að ákæruvaldi yrði heimilað að leggja spurningar fyrir framangreint vitni um efni skýrslunnar á dskj. nr. 29. Fram hefði komið hjá vitninu að B [...]lögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hefði falið vitninu að rita umrædda skýrslu á dskj. nr. 29 vegna rannsóknar á því broti, sem til meðferðar væri í þessu máli og að vitninu hefði verið falið að kanna það og meta hvort brotið væri liður í starfsemi skipulagðra brotasamtaka. Samkvæmt framansögðu lægi fyrir að skýrslan hefði verið samin í tilefni af rannsókn þessa máls og að vitnið væri höfundur hennar. Jafnframt lægi það fyrir að vitnið væri lögreglumaður, sem komið hefði að rannsókn málsins og hefði jafnframt unnið að almennri rannsókn lögreglu á ætlaðri brotastarfsemi [...] á Íslandi.
Af hálfu verjenda ákærðu var á það bent að í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 271/2012 kæmi fram að efni skýrslunnar væri almenn umfjöllun um starfsemi [...] á Íslandi og að hún væri hvorki samin í tilefni af atvikum þessa máls né væru atvik þess sérstakt umfjöllunarefni skýrslunnar, þótt þeirra væri þar getið. Þá bentu verjendur á það að skýrslan væri dagsett í apríl 2012, þ.e. eftir útgáfu ákæru í málinu. Höfundar skýrslunnar gætu því ekki talist hafa veitt ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf í skilningi síðari málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008.
Niðurstaða:
Fram kom hjá vitninu A lögreglumanni að vitninu hefði verið falið að rita áðurgreinda skýrslu á dskj. nr. 29 í tilefni af rannsókn á þeim brotum, sem til meðferðar væru í þessu máli og kvaðst vitnið hafa ritað skýrsluna undir leiðsögn B [...]lögregluþjóns hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands frá 23. apríl sl., í máli nr. 271/2012, er efni skýrslunnar hins vegar almenn umfjöllun um starfsemi samtaka [...] á Íslandi og fjallar ekki sérstaklega um atvik þessa máls, þótt þeirra sé þar getið. Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að höfundar skýrslunnar gætu því ekki talist hafa veitt ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf í skilningi síðari málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008 og hafnaði rétturinn því kröfu ákæruvalds um að leiða nafngreinda menn, sem komið hefðu að gerð skýrslunnar, sem vitni í málinu fyrir héraðsdóm.
Með vísan til umfjöllunar Hæstaréttar í máli nr. 271/2012 um efni og tilurð skýrslunnar verður ekki talið að með ritun hennar hafi vitnið A veitt ákæruvaldi eða lögreglu sérfræðilega aðstoð eða ráðgjöf í skilningi síðari málsliðar 1. mgr. 116. gr. laga nr. 88/2008. Í þessu sambandi þykir engu breyta þótt vitnið hafi komið að rannsókn málsins að öðru leyti sem lögreglumaður. Samkvæmt framansögðu ber því að hafna kröfu sækjanda um að ákæruvaldinu verði heimilað að leggja spurningar fyrir vitnið um efni skýrslunnar á dskj. nr. 29.
Ragnheiður Bragadóttir héraðsdómari, Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari og Jón Höskuldsson héraðsdómari kveða upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Ákæruvaldi er óheimilt að leggja spurningar fyrir vitnið A lögreglumann um efni skýrslu á dómskjali nr. 29.