Hæstiréttur íslands

Mál nr. 31/2012


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


                                     

Fimmtudaginn 14. júní 2012.

Nr. 31/2012.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Axel Nicolai Michaelsen

(Sigurður Sigurjónsson hrl.

Torfi Ragnar Sigurðsson hdl.)

(Jón Magnússon hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur. Sératkvæði.

AN var ákærður fyrir kynferðisbrot með því að hafa farið með stúlkuna A, sem þá var 14 ára, gegn hennar vilja á afvikinn stað í húsasundi og þvingað hana til að hafa þar við sig samræði og munnmök auk þess sem AN hafði munnmök við stúlkuna. Brot AN voru talin sönnuð og var hann sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ákvörðun refsingar var litið til líkamlegra og andlegra afleiðinga brotsins á A auk ungs aldurs bæði AN og A. Var AN dæmdur í 2 ára fangelsi og til að greiða A 1.200.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. desember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

Fyrir Hæstarétti hefur ákærði réttilega gert athugasemd við að í héraðsdómi sé ranghermt að frásögn hans um að hann hafi haft sáðlát í leggöng brotaþola fái ekki samrýmst skýrslu tæknideildar lögreglu. Þetta fær því ekki breytt að með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Fallast ber á þá niðurstöðu héraðsdóms að ákærði hafi vitað að stúlkan var fædd á árinu 1995 en ekki spurt um það nánar og því engu skeytt um hvort hún væri orðin 15 ára. Telst brot hans því einnig varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga eins og í ákæru greinir.

Að virtu framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 681.187 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

I

Ákærði og A hittust aðfaranótt 18. júlí 2010 á svokallaðri [...] á [...]. Létu þau vel hvort að öðru í vitna viðurvist og gengu saman um 400 metra að grunnskólanum að [...] þar í bæ. Bæði bera þau að ákærði hafi haldið utan um A. Ákærði kveðst einungis hafa gert það hluta leiðarinnar og nefndi einnig að meðan á göngu þeirra stóð hafi hann farið afsíðis til að kasta af sér vatni. A kvaðst ekki muna nákvæmlega eftir atvikum á leiðinni. Fóru þau á afvikin stað í húsasundi við skólann og höfðu þar samræði. Ekki ber þeim saman um hvort ákærði hafi þvingað A til að fara með sér í skotið og neytt hana þar til samræðis.

Spurðist út meðal unglinga á svæðinu að þau tvö hefðu átt samræði. Eins og greinir í héraðsdómi var framkoma ákærða eftir þetta afar lítilsvirðandi í garð A. Gortaði hann meðal annars af því að hafa haft samfarir við hana. Lýsti ákærði því einnig að hann hefði gengið fram á vinkonuhóp A og „einhver“ vinkonan hafi gengið að sér og kallað sig fávita og fífl fyrir að hafa „sofið hjá“ A sem rétt nýverið hefði hætt með kærasta sínum. Fram er komið að eftir atvikið var A mjög beygð og grátandi. Varð það tilefni þess að lögregla hafði afskipti af henni laust eftir klukkan þrjú um nóttina. A fór í fylgd foreldra sinna og lögreglu á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota og kom hún þangað um klukkan fimm um morguninn Hafði hún þá sagt lögreglu að sér hefði verið nauðgað, sýnt lögreglu vettvang og bent henni á ákærða sem var handtekinn. Samkvæmt skýrslu lögreglu var honum „augsýnilega mjög brugðið“ við afskipti lögreglu og sagði strax að þau A hefðu haft samræði með vilja beggja. 

II

Fallist er á með héraðsdómi að við niðurstöðu málsins skuli líta til aðstæðna á vettvangi, sem var skot í litlu húsasundi þar sem undirlagið var jarðvegur, sandur og möl, og þess að A, sem var á blæðingum, var með töluverð sár á báðum hnjám eftir samskipti hennar við ákærða og í verulegu ójafnvægi eftir þau. Mun hún vera með ör á öðru hné eftir að hafa fengið illt í sárið en umfang örsins verður ekki ráðið af gögnum málsins. Á hinn bóginn sýna ljósmyndir teknar á neyðarmóttöku töluverð sár á hnjám hennar.

Framburður ákærða og A er ítarlega rakinn í héraðsdómi. Eins og þar greinir kvaðst hún ekki muna nákvæmlega eftir atvikum í húsasundinu. Verður að miða við framburð ákærða um að það hafi verið í lok samfaranna sem hún hafi verið á fjórum fótum eftir að hafa setið klofvega ofan á ákærða þar sem hann lá á jakka sínum.

Héraðsdómur mat framburð A trúverðugan en hvorki var talið skipta máli við það mat að hún hefði skömmu eftir atvik viðhaft þau orð við vitnið E að hún hefði „riðið Axel Páls“ né að hún væri ekki viss um tímaröð atvika. Er vísað til þess að A var samkvæmt framburði annarra vitna augljóslega í miklu uppnámi. Auk þessa verður að nefna að A lýsti því fyrst fyrir héraðsdómi að ákærði hefði haft samfarir við hana þar sem hún stóð upp við vegg. Þá kvaðst A fyrir dómi ekki muna eftir því hvort ákærði hefði lagt jakka sinn á jörðina eins og hún hafði borið í Barnahúsi.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að framburður ákærða fyrir dómi hafi í öllum meginatriðum verið í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu, en tiltók þó tvennt er rýri framburð hans. Er fallist á ályktun héraðsdóms að ekki sé fullt samræmi í frásögn ákærða um orðaskipti hans og A meðan þau voru í húsasundinu. Á hinn bóginn er röng ályktun héraðsdóms um að framburður ákærða þess efnis að hann hafi haft sáðlát í leggöng A fái ekki samrýmst skýrslu tæknideildar lögreglu. Samkvæmt niðurstöðum úr svokölluðum for- og staðfestingarprófum lögreglu fundust leifar af sæði við barma, leggangsop, leggangatopp og legháls A, þótt ekki væru þau sýni nothæf til DNA kennslagreiningar. Þá bar ákærði að sæði hafi „farið út um allt“ en hann hafi reynt að taka lim sinn úr henni áður en hann fékk sáðlát svo sæði færi ekki inn í leggöng A.

III

Í héraðsdómi er ítarlega rakinn framburður vitna. Vitnið E hitti A á útihátíðinni rétt eftir atvikið. Í dómskýrslu sem tekin var í Barnahúsi bar E svo um þeirra fund: „...hún sagði bara: „Ég reið Axel Páls“ og ég bara okey svo löbbuðum við, hún sagði: „Ég verð að komast í þvottavél“ útaf öll fötin hennar voru skítug og eitthvað og hún vildi ekki að mamma hennar og pabbi kæmust að þessu og svo sagði hún eitthvað skilurðu svo allt í einu kom geðveikt mikið af fólki þá sagði hún að hún var nauðgað og ég veit samt ekki því skilurðu hún sagði við mig að hún hefði leyft honum að gera eitthvað með sér.“ Nánar aðspurð um þessi orð sín sagði vitnið: „Hún sagði: Ég leyfði þetta en svo hætti ég við og núna sé ég geðveikt mikið eftir þessu“ og ég bara eitthvað ég skildi hana ekki þannig að ég skil ekkert í þessu máli.“ Enn og aftur spurð sagði vitnið: „Sko A hún sagði sko eitthvað: „Ég leyfði þetta“ og ég bara okey „en ég sé samt geðveikt mikið eftir þessu“ sagði hún og ég bara okey skilurðu og ég vissi ekkert ég vissi ekkert að þetta væri nauðgun fyrr en skilurðu einhver sagði mér að hún væri farin heim með löggubíl og eitthvað útaf hún talaði eins og þetta væri ekki þannig en samt einhvern veginn eitthvað smá út af því að hún sagðist hafa hætt við eða eitthvað.“ Vitnið sagði A hafa kvartað undan eymslum í hnjánum og sagt að hún vissi ekki af hverju. Vitnið taldi A hafa að líkindum verið undir áhrifum áfengis. Í síðari skýrslu sinni fyrir við aðalmeðferð máls kom fram hjá vitninu að hún teldi sig síðar hafa skilið betur hvað gerst hefði eftir að þær vinkonurnar hafi talað um þetta sín á milli. Þrátt fyrir síðari skýringar vitnisins verður ekki litið fram hjá því framburður hennar er ákærða í hag um atriði sem máli skipta.

Í héraðsdómi er rakinn framburður vitnisins S um að hann hafi séð ákærða og A og talið þau vera í samförum. Hafi hún þá verið ofan á ákærða sem legið hafi jakkalaus á jörðinni. Kvaðst vitnið ekki hafa „upplifað“ þetta sem nauðgun þar sem hann hafi ekki séð neina þvingun. Vitnið kvaðst ekki hafa merkt að þau hafi veitt honum athygli er hann gekk fram hjá húsasundinu. Vitnið kvaðst hafa verið drukkinn umrædda nótt og ekki þekkja vel til á [...] en hann lýsti ekki aðstæðum við skólann með glöggum hætti. Ekki er unnt að líta fram hjá þessum framburði vitnisins S eins og héraðsdómur gerir án þess að rökstyðja það sérstaklega, en framburður hans er ekki til stuðnings sakfellingu ákærða.

Á neyðarmóttöku Landspítalans þá um nóttina var tekið blóð úr A til alkóhólrannsóknar og sýndi niðurstaða hennar ekki alkóhól í blóði. Tími blóðtöku er á hinn bóginn ekki skráður í rannsóknargögnum. H læknir á neyðarmóttöku bar fyrir dómi að ekki verði fullyrt hvenær taka blóðsýnis átti sér stað, en virðist draga þá ályktun af gögnum frá neyðarmóttöku að það kynni að hafa verið um klukkan hálf sjö um morguninn. Voru þá liðnir nokkrar klukkustundir frá atvikum. Dregur þetta úr sönnunargildi alkóhólrannsóknarinnar. Eins og lýst er í héraðsdómi báru ákærði og vitni að A hefði verið undir áhrifum áfengis, en hún kvaðst hafa neytt áfengis áður en atvikin urðu. Á A var að skilja að hún hefði drukkið kvartlítra af landablöndu sem hún hefði fengið frá vinkonu sinni. Ákæruvaldið verður að bera hallann af ófullnægjandi rannsókn að þessu leyti og verður í sakamáli þessu að miða við að A hafi vegna áfengisáhrifa síður fundið til sársauka í hnjám meðan á samförum stóð í stað þess að miða við fullyrðingar H sem vísað er til í niðurstöðum héraðsdóms.

IV

Þrátt fyrir framangreinda veikleika á mati héraðsdóms á trúverðugleika framburðar ákærða og vitna er ekki þörf á að vísa málinu heim í hérað til nýrrar meðferðar samkvæmt 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í því sambandi ber einkum að líta til þess að, fyrir utan framburð vitnisins S, eru ákærði og A ein til frásagnar um atvik er máli skipta varðandi ætlað nauðgunarbrot ákærða. Stendur þar orð gegn orði en önnur gögn málsins, sem rakin eru í héraðsdómi, eru ekki óyggjandi um sekt ákærða. 

Samkvæmt 108. gr. og 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og atvik er telja má honum í óhag og er gerð sú krafa að komin sé fram í máli nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, um hvert það atriði sem varðar sekt sakbornings. Samkvæmt öllu framansögðu fellst ég á sérálit dómformanns í héraði, sem að ósekju hefði mátt vera ítarlegra, um að of mikill vafi sé uppi um sönnun á háttsemi ákærða að unnt sé að sakfella hann fyrir brot gegn 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Á hinn bóginn er ég samþykkur meirihluta dómenda Hæstaréttar um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 1. mgr. 202. almennra hegningarlaga eins og greinir í ákæru. Ber að gera ákærða skilorðsbundna fangelsisrefsingu fyrir það brot, einkum með hliðsjón af því að hann var 17 ára er atvikin gerðust. Þá ber að miða fjárhæð miskabóta við það brot. Eftir þessum úrslitum tel ég að ákærði eigi að greiða sakarkostnað í héraði og helming áfrýjunarkostnaðar.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 9. desember 2011.

Mál þetta er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 22. júní sl., á hendur Axel Nicolai Michelsen, kt.[...], [...], [...], „fyrir kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 18. júlí 2010 farið með stúlkuna A, fædda 1995, sem þá var 14 ára, gegn hennar vilja á afvikinn stað í húsasund á bakvið grunnskólann að [...], og notfært sér þar yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs-, og aflsmunar og það að hún var ein með honum fjarri öðrum, látið hana leggjast á hnén og þvingað hana til að hafa við sig samræði og munnmök, auk þess sem ákærði hafði munnmök við stúlkuna.  Við þetta hlaut A mikil hruflsár á bæði hné, núningsáverka á vinstri olnboga og 4 mm langa rispu við leggangaop.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu B, kt[....], og C, kt. [...], fyrir hönd ólögráða A, kt.[...], er gerð krafa á hendur sakborningi, Axel Nicolai Michelsen, kt. [...], að hann verði dæmdur til að greiða miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000 með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 18. júlí 2010 til þess dags þegar mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er kynnt fyrir sakborningi en með dráttarvöxtum eftir þann dag samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags.  Þá er gerð krafa á hendur sakborningi um þóknun við réttargæslu samkvæmt mati réttarins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á réttargæsluþóknun.“

Mál þetta var þingfest 25. ágúst sl. og kom ákærði þá fyrir dóm og neitaði sök.  Aðalmeðferð málsins hófst á Selfossi 1. nóvember 2011 og var framhaldið 11. nóvember og var málið dómtekið að loknum munnlegum málflutningi.  Af hálfu ákærða er krafist sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins, frávísunar á framkominni bótakröfu og málsvarnarlauna úr ríkissjóði til handa skipuðum verjanda ákærða að mati dómsins, en til vara krefst ákærði þess að komi til sakfellingar verði ákærða dæmd vægasta refsing sem lög leyfa, en í því tilfelli krefst ákærði lækkunar á bótakröfu.  Af hálfu bótakrefjanda gerir réttargæslumaður hennar, Helga Leifsdóttir hdl., þær kröfur að bótakrafa nái fram að ganga og henni verði dæmd hæfileg þóknun samkvæmt framlögðum reikningi.

Við rannsókn málsins voru teknar skýrslur af brotaþola og fleiri vitnum í Barnahúsi.  Stjórnaði Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari við dómstólinn þeim skýrslutökum, en báðir hinir héraðsdómararnir við dómstólinn voru fjarverandi vegna sumarleyfa þegar þær skýrslutökur fóru fram.  Ragnheiður tók ekki sæti í dóminum við aðalmeðferð málsins vegna persónulegra aðstæðna sem varða tengsl hennar við foreldra brotaþola.

Málavextir.

Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að lögreglumenn hafi verið á ferð á [...] við almennt eftirlit með skemmtanahaldi kl. 03:10 umrædda nótt.  Hafi nokkur fjöldi ungmenna og annars fólks verið í bænum.  Þeir hafi veitt athygli hópi unglinga og sérstaklega einni stúlku sem hafi legið í grasinu og virst vera í einhvers konar ójafnvægi.  Hafi þeir ekið að hópnum og þá hafi komið til þeirra tveir drengir sem hafi talið að lögreglumennirnir ættu að ræða við stúlkuna vegna atburðar sem þeir vissu ekki vel deili á en töldu að stúlkan hefði orðið fyrir einhvers konar ofbeldi.  Hafi stúlkan gengið burt frá þeim á sama tíma.  Lögreglumennirnir hafi svo ákveðið að ræða við stúlkuna og var það brotaþoli.  Spurðu lögreglumenn hana fyrst hvort hún vildi ræða einhver mál við lögreglu og kvaðst hún ekki vilja það í fyrstu, en sagði síðar að sér hefði verið nauðgað.  Hafi brotaþoli sest inn í lögreglubílinn og verið sýnilega í miklu uppnámi og beygð.  Hafi buxur hennar verið blóðugar á hnjám og hún sagt það vera eftir atburðinn.  Kvaðst brotaþoli vera 15 ára gömul.  Kvaðst brotaþoli hafa hitt strák við grunnskólann á [...] og hafi sá dregið sig inn í húsasund við grunnskólann þar sem hann hafi komið fram vilja sínum.  Kvaðst brotaþoli ekki hafa viljað þetta.  Pilturinn héti Axel Páls og væri fæddur 1992, úr [...], og lýsti honum nánar.

Var ekið með brotaþola um plássið og svipast um eftir geranda og benti brotaþoli á ákærða.  Hafði lögregla tal af ákærða og var hann handtekinn og kynnt að hann væri grunaður um nauðgun.  Var ákærða sýnilega brugðið og kvað hann þetta hafa verið með samþykki brotaþola.  Var hann færður á lögreglustöð og vistaður í klefa.  Kemur fram að hann hafi ekki sýnilega verið undir áhrifum áfengis.  Vísaði brotaþoli lögreglu um nóttina á þann stað þar sem atburðurinn hefði átt sér stað.  Fram kom í viðræðum lögreglu við stúlkuna D á [...] að ákærði hefði stært sig af því að hafa haft kynmök við brotaþola.  Ákærði var færður til réttarlæknisfræðilegrar rannsóknar á lögreglustöðinni á Selfossi en brotaþola var ekið á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Tekin var skýrsla fyrir dómi í Barnahúsi af brotaþola þann 23. júlí 2010.  Kvað brotaþoli ákærða, sem hún hafi ekkert þekkt, hafa fengið sig til að labba með sér bak við húsið [...] við bryggjuna á [...] en hún hafi sagst ekki ætla að gera neitt með honum og hann hafi bara ætlað að fá sig til að gera það og hún hafi bara sagt nei og hann einhvern veginn náð að halda henni og draga hana bak við skólann og hún hafi sagt að hún ætlaði ekki að gera neitt og væri ekki til í þetta og svo hafi hann bara byrjað að klæða hana úr buxunum og hafi fengið að gera það sem hann vildi og þótt hún hafi reynt að ýta honum í burtu þá hafi það ekki tekist alveg nógu vel og svo hafi hann bara hlaupið í burtu eftir á og hún hafi þá hringt í vinkonur sínar.  Hafi ákærði tekið hana inn í lítið horn bak við skólann, leyst frá henni beltið og byrjað að klæða hana úr buxunum og svo hafi hann lagt hana eða ýtt henni á jörðina og svo byrjað að ríða henni og tekist það nú bara alveg.  Þetta hafi byrjað bara strax og þau hafi verið komin inn í skotið bak við skólann.  Hún hafi ýtt honum eða reynt að ýta honum frá en hann hafi haldið í hendurnar á henni.  Hann hafi lagt hana niður á jörðina á hnén og náð að ríða henni og svo hafi hann lagst á jörðina og haldið henni ofan á sér og þá hafi hún ýtt við honum en hann hafi náð að halda henni þótt hún hafi verið að ýta.  Hún hafi sagt honum að hún vildi þetta ekki og hún hafi líka verið búin að segja honum það á bak við húsið.  Fyrst hafi ákærði verið aftan á henni og svo hafi hann legið á jörðinni og látið hana vera ofan á og svo hafi hann ýtt henni niður á sig og látið hana totta sig og haldið hausnum á henni og hún hafi ýtt honum frá sér og svo hafi hann staðið upp og hlaupið í burtu.  Honum hafi tekist að koma lim sínum í leggöng hennar.  Eftir að hann hafi verið búinn að ýta henni niður á sig þá hafi hún sest upp og séð á honum kynfærin, en átt mjög erfitt með að rísa upp þar sem henni hafi verið illt í hnjám og löppum.  Hafi hún séð að sæði hafi komið úr lim ákærða þegar hann hafi látið hana totta sig, en sæði hafi farið á hann og upp í hana.  Taldi brotaþoli að ákærði hafi bara fengið sáðlát einu sinni.  Brotaþoli kvaðst hafa verið alveg sátt við að fara með ákærða að [...] og kyssa hann þar, en hún hafi ekki viljað neitt meira og hafi verið búin að segja honum það og hafi henni fundist að hann ætti bara að skilja það, en hann hafi náð að halda í hana og labba með henni bak við grunnskólann.  Á leiðinni bak við skólann hafi hann haldið í höndina á henni og hún hafi verið „samt búin að tosa svona smá frá“ og sagst bara ætla að vera á bryggjunni.  Samskipti þeirra í horninu bak við grunnskólann hafi tekið um 15-20 mínútur.  Kvaðst brotaþoli ekki vita hvort ákærði vissi hvað hún væri gömul.  Þegar þetta hafi verið afstaðið hafi hún hringt í E vinkonu sína og grátið í símann og E hafi strax komið til sín og þá hafi brotaþoli sagt henni hvað hafi gerst og að hún hafi ekki viljað það.  Brotaþoli kvaðst hafa drukkið áfengi fyrr um kvöldið en ekki mikið og hafi hún alveg vitað hvað var að gerast.  Ekkert hafi þau talað sérstaklega saman í skotinu, en ákærði hafi bara sagt sér að halda áfram þegar hann hafi haldið henni.  Ekki hafi hún svarað sérstaklega en sagt bara nei, en ákærði hafi bara haldið henni og haldið áfram.  Þegar þessu hafi verið lokið hafi ákærði sagt sér að taka neyðarpilluna daginn eftir því hann vildi ekki verða pabbi og hafi hann svo farið burt.  Eftir þetta hafi brotaþoli heyrt af því að ákærði hafi farið strax aftur niður á bryggju og verið að monta sig af því að hafa fengið sér að ríða.  Ákærði hafi farið úr jakkanum og lagt hann á mölina í skotinu bak við grunnskólann og sagt sér að leggjast á hann.  Hafi hún gert það þannig að leggjast á hnén og ákærði hafi þá farið aftan á hana, en hún hafi aldrei legið á bakinu.

Bar brotaþoli um það að þegar hún hafi hitt ákærða á bryggjunni hafi hann haft á orði að hann ætlaði að gefa einhverri stelpu sopa af áfengum drykk sem hann hafi haft í glasi og svo ætlaði hann að ríða henni, og svo hafi hann tekið í sig og gengið með sig bak við [...].  Hann hafi lagt höndina eða handlegginn yfir öxlina eða axlirnar á henni.  Þá hafi henni fundist þetta vera allt í lagi, en hún hafi ekki ætlað sér að gera neitt meira með ákærða en að kyssa hann.  Svo hafi hann labbað með sig lengra og það hafi hún ekki viljað og sagt það, en hann hafi sagt jú og hafi bara farið með hana aftur fyrir grunnskólann, en á þeirri leið hafi henni hætt að finnast þetta vera í lagi.  Hafi ákærði haldið í sig alla leiðina á sama hátt og fyrr, með því að leggja handlegg sinn yfir axlirnar á henni og haldið í hana.  Hafi hún gengið með honum og hann hafi kannski ekki dregið hana alveg, eða ekki dregið hana þannig að hún meiddi sig, en hann hafi svona ýtt sér með hendinni.  Strax og þau hafi verið komin í skotið bak við grunnskólann hafi ákærði ýtt henni út í horn, byrjað að kyssa hana og klæða hana úr buxum.  Buxur hennar hafi aldrei farið lengra niður en á ökkla báðum megin, en ákærði hafi beðið hana um að fara alveg úr þeim og hafi hún neitað því.  Eftir að hafa leyst niður um hana buxurnar hafi ákærði leyst niður sínar buxur og notað að líkindum báðar hendur við það, en hún hafi staðið í horninu á meðan.  Meðan ákærði hafi haft við hana samfarir hafi hann rifið í hárið á henni.  Ekki hafi ákærði notað neinar getnaðarvarnir.  Fyrst hafi ákærði haft við hana samfarir aftan frá og svo hafi hann lagst sjálfur á bakið og tekið hana einhvern veginn ofan á sig og haldið í hana, þá hafi hún verið klofvega ofan á honum, en síðan hafi hann ýtt henni neðar og látið hana hafa við sig munnmök og haldið þá í höfuð hennar.  Ákærði hafi haft munnmök við hana eftir að hann lagðist á bakið og hún kom ofan á hann, en áður en að hann hafi haft við hana samfarir í þeirri stellingu.

Vitnið E, vinkona brotaþola, gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi við rannsókn málsins.  Kvaðst hún hafa verið með brotaþola á[...] á [...].  Hafi brotaþoli hringt í sig um nóttina og verið hágrátandi og beðið sig að koma og hafi vitnið farið til brotaþola og spurt hvað væri að.  Hafi brotaþoli svarað því til að hún hafi „riðið Axel Páls“ og hafi vitnið ekki séð neitt að því eða fundist það sérstakt tiltökumál, en brotaþoli hafi sagst „sjá geðveikt mikið eftir því, en hún sagði samt sko að hún hafi leyft þetta en samt ekki eða skiluru hún hafi leyft þetta en hætt við eða eitthvað þannig hún sagði aldrei að þetta væri nauðgun samt við mig en svo kom fullt af krökkum og eitthvað þá náttulega skiluru ég veit það ekki skiluru fór hún bara að gráta og kvarta um að henni væri illt í hnjánum“.  Aðspurð um hvað brotaþoli hafi nákvæmlega og orðrétt sagt kvað vitnið að brotaþoli hafi svarað „ég reið Axel Páls“ og svo hafi brotaþoli sagst verða að komast í þvottavél til að þvo föt sín og hafi hún ekki viljað að foreldrar hennar kæmust að þessu og „svo allt í einu kom geðveikt mikið af fólki þá sagði hún að hún var nauðgað og ég veit samt ekki því skiluru hún sagði við mig að hún hafi leyft honum að gera eitthvað með sér.“  Aðspurð um hvað brotaþoli hafi sagt kvað vitnið að brotaþoli hafi sagt „ég leyfði þetta en svo hætti ég við og núna sé ég geðveikt mikið eftir þessu.“  Þá skýrði vitnið frá því að hafa hitt ákærða skömmu síðar og hafa spurt hann að því hvers vegna hann hafi gert þetta og hafi ákærði svarað „hún leyfði þetta“.  Kvaðst vitnið vera mjög góð vinkona brotaþola og hafa þekkt hana árum saman og vera mikið með henni.  Taldi vitnið að brotaþoli hafi verið full og búin að drekka áfengi um kvöldið, sem hún hafi fengið frá annarri stúlku sem brotaþoli hefði verið mikið með um kvöldið og taldi vitnið að sú stúlka væri í fíkniefnaneyslu en brotaþoli og sú stúlka hefðu alltaf verið að fara stuttar ferðir heim til þeirrar síðarnefndu um kvöldið.  Vitnið kvaðst sáralítið hafa drukkið sjálf og enga breytingu hafa fundið á sér.

Vitnið F gaf skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi við rannsókn málsins.  Vitnið er vinkona brotaþola og skýrði frá því að hún hefði verið með brotaþola á [...] á [...] umrætt kvöld.  Kvaðst vitnið hafa séð brotaþola með einhverjum gaur, sem hafi haldið utan um brotaþola og eitthvað, og hafi vitnið haldið að þetta væri bara vinur brotaþola og svo hafi brotaþoli verið eitthvað að labba með honum og svo hafi hún ekki séð brotaþola nokkra stund eftir það.  Svo hafi hún séð gaurinn og spurt hann hvar brotaþoli væri og hann hafi sagst ekki vita það, en verið eitthvað að stæra sig af því að hafa gert eitthvað við brotaþola, sagt eitthvað á þá leið að hann væri búinn með hana.  Eftir þetta hafi vitnið næst hitt brotaþola grátandi og hafi vitnið spurt brotaþola hvort hann hafi gert eitthvað við hana og hafi brotaþoli svarað játandi, en ekki sagt hvað.  Kvað vitnið að hún og brotaþoli hefðu verið saman meira og minna alla helgina og kvaðst vitnið ekki vita hvort brotaþoli hefði drukkið áfengi.

Rætt var við fleiri vitni við rannsókn málsins en ekki er sérstök ástæða til að gera grein fyrri því hér.

Við rannsókn málsins gaf ákærði lögreglu skýrslu strax sama sólarhring og hann var handtekinn skömmu eftir umræddan atburð.  Kvað ákærði að hann hefði haft samfarir við brotaþola umrætt sinn en þær hefðu verið með hennar samþykki.  Aldrei þetta kvöld meðan þau hefðu haft samfarir hefði brotaþoli gefið í skyn að hún vildi þetta ekki, enda hefði hún verið ofan á honum mestan part tímans, en hann hefði einnig haft við hana samfarir aftan frá.  Hann hafi spurt hana að aldri fyrr um kvöldið og hafi hún sagst vera fædd 1995 og hann því gert ráð fyrir því að hún væri 15 ára.  Áður en þau höfðu samfarir hafi hann spurt hana, þegar þau voru á leiðinni bak við grunnskólann, hvort hún vildi fara með honum afsíðis og hafi hún svarað játandi.  Hann hefði verið búinn að hitta brotaþola fyrr um kvöldið og svo hafi þau hist á bryggjunni og labbað við hliðina á [...], kysst hvort annað og haldið svo bara áfram að labba og haldið utan um hvort annað.  Þau hafi horft í kringum sig svona til að sjá hvar væri ekkert mikið af fólki.  Svo hafi hann þurft að pissa og stoppað og hún beðið eftir honum á meðan og svo hafi þau haldið áfram að labba og séð svo skotið bak við grunnskólann og farið þangað.  Þar hafi þau byrjað að kyssast og síðan hafi hann girt niður um sig og hún niður um sig.  Hann hafi farið úr jakkanum og lagt hann á jörðina svo að hún myndi ekki meiða sig í hnjánum.  Hann hafi svo lagst á bakið og hún hafi sest ofan á hann og þau haft samfarir þannig.  Svo hafi hann spurt hvort hann mætti taka hana aftan frá og hún hafi játað því og þá hafi þau haft samfarir þannig.  Hann hafi svo spurt hvort hann mætti hafa samfarir við hana í rassinn en hún hafi neitað því og þá hafi hann bara haldið áfram að hafa samfarir við hana í leggöng.  Síðan hafi hann sagt henni að koma aftur ofan á sig og þau hafi stundað smá munnmök þannig að hún hafi sest klofvega yfir hann og hann hafi þá sleikt á henni kynfærin og hún hafi svo farið niður á hann og sogið á honum liminn, en svo hafi þau bara haldið áfram að hafa samfarir þannig að hann hafi legið undir henni og hún verið klofvega ofan á honum þangað til hann hafi fengið fullnægingu.  Ákærða minnti að hann hafi fengið sáðlát inn í brotaþola en var ekki alveg viss.  Ákærði taldi að þetta gæti hafa tekið á að giska 20 mínútur.  Lítið sem ekkert hafi þau talað á meðan en það hafi helst verið þegar hann hafi spurt hvort hann mætti hafa samfarir við hana aftan frá og hún hafi svarað því játandi, en svo neitað honum um samfarir í endaþarminn.  Það hafi verið eina skiptið sem hún hafi neitað honum um nokkuð og hann hafi aldrei beitt neinu valdi til að fá að hafa við hana mök.  Brotaþoli hafi aldrei neitt gert til að reyna að stöðva hann og það sem hann var að gera.  Svo þegar hann hafi verið búinn að fá fullnægingu þá hafi hann sagt henni það og hún hafi þá farið af honum og hann hafi staðið upp, girt upp um sig og haldið sína leið.  Kvaðst ákærði hafa verið undir áhrifum áfengis, en ekki mikið.  Ákærði taldi að brotaþoli hafi verið ölvuð, en vissi ekki vel hversu mikið.  Hann kvað sér ekki hafa dottið í hug að spyrja hana hvort hún væri 14 eða 15 ára.

Brotaþoli var flutt til réttarlæknisfræðilegrar skoðunar á Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota og kom hún þangað kl. 05:00 18. júlí 2010.  Er þar haft eftir henni að hún hafi verið á [...] með vinkonum sínum.  Hafi hún hitt ákærða sem hafi verið drukkinn og beðið sig að koma með sér bak við skólann.  Hann hafi farið að kyssa hana og beðið sig að koma og vera með sér en hún hafi sagt að það vildi hún ekki og að hún væri á blæðingum.  Hann hafi sagt að sér væri alveg sama og byrjað að klæða hana úr bak við skólann.  Hún hafi streist á móti og reynt að ýta honum frá sér en ekki getað.  Hann hafi rifið buxurnar niður á hæla og reynt að rífa bol hennar og brjóstahöld.  Svo hafi hann byrjað að ríða henni standandi og lagt hana svo á jörðina og hafi tekist að hafa við hana mök bæði aftan frá, meðan hún lá fram fyrir sig með hnén á jörðinni, og svo hafi hann lagt jakkann sinn undir hana og tekið hana framan frá.  Er haft eftir brotaþola að hún viti ekki hvort ákærða hafi orðið sáðlát en hún haldi það og hann hafi þá dregið út lim sinn rétt áður og að sæðið hafi þá farið á magann á henni.

Segir í skýrslu Neyðarmóttöku að brotaþoli hafi verið búin að gráta og verið flökurt en ekki kastað upp.  Hafi hún gefið skýra og góða sögu.  Er lýst að hún hafi verið með rispur aftan á vinstri olnboga og dökkleitar skítaklessur framanvert á upphandlegg og framhandlegg.  Geti áverkarnir samrýmst núningi við hart undirlag.  Á báðum fótum hafi brotaþoli verið mjög hrufluð og blætt hafi úr sárum sem hún hafi haft á báðum hnjám og hafi sárin verið full af óhreinindum.  Geti þetta samrýmst núningi við ójafnt gróft undirlag/jarðveg.  Fremst í leggangaopi hafi verið 0,4 mm fersk rispa með blóðdropa í og samrýmist það sögu brotaþola.  Þá kemur fram að þegar brotaþoli hafi farið á salerni á Neyðarmóttöku til að skila blóðprufu [sic.] hafi komið sandur með þvaginu.  Hafi verið dreifð sandkorn fremst í leggangaopi.  Brotaþola var dregið blóð til alkóhólákvörðunar og mældist ekkert alkóhól í blóðsýni.

Við rannsókn tæknideildar lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu á sýnum frá brotaþola kom fram jákvæð svörun við for- og staðfestingarprófum sem sæði, á sýnum frá andanefju, börmum, leghálsi, leggangatoppi og leggangaopi, en engar sæðisfrumur fundust í sýnunum.  Ekki fundust ummerki um sæði í fötum brotaþola og ekki heldur í tíðabindi.  Föt hennar voru hins vegar óhrein og var blóð í gallabuxum hennar, einkum innanvert á hnjám.

Fatnaður ákærða var rannsakaður af  tæknideild lögreglustjórans á Höfuðborgarsvæðinu og gaf blettur í bol jákvæða svörun sem sæði, sem og blettur á innanverðum nærbuxum. 

Gerð var réttarlæknisfræðileg skoðun á ákærða á lögreglustöðinni á Selfossi strax um nóttina eftir að hann hafði verið handtekinn.  Er þar haft eftir honum að hann hafi hitt brotaþola um miðnætti og svo aftur síðar, um hálftíma áður en hann hafi verið tekinn upp í lögreglubílinn.  Í seinna skiptið hafi hann spurt hana hvort hún vildi koma eitthvað.  Þau hafi kysst fyrir utan [...] og hann hafi spurt hvort hún vildi koma afsíðis og hafi hún játað því.  Þá hafi þau farið bak við skólann og eitt hafi leitt af öðru.  Fyrst hafi þau haft samfarir standandi og svo hafi hann lagst á jörðina og svo hafi hann lagt jakkann sinn á jörðina og haft samfarir um leggöng aftan frá, svo hafi hún komið ofan á hann, svo hafi þau haft munnmök hvort við annað.  Hafi hann fengið áverka á bakið þegar hann hafi legið í mölinni meðan hún hafi verið ofan á.  Minni ákærða að hann hafi haft sáðlát inn í leggöng hennar.  Hann hafi svo klætt sig og kvatt.  Hafi ákærði sagst oft hafa spurt hana hvort hún vildi hitt eða þetta og hafi hún sagt já við því öllu.  Kemur fram að ekki hafi verið áverkar á ákærða utan roðalínur á baki, sumt með samsíða línum og sumt líkara flekkjum.  Í blóðsýni ákærða var 1,20‰ áfengis og í þvagsýni 1,91‰ áfengis.  Segir í niðurstöðu rannsóknar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði að viðkomandi hafi verið ölvaður en niðurstöður bendi til að styrkur áfengis hafi verið fallandi og því kunni að vera nokkur tími frá því áfengis var síðast neytt.

Í skýrslu G, uppeldis- og afbrotafræðings í Barnahúsi, segir vegna greiningar- og meðferðarviðtala sem brotaþoli fór í, að á sjálfsmatslista sem lagður hafi verið fyrir hana 10. september 2010, sem ætlað sé að meta þunglyndi, kvíða og streitu, hafi allt mælst innan eðlilegra marka þó að hún hafi mælst með væg kvíðaeinkenni.  Þann 13. október 2010 hafi verið lagður fyrir hana annar sjálfsmatslisti, sem sé ætlað að mæla það sama, en þar hafi brotaþoli mælst innan allra eðlilegra marka.  Segir í niðurstöðu að brotaþoli sé róleg og tjái sig á yfirvegaðan hátt.  Hún sýni ýmis einkenni eins og títt sé um þolendur kynferðisofbeldis, þ.e. skömm og sjálfsásökun.  Líðan hennar sé þokkaleg miðað við aðstæður en hún hafi átt við að etja svefnerfiðleika og þá hafi hún átt við að stríða líkamleg einkenni sem minni hana stöðugt á það sem gerst hafi og hindri batahorfur hennar.  Hún sýni engin vanlíðunareinkenni önnur en þau sem hún tengi við meint brot.  Megi gera ráð fyrir að hún þurfi á viðtölum að halda áfram, á að giska 20 viðtölum.  

Í rannsóknargögnum eru tvö útprentuð kort af vettvangi og nánasta umhverfi af vefsíðunni http://www.ja.is.  Má þar ráða að vegalengd frá [...] að skotinu bak við Grunnskólann sé á bilinu 399–419 metrar eftir því hvaða leið er farin.

Ákærða var birt skaðabótakrafa kæranda við birtingu ákæru þann 22. júlí sl. og hafnaði hann henni við þingfestingu málsins.

Af hálfu ákærða var lögð fram greinargerð.  Segir þar að erfitt sé að átta sig á því hverjar séu stoðir ákærunnar, en framburður brotaþola sé ruglingslegur og óljós.  Þyki hann þannig að ekki verði byggð á honum sakfelling.  Framburður vitna þyki ekki renna stoðum undir framburð brotaþola um nauðung.  Er vísað til framburðar E í Barnahúsi, sem sé nokkuð skýr, en þar lýsi hún því ítrekað að brotaþoli hafi margsinnis lýst því yfir að hún hafi leyft þetta og að hún hefði haft frumkvæði að atburðarásinni í húsasundinu.  Síðari bakþankar verði ekki lagðir til grundvallar sakfellingar.  Ekki hafi ákæruvaldinu tekist að færa fram sönnun sem verði vefengd með skynsamlegum rökum, gegn neitun ákærða.  Þá hafi ákærði þurft að þola margvíslegar og alvarlegar hótanir frá aðstandendum brotaþola.  Ákærði hafi frá upphafi skýrt skilmerkilega frá öllu sem hann hafi verið spurður um og leitast við að upplýsa málavexti, án þess að draga nokkuð undan.  Er í greinargerðinni vísað til 3. mgr. 18. gr., 108. gr. og 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, auk 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.

Fyrir dómi bar ákærði um það við aðalmeðferð málsins að hann hafi verið á [...] á [...] umrætt kvöld og hitt brotaþola þar.  Hann hafi verið með vinum sínum og hún með sínum.  Hafi verið spjallað.  Síðan hafi hann hitt hana síðar um kvöldið á bryggjunni og þá hafi þau talað saman og hann hafi spurt hana hvort hún vildi koma eitthvað afskekkt með honum og hún hafi sagt já.  Hafi þau labbað burt og haldið utan um hvort annað.  Hann hafi kysst hana hjá [...] við bryggjuna á[...].  Síðan hafi þau labbað burt og verið að leita að stað það sem þau gætu verið óséð.  Á leiðinni hafi hann þurft að pissa og hún hafi labbað áfram og stoppað og beðið eftir honum.  Síðan hafi þau haldið áfram og hann hafi látið hana vita að hann væri ekki með smokk og spurt hvort henni væri sama, en hún hafi ekki tjáð sig um það.  Svo hafi þau fundið innskotið bak við skólann og farið þangað.  Þar hafi þau kysst og byrjað að afklæða sig.  Hann hafi svo tekið jakkann sinn og lagt hann á jörðina og lagst á bakið á jakkann og hún hafi verið ofan á honum og með hnén á jakkanum.  Svo hafi hún fært sig ofar og verið með klofið yfir andliti hans og þá hafi hann veitt henni munnmök, en svo hafi hún farið af honum og farið á hnén og snúið með andlitið frá honum og hann haft við hana mök aftan frá og minnti ákærða að honum hafi orðið sáðlát þegar þau hafi verið í þeirri stellingu.  Hann hafi svo sagt henni að hann hafi fengið fullnægingu, staðið upp, klætt sig og farið.

Nánar aðspurður kvað ákærði að þau hefðu haft lítil samskipti þegar þau hittust fyrst.  Það hafi staðið skamman tíma.  Ákærði kannaðist við að hafa hringt í brotaþola um kvöldið eftir að hafa fengið símanúmerið hjá vinkonu hennar, en hann hafi verið of feiminn til að spyrja brotaþola sjálfa um símanúmerið.  Hafi hann sagt henni hver hann væri og spurt hvort hún vildi hitta hann.  Hún hafi sagt já og sagst vera á bryggjunni.  Hann hafi farið þangað og hitt hana þar.  Ekki kannaðist ákærði við að hafa sagt að hann hygðist gefa stúlku sopa af áfengi og ríða henni svo.  Ákærði kvaðst hafa spurt brotaþola hvaðan hún væri.  Ekki mundi ákærði hvenær hann hafi vitað nafn brotaþola, en hann hafi ekki vitað hver hún var fyrir þetta kvöld.  Sennilega hafi hann fyrst heyrt nafn hennar þegar hann fékk símanúmer hennar hjá vinkonu hennar.  Ákærði kvaðst hafa spurt brotaþola hvað hún væri gömul og hafi hún svarað að hún væri fædd 1995, en hann hafi ekki spurt nánar um það.  Ekki hafi sér dottið sérstaklega í hug að spyrja hana frekar að aldri, en honum hafi fundist hún vera fremur stór og líta þroskuð út þannig að hann hafi gert því skóna að hún væri orðin 15 ára.  Fyrst hafi þau hist á bryggjunni og svo gengið saman og þá hafi hann verið búinn að spyrja hana hvort hún vildi koma með honum, sem hún hafi svarað játandi og byrjað að labba með honum.  Á bak við [...] hafi þau kysst, en ekki talað neitt sérstaklega saman.  Hún hafi aldrei beðið hann um að hætta neinu eða neitt svoleiðis.  Reyndar einu sinni, þegar hann hafi verið undir henni í skotinu, þá hafi honum fundist eins og það væri eitthvað að og þá hafi hann spurt hvort hann ætti að hætta, en hún hafi sagt nei og sagt honum bara að klára.  Ákærði kvaðst ekki hafa spurt brotaþola berum orðum hvort hún vildi hafa við sig samfarir, en það hafi ekki farið neitt á milli mála, hann hafi sagt að hann væri ekki með smokk og hann hafi spurt hana hvort hún vildi koma með sér eitthvað afskekkt og gera eitthvað með sér, en hann hafi ekki notað orðin „eigum við að stunda samfarir?“  Ekki kannaðist ákærði við að brotaþoli hafi sagt við sig að hún vildi ekki gera neitt meira.  Hún hafi sagt að hún væri á blæðingum og spurt hvort honum þætti það óþægilegt, en hann hafi svarað því að sér væri alveg sama og það truflaði hann ekkert.  Þau hafi gengið saman áleiðis í skotið, en þau hafi haldið utan um hvort annað, hún utan um mjöðmina á honum og hann utan um axlirnar á henni.  Hann hafi hvorki togað í hana né dregið hana.  Fyrst hafi þau haldið svona utan um hvort annað, en svo hafi þau sleppt takinu þegar hann hafi fengið sér úr glasi sem hann hafi verið með og líka þegar hann hafi þurft að pissa og svo hafi þau aftur haldið utan um hvort annað.  Hann hafi ekki neitt togað hana áfram.  Þau hafi ekkert sérstaklega talað saman á leiðinni, nema hvar væri fólk og hvar væri hægt að vera afsíðis.  Honum hafi virst hún vera tilbúin að vera með honum.  Þau hafi farið í skotið þar sem það hafi verið afskekkt og ekki við hliðina á götunni og fólk ekki líklegt til að koma að þeim óvörum. Aðspurður um ölvun kvaðst ákærði hafa verið búinn að drekka tvo bjóra og eina blöndu af tvöföldum vodka.  Hafi hann verið alveg í glasi, en sér finnist hann muna vel eftir þessu.  Hann hafi hins vegar reynt að hugsa lítið um þetta vegna refsimálsins.  Inni í skotinu hafi þau farið að kyssast og hún hafi alveg kysst á móti.  Ekki hafi hann ýtt henni neitt upp að veggnum.  Hann hafi leyst niður sínar buxur og hún sínar.  Hann hafi farið úr jakkanum og lagt hann á jörðina af því að hann hafi séð möl á jörðinni.  Hann hafi lagst fyrst niður og hún hafi svo komið niður á hann, sjálfviljug.  Ákærði kannaðist ekki við að hafa haldið eða togað í brotaþola meðan á samförum stóð.  Ekki kannaðist ákærði heldur við að brotaþoli hafi ýtt honum frá sér.  Brotaþoli hafi verið með buxurnar á hælunum meðan á samförunum stóð, kannski kominn alveg úr öðrum megin.  Ekki kannaðist ákærði við að hafa sagt brotaþola að fara úr buxunum.  Honum hafi í upphafi fundist hún vera viljug til að hafa við hann samfarir í skotinu, en á ákveðnum tímapunkti hafi honum fundist eins og eitthvað væri að, þegar brotaþoli hafi verið ofan á honum, og hafi hann þá spurt hvort eitthvað væri að og hvort hún vildi að hann hætti, en hún hafi þá sagt honum að halda áfram.  Hann hafi ekki beðið hana um að halda áfram.  Aðspurður kvað hann brotaþola hafa verið yfir sér og hafi hún verið á hnjánum þegar hann hafi haft munnmök við hana og hann hafi þá legið á bakinu.  Hún hafi líka haft munnmök við sig, en það hafi verið áður en hann hafi haft við hana samfarir aftan frá.  Þá hafi hann legið á bakinu og hún klofvega ofan á honum og þá hafi hann beðið hana um að gefa sér munnmök og hún hafi þá farið þarna niður og gert það.  Hann hafi ekki ýtt henni niður á sig.  Hann hafi hvorki rifið né kippt í hár hennar.  Ákærði kannaðist við að hafa sagt við hana áður en þau komu í skotið, þegar kom til tals að hún væri á blæðingum og hann væri ekki með smokk, að hún gæti tekið neyðarpilluna og að hann vildi ekki verða pabbi.  Að loknum mökunum hafi hann bara staðið upp og farið og hún hafi verið eftir, enda hafi hann ekki langað neitt sérstaklega til að kynnast henni nánar, enda hafi honum fundist hún vera frekar lauslát og ekkert spennandi.  Nánar aðspurður um þetta kvað ákærði að lítið hefði þurft til að heilla hana og fara með henni í eitthvert innskot til að hafa samfarir.

Aðspurður kvaðst ákærði hafa hitt vinkonu brotaþola eftir þetta og hafi hún spurt hvers vegna hann hafi verið að ríða brotaþola sem væri nýhætt með kærastanum sínum, en ákærði hafi svarað því að hann hafi ekki vitað um þau sambandsslit og hafi hann gengið burt.  Önnur samskipti hafi hann ekki haft við vinkonur hennar.

Ákærði kvaðst aldrei hafa beitt brotaþola neinu valdi til að fá að hafa við hana samfarir, en með valdi meinti hann bæði orðasamskipti og eða ofbeldi.  Aðspurður um hvort brotaþoli hafi haft eitthvert frumkvæði í þeirra samskiptum nefndi ákærði það að þegar hann lá á bakinu og hún var ofan á þá hafi hann ekki verið að gera neitt, en hún hafi farið upp og niður.  Hún hafi ekki neitað neinu, að því frátöldu að hann hafi spurt hana hvort hann mætti hafa samfarir við hana í rassinn, þegar hann hafði við hana samfarir aftan frá, en því hafi hún neitað og hann hafi þá bara sagt ókei og haldið áfram að hafa samfarir í leggöng. 

Aðspurður um sáðlát kvað ákærði það hafa verið þegar hann hafði samfarir við brotaþola aftan frá.  Taldi ákærði að sæðið hefði að hluta til farið inn í brotaþola, en að einhverju leyti utan líkama hennar og út um allt, en hann hafi reynt að taka liminn út áður en kom að sáðláti.

Aðspurður um sár á hnjám brotaþola taldi ákærði að þau hefðu komið við núning við mölina á jörðinni.  Ekki mundi ákærði þó til þess að brotaþoli hafi einhvern tíma sagt að hún meiddi sig eða fyndi til.

Vitnið H læknir kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi skoðað brotaþola á Neyðarmóttöku umrædda nótt.  Við lýsingu yrði vitnið þó að styðjast við skýrslu sína, enda langt liðið frá atburðum.  Hafi brotaþoli verið tiltölulega róleg, verið flökurt og verið búin að kasta upp.  Verið samvinnuþýð og róleg.  Lýsti vitnið því að brotaþoli hafi verið með áverka á hægri handlegg, báðum fótum og fremst í leggangaopi.  Áverkar og frásögn brotaþola hafi fallið prýðilega saman.  Brotaþoli hafi verið á blæðingum.  Sandur og jarðvegsóhreinindi hafi verið við leggangaop.  Það gæti passað við lýsingar á staðnum þar sem athöfnin hafi farið fram, þannig að brotaþoli hafi legið á óhreinum jarðvegi en ekki verið í rúmi.  Rispa við leggangaop hefði verið fersk og væri þess eðlis að hún hafi komið undan einhvers konar átaki, en geti ekki bara komið af sandkorni.  Einhvers konar átak hafi komið til við myndun rispunnar.  Það sem er í skýrslu neyðarmóttöku um frásögn sjúklings sé skrifað niður eftir brotaþola jafnóðum.  Aðspurður um sár á hnjám brotaþola kvað vitnið þurfa talsvert til að fá slíka áverka og maður mundi ekki njóta vel samlífis meðan maður skapaði sér þessa áverka.  Hefði mátt búast við sviða meðan sárin mynduðust.  Áverkar við leggangaop geti hafa komið án mikillar áreynslu.  Áverkar á hnjám gætu verið sambærilegir við það að leika knattspyrnu á möl og detta á hnén en þá myndi maður yfirleitt ekki leika meiri knattspyrnu í bili.  Í samlífi lítið drukkin þyrfti talsvert til að fá svona áverka, en erfitt væri að fullyrða hvort áverkarnir gætu hafa komið við sjálfviljugar samfarir, en væntanlega væri þá lítil einbeiting að samförunum.

Vitnið A, brotaþoli, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hafi verið á [...] umrætt sinn með vinkonum sínum.  Þau hafi verið á bryggjunni nokkrir krakkar og þá hafi ákærði komið inn í hópinn og hún hafi ekki þekkt hann neitt.  Svo hafi ákærði fengið símanúmer hennar hjá einhverri vinkonu hennar og hringt í hana og spurt hvar hún væri og hafi hún svarað því að hún væri í einhverju tjaldi í fjörunni og svo skellt á hann.  Síðan hafi hún hitt hann seinna um kvöldið á bryggjunni og þar hafi hann tekið sig eða haldið í sig og labbað með sig að [...].  Hún hafi verið alveg samþykk því að vilja kyssa hann, en hún hafi gert honum grein fyrir því að hún vildi ekkert meira.  Svo hafi hann farið að halda í hönd sína og labba með sig nær skólanum og þá hafi hún farið að vera frekar óróleg og svo hafi hann farið með hana bak við í skot og nauðgað henni bara þar.  Svo hafi hann lagt hana á fjóra fætur og nauðgað henni þannig og hafi hann svo farið í burtu.  Þá hafi hún hringt í vinkonu sína sem var farin á Selfoss og þá hafi hún hringt í E vinkonu sína og hún hafi komið til hennar.   Þá hafi hún verið í sjokki hágrátandi og verið öll út í sárum á fótunum og höndunum.  Hún hafi ekki viljað viðurkenna fyrir sjálfri sér hvað hafi komið fyrir þannig að hún hafi bara viljað fara í sturtu.  Þá hafi löggan komið og séð hana og tekið hana upp í.  Þeir hafi farið með sig á bryggjuna til að finna ákærða og svo hafi verið farið með sig á lögreglustöð til skýrslugjafar og svo á Neyðarmóttöku.

Aðspurð um nánari lýsingu á tildrögum þess að þau hafi farið í skotið bak við skólann kvaðst vitnið ekki muna alveg hvernig það hafi komið til.  Ákærði hafi byrjað að labba með sig bak við [...] en hún hafi verið sátt við að kyssa hann en ekkert meira og hafi sagt honum það að hún vildi ekkert meira.  Þar hafi þau verið að kyssast.  Hún hafi sagt honum að hún hafi verið búin að vera á blæðingum og að hún vildi ekki fara með honum neitt annað.  Þá hafi hann þrýst á hana með hendinni og farið með hana þarna hjá skólanum og svo þegar þangað var komið í skotið þá hafi hann byrjað að klæða hana úr buxunum og svo hafi hann klætt sig úr.  Hún myndi samt ekki alveg tímaröðina en hann hafi alla vega neytt hana til munnmaka við sig og svo hana líka.  Þá hafi hann látið hana leggjast á hnén og nauðgað henni aftan frá í leggöng og svo hafi hann haldið henni ofan á sér og nauðgað henni þannig.  Þá hafi ákærði legið á bakinu og haldið í hana þegar hún hafi verið ofan á honum.  Þá hafi hún verið alveg frosin og ekki getað gert neitt.  Bak við [...] hafi ákærði haldið í höndina á henni og tosað hana áfram, en hann hafi ekki beðið hana að koma neitt, enda hafi hún verið búin að gera grein fyrir því að hún vildi það ekki, en honum hafi bara verið skítsama.  Ekki mundi vitnið eftir því að ákærði hefði stoppað á leiðinni til að pissa.  Ákærði hafi haldið í hana alla leið frá [...] þar til komið var í skotið, að því er hana minnti.  Aðspurð hvort vitnið hafi reynt að komast í burtu á leiðinni frá [...] kvaðst hún hafa verið í sjokki bara af því þetta hafi bara verið eitthvað sem hann hafi ætlað sér, þannig að hún hafi ennþá verið að gera honum grein fyrir því að hún vildi ekki gera neitt.  Ekki mundi vitnið eftir því að ákærði hafi svarað því neitt en hann hafi sagt að sér væri alveg sama hvort hún væri á blæðingum.  Vitnið kannaðist við að ákærði hafi sagt að hann hefði engan smokk eða neitt og hann hafi spurt hana hvort hún væri á pillunni eða eitthvað og hún hafi svarað því játandi.  Þetta hafi verið áður en þau komu í skotið.  Eftir á hafi ákærði sagt við hana að taka neyðarpilluna því hann vildi ekki að neitt gerðist eða eitthvað og svo hafi hann látið sig hverfa.  Þegar í skotið hafi verið komið hafi ákærði byrjað að fara með hana inn í horn og byrjað að kyssa hana og svo hafi hann verið byrjaður að klæða hana úr buxunum og klæða sig sjálfan svo úr buxum og svo hafi hann nauðgað henni standandi upp við vegginn.  Vitnið neitaði því að hafa kysst ákærða á móti eftir að í skotið var komið.  Það hafi hún aðeins gert hjá[...].  Ekki mundi vitnið hvort ákærði hafi sett jakkann sinn á jörðina en hann hafi sagt henni að leggjast niður og haldið í hana.  Ekki mundi vitnið hvort ákærði hafi lagst fyrst niður sjálfur.  Hann hafi lagst og svo hafi hann haldið í hana og látið hana ofan á sig.  Hún  hafi frosið og ekkert vitað hvað var í gangi og bara hugsað um að hún vildi komast í burtu.  Þegar ákærði hafi verið búinn að nauðga henni og verið liggjandi hafi hann ýtt höfði hennar niður og látið hana hafa við sig munnmök.  Ekki mundi vitnið hvort ákærði hafi sagt henni að veita sér munnmök.  Ekki mundi vitnið hve lengi munnmökin hefðu staðið.  Hann hafi haft munnmök við sig og þá hafi hún verið standandi og hann hafi farið niður á hnén eða eitthvað svoleiðis.  Þetta hafi verið eftir að ákærði hafi haft samfarir við hana aftan frá en áður en þau hafi lagst.  Taldi vitnið að þessu hefði lokið þegar hún hafi verið klofvega ofan á ákærða, með því að hann hafi sleppt sér og þá hafi hún staðið upp og dregið upp um sig buxurnar og hann líka og hann hafi svo hlaupið í burtu.  Ekki mundi vitnið eftir að ákærði hefði spurt hana einhvers í skotinu eða að þau hefðu átt þar orðaskipti.  Vitnið hafi ekki sagt neitt við hann að sér væri illt eða annað í skotinu.  Hún hafi þar verið bara í sjokki og hugsað um að hún vildi komast heim.  Þetta hafi verið ógeðslegur staður og vond lykt þar.  Vitnið kvaðst hafa fundið mikið til í hnjánum meðan hún var í skotinu og hnén hennar nudduðust við grjótið þegar hún var ofan á honum.  Hún hafi byrjað að finna til í hnjánum þegar hún var klofvega ofan á ákærða, en þá hafi hnén nuddast við jörðina.  Hún hafi líka fundið til í hnjánum eftir að hún klæddi sig í buxur.  Aðspurð taldi vitnið að þau hefðu ekki talast við þegar þau hittust fyrsta sinni á bryggjunni, en einhver annar hafi talað við hann.  Vitnið hafi aðeins vitað hver hann var og vitað hve gamall hann væri.  Ekki mundi vitnið hvort ákærði hafi spurt hana að aldri.  Vitnið vissi ekki hvort ákærði hafi vitað hver hún væri og hve gömul hún væri.

Vitnið kvaðst ekki hafa verið með áfengi sjálf en hafa drukkið nokkra sopa af áfengi hjá F vinkonu sinni um kvöldið, u.þ.b. hálfa hálfs lítra flösku af blönduðu áfengi.  Vinkonan hafi líka verið að drekka og verið eitthvað drukkin, frekar mikið en lítið.  Vitnið kvaðst hafa farið að vera stressuð þegar þau hafi nálgast skólann, hún og ákærði, en hún hafi ekki vitað hvert hann væri að fara með hana.  Ekki vissi vitnið hvað var langt frá [...] að skólanum, en fannst það ekki vera langt.  Hún hafi ekki frosið á leiðinni frá [...] að skotinu, en þá hafi hún verið stressuð.  Hún hafi ekki reynt að komast undan en verið búin að segja við ákærða að hún vildi ekki eiga með honum náin kynni og hún væri á blæðingum og hafi haldið að það væri nóg.  Ákærði hafi ýtt eða þrýst á bakið á henni og verið við hliðina á henni en hún hafi ekki reynt að hlaupa undan.  Ekki mundi vitnið hvort þau hefðu talað saman á leiðinni.  Eftir að í skotið hafi verið komið hafi ákærði klætt hana fyrst úr buxunum og svo sjálfan sig.  Á meðan hann hafi klætt sjálfan sig úr buxum hafi hún staðið úti í horni í skotinu.  Ákærði hafi ekki haldið neitt í hana á meðan, en hún hafi ekki reynt að komast í burtu á meðan og hafi bara staðið og verið frosin og ekki vitað hvað hún ætti að gera.  Hún hafi bara verið hrædd.  Vitnið kannaðist ekki við að ákærði hefði spurt hana þegar hann lá á bakinu hvort eitthvað væri að og hvort hún vildi hætta og að hún hafi neitað því og sagt að hann ætti að halda áfram.  Aðspurð um það sem vitnið E hafði eftir vitninu í skýrslugjöf í Barnahúsi um að hún hafi „riðið Axel Páls“ kvað vitnið að það geti vel verið að hún hafi orðað þetta þannig af því að hún hafi verið í sjokki og ekki vitað hvernig hún ætti að orða þetta við E, enda erfitt fyrir sig að hringja eftir þetta og segja við bestu vinkonu sína í símann beint út að sér hafi verið nauðgað.  Hún hafi ekki verið að meina það að hún hafi tekið þátt í mökum með ákærða af fúsum og frjálsum vilja þó að hún hafi kannski orðað þetta svona við E.  Ekki mundi vitnið eftir að hafa sagt við E að hún hefði leyft þetta en sæi „geðveikt mikið eftir þessu“, en hún hafi verið í sjokki og ekki vitað hvernig hún ætti að orða þetta og ekki viljað samþykkja hvað hafi gerst.  Kvað vitnið ekki rétt hjá E að eftir á hafi komið „geðveikt mikið af fólki“. Aðspurð kvaðst vitnið ekki muna alveg hvort ákærði hafi haft sáðlát.  Vitnið kvaðst enn vera með ör á hægra hné og sýndi það í réttinum.  Ekki hafi hún farið í aðgerð vegna þess en hún hafi farið til lýtalæknis og hann hafi viljað sjá til og örin hafi skánað.  Vitnið kvað sér hafa liðið mjög illa andlega fyrst á eftir um sumarið og átt erfitt með svefn lengi á eftir.  Þó hafi andleg líðan skánað, enda hafi hún verið dugleg að fara í viðtöl til G.  Aðspurð kvaðst vitnið hafa sagt ákærða í skotinu að hún væri á blæðingum og að hún vildi þetta ekki, en hún hafi ekki ýtt honum frá sér þá, enda hafi hún þá verið svo hrædd að hún hafi ekki getað gert neitt.  Aðspurð hvers vegna hún hafi ekki farið burt þegar þau hafi verið á leið að skotinu og svo þegar ákærði lá á bakinu kvaðst vitnið í báðum tilfellum ekki hafa þorað það, en hún hafi ekkert vitað hverju hún hefði mátt búast við af ákærða.  Það hafi líklega verið fleira fólk nálægt þegar þau hafi verið á leiðinni frá [...], en ekki vissi hún hvaða fólk það gæti hafa verið.  Þegar þau hafi verið í skotinu hafi hún ekki séð fólk en hún hafi heyrt í fólki eins og hinum megin við skólann og hafi líka heyrt í bílum, en þegar hún hafi farið úr skotinu, eftir að ákærði hafi verið farinn, þá hafi hún séð bíl og í honum hafi verið einhver maður.  Aðspurð kvaðst vitnið aldrei hafa legið á bakinu þegar á þessu stóð, en verið á hnjánum þegar hún var ofan á ákærða og á fjórum fótum þegar hann hafi haft við sig samfarir aftan frá.  Kvaðst vitnið hafa farið 6 sinnum til sálfræðingsins í nóvember og a.m.k. einu sinni í mánuði.  Hún hafi ábyggilega ekki farið í minna en 20 viðtöl.  Aðspurð kvaðst vitnið vera 176 sm á hæð og rúmlega 80 kíló, en í júlí 2010 hafi hún verið léttari en ámóta há.     

Vitnið I, hjúkrunarfræðingur á Neyðarmóttöku, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hafi skoðað brotaþola á Neyðarmóttöku umrætt sinn.  Hún hafi verið illa til reika, óhrein og rifin og grátið mikið.  Hún hafi átt mjög erfitt með að tala um atburðinn.  Hún hafi setið hokin og lítið getað horft á vitnið þegar hún hafi verið að segja frá þessu og sýnt að því leyti dæmigerð álagseinkenni.  Brotaþola hafi virst líða mjög illa.  Vitnið hafi séð líkamlega áverka á brotaþola og tekið af þeim ljósmyndir.  Brotaþoli hafi sagt að hún væri á blæðingum.  Vitninu hafi fundist áverkar samrýmast sögu brotaþola.

Vitnið G, forstöðumaður Barnahúss, uppeldis- og afbrotafræðingur,  kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hafi hitt brotaþola 6 sinum áður en hún ritaði skýrslu sem liggur fyrir í rannsóknargögnum, en samtals hafi þær hist 20 sinnum.  Brotaþoli sé dugleg og kraftmikil stelpa.  Hún hafi engan sérstakan bakgrunn um vanlíðan, s.s. kvíða eða þunglyndi.  Hún hafi nýtt sér viðtölin mjög vel.  Fyrst hafi hún átt mjög erfitt, einkum með svefn.  Það hafi svo bitnað á skólanámi hennar.  Þetta hafi staðið svona fram undir jól 2010, en eftir það hafi líðan hennar farið að batna og sérstaklega þegar komið hafi verið fram undir vor 2011.  Sé hún komin á þokkalega gott ról.  Enn sé þó verið að fást við reiði og kvíða í tengslum við það.  Brotaþoli sé á góðri leið.  Í meðferðinni sé notuð áfallamiðuð hugræn atferlismeðferð sem byggi á því að hjálpa með líðan og tilfinningar til að breyta hugsun og hegðun til að létta á tilfinningum.  Brotaþoli hafi mætt gríðarlega vel og sé dugleg að nýta sér meðferðina og þær leiðbeiningar sem vitnið hafi veitt henni.  Þetta sé helsta hlutverk vitnisins, að hjálpa brotaþola með líðan og tilfinningar og ná aftur tökum á lífi sínu.  Brotaþoli uppfylli engin skilyrði þess að greinast með áfallastreituröskun.  Þegar börn verði fyrir einhvers konar áfalli þurfi að vinna með ýmsa líðan og brotaþola hafi fundist erfiðast að sumt hafi minnt hana á atvikið og þá einkum sárin á hnjánum.  Það hafi lagast vorið 2011 og þá hafi líðan hennar farið mjög batnandi þegar hún sé ekki minnt stanslaust á það sem hafi gerst.  Þær hafi farið í gegnum líðan og tilfinningar vegna atviksins.  Upplifun og líðan brotaþola sé dæmigerð fyrir þolendur kynferðisbrota.  Hún hafi tengt líðan sína við atvikið og t.d. þegar hún hafi ekki getað sofið þá hafi hugsanir hennar snúist um atvikið.  Brotaþoli hafi verið uppfull af skömm og sektarkennd.  Reiðin séu varnarviðbrögð við sársauka.  Þá hafi verið til staðar hjá brotaþola sjálfsásökun gagnvart því sem gerðist.  Vitnið kvaðst áætla að hitta brotaþola á að giska 5 sinnum í viðbót.  Það þurfi að klára að vinna með reiðina sem sé það eina sem standi eftir í dag.  Annars sé brotaþoli komin á þokkalega gott ról.  Aðspurð hvort vitninu hafi fundist brotaþoli einlæg í frásögn sinni, kvað vitnið lítið hafa rætt sjálft atvikið við brotaþola, en þess meira hafi verið rætt um tilfinningar brotaþola.  Brotaþoli hafi verið trúverðug í augum vitnisins þar sem tilfinningar hennar hafi verið í samræmi við það sem hún hafi lýst.  Ekkert annað í bakgrunni brotaþola hafi komið fram til að skýra vanlíðan hennar.  Vitninu fannst ólíklegt að viðbrögð og vanlíðan brotaþola gætu skýrst af því að hún hefði sjálfviljug tekið þátt í samförum með ákærða, en séð „geðveikt mikið eftir því“, en kvaðst ekki geta útilokað það þó að það væri mjög langsótt að mati vitnisins.  Þá kom fram hjá vitninu að það sé þekkt að þegar hræðsla eða álag á sálina fer yfir ákveðinn þröskuld þá geti maður frosið og átt erfitt með segja eða gefa eitthvað frá sér.

Vitnið J kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún og brotaþoli væru vinkonur og hefðu kynnst gegnum sameiginlega vinkonu.  Ekki kvaðst vitnið þekkja ákærða.  Vitnið kvaðst hafa verið á [...] ásamt fleirum.  Þá hafi brotaþoli hringt og kærasti vitnisins hafi rétt E, vinkonu vitnisins, símann og hún hafi hlaupið til og vitnið á eftir og þá hafi þær hitt brotaþola hágrátandi.  Brotaþoli hafi sagt að þetta hafi gerst og þá hafi ákærði verið að fara í burtu, en verið skammt frá.  Fyrst hafi K, kærasti vitnisins, talað við brotaþola í símann, en ekki vissi vitnið hvað þeim hafi farið á milli en það hafi verið mjög stutt og hann hafi strax rétt E símann.  E hafi talað við brotaþola en ekki vissi vitnið hvað þeim hefði farið á milli.  Þegar vitnið og E hafi komið að brotaþola hafi hún verið hágrátandi og haldið á peysunni sinni og sagt að ákærði hafi nauðgað sér.  Ekkert hafi brotaþoli sagt meira um þetta.  Vitnið hafi orðið mjög reið við að sjá ákærða gangandi þarna um og virst mjög ánægður og gargað eitthvað á hann og þá hafi hann farið í burtu.  Brotaþoli hafi verið öll út í drullu.  Brotaþoli hafi lítið verið að hitta þær vinkonur eftir þetta og verið svona „með sjálfri sér“.

Vitnið E, vinkona brotaþola, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hún hafi verið á [...] þegar brotaþoli hafi hringt í sig grátandi og sagt sér að koma til sín og þá hafi vitnið og J hlaupið til brotaþola og hún hafi verið hágrátandi og verið að reyna að segja frá því hvað hafi gerst.  Vitnið hafi túlkað þetta öðruvísi af því að brotaþoli hafi ekki verið búin að viðurkenna fyrir sjálfri sér hvað hafi gerst.  Á þessum tíma og líka þegar vitnið gaf skýrslu í Barnahúsi hafi hún ekki vitað hvað hafi gerst og ekki verið búin að fá neina beina mynd af þessu.  Fyrst hafi vitnið ekki trúað þessu, enda bara sjálf krakki.    Brotaþoli hafi ekki sagt þá að þetta væri nauðgun, enda verið sjálf að átta sig á hvað hefði gerst.  Vitnið hafi ekkert vitað hvað var í gangi en allt hafi þetta gerst mjög hratt.  Skyndilega hafi verið komið fullt af fólki og svo hafi löggan verið komin.  Hafi vitnið lítið náð að tala við brotaþola.  Brotaþoli hafi verið hágrátandi og öll úti í mold.  Brotaþoli hafi talað um að hún þyrfti að þvo fötin sín af því að enginn mætti komast að þessu.  Brotaþoli hafi sagt að hún hafi verið eitthvað með ákærða og leyft honum að vera með sér að kyssast og þannig en ekkert eitthvað neitt meira.  Þetta hafi ekkert átt að fara svona langt og brotaþoli hafi verið bara í sjokki og hágrátandi  og vitnið hafi lítið skilið brotaþola.  Vitnið kvaðst hafa séð ákærða hlaupa burtu.  Vitnið kvað brotaþola hafa verið mjög skrítna nokkra mánuði á eftir og hafi hún ekki viljað ræða þetta.  Vitnið hafi ekki skilið þetta fyrst en skilji þetta betur núna, enda hafi brotaþoli talað um þetta við sig og vinkonurnar og hafi þær talað um þetta sín á milli.  Kom fram hjá vitninu að hún þekkti ákærða ekki neitt. 

Vitnið L, vinkona brotaþola, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hún og brotaþoli hafi verið nánar og bestu vinkonur árum saman.  Ekki kvaðst hún þekkja ákærða.  Vitnið kvaðst ekki hafa verið á [...] eða á [...] umrætt sinn.  Brotaþoli hafi hringt í sig skömmu eftir atvikið og spurt hvar vitnið væri og kvaðst vitnið vera á[...] og hafi brotaþoli spurt hvort hún vissi um einhverjar stelpur á [...] og hafi vitnið neitað því og brotaþoli þá skellt á.  Þá hafi brotaþoli ekkert sagt hvað hafi gerst.  Vitnið hafi svo verið spurð að því á „facebook“ strax um nóttina hvort brotaþoli hafi farið á Neyðarmóttöku og þá hafi vitnið hringt í vinkonur sínar og fengið nánari upplýsingar.  Vitnið kvaðst hafa rætt um þetta við brotaþola.  Vitnið kvað brotaþola hafa verið auma og öðruvísi en hún ætti að sér að vera eftir þetta, hafi verið mjög lítil í sér en hún sé venjulega sterk.  Brotaþola líði enn illa út af þessu þó að hún hafi samt styrkst.

Vitnið M kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hann þekkti brotaþola gegnum vinahóp sinn.  Ekki þekkti vitnið ákærða.  Vitnið hafi verið á [...] umrætt sinn og þá hafi K, félagi hans, hlaupið í átt að skólanum og hafi vitnið farið á eftir honum.  Vitnið hafi verið viðstatt þegar brotaþoli var að tala við vinkonur sínar eftir atvikið.  Vitnið hafi ekki séð brotaþola gráta en hún hafi verið með vinkonum sínum og hafi þeir piltarnir verið reknir frá.  Ekki hafi vitnið tekið eftir neinu sérstöku varðandi útlit brotaþola.  Ekki hafi vitnið heyrt brotaþola segja neitt frá því sem hafi gerst.  Vitnið kvaðst ekki hafa rætt við lögreglu. 

Vitnið N lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um að hafa verið staddur á [...] umrætt sinn við eftirlit vegna [...].  Mikið hafi verið þar af unglingum.  Þeir hafi veitt athygli hóp af unglingum og eins að stúlka hafi legið í grasinu og mikið hafi virst ganga á í kring.  Þeir lögreglumennirnir hafi verið á bifreið og hafi hægt ferðina og skrúfað niður rúðuna og þá hafi komið tveir piltar að þeim og þeir lögreglumennirnir hafi orðið þess áskynja að eitthvað væri í gangi, en piltarnir tveir hafi verið að benda á stúlkuna sem lá í grasinu og sagt að lögreglumennirnir ættu að ræða við hana, án þess að piltarnir vissu sjálfir hvað hefði gerst.  Svo hafi stúlkan staðið upp og greinilega verið mikið niðri fyrir og grátandi.  Hún hafi gengið í burtu frá þeim.  Þeir hafi farið á eftir henni og látið hana komast frá hópnum.  Vitnið hafi kallað í stúlkuna, sem var brotaþoli, og hún komið að bílnum hjá þeim.  Hún hafi verið hikandi að segja hvað hafi gerst, en svo hafi það komið fram hjá henni að henni hafi verið nauðgað.  Þá hafi hún verið beðin að setjast inn í bílinn hjá þeim og hún gert það.  Þeir hafi metið hana trúverðuga, að það hefði eitthvað slíkt getað átt sér stað.  Þá hafi verið aðalatriði að ná utan um málið, finna vettvang og geranda.  Ákærða hafi þeir fundið skömmu síðar og hann verið handtekinn og færður á lögreglustöð.  Brotaþoli hafi jafnframt verið færð á lögreglustöð.  Ákærði hafi fundist eftir rúnt um [...] að ábendingu brotaþola.  Nánar aðspurður um ástand brotaþola kvað vitnið hana hafa verið í mikilli geðshræringu og greinilega hvílt mikið á henni.  Hún hafi ekki verið mjög viljug að láta uppi hvað það hafi verið.  Hún hafi verið sýnilega beygð og grátið mikið.  Ekki mundi vitnið vel eftir fötum brotaþola að öðru leyti en því að hún hafi verið í gallabuxum og þær hafi verið blóðugar á hnjám.  Hafi brotaþoli sagt að blóðið væri vegna þess sem hefði átt sér stað.  Ekki hafi hún lýst fyrir þeim í smáatriðum hvað hefði gerst, enda hafi ekkert verið gengið á hana með það.  Þá hafi brotaþoli sýnt þeim vettvang.  Vitnið staðfesti að brotaþoli hafi skýrt þeim frá því að hún væri 15 ára.  Ekki gat vitnið áætlað vegalengdina frá [...] að skotinu bak við skólann.  Vitnið staðfesti frumskýrslu sem það gerði við rannsókn málsins.

Vitnið B, móðir brotaþola, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að fyrstu vikurnar eftir umrætt atvik hafi brotaþoli lokað sig inni og verið inni í herbergi sínu.  Hún hafi átt erfitt með svefn og erfitt með að vakna á morgnana.  Hún hafi átt mjög erfitt með að fara í sund og leikfimi vegna öra á hnjám eftir atburðinn.  Vitnið hafi farið með brotaþola til lýtalæknis vegna þess.  Fjölskyldan hafi öll fengið tíma hjá geðlækni um jólaleytið 2010 vegna þessa, þ.e. faðir brotaþola og bróðir hennar og vitnið líka sem hafi fengið aðeins lengri meðferð þar sem hún hafi sjálf lent í kynferðislegu ofbeldi sem barn og hafi það atvik sem kom fyrir brotaþola því lagst mjög illa í hana.  Hafi vitnið lagst í þunglyndi eftir áramótin vegna þess og ekki verið mikill stuðningur fyrir brotaþola.  Hafi vitnið treyst G fyrir brotaþola sem hafi verið mjög dugleg að fara til  hennar í viðtöl.  Síðustu daga hafi brotaþola liðið mjög illa.  Eftir áramótin hafi vitnið ekki spurt brotaþola neitt um þetta.

Vitnið O lögreglumaður kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og staðfesti að hafa gert skýrslu sem skjalmerkt er í rannsóknargögnum nr. 2.5. og er um viðtöl við vitni.  Mundi vitnið ekki sérstaklega eftir samtölum sínum við vitnin.  Það hafi gerst eftir að rannsóknargögn hafi borist aftur til lögreglu frá ríkissaksóknara.

Vitnið P, sérfræðingur við tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og staðfesti að hafa gert tæknirannsóknir vegna málsins.  Vitnið hafi fengið til rannsóknar fatnað ákærða og brotaþola.  Í fatnaði ákærða voru mikil óhreinindi.  Blettur hafi fundist í pólóbol og á innanverðum nærbuxum sem hafi gefið svörun við sæðisprófi.  Ekki hafi verið gerð smásjárskoðun á þeim.  Tvær peysur frá brotaþola hafi verið mjög óhreinar með sandi og mold, en engir blettir finnanlegir.  Í leggingsbuxum, nærfötum og dömubindi brotaþola hafi ekki verið slík óhreinindi.  Í fötum brotaþola frá Neyðarmóttöku hafi verið blóðblettir í gallabuxum, nærbuxum og dömubindi.  Í sýnum sem tekin hafi verið af andanefju og 4 af 5 pinnum með stroki frá kynfærum brotaþola hafi komið fram svörun við sæðisprófi en engar sæðisfrumur hafi fundist.  Í gallabuxum hafi verið blóðblettir í hnéhæð á hægri skálm.  Vitnið staðfesti að hafa tekið ljósmyndir sem eru í rannsóknargögnum.  Sýni af strokpinnum sé mjög lítið og stundum hendi það að ekki komi fram frumur þó að svörun við sæðisprófi sé jákvæð.  Vitnið staðfesti rannsóknargögn sem hann vann.  Aðspurður um ástæður þess að ekki hafi verið gerð smásjárskoðun sagði vitnið að það væri almennt ekki leitað að sæðisfrumum þegar blettir í karlmannsfötum gæfu jákvæða svörun við sæðisprófi, en leit að sæðisfrumum væri fyrst og fremst gerð til að kanna hvort til staðar væri sýni sem tækt væri til DNA-rannsóknar, en í þau 6 ár sem vitnið hafi unnið við þessar rannsóknir hafi aldrei verið beðið um slíka skoðun á blettum í fatnaði karlmanns sem væri að öllum líkindum frá honum sjálfum.  Frekar væri það gert ef sæðisblettir fyndust í fatnaði konu til að leita eftir sýni til DNA-greiningar.  Engir sæðisblettir hafi fundist í fatnaði brotaþola, en í fatnaði ákærða hafi greinst sæðisblettir innan á nærbuxum og einn blettur framan á pólóbol.     

Vitnið Q, æskuvinur ákærða, kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og bar um það að hann hafi verið staddur á [...] umrætt sinn ásamt ákærða.  Kvaðst vitnið minna að fyrir framan [...] í [...] á [...]i hafi hann séð ákærða og brotaþola vera að kyssast.  Annað kvaðst vitnið ekki hafa séð af samskiptum þeirra.  Ekki hafi hann heyrt af þessu frekar fyrr en daginn eftir.  Kvaðst vitnið ekki hafa orðið áskynja neins óeðlilegs í samskiptum ákærða og brotaþola.  Kvað vitnið aðspurður að hann og ákærði hefðu lítið rætt þetta, en helst að ákærði hafi verið spurður um hvort hann sé hræddur um að vinir hans haldi að hann hafi framið umrætt brot.  Kvaðst vitnið hafa hitt ákærða 1-2 dögum eftir atvikið og hafi hann þá ekki virst hafa miklar áhyggjur af því.

Vitnið R, vinur ákærða, gaf skýrslu fyrir dóminum við aðalmeðferð gegnum síma og skýrði svo frá að hann hafi verið staddur á [...] á [...] umrætt sinn.  Kvaðst vitnið vita hver brotaþoli er.  Vitnið kvaðst hafa verið nálægt bryggjunni þegar hann hafi séð ákærða og brotaþola koma gangandi saman.  Ákærði hafi spjallað við sig og haldið utan um brotaþola og svo hafi þau gengið burtu saman.  Vitninu fannst eins og þau væru saman, ákærði og brotaþoli.  Eins og kærleikar væru á milli þeirra.  Þegar þau hafi gengið burtu hafi þau fyrst haldið utan um hvort annað en svo bara gengið hlið við hlið.  Þau hafi gengið í áttina út úr bænum.  Vitninu fannst ekki eins og ákærði væri að neyða eða þvinga brotaþola til að koma með sér.  Vitnið hafi verið á bryggjunni þegar hann hafi séð þetta.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð ákærða og brotaþola kyssast.  Vitnið kvaðst ekki hafa merkt að ákærði og brotaþoli væru áberandi ölvuð.  Vitnið og ákærði hefðu lítið talað um þetta en ákærði hafi ekki viljað tala mikið um þetta og tekið málið mjög nærri sér.  Vitnið kannaðist við að lögregla hefði rætt við sig vegna málsins.  Vitninu fannst frásögn ákærða um atvikið fyrstu dagana eftir það vera ónákvæmar og mismunandi, m.a. um í hvaða stellingum þau hefðu verið.

Vitnið S kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann hafi verið á [...] umrætt sinn.  Kvaðst vitnið hafa gengið fram hjá ákærða og brotaþola, en hann myndi ekki alveg hvar, en hann hafi verið rétt hjá einhverjum stórum steinum, íþróttahúsinu eða sundlauginni eða eitthvað.  Vitnið kvað öll hús á [...] eins fyrir sér og þekkti ekki staðhætti.  Þau hafi ekki verið úti á víðavangi heldur upp við eitthvert stórt hús.  Minnti vitnið að húsið hafi verið rautt.  Gat vitnið ekki nánar lýst umhverfinu.  Hafi vitnið verið drukkið.  Vitnið hafi ekki stoppað neitt þegar hann hafi gengið fram hjá þeim, en vitnið hafi séð að þau hafi verið „að ríða“.  Hafi vitnið tekið eftir því að brotaþoli hafi verið einhvern vegin ofan á, en ákærði legið á jörðinni.  Vitnið hafi ekki skipt sér af þessu eða talað við þau, enda honum óviðkomandi.  Vitnið kvaðst aðeins hafa séð að þetta væri kona en ekki þá hafa séð hver konan var, en séð að þetta var ákærði.  Mundi vitnið eftir því að ákærði hafi ekki verið í jakkanum sínum, en gat ekki lýst nánar hvernig þau hafi verið klædd, en minnti að hún hafi verið klædd á efri hluta líkamans.  Hafi hann ekki merkt að þau hafi veitt honum athygli.  Vitnið hafi svo staðið við hliðina á ákærða þegar hann hafi verið handtekinn og þá hafi honum fundist það undarlegt að hann væri grunaður um nauðgun á stúlku sem hafi verið ofan á ákærða.  Hafi vitnið ekki upplifað sem nauðgun það sem hann hafi séð og ekki séð neina þvingun.  Hafi hann ekki heyrt neitt í þeim.  Vitnið kvaðst vera félagi ákærða og brotaþola beggja. Bar vitnið að þau hefðu bæði sagt sér, sitt í hvoru lagi, að málinu væri ekki lokið en að öðru leyti hefði hann ekki rætt þetta sérstaklega við þau.  Vitnið kvaðst ekki hafa séð brotaþola eftir þetta.  Þegar vitnið hafi hitt ákærða á bryggjunni eftir samskipti hans við brotaþola hafi ákærði verið „geðveikt stoltur af því að hafa sofið hjá 95 módel stelpu“.  Hafi ákærði sagt „ég var að sofa hjá 95 módeli“.  Hafi ákærði sagt sér hver stúlkan hafi verið.  Ákærði hafi sýnt sér jakkann sinn eftir á og vitnið hafi spurt hvers vegna jakkinn væri svona skítugur og ákærði hafi sagt að hann hafi notað jakkann til að breiða undir hnén á brotaþola svo hún myndi ekki meiða sig.  Kvaðst vitnið hafa sagt ákærða að hann hafi séð til þeirra.  Ákærði hafi verið frekar drukkinn, en ekkert ofurölvi.  Ekki kvaðst vitnið hafa séð ástæðu til að gefa sig fram við lögreglu til að skýra frá vitneskju sinni.

Vitnið T kom fyrir dóminn við aðalmeðferð og skýrði frá því að hann þekkti bæði ákærða og brotaþola.  Kvaðst vitnið ekki hafa séð þau saman á [...].  Ekkert mundi hann eftir að hafa séð brotaþola þar og ákærða aðeins mjög lítið.  Kvaðst vitnið hafa hitt ákærða daginn eftir og ákærði hafi sagst ekki hafa gert þetta.  Ekki hafi hann rætt þetta við brotaþola og ekki tekið eftir neinni breytingu í hennar fari.

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök. Fyrir dómi skýrði ákærði frá því að hann hafi verið með vinum sínum þegar hann hafi hitt brotaþola umrætt kvöld og hún hafi verið með vinkonum sínum, en þau hafi ekki þekkst. Þau hefðu svo hist seinna um kvöldið og farið að kyssast við [...]. Hann hafi svo spurt brotaþola hvort hún vildi koma með honum afsíðis og hún hafi svarað því játandi. Þau hafi gengið í burtu og haldið utan um hvort annað á göngunni. Hann hafi þurft að stoppa til að pissa og hún hafi beðið eftir honum á meðan. Þá segir ákærði að hann hafi látið hana vita að hann væri ekki með smokk en henni hafi verið alveg sama og honum hafi verið sama þó hún hafi verið á blæðingum. Þau hafi svo séð skot bak við grunnskólann og farið þangað. Þar hafi þau byrjað að kyssast og farið að afklæða sig. Ákærði hafi svo lagt jakka sinn á jörðina og lagst á bakið á jakkann og brotaþoli sest klofvega ofan á hann og þau haft samfarir þannig. Hún hafi svo fært sig ofar og hann veitt henni munnmök og hún hafi líka veitt honum munnmök. Hún hafi svo farið á hnén eða fjóra fætur og hann hafi haft samfarir við hana aftan frá og í þeirri stellingu hafi hann fengið fullnægingu. Hann kvaðst hafa reynt að taka liminn út áður, en taldi að sæðið hefði að hluta til farið inn í brotaþola. Hann hafi svo klætt sig og haldið sína leið. Ákærði neitar því að hafa beitt brotaþola valdi og segir að allt það sem hafi gerst á milli þeirra hafi verið með hennar vilja. Framburður ákærða fyrir dómi er í öllum meginatriðum í samræmi við skýrslu hans hjá lögreglu. Þó er misræmi í framburði hans hvað varðar orðaskipti hans við brotaþola þegar þau voru í skotinu. Þannig sagði ákærði aðspurður hjá lögreglu að eina skiptið sem þau hefðu talað saman meðan á samförunum stóð hafi verið þegar hann hafi spurt hvort hann mætti „taka hana að aftan“ og hún hefði svarað já en sagt nei við endaþarmsmökum. Ákærði sagði hins vegar fyrir dómi að þegar hún hafi verið ofan á honum hafi honum fundist eins og eitthvað væri að og spurt hana, en hún hafi sagt honum að halda áfram. Þá samrýmist framburður ákærða um að hann hafi haft sáðlát í leggöng ekki gögnum málsins, en samkvæmt skýrslu tæknideildar lögreglu fundust sáðfrumur hvorki á börmum brotaþola, leggangsopi, leghálsi eða andanefju, þó að sýni sem tekin voru frá andanefjunni og nefndum líkamshlutum brotaþola hafi gefið jákvæða svörun við sæðisprófi.

Brotaþoli skýrði frá því við skýrslutöku í Barnahúsi að hún og ákærði hafi verið að kyssast við [...] og að það hafi verið með hennar vilja. Hún hafi sagt honum að hún vildi ekki gera neitt meira með honum, en hann hafi bara ætlað að fá hana til þess. Hún hefði sagt nei en hann hefði náð að halda henni og draga hana bak við skólann. Þegar hún var spurð nánar út í þetta sagði hún að hann hefði ekki dregið hana þannig að hún hafi meitt sig, heldur hafi hann togað í hönd hennar og lagt handlegginn yfir axlir hennar og gengið með hana bak við skólann. Þá hafi henni hætt að finnast þetta vera í lagi. Samkvæmt gögnum málsins hafa þau gengið saman um 400 m. Við aðalmeðferð málsins fyrir dómi kvaðst brotaþoli ekki alveg muna hvernig það hafi komið til að þau fóru bak við skólann. Hún hafi sagt ákærða að hún væri á blæðingum og að hún vildi ekkert meira en kyssa hann. Einnig hafi hún sagt honum að hún vildi ekki fara neitt með honum, en hann hafi þrýst á hönd hennar eða bak og farið með hana að skólanum og hún hafi þá orðið stressuð. Að mati dómsins gat ákærði ekki litið svo á að hún væri samþykk því að eiga nánari kynferðisleg samskipti við hann þótt hún hafi gengið með honum að umræddu skoti.

Fyrir liggja myndir af skotinu og er það lítið og þröngt. Undirlagið er jarðvegur, sandur og möl. Um atvik þar sagði brotaþoli í skýrslutökunni í Barnahúsi að ákærði hefði ýtt henni út í horn og klætt hana úr buxunum og svo klætt sig úr buxunum. Ákærði hafi svo ýtt henni á jörðina á hnén og haft við hana samfarir. Svo hafi hann lagst á bakið og haldið henni ofan á sér. Hún kvaðst hafa ýtt við honum en hann hafi náð að halda henni. Jafnframt greindi hún frá því að hún hefði sagt honum að hún hafi ekki viljað þetta. Þá sagði brotaþoli að ákærði hafi svo ýtt henni niður að limi sínum og látið hana hafa við sig munnmök og haldið höfði hennar á meðan. Einnig sagði hún að ákærði hafi haft munnmök við hana þegar hann lá á bakinu. Brotaþoli hélt að ákærði hafi fengið sáðlát einu sinni, við munnmökin og að sæðið hafi farið á hann og upp í hana. Fyrir dómi lýsti brotaþoli eins og áður að þegar í skotið var komið hafi ákærði klætt sig úr buxunum og hann hafi klætt hana úr buxunum. Hún kvaðst ekki vera viss um tímaröðina en ákærði hafi fyrst nauðgað henni standandi og er það í samræmi við frásögn hennar á Neyðarmóttöku og það sem haft er eftir ákærða í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á honum. Einnig lýsti hún því að hann hafi lagt hana á fjóra fætur og nauðgað henni þannig og hann hefði lagst á bakið og haldið henni ofan á sér og nauðgað henni þannig. Jafnframt hafi hann ýtt höfði hennar niður og látið hana hafa við sig munnmök og þá hafi hann haft munnmök við hana. Fram kom hjá brotaþola að hún hafi verið frosin, hrædd og ekkert getað gert. Borinn var undir brotaþola vitnisburður vinkonu hennar E, um að brotaþoli hafi sagt að hún hafi „riðið Axel Páls“ og að hún hefði leyft þetta en sæi „geðveikt mikið eftir því“. Brotaþoli sagði að það gæti vel verið að hún hafi notað þau orð að hún hafi „riðið Axel Páls“, en kannaðist ekki við að hafa sagt að hún hefði leyft þetta og séð eftir því. Brotaþoli gaf þá skýringu á orðum sínum að hún hafi verið í sjokki og ekki vitað hvernig hún ætti að orða þetta, en henni hafi fundist erfitt að segja frá því að henni hafi verið nauðgað.

Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar á blóði sem tekið var af ákærða eftir að hann var handtekinn var hann ölvaður umrædda nótt, en ekkert áfengi reyndist vera í blóði sem var tekið af brotaþola á Neyðarmóttöku. Í skýrslu um réttarlæknisfræðilega skoðun á brotaþola kemur fram að hún var með margar rispur aftan á vinstri olnboga ofanvert. Einnig var hún með dökkleitar skítaklessur framanvert á upphandlegg og framhandlegg. Á ljósmyndum af fatnaði hennar sjást óhreinindi framan og aftan á hettupeysu sem hún var í og á ermum. Jafnframt voru óhreinindi á innanverðri hettupeysunni og á peysu sem hún var innan undir hettupeysunni. Þá sást á fatnaði hennar og við líkamsskoðun að hún var á blæðingum. Brotaþoli var með 0,4 mm ferska rispu við leggangaop, en samkvæmt vitnisburði H læknis þarf átak til að fá slíkan áverka, þó hann geti vel komið án mikillar áreynslu. Þá var brotaþoli með sand fremst í leggangsopi og þegar hún skilaði þvagprufu var sandur í henni. Enn fremur liggur fyrir á ljósmyndum að brotaþoli var mjög hrufluð á hnjám og blæddi úr sárum hennar og þau voru full af óhreinindum. Brotaþoli ber ör á hægra hné eftir þessa áverka og sýndi hún dóminum það. Þegar litið er þessa og vitnisburðar H læknis, um að talsvert þurfi til að fá slíka áverka og maður njóti ekki kynlífs á meðan, benda þeir eindregið til þess að þeir séu tilkomnir með því að ákærði hafi látið brotaþola leggjast á hnén og þvingað hana til samræðis og munnmaka, eins og honum er gefið að sök í ákæru. Þá hefur vitnið N lögreglumaður, sem kom á vettvang, borið um það að brotaþola hafi verið mikið niðri fyrir, hún hafi verið grátandi og blóð hafi verið á buxum hennar á hnjánum. Fannst vitninu brotaþoli trúverðug. Vinkonur brotaþola, E og J, hafa einnig borið um að brotaþoli hafi verið hágrátandi. Þá kom fram hjá vitninu I, hjúkrunarfræðingi á Neyðarmóttöku, að brotaþoli hafi verið illa til reika, grátið mikið og verið með dæmigerð álagseinkenni. Enn fremur hefur vitnið G, uppeldis- og afbrotafræðingur, borið fyrir dómi að brotaþoli hafi átt mjög erfitt eftir atburðinn og líðan hennar sé dæmigerð fyrir þolendur kynferðisafbrota og það væri mjög langsótt að ætla að það væri vegna þess að brotaþoli sjái eftir því að hafa átt kynferðisleg samskipti við ákærða. Jafnframt skýrði vitnið frá því að brotaþoli væri uppfull af skömm og sjálfsásökun, eins og þekkist hjá þolendum kynferðisbrota. Að þessu virtu og með hliðsjón af því að orð brotaþola við vinkonu sína, vitnið E, um að hún hafi „riðið Axel Páls“, voru í engu samhengi við það mikla uppnám sem brotaþoli var í er að mati dómsins ekki hægt að leggja of mikið upp úr þeim. Þá þykir það ekki rýra trúverðugleika brotaþola þótt hún hafi fyrir dómi ekki verið viss um tímaröðina eða hvenær ákærði hafi fengið sáðfall, enda er langt um liðið frá atburðum, hún hefur orðið fyrir miklu áfalli og við skýrslutökur af henni var farið fram og aftur í atburðarrásinni.

Þegar litið er til alls framangreinds, framburðar brotaþola sem fær stoð í gögnum málsins og dómurinn metur trúverðugan, áverka brotaþola og fatnað hennar, andlegrar vanlíðan, þess að hún var á blæðingum, aðstæðna á brotavettvangi, og aldursmunar á henni og ákærða, sem er ekki mikill í árum, en hefur mikla þýðingu á hennar aldri, telur dómurinn sannað svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi notfært sér yfirburðastöðu sína vegna aldurs- og aflsmunar og það að hún var ein með honum fjarri öðrum, látið hana leggjast á hnén og þvingað hana til samræðis og munnmaka, eins og honum er gefið að sök í ákæru og með þeim afleiðingum sem þar greinir.  Um þessa niðurstöðu er ágreiningur meðal dómenda og telur dómsformaður, Sigurður G. Gíslason, héraðsdómari, að of mikill vafi sé uppi um sönnun sakar gagnvart broti á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, til að unnt sé að sakfella ákærða fyrir brot gegn því ákvæði.  Telur þessi dómari að sýkna beri ákærða af ákæru um brot gegn nefndu ákvæði.  Verknaður ákærða varðar við 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur borið um að hann hafi vitað að brotaþoli væri fædd á árinu 1995, en spurði ekki nánar út í það og skeytti þannig engu um það hvort hún væri orðin 15 ára eða ekki. Verður ákærða því einnig refsað samkvæmt 204. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 202. gr. sömu laga.

Ákærði er fæddur í september 1992 og var því 17 ára er hann framdi brot sitt. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að ákærði hefur gerst sekur um alvarlegt kynferðisbrot gegn [...]stúlku. Hún hlaut líkamlega áverka, sem hún ber ör eftir, og hefur þurft að þola andlegar þjáningar. Til refsilækkunar ber að líta til þess að ákærði var sjálfur barn að aldri. Ákærði á sér annars engar málsbætur. Að öllu þessu virtu þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.

           

Brotaþoli rökstyður bótakröfu sína þannig að ákærði hafi með sterkum og einbeittum vilja lokkað og leitt brotaþola, sem var barn að aldri, á afvikinn stað og þar nauðgað henni á hrottalegan hátt, þrátt fyrir að brotaþoli hafi bæði með orðum og gjörðum reynt að sporna við því.  Sé þetta mjög alvarlegt brot sem hafi haft í för með sér gríðarlegan miska fyrir brotaþola, sem hafi upplifað mikla hræðslu og kreppueinkenni allt frá því atburðurinn hafi orðið.  Óvíst sé hvort brotaþoli nái sér nokkurn tíma að fullu af sálrænum afleiðingum brotsins.               

Ákærði hefur gerst sekur um alvarlega meingerð gagnvart brotaþola og á hún rétt á miskabótum af þeim sökum úr hendi hans með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Með hliðsjón af því hvernig ákærði hagaði atlögu sinni að brotaþola og kom fram vilja sínum gagnvart henni á afviknum og ógeðfelldum stað, en jafnframt með hliðsjón af augljósum  afleiðingum fyrir brotaþola, sem var og er barn, þykja miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sbr. 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.  Þykja málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., hæfilega ákveðin 589.850 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Helgu Leifsdóttur hdl. þykir hæfilega ákveðin 668.602 krónur að meðtöldum akstri og virðisaukaskatti.  Þá greiði ákærði annan sakarkostnað samkvæmt yfirliti, alls 379.001 krónu.

Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari, flutti málið af hálfu ákæruvalds.

Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp dóm þennan, ásamt meðdómsmönnunum Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra og Söndru Baldvinsdóttur héraðsdómara.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Axel Nicolai Michelsen, sæti fangelsi í 2 ár.

Ákærði greiði B, kt. [...], og C kt. [...], fyrir hönd ólögráða dóttur þeirra A  kt. [...],  miskabætur að fjárhæð krónur 1.200.000 með vöxtum samkvæmt 8. gr., sbr. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 18. júlí 2010 til 22. ágúst 2011 en með dráttarvöxtum frá þeim degi samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga til greiðsludags

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigurðar Sigurjónssonar, hrl., 589.850 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 668.602 krónur að meðtöldum akstri og virðisaukaskatti í þóknun til Helgu Leifsdóttur hdl., skipaðs réttargæslumanns brotaþola auk annars sakarkostnaðar, 379.001 krónu.