Hæstiréttur íslands
Mál nr. 126/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 29. febrúar 2012. |
|
Nr. 126/2012. |
Lögreglustjórinn
á Suðurnesjum (Vilhjálmur Reyr Þórhallsson fulltrúi) gegn X (Bjarni Hauksson hrl.) |
Kærumál.
Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um
að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr.
88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur
Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. febrúar 2012 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2012, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 5. mars 2012 klukkan 16 og einangrun meðan á því stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði fannst við húsleit á heimili varnaraðila töluvert af vopnum, þar á meðal hlaðin skammbyssa. Þá fannst þar rörasprengja með kveikiþræði og efni sem nota má til sprengjugerðar. Rannsókn málsins er á frumstigi. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 27. febrúar 2012.
Lögreglustjórinn á
Suðurnesjum hefur krafist þess í dag fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til
a-liðar 1 mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og laga nr. 16/1996
og l9/1940, að X, kt. [...],
[...], [...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta
gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 5. mars nk. kl. 16.00.
Í greinargerð
lögreglustjóra og gögnum fylgjandi kröfunni, kemur fram að þann 26. febrúar
2012 hafi lögregla fengið tilkynningu um afbrigðilegt háttalag þolanda á facebook síðu hans. Í framhaldi af tilkynningunni hafi facebook síðan verið skoðuð af lögreglu en þar mátti m.a.
sjá myndir af þolanda handleika skotvopn, þ.e. og riffil og haglabyssu. Þá hafi
einnig mátt sjá myndir af sprengju og efni sem notuð höfðu verið til
sprengjugerðar. Lögregla hafi aflað húsleitarúrskurðar þann 26. febrúar 2012,
sbr. mál R-103/2012. Rétt fyrir miðnætti hafi lögregla farið ásamt sérsveit
Ríkislögreglustjóra inn í íbúð þolanda. Þolandi hafi tekið á móti lögreglu
vopnaður hnífi er hann otaði að lögreglumönnum á vettvangi. Við húsleitina hafi
lögregla lagt m.a. hald á 22 cal. skammbyssu sem hafi
verið hlaðin, skotfæri fyrir 22 cal. skotvopn,
eftirlíkingu af skammbyssu, nokkuð magn hnífa, handjárn auk sprengju og efni
til sprengjugerðar auk annarra muna. Við leit lögreglu hafi ennfremur komið í
ljós að þolandi virðist hafa beitt skammbyssunni, eða öðru sambærilegu
skotvopni, inn í íbúð sinni. Þannig hafi mátt sjá að hleypt hafi verið af
skammbyssunni eða öðru sambærilegu skotvopni. Svo virðist sem að skotið hafi
verið úr skammbyssunni í gegnum svefnherbergishurð, þaðan hafi kúlan farið í
gegnum hurð á fataskáp og loks í hillu í fataskápnum þar sem kúlan staðnæmdist.
Lögreglu hafi ekki tekist að finna kúluna sem skotið var þrátt fyrir leit en
lögregla telji allt benda til þess að um 22 cal.
byssukúlu hafi verið að ræða. Við nánari rannsókn lögreglu á skammbyssunni hafi
komið í ljós að hinni haldlögðu skammbyssu var stolið úr bifreið við Brú í
Hrútafirði þann 19. júní 2006, sbr. lögreglumál nr. 019-2006-330. Þá hafi
lögregla einnig lagt hald á tölvu, minnislykla og önnur gögn sem nú er verið að
rannsaka og geti vonandi varpað frekara ljósi á málið. Vísast nánar til
meðfylgjandi gagna málsins.
Þá segir í
greinargerðinni að rannsókn máls þessa sé á algeru frumstigi. Lögregla vinni nú
að því að rannsaka þau gögn sem hald hafi verið lagt á í málinu. Þá vinni
lögregla nú einnig að því að upplýsa hvort að þolandi kunni að eiga sér
einhverja samverkamenn. Lögregla telji að háttsemi þolanda kunni að fela í sér
brot á vopnalögum nr. 16/1996 og brot gegn XI., XII og XIII. kafla almennra
hegningarlaga, nr. 19/1940. Þá telji lögregla að ætla megi að þolandi kunni að
torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á mögulega samverkamenn sína gangi hann
laus.
Þess er krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1.
mgr. 99. gr. laga nr. 88, 2008. Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna,
a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, ákvæða vopnalaga
nr. 16, 1996 og XI., XII. og XIII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940
telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði
gert að sæta gæsluvarðhaldi og einangrun allt til mánudagsins 5. mars 2012, kl.
16:00.
Kærði mótmælti kröfunni
og til vara að henni verði markaður skemmri tími.
Samkvæmt
rannsóknargögnum málsins er kærði undir
rökstuddum grun um brot sem varðað getur fangelsi. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 95.
gr. laga nr. 88/ 2008 um meðferð sakamála þykja uppfyllt í málinu. Verður því
fallist á kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum eins og hún er fram sett og
nánar greinir í úrskurðarorði. Þá skal kærði sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu
skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurð
þennan kveður upp Ástríður Grímsdóttir héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta
gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 5. mars nk. kl. 16.00.
Kærði sæti einangrun eins
og krafist er á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.