Hæstiréttur íslands

Mál nr. 382/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann
  • Sératkvæði


Föstudaginn 18. júní 2010.

Nr. 382/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Farbann. Sératkvæði.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram bönnuð för frá Íslandi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 1. mgr. 100 gr. sömu laga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2010, þar sem varnaraðila var áfram bönnuð för frá Íslandi þó eigi lengur en til miðvikudagsins 8. september 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að farbanninu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar hæstaréttardómara

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði er varnaraðili íslenskur ríkisborgari og búsett hér. Hefur sóknaraðili fullyrt að hún hafi „takmörkuð tengsl við landið“. Virðist fullyrðing um þetta byggjast á því að móðir hennar sé búsett í Xlandi og að varnaraðili hafi ekki fasta atvinnu. Af hálfu varnaraðila hefur sjónarmiðum sóknaraðila um tengsl hennar við landið verið mótmælt. Segist hún hafa verið búsett hér á landi síðustu tíu árin, eða síðan hún var 18 ára gömul. Kveðst hún eiga þriggja ára gamalt barn hér og vera í fastri atvinnu.

Samkvæmt b. lið 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála eru það skilyrði farbanns að ætla megi að sakborningur „muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar.“ Sönnunarbyrðin hvílir á sóknaraðila um að þessum skilyrðum sé fullnægt í málinu.

Varnaraðili er íslenskur ríkisborgari. Sóknaraðili hefur ekki leitast við að sýna fram á að framangreindar upplýsingar, sem varnaraðili hefur gefið um hagi sína, séu rangar. Ber því að leggja þær til grundvallar dómi í málinu. Verða þá ekki fundin önnur rök fyrir kröfu sóknaraðila en að móðir varnaraðila búi í Xlandi. Að mínum dómi er fjarstæðukennt að þetta dugi til þess að uppfyllt teljist lagaskilyrði farbanns. Tel ég því að fella beri hinn kærða úrskurð úr gildi.

                                                                  

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur, miðvikudaginn 16. júní 2010.

                Árið 2010, er á dómþingi sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Hervöru Þorvaldsdóttur héraðs­dómara, kveðinn upp svofelldur úrskurður.

                Ríkissaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [...], verði gert að sæta áfram farbanni á meðan að mál hennar er til meðferðar fyrir Hæstarétti, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 8. september 2010, kl. 16.00.

         Í greinargerð ákæruvalds kemur fram að þann 15. febrúar sl. hafi ríkis­saksóknara borist rannsóknargögn ofangreinds máls sem varði meintan innflutning dómfelldu og meðákærða Y á fíkniefnum hingað til lands. Samkvæmt gögnum málsins hafi lögregla framkvæmt húsleit á dvalarstað meðákærða Y að [...] 29. desember sl., en við leitina hafi fundist um 800 g af kókaíni. Y og dómfellda, kærasta hans, sem hafi verið stödd í íbúðinni, hafi verið handtekin í kjölfarið. Hinn 30. desember hafi lögreglan framkvæmt aðra húsleit að [...], á heimili stúlku að nafni Z. Við leitina hafi fundist rúmlega 1.200.000 kr. í reiðufé og Z sagst vera að geyma peningana fyrir meðákærða Y. Við yfirheyrslur hafi hann játað að peningarnir væru ágóði af fíkniefnainnflutningi og fíkniefnasölu hans.

         Við yfirheyrslur hafi dómfellda X játað að hafa farið þrjár ferðir til Bandaríkjanna á síðasta ári ásamt meðákærða og hafa flutt inn til landsins fíkniefnin nú í síðustu ferð þeirra, að beiðni meðákærða. Að hennar sögn hafi meðákærði séð um að skipuleggja innflutninginn.

         Með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 31. mars 2010, hafi dómfelldu verið gefið að sök stórfellt fíkniefnalagabrot. Ákæran hafi verið þingfest hinn 12. apríl sl., sbr. mál dómsins nr. S-250/2010, þar sem dómfellda hafi játað sök að mestu leyti. Aðalmeðferð málsins hafi farið fram 27. apríl sl. og í kjölfarið málið verið dómtekið. Sönnunarfærsla ákæruvalds fyrir dómi hafi tekið mið af framlögðum rannsóknar­gögnum. Dómur í máli dómfelldu hafi svo verið uppkveðinn 17. maí í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. S-250/2010 þar sem dómfellda hafi verið sakfelld og dæmd til að sæta fangelsi í 10 mánuði.  Dómfellda hafi áfrýjað dómi héraðsdóms til Hæstaréttar, sbr. tilkynningu hennar um áfrýjun dags. 28. maí sl.

      Dómfellda hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 30. desember til 8. janúar sl. og hafi sætt farbanni frá þeim tíma, sbr. fyrri úrskurði dómsins, og síðast úrskurð dómsins nr. R-162/2010 og R-212/2010, þar sem fallist hafi verið á að þörf væri á að tryggja nærveru dómfelldu hér á landi í þágu málsins með farbanni.

      Dómfellda sé íslenskur ríkisborgari en hafi takmörkuð tengsl við landið. Hún hafi verið skráð í Xlandi skv. þjóðskrá, en sé nú skráð að [...]. Dómfellda hafi þó haft dvalarstað að [...] með meðákærða Y, sem hafi einnig sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins, en sé nú á leið í afplánun 18 mánaða fangelsis fyrir sama mál. Móðir dómfelldu búi í Xlandi en faðir hennar sé látinn. Dómfellda hafi ekki fasta vinnu hér á landi. Nauðsynlegt sé að tryggja nærveru dómfelldu hér á landi til að hún geti ekki komið sér undan fullnustu refsingar og svo ljúka megi meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Sé því nauðsynlegt að dómfellda sæti farbanni meðan á meðferð máls þessa stendur.

         Sakarefni málsins varði við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brotið geti varðað allt að 12 ára fangelsi ef sök sannist.

Vísað sé til framangreinds, framlagðra gagna og b liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 3. mgr. 97. gr. og 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

                Dómfellda var hinn 17. maí sl. dæmd til að sæta fangelsi í 10 mánuði vegna brota gegn 173 gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974 og 1. gr. laga nr. 32/2001, en frá refsivist hennar skal draga gæsluvarðhald frá 30. desember 2009 til 8. janúar 2010. Hinn 28. maí sl. áfrýjaði dómfellda dómi héraðsdóms til Hæstaréttar.

Dómfellda er íslenskur ríkisborgari en hefur takmörkuð tengsl við landið. Má telja hættu á að dómfellda reyni að komast undan málssókn og refsingu með því að yfirgefa landið. Samkvæmt framansögðu er því  fullnægt skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og verður krafa ríkissaksóknara af þeim sökum tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykir ástæða til að marka farbanninu skemmri tíma. Úrskurðinn kvað upp Hervör Þorvaldsdóttir héraðadómari.

ÚRSKURÐARORÐ

Dómfelldu, X, kt. [...], er áfram bönnuð för frá Íslandi, þó eigi lengur en til miðvikudagsins 8. september 2010, kl. 16.00.