Hæstiréttur íslands

Mál nr. 134/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


Föstudaginn 27

 

Föstudaginn 27. apríl 2001.

Nr. 134/2001.

Ákæruvaldið

(Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

gegn

X

(Erlendur Gíslason hrl.)

             

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

X, sem áfrýjað hafði dómi héraðsdóms þar sem hann var sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, kærði úrskurð héraðsdóms er kvað á um höfnun beiðni X um dómkvaðningu matsmanns til að meta tiltekin atriði er vörðuðu sönnunarfærslu í máli hans. Fyrir héraðsdóm hafði verið lögð matsgerð og ljóst þótti að hún hefði skipt þó nokkru þegar leyst var úr hvort nægar sönnur hefðu verið færðar fyrir sök X. Að matsgerðinni stóð einn kunnáttumaður. Talið var að í ljósi þeirra afdrifaríku afleiðinga, sem niðurstaða um þetta kynni að geta haft, yrði X ekki meinað að leita álits fleiri kunnáttumanna, en fyrir slíkri meðferð máls væri viðhlítandi heimild í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 og 3. mgr. 65. gr. sömu laga, sbr. 61. gr. og 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Bæri því að verða við kröfu X um að frekari matsgerðar yrði aflað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. apríl 2001, sem barst réttinum samdægurs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. apríl 2001, þar sem hafnað var beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að umbeðin dómkvaðning nái fram að ganga.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

I.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði gaf ríkissaksóknari út ákæru 10. nóvember 2000, þar sem varnaraðili var borinn sökum um manndráp 27. maí sama árs með því að hafa ýtt nafngreindri stúlku yfir 119 cm hátt handrið á svölum á 10. hæð nánar tiltekins húss þannig að hún féll fram af svölunum og lést af áverkum, sem hún hlaut þegar líkami hennar lenti á stétt við húsið. Var þetta talið varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Við meðferð málsins fyrir Héraðsdómi Reykjaness skýrði varnaraðili meðal annars svo frá að hann hafi snemma morguns 27. maí 2000 komið ásamt stúlkunni í fyrrnefnt hús, þar sem hann hafi haft í hyggju að leita eftir gistingu fyrir þau hjá systur sinni. Hafi honum verið neitað um það. Þau hafi þá farið með lyftu upp í húsið og hafst við í stigagangi, þar sem þau hafi reykt, neytt áfengis og haft samfarir. Stúlkan hafi stöðvað samfarirnar og viljað fá fíkniefni. Kvaðst varnaraðili þá hafa staðið upp, úthúðað henni og gengið út á svalir, en hún hafi orðið æst og komið á eftir honum. Hún hafi reynt að ýta við honum og slá, en ekki hafi þó komið til átaka milli þeirra. Til að koma henni frá sér hafi hann hrint henni með báðum höndum, þar sem hann hafi staðið við svaladyrnar. Hann hafi síðan séð efri hluta líkama hennar fara yfir handriðið. Hafi hann gengið fram á svalirnar og séð þegar hún lenti á stétt neðan við húsið. Í skýrslu sinni sagði varnaraðili enn fremur að þegar hann hafi við rannsókn málsins séð ljósmyndir, sem lögreglan tók á vettvangi af konu af svipaðri hæð og stúlkan, þar sem hún hafi staðið við handriðið, hafi honum orðið ljóst að vart gæti hann hafa átt sök á að stúlkan hafi farið yfir það með því að hrinda henni. Væri hann í miklum vafa um hvort hún hafi fallið fram af svölunum af þeirri ástæðu, eins og hann hafi talið við upphaf rannsóknarinnar, eða hvort hún hafi stokkið þaðan sjálf.

Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var því meðal annars haldið fram í málsvörn varnaraðila í héraði að stúlkan hefði svipt sig lífi með því að kasta sér fram af svölum hússins. Var sú vörn öðrum þræði studd við útreikninga sérfræðings og uppdrátt, sem styðja áttu að fjarlægð staðarins, sem stúlkan lenti á, frá húsvegg benti til að hún hefði svipt sig lífi. Vegna þessa ákvað fjölskipaður héraðsdómur eftir dómtöku málsins að kveðja til matsmann til að svara spurningum, sem dómendur og málflytjendur höfðu komið sér saman um að leggja fyrir hann. Lutu þær í fyrsta lagi að því hversu langan tíma hefði tekið stúlkuna að falla til jarðar af svölum umrædds húss, í öðru lagi hvert væri líklegt frávik frá lóðlínu í falli hennar miðað við að upphafshraði hafi enginn verið og ýmist gætt áhrifa vinds eða ekki, í þriðja lagi á hvaða hraða stúlkan hafi farið út af svölunum miðað við þann stað, sem hún kom til jarðar, og í fjórða lagi hvort unnt sé að hrinda manni, sem sé 169,5 cm á hæð, að 119 cm háu handriði með þeim afleiðingum að hann fari yfir það. Til matsstarfa var dómkvaddur dr. Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands. Skilaði hann matsgerð og kom síðan fyrir dóm til skýrslugjafar, en að því búnu var málið flutt á ný og dómtekið. Með héraðsdómi 5. febrúar 2001 var varnaraðili sakfelldur fyrir það brot, sem hann var borinn sökum um í ákæru, og dæmdur til að sæta fangelsi í 14 ár. Þeim dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

Með bréfi 6. mars 2001 fór verjandi varnaraðila þess á leit við Héraðsdóm Reykjaness að dómkvaddur yrði matsmaður til að láta uppi skriflegt og rökstutt álit um eftirfarandi atriði:

„1.     Í álitsgerð sinni, dags. 12. janúar 2001, kemst dr. Þorsteinn Vilhjálmsson að þeirri niðurstöðu, að lárétt hröðun hinnar látnu, 1,6-1,8 m/sek, komi heim og saman við að beitt hafi verið höndum, annað hvort að henni hafi verið ýtt eða hún ýtt sér sjálf frá húsinu. Miðað við fjarlægð hennar frá húsinu hafi ekki getað verið um að ræða meðvitaða fótspyrnu af afli. Er matsmaðurinn sammála þessu áliti?

2.            Er unnt út frá eðlisfræðilegri þekkingu einni saman að álykta hvort líklegra sé, að stúlkunni hafi verið ýtt eða kastað af svölunum af annarri manneskju eða að hún hafi sjálf ýtt sér með handafli frá svölunum eða notað til þess eigin krafta með öðrum hætti?

3.            Er á grundvelli eðlisfræðilegrar þekkingar unnt að útiloka þann möguleika, að stúlkan hafi með eigin handafli eða með eigin kröftum ýtt sér frá svölunum og þannig veitt þá láréttu hröðun, sem þurfti til þess að hún lenti á þeim stað sem raun varð á?“

Þessari beiðni verjandans var hafnað með hinum kærða úrskurði.

II.

Í fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Reykjaness 5. febrúar 2001 voru rakin helstu atriðin úr matsgerð dr. Þorsteins Vilhjálmssonar og svör hans þar við þeim spurningum, sem lagðar voru fyrir hann samkvæmt áðurgreindu. Í niðurstöðum dómsins var talið að framburður varnaraðila gæti ekki staðist um síðustu atvikin, sem leiddu til dauða stúlkunnar. Ein þriggja röksemda, sem færðar voru fyrir þessu, studdust við matsgerðina, en um hana sagði þar eftirfarandi: „Í ítarlegri matsgerð Þorsteins Vilhjálmssonar prófessors, sem unnin var að beiðni réttarins, kemur fram að matsmaður útilokar að framburður ákærða, um hvernig fall [stúlkunnar] bar að, standist út frá eðlisfræðilegum rökum. Matsgerð Þorsteins rennir styrkari stoðum undir það mat dómenda, sem meðal annars er fengið með vettvangsgöngu, að sú frásögn ákærða fái ekki staðist að fall [stúlkunnar] hafi borið að með einfaldri hrindingu. Er í þessu sambandi vísað til hæðar svalahandriðisins, hæðar [stúlkunnar] sjálfrar og þeirrar staðreyndar að líkami hennar hafnaði 4,2 metrum frá lóðlínu svalanna, sem þykir sanna að láréttur hraði [stúlkunnar] fram af svölunum hafi verið sambærilegur röskum gönguhraða.“

Af tilvitnuðum orðum úr dóminum er ljóst að matsgerðin, sem hér um ræðir, hafi skipt þó nokkru þegar leyst var úr hvort nægar sönnur hafi verið færðar fyrir sök varnaraðila. Að matsgerðinni stóð einn kunnáttumaður. Í ljósi þeirra afdrifaríku afleiðinga, sem niðurstaða um þetta kann að geta haft, verður varnaraðila ekki meinað að leita álits fleiri kunnáttumanna, en fyrir slíkri meðferð máls er viðhlítandi heimild í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 og 3. mgr. 65. gr. sömu laga, sbr. 61. gr. og 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Ber því að verða við kröfu varnaraðila um að frekari matsgerðar verði aflað.

Svo sem ráðið verður af framansögðu er í fyrstu spurningunni, sem varnaraðili vill afla svara matsmanns við, spurt hvort hann sé sammála áliti dr. Þorsteins Vilhjálmssonar um nánar tiltekin atriði. Eðli máls samkvæmt verður svo hljóðandi spurning ekki lögð fyrir aðra en yfirmatsmenn. Aðrar spurningar, sem varnaraðili vill leggja fyrir matsmann og áður er getið, eru á hinn bóginn ekki brenndar sama marki og verða því ekki bornar undir yfirmatsmenn, sbr. fyrri málslið 64. gr. laga nr. 91/1991, sem hér verður beitt samkvæmt 3. mgr. 65. gr. laga nr. 19/1991. Að þessu athuguðu er óhjákvæmilegt að leggja fyrir héraðsdómara að dómkveðja samkvæmt fyrrgreindri beiðni varnaraðila tvo hæfa kunnáttumenn til að svara annars vegar sem yfirmatsmenn fyrstu spurningunni, sem í beiðninni greinir, en sem matsmenn hinum spurningunum tveimur, sem þar eru settar fram.

Dómsorð:

Lagt er fyrir héraðsdómara að dómkveðja tvo matsmenn til að veita svör við framangreindum þremur spurningum, sem fram koma í matsbeiðni varnaraðila, X.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. apríl 2001.

Mál þetta var tekið til úrskurðar í dag.

Með ákæruskjali ríkissaksóknara, útgefnu 10. nóvember 2000, á hendur X, var ákærði ákærður "fyrir manndráp, með því að hafa að morgni laugardagsins 27. maí 2000, ýtt Z [ . . . ], yfir 119 cm hátt handrið á svölum á 10. hæð fjölbýlishússins við Engihjalla 9, Kópvaogi, með þeim afleiðingum að hún féll fram af svölunum og lést af völdum mikilla áverka er hún hlaut er líkami hennar lenti á steinstétt við bakdyrainngang hússins."

Þann 5. febrúar 2001, var kveðinn upp dómur í málinu og ákærði dæmdur í 14 ára fangelsi og til greiðslu skaðabóta og málskostnaðar.  Málinu hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar. 

 

Þegar lögregla kom á vettvang, lá stúlkan um 4 metra frá húsvegg.  Ákærði var handtekinn stuttu síðar og þótti ýmislegt í tilsvörum hans benda til þess að hann gæti verið valdur að dauða stúlkunnar.  Rannsókn fór ekki sérstaklega fram á því hvort það væri eðlilegt að stúlkan lægi 4 metra frá húsvegg, enda hélt ákærði því fram að hann hefði hrint stúlkunni að svalarhandriðinu og hún farið yfir það og fallið niður. 

Við aðalmeðferð var því haldið fram að stúlkan hefði svipt sig lífi.  Leiddi verjandi vitni því til sönnunar og fjallaði varnarræða hans að miklu leyti um þá máls­ástæðu.  Voru dóminum sýndir útreikningar sérfræðings og uppdráttur í þessu sambandi, allt byggt á því að fjarlægð stúlkunnar frá húsvegg benti eindregið til þess að hún hefði svipt sig lífi.

Eftir dómtöku málsins þótti dómendum rétt að kalla til kunnáttumann til þess að lýsa skoðun sinni á þessu álitaefni.  Var boðað til þinghalds í þessu skyni og aðilum málsins kynnt fyrirfram hvað til stæði og þeir beðnir að senda dóminum þær spurningar sem þeir vildu að matsmaður svaraði.  Verjandi nýtti sér það og í þinghaldi 12. janúar 2001, sömdu aðilar og dómendur sameiginlega spurningar sem lagðar voru fyrir matsmann.  Til verksins var dómkvaddur Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í eðlisfræði, með vísan til 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991.  Hann var beðinn um að svara eftirfarandi spurningum: "

1.             Hversu langan tíma hefur það tekið hina látnu að falla til jarðar?

2.             Sé upphafshraði hinnar látnu enginn (0,0 m/s), hvert er líklegt frávik hinnar látnu frá lóðlínu í fallinu?

a)                        Miðað við að ekki gæti áhrifa vinds?

b)                        Fallið er upp við suðurhlið húss og vindhraði er SSA 1,0-3,1 m/s?

3.             Hver var hraði hinnar látnu er hún fór fram af svölunum, miðað við staðinn þar sem hún lá? Við þá útreikninga verði tekið tillit til allra aðstæðna s.s. þyngdar hinnar látnu, loftmótstöðu, klæðnaðar, veðurs og annarra eðlisfræðilegra þátta.

4.             Matsmaður kanni, ef þess er kostur, hvort unnt sé að ýta eða hrinda manni sem er 169,5 cm á hæð á handrið sem er 119 cm á hæð með þeim afleiðingum að hann falli yfir. Fram kom hjá ákærða fyrir dómi að hann hefði ýtt eða hrint hinni látnu í átt að handriðinu með því að ýta á öxl hennar með báðum höndum. Hún hefði þá snúið hliðinni að ákærða en snúist við hrindinguna og snúið baki í ákærða er hún fór yfir handriðið."

 

Matsmaður skilaði ítarlegu mati.  Hann kom fyrir dóm og staðfesti mat sitt og svaraði þeim spurningum sem til hans var beitt.  Málið var síðan endurflutt og dómtekið á ný og eins og áður sagði, hefur því verið áfrýjað. 

Verjandi óskar nú eftir því að nýr matsmaður verði kvaddur til með vísan til 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991.  Segir í bréfi verjandans m.a.: " Þess er óskað að matsmaður kynni sér gögn héraðsdómsmálsins S-2077/2000, þ.á.m. ofangreinda álitsgerð Dr. Þorsteins Vilhjálmssonar og láti í té rökstutt og skriflegt álit um eftirfarandi atriði:

1.Í álitsgerð sinni, dags. 12. janúar 2001, kemst Dr. Þorsteinn Vilhjálmsson að þeirri niðurstöðu, að lárétt hröðun hinnar látnu, 1,6-1,8 m/sek, komi heim og saman við að beitt hafi verið höndum, annað hvort að henni hafi verið ýtt eða hún ýtt sér sjálf frá húsinu.  Miðað við fjarlægð hennar frá húsinu hafi ekki getað verið um að ræða meðvitaða fótspyrnu af afli.

 

Er matsmaðurinn sammála þessu áliti.

 

2.Er unnt úr frá eðlisfræðilegri þekkingu einni saman að álykta hvort líklegra sé, að stúlkunni  hafi verið ýtt eða kastað af svölunum af annarri manneskju eða að hún hafi sjálf ýtt sér með handafli frá svölunum eða notað til þess eign krafta með ðrum hætti?

 

3.Er á grundvelli eðlisfræðilegri þekkingar unnt að útiloka þann möguleika, að stúlkan hafi með eigin handafli eða með eigin kröftum ýtt sér frá svölunum og þannig veitt þá láréttu hröðun, sem þurfti til þess að hún lenti á þeim stað sem raun varð á?"

 

Heimild 1. mgr. 63. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, er ekki sambærileg heimild 64. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.  Það er því mat dómara hverju sinni hvort dómkvaddur verði matsmaður í opinberu máli.  Ekki verður séð að komnar séu fram nýjar upplýsingar eða aðrar ástæður sem réttlæti það að matsmaður verði dómkvaddur öðru sinni í málinu.  Niðurstaðan er því sú að beiðni verjanda um að dómkveðja matsmann öðru sinni er ekki tekin til greina.

Gunnar Aðalsteinsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Hafnað er framangreindri beiðni um dómkvaðningu matsmanns.