Hæstiréttur íslands
Mál nr. 487/2007
Lykilorð
- Landamerki
- Þinglýsing
- Traustfang
- Hefð
- Samaðild
- Frávísunarkröfu hafnað
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2008. |
|
Nr. 487/2007. |
Bjarni Ragnar Guðmundsson Gunnar Örn Hauksson Hildur Rebekka Guðmundsdóttir Magnea Jónsdóttir Magnús Kristinn Guðmundsson Matthildur Ásta Hauksdóttir Munda Kristbjörg Guðmundsdóttir Ragnheiður Guðmundsdóttir Sveinn Halldór Guðmundsson og Ægir Valur Hauksson (Ragnar Halldór Hall hrl.) gegn Helga Bjarnasyni (Karl Axelsson hrl.) og gagnsök |
Landamerki. Þinglýsing. Traustfang. Hefð. Samaðild. Frávísunarkröfu hafnað.
Deilt var um landamerki jarðanna K og B í Skötufirði við Ísafjarðardjúp. Í málinu kröfðust eigendur jarðarinnar B meðal annars að málinu yrði vísað frá héraðsdómi þar sem dómkröfur eiganda jarðarinnar K vörðuðu landsvæði sem kynni að vera þjóðlenda eða í eigu hreppsins S og hefði nauðsyn því borið til samaðildar í málinu, sbr. 1. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að hugsanleg réttindi S eða íslenska ríkisins yfir landi þessu gætu ekki staðið því í vegi að efnisdómur gengi um kröfur eiganda K, en dómur í málinu gæti ekki bundið aðra en aðila málsins, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Væru því ekki slíkir annmarkar á málinu sem varðað gætu frávísun málsins frá héraðsdómi. Jarðirnar B og K liggja saman í botni fjarðarins, B að austan og K að vestan. Í fjarðarbotninum að vestanverðu myndast Kleifaós, þar sem Kleifaá fellur til sjávar en skammt sunnan við ósinn mætast Kleifaá og Borgará sem báðar renna til norðurs. Laut deila aðilanna meðal annars um landamerki jarðanna og eignarhaldi á stykki úr svokölluðum Eyjum, sem er landssvæði á milli Borgarár og Kleifaár. Í málinu lágu fyrir tvö landamerkjabréf sem höfðu verið gerð fyrir jörðina B árin 1883 og 1902, en ekki lágu fyrir landamerkjabréf fyrir jörðina K. Í niðurstöðu Hæstaréttar var talið að af umræddum landamerkjabréfum fyrir jörðina B mætti ráða að landamerki jarðanna hafi í lok 19. aldar verið í Borgará til suðurs að svokallaðri Hringlind, og þaðan um miðjar Eyjar vestur í Kleifaá, og hafi hún svo ráðið merkjum upp frá því. Hvað varðaði eignarhald á stykkinu var litið til þess að í málinu lá fyrir afsal frá árinu 1898 þar sem umræddur landskiki var skilinn frá Kleifum og tekið fram að BS hefði greitt sérstaklega tilgreint verð fyrir hann. BS varð síðar eigandi að meginhluta jarðarinnar B. Var því talið að leiða mætti líkur fyrir því að landskikinn hefði verið lagður undir jörðina B, auk þess sem hafnað var að forverar eiganda jarðarinnar K, gætu hafa unnið rétt yfir umræddu stykki fyrir traustfang, þar sem yngri landamerkjalýsing jarðarinnar B bar með sér að þessi hluti af Eyjunum hefði verið skilinn frá jörðinni K. Þá var talið að landsvæði úr Eyjunum, sem aðilarnir deildu að öðru leyti um, ætti undir jörðina K samkvæmt síðari landamerkjalýsingunni fyrir jörðina B. Var í því samhengi ekki talið að eigendur jarðarinnar B hefðu getað unnið eignarrétt að þessu svæði fyrir hefð með óslitnum umráðum þess í meira en tvo áratugi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905, þar sem ósannað væri gegn mótmælum eigenda jarðarinnar K, að eigendur jarðarinnar B hefðu í þann tíma einir haft umráð þessa landsvæðis og nýtt það. Var niðurstaða héraðsdóms um landamerki jarðanna því staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar með stefnu 28. september 2007, þar sem áfrýjað var í senn dómi Héraðsdóms Vestfjarða 29. júní 2007 og úrskurði 20. október 2006, en með honum var hafnað kröfu aðaláfrýjenda um frávísun málsins. Þau krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þau verði sýknuð af kröfum gagnáfrýjanda. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 26. nóvember 2007. Hann krefst þess aðallega að dæmt verði að landamerki jarðanna Kleifa og Borgar í Súðavíkurhreppi séu frá sjó um Kleifaós að Borgará, sem ráði þaðan merkjum að Hringlind, en þaðan fylgi þau henni í Kleifaá, sem merkin liggi um til suðurs að Hundsá. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar hins áfrýjaða dóms um annað en málskostnað. Að því frágengnu krefst hann að dæmt verði að landamerki jarðanna séu á sama veg og greinir í aðalkröfu, en þó þannig að þau verði ekki ákveðin lengra til suðurs en að mótum Kleifaár og Ögurbúðadalsár. Til ítrustu vara krefst gagnáfrýjandi þess að dæmt verði að Kleifaós ráði merkjum frá sjó að Borgará, sem þau fylgi síðan að Mjódd, um hana fari þau í Kleifaá og fylgi henni til suðurs að mótum hennar og Ögurbúðadalsár. Í kröfugerð gagnáfrýjanda eru þessir merkjapunktar auðkenndir með hnitum eftir því, sem við á. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómendur í málinu gengu á vettvang 3. september 2008.
I.
Samkvæmt gögnum málsins eru aðaláfrýjendur sameigendur að jörðinni Borg og gagnáfrýjandi eigandi jarðarinnar Kleifa. Jarðir þessar eru syðst í Skötufirði við Ísafjarðardjúp og liggja saman í botni fjarðarins, Borg að austan og Kleifar að vestan. Í fjarðarbotninum að vestanverðu myndast Kleifaós, þar sem Kleifaá fellur til sjávar. Skammt sunnan við ósinn mætast Kleifaá og Borgará, sem renna báðar til norðurs. Borgará virðist að mestu eiga upptök í uppsprettum á láglendi allt að 2 km sunnan ármótanna og síðan úr lækjum, sem falla í hana úr austri. Kleifaá, sem einnig mun vera nefnd Fjarðará, verður á hinn bóginn til úr þremur ám, sem renna af fjöllum ofan, annars vegar Rjúkanda úr suðaustri og Hundsá úr suðvestri, en þær koma saman þar sem land tekur að hækka syðst upp af Skötufirði, og hins vegar Ögurbúðadalsá, sem kemur úr vestri og fellur saman við þær fyrrnefndu á láglendi nokkru norðar. Aðilana greinir meðal annars á um hvort Kleifaá beri það heiti allt frá mótum Rjúkanda og Hundsár til sjávar eða fyrst frá þeim stað, þar sem Ögurbúðadalsá kemur saman við þær. Þá er jafnframt umdeilt hvort landsvæði, sem nefnt er Kambar eða Almenningur, liggi eingöngu á milli Rjúkanda og Hundsár eða hvort það nái frá Rjúkanda í austri að Ögurbúðadalsá í vestri.
Farvegir Kleifaár og Borgarár liggja í meginatriðum samsíða uns þær renna saman, en svæðið á milli þeirra er þó óreglulegt að lögun. Það svæði mun kallast Eyjar og markast það ekki af ákveðnum kennileitum í landslagi að sunnanverðu, heldur af upptökum Borgarár, sem virðast vera nokkrum tugum metra austan við farveg árinnar, sem verður til úr Rjúkanda og Hundsá, áður en Ögurbúðadalsá rennur saman við hana. Nokkru norðan við síðastnefnd ármót er að finna farveg svonefndrar Hringlindar, sem liggur um Eyjarnar í bugðum á milli Kleifaár og Borgarár. Sunnan við miðbik þess hluta Eyjanna, sem nær frá Hringlind norður að mótum Borgarár og Kleifaár, nálgast farvegir ánna mjög hvorn annan í svokallaðri Mjódd, en fjarlægjast svo aftur á kafla.
Gagnáfrýjandi höfðaði mál þetta í héraði til að fá leyst úr ágreiningi við aðaláfrýjendur um merki jarðanna Kleifa og Borgar á því svæði, sem að framan er lýst. Með fyrrgreindri aðalkröfu fyrir Hæstarétti leitar gagnáfrýjandi dóms um að merkin ráðist úr norðri af Kleifaósi og síðan Kleifaá, þar til Borgará rennur í hana, en þaðan af Borgará uns komið er suður að Hringlind, sem merkin fari um vestur í Kleifaá, og fylgi þau henni síðan allt til móta Rjúkanda og Hundsár. Fyrsta varakrafa gagnáfrýjanda er sú að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um landamerkin, en samkvæmt honum skyldu þau dregin úr norðri um Kleifaós og Kleifaá að mótum Borgarár, síðan eftir henni suður í Mjódd, þaðan í beinni línu vestur í Kleifaá og loks eftir henni allt til Hundsár. Önnur varakrafa gagnáfrýjanda er sú sama og aðalkrafa hans að öðru leyti en því að merkin verði ekki ákveðin lengra til suðurs en til þess staðar, þar sem Kleifaá mætir Ögurbúðadalsá. Þriðja varakrafa gagnáfrýjanda svarar á sama hátt til fyrstu varakröfunnar.
II.
Í gögnum málsins er elsta heimild um jarðirnar Kleifar og Borg fengin úr Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá öndverðri 18. öld. Samkvæmt því, sem þar kemur fram, voru þetta sjálfstæðar jarðir á þeim tíma, sú fyrrnefnda talin sex hundruð að fornu mati, en sú síðarnefnda átta hundruð. Merkjum þeirra var þar ekki lýst.
Hinn 1. júlí 1867 gerðu þáverandi eigendur Kleifa, Jón Níelsson og Páll Pálsson, sem áttu jörðina að helmingi hvor, samning um skiptingu hennar, þar sem kveðið var á um hlut hvors þeirra í túnum, engjum, slægjum og skógi. Um hlutinn, sem sá fyrrnefndi fékk, sagði meðal annars eftirfarandi: „Eyunum skipt öllum sem Kleifar eiga frá Sortu tjörn og austur yfir mjódd þá sem á þeim er í Sortu eyri og í þenna helming fremri hlutinn til fjalls.“ Þessi lýsing mun taka til svæðis á Eyjunum sunnan við svonefnda Mjódd, en samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, munu örnefnin Sortutjörn og Sortueyri ekki lengur vera þekkt. Í lýsingu á hálflendu Páls Pálssonar kom á hinn bóginn meðal annars fram að undir hana ætti „úr eyunum frá hinsvegar greindum merkjum ytri parturinn.“ Með þessu mun hafa verið átt við svæði á nyrðri hluta Eyjanna, á milli Mjóddar og móta Borgarár og Kleifaár.
Í héraðsdómi er greint frá því, sem fyrir liggur um eigendaskipti að Kleifum á árabilinu 1867 til 1883, en Páll Pálsson var þá enn eigandi hálflendunnar, sem áður var getið. Í lok þessa tímabils mun Daði Eggertsson hafa keypt af Guðmundi Bárðarsyni hinn helminginn í Kleifum, sem áður tilheyrði Jóni Níelssyni. Daði var þá jafnframt eigandi að Borg ásamt Ara Rósinkarssyni. Þeir gerðu 6. nóvember 1883 landamerkjabréf fyrir Borg, sem var svohljóðandi: „Jörðin Borg í Ögurhreppi, 7.9 hundr. að dýrleika, á land að austan og norðan í Hvalskurðará frá fjöru til fjalls. Að sunnan ráða merkjum: Fjarðará að neðan, en Stóri-Kambur að ofan og að vestan Fjarðará og austur í Borgará um miðjar Eyjar.“ Landamerkjabréf þetta, sem var áritað um samþykki af Páli Pálssyni „fyrir Kleifar“, var þinglesið 8. júlí 1884.
Daði Eggertsson mun hafa látist á árinu 1887 og ekkja hans, Ásgerður Einarsdóttir, þá sest í óskipt bú. Hún gaf út afsal 7. október 1898 til tengdasonar síns, Bjarna Sigurðssonar, þar sem sagði meðal annars eftirfarandi: „Eg, Ásgerður Einarsdóttir á Borg í Ögurhreppi í Ísafjarðarsýslu ... afsala frá mjer og mínum erfingjum Bjarna Sigurðssyni á Borg, eign minni í jörðinni Borg í Skötufirði að dýrleika eptir fornu mati 6.80 hndr. með 1½ ásauðarkúgildi með öllum gögnum og gæðum til lands og sjáfar sem jarðarparti þessum fylgir að rjettu ásamt öllum húsum á tjeðri jörð með öllu í þeim múr og naglföstu, - og með því velnefndur Bjarni Sigurðsson hefur fullnægt öllum þeim skilmálum er honum voru settir í kaupbrjefi dagsettu á Borg 3. september 1898 og greitt andvirði þess selda með 2000 ... krónum þá segi jeg hann hjer með rjettan eiganda að ofannefndum jarðarparti. Enn fremur afsala jeg frá mjer og mínum erfingjum stykki því í eigninni, sem Bjarni Sigurðsson keypti af mjer undan jörðinni Kleifum í Skötufirði, og hann hefur greitt mjer eptir samningi okkar að fullu með 100 ... krónum og segi jeg því Bjarna Sigurðsson rjettan eiganda að ofangreindu stykki.“ Afsal þetta var þinglesið 19. júní 1905 og upplýsingar um það færðar á blöð í fasteignabók fyrir báðar jarðirnar, Borg og Kleifar, en á blaði þeirrar síðarnefndu var ritað: „Bjarni Sigurðsson stykki ... Þetta finst ekki í veðb.“
Með afsali þessu varð Bjarni Sigurðsson sameigandi Ara Rósinkarssonar að jörðinni Borg, en sá síðarnefndi virðist þá enn hafa átt sama hlut í henni og við gerð landamerkjabréfsins 6. nóvember 1883. Saman stóðu þeir að landamerkjalýsingu fyrir Borg, sem ekki var dagsett en afhent til þinglestrar 1. október 1901 og lesin á manntalsþingi 21. júní 1902. Í skjali þessu var fyrst lýst norðurmerkjum Borgar gegnt Kálfavík, en í framhaldi af því sagði eftirfarandi: „... að framanverðu milli Borgar og Kleifa ræður Borgará merkjum að neðan og fram að Hringlind og sem hún vísar til vesturs yfir eyjar sem kallaðar milli ánna (Borgará og Kleifaá) og svo ræður Kleifaá merkjum fram að Rjúkandaá, en eftir það ræður Rjúkandaá merkjum til fjalls milli Borgar og almenninga. Stykki það í eyjunum frá merkjalæknum Hringlind ofan að mjódd þeirri á eyjunum undan Sortaeyri Borgar megin og sjónhending þar sem mjóst er í Kleifaá er sérstök eign Bjarna Sigurðssonar á Borg, en fylgir hvorugum jörðunum. Að þetta sé mín rétt eign, Bjarna Sigurðssonar, sýnir kaupbréf dagsett á Borg 3. septbr. 1898 og afsalsbréf dagsett 7. okt. 1898 undirskrifað af seljanda, Ásgerði Einarsdóttur, ásamt kaupanda Bjarna Sigurðssyni og tveimur vitundarvottum.“ Neðan við undirritun Bjarna og Ara var svofelldur texti: „Að þetta sé rétt landamerkjalýsing á jörðinni Borg vottum við, sem lönd eigum að áðurgreindum merkjum ...“. Undir þetta rituðu Páll Pálsson og Ásgerður Einarsdóttir, hvort um sig sem „eigandi að hálflendu Kleifa“. Eftir að skjal þetta hafði verið þinglesið var svofelld áritun færð á eldra landamerkjabréf Borgar frá 6. nóvember 1883 í landamerkjabók Ísafjarðarsýslu: „Sjá nýja merkjalýsingu ódagsetta en innk. til þingl. 1/10 1901.“
Dánarbúi Daða Eggertssonar var skipt 24. janúar 1903. Samkvæmt skiptagerð taldist meðal eigna þess hluti í Kleifum, þrjú hundruð að fornu mati, og féll hann að arfi til Einars Guðjóns Daðasonar. Einar gaf út afsal fyrir eignarhlutanum 9. júní 1903 til Guðmundar Reginbaldssonar, sem þar var sagður búsettur á Borg, og var það þinglesið 16. sama mánaðar. Guðmundur seldi þennan eignarhluta á árinu 1919, en Magnús Guðmundsson eignaðist hann 7. júlí 1924. Áður mun Magnús hafa keypt hinn helminginn í Kleifum af syni áðurnefnds Páls Pálssonar og komst því jörðin með þessu á eina hendi. Frá Magnúsi stendur síðan samfelld röð eignarheimilda fyrir Kleifum til gagnáfrýjanda, sem fékk afsal fyrir jörðinni 26. nóvember 1985. Í skjölum, sem liggja fyrir í málinu um eigendaskipti að jörðinni frá og með skiptagerð í dánarbúi Daða Eggertssonar, er ekki vikið að því að land hafi verið skilið frá henni með afsali Ásgerðar Einarsdóttur til Bjarna Sigurðssonar 7. október 1898.
Bjarni Sigurðsson gaf út afsal 14. apríl 1905 til Páls Snorrasonar fyrir eignarhluta sínum í Borg, sem lýst var sem 6 hundruð og 80 álnir að fornu mati. Tekið var fram að jörðinni fylgdu öll hús á henni í eigu Bjarna „ásamt öllu, sem til er tekið í kaupbrjefi dags. 10. desember f.á.“ Afsal þetta var þinglesið 19. júní 1905, en kaupbréf, sem þar var vitnað til, liggur ekki fyrir í málinu. Í framhaldi af þessu urðu tíð eigendaskipti að þessum hluta Borgar þar til Guðmundur Magnússon, sonur áðurnefnds eiganda Kleifa, eignaðist hann 12. september 1932. Guðmundur seldi Jóni Kristjánssyni helming eignarhluta síns 18. desember 1935, en þeir keyptu 18. maí 1936 þann hluta Borgar, sem fyrrum var í eigu Ara Rósinkarssonar, og urðu þar með eigendur að jörðinni allri. Aðaláfrýjendur leiða réttindi sín yfir henni frá þessum sameigendum. Í skjölum, sem liggja fyrir í málinu um eigendaskipti að Borg frá og með afsali Bjarna Sigurðssonar 14. apríl 1905, er ekki vikið að því að landskiki í Eyjunum, sem hann fékk afsal fyrir úr landi Kleifa 7. október 1898, sé meðal þess, sem aðilaskipti hafi orðið að.
Óumdeilt er í málinu að landamerkjabréf hefur aldrei verið gert fyrir Kleifar.
III.
Aðaláfrýjendur krefjast sem fyrr segir aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi. Sú krafa er einkum studd þeim rökum að dómkröfur gagnáfrýjanda varði þannig aðra en aðaláfrýjendur að nauðsyn hefði borið til aðildar þeirra að málinu, sbr. 1. mgr. og 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Aðaláfrýjendur telja í þessu sambandi að aðalkrafa og fyrsta varakrafa gagnáfrýjanda, þar sem leitað er dóms um landamerki Kleifa allt suður að mótum Rjúkanda og Hundsár, feli í sér að svokallaðir Kambar eða Almenningur, sem nái frá Rjúkanda í austri að Ögurbúðadalsá í vestri, yrði felldur undir land jarðarinnar. Til hans kalli aðaláfrýjendur ekki, heldur kunni Súðavíkurhreppur að telja til réttinda yfir honum eða landsvæði þetta að vera þjóðlenda. Önnur og þriðja varakrafa gagnáfrýjanda séu að vísu ekki háðar annmörkum að þessu leyti, en þær hafi fyrst verið gerðar undir rekstri málsins fyrir héraðsdómi og beri aðaláfrýjendur brigður á að það hafi verið heimilt án framhaldssakar.
Um þessar röksemdir er til þess að líta að í fyrrgreindri ódagsettri landamerkjalýsingu fyrir Borg, sem þinglesin var 21. júní 1902, drógu eigendur þeirrar jarðar merki milli hennar og Kleifa allt suður að mótum Rjúkanda og Hundsár, en eftir það réði Rjúkandi merkjum til fjalls milli Borgar og Almenninga. Af þessu er ljóst að með samþykki eigenda Kleifa gengu forverar aðaláfrýjenda út frá því í þessari yngstu lýsingu merkja Borgar að land jarðarinnar lægi að Kleifum jafn langt til suðurs og gagnáfrýjandi gerir ráð fyrir í aðalkröfu sinni og fyrstu varakröfu. Af málatilbúnaði aðilanna er jafnframt ljóst að enginn ágreiningur er milli þeirra um að vesturmerki Borgar fyrir sunnan Hringlind fylgi fyrst Kleifaá, síðan ánni sem til verður með samruna Hundsár og Rjúkanda og loks síðastnefndu ánni einni. Án tillits til þess hvort Súðavíkurhreppur kunni að telja til eignarréttinda yfir landi sunnan Ögurbúðadalsár á því svæði, sem hermt er í landamerkjalýsingunni að falli undir Kleifar, og þótt enn hafi ekki komið til kasta óbyggðanefndar að taka ákvörðun um hvort þjóðlendu sé að finna á þessu landsvæði verður að gæta að því að dómur í máli þessu bindur ekki aðra en aðilana að því, sbr. 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Geta því hugsanleg réttindi Súðavíkurhrepps eða íslenska ríkisins yfir landi á þessu svæði, sem ekkert liggur fyrir um í málinu en eingöngu myndu þó geta varðað gagnáfrýjanda, ekki staðið því í vegi að efnisdómur gangi um kröfur hans. Af þessum sökum og með því að ekki eru aðrir annmarkar á málatilbúnaði gagnáfrýjanda, sem varðað gætu frávísun málsins frá héraðsdómi, stendur hinn áfrýjaði úrskurður frá 20. október 2006 óraskaður.
IV.
Hér að framan hefur verið greint frá efni þeirra tveggja bréfa, sem gerð hafa verið um landamerki Borgar, en sem fyrr segir mun landamerkjabréf aldrei hafa verið gert fyrir Kleifar. Í eldra landamerkjabréfi Borgar frá 6. nóvember 1883 er merkjum þessara tveggja jarða lýst með þeim orðum einum að þau fylgi Fjarðará og fari svo austur í Borgará um miðjar Eyjar. Af þessari ófullkomnu lýsingu er vandráðið hvort horft sé til merkjanna frá suðri eða norðri, auk þess sem ekkert verður ályktað um hvað átt hafi verið við þegar sagt var að merkin færu á milli ánna tveggja um miðjar Eyjar. Í yngra landamerkjabréfinu, sem lesið var á manntalsþingi 21. júní 1902, er mun nákvæmari lýsing á merkjum Borgar og Kleifa, því þar kemur skýrlega fram að þau ráðist úr norðri af Borgará suður að Hringlind, fylgi henni síðan yfir Eyjarnar vestur í Kleifaá og liggi loks um hana suður að Rjúkanda. Sem fyrr segir er enginn ágreiningur í málinu um merkin sunnan Hringlindar og jafnframt er óumdeilt að nyrsti hluti merkjanna fylgi Kleifaá frá mótum hennar og Borgarár og ráðist loks af Kleifaósi til sjávar, þótt í hvorugu landamerkjabréfinu sé þess getið berum orðum. Af þessu verður því ekki annað séð en að vesturmerki Borgar hafi í lok 19. aldar verið í Borgará til suðurs að Hringlind, sem þau fylgdu um miðjar Eyjar vestur í Kleifaá, og hafi hún svo ráðið merkjum upp frá því, en ætla má að átt hafi verið við sömu merkin í eldra landamerkjabréfinu frá 6. nóvember 1883.
Því var áður lýst að á árinu 1883 var Daði Eggertsson orðinn eigandi helmingshlutar í Kleifum, sem tók meðal annars til þess hluta af Eyjunum, sem er sunnan við Mjódd. Þá var Daði jafnframt orðinn eigandi meginhluta Borgar þegar hann lést á árinu 1887. Ekkja hans, Ásgerður Einarsdóttir, sem sat í óskiptu búi, gaf út fyrrgreint afsal 7. október 1898 til Bjarna Sigurðssonar fyrir eignarhlutanum í Borg og jafnframt fyrir þeim hluta Eyjanna, sem fylgt hafði hálflendu þeirra í Kleifum. Í yngra landamerkjabréfi Borgar var sem áður segir sérstaklega getið um eignarrétt Bjarna að þessum landskika í Eyjunum, en tekið fram að hann fylgdi hvorki Borg né Kleifum. Að þessum landskika er ekkert vikið frekar í síðari heimildarbréfum, sem liggja fyrir í málinu. Ágreiningur er með aðilunum um hvort þessi hluti Eyjanna hafi orðið hluti af landi Borgar, svo sem aðaláfrýjendur halda fram, eða heyri til Kleifa, eins og gagnáfrýjandi gerir ráð fyrir í aðalkröfu sinni.
Um þetta ágreiningsatriði verður að líta til þess að í afsalinu 7. október 1898 var landskikinn, sem hér um ræðir, skilinn frá Kleifum og tekið fram að Bjarni Sigurðsson hafi greitt sérstaklega tilgreint verð fyrir hann. Bjarni átti hvorki þá né síðar hlut í Kleifum, en varð á hinn bóginn með afsalinu einnig eigandi að meginhluta Borgar. Af þessu verður að leiða þær líkur fyrir því að landskikinn hafi verið lagður undir land Borgar að fella verður á gagnáfrýjanda sönnunarbyrði fyrir að hann hafi aftur orðið hluti af Kleifum. Þeirri sönnunarbyrði hefur gagnáfrýjandi ekki fullnægt.
Í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti hefur gagnáfrýjandi réttilega bent á að afsal Ásgerðar Einarsdóttur til Bjarna Sigurðssonar frá 7. október 1898 hafi ekki verið lagt inn til þinglestrar fyrr en 22. mars 1905. Á tímabilinu, sem þar leið á milli, hafi dánarbúi Daða Eggertssonar verið skipt 24. janúar 1903, hálflenda þess í Kleifum fallið í arf til Einars Daðasonar og hann gefið út afsal fyrir henni til Guðmundar Reginbaldssonar, sem þinglesið var 16. júní sama ár, en hvergi í skjölum vegna þessara ráðstafana hafi verið vikið að því að landskiki í Eyjunum hafi áður verið skilinn undan Kleifum með óþinglesnu afsali. Um áhrif þessa verður að gæta að því að þótt afsalið frá 7. október 1898 hafi ekki verið þinglesið áður en þessar ráðstafanir voru gerðar á helmingshlutanum í Kleifum, þá var greint sérstaklega frá afsalinu og efnisatriði þess varðandi landskikann í Eyjunum rakin í landamerkjalýsingu fyrir Borg, sem lesin var á manntalsþingi 21. júní 1902. Mátti þetta efni afsalsins þannig vera öllum kunnugt upp frá því. Að auki verður að líta til þess að samkvæmt því, sem fram kom í afsali Einars Daðasonar 9. júní 1903 fyrir hálflendunni í Kleifum, var kaupandi hennar, Guðmundur Reginbaldsson, þá búsettur á Borg. Án tillits til þess hvort kaupandanum hafi þegar af þessum sökum átt að vera kunnugt um hvaða land fylgdi hvorri jörð hefði hann ekki getað sótt vitneskju um það til annarra þinglesinna heimilda en yngri landamerkjalýsingarinnar fyrir Borg, sem bar með sér að hluti af Eyjunum hafði verið skilinn frá Kleifum. Að þessu virtu verður að hafna því að Guðmundur og þeir, sem leiða eignarheimildir sínar yfir Kleifum frá honum, geti fyrir traustfang hafa unnið rétt yfir landskikanum í Eyjunum. Samkvæmt þessu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um að hafna aðalkröfu gagnáfrýjanda.
Það landsvæði á Eyjunum, sem aðilarnir deila að öðru leyti um, afmarkast í vestri af Kleifaá og í austri af Borgará frá mótum þeirra suður að línu, sem dregin er milli ánna í Mjódd. Samkvæmt því, sem áður greinir, verður að leggja til grundvallar að þetta land eigi undir Kleifar eftir yngri landamerkjalýsingunni fyrir Borg. Aðaláfrýjendur bera því á hinn bóginn við að þau hafi sem eigendur Borgar unnið eignarrétt að þessu landsvæði fyrir hefð með óslitnum umráðum þess í meira en tvo áratugi, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Í hinum áfrýjaða dómi er greint frá því hvernig aðaláfrýjendur hafa í málatilbúnaði sínum lýst þessum umráðum sínum og fyrri eigenda Borgar. Um þær málsástæður aðaláfrýjenda verður að gæta að því að búskapur mun hafa lagst af bæði á Borg og Kleifum fyrir um fjórum áratugum síðan og er ósannað gegn mótmælum gagnáfrýjanda að eigendur Borgar hafi fram að því einir haft umráð þessa landsvæðis og nýtt það. Samkvæmt því, sem liggur fyrir í málinu, hafa þessar jarðir að mestu verið nýttar af eigendum sínum til frístundadvalar eftir að þær fóru í eyði og virðast landsnytjar þá einkum hafa verið fólgnar í fiskveiðum og berjatínslu. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að aðgangur annarra en eigenda Borgar að þessu landsvæði hafi verið takmarkaður fyrr en sett var í október 1992 læst hlið á vegarslóða, sem Orkustofnun hafði fengið að leggja suður eftir Eyjunum á árinu 1975 til að sinna vatnamælingum, en eftir sem áður hafi landið ekki verið afgirt nema að óverulegu leyti. Þegar þessa er gætt ásamt því að aðaláfrýjendur hafa ekki hnekkt staðhæfingum gagnáfrýjanda um notkun hans á þessu landsvæði eftir að hann eignaðist Kleifar eru ekki skilyrði til að fallast á með aðaláfrýjendum að eigendur Borgar hafi unnið eignarrétt að því fyrir hefð.
Samkvæmt öllu því, sem að framan greinir, verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest, þar með talið ákvæði hans um málskostnað. Eftir þessum úrslitum málsins er rétt að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af því fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði úrskurður og héraðsdómur skulu vera óraskaðir.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 29. júní 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 5. júní sl., er höfðað með stefnu birtri 20. janúar 2006 af Helga Bjarnasyni, Hlíðargötu 5, Súðavík, á hendur Bjarna Ragnari Guðmundssyni, Sævangi 9, Hafnarfirði, Gunnari Erni Haukssyni, Kjarrvegi 15, Reykjavík, Gyðu Ólöfu Guðmundsdóttur, Espilundi 2, Garðabæ, Hildi Rebekku Guðmundsdóttur, Ástúni 14, Kópavogi, Magnúsi Kristni Guðmundssyni, Gríshóli, Stykkishólmi, Matthildi Ástu Hauksdóttur, Uppsölum, Akureyri, Mundu Kristbjörgu Guðmundsdóttur, Sunnuvegi 7, Reykjavík, Ragnheiði Guðmundsdóttur, Þelamörk 54, Hveragerði; Sveini Halldóri Guðmundssyni, Lyngheiði 18, Hveragerði og Ægi Val Haukssyni, Ölduslóð 1, Hafnarfirði. Gyða Ólöf Guðmundsdóttir afsalaði sér eignarhlut sínum í jörðinni Borg í Skötufirði til dóttur sinnar Magneu Jónsdóttur með afsali 21. janúar 2006. Hefur aðild málsins verið breytt því til samræmis.
Dómkröfur stefnanda eru þær að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Kleifa og Borgar í Skötufirði séu svofelld:
Aðalkrafa:
Að austanverðu ráði Kleifaós merkjum frá sjó og fram að Borgará, en þaðan ráði Borgará merkjum alla leið fram að upptökum sínum í hniti (X: 721497,780 og Y: 605819,323). Frá mörkum þess hnits og hnits (X: 721514,479 og Y: 605827,542) ráði Kleifaá merkjum fram að Hundsá.
1. varakrafa:
Að austanverðu ráði Kleifaós merkjum frá sjó og fram að Borgará, en þaðan ráði Borgará merkjum alla leið fram að Hringlind í hniti (X: 720870,266 og Y: 606541,537). Þaðan liggi merkin yfir í Kleifaá um eftirtalda punkta (X: 720946,513 og Y: 606511,913), (X: 721051,405 og Y: 606456,524) og (X: 721172,840 og Y: 606427,997). Frá síðastnefndum punkti ráði Kleifaá merkjum fram að Hundsá.
2. varakrafa:
Að austanverðu ráði Kleifaós merkjum frá sjó og fram að Borgará, en þaðan ráði Borgará merkjum alla leið fram að Mjódd í hniti (X: 720957,019 og Y: 606783,993). Þaðan liggi merkin um Mjóddina yfir í punkt í Kleifaá með hnitið (X: 720994,350 og Y: 606780,552). Frá síðastnefndum punkti ráði Kleifaá merkjum fram að Hundsá.
3. varakrafa:
Að austanverðu ráði Kleifaós merkjum frá sjó og fram að Borgará, en þaðan ráði Borgará merkjum alla leið fram að upptökum sínum í hniti (X: 721497,780 og Y: 605819,323). Frá því hniti liggi merkin í beina línu yfir í hnit (X: 721514,479 og Y: 605827,542), sem er í Kleifaá.
4. varakrafa:
Að austanverðu ráði Kleifaós merkjum frá sjó og fram að Borgará, en þaðan ráði Borgará merkjum alla leið fram að Hringlind í hniti (X: 720870,266 og Y: 606541,537). Þaðan liggi merkin yfir í Kleifaá um eftirtalda punkta (X: 720946, 513 og Y: 606511,913), (X: 721051,405 og Y: 606456,524) og (X: 721172,840 og Y: 606427,997). Frá síðastnefndum punkti ráði Kleifaá merkjum fram að Ögurbúðardalsá.
5. varakrafa:
Að austanverðu ráði Kleifaós merkjum frá sjó og fram að Borgará, en þaðan ráði Borgará merkjum alla leið fram að Mjódd í hniti (X: 720957,019 og Y: 606783,993). Þaðan liggi merkin um Mjóddina yfir punkt í Kleifaá með hnitið (X: 720994,350 og Y: 606780,552). Frá síðastnefndum punkti ráði Kleifaá merkjum fram að Ögurbúðardalsdá.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar in solidum úr hendi stefndu og að tildæmdur málskostnaður taki mið af því að stefnandi sé virðisaukaskattsskyldur.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Til vara krefjast stefndu þess að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda að hluta og að landamerki Borgar teljist þannig frá hnitsettum punkti X = 324518.4435 Y = 605262.9708, staðsettum í Kleifárósi og fylgi þaðan hnitsettum punktum:
X = 324451.4081 - Y = 605156.8743, X = 324412.3597 - Y = 605043.5574,
X = 324439.4711 - Y = 604915.2145, X = 324412.4345 - Y = 604838.4020,
X = 324309.3281 - Y = 604693.6192, X = 324248.0215 - Y = 604612.8749,
X = 324243.6553 - Y = 604492.0122, X = 324209.9309 - Y = 604445.6807,
X = 324226.7931 - Y = 604364.2497, X = 324308.2936 - Y = 604331.9581,
X = 324379.9579 - Y = 604313.7063, X = 324402.4408 - Y = 604254.7390,
X = 324377.1475 - Y = 604199.9836, X = 324340.5681 - Y = 604143.5550,
X = 324341.9410 - Y = 604080.4565, X = 324407.1527 - Y = 604046.1637,
X = 324446.1208 - Y = 603984.0298, X = 324462.7543 - Y = 603951.5159,
X = 324431.1781 - Y = 603870.5851, X = 324405.1227 - Y = 603795.8634,
X = 324412.6393 - Y = 603714.0858, X = 324476.9479 - Y = 603664.0180,
X = 324484.4645 - Y = 603608.1088, X = 324443.5408 - Y = 603545.5240,
X = 324400.9468 - Y = 603519.6556, X = 324335.8030 - Y = 603514.6488,
X = 324334.9047 - Y = 603428.0086, X = 324372.4876 - Y = 603344.5621,
X = 324376.6635 - Y = 603274.4671, X = 324298.9921 - Y = 603171.8279,
X = 324182.0673 - Y = 603146.7940
upp að hnitsettum punkti X = 324110.0500 Y = 603033.7537, sem sé á mótum Kleifaár (Rjúkanda og Hundsár) og Ögurbúðardalsár, þannig að Kleifá afmarki jarðirnar Borg og Kleifar eftir ofangreindri hnitalínu og að sú spilda sem afmarkast af línu dreginni milli eftirtalinna hnitsettra punkta tilheyri Borg:
X = 324489.8011 - Y = 603515.6321, X = 324556.9060 - Y = 603604.6310,
X = 324594.1750 - Y = 603608.6610, X = 324616.6346 - Y = 603567.3264,
X = 324687.1377 - Y = 603522.9500, X = 324777.6259 - Y = 603502.4260,
X = 324762.6370 - Y = 603451.3932, X = 324702.6817 - Y = 603401.4698,
X = 324684.7430 - Y = 603367.6310, X = 324608.9810 - Y = 603336.8070,
X = 324504.9880 - Y = 603279.7720, X = 324384.0310 - Y = 603249.3310,
X = 324376.6635 - Y = 603274.4671, X = 324372.4876 - Y = 603344.5621,
X = 324334.9047 - Y = 603428.0086, X = 324335.8030 - Y = 603514.6488,
X = 324400.9468 - Y = 603519.6556
Þá krefjast stefndu þess að í öllum tilvikum verði stefnandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað til hvers og eins þeirra í samræmi við hagsmuni málsins.
Stefndu höfðu í greinargerð uppi kröfu um frávísun málsins frá dómi. Fór fram málflutningur um frávísunarkröfuna 16. október 2006. Var kröfu stefndu um frávísun hafnað með úrskurði dómsins 20. október 2006. Ákveðið var að gengið yrði á vettvang 24. nóvember 2006 og að aðalmeðferð málsins færi fram 28. nóvember 2006. Þegar til stóð að ganga á vettvang hafi snjóa lagt fyrir vestan. Varð að ráði að fresta vettvangsgöngu til vorsins.
Dómari og lögmenn gengu á vettvang 1. júní 2007.
Landeigendur jarðanna Borgar og Kleifa í Skötufirði hafa lengi deilt um landsvæði er gengur undir nafninu Eyjar og er vestan við Borgará og austan við Kleifaá. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort eyjarnar tilheyri að hluta eða í heild jörðinni Kleifum eða jörðinni Borg. Stefnandi er eigandi jarðarinnar Kleifa en stefndu eru eigendur jarðarinnar Borgar. Stefndu eiga jörðina Borg í óskiptri sameign.
Málavextir, málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi gerir grein fyrir því að jarðarinnar Kleifa sé getið í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín og hafi hún þá verið metin sex hundruð að dýrleika. Í sömu Jarðabók sé jörðin Borg metin átta hundruð að dýrleika. Árið 1867 hafi tveir eigendur að jörðinni Kleifum, þeir Páll Pálsson og Jón Níelsson, gert með sér skiptagjörning, dagsettan 1. júlí 1867. Með þeim gjörningi hafi þeir skipt jörðinni til helminga, að því er virðist, þar sem síðar sé iðulega talað um hvorn jarðarhlutann sem þrjú hundruð að fornu mati. Í skiptagerðinni komi fram að jörðinni Kleifum tilheyri svokallaðar Eyjar, sem sé landssvæði milli Kleifaár og Borgarár. Sé þessu landssvæði skipt í nyrðri og syðri hluta, þar sem svokölluð Mjódd skipti þeim í tvennt. Syðri hluti Eyjanna, sem hafi tilheyrt Jóni Níelssyni samkvæmt skiptagjörðinni, hafi legið frá Mjóddinni upp til fjalls, en nyrðri hlutinn, sem hafi tilheyrt Páli Pálssyni, hafi legið frá Mjódd að Kleifaósi. Í skiptagerðinni komi ennfremur fram að veiði sé óskipt hvar sem er í landareigninni. Skiptagerðinni hafi verið þinglýst 8. ágúst 1870.
Fram yfir aldamótin 1900 hafi Páll Pálsson átt sinn hluta Kleifajarðarinnar og þar með sinn hluta Eyjanna, þ.e. frá Mjódd að Kleifaósi. Hlutur Páls í jörðinni hafi svo um aldamótin gengið til sonar hans, Rósmundar Pálssonar. Rósmundur hafi svo selt Magnúsi Guðmundssyni þennan jarðarhelming árið 1905 eða 1906. Framsalsgerningar um þennan hlut Kleifajarðarinnar, sem upphaflega hafi verið í eigu Páls Pálssonar, hafi virst vera munnlegir. Að minnsta kosti liggi ekki fyrir skjöl um þá á skriflegu formi. Framangreindur Magnús hafi síðar eignast alla Kleifajörðina en það hafi gerst þegar Jón Hjaltason hafi afsalað til hans hinum hluta Kleifajarðarinnar, þ.e. 300 að fornu mati, hinn 7. júlí 1924. Magnús Guðmundsson hafi látist árið 1936. Í vottorði Bjarna Sigurðssonar þáverandi oddvita Ögurhrepps frá 8. janúar 1943, staðfesti oddvitinn að jörðin Kleifar, sex hundruð að fornu mati, hefði verið eign framangreinds Magnúsar þegar hann lést árið 1936.
Um upphaflegan hlut Jóns Níelssonar við skiptagerðina 1867, sem hafi m.a. náð til syðri hluta Eyjanna, frá Mjódd til fjalls, og aðilaskipti að honum bendi stefnandi á eftirfarandi. Ekki liggi fyrir skriflegir gerningar um þau aðilaskipti öll. Sólveig Ebenesardóttir sé eigandi hlutans árið 1872 og hafi hinn 24. júní það ár selt Hjalta Sveinssyni hlutann. Guðmundur Bárðarson hafi keypt þann hluta af Hjalta Sveinssyni 10. nóvember 1874. Daði Eggertsson virðist hafa eignast þennan hluta Kleifajarðarinnar eftir árið 1883. Hann hafi þá jafnframt verið eigandi jarðarinnar Borgar ásamt Ara Rósenkarssyni. Daði Eggertsson hafi andast árið 1887. Ásgerður Einarsdóttir ekkja Daða hafi selt tengdasyni sínum Bjarna Sigurðssyni Stykki úr Eyjunum undan sínum hluta Kleifajarðar 7. október 1898. Samhliða hafi hún selt honum 6,8 hundruð úr jörðinni Borg. Skipti á dánarbúi Daða Eggertssonar, sem Ásgerður hefði til þess tíma setið í óskiptu, hafi farið fram 24. janúar 1903. Þar hafi Einar Daðason erft 3 hundruð að fornu mati úr jörðinni Kleifum. Samkvæmt því sé það jafnstór hluti Kleifa og Jón Níelsson hafi átt eftir skiptagjörninginn 1867. Virðist þannig Stykki það úr Eyjunum sem Bjarna Sigurðssyni hafði verið selt árið 1898 hafa gengið til baka inn í Kleifajörðina. Einar Daðason hafi svo selt Guðmundi Reginbaldssyni þennan hluta úr Kleifajörðinni 9. júní 1903. Guðmundur Reginbaldsson hafi selt Ólafi Hálfdanarsyni hlutann 17. júní 1919. Jarðarhlutinn hafi svo komist í eigu Jóns Hjaltasonar sem selt hafi Magnúsi Guðmundssyni, sem áður sé nefndur, hlutann 7. júlí 1924. Við það hafi Magnús eignast alla Kleifajörðina eins og áður segi og reki stefnandi máls þessa eignarhald sitt að jörðinni óslitið til hans. Nánar tiltekið hafi það gerst með þeim hætti að Magnús hafi dáið árið 1936 og hafi jörðin skipst milli erfingja hans, ekkju hans og þriggja barna, þannig að Kristín Einarsdóttir, ekkja Magnúsar, hafi fengið 5/8 hluta jarðarinnar, og börnin Guðmundur Magnússon, Sigríður Magnúsdóttir og Margrét Magnúsdóttir 1/8 jarðarinnar hver. Hinn 3. júní 1939 hafi Guðmundur Magnússon afsalað til Kristínar Einarsdóttur sínum 1/8 hluta úr jörðinni. Hinn 27. desember 1942 hafi Kristín Einarsdóttir og Margrét Magnúsdóttir selt 7/8 Kleifajarðarinnar til Gunnars Guðröðarsonar og Hjalta Sigurjónssonar. Árið 1950 hafi Gunnar Guðröðarson og Hjalti Sigurjónsson selt til Bjarna Helgasonar sína 7/8 hluta jarðarinnar. Hinn 15. júlí 1950 hafi svo Sigríður Magnúsdóttir selt sinn 1/8 hluta jarðarinnar til Bjarna Helgasonar. Við það hafi Bjarni Helgason eignast alla jörðina Kleifa. Bjarni Helgason hafi selt syni sínum Þórði Bjarnasyni jörðina 20. desember 1970. Þórður Bjarnason hafi svo selt móður sinni Ingibjörgu Björnsdóttur jörðina hinn 9. desember 1971, en hún hafi verið gift áðurnefndum Bjarna Helgasyni. Með kaupmála, dagsettum 19. desember 1971, hafi verið tekin af tvímæli um að jörðin Kleifar teldist til séreignar Ingibjargar í hjónabandi hennar og Bjarna. Stefnandi máls þessa, Helgi Bjarnason, hafi svo eignast jörðina með afsali frá móður sinni Ingibjörgu, dagsettu 26. nóvember 1985. Samkvæmt framangreindu hafi því hlutar jarðarinnar Kleifa komist aftur á sömu hendi árið 1924 þegar Magnús Guðmundsson hafi eignast þá báða og hafi þar með átt alla Kleifajörðina, að dýrðleika sex hundruð að fornu mati. Frá þeim tíma hafi jörðin verið landfræðilega óskipt.
Ekki finnist hins vegar heildstæð landamerkjalýsing fyrir jörðina Kleifar og hafi formlegt landamerkjabréf hvorki verið gert í kjölfar lögtöku eldri landamerkjalaga frá 1882 né yngri laga frá 1919. Af þeim sökum byggi stefnandi á því að við afmörkun landamerkja jarðarinnar Kleifa verði að taka mið af þeirri afmörkun sem ráðin verði af skiptagerðinni 1867. Sé aðalkrafa stefnanda í máli þessu reist á þeirri afmörkun sem þar komi fram sem feli í sér, að því er varði ágreiningsefni máls þessa, að Eyjarnar allar heyri til jarðarinnar Kleifa. Stefnandi bendi á að þótt ekki liggi fyrir landamerkjalýsing fyrir jörðina Kleifar séu til tvær landamerkjalýsingar fyrir jörðina Borg. Sé hin eldri frá 6. nóvember 1883 en hin yngri sé ódagsett en verið þinglýst 21. júní 1902. Nokkur atriði rýri gildi landamerkjalýsinga þessara, sem valdi því að horfa verði framhjá þeim og miða landamerki jarðanna við skiptagerðina frá 1867. Í fyrsta lagi séu þessar landamerkjalýsingar ekki samhljóða um lýsingu merkja jarðarinnar Borgar gagnvart jörðinni Kleifum. Í öðru lagi virðist sem jörðin Kleifar hafi í gegnum tíðina, þ.e. frá 1867, aldrei skerst að neinu leyti. Þannig sé heildarjörðin sex hundruð að dýrðleika árið 1867 sem skiptist í tvo hluta milli eigenda, sem í síðari framsalsgerningum staðfestist að hafi verið þrjú hundruð hvor. Í afsölum fyrir jarðarhlutunum sé eftir þetta ætíð getið um að þeir séu þrjú hundruð að dýrðleika hvor og loks komi fram í vottorði Bjarna Sigurðssonar oddvita í Ögurhreppi frá árinu 1943, að jörðin Kleifar sé sex hundruð að fornu mati. Í þriðja lagi rýri það gildi landamerkjalýsinganna að Páll Pálsson riti einn undir hina fyrri lýsingu frá 1883 samþykkur sem eigandi Kleifa, en hann hafi þá aðeins átt helming jarðarinnar, og þar með Eyjanna, þ.e. frá Kleifaósi að Mjódd, eins og áður sagði, sbr. skiptagjörninginn frá árinu 1867. Þáverandi eigandi hins helmingsins, líklega Guðmundur Bárðarson, riti ekki undir lýsinguna sem samþykkur. Leiða megi líkum að því að merki þess hluta Kleifajarðarinnar, þ.e. fyrir ofan Mjóddina, hafi þarna verið færð frá Borgará í Kleifaá án vitundar þáverandi eiganda þess helmings. Þessi staðreynd rýri gildi þessarar landamerkjalýsingar og einnig hinnar síðari sem þinglýst hafi verið árið 1902, þar sem í þeirri lýsingu virðist byggt á hinni fyrri í meginatriðum. Samkvæmt framangreindu verði að taka aðalkröfu stefnanda að fullu til greina í máli þessu.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnanda krefjist hann í 1. varakröfu sinni að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Kleifa og Borgar séu með þeim hætti sem greini í varakröfu hans og miði við að Borgará ráði merkjum frá Kleifaósi fram að svonefndri Hringlind, sem hnitsett sé í varakröfunni, og þaðan liggi merkin yfir í Kleifaá, og að sú á ráði merkjum að Hundsá. Byggir stefnandi þessa kröfugerð á hinni yngri landamerkjalýsingu frá 1902. Af henni verði ráðið að landamerki jarðanna séu með framangreindum hætti, og sé á því byggt í varakröfu að landamerkjalýsing þessi víki til hliðar lýsingunni frá 1883. Í landamerkjalýsingunni frá 1902 sé getið um svonefnt „stykki“ í Eyjunum sem sé sérstök eign Bjarna Sigurðssonar. Svo virðist sem það „stykki“ renni aftur inn í jörðina Kleifa skömmu síðar, enda sé það svo að við búskipti á dánarbúi Ásgerðar Einarsdóttur og Daða Eggertssonar frá árinu 1903, erfi Einar Daðason allan jarðarhluta Kleifajarðarinnar sem upphaflega hafi stafað frá Jóni Níelssyni samkvæmt skiptagerðinni 1867, þ.m.t. umrætt „stykki“. Þessu til stuðnings skuli bent á að í skiptagjörð dánarbúsins komi fram að í Einars hlut komi hlutur dánarbúsins í jörðinni Kleifum, sem sé að dýrðleika þrjú hundruð að forni mati. Ef umrætt „stykki“ hafi staðið utan skipta hefði dýrðleiki jarðarinnar eflaust orðið minni. Þá sé framangreindri ályktun um að „stykkið“ hafi runnið aftur inn í Kleifajörðina til frekari stuðnings að þegar Bjarni Sigurðsson hafi afsalað jarðeignum sínum í Skötufirði til Páls Snorrasonar 14. apríl 1905, hafi hann afsalað aðeins sínum hlut í jörðinni Borg, þ.e. 6,8 hundruð að fornu mati, en ekki umræddu „stykki“. Samkvæmt því hafi Bjarni Sigurðsson ekki átt það þá lengur. Þessu til enn frekari stuðnings sé bent á að hvorki Bjarni Sigurðsson né kona hans Sigurlína H. Daðadóttir hafi átt neinar eignir þegar þau létust. Af því megi draga þá ályktun að umrætt „stykki“ hafi fylgt með þegar Einar Daðason hafi erft hluta jarðarinnar Kleifa, þ.e. upphaflegan hlut Jóns Níelssonar, frá foreldrum sínum árið 1903.
Verði ekki fallist á 1. varakröfu stefnanda krefjist stefnandi þess í 2. varakröfu að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Kleifa og Borgar séu með þeim hætti sem greini í 2. varakröfu hans. Í henni sé miðað við að Borgará ráði merkjum frá Kleifaósi fram að svonefndri Mjódd, sem hnitsett sé í kröfunni, og þaðan liggi merkin yfir í Kleifaá, og að sú á ráði merkjum að Hundsá. Sé þessi kröfugerð reist á og í samræmi við hina eldri landamerkjalýsingu frá 1883.
Varakrafa stefnanda nr. 3. 4. og 5. byggi á því að dómurinn líti svo á að framangreint landsvæði milli Ögurbúðardalsár og Hundsár sé þjóðlenda eða í eigu annars óskilgreinds þriðja aðila. Verði ekki fallist á 2. varakröfu stefnanda krefst stefnandi þess í 3. varakröfu að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Kleifa og Borgar séu með þeim hætti sem greini í 3. varakröfu hans. Í henni sé miðað við að Borgará ráði merkjum frá Kleifaósi fram að upptökum sínum í hniti. Frá því hniti liggi merkin í beina línu yfir í hnit Kleifaár. Verði ekki fallist á 3. varakröfu stefnanda krefst stefnandi þess í 4. varakröfu að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Kleifa og Borgar séu með þeim hætti sem greini í 4. varakröfu hans. Í henni sé miðað við að Borgará ráði merkum frá Kleifaósi fram að Hringlind í hniti. Frá því hniti liggi merkin yfir í Kleifaá og frá síðastnefndum punkti ráði Kleifaá merkjum fram að Ögurbúðardalsá. Verði ekki fallist á 4. varakröfu stefnanda krefst stefnandi þess í 5. varakröfu að dæmt verði að landamerki milli jarðanna Kleifa og Borgar séu með þeim hætti sem greini í 5. varakröfu hans. Í henni sé miðað við að Borgará ráði merkjum frá Kleifaósi fram að Mjódd í hniti. Þaðan liggi merkin um Mjóddina yfir í punkt í Kleifaá. Frá síðastnefndum punkti ráði Kleifaá merkjum fram að Ögurbúðardalsá. Stefnandi mótmæli þeim athugasemdum stefndu að hluti landsvæðis sem stefnandi hyggist fá dóm um í máli þessu sé þjóðlenda í skilningi þjóðlendulaga nr. 58/1998. Stefnandi byggi á því að þær athugasemdir stefndu séu rangar og ósannaðar og geti ofangreint landsvæði því ekki talist þjóðlenda eða í eigu annars aðila en hans sjálfs, enda verði ráðið af orðalagi landamerkjalýsingar Borgar hinnar yngri, sem þinglýst hafi verið í veðmálabók árið 1902, að Kleifar eigi land að Hundsá, en að aðeins svæðið milli Rjúkanda og Hundsár kunni að vera almenningur. Þinglýst landamerkjalýsing gangi framar síðari tíma örnefnaskrá, auk þess sem sönnunargildi örnefnaskrárinnar sé alfarið hafnað. Þá bendi nafn árinnar sjálfrar, Kleifaá, til þess að jörðin Kleifar eigi landamerki að þeim stað þar sem Hundsá og Rjúkandi sameinist í Kleifaá, en ekkert skemur. Á þessum skilningi grundvallist aðalkrafa stefnanda, 1. varakrafa og 2. varakrafa hans í málinu. Byggi stefnandi á 2. mgr. 14. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 þar sem kveðið sé á um að mál er varði eignarhald á þjóðlendum verði ekki borin undir dómstóla fyrr en Óbyggðanefnd, sem starfi á grundvelli laganna, hafi lokið umfjöllun sinni um þau. Óbyggðanefnd hafi ekki enn fjallað um eignarhald á framangreindu landsvæði milli Ögurbúðardalsár og Hundsár. Samkvæmt breytingu sem gerð hafi verið á 5. málsl. 8. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 með lögum nr. 19/2006 sé ætlunin að Óbyggðanefnd ljúki verki sínu árið 2011. Engan veginn standist að gera stefnanda að bíða til þeirra verkloka með að fá úrlausn um landamerki milli jarðar sinnar og stefndu, að því marki sem það sé mögulegt sbr. 70. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944.
Um lagarök vísar stefnandi til grundvallarreglna eignarréttarins, m.a. þeirrar að afsalshafi fái við afsalsgjöf þann rétt sem afsalsgjafi átti, en hvorki lakari né ríkari rétt. Þá byggir stefnandi jafnframt á lögum nr. 41/1919 um landamerki. Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sameiginleg aðild stefndu til varnar byggir á 18. gr. laga nr. 91/1991, enda eiga stefndu jörðina Borg í óskiptri sameign. Um varnarþing vísast til 34. gr. laga nr. 91/1991.
Málavextir, málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndu gera grein fyrir því að árið 1905 hafi Páll Snorrason eignast alla jörðina Borg, sbr. dskj. nr. 20. Árið 1909 hafi hann afsalað jörðinni til Lárusar Maríusarsonar, sbr. dskj. nr. 124. Lárus Maríusarson hafi afsalað jörðinni til Guðmundar Bárðarsonar árið 1913, sbr. dskj. nr. 125. Guðmundur Bárðarson hafi afsalað jörðinni til Einars Benediktssonar árið 1922. Einar Benediktsson hafi afsalað jörðinni árið eftir til Gríms Jónssonar, sbr. dskj. nr. 129. Árið 1925 hafi María Jóhannsdóttir eignast 1,2 hluta úr jörðinni, sbr. dskj. nr. 127, af 8 hundraðshlutum hennar að fornu mati. Guðmundur Magnússon hafi eignast 6,8 hundraðshluta jarðarinnar að fornu mati á uppboði árið 1932, sbr. dskj. nr. 70. Árið 1935 hafi Guðmundur selt helming eignarhluta síns, 3,4 hundruð að fornu mati, til Jóns Kristjánssonar, sbr. dskj. nr. 71. Guðmundur Magnússon og Jón Kristjánsson hafi keypt í sameiningu hluta þann er metinn var á 1,2 hundruð að fornu mati af dánarbúi Þorsteins Gíslasonar árið 1936. Guðmundur og Jón hafi þá átt saman alla jörðina Borg, sbr. dskj. nr. 72, alls 4 hundruð að fornu mati hvor.
Árið 1962 hafi Magnús Guðmundsson, sonur Guðmundar Magnússonar, keypt allan eignarhluta Jóns Kristjánssonar, helming jarðarinnar, sbr. dskj. nr. 73. Þar með hafi jörðin Borg öll verið komin í sömu ætt og verið eign feðganna Magnúsar Guðmundssonar og Guðmundar Magnússonar. Helmingshlut Guðmundar Magnússonar í Borg hafi verið skipt milli erfingja hans við skipti á dánarbúi hans árið 1972, sbr. dskj nr. 33. Erfingjar hans hafi verið stefndu Bjarni Ragnar Guðmundsson, Gyða Ólöf Guðmundsdóttir, Hildur Rebekka Guðmundsdóttur, Magnús Guðmundsson, Munda Kristbjörg Guðmundsdóttir, Ragnheiður Guðmundsdóttir og Sveinn Halldór Guðmundsson, þannig að hver erfingi hafi fengið jafnan hluta 50% eignarhlutdeildar Guðmundar í áðurnefndri jörð, ásamt öllu er jörðinni fylgdi og fylgja bar. Hvað varði þann 50% hluta sem Magnús Guðmundsson hafi keypt af Jóni Kristjánssyni árið 1963, þá hafi hann selt hlutann strax sama ár til systur sinnar Hjördísar Guðmundsdóttur. Samningur þeirra á milli hafi verið munnlegur. Systkinin hafi loks gert með sér skriflegan samning um kaup Hjördísar á hlutanum árið 1990 og þinglýstu honum sama ár, sbr. dskj. nr. 74. Hjördís hafi látist árið 1999 og við skipti á búi hennar 10. júlí 2000 hafi stefndu Gunnar Örn Hauksson, Ægir Valur Hauksson og Matthildur Ásta Hauksdóttur erft eignarhluta hennar í jöfnum hlutföllum, sbr. dskj. nr. 75. Þann 21. janúar 2006 hafi stefnda Gyða Ólöf Guðmundsdóttir afsalað sér eignarhluta sínum í Borg til dóttur sinnar Magneu Jónsdóttur, sbr. dskj. nr. 76. Samningnum hafi verið þinglýst þann 25. janúar 2006.
Þegar Guðmundur Magnússon hafi eignast jörðina Borg árið 1932 hafi hún verið í eyði. Guðmundur hafi strax hafið nýtingu jarðarinnar, en fyrst um sinn búið áfram á Kleifum. Guðmundur hafi flutt frá Kleifum til Borgar árið 1939. Allt frá því að Guðmundur Magnússon hafi eignast landareignina hafi landeigendur Borgar litið svo á að hinar umdeildu Eyjar féllu innan lands Borgar og nýtt þær í samræmi við það. Þannig hafi engjasláttur farið fram á eyjunum á árabilinu 1933-1965, veiði verið stunduð í ám og berjatínsla verið iðkuð, sbr. t.d. dskj. nr. 88-113 og 130-143. Á dskj. nr. 50 megi sjá hvernig nýtingu Eyjanna hafi verið háttað af hálfu eigenda Borgar. Á síðustu árum hafi ágangur auk þess verið nokkur um Eyjarnar og stefndu þurft að grípa til ýmissa ráða til að hamla umferð um Eyjarnar, bæði vegna umferðar bíla, veiða á rjúpu, verndunar arnarvarps og veiða úr Kleifá. Stefndu líti svo á að umrædd yfirráð landeigenda Borgar yfir Eyjunum hafi verið óslitin frá árinu 1932 til dagsins í dag.
Fyrir rétt rúmum 30 árum síðan hafi Orkustofnun að eigin frumkvæði haft samband við þáverandi landeigendur Borgar vegna fyrirhugaðrar lagningar á vegslóða frá brú á Kleifaósi í Skötufirði að ármótum Rjúkanda og Hundsár í dalbotni Skötufjarðar, sbr. dskj. nr. 51-54. Vegslóðinn hafi legið þannig alfarið um hinar umdeildu Eyjar, fyrir utan þann hluta hans sem legið hafi á óumdeildu landi Borgar, sbr. dskj. nr. 55. Erindum Orkustofnunar um lagningu vegslóðans hafi eingöngu verið beint að eigendum jarðarinnar Borgar en ekki að eigendum jarðarinnar Kleifa, sbr. dskj. nr. 51-52. Á dskj. nr. 52 sé því lýst í löngu máli að Orkustofnun hafi leitað sérstaklega eftir samþykki hvers og eins eigenda Borgar fyrir lagningu vegslóðans um Eyjarnar. Í sama bréfi sé einnig greint frá loforðum Orkustofnunar til landeigenda Borgar um að engin spjöll verði unnin á landi þeirra, veginum yrði þannig lokað sérstaklega og sár á grassverði grædd. Svo hafi farið að meirihluti eigenda Borgar hafi samþykkti framkvæmdirnar og samið um að Orkustofnun væri heimilt að leggja vegslóða um Eyjarnar. Ágangur um Eyjarnar hafi aukist jafnt og þétt vegna lagningar vegslóðans með árunum og af hlotist nokkur náttúruspjöll. Stefndi Gunnar Örn Hauksson hafi því haft samband við Bjarna Kristinsson, svæðisstjóra vatnamælinga Orkustofnunar og farið þess á leit að sett yrði upp hlið við byrjun vegslóðans, í samræmi við samkomulag landeigenda Borgar og Orkustofnunar frá 1975 um að aðgangur að Eyjunum yrði takmarkaður með því að veginum yrði lokað, sbr. dskj. nr. 56. Svo hafi farið að starfsmenn Orkustofnunar hafi reist slíkt hlið þann 27. október 1992. Þann 17. nóvember 1992 hafi Bjarni Kristinsson f.h. Orkustofnunar ritað bréf til allra eigenda jarðarinnar Borgar í Skötufirði, sbr. dskj. nr. 53. Erindið hafi verið að greina frá uppsetningu hliðsins í samræmi við samkomulag aðila frá 1975 til að hægt væri að takmarka umferð um Eyjarnar í framtíðinni. Í bréfinu hafi komið fram að Orkustofnun teldi ljóst að af samningi landeigenda Borgar og Orkustofnunar frá 1975 leiddi að stofnuninni bæri skylda til að setja hlið við vegslóðann. Í bréfinu hafi einnig komið fram upplýsingar um hverjir kæmu til með að hafa aðgang að hliðinu. Annars vegar hafi þar verið um að ræða Kristján Kristjánsson gæslumann vatnamælinga Orkustofnunar og hins vegar landeigendur Borgar, sbr. dskj. nr. 53. Ekki hafi verið getið um aðgang landeiganda Kleifa að hliðinu. Í niðurlagi bréfsins hafi þess verið getið að Orkustofnun væri búin að bæta úr eða væri að bæta úr jarðraski sem átt hefði sér stað á Eyjunum vegna lagningar vegslóðans. Af öðrum þeim gögnum er varði uppsetningu hliðsins verði ráðið að aldrei hafi verið talin þörf á að hafa samband við stefnanda vegna þessa.
Um fjórum árum síðar, eða 20. maí 1996, hafi áðurnefndur Bjarni Kristinsson skrifað bréf til eigenda beggja jarða, þ.e. Borgar og Kleifa, sbr. dskj. nr. 59. Bréfið hafi varðað áform Orkustofnunar um að færa vatnsmælingasírita niður undir Skiphyl í Fjarðará, sem einnig sé þekkt sem Kleifaá. Staðurinn þar sem Kleifaá falli í sjó heiti Kleifaós og sé Skiphylur nokkru ofar, sbr. dskj. nr. 46 og dskj. nr. 60. Þetta hafi verið í eina skiptið sem bréfi frá Orkustofnun hafi verið beint til eigenda beggja jarða, enda röskun á eignum beggja hugsanleg. Hafi þannig átt að setja vatnamælingasíritann á stað sem ekki sé á því landssvæði sem ágreiningur í þessu máli snúist um. Fyrri hluta árs 1998 hafi hliðið að vegslóðanum, sem lagður var 1975 um Eyjarnar, verið eyðilagt af ökumönnum sem hafi viljað aka þar um þrátt fyrir að aðgangur væri takmarkaður. Stefndi Gunnar Örn hafi þá haft samband við Orkustofnum um úrbætur, enda það leitt af samkomulagi aðila frá 1974 að Orkustofnun bæri að takmarka umferð um Eyjarnar, sbr. dskj. nr. 53. Í framhaldinu hafi stefndi Gunnar Örn fengið sent nýtt hlið frá Orkustofnun og hafi Orkustofnun greitt bæði fyrir hliðið og allan sendingarkostnað. Stefndi Gunnar Örn hafi einn annast uppsetningu hliðsins eftir að hafa fengið það sent. Lyklar hafi verið sendir stefnda Gunnari Erni einum og hann séð um að gera afrit af þeim fyrir landeigendur Borgar og bændur sem vildu smala í Eyjunum. Standi hliðið þar enn þann dag í dag, steypt niður í rör sem stefndi Gunnar Örn hafi grafið fyrir.
Um miðjan októbermánuð 1998 hafi stefndi Gunnar Örn orðið var við að ökumaður hafi ekið utan vegar fram hjá hliðinu og inn á Eyjarnar. Hafi stefndi Gunnar Örn veitt honum eftirför, rekið hann af landinu og sett í framhaldinu upp girðingu við hliðið til að koma í veg fyrir að ökumenn ækju fram hjá hliðinu. Þetta hafi þó orðið til þess að seinna hliðið hafi líka orðið fyrir skemmdum af völdum ökumanna er hafi viljað komast um Eyjarnar, sbr. dskj. nr. 114. Umræddar skemmdir á hliðinu hafi m.a. verið tilefni bréfaskrifa stefnda Gunnars Arnar til Orkustofnunar þann 1. febrúar 2000, sbr. dskj. nr. 58, þar sem hann hafi farið fram á úrbætur á vegslóðanum vegna fyrrnefnds ágangs. Þann 24. október 2000 hafi Sverrir Ó. Elefsen f.h. Orkustofnunar, svarað umleitan stefnda Gunnars Arnar um úrbætur á vegslóðanum um Eyjarnar, sbr. dskj. nr. 61. Þar hafi komið fram að Orkustofnun hafi samþykkt að landeigendum Borgar væri heimilt að ráðast í þær úrbætur sem stefndi Gunnar Örn hafi lagt til og að heimilt væri að senda reikning fyrir kostnaði við þær til Orkustofnunar. Hafi þar einnig komið fram að fyrirhuguð væri uppsetning á nýjum vatnsmæli við enda vegslóðans neðan ármóta Hundsár og Rjúkanda, sbr. dskj. nr. 61 og að leitað yrði eftir samþykki landeigenda Borgar fyrir því fyrirkomulagi. Ekki muni hafa verið haft samband við stefnanda vegna þessa.
Um tveimur árum fyrr, eða árið 1998, hafi landeigendur Borgar orðið þess áskynja að fyrirhugað væri malarnám í Eyjunum af hálfu hins opinbera, sbr. dskj. nr. 67. Í drögum Súðavíkurhrepps að aðalskipulagi hafi þannig verið gert ráð fyrir 250.000 rúmmetra malarnámu, sem hugsanlega hefði getað orðið allt að tíu hektarar, í fyrrgreindum Eyjum, sbr. dskj. nr. 62. Landeigendur Borgar hafi óttast að af slíkri malarnámu myndu hljótast mikil náttúruspjöll. Því hafi þeir sent mótmælabréf ásamt fylgiskjölum til ýmissa aðila er tengdust málinu, þ.á m. Vegagerðarinnar, samgönguráðherra, umhverfisráðherra, vegamálastjóra og Fuglaverndarfélagi Íslands, sbr. dskj. nr. 63 og 67. Hreppsnefnd Súðavíkurhrepps hafi tekið mótmælin til skoðunar í framhaldinu. Þann 3. júlí 2002 hafi landeigendum Borgar borist tilkynning frá Súðavíkurhreppi um að hætt hafi verið við fyrirhugað malarnám vegna mótmæla þeirra, sbr. dskj. nr. 77.
Árið 2004 hafi stefnandi gert stefndu formlega ljóst að hann teldi hinar umdeildu Eyjar vera sína eign. Staðhæfingar stefnanda um að hann ætti Eyjarnar hafi vakið furðu stefndu þar sem stefnandi hafi aldrei hagað sér sem eigandi hinna umræddu Eyja, né gert formlegt tilkall til réttinda yfir þeim. Í framhaldinu hafi verið haldnir sáttafundir um efnið, en sættir ekki náðst.
Í öllum kröfuliðum stefnu geri stefnandi kröfu um að „Kleifaá ráði merkjum fram að Hundsá”, sbr. dskj. nr. 1. Myndræna útfærslu á kröfum stefnanda megi sjá til skýringar á dskj. nr. 47-49. Stefndu telji að stefnandi sé að krefjast þess að viðurkennt verði að hluti þess svæðis sem að fornu hafi verið nefnt almenningur, en nú þjóðlenda, verði dæmd eign hans. Myndræna útfærslu á þessu landssvæði megi sjá á dskj. nr. 66. Í öllu falli telji stefndu ljóst að umrætt svæði sé eign þriðja aðila, hins opinbera eða annarra aðila, sem ekki séu aðilar að þessu dómsmáli. Í umfjöllun Örnefnaskrár um land Kleifa, sbr. dskj. nr. 60, komi fram að svæðið frá Rjúkanda að Ögurbúðardalsá heiti „Kambar” og að umrætt svæði sé almenningur, sbr. myndræna framsetningu á dskj. nr. 66. Ennfremur segi á dskj. nr. 60 að: ,,Kleifá heiti svo, þegar Ögurbúðardalsá, Rjúkandi og Hundsá hafa fallið saman við Almenningssporðinn... ”. Dómafordæmi Hæstaréttar gefi til kynna að rétturinn leggi ríka áherslu á að þess sé gætt að þeim sem land kunni að eiga að umþrættu landssvæði sé gefinn kostur að aðild að landamerkjamálum. Ef á þessu verði brestur af hálfu stefnanda og hann stefni ekki öllum sem með réttu eigi að eiga aðild að málinu, varði það frávísun málsins skv. 18. gr. laga nr. 91/1991.
Í öðru lagi bendi stefndu á ónákvæmni í öllum kröfum í kröfugerð í stefnu. Í öllum kröfuliðum geri stefnandi eins og áður segi kröfu um að Kleifaá ráði merkjum fram að Hundsá, sbr. dskj. nr. 1. Stefndu bendi á að Kleifaá eigi upptök sín þar sem Ögurbúðardalsá, Rjúkandi og Hundsá hafi fallið saman, sbr. dskj. nr. 60. Árnar mætist í hnitapunktum X: 324110.05000 og Y: 603033.7537, sbr. dskj. nr. 120.
Stefndu krefjist sýknu af öllum kröfum stefnanda. Krafa um sýknu miðist við að Kleifaá ráði merkjum milli Borgar og Kleifa. Landamerki jarðanna teljist nánar tiltekið frá hnitsettum punkti X = 324518.4435 Y = 605262.9708, staðsettum í Kleifarósi, en fylgi þaðan hnitsettum punktum svo sem í dómkröfum stefndu hér að framan greini. Þannig afmarki Kleifaá jarðirnar Borg og Kleifa eftir ofangreindri hnitalínu, sbr. hnitsetta loftmynd á dskj. nr. 120. Stefndu telji að eigendur Borgar hafi fyrir hefð orðið eigendur að hinum umdeildu Eyjum á milli jarðanna skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Stefndu byggi auk þess á því að önnur gögn málsins sýni að Eyjarnar séu allar hluti af eign Borgar, en ekki Kleifa. Stefndu telji því að sýkna beri af öllum kröfum stefnanda. Samkvæmt hefðarlögum nr. 46/1905 sé skilyrði hefðar óslitið eignarhald jarðar í 20 ár, sbr. 2. gr. laganna. Í óslitnu eignarhaldi felist að viðkomandi hafi fyrirvaralaus umráð yfir eigninni og sá hinn sami geti meinað öðrum afnot eignarinnar. Stefndu telji skilyrði þessi uppfyllt. Landeigendur Borgar hafi allt frá árinu 1932 notað Eyjarnar til útivistar, veiða, berjatínslu og sláttar án nokkurra athugasemda af hálfu eigenda Kleifa á hverjum tíma, sbr. dskj. nr. 50, 88-113 og 130-143. Gögn málsins beri einnig með sér að stefndu hafi verndað Eyjarnar fyrir ágangi ökumanna, rjúpna- lax- og silungsveiðimanna og annarra óviðkomandi. Einnig hafi stefndu verndað arnarvarp í samræmi við 19. gr. laga nr. 64/1994, en samkvæmt þeim lögum sé óheimilt að koma nær arnarhreiðrum en 500 metra nema brýna nauðsyn beri til og óheimilt sé að hrófla við hreiðrum og hreiðurstæðum arna á svæði sem takmarkist af 100 metra hringmáli umhverfis, hvort sem sé á varptíma eða utan hans. Arnarvarp eigi sér stað utan Eyjanna, en nægilega nálægt Eyjunum til að nauðsyn beri til að takmarka umferð um þær vegna þess. Sú staðreynd að landeigendur Borgar hafi stundað veiði í Kleifaá frá Eyjunum, sbr. dskj. nr. 88-113 og 130-143, en stefnandi frá eign sinni vestan megin við Kleifaá, gefi einnig til kynna að landamerki jarðanna beri að miða við þá á, en ekki Borgará, sbr. 6. gr. laga nr. 76/1970 um lax- og silungsveiði. Stefnandi eigi engan veiðirétt í Borgará, en aðalkrafa hans sé reist á því að landamerki jarðanna beri að miða við þá á.
Staðfestingu á óslitnu eignarhaldi stefndu á Eyjunum megi einnig sjá af samskiptum Orkustofnunar við stefndu á árunum 1975 til 2000, sbr. dskj. nr. 51, 52, 53, 54, 56, 57, 58, og 61. Í öllum tilvikum hafi bréfaskiptum einungis verið beint til landeigenda Borgar. Ávallt hafi verið leitað eftir samþykki landeigendanna áður en ráðist hafi verið í framkvæmdir er snertu Eyjarnar og samráð haft við þá. Af gögnum málsins sé ljóst að Orkustofnun hafi talið að vegna samnings við landeigendur Borgar frá 1975 væri stofnuninni skylt að hjálpa eigendum Borgar að takmarka aðgang að Eyjunum. Orkustofnun hafi talið sér einnig skylt að bæta landeigendum Borgar það tjón sem þeir hafi orðið fyrir vegna lagningar vegslóðans og sá í jarðvegssár vegna ágangs. Orkustofnun hafi auk þess borið kostnað af aðgerðum landeigenda Borgar vegna vegslóðans og þess náttúrurasks sem af honum hafi hlotist. Aðgangi um Eyjarnar um vegslóðann hafi algerlega verið stjórnað af stefndu og Orkustofnun. Samskiptum hafi í þessu ferli, á árabilinu 1975-2000, aldrei verið beint til stefnanda, fyrir utan það skipti er færa hafi átt vatnsmælingasírita yfir á landareign hans.
Frekari staðfestingu á því að stefndu séu réttmætir eigendur Eyjanna megi sjá af nýlegum samskiptum landeigenda Borgar og Súðavíkurhrepps vegna fyrirhugaðs malarnáms í Eyjunum, sbr. dskj. nr. 63 og 67. Að lokum hafi farið svo að vegna mótmæla landeigenda Borgar hafi verið hætt við malarnámið, sbr. dskj. nr. 77. Orðrétt segi þar: „Hreppsnefnd samþykkir athugasemdir Gunnars Haukssonar vegna náttúruverndarsjónarmiða að ekki verði malarnám í botni Skötufjarðar”.
Önnur gögn málsins gefi öll til kynna að Kleifaá skipti jörðunum Borg og Kleifum og að Eyjarnar tilheyri þannig allar Borg en ekki Kleifum. Í fyrsta lagi segi í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, sem skráð hafi verið á milli 1702 og 1712 að á þeim tíma hafi „eyjarnar” tilheyrt jörðinni Borg, sbr. dskj. nr. 64. Þar segi m.a. um jörðina: „Enginu granda skriður úr brattlendi til stórskaða og so hafa Borgará og Kleifaá eyðilagt engið sem að < í > eyjunum var með grjóts og sands ábyrði”. Hvorki sé minnst á engi né Eyjar í umfjöllun um jörðina Kleifa í Jarðabók, sbr. dskj. nr. 64. Álykta megi af þessu að Eyjarnar hafi tilheyrt jörðinni Borg á þeim tíma.
Í öðru lagi vísist til Örnefnaskrár Örnefnastofnunar fyrir Norður-Ísafjarðarsýslu. Í skránni sé að finna heimildir um örnefni á landi Kleifa og Borgar, sbr. dskj. nr. 60 og 65. Í landlýsingu jarðarinnar Borgar frá 1935 til 1936, sbr. dskj. nr. 65, komi fram að þar sé að finna miklar mýrar og grundir og töluvert undirlendi sem Kleifaá og Borgará „flæði yfir” í vatnavöxtum. Bersýnilegt sé að það land sem hér sé átt við séu hinar umdeildu Eyjar, enda komi ekki til greina að árnar flæði báðar yfir annað landssvæði í firðinum sem talist geti undirlendi. Árið 1975 hafi enn flætt yfir Eyjarnar í vatnavöxtum, sbr. greinargerð Orkustofnunar á dskj. nr. 52, og sé svo einnig enn þann dag í dag. Í landlýsingu jarðarinnar Kleifa í Örnefnaskrá komi hvergi fram neitt það er bent geti til þess að Eyjarnar tilheyri jörðinni Kleifum, sbr. dskj. nr. 60. Þvert á móti megi ráða af heildarlestri umrædds skjals að umfjöllun afmarkist við land vestan við Kleifaá, sbr. dskj. nr. 117 um örnefni á landi Kleifa samkvæmt Örnefnaskrá og kort af staðsetningu þeirra örnefna á dskj. nr. 118.
Í þriðja lagi vísist hér til sendibréfs frá Magnúsi Guðmundssyni til Sveins Guðmundssonar, dagsett 19. janúar 1965. Þar lýsi Magnús, sem þá hafi verið lögregluþjónn í Reykjavík, viðtali sem hann hafi átt við Sigurlínu Daðadóttur konu Bjarna Sigurðssonar, fyrrverandi jarðeiganda Borgar. Í bréfinu sé haft eftir henni á bls. 7 að Kleifaá ráði merkjum, sbr. dskj. nr. 69. Stefndu telji auk þess að stefnandi hafi ekki með neinum hætti gert líklegt að Eyjarnar séu eign hans samkvæmt aðalkröfu í stefnu. Stefndu telji hið sama gilda um vara- og þrautavarakröfu stefnanda. Engin krafnanna sé studd neinum haldbærum rökum. Kröfur í stefnu séu að mestu leyti studdar við þrjú dómskjöl. Í fyrsta lagi skiptagerð á dskj. nr. 6. Í öðru lagi landamerkjalýsingu á dskj. nr. 13 og í þriðja lagi endurrit úr veðmálabók á dskj. nr. 16. Stefnandi kalli tvö síðastnefndu skjölin „landamerkjalýsingar”. Hið rétta sé að aðeins sé um að ræða eitt skjal sem með réttu sé hægt að kalla landamerkjalýsingu, en það sé landamerkjalýsing jarðarinnar Borgar frá 6. nóvember 1883 sem þinglýst hafi verið 1884, sbr. dskj. nr. 13. Það skjal sé að finna í svokallaðri Landamerkjabók sem til þess hafi verið ætluð að skrá landamerki milli jarða. Í Landamerkjabók sé hvergi að finna landamerkjalýsingu fyrir jörðina Kleifa, sem sé einstakt fyrir jörð í Ögurhreppi. Skjalið á dskj. nr. 16, sem þinglýst hafi verið árið 1902, sé að finna í veðmálabók Ísafjarðarsýslu fyrir árin 1898 1907. Því bréfi sé ekki ætlað að lýsa landamerkjum með sama hætti og gert hafi verið í Landamerkjabók, heldur einungis að sanna eignarhald að því Stykki sem Bjarni Jónsson hafi keypt út úr jörðinni Kleifum. Hins vegar sé ljóst að það skjal byggi að flestu leyti á landamerkjalýsingunni á dskj. nr. 13.
Aðalkrafa stefnanda um að allar Eyjarnar verði dæmd eign hans, sé við það eitt studd að landamerki jarðanna beri að miða við skiptagerð frá 1867, sbr. dskj. nr. 6, um hans eigin jörð. Skiptagerðin sé í dag tæplega 140 ára gömul og stangist á við öll yngri gögn málsins. Stefnandi leggi enga þinglýsta landamerkjalýsingu fyrir landið Kleifa fram til stuðnings aðalkröfu sinni og styðji kröfu sína eingöngu við gögn er stafi einhliða frá landeigendum Kleifa. Umrædd skiptagerð frá 1867 stangist m.a. á við þau gögn sem stefnandi sjálfur leggi fram á dskj. nr. 13 og 16, þ.e. landamerkjalýsinguna frá 1883 og endurritið úr veðmálabók frá 1902. Bent sé á að eigandi Kleifa riti undir landamerkjalýsinguna frá 1883, einungis 16 árum eftir skiptagerðina, sem samþykkur henni f.h. landeigenda Kleifa, sbr. dskj. nr. 13. Sú landamerkjalýsing sé í ósamræmi við skiptagerðina er stefnandi byggi aðalkröfu sína á. Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir staðhæfingum á bls. 4 í stefnu, þ.e. í fyrsta lagi að Guðmundur Bárðarson hafi verið eigandi helmings jarðarinnar Kleifa árið 1883 og í öðru lagi að löggerningurinn hafi verið í gerður í vondri trú og án hans vitundar. Stefndu telji að stefnandi eigi einfaldlega í erfiðleikum með að útskýra ósamræmi milli umræddra gagna og grípi því til ósannaðra og rangra staðhæfinga um ólögmæta háttsemi. Stefndu telji með hliðsjón af framansögðu að sýkna beri stefndu af aðalkröfu stefnanda.
Varakrafa stefnanda sé m.a. reist á lýsingu úr veðmálabók frá 1902, sbr. dskj. nr. 16, sem hann telji annars staðar í stefnu, þ.e. í röksemdakafla fyrir aðalkröfu, lítið gildi hafa. Varakrafan gangi út á það að stefnanda verði dæmt ákveðið „stykki” úr Eyjunum. Stefnandi reisi varakröfu sína um að Stykkið verði dæmt eign hans, einnig á túlkun sinni á einhliða búskiptagjörningi landeiganda Kleifa, en í þetta skiptið á gagni frá 1903, sbr. eftirfarandi tilvitnun úr stefnu: „Svo virðist sem það „stykki” renni aftur inn í jörðina Kleifar skömmu síðar, enda er það svo við búskipti á dánarbúi Ásgerðar Einarsdóttur og Daða Eggertssonar frá árinu 1903, erfir Einar Daðason allan jarðarhluta Kleifa jarðarinnar sem upphaflega stafaði frá Jóni Níelssyni skv. skiptagerðinni 1867, þ.m.t. umrætt „stykki”.” Stefndu mótmæli þessu og benda á eftirfarandi. Stefndu telji í fyrsta lagi ljóst að einhliða skiptagjörningur eigenda Kleifa frá 1903 geti ekki bundið eigendur Borgar. Í öðru lagi sé vísað til þess sem hér að framan segi um umræddan skiptagerning frá 1867 sem dragi að mati stefndu verulega úr gildi hans og þar af leiðandi einnig gildi tilvitnaðrar getgátu stefnanda um málsatvik. Í þriðja lagi sé bent á að framangreind ósönnuð staðhæfing stefnanda um að Ásgerður Einarsdóttir og Daði Eggertsson hafi átt umrætt „stykki” við búskipti á dánarbúi þeirra árið 1903 sé í ósamræmi við þinglýsta landamerkjalýsingu frá 1902, sbr. dskj. nr. 16, þar sem fram komi berum orðum um stykkið: „Að þetta sé rétt mín eign, Bjarna Sigurðssonar á Borg sýnir kaupbréf dagsett á Borg 3. septbr. 1898 og afsalsbréf dagsett 7. október 1898 undirskrifað af seljanda, Ásgerði Einarsdóttur, ásamt kaupanda Bjarna Sigurðssyni og tveimur vitundarvottum”. Neðst á skjalinu komi fram undirritun Ásgerðar Einarsdóttur til staðfestingar á því að um „rétta landamerkjalýsingu sé að ræða”. Stefnandi ber sönnunarbyrðina fyrir því að hin þinglýsta landamerkjalýsing frá 1902 sé röng og að Stykkið hafi gengið aftur til Ásgerðar Einarsdóttur og Daða Eggertssonar áður en bú þeirra hafi verið tekið til skipta aðeins um einu ári eftir þinglýsinguna árið 1903. Vísist um þetta til meginreglna íslensks réttar um gildi þinglýstra heimilda, sbr. 25. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.
Enn fremur geri stefndu sérstaka athugasemd við staðhæfingu í rökstuðningskafla stefnu fyrir varakröfu, þar sem segi efst á bls. 5: „Samkvæmt dskj. 32 áttu hvorki Bjarni Sigurðsson né kona hans Sigurlína Daðadóttir neinar eignir þegar þau létust. Af því má draga þá ályktun að umrætt Stykki hafi fylgt með þegar Einar Daðason erfði hluta jarðarinnar Kleifa, þ.e. upphaflegan hlut Jóns Níelssonar, árið 1903”. Samkvæmt dskj. nr. 32 hafi Sigurlína Daðadóttir látist árið 1971. Umrædd þinglýsing á Stykkinu hafi átt sér stað árið 1902. Því sé umrædd ályktun um að Stykkið hljóti að hafa skipt um eigendur á árabilinu 1902 til 1903, þar sem Sigurlína Daðadóttir hafi verið eignalaus árið 1971 er hún lést, vægast sagt mjög hæpin. Stefnandi hafi ekkert sannað um þetta og ber hallann af því. Þess beri enn fremur að geta að samkvæmt dskj. nr. 69, frá árinu 1965, þá hafi umrædd Sigurlína talið að Kleifaá réði landamerkjum milli Borga og Kleifa. Í þeirri staðhæfingu felist að Stykkið sé eign landeigenda Borgar. Í stefnu dragi stefnandi mjög víðtækar ályktanir af staðhæfingum sínum um að mat jarðarinnar Kleifa hafi ekkert breyst. Röksemdafærslan gangi út á það að þar sem mat jarðarinnar hafi ekkert breyst hljóti Stykkið að vera hluti af Kleifum. Í fyrsta lagi bendi stefndu á það að stefnandi hafi ekkert sannað um að Stykkið hafi aftur orðið hluti af landi Kleifa. Í öðru lagi vísi stefndu til dskj. nr. 119 frá Háskóla Íslands, þar sem fram komi að bæði hafi merking orðanna „hundrað að fornu mati” verið á reiki og kerfið um hundraðamat jarða verið ósamræmt og óljóst.
Loks byggi stefndu á því að jafnvel þótt dómurinn féllist á langsóttan skilning stefnanda á öllum ofangreindum gögnum þá skipti það ekki máli þar sem stefndu hafi fyrir löngu unnið hefð á öllum Eyjunum, þ.m.t. hinu umrædda Stykki. Um þetta vísist til ofangreindra röksemda varðandi hefð. Stefndu telji með hliðsjón af framansögðu að sýkna verði stefndu af varakröfu stefnanda.
Þrautavarakrafa stefnanda sé miðuð við landamerkjalýsingu Borgar frá 1883, sbr. dskj nr. 13. Stefndu telji að sýkna verði einnig af þeirri kröfu af eftirgreindum ástæðum. Í fyrsta lagi þá byggi stefndu á því að þeir hafi hefðað allar Eyjarnar og því beri að sýkna af umræddri kröfu. Um þetta vísist til ofangreindra sjónarmiða um hefð. Í öðru lagi byggi stefndu á því að stefnandi geti ekki byggt rétt á 123 ára gamalli landamerkjalýsingu sem stangist á við yngri gögn í málinu, þ.á m. yngri þinglýsta heimild frá 1902, sbr. dskj. nr. 16, sem hafi byggt á landamerkjalýsingunni frá 1883. Vísist hér einnig til fjölmargra annarra gagna málsins er bendi til þess að Kleifaá ráði merkjum milli jarðanna. Stefndu telja því að sýkna verði stefndu einnig af þrautavarakröfu stefnanda.
Varakrafa stefndu sé krafa um sýknu að hluta. Stefndu krefjist þannig sýknu af kröfu stefnanda um að Stykkið úr Eyjunum verði dæmt eign hans. Þau hnit sem tilgreind séu í kröfugerð varakröfu megi sjá á hnitsettri loftmynd á dskj. nr. 120. Stefndu telji öll gögn málsins bera með sér að Stykkið sé eign þeirra. Stefndu byggi í fyrsta lagi á því að þeir hafi hefðað Stykkið úr Eyjunum. Um þetta vísist til ofangreindra málsástæðna um hefð. Ljóst sé að stefndu hafa haft bæði fyrirvaralaus afnot og meinað öðrum afnot af umræddu Stykki. Stefndu byggi í öðru lagi á því að Stykkið hafi verið séreign Bjarna Sigurðssonar og aldrei farið yfir í land Kleifa. Stykkið hafi verið þinglýst séreign Bjarna Sigurðssonar eiganda Borgar árið 1902, sbr. dskj. nr. 16. Stefnandi hafi ekki lagt fram neinar þinglýstar eignarheimildir er hnekki því skjali, heldur einungis ósannaðar getgátur um að Stykkið hafi runnið inn í Kleifa. Þar sem eigendur Kleifa hafi afsalað sér sannanlega umræddu Stykki árið 1898, samkvæmt þinglýstu skjali frá árinu 1902 og stefnandi hafi ekkert sannað um að Stykkið hafi runnið aftur inn í Kleifa, telji stefndu að sýkna beri þá af kröfum hans. Í þriðja lagi vísist til annarra gagna málsins er bendi til þess að Stykkið sé eign stefndu, t.a.m. Örnefnaskrár Örnefnastofnunar á dskj. nr. 60 og 65, bréfs á dskj. nr. 69 og þeirra gagna sem stefndu hafi lagt fram um samskipti þeirra við hið opinbera, sem að mati stefndu sanni m.a. eignarhald stefndu á hinu umrædda Stykki. Í fjórða lagi telji stefndu að skilningur stefnanda á landamerkjalýsingu frá 1883 og lýsingu skv. endurriti úr veðmálabók frá 1902 sé rangur. Skilning stefndu samkvæmt varakröfu megi sjá af myndum með skýringartexta á dskj. nr. 121 til 123. Samkvæmt þeim skilningi sé Stykkið eign stefndu. Í fimmta lagi byggi stefndu á því að Bjarni Sigurðsson hafi einungis átt 6,8 hluta af 8 af jörðinni Borg og því hafi honum borið nauðsyn til að þinglýsa eignarheimild að Stykkinu sérstaklega til að meðeigandi hans að Borg hafi ekki öðlast rétt yfir því, sbr. dskj. nr. 16. Árið 1905, er hann hafi afsalað sér 6,8 hlutum til Páls Snorrasonar, hafi hann einnig afsalað sér Stykkinu í því kaupbréfi sem getið sé um í dskj. nr. 16. Því sé mótmælt staðhæfingum stefnanda um að hann hafi ekki átt Stykkið lengur við umrædda afsalsgerð árið 1905, sbr. dskj. nr. 20. Stefndu telji að Stykkið hafi aldrei orðið hluti af landi Kleifa. Ef ekki verði fallist á aðalkröfu stefndu, byggi stefndu á því að sýkna beri þá að hluta af kröfum stefnanda samkvæmt varakröfu.
Fyrir dóminn komu fjölmörg vitni, auk þess sem stefnandi og stefndi Gunnar Örn Hauksson gáfu skýrslu fyrir dómi. Verður hér á eftir gerð grein fyrir helstu atriðum er máli skipta úr framburðum vitna.
Ingibjörg Björnsdóttir kvaðst hafa flust að Kleifum vorið 1951 og flust þaðan haustið 1970. Kvaðst hún oft hafa farið í eyjarnar fram að Hringlind og tínt ber sem hún hafi notað í berjasölu. Kýrnar hafi oft verið þar á beit. Eiginmaður sinn hafi stundað veiði á svæðinu. Hafi hann veitt fyrst og fremst í Kleifaá, báðum megin við en honum hafi ekki líkað við hylina í Borgará og því lítið veitt í henni. Samskipti við ábúendur og eigendur Borgar hafi verið góð. Kvaðst hún þó muna eftir að maður hennar og Guðmundur Magnússon hafi eitthvað verið að ræða saman um hvorri jörðinni fremri eyjarnar tilheyrðu. Kvaðst hún ekki muna til þess að Borgarmenn hafi verið að heyja á eyjunum. Fólkið á Kleifum hafi heldur aldrei heyjað á svæðinu. Kvaðst hún ekki vita til þess að Guðmundur hafi veitt í Kleifaá. Hafi hún varla nokkurn tímann séð fólk á þessu svæði. Kvað hún svæðið milli Hundsár og Ögurbúðardalsá tilheyra Kleifum en ekki kannast við að það hefði verið kallað einhverju ákveðnu nafni. Kvaðst hún ekki minnast þess að hafa farið á bíl yfir í eyjarnar. Oftast hafi þau vaðið yfir í eyjarnar.
Þórður Bjarnason, bróðir stefnanda, kvaðst hafa komið að Kleifum árið 1951 og verið þar fram til 1970. Nýting á Eyjunum hafi aðallega verið í formi berjatínslu og silungsveiði. Það hafi komið fyrir að sauðfé frá Kleifum hafi verið þar á beit. Lítið hafi verið veitt í Borgará. Ekki myndi Þórður eftir ágreiningi við ábúendur og heimilisfólk á Borg vegna nytja á Eyjunum. Ábúendur á Borg hafi hins vegar talið sig eiga Eyjarnar og ágreiningur verið um það. Ekki hafi Þórður orðið var við neinar nytjar af hálfu Borgarmann á svæðinu nema þá að eitthvað hafi þeir veitt þar og fé þeirra verið á beit þar. Þetta svæði hafi aldrei verið afgirt. Áin héti Kleifaá þar sem Hundsá og Rjúkandi sameinist og niður úr. Kleifaá næði að Hundsá.
Bjarni Haraldsson kvað föður stefnanda hafa verið afi sinn. Kvaðst Bjarni hafa á árum áður komið að Kleifum að sumri til í fjögur skipti í 3 til 5 vikur í senn. Myndi hann ekki sérstaklega eftir nýtingu Kleifafólks á Eyjunum né heldur kvaðst hann muna sérstaklega eftir að hafa heyrt um ágreining á milli fólks á Kleifum og Borga. Í seinni tíð hafi hann hins vegar orðið vitni að slíkum deilum. Hafi hann verið á ferð sumarið 2006 og stefnandi boðið honum að renna fyrir fisk í Kleifaá. Hafi hann staðið í þeim skilningi að hann mætti fara á hvorn árbakkann sem væri. Þegar hann hafi komið að vegi þar sem beygi að Mjódd hafi komið að maður og sagt honum að hypja sig burt. Maðurinn hafi sagt honum að hann teldi sig eiga alla ána. Bjarni kvaðst þeirrar skoðunar að áin héti Kleifaá þar sem Hundsá og Rjúkandi kæmu saman. Kvað hann m.a. afa sinn hafa sagt sér þetta.
Finnbogi Rútur Arnarson kvaðst hafa verið í sveit á sumrin að Kleifum. Hafi það verið frá árinu 1963 og fram til þess þegar bærinn hafi lagst í eyði árið 1970. Afi Finnboga og ábúendur á Kleifum, þau Bjarni Helgason og Ingibjörg Björnsdóttir, hafi verið vinafólk foreldra Finnboga. Finnbogi kvað Eyjarnar á milli ánna hafa verið nýttar til berjatínslu á haustin og að vissu marki sem beitiland. Kýr frá Kleifum hafi stundum leitað þangað en þó ekki verið reknar þangað. Þá hafi verið stunduð silungsveiði bæði í Keifará og Borgará. Deilur hafi verið á milli ábúenda jarðanna, sérstaklega þegar Borgarmenn hafi komið í heimsókn að Kleifum. Deilt hafi verið um nýtingu og eignarhald á Eyjunum. Borgarfólk hafi sjaldan komið yfir á Eyjarnar og ekkert nýtt sér svæðið. Áin þar sem Rjúkandi og Hundsá kæmu saman fram að Ögurbúðardalsá héti Kleifá. Miðað hafi verið við Hundsá og á milli Hundsár og Rjúkanda hafi verið svæði sem gengið hafi undir nafninu almenningur
Gísli H. Hermannsson kvaðst hafa verið þátttakandi í fyrirhuguðu skátamóti sem fram hafi átt að fara í Eyjunum árið 1980 eða 1981. Tveir menn hafi komið á jeppa og rekið alla í burtu, þ. á m. stefnanda og Þórð bróður hans. Kvaðst Gísli hafa talið að búið hafi verið að fá leyfi frá Borgarfólki að vera á svæðinu. Þátttakendur í mótinu hafi hins vegar pakkað saman og farið.
Halldór Hafliðason kvaðst hafa búið á þessu svæði frá fæðingu. Kvaðst hann ekki hafa þekkt það vel hvort landeigendur Borgar hafi nýtt Eyjarnar með einhverjum hætti. Vegalaust hafi verið og engin dagleg samskipti. Kleifar hafi hins vegar verið í eyði þegar hann fyrst myndi eftir sér. Kvaðst Halldór kannast við hlið að Eyjunum og hafi hann, ásamt Kristjáni Kristjánssyni, haft lyklavöld að hliðinu. Kvaðst Halldór ekki vita hverjir hefðu farið með umráð yfir Eyjunum. Stefndi Gunnar Örn hafi einnig haft lykil af hliðinu enda hafi þetta verið hans hlið. Kvaðst Halldór telja að svæðið á milli Ögurbúðardalsár og Hundsár væri almennt kallaður vestari almenningur. Kvaðst Halldór hafa heyrt að áin héti Borgarós eftir að Hundsá og Rjúkandi kæmu saman. Kvaðst hann þó ekki vissi hvað heimamenn kölluðu hana.
Hjalti Guðröðarson kvaðst vera fæddur í Kálfavík og hafa búið þar til 19 ára aldurs. Kvað hann Guðmund Magnússon á Borg hafa farið með umráð yfir Eyjunum frá því hann myndi eftir sér, eða í kringum árið 1950. Landeigendur á Borg hafi slegið landið á Eyjunum og líklega nýttu svæðið til beitar og berjatínslu. Hafi hann oft orðið vitni að því er Guðmundur hafi heyjað á Eyjunum. Þekkti hann ekki til þess hvort landeigendur að Borg hafi veitt silung í ánum. Þá hafi hann ekki orðið var við að landeigendur Kleifa hafi nýtt svæðið. Gunnar Guðröðarson væri hálfbróður Hjalta og hafi Gunnar á tilteknum tíma átt jörðina Kleifa með öðrum manni. Hafi Gunnar aldrei nýtt Eyjarnar. Kvaðst Hjalti telja að svæðið milli Hundsár og Ögurbúðardalsá hafa verið kallað almenningar. Austari helmingurinn stundum verið kallaður Kambur. Kvaðst Hjalti kannast við lagningu vegslóða um Eyjarnar. Kvaðst hann kannast við hliðið á slóðanum og að bóndinn í Ögri og á Hvítanesi hafi verið með lyklavöld að því. Stefndi Gunnar Örn Hauksson hafi sennilega verið með lykil að hliðinu. Hjalti kvaðst alltaf hafa talið Kleifaá ráða landamerkjum Borgar og Kleifa. Svæðið milli Hundsár og Ögurbúðardalsár hafi verið upprekstrarland frá Kálfavík og verið nýtt til berjatínslu. Kvað Hjalti ekki telja að eigendur Kleifa ættu land að Hundsá, heldur hafi alltaf verið talað um að hreppurinn ætti svæðið. Hreppsbúar hafi haft aðgang að því svæði til berjatínslu.
Kristján Kristjánsson, gæslumaður vatnamælinga hjá Orkustofnun, kvaðst hafa heyrt um ágreining um landamerki jarðanna Borgar og Kleifa. Á meðan jarðirnar hafi verið í byggð hafi hann vitað af því að einhverjar deilur hafi verið á milli jarðeigendanna. Hann hafi ekki komið á svæðið fyrr en eftir 1972 eftir að vegur hafi verið lagður. Kvaðst Kristján ekkert þekkja til hvernig nýtingu Eyjanna hafi verið háttað fyrir þann tíma. Hafi hann síðar verið beðinn um að vera gæslumaður vatnamælinga og fengið lykil að hliði að vegslóða fram í Eyjarnar. Hafi hann þá fyrst farið að fara inn í landið. Kvaðst Kristján ekki muna hvort hann hafi tilkynnt stefnda Gunnari Erni um skemmdir sem orðið hafi á hliðinu. Borgará og Kleifará hafi stundum flætt yfir bakka sína. Kvaðst Kristján telja að svæðið milli Hundsár og Ögurbúðardalsár hafi verið kallað almenningur og hafi hann séð það m.a. á landakorti frá 1906 eða 1907. Einnig hafi hann heyrt svæðið kallað almenning af munnmælum. Kristján kvaðst telja ána heita Kleifá eftir að Hundsá og Rjúkandi kæmu saman.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, kvaðst hafa haft umsjón með rannsókn og eftirliti á arnarstofnum í allmörg ár. Væri arnarhreiður í næstneðsta klettabeltinu upp að Hvíthól um 400 metra frá Borgará og því innan 500 metra radíusar frá Eyjunum. Einnig væri arnarvarp í svokölluðum Kötlum, aðeins fjær svæðinu en samt innan 500 metra radíusar. Eitt þekkt varpsvæði væri vestan við ána sem orpið hafi verið í um það bil þrisvar sinnum síðustu 10 árin. Fyrstu heimildir um varpið væru í kringum 1940 og ávallt síðan hafi verið ágæt samskipti við heimafólk á Borg um verndun varpsins. Lengst af við Guðmund Magnússon sem hafi búið frá 1929 til 1969. Kvaðst Kristinn hafa haft samskipti við Borgarfólkið eftir að hann hafi tekið við eftirlitinu á árinu 1985. Hafi hann komið á svæðið um 30 sinnum. Hafi hann þó líka talað við fólk frá Kleifum. Vernd arnarvarpsins hafi verið nánast óslitið frá 1940. Kvaðst Kristinn þekkja til þess að Vegagerðin hafi ætlað að nýta Eyjarnar fyrir malarnám. Hafi hann gert athugasemdir við þessar skipulagsbreytingar þar sem hann hafi talið að það gæti skaðað framtíð arnarvarpsins ef þarna kæmi umfangsmikið malanám. Fallið hafi verið frá því að breyta skipulaginu og hætt við fyrirhugaða malarvinnslu. Hafi Kristinn verið í mjög nánum samskiptum við stefnda Gunnar Örn um verndun arnarvarpsins undanfarin 10 ár.
Niðurstaða:
Samkvæmt 2. gr. laga um landamerki o.fl. nr. 41/1919 skal eigandi lands gera glöggva skrá um landamerki, eins og hann veit þau réttust. Merkjalýsingu þá skuli hann sýna hverjum þeim sem land á til móts við hann. Rita skulu þeir samþykki sitt á merkjaskrá, nema þeir telji hana ranga, enda skuli þess þá getið. Að þessu loknu skuli merkjaskrá afhent hreppstjóra ásamt þinglýsingar og stimpilgjaldi. Skal hreppstjóri athuga hvort allir aðilar hafi ritað samþykki sitt á hana. Skal hreppstjóri þegar í stað senda sýslumanni skrána til þinglýsingar. Í 2. mgr. 2. gr. er tekið fram að hafi merkjaskrá verið löglega gerð og þinglesin fyrir framkvæmd laganna þurfi þá ekki að gera hana að nýju, enda séu merki þau glögg og ágreiningslaus er þá hafi verið sett. Lög nr. 41/1919 leystu af hólmi eldri lög um sama efni frá árinu 1882.
Í þrætu þeirri sem hér er til meðferðar verður fyrst fyrir að leysa úr að hvaða marki landamerkjabréf skera úr um mörk jarðanna Kleifa og Borgar í Skötufirði. Fyrir liggur og er óumdeilt að ekkert landamerkjabréf hefur verið gert fyrir jörðina Kleifa. Samkvæmt dskj. nr. 13 hefur landamerkjabréf hins vegar verið gert fyrir jörðina Borg 6. nóvember 1883, eða fljótlega eftir gildistöku eldri laga um landamerki. Samkvæmt merkjaskránni á jörðin land að austan og norðan í Hvalskurðará frá fjöru til fjalls. Að sunnan ráða merkjum Fjarðará að neðan en Stóri Kambur að ofan og að vestan Fjarðará og austur í Borgará um miðjar Eyjar. Undir skrána rita Daði Eggertsson og Ari Rósinkarsson. Á skrána ritar einnig Páll Pálsson, eigandi að hálflendu Kleifa. Loks er ritað á skrána fyrir hönd eigenda jarðarinnar Kálfavíkur, aðliggjandi jarðar til norðurs. Þá liggur fyrir á dskj. nr. 16 skjal sem ber heitið landamerkjalýsing jarðarinnar Borgar í Skötufirði. Er skjali þessu þinglýst að Ögri 21. júní 1902. Þó svo ekki sé tekið fram í dskj. nr. 16 að skjalið sé landamerkjabréf, ber efni þess og umgjörð með sér að skjalið hefur verið samið á grundvelli laga um landamerki. Lítur dómurinn svo á að hér sé um eiginlegt landamerkjabréf að ræða. Samkvæmt umræddu skjali eru landamerki jarðarinnar þannig að utanverðu milli Kálfavíkur og Borgar ráði Hvalskurðará merkjum frá fjöru til fjalls. Að framanverðu milli Borgar og Kleifa ráði Borgará merkjum að neðan og fram að Hringlind og sem hún vísi til vesturs yfir eyjarnar sem kallaðar milli ánna (Borgará og Kleifá) og svo ræður Kleifá merkjum fram að Rjúkanda en eftir það ráði Rjúkandi merkjum til fjalls milli Borgar og almennings. Stykki það í Eyjunum frá merkjalæknum Hringlind og ofan í Mjódd þeirri á Eyjunum undan Sortaeyri Borgar megin og sjónhending þar sem mjóst er í Kleifá sé sérstök eign Bjarna Sigurðssonar á Borg, en fylgi hvorugum jörðunum. Að þetta sé rétt eign Bjarna Sigurðssonar sýni kaupbréf dagsett á Borg 3. september 1898 og afsalsbréf dagsett 7. október 1898 undirritað af seljanda Ásgerði Einarsdóttur, ásamt kaupanda Bjarna Sigurðssyni. Undir landamerkjalýsingu þessa rita Bjarni Sigurðsson og Ari Rósinkarsson sem eigendur að Borg. Á landamerkjalýsinguna rita Páll Pálsson sem eigandi að hálflendu Kleifa og Ásgerður Einarsdóttir eigandi að hálflendu Kleifa. Skjal það sem landamerkjalýsingin vísar til og varðar svonefnt Stykki í eigu Bjarna Sigurðssonar liggur fyrir í gögnum málsins á dskj. nr. 15.
Málflutningur aðila hefur að stórum hlut beinst að því að skýra framangreindar eignaheimildir og tefla fram sönnunargögnum um nöfn og staðhætti á þessu svæði. Við lestur og samanburð þessara tveggja skjala verða landamerki Borgar við nærliggjandi jörð Kálfavík skýr. Er um þau mörk fjallað með sama hætti í báðum þessum skrám. Um landamerki jarðarinnar gagnvart jörðinni Kleifum er eldri skráin afar knöpp. Á þrætusvæðinu er merkjum eingöngu lýst þannig að þau séu um Fjarðará austur í Borgará um miðjar Eyjar. Í þessari lýsingu er tiltekinna Eyja getið. Í yngri merkjaskránni er merkjum þessum mun nánar lýst. Kemur þar fram að framanverðu milli Borgar og Kleifa ráði Borgará merkjum að neðan og fram að Hringlind og sem hún vísi til vesturs yfir Eyjar sem kallaðar milli Borgará og Kleifá og svo ráði Kleifá merkjum að Rjúkandaá. Er í þessari lýsingu verið að lýsa merkjum frá norðri til suðurs, þar sem endað er inn við Rjúkanda.
Jörðinni Kleifum var skipt í tvær lendur með landskiptagerð 1. júlí 1867. Voru þá eigendur jarðarinnar Páll Pálsson og Jón Níelsson. Samkvæmt þessari skiptagerð, sem frammi liggur í afriti á dskj. nr. 6 og í eftirriti á dskj. nr. 194, kom m.a. í hlut Jóns Níelssonar svæði þar sem Eyjunum var skipt öllum sem Kleifar eiga frá Sortutjörn og austur yfir Mjódd þá sem á þeim sé í Sortueyri og í þennan helming fremri hlutum til fjalls. Í hlut Páls kom úr Eyjunum frá hins vegar greindum merkjum, ytri parturinn. Að mati stefnanda sýnir þessi landskiptagerð fram á að Eyjarnar hafi allar tilheyrt jörðinni Kleifum. Að mati dómsins er landskiptagerð þessi með engu móti skýr um hvernig Eyjunum var skipt og veitir ekki vissu fyrir því að Eyjarnar hafi allar tilheyrt Kleifum. Nægir í því efni að vísa til þess þar sem segir um hálflendu Jóns Níelssonar að Eyjunum sé skipt öllum ,,sem Kleyfar eiga”. Veitir sú setning fremur vísbendingu um að eigendur Kleifa hafi ekki átt allar Eyjarnar.
Í síðari landamerkjalýsingunni fyrir Borg er berlega tekið fram að undanskilið sé og fylgi hvorugri jörðinni svonefnt Stykki í Eyjunum. Sé það svæði eign Bjarna Sigurðssonar samkvæmt kaupbréfi og afsali frá 7. október 1898. Svo sem áður greinir liggur afsalsbréf þetta fyrir í málinu. Svæði þetta er vel afmarkað í landamerkjalýsingunni því þar er stuðst við tiltekin kennileiti. Afmarkast það af Hringlind í suðri og Mjódd í norðri. Að mati dómsins geta eldri og yngri merkjalýsingarnar vel samrýmst, en tiltekins svæðis sem nefnt er Eyjar er augljóslega getið í þeim báðum. Kennileitið Hringlind kemur fram í þeirri yngri, en um staðsetningu þess ríkir ekki ágreiningur. Þá ríkir ekki heldur ágreiningur um að svæði þar sem Borgará og Kleifá nálgast hvor aðra norðan við Hringlind heiti Mjódd. Er þess kennileitis getið í yngri merkjaskránni. Þá er til þess að líta að í síðara landamerkjabréfinu þar sem Stykkið er afmarkað er Hringlind sögð vera merkjalækur. Vísar það til þess að þar hafi merki legið. Þó svo ekki sé fullvíst hvort sú tilvísun eigi við um landamerki eða hvort það kunni eingöngu að vera í tengslum við afmörkun á Stykkinu sjálfur hafa á þessu svæði í það minnsta verið landfræðilegar aðstæður sem fært hefur þótt að draga skýr merki eftir. Nærtækasta ályktunin af lestri þessara tveggja merkjaskráa er því sú að landamerki jarðanna hafi legið frá Kleifárósi að ármótum Kleifár og Borgarár, þaðan um Borgará fram hjá Mjóddinni og að merkjalæknum Hringlind. Þaðan hafi lína verið dregin yfir í Kleifá og landamerki síðan fylgt Kleifá til suðurs og inn að Rjúkanda. Samkvæmt þessu fellur hið svonefnda Stykki innan landamerkja Kleifa, en tilheyrir þó ekki jörðinni. Samrýmist það því er Ásgerður Einarsdóttir, ekkja Daða Eggertssonar á Kleifum, seldi Bjarna Sigurðssyni á Borg umrætt svæði út úr jörðinni Kleifum. Samkvæmt þessu yrði landamerkjalína jarðanna í samræmi við það sem fram kemur í fyrstu varakröfu stefnanda.
Að því er varðar afdrif hins svonefnda Stykkis eru gögn málsins engan vegin skýr. Stefnandi reisir varakröfu sína á því að Stykkið hafi runnið aftur inn í jörðina Kleifa. Er vísað til þess að við skipti á dánarbúi Ásgerðar Einarsdóttur og Daða Eggertssonar erfi Einar Daðason allan jarðarhluta Kleifajarðarinnar sem upphaflega hafi stafað frá Jóni Níelssyni, en samkvæmt skiptagjörð dánarbúsins fái hann jörðina Kleifa, þrjú hundruð að dýrðleika. Þegar Bjarni Sigurðsson hafi afsalað jarðeignum sínum í Skötufirði til Páls Snorrasonar 14. apríl 1905 hafi hann ekki verið að afsala umræddu Stykki. Hafi Bjarni því ekki átt það lengur á þeim tíma. Þá sé vísað til þess að Bjarni og kona hans Sigurlína H. Daðadóttir hafi ekki átt neinar eignir er þau hafi látist. Þessum málatilbúnaði hafa stefndu mótmælt. Vísa þau til þess að einhliða skiptagerningur eigenda Kleifa geti ekki bundið eigendur Borgar. Þá er vísað til þess að skiptagerðin frá 1867 stangist á við öll önnur gögn málsins. Einnig sé staðhæfing stefnanda um að Daði Eggertsson og Ásgerður Einarsdóttir hafi átt Stykkið við búskipti á dánarbúinu 1903 í ósamræmi við landamerkjalýsinguna frá 1902. Ályktun um að Stykkið hljóti að hafa skipt um eigendur á árabilinu 1902 til 1903 sé mjög hæpin en Sigurlína hafi á árinu 1965 talið að Kleifá réði landamerkjum jarðanna en það komi fram á dskj. nr. 69. Þá sé rökstuðningi um jarðarmat á Kleifum mótmælt. Að mati dómsins ríkir töluverð óvissa um afdrif þess svæðis sem kallað er Stykkið. Hefur stefnanda ekki tekist að sýna fram á með ótvíræðum hætti að jarðaparturinn hafi gengið aftur inn í jörðina Kleifa. Með sama hætti hefur stefndu ekki ótvírætt tekist að sýna fram á að þessi jarðapartur hafi gengið inn í jörðina Borg, en samkvæmt landamerkjabréfi fyrir jörðina Borg átti þessi jarðapartur ekki að ganga inn í jörðina.
Máli skiptir fyrir aðila þessa máls að dómi verði lokið á þrætu um eignarhald á Eyjunum. Svo sem áður er rakið þykja landamerkjabréf Borgar veita haldgóða vísbendingu um hver hafi verið landamerki jarðarinnar gagnvart Kleifum. Þá stendur hins vegar eftir að landsvæði kennt við Stykkið var skilið undan báðum jörðunum með afsalsbréfi 7. október 1898 og ríkir veruleg óvissa um afdrif þessa jarðarhluta eftir það. Aðilar hafa lagt fram á þriðja hundrað dómskjala sem varða ágreiningsefnið. Þá hefur málflutningur m.a. beinst að því að sýna fram á eignarhald að umræddu Stykki. Í ljósi eignaheimilda kæmi vart annar en annar hvor málsaðila til greina sem eigandi að Stykkinu. Þó svo þýðingu hafi sú málsástæða stefnanda að sá jarðarpartur sem upphaflega hafi stafað frá Jóni Níelssyni hafi verið 300 að dýrðleika við skipti á dánarbúi Ásgerðar Einarsdóttur og Daða Eggertssonar og sýni þar með að Stykkið hafi runnið aftur inn í jörðin Kleifa, þá verður engu að síður að niðurstöðu að telja sannað að Stykkið hafi orðið hluti af jörðinni Borg. Fyrir því liggja fyrst og fremst þær ástæður að hvergi kemur fram að Bjarni Sigurðsson á Borg hafi afsalað sér þessu svæði, sem hann réttilega átti, en stefndu leiða rétt sinn frá honum. Svæði þetta er landfræðilega aðliggjandi því svæði sem eigendur á Borg áttu fyrir og nær frá Hringlind og inn dalinn til suðurs. Þá liggur það fyrir að landamerkjabréf var aldrei gert fyrir jörðina Kleifa, svo sem eigendum jarðarinnar bar að gera samkvæmt þágildandi lögum um landamerki. Stefnandi leiðir rétt sinn frá fyrrverandi eigendum Kleifa. Er önnur varakrafa stefnanda í samræmi við þessa niðurstöðu.
Stefndu hafa lýst yfir að þau geri ekki tilkall til landsvæðis vestan Kleifár sem liggur frá ármótum Hundsár og Rjúkanda niður að ármótum við Ögurbúðardalsá. Telji þau svæði þetta vera þjóðlendu. Í því ljósi er óhætt að slá föstu að landamerki milli jarðanna Borgar og Kleifa liggi frá ármótum Rjúkanda og Hundsár til norðurs. Fari svo að svæðið þar fyrir vestan og kallað hefur verið af sumum almenningur sé þjóðlenda, breytir það ekki landamerkjum milli jarðanna Borgar og Kleifa. Er því óhætt að draga landamerkjalínuna að ármótum Hundsár og Rjúkanda til suðurs.
Stefndu reisa varnir sínar einkum á hefð, en samkvæmt 2. gr. hefðarlaga nr. 46/1905 er skilyrði hefðar 20 ára óslitið eignarhald á fasteign. Byggja þau á því að stefndu hafi allt frá árinu 1932, er Guðmundur Magnússon hóf búskap á jörðinni Borg sem þá var í eyði, nýtt þrætusvæðið með öllum þeim hætti að skilyrðum laga fyrir hefð sé fullnægt. Öll samskipti varðandi svæðið við yfirvöld, opinberar stofnanir og aðra hafi eingöngu beinst að stefndu. Þá hafi stefnandi ekki gert tilkall til þessa jarðarhluta fyrr en á árinu 2004. Stefnandi hefur mótmælt því að skilyrðum hefðarlaga sé fullnægt. Hefur hann vísað til þess að frá fornu fari hafi verið ágreiningur með eigendum jarðanna Borgar og Kleifa um eignarhald á hinum svonefndu Eyjum. Hafi vitni stutt það, auk þess sem lögð hafi verið fram gögn því til stuðnings og er þar m.a. vísað til yfirlýsingar er Sigurjón Samúelsson bóndi á Hrafnabjörgum í Súðavíkurhreppi hefur ritað undir 27. maí 2006 þar sem hann staðfestir að honum hafi verið kunnugt um að uppi hafi verið deila um landamerki á milli jarðanna Kleifa og Borgar í botni Skötufjarðar frá því Bjarni Helgason hafi flutt að Kleifum árið 1951. Deilt hafi verið um svæði kallað Eyjar. Á árabilinu 1951 til 1960 hafi þrír hreppsnefndarmenn farið í vettvangskönnun inn í Skötufjarðarbotn að beiðni Helga Bjarnasonar bónda á Kleifum. Ekki hafi fundist lausn á deilunni. Sigurjón staðfesti yfirlýsingu þessa fyrir dóminum. Þá hafi Ingibjörg Björnsdóttir, kona Bjarna Helgasonar, staðfest fyrir dómi að á búskaparárum hennar að Kleifum hafi verið ágreiningur um eignarhald á Eyjunum, en hún hafi alla tíð nýtt svæðið til berjatínslu. Önnur vitni hafi komið fyrir dóminn og staðfest ágreining þennan.
Skilyrðum hefðarlaga um huglæga afstöðu þess sem hefðar land á grundvelli laganna þarf að vera fullnægt með þeim hætti að sá sem hefðar land má ekki búa yfir þeirri vitneskju að annar aðili geri sambærilegt tilkall til sama svæðis. Gögn málsins veita óræka vísbendingu um að frá fornu fari hafi verið óljóst með eignarhald á Eyjunum. Þá þykja vera fram komin gögn í dóminum sem sýna fram á að fljótlega eftir að Bjarni Helgason flutti að Kleifum hafi verið uppi ágreiningur milli hans og Magnúsar Guðmundssonar um eignarhald og nýtingu þessa svæðis. Gátu stefndu því ekki gengið út frá því að stefnandi gerði ekkert tilkall til þrætusvæðisins. Þá verður litið til þess að hefðbundinn búskapur lagðist fyrir löngu af á þessum bæjum og svæði þetta í seinni tíð einkum notað til frístunda. Verður ekki fallist á að skilyrðum hefðarlaga sé fullnægt til að stefndu hafi hefðað þrætusvæðið.
Miðað við þessa niðurstöðu reynir ekki á varakröfu stefndu um sýknu að hluta og afmörkun landamerkja jarðanna tveggja miðað við tiltekin hnit, sem óhjákvæmilegt hefði verið að vísa frá dómi að öðrum kosti þar sem stefndu hafa ekki höfðað gagnsök fyrir héraðsdómi til þess að koma þessum kröfum sínum að, svo sem nauðsyn bar til samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991. Um nauðsyn gagnsakar í slíkum tilvikum má m.a. vísa til dóms Hæstaréttar Íslands frá 15. nóvember 2001 í máli nr. 170/2001.
Í ljósi niðurstöðu málsins þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Af hálfu stefnanda flutti málið Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefndu Geir Gestsson héraðsdómslögmaður.
Dóminn kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
Dómsorð:
Landamerki jarðanna Kleifa og Borgar í Skötufirði skulu vera þessi: Að austanverðu ræður Kleifárós merkjum frá sjó og fram að Borgará, en þaðan ræður Borgará merkjum alla leið fram að Mjódd í hniti (X: 720957,019 og Y: 606783,993). Þaðan liggja merkin um Mjóddina yfir í punkt í Kleifá með hnitið (X: 720994,350 og Y: 606780,552). Frá síðastnefndum punkti ræður Kleifá merkjum fram að Hundsá.
Málskostnaður fellur niður.