Hæstiréttur íslands
Mál nr. 307/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Skaðabætur
- Stefna
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Þriðjudaginn 15. júní 2010. |
|
Nr. 307/2010. |
Kristjana Sigríður Árnadóttir (Stefán Geir Þórisson hrl.) gegn Arnheiði I. Svavarsdóttur og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (enginn) |
Kærumál. Skaðabætur. Stefna. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.
K krafðist skaðabóta úr hendi A og S hf. vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir árið 1998. Í dómi héraðsdóms kom fram að K hefði ekki gert í stefnu þá grein fyrir kröfu og sönnunargögnum um hana sem áskilið væri í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Þá hefði K þingfest málið 26. júní 2008 á grundvelli stefnunnar án þess að fullnægt væri ákvæði 1. mgr. 95. gr. laganna. Hefði K leitast við að bæta úr þessu með endurskoðun dómkvaddra matsmanna á matsgerð, sem hún lagði ekki fram fyrr en 1. október 2009. Lög nr. 91/1991 gerðu ekki ráð fyrir að stefnandi fengi fresti eftir þingfestingu máls í því skyni að bæta úr annmörkum á málatilbúnaði í stefnu og skipti í því efni ekki máli þó að hinn stefndi andmælti ekki slíkum frestum. Var málinu því vísað frá héraðsdómi af sjálfsdáðum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. maí 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2010, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, sem taka mið af dómi Hæstaréttar 18. mars 2010 í máli nr. 413/2009, verður niðurstaða úrskurðarins staðfest, enda á sóknaraðili þess kost að höfða mál á nýjan leik í lögmætum búningi um kröfu sína, sem á rætur að rekja til slyss 12. júní 1998, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem hér eiga við samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. og 1. mgr. 22. gr. þeirra laga.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2010.
Mál þetta sem tekið var til úrskurðar 28. apríl 2010 er höfðað með stefnu birtri 29. maí 2008.
Stefnandi er Kristjana Sigríðar Árnadóttir, Lyngheiði 21, Hveragerði.
Stefndu eru Arnheiður Svavarsdóttir, Básahrauni 24, Þorlákshöfn og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.
Í stefnu er sú krafa gerð að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 14.675.686 krónur með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, frá slysdegi, hinn 12. júní 1998 til þingfestingardags, hinn 26. júní 2008. Þá er krafist dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi og fram til greiðsludags.
Krafist er málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda ásamt virðisaukaskatti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Í þinghaldi 11. febrúar sl. var lögð fram ný kröfugerð stefnanda þannig að gerð er sú varakrafa að stefndu verði dæmd in solidum til að greiða stefnanda 1.866.647 krónur, með 4,5% vöxtum skv. 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, með síðari breytingum, frá 29. maí 2004 til 28. apríl 2009, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu ásamt virðisaukaskatti.
Stefndu krefjast þess aðallega að verða sýknuð af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Stefndu krefjast þess til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður verði felldur niður.
Dómari ákvað að gefa talsmönnum aðila færi á því að tjá sig um það hvort efni væru til þess að vísa máli þessu frá dómi án kröfu í ljósi nýgengins dóms Hæstaréttar Íslands frá 18. mars sl. í máli nr. 413/2009.
Af hálfu stefndu kom fram það sjónarmið að aðilar hefðu sameiginlega hagsmuni af því að fá efnisúrlausn í máli þessu.
Af hálfu stefnanda er þess krafist að málinu verði ekki vísað frá dómi og gerð er krafa um að stefnanda verði dæmdur gjafsóknarkostnaður komi til frávísunar.
Krafa stefnanda á rætur sínar að rekja til slyss sem hún varð fyrir hinn 12. júní 1998.
Afleiðingar slyssins voru taldar vera verkir í hálsi og baki ásamt verulegu þunglyndi.
Vegna ofangreinds slyss auk fleiri slysa, var þess farið á leit við læknana Jónas Hallgrímsson og Guðmund Björnsson að þeir legðu mat á afleiðingar þess á heilsu stefnanda með tilliti til skaðabótalaga nr. 50/1993. Er matsgerðin dags. 28. maí 2003. Niðurstaða matslæknanna var m.a. sú að stefnandi hafi í slysinu hlotið 15 stiga varanlegan miska og 15% varanlega örorku.
Stefndi höfðaði mál þetta með stefnu 29. maí 2008 og var málið þingfest 26. júní sama ár. Í stefnu var gerð krafa um 14.675.686 krónur, auk vaxta og dráttarvaxta. Í stefnunni var sú grein gerð fyrir kröfufjárhæð að dómkrafa stefnanda taki mið af því að varanleg örorka hennar sé í raun réttri 60% en ekki 15% eins og fram komi í niðurstöðu matsgerðar, dags. 28. mars 2003. Einnig taki kröfugerðin mið af því að varanlegur miski sé í raun réttri 60 stig en ekki 15 stig eins og fram komi í fyrrnefndri matsgerð. Stefnanda kvað sér bera nauðsyn til að höfða mál þetta áður en matsgerð lækna lægi fyrir, enda yrði 10 ára fyrningarfrestur 99. gr. umfl. liðinn hinn 12. júní 2008.
Dómkrafa stefnanda er sundurliðuð þannig í stefnu:
|
1.1. Bætur skv. 4. gr. skbl............................................... 60 stig af kr. 6.988.422,- |
kr. 4.193.053,- |
|
1.2. Bætur skv. 5. - 7. gr. skbl.......................................... 4.193.053 x 250% |
kr. 10.482.633,- |
|
SAMTALS... |
kr. 14.675.686,- |
Stefnandi áskildi sér rétt til að leggja fram beiðni um frekari möt, þ.á.m. álitsgerð örorkunefndar eða dómkvaðningu matsmanna um afleiðingar slyssins, þar sem mat verði lagt afleiðingar slyssins og því áskilji stefnandi sér rétt til að hækka kröfugerð sína að slíkri matsgerð fenginni.
Við þingfestingu málsins hinn 26. júní 2008 var málinu frestað til greinargerðar til 11. september 2008. Síðan var málið tekið fyrir níu sinnum og á dómþingi 1. október 2009 lagði stefnandi fram endurmat og stefndu lögðu fram greinargerð sína og lýstu lögmenn aðila því við flutning 28. apríl sl. að frestir hefðu verið veittir jöfnum höndum til greinargerðar og framlagningar endurmats sem stefnandi hafði óskað frá læknum þeim sem dómkvaddir höfðu verið til þess að framkvæma mat sem er að finna í matsgerð þeirra frá 28. mars 2002. Í þinghaldi 11. febrúar sl. lagði stefnandi fram nýja kröfugerð þar sem fram kom að stefnandi gerði kröfu um greiðslu á 4.830.655 krónum auk vaxta og dráttarvaxta en að frádreginni sömu innborgun og getið hafði verið í stefnu. Þá kom fram í skjalinu sundurliðun kröfu stefnda í miskabætur og bætur fyrir varanlega örorku og nokkrar skýringar á útreikningi þessara kröfuliða.
Stefnandi þykir ekki hafa gert þá grein fyrir kröfu sinni og sönnunargögnum um hana í stefnu sem áskilið er í 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann þingfesti málið á grundvelli stefnunnar án þess að fullnægt væri ákvæði 1. mgr. 95. gr. laganna um framlagningu gagna sem varða málatilbúnað stefnanda við þingfestingu. Leitaðist hann við að bæta úr þessu með endurskoðun dómkvaddra matsmanna á matsgerð, sem hann lagði ekki fram fyrr en 1. október 2009. Lög nr. 91/1991 gera ekki ráð fyrir að stefnandi fái fresti eftir þingfestingu máls í því skyni að bæta úr annmörkum á málatilbúnaði í stefnu og skiptir í því efni ekki máli þó að stefndu hafi ekki andmæl slíkum frestum.
Þykja slíkir annmarkar á málatilbúnaði stefnanda að ekki verður hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi af sjálfsdáðum.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefnandi úrskurðaður til að greiða stefnda 100.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 526.900 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þ.e. þóknun lögmanns hans 373.500 krónur þ.m.t. virðisaukaskattur og 153.400 krónur vegna útlagðs kostnaðar.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Kristjana Sigríður Árnadóttir, greiði stefndu Arnheiði I. Svavarsdóttur og Sjóvá-Almennum tryggingum 100.000 krónur í málskostnað.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 526.900 krónur, greiðist úr ríkissjóði.