Hæstiréttur íslands

Mál nr. 556/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarsala
  • Aðild
  • Lögvarðir hagsmunir


                                       

Mánudaginn 22. september 2014.

Nr. 556/2014.

Kristinn Brynjólfsson

(sjálfur)

gegn

VBS eignasafni hf.

(Hróbjartur Jónatansson hrl.)

Reykjavíkurborg og

(enginn)

Verði tryggingum hf.

(enginn)

Kærumál. Nauðungarsala. Aðild. Lögvarðir hagsmunir.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu K um ógildingu á nauðungarsölu tilgreinds eignarhluta í tiltekinni fasteign til fullnustu skuldar samkvæmt 14 veðskuldabréfum útgefnum af Á ehf. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom m.a. fram að K hafði fengið þau réttindi sem dómkrafan laut að framseld frá þriðja aðila. Rakti Hæstiréttur að samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu gæti hver sá sem hefði lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlausnar um gildi nauðungarsölu. K hefði hvorki verið þinglýstur eigandi eignarhlutans þegar nauðungarsalan hefði farið fram né hefði hann sýnt fram á að hann hefði á annan hátt hagsmuni af því að hún yrði felld úr gildi, en réttur til að láta reyna á slíkt í dómsmáli væru ekki réttindi sem framseld yrðu öðrum. Var niðurstaða héraðsdóms því staðfest.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Benedikt Bogason og Eiríkur Tómasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júlí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um ógildingu á nauðungarsölu sem fram fór 11. júní 2013 á eignarhluta í fasteigninni Rafstöðvarvegi 1a, með fastanúmer 229-8067. Kæruheimild er í 1. mgr. 85. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreind nauðungarsala verði ógilt. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. 

Varnaraðilinn VBS eignasafn hf. krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilarnir Reykjavíkurborg og Vörður tryggingar hf. hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilinn VBS eignasafn hf. hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti og getur hann því hvorki haft uppi kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi né leitað endurskoðunar á niðurstöðu hins kærða úrskurðar um málskostnað.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Svo sem þar er nánar rakið lýtur mál þetta að nauðungarsölu til fullnustu skuldar samkvæmt 14 veðskuldabréfum, útgefnum af Hönnunar- og listamiðstöðinni Ártúnshöfða ehf., samtals að fjárhæð 42.000.000 krónur, sem tryggð voru með veði í fasteigninni Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík. Með beiðni 16. október 2012 krafðist varnaraðilinn VBS eignasafn hf. nauðungarsölu á tveimur eignarhlutum úr eigninni og fór hún fram 11. júní 2013. Tekur mál þetta til annars af þeim eignarhlutum með fastanúmer 229-8067 en samhliða er rekið annað mál um gildi nauðungarsölunnar á hinum hlutnum með fastanúmer 229-8153.

Þegar nauðungarsalan fór fram var þinglýstur eigandi eignarhlutans sem mál þetta lýtur að Miðstöðin ehf. samkvæmt afsali 9. febrúar 2012. Upphaflega krafðist það félag ógildingar á nauðungarsölunni en með yfirlýsingu 7. febrúar 2014 framseldi félagið „réttindi sem dómkröfur félagsins varða“ í málinu til Desforms ehf. Með yfirlýsingu 14. sama mánaðar framseldi það félag síðan til sóknaraðila „þau réttindi sem dómkrafa þess lýtur að“ í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 getur hver sá sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta leitað úrlausnar um gildi nauðungarsölu. Sóknaraðili var ekki þinglýstur eigandi áðurgreinds eignarhluta þegar nauðungarsalan fór fram. Hann hefur heldur ekki sýnt fram á að hann hafi á annan hátt lögvarða hagsmuni af því að nauðungarsalan verði felld úr gildi, en réttur til að láta reyna á það í dómsmáli eftir XIV. kafla laganna eru ekki réttindi sem framseld verða öðrum samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991. Af þessum sökum verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest eins og greinir í dómsorði.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað eru staðfest.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilanum VBS eignasafni hf. kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Kristins Brynjólfssonar, um að ógilt verði nauðungarsala sem fram fór 11. júní 2013 á eignarhluta í fasteigninni Rafstöðvarvegi 1a, með fastanúmer 229-8067.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað eru staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðilanum VBS eignasafni hf. 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. júlí 2014.

Mál þetta var þingfest 12. ágúst 2013 og tekið til úrskurðar 16. júní sl. Upphaflegur sóknaraðili málsins var Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, kt. [...], Lágabergi 1, Reykjavík. Var krafa hans um úrlausn héraðsdóms um gildi nauðungarsölu, sem fram fór 11. júní 2013, móttekin í héraðsdómi 8. júlí sama ár. Með yfirlýsingu, framlagðri 17. febrúar sl., framseldi Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, ,,þau réttindi sem dómkröfur félagsins varða í máli nr. Z-4/2013“ til Desform ehf., kt. [...], Lágabergi 1, Reykjavík. Með annarri yfirlýsingu, framlagðri sama dag, framseldi Desform ehf. ,,þau réttindi sem dómkrafa Miðstöðvarinnar ehf. varðar“ í máli þessu til Kristins L. Brynjólfssonar, kt. [...], Lágabergi 1, Reykjavík. Varnaraðilar eru VBS eignasafn hf., kt. [...], Suðurlandsbraut 6, Reykjavík, Reykjavíkurborg, ráðhúsinu í Reykjavík og Vörður tryggingar hf., kt. [...], Borgartúni 25, Reykjavík.

Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær að nauðungarsala fasteignarinnar Rafstöðvarvegar 1a, fastanúmer 229-8067, sem fram fór 11. júní 2013 að kröfu varnaraðila, VBS eignasafns hf., verði ógilt. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðilinn VBS eignasafn hf., krefst þess aðallega að kröfum sóknaraðila á hendur honum verði vísað frá dómi. Til vara krefst varnaraðili þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði gildi nauðungarsölu 11. júní 2013 á fasteigninni Rafstöðvarvegi 1a, fastanúmer 229-8067. Þá var farið fram á að sóknaraðili, sem þá var Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, legði fram málskostnaðartryggingu. Varnaraðili krefst loks málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðilarnir Reykjavíkurborg og Vörður tryggingar hf. hafa ekki látið málið til sín taka. Með úrskurði dómsins 6. mars sl. var hafnað kröfu varnaraðilans, VBS eignasafns hf., um að sóknaraðila, Kristni L. Brynjólfssyni, yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar. Þar sem varnaraðilarnir, Reykjavíkurborg og Vörður tryggingar hf., hafa ekki látið málið til sín taka verður varnaraðilinn ,VBS eignasafn hf., nefndur varnaraðili í úrskurði þessum nema annað sé tekið fram.

Upphaflega varðaði mál þetta bæði ágreining varðandi eignarhluta 229-8067 og 229-8153 í fasteigninni Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík samkvæmt beiðni sóknaraðila til dómsins sem móttekin var 8. júlí sl. Með ákvörðun dómara 20. september 2013 var ágreiningur er varðar eignarhluta 229-8153 sameinaður máli nr. Z-7/2013 sem rekið er samhliða þessu máli. Mál þetta lýtur því einvörðungu að ágreiningi varðandi eignarhluta 229-8067.

I

Málsatvik

Á árunum 2005 og 2006 voru gefin út alls 56 veðskuldabréf til varnaraðila, sem voru tryggð með veði í fasteigninni að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík. Þar af voru 14 samhljóða veðskuldabréfbréf að fjárhæð 3.000.000 króna hvert, samtals að fjárhæð 42.000.000 króna, tryggð með 3. veðrétti í eigninni. Aðalskuldari bréfanna var Hönnunar- og listamiðstöðin Ártúnsbrekka ehf. Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu 20. ágúst 2002 mun eigninni hafa verið skipt í sjö eignarhluta, sem hver fékk sitt fastanúmer í landskrá fasteigna. Eftir að fyrrgreindum veðskuldabréfum hafði verið þinglýst á eignina var 22. desember 2006 gerð ný eignaskiptayfirlýsing fyrir Rafstöðvarveg 1a og eigninni skipt í átta eignarhluta. Sex þeirra báru sömu fastanúmer og fyrrnefndir eignarhlutar, einn þeirra leið undir lok sem sjálfstæður eignarhluti, en til urðu tveir nýir sem fengu fastanúmerin 229-8067 og 229-8153. Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, sem er upphaflegur sóknaraðili þessa máls, og sem var eigandi allrar fasteignarinnar gaf 10. mars 2007 út afsal til Ártúnsbrekku ehf. fyrir tveimur síðastnefndu eignarhlutunum og var því þinglýst 17. apríl sama ár. Ágreiningur reis með aðilum um hvort veð samkvæmt fyrrgreindum eignarhlutum næði til nýju eignarhlutanna tveggja. Með dómi Hæstaréttar 6. maí 2010 í máli nr. 709/2009 var leyst úr þeim ágreiningi á þann veg að hinir nýju eignarhlutar væru hluti veðandlagsins.

Þeir sex eignarhlutar sem voru þinglýst eign Miðstöðvarinnar ehf., eignarhaldsfélags, voru seldir í tvennu lagi. Hinn 18. apríl 2007 voru fjórir eignarhlutar seldir nauðungarsölu. Söluverð þeirra var samtals 224.400.000 krónur og var varnaraðili kaupandi. Samkvæmt frumvarpi sýslumannsins í Reykjavík til úthlutunar á söluandvirði greiddust 191.989.893 krónur vegna 1. veðréttar og 29.969.109 krónur upp í kröfur á 2. veðrétti. Hinn 18. september 2007 voru tveir eignarhlutar með fastanúmerin 204-3313 og 225-8525 seldir nauðungarsölu. Söluverð þeirra var samtals 67 milljónir króna og var varnaraðili kaupandi. Samkvæmt frumvörpum sýslumannsins í Reykjavík til úthlutunar greiddust samtals 33.942.933 krónur vegna bréfa á 2. veðrétti en 32.722.938 krónur upp í kröfur vegna bréfa á 3. veðrétti. Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, leitaði úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur varðandi frumvörp sýslumanns samkvæmt, 1. mgr. 52. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, og krafðist þess að innheimtuþóknun vegna veðskuldabréfa á 2. og 3. veðrétti yrði lækkuð. Með úrskurði 9. júní 2010 féllst dómurinn á kröfu hans að því er varðaði innheimtuþóknun vegna veðskuldbréfa er hvíldu með 2. veðrétti á eignarhluta 204-3313. Var frumvarpi að úthlutun söluverðs vegna þess eignarhluta breytt þannig að innheimtuþóknun var lækkuð úr 2.322.196 krónum auk virðisaukaskatts í 373.500 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti. Fjárhæðin sem þurfti til að greiða upp kröfur á 2. veðrétti lækkaði því um 2.517.634 krónur og hækkaði það sem greiddist upp í kröfur á 3. veðrétti sem því nam samkvæmt nýrri úthlutun sýslumanns 4. apríl 2011. Samkvæmt því greiddust 35.240.572 krónur upp í kröfur á 3. veðrétti. Varnaraðili telur því að ógreiddar eftirstöðvar veðskuldarinnar miðað við söludag þessara eignarhluta hafi numið 20.335.129 krónum.

Ártúnsbrekka ehf. höfðaði mál á hendur varnaraðila, sem þá hét VBS Fjárfestingarbanki hf., með stefnu sem var birt 25. júní 2009. Sóknaraðili er fyrirsvarsmaður þess félags, sem og Miðstöðvarinnar ehf., eignarhaldsfélags, auk félagsins Desforms ehf. Dómkröfur Ártúnsbrekku ehf. í héraði voru þær að eftirstöðvar kröfu vegna veðskuldabréfa sem tryggð voru með veði í 3. veðrétti eignarhluta með fastanúmerið 204-3313 og 225-8225, að Rafstöðvarvegi 1a og hvíla nú á eignarhlutum Ártúnsbrekku ehf. með fastanúmer 229-8153 og 229-8067 við Rafstöðvarveg 1a, yrðu færðar niður um 22.852.761 krónu miðað við 18. september 2007, eða þá fjárhæð sem eftirstöðvunum næmi, reyndust þær lægri. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2010 var varnaraðili sýknaður af kröfum félagsins. Félagið áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar Íslands sem með dómi 6. október 2011 í máli nr. 148/2011 komst að þeirri niðurstöðu að héraðsdómur skyldi vera óraskaður.

Ártúnsbrekka ehf. lýsti kröfu við slitameðferð varnaraðila 7. október 2010. Í kröfulýsingunni var tekið fram að krafan byggði á dómkröfum í fyrrgreindu máli, sem þá var til meðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Ágreiningsmáli um þessa kröfu var beint til Héraðsdóms Reykjavíkur og með úrskurði dómsins 27. mars 2013 var því vísað frá dómi með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, enda hefði krafan eins og henni var lýst þegar verið dæmd að efni til og sá dómur væri bindandi um úrslit viðkomandi sakarefnis milli aðila. Ártúnsbrekka ehf. kærði úrskurðinn til Hæstaréttar sem staðfesti hann með dómi 8. maí 2013 í máli nr. 262/2013.

Varnaraðili lagði fram beiðni um nauðungarsölu á síðustu tveimur eignarhlutunum að Rafstöðvarvegi 1a, með fastanúmerin 229-8067 og 229-8153, til sýslumannsins í Reykjavík. Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, var gerðarþoli við nauðungarsöluna á eignarhluta nr. 229-8067, en Ártúnsbrekka ehf. hafði afsalað þeim eignarhluta til fyrrnefnda félagsins 9. febrúar 2012. Krafa varnaraðila er að höfuðstól 20.335.129 krónur og byggir á fyrrgreindum 14 veðskuldabréfum, sem nú hvíla á 1. veðrétti umræddra tveggja eignarhluta. Fyrirsvarsmaður Miðstöðvarinnar ehf., eignarhaldsfélags, mótmælti því að nauðungarsalan næði fram að ganga. Við fyrirtöku nauðungarsölunnar 11. apríl 2013 ákvað sýslumaður að taka mótmælin ekki til greina. Eignarhlutinn með fastanúmerið 229-8067 var seldur nauðungarsölu 11. júní 2013 og keypti varnaraðili eignarhlutann. Með bréfi, sem var móttekið 8. júlí 2013, krafðist Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um gildi nauðungarsölunnar. Ágreiningur í þessu máli varðar nauðungarsölu eignarhluta með fastanúmerið 229-8067.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sínar á hendur varnaraðila fyrst og fremst á því að varnaraðili hafi ekki lagt fram viðhlítandi gögn um muninn á eftirstöðvum hinnar umkröfðu skuldar og markaðsvirði þeirra fasteigna sem áður voru seldar á árinu 2007 og þar með um tilvist þeirrar kröfu sem hann sækir á hendur Miðstöðinni ehf., eignarhaldsfélagi, með kröfu um nauðungarsölu á eignum félagsins.

Í 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu séu sett fyrirmæli um hvernig skuli með fara þegar slík aðstaða komi upp. Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 487/2011 sé skýrt fordæmi um túlkun 57. gr. laga nr. 90/1991. Í því máli hafi ágreiningur aðila snúist um innheimtu eftirstöðva kröfu sem ekki hafi greiðst að fullu með söluandvirði eignar sem var seld á nauðungarsölu 25. mars 2010, áður en 57. gr. laga nr. 90/1991 var breytt með lögum nr. 60/2010. Það mál sé því á allan hátt sambærilegt við þetta mál. Varnaraðila hafi því borið að sýna fram á markaðsvirði eignanna og leggja fram viðhlítandi gögn til að sýna fram á meintar eftirstöðvar kröfu sinnar. Engu máli skipti þótt fyrri nauðungarsölur til fullnustu kröfu vegna sömu veðskuldabréfa hafi farið fram áður en lög nr. 60/2010 tóku gildi.

Nauðungarsölubeiðni varnaraðila hafi verið mótmælt við fyrirtöku beiðninnar hjá sýslumanni 21. mars 2013 og mótmæli ítrekuð í fyrirtöku 11. apríl sama ár. Varnaraðili sé fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gildi sömu reglur um slitastjórn og um skiptastjóra við gjaldþrotaskipti. Dómsmál verði ekki höfðað í héraði gegn fjármálafyrirtæki í slitameðferð með birtingu stefnu, sbr. 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Hins vegar sé það lögvarinn réttur þess sem verði fyrir tjóni af völdum slitastjórnar að lýsa kröfu í búið þótt kröfulýsingarfresti sé lokið, sbr. 5. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991 og 3. tölulið 110. gr. sömu laga. Krafa um nauðungarsölu og tjón sem af henni hljótist sé á ábyrgð gerðarbeiðanda, sbr. 86. gr. laga nr. 90/1991.

Þegar endanlega hafi orðið ljóst að slitastjórn varnaraðila myndi halda til streitu kröfu sinni um nauðungarsölu eigna Miðstöðvarinnar ehf., eignarhaldsfélags, án rökstuðnings fyrir tilvist og réttmæti kröfunnar hafi félagið ákveðið að lýsa kröfu fyrir slitastjórninni á grundvelli fyrrgreindra lagaheimilda og hafi slitastjórn tekið á móti kröfunni 10. júní 2013. Lýstar kröfur hafi verið fjórar talsins: Í fyrsta lagi hafi þess verið krafist, með vísan til 57. gr. laga nr. 90/1991 að slitastjórn varnaraðila sýndi fram á og sannaði hvert hefði verið markaðsverð eigna að Rafstöðvarvegi 1a með fastanúmerin 225-8524, 225-8526, 225-8527 og 225-8528 sem seldar voru nauðungarsölu 18. apríl 2007 og eigna með fastanúmerin 204-3313 og 225-8525 sem seldar voru nauðungarsölu 18. september 2007. Í öðru lagi hafi félagið krafist þess að slitastjórn varnaraðila færði eftirstöðvar kröfunnar niður sem næmi mismun á markaðsverði og söluverði eignanna þegar slitastjórnin hefði sannað hvert markaðsverð eignanna hefði verið við samþykki boðs. Í þriðja lagi hafi þess verið krafist að slitastjórn varnaraðila afturkallaði nauðungarsölubeiðni sína þar sem ekki hefði verið sýnt fram á réttmæti kröfunnar. Í fjórða lagi hafi félagið gert þá kröfu að slitastjórn varnaraðila aflýsti hinum umdeildu veðskuldabréfum af umræddum eignum gegn greiðslu á 34.717.607 krónum inn á geymslureikning sem hvorugur aðili hefði aðgang að fyrr en ljóst væri hvort, og þá hversu háar, eftirstöðvar kröfu varnaraðila væru fyrir hendi. Það liggi því fyrir að mál sem lúti að lögmæti kröfu varnaraðila sé óútkljáð fyrir dómstólum. Enn hafi ekki verið boðað til sáttafundar um kröfuna eða ágreiningi um hana verið vísað til héraðsdóms.

Fyrirsvarsmaður Miðstöðvarinnar ehf., eignarhaldsfélags, sem sé núverandi sóknaraðili málsins, hafi fylgt kröfulýsingunni eftir með tölvupósti til lögmanns slitastjórnar varnaraðila. Sóknaraðili hafi boðið slitastjórninni bankatryggingu að fjárhæð 35.115.607 krónur meðan leyst væri úr ágreiningi um réttmæti kröfu varnaraðila, gegn afturköllun nauðungarsölubeiðninnar og aflýsingu bréfanna. Þessi fjárhæð hafi samsvarað hámarksfjárhæð eftirstöðva kröfunnar, án tillits til niðurfærslu á grundvelli 57. gr. laga nr. 90/1991, auk kröfu varnaraðila um málskostnað. Þessu tilboði hafi ekki verið tekið. Þá hafi sóknaraðili birt formanni slitastjórnar varnaraðila áskorun um að afturkalla nauðungarsölubeiðnina, en þeirri áskorun hafi ekki verið svarað.

Sóknaraðili kveðst byggja kröfu sína á 1. mgr. 80. gr. og 2. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1991. Úrskurður héraðsdóms geti því aðeins kveðið á um ógildingu nauðungarsölu, staðfestingu hennar, hugsanlegar bætur og málskostnað. Dómurinn hafi ekki lagaheimild til að kveða upp efnisúrskurð í ágreiningi um réttmæti kröfunnar sem leiddi til nauðungarsölunnar eða þeirra krafna sem hafi verið lýst fyrir slitastjórn varnaraðila. Því beri að ógilda nauðungarsöluna og úrskurða sóknaraðila málskostnað.

Sóknaraðili vísar til meginreglna einkamálaréttarfars, laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, einkum 1. mgr. 57. gr., 1. mgr. 80. gr., 2. mgr. 83. gr. og 1., 2. og 3. mgr. 86. gr. Krafa sóknaraðila um málskostnað er studd við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Málsástæður og lagarök varnaraðilans VBS eignasafns hf.

Varnaraðili byggir aðalkröfu sína um frávísun á kröfum sóknaraðila í fyrsta lagi á því að slíkir annmarkar séu á málatilbúnaði sóknaraðila að ekki sé fullnægt skilyrðum d- og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að mati varnaraðila sé óljóst á hvaða grundvelli sóknaraðili byggi málatilbúnað sinn. Málavöxtum og málsástæðum sé flækt saman með slíkum hætti að nær ómögulegt sé að átta sig á því á hvaða grundvelli beri að ógilda nauðungarsöluna. Málsatvik og málsástæður séu óskýr þar sem vaðið sé úr einu í annað. Umfjöllun sóknaraðila sé oft ekki í neinu samræmi við dómkröfur hans auk þess sem málatilbúnaðurinn virðist oft á tíðum byggja á vangaveltum og órökstuddum fullyrðingum. Málatilbúnaður sóknaraðila brjóti því í bága við meginreglur einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað.

Í öðru lagi vísar varnaraðili til þess að engar lagaheimildir standi til þess að ógilda nauðungarsöluna með vísan til 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, að gengnum fullnaðardómi varðandi eftirstöðvar veðskuldabréfanna sem hér sé um deilt. Efnisdómur hafi þegar fallið í málinu með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 148/2011, sbr. einnig dóm réttarins í máli nr. 262/2013. Krafa sem hafi verið dæmd að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól. Nýju máli um slíka kröfu skuli vísað frá dómi, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991.

Þrátt fyrir að Ártúnsbrekka ehf. hafi rekið framangreind dómsmál varðandi eftirstöðvar veðskuldabréfanna verði samt sem áður að telja að búið sé að leysa úr ágreiningnum hvað varðar eftirstöðvar veðskuldabréfanna. Um sé að ræða sömu veðskuldabréf, vegna sömu fasteigna, vegna sömu nauðungarsölu og byggt á sömu málsástæðum með vísan til 57. gr. laga nr. 90/1991. Upphaflegur sóknaraðili málsins sé félag í eigu sóknaraðila sem jafnframt sé stjórnarformaður beggja félaga.

Í þriðja lagi hafi sóknaraðili ekki lögvarða hagsmuni af því að mótmæla fjárhæð kröfunnar eða skorti á gögnum fjárhæðinni til grundvallar. Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, hafi þegar lýst því yfir með kröfulýsingu sinni í slitabú varnaraðila, dags. 10. júní 2013, að hann telji kröfuna nema a.m.k. 34.717.607 krónum, miðað við 10. júní 2013, með fyrirvara um 57. gr. laga nr. 90/1991. Fasteignin hafi hins vegar verið seld á nauðungarsölu á 9.000.000 króna. Af þeim ástæðum hafi hin síðar fram komna málsástæða um að ágreiningur sé um útreikning kröfunnar enga þýðingu í málinu. Óumdeild uppreiknuð krafa varnaraðila sé langt umfram söluverðmæti hinnar nauðungarseldu eignar. Því beri að vísa þeirri kröfu frá af sjálfsdáðum (ex officio), sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Þá geti sóknaraðili ekki komið á síðari stigum málsins að kröfu um ógildingu á grundvelli þess að ágreiningur sé um fjárhæð kröfunnar. Slík mótmæli hafi Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, ekki haft uppi við nauðungarsöluferlið né í kröfu sinni um úrlausn dómara á gildi nauðungarsölunnar.

Varnaraðili byggir varakröfu sína um höfnun á kröfum sóknaraðila í fyrsta lagi á því að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 148/2011 hafi gengið fullnaðardómur um eftirstöðvar hinna umdeildu 14 veðskuldabréfa. Í málinu hafi Ártúnsbrekka ehf. krafist þess að eftirstöðvar sömu 14 veðskuldabréfa í eigu varnaraðila yrðu færðar niður á grundvelli 57. gr. laga nr. 90/1991. Rétturinn hafi ekki fallist á kröfu um niðurfærslu eftirstöðva hinna umdeildu bréfa. Að mati varnaraðila hafi því verið leyst úr ágreiningi um eftirstöðvar hinna umdeildu veðskuldabréfa, sbr. 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Af dóminum leiði því að eftirstöðvar hinna 14 veðskuldabréfa áhvílandi á 1. veðrétti á Rafstöðvarvegi 1a, eignarhlutum 229-8067 og 229-8153, skuli standa. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 262/2013 hafi verið staðfest að þegar hafi verið leyst úr því meinta ágreiningsefni er varði eftirstöðvar veðskuldabréfanna 14.

Í Hæstaréttarmálinu nr. 148/2011 hafi gefist tækifæri til að sýna fram á að markaðsverð hinna nauðungarseldu eigna við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu hinnar umdeildu kröfu. Slík sönnun hafi hins vegar ekki tekist. Samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga nr. 90/1991 hafi gerðarþoli eða annar tækifæri til að höfða mál eða fá eftirstöðvar veðskuldabréfa felldar eða færðar niður samkvæmt því sem segir í 1. mgr. sömu greinar. Þar sem sönnun hafi ekki tekist verði að telja að markaðsverðmæti hinna nauðungarseldu eigna hafi ekki dugað til fullnaðargreiðslu hinna umdeildu veðskuldabréfa.

Þrátt fyrir að Ártúnsbrekka ehf. hafi rekið hin framangreindu dómsmál verði samt sem áður að telja að búið sé að leysa úr ágreiningi um eftirstöðvar hinna umdeildu veðskuldabréfa. Um sé að ræða sömu veðskuldabréf, vegna sömu fasteigna, vegna sömu nauðungarsölu og byggt á sömu málsástæðum með vísan til 57. gr. laga nr. 90/1991.

Í öðru lagi telur varnaraðili ljóst að markaðsverðmæti eignanna hafi ekki nægt til fullnustu krafna hans þegar umræddar eignir voru seldar nauðungarsölu. Markaðsverðmæti eignanna hafi verið stórlega ofmetið þegar lánað var upphaflega til kaupa á þeim, enda hafi komið á daginn að kaupandinn gat ekki staðið við skuldbindingar sínar. Um sé að ræða sjö bogalaga byggingar sem séu í raun gamlir braggar. Ástandi hússins í dag sé gríðarlega ábótavant og ljóst að þannig hafi því verið háttað í fjöldamörg ár, eða allt frá því að fasteignin var upphaflega seld nauðungarsölu árið 2007. Sóknaraðili hafi sjálfur lýst því yfir að byggingin sé nánast að hruni komin, enda gamalt braggahús frá 1946. Sökum ástands og raunverulegs verðmætis fasteignarinnar þegar hún var seld nauðungarsölu sé ljóst að eftirstöðvar hinna umdeildu veðskuldabréfa hafi ekki fengist greiddar að fullu.

Varnaraðili byggir á því að í málinu beri að hafna beitingu 57. gr. laga nr. 90/1991 eins og ákvæðinu hafi verið breytt með lögum nr. 60/2010, sem birt hafi verið 18. júní 2010. Eftirstöðvar umræddra veðskuldabréfa hafi verið tryggðar með fasteignum er seldar voru nauðungarsölu 18. september 2007. Lög nr. 60/2010 kveði ekki á um lagaskil hinna nýrri og eldri laga og beri því að beita almennum lögskýringarreglum. Meginreglan sé sú að lögum sé ekki beitt afturvirkt. Umrædd breytingarlög hafi tekið gildi u.þ.b. þremur árum eftir að fyrsta nauðungarsalan fór fram á eignarhlutum Miðstöðvarinnar ehf., eignarhaldsfélags. Væri fallist á að lög nr. 60/2010 gildi um eftirstöðvar veðskuldabréfanna væru lögin í raun afturvirk. Innheimta vegna skulda Miðstöðvarinnar ehf., eignarhaldsfélags, hafi átt sér stað með hléum allt frá því árið 2007. Kröfuna beri að meta eftir þeim reglum sem giltu þegar hún stofnaðist, þ.e.a.s. hvaða reglur giltu þegar umræddar fasteignir voru seldar nauðungarsölu.

Almennt beri að skýra lög á þá leið að þeim sé ekki beitt afturvirkt. Þetta sjónarmið styðjist m.a. við rök 27. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994. Sú regla hafi byggt á því sjónarmiði að borgararnir gætu kynnt sér efni laganna til að geta hagað breytni sinni í samræmi við þau. Afturvirkni laga rekst á við þetta markmið. Í því ljósi megi telja að stjórnarskráin setji takmörk við því að lög séu afturvirk. Einkum verði að ætla að takmörk séu við því að sett séu afturvirk lög sem breyti réttarstöðu aðila samkvæmt löggerningum sem gerðir voru fyrir gildistöku laganna og sem varnaraðili hafði réttmætar væntingar til að myndu ekki breytast. Sönnunarbyrði um markaðsverðmæti hinna seldu eigna á hinni umdeildu nauðungarsölu hafi verið snúið við með breytingu á 57. gr. laganna.

Í ljósi þessa beri að hafna beitingu ákvæðisins eins og ákvæðinu var breytt með lögum nr. 60/2010, og beita því eins og það hljóðaði fyrir breytinguna. Því beri sóknaraðili sönnunarbyrði fyrir því að markaðsverð fasteignanna hafi ekki nægt til fullnustu krafna varnaraðila. Slíka sönnun hafi hann ekki fært fram og beri því að hafna öllum kröfum hans.

Varnaraðili mótmæli sérstaklega ýmsum atriðum sem fram komi í greinargerð sóknaraðila. Veðsetning fasteigna varnaraðila til handa Tryggingamiðstöðinni hafi enga þýðingu í málinu. Fjöldi fasteigna og annarra fjárverðmæta hafi verið veðsettur samkvæmt tryggingarbréfi, þar á meðal fasteignir að Rafstöðvarvegi 1a. Tilvitnun í verkefnafjármögnun varnaraðila sé órökstudd og verði ekki séð að hún hafi nokkra þýðingu. Meintu verðmati sóknaraðila sé mótmælt sem röngu. Krafa varnaraðila sé skýr hvað varðar höfuðstól kröfunnar. Um sé að ræða mismun á kröfunni samkvæmt hinum umþrættu veðskuldabréfum eins og hún stóð á nauðungarsöludegi og þeirri fjárhæð sem greiddist upp í bréfin samkvæmt áritun sýslumanns. Dráttarvextir reiknist síðan frá nauðungarsöludegi til 16. október 2012. Auk heldur hafi Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, viðurkennt með kröfulýsingu sinni í slitabú VBS að hann telji kröfuna nema a.m.k. 34.717.607 krónum, að meðtöldum dráttarvöxtum, miðað við 10. júní 2013. Þar hafi hann sjálfur lagt til grundvallar sömu viðmið og forsendur og krafa varnaraðila byggi á en mismunur á fjárhæðum orsakist af því að sóknaraðili taki ekki tillit til kostnaðar sem hafi hlotist af innheimtunni. Útreikningi fjárhæðar kröfunnar sé fyrst mótmælt í greinargerð sóknaraðila. Slík mótmæli hafi Miðstöðin ehf., eignarhaldsfélag, ekki haft uppi við nauðungarsöluferlið né í kröfu sinni um úrlausn dómara á gildi nauðungarsölunnar. Miðstöðinni ehf., eignarhaldsfélagi, hafi borið að mótmæla útreikningi og fjárhæð kröfunnar strax þegar honum barst greiðsluáskorun vegna eftirstöðva veðskuldabréfanna. Sökum tómlætis hans verði því að leggja til grundvallar útreikning varnaraðila á eftirstöðvum kröfunnar. Loks sé túlkun sóknaraðila á dómi Hæstaréttar í máli nr. 487/2011 sérstaklega mótmælt.

Varnaraðili vísar til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Varnaraðili vísar einnig til 16. gr., 25. gr., 80. gr. og 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá byggir varnaraðili á lögum nr. 90/1991 um nauðungarsölu, einkum 57. gr. og 2. mgr. 77. gr. Loks vísar varnaraðili til 27. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1994. Krafa um málskostnað styðst við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt byggir á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

IV

Niðurstaða

Ágreiningur aðila í máli þessu lýtur að gildi nauðungarsölu sem fram fór 11. júní 2013 á eignarhluta með fastanúmerið 229-8067 í fasteigninni að Rafstöðvarvegi 1a. Krefst sóknaraðili þess að nauðungarsalan verði ógilt með dómi. Sóknaraðili féll frá skaðabótakröfu sinni á hendur varnaraðila við munnlegan flutning málsins 16. júní sl.

Mál þetta á sér nokkuð langa forsögu eins og nánar er rakið í málsatvikalýsingu. Er ágreiningur aðila sprottinn af veðskuldabréfum í eigu varnaraðila sem gefin voru út árin 2005 og 2006 og tryggð með veði í fasteigninni að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík. Aðalskuldari bréfanna var Hönnunar- og listamiðstöðin Ártúnsbrekka ehf., en varnaraðili var eigandi þeirra. Árið 2007 fór fram nauðungarsala á sex eignarhlutum fasteignarinnar, sem voru í eigu Miðstöðvarinnar ehf., eignarhaldsfélags, og gerðist varnaraðili kaupandi að þeim við nauðungarsöluna. Hann fékk kröfum sínum ekki fullnægt með öllu af söluverðinu og í kjölfarið krafði hann Miðstöðina ehf., eignarhaldsfélag, sem átti tvo eignarhluta fasteignarinnar, um greiðslu eftirstöðva veðskuldabréfanna, með greiðsluáskorunum og nauðungarsölubeiðnum í október og nóvember 2008. Tveir eignarhlutar með fastanúmerin 204-3313 og 225-8525 voru seldir nauðungarsölu 18. september 2007 og var varnaraðili kaupandi þeirra. Þann 25. júní 2009 höfðaði Ártúnsbrekka ehf. mál á hendur varnaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og gerði þar þá kröfu að eftirstöðvar kröfu vegna veðskuldabréfanna, sem tryggð höfðu verið með veði í 3. veðrétti eignarhluta með fastanúmerin 204-3313 og 225-8225 að Rafstöðvarvegi 1a og hvíldu nú á eignarhlutum sóknaraðila með fastanúmer 229-8153 og 229-8067, yrðu færðar niður um 22.852.761 krónu miðað við 18. september 2007, eða þá fjárhæð sem eftirstöðvunum næmi, reyndust þær lægri. Byggði sú krafa á 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu og því að söluverð við nauðungarsöluna í september 2007, á eignarhlutum með fastanúmerin 204-3313 og 225-8525, hefði verið undir markaðsverði. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2010 var varnaraðili sýknaður af kröfum félagsins. Félagið áfrýjaði málinu til Hæstaréttar Íslands sem með dómi 6. október 2011 í máli nr. 148/2011 komst að þeirri niðurstöðu að héraðsdómur skyldi vera óraskaður. Eignarhlutinn með fastanúmerið 229-8067 var seldur nauðungarsölu 11. júní 2013 og var varnaraðili kaupandinn og er það gildi þeirrar nauðungarsölu sem hér er til umfjöllunar.

Málatilbúnaður sóknaraðila verður skilinn svo að nauðungarsölu eignarhluta með fastanúmerið 229-8067 í fasteigninni að Rafstöðvarvegi 1a í Reykjavík beri að ógilda þar sem varnaraðili hafi við nauðungarsöluna ekki farið að fyrirmælum 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu eins og hún hljóðar eftir að henni var breytt með 4. gr. laga nr. 60/2010. Þannig hafi hann ekki lagt fram viðhlítandi gögn um muninn á eftirstöðvum hinnar umkröfðu skuldar og markaðsvirði þeirra fasteigna sem áður voru seldar nauðungarsölu á árinu 2007 og þar með um tilvist þeirrar kröfu sem hann sækir á hendur Miðstöðinni ehf., eignarhaldsfélagi, með kröfu um nauðungarsölu á eignum félagsins. Hefur hann þar um vísað til niðurstöðu Hæstaréttar 10. maí 2012 í máli nr. 487/2011 sem sé skýrt fordæmi um að beita beri ákvæði 57. gr. laganna eins og það hljóðar eftir breytingu þrátt fyrir að nauðungarsala til fullnustu kröfu vegna sömu veðskuldabréfa hafi farið fram áður en lög nr. 60/2010 tóku gildi.

Varnaraðilinn VBS eignasafn hf. krefst þess að málinu verði vísað frá dómi þar sem ekki séu uppfyllt skilyrði d- og e-liðar 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 um glöggan og skýran málatilbúnað. Það er mat dómsins að þótt málatilbúnaður sóknaraðila mætti að ósekju vera skýrari sé ljóst hver kröfugerð hans er og á hverju hann byggi málatilbúnað sinn. Verður málinu því ekki vísað frá sökum annmarka á kröfugerð sóknaraðila.

Varnaraðilinn hefur einnig krafist þess að málinu verði vísað frá dómi þar sem þegar hafi fallið efnisdómur um kröfur sóknaraðila, sbr. 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Vísar varnaraðili þar um til dóma Hæstaréttar í málum nr. 148/2011 og nr. 262/2013. Byggir varnaraðili á því að krafa sem dæmd hafi verið að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól og að nýju máli um slíka kröfu verði að vísa frá dómi á grundvelli 2. mgr. áðurnefnds lagaákvæðis. Þrátt fyrir að Ártúnsbrekka ehf. hafi rekið hin framangreindu dómsmál varðandi eftirstöðvar veðskuldabréfanna verði samt sem áður að telja að búið sé að leysa úr ágreiningnum hvað varðar eftirstöðvar hinna hér umdeildu veðskuldabréfa, enda sé um að ræða félag í eigu sama aðilans sem jafnframt er stjórnarformaður beggja félaga. Um sé að ræða sömu veðskuldabréf, vegna sömu fasteigna, vegna sömu nauðungarsölu og byggt á sömu málsástæðum með vísan í 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu.

Eins og áður er fram komið var í dómi Hæstaréttar í máli nr. 148/2011 til úrlausnar krafa Ártúnsbrekku ehf. um að eftirstöðvar kröfu samkvæmt 14 samhljóða veðskuldabréfum í eigu varnaraðila sem tryggð höfðu verið með 3. veðrétti í eignarhluta Ártúnsbrekku ehf. með fastanúmerin 204-3313 og 225-8525 en sem hvíldu þá á eignarhlutum með fastanúmerin 229-8067, sem um er fjallað í þessu máli, og 229-8153 sem um er fjallað í máli sem samhliða þessu máli er rekið fyrir dóminum undir málsnúmerinu Z-7/2013, yrðu færðar niður um 22.852.761 krónu á grundvelli 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Héraðsdómur hafði sýknað varnaraðila af kröfu Ártúnsbrekku ehf. Niðurstaða Hæstaréttar varð sú að Ártúnsbrekku ehf. hefði ekki tekist sönnun um að söluverð umræddra eignarhluta, sem seldir voru nauðungarsölu á árinu 2007, hafi verið undir markaðsverði þeirra við samþykki boðs varnaraðila í þær og því skyldi hinn áfrýjaði dómur vera óraskaður. Í dóminum var tekin sérstök afstaða til þess að 57. gr., eins og greininni hafði verið breytt með 4. gr. laga nr. 60/2010, yrði ekki beitt um ágreining aðila heldur yrði að leysa úr málinu á grundvelli ákvæða 57. gr. eins og þau voru áður en þeim var breytt með lögum nr. 60/2010.

Í máli nr. 262/2013 var til umfjöllunar ágreiningur um kröfu sem Ártúnsbrekka ehf. hafði lýst við slit varnaraðila þess efnis að eftirstöðvar veðskuldabréfanna 14, sem upphaflega voru tryggð með 1. veðrétti í tilteknum eignarhlutum en hvíldu nú á 1. veðrétti eignarhluta með fastanúmerin 229-8153 og 229-8067, yrðu færðar niður að fullu með vísan til 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Héraðsdómur hafði vísað málinu frá dómi með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem krafan hefði þegar verið dæmd að efni til í máli nr. 148/2011 og væri sá dómur bindandi um úrslit sakarefnisins milli aðila. Staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins kærða úrskurðar með þeirri athugasemd að þar sem réttaráhrif þess að vísa kröfu frá dómi í máli sem farið væri með eftir ákvæðum XXIV. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotskipti o.fl. væru þau sömu og þegar kröfu væri hafnað hefði í ljósi forsendna hins kærða úrskurðar verið réttara að hafna kröfunni en ekki þótti vera ástæða til að ómerkja hinn kærða úrskurð af þessum sökum. Líta verður svo á að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 262/2013 hafi verið fallist á að dómur réttarins í máli nr. 148/2011 hefði þau réttaráhrif með vísan til 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 að ekki yrði á ný fjallað um sakarefni sem þegar hefði verið kveðinn upp efnisdómur í milli aðila.

Eins og áður er fram komið var mál þetta í upphafi rekið í nafni Miðstöðvarinnar ehf., eignarhaldsfélags, sem var gerðarþoli við umþrætta nauðungarsölu 18. september 2013. Það félag framseldi síðar þau réttindi er dómkrafan varðar til fyrirtækisins Desforms ehf. sem síðar framseldi réttindin til Kristins Brynjólfssonar. Var málið rekið í nafni hans upp frá því. Verður að líta svo á að dómurinn hafi undir rekstri málsins fallist á að framsal réttinda, er dómkrafa málsins lýtur að, hafi átt sér stað og aðilaskipti orðið að málinu til sóknar í skilningi 1. mgr. við 22. gr. laga nr. 21/1991 um meðferð einkamála.

Í 1. og 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er að finna reglur um bindandi réttaráhrif dóms. Samkvæmt þeim er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila, og þeirra sem að lögum koma í þeirra stað, um þær kröfur sem þar eru dæmdar að efni til. Krafa sem hefur verið dæmd að efni til verður ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól, fremur en segir í lögum nr. 91/1991, og skal nýju máli um slíka kröfu vísað frá dómi. Þessar reglur laga nr. 91/1991 eiga við um það mál sem hér er til úrlausnar, sbr. 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991.

Telja verður að sakarefni það er sóknaraðili ber nú enn á ný undir dómstóla til úrlausnar hafi verið endanlega til lykta leitt með dómi Hæstaréttar í máli nr. 148/2011. Telur dómurinn ljóst að um sömu kröfu sé að ræða, ágreiningur lýtur að sömu veðskuldabréfum, sömu eignarhlutum, hún beinist að sama aðila og hvílir á sömu sjónarmiðum um að söluverð við nauðungarsölu á árinu 2007 hafi verið undir markaðsverði. Breytir engu um réttaráhrif dómsins þó að málið sé nú rekið sem ágreiningsmál á grundvelli laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þótt sóknaraðili þessa máls hafi ekki átt aðild að hinu fyrra stendur gildi dómsins óhaggað gagnvart honum enda verður ráðið af orðalagi 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 ákvæðisins að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra sem að lögum koma í þeirra stað um þær kröfur sem þar eru dæmdar að efni til. Hefur þegar verið rakið með hvaða hætti réttindi er dómkrafan lýtur að var framseld sóknaraðila og aðilaskipti því orðið í málinu á grundvelli 1. mgr. 22. gr. laga nr. 91/1991.

Í ljósi ofangreinds telur dómurinn ekki vera fyrir hendi heimild að lögum til þess að dómsúrlausn í máli nr. 148/2011, þar sem leyst var efnislega úr sömu kröfum og á grundvelli sömu málsástæðna og sóknaraðili byggir á í þessu máli, geti nú að efni til sætt endurskoðun. Þá ítrekar dómurinn að í áðurnefndu máli tók Hæstiréttur efnislega afstöðu til lagaskila í máli aðila hvað varðar breytingu á 57. gr. laga nr. 90/1991 með lögum nr. 60/2010.

Mál þetta er rekið sem ágreiningsmál á grundvelli XIV. kafla laga nr. 20/1991. Eins og að ofan er rakið ber í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 að vísa nýju máli um kröfu sem dæmd hefur verið efnislega í öðru máli, frá dómi. Líta verður svo á að réttaráhrif þess að vísa kröfu frá dómi sem rekið er samkvæmt ákvæðum XIV. kafla laga nr. 20/1991 séu þau sömu og þegar kröfu er hafnað. Með vísan til þessa og alls þess sem að framan er rakið, ber að hafna kröfum sóknaraðila. Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 og 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1991. Þykir hann eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við málinu 2. maí sl.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Kristins L. Brynjólfssonar, um að ógilt verði nauðungarsala á fasteigninni Rafstöðvarvegi 1a, eignarhluta með fastanúmerið 229-8067, sem fram fór 11. júní 2013 að kröfu varnaraðila, VBS eignasafns hf.

Sóknaraðili greiði varnaraðilanum, VBS eignasafni hf., 300.000 krónur í málskostnað.