Hæstiréttur íslands
Mál nr. 288/1998
Lykilorð
- Skilasvik
- Staðgreiðsla opinberra gjalda
- Sekt
- Vararefsing
- Skilorð
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Fimmtudaginn 18. febrúar 1999. |
|
Nr. 288/1998. |
Ákæruvaldið (Sigríður Jósefsdóttir saksóknari) gegn Eiríki Brynjólfi Böðvarssyni (Björgvin Þorsteinsson hrl.) |
Skilasvik. Staðgreiðsla opinberra gjalda. Sekt. Vararefsing. Skilorð. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
E var ákærður fyrir fjárdrátt, skilasvik, brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Við meðferð málsins var fallið frá kröfu um sakfellingu fyrir fjárdrátt. Hvorki var fallist á kröfu um frávísun málsins að því er varðaði sakargiftir um skilasvik né brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, en þeim lið ákærunnar er laut að brotum á lögum um virðisaukaskatt var vísað frá héraðsdómi þar sem hann þótti ekki hafa verið skýrður með fullnægjandi hætti. Var E sakfelldur fyrir skilasvik og brot gegn lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda. Var refsing fyrir síðargreindu brotin ákveðin meðal annars samkvæmt 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Var E dæmdur til skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar og sektar, en til vararefsingar yrði sektin ekki greidd innan tilskilins tíma. Við ákvörðun vararefsingar var litið til þess sem ætla mætti að hefðu getað orðið viðurlög á hendur E ef ekki hefði verið mælt fyrir um lágmark sektar í lögum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 8. júlí 1998 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds. Krefst ákæruvaldið þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður, en að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð.
I.
Í greinargerð ákærða fyrir Hæstarétti var krafa um að sakargiftum samkvæmt 1. lið I. kafla ákæru yrði vísað frá héraðsdómi studd við það, að verulega skorti á að málið væri rannsakað með fullnægjandi hætti. Hefði þannig ekki verið aflað nánar tilgreindra gagna, sem nauðsynleg væru til að skýra málið, auk þess sem skorti á samræmi milli gagna um þennan lið ákæru. Í greinargerð ákæruvalds til Hæstaréttar var á það fallist að fullnægjandi skýringar hefðu ekki fengist um innborganir til lífeyrissjóða og fleira. Var því lýst yfir, að af hálfu ákæruvalds væri fallið frá kröfu um staðfestingu á sakfellingu héraðsdóms vegna ákæruefnis í 1. lið I. kafla ákærunnar. Er sá þáttur málsins samkvæmt því niður fallinn.
II.
Krafa um frávísun málsins að því er varðar sakargiftir samkvæmt 2. lið I. kafla ákæru er einnig á því reist að rannsókn sé svo ófullnægjandi að efnisdómur verði ekki lagður á það. Er til þess vísað, að ekki liggi fyrir hvernig eða hvenær krafa Niðursuðuverksmiðjunnar hf. á hendur ákærða í skjóli viðskiptareiknings hans hjá félaginu hafi stofnast. Þá liggi hvorki fyrir hver raunveruleg skuld hans á reikningnum hafi verið né hve miklar ábyrgðir hann hafi gengist í fyrir félagið, sem veiti honum rétt til skuldajafnaðar við kröfu félagsins á hendur honum. Þær fjárhæðir hafi hvað sem öðru líði verið miklum mun hærri en hugsanleg krafa á hendur honum. Loks vísar ákærði til þess, að húseign hans hafi verið seld við nauðungarsölu 15. desember 1992. Hafi hluti söluverðsins runnið til greiðslu fimm tilgreindra skulda Niðursuðuverksmiðjunnar hf., sem hafi hvílt með veði í húseigninni. Skorti verulega á að þessi þáttur málsins hafi verið skýrður sem skyldi.
Ákæruvaldið mótmælir því að skuldir, sem greiddust af söluverði húseignar ákærða, hafi hvílt á Niðursuðuverksmiðjunni hf. utan einnar, sem hafi verið við Íslandsbanka hf. og fengist greidd með 915.588 krónum af söluverðinu. Að öðru leyti hafi áhvílandi veðskuldir allar verið persónulegar skuldir ákærða. Er því jafnframt haldið fram að aðrar ástæður, sem ákærði teflir fram til stuðnings aðalkröfu sinni, séu haldlausar með öllu.
Ákærði hefur engin gögn fært fram fyrir staðhæfingu sinni um að hluti söluverðs húseignar hans hafi runnið til greiðslu á skuldum Niðursuðuverksmiðjunnar hf. umfram það, sem viðurkennt er af hálfu ákæruvalds. Nauðungarsala á húsi ákærða fór fram nærri hálfu ári eftir að þær færslur áttu sér stað í bókhaldi Niðursuðuverksmiðjunnar hf., sem 2. liður I. kafla ákæru lýtur að. Jafnvel þótt skuldirnar hefðu hvílt á félaginu hefur á engan hátt verið skýrt hvaða máli greiðsla ákærða á þeim geti skipt fyrir heimild hans til að nýta sér þær til skuldajafnaðar hálfu ári fyrr. Eins og málið liggur fyrir verður ekki fallist á með ákærða að ófullnægjandi rannsókn þessa atriðis eigi að leiða til frávísunar málsins. Þá skiptir engu við úrlausn málsins hvenær krafa félagsins á hendur honum myndaðist eða hver var samanlögð fjárhæð krafna, sem ákærði var í ábyrgð fyrir í þágu þess. Aðrar fram bornar ástæður fyrir frávísun þessa þáttar málsins geta heldur ekki leitt til þeirrar niðurstöðu. Að þessu gættu og því, sem segir hér á eftir um heimild ákærða til skuldajafnaðar, eru ekki efni til að fallast á aðalkröfu hans varðandi þennan þátt málsins.
Sýknukrafa ákærða í þessum þætti er á því reist, að ósannað sé að um raunverulega skuld hafi verið að ræða á viðskiptareikningi hans. Vísar hann til framburðar vitna, sem rakinn er í héraðsdómi, um að reikningurinn hafi verið notaður sem nokkurs konar safnreikningur fyrir greiðslur, sem ekki hafi verið ljóst hvernig skyldi færa í bókhaldi. Megi kenna um óreiðu eða kæruleysi hans sjálfs að skuld hafi myndast á reikningnum. Verði hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að um skuld hans hafi verið að ræða sé ljóst, að honum hafi verið heimilt að skuldajafna með kröfu sinni á hendur félaginu, sem nánar er getið hér á eftir.
Í héraðsdómi er greint frá efni bókunar í fundargerð stjórnar Niðursuðuverksmiðjunnar hf. 16. mars 1992 þegar ákærða var heimilað að gera upp skuld við félagið samkvæmt viðskiptareikningi með því að taka að sér nánar tilteknar skuldir þess. Stóð ákærði ásamt tveim öðrum stjórnarmönnum að þessari samþykkt. Verður efni hennar og orðalag ekki skýrt öðru vísi en svo að stjórnin hafi þar lýst yfir að ákærði skuldaði félaginu fé samkvæmt viðskiptareikningnum og að hann mætti gera upp þá skuld með því að taka að sér að greiða tilgreindar skuldir félagsins, sem hann var að einhverju leyti eða öllu í ábyrgð fyrir. Eins og málið liggur fyrir verður ekki annað ráðið en að á viðskiptareikninginn hafi meðal annars verið færðar greiðslur, sem ákærði bar ábyrgð á og gat ekki gert grein fyrir með fylgiskjölum hvernig var ráðstafað. Er samþykktin var gerð nam skuld hans samkvæmt bókhaldi félagsins 13.067.584 krónum, en ekki er annað fram komið en að réttilega hafi verið staðið að reikningsskilum fyrir það. Þegar allt framangreint er virt verður ekki fallist á síðbúnar staðhæfingar ákærða fyrir dómi um að engin skuld hafi í raun staðið að baki því, sem bókhald Niðursuðuverksmiðjunnar hf. sýndi.
Svo sem nánar greinir í héraðsdómi fylgdi ákærði framangreindri samþykkt eftir með þrem færslum í bókhaldi félagsins 30. júní 1992 og tveim 11. júlí sama árs, sem starfsmaður félagsins annaðist að beiðni hans. Sakargiftir samkvæmt 2. lið I. kafla ákærunnar snúa að þessum gerðum. Tilraunum til að ná nauðasamningi við kröfuhafa félagsins var þá nýlega hætt án árangurs, en bú þess var þó ekki tekið til gjaldþrotaskipta fyrr en 15. október 1992. Er fyrstu þrjár færslurnar voru gerðar giltu enn gjaldþrotalög nr. 6/1978, en í 32. gr. þeirra var að finna ákvæði um heimild kröfuhafa til skuldajafnaðar við þrotabú. Við síðustu tvær færslurnar höfðu hins vegar tekið gildi lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en 100. gr. þeirra laga hefur að geyma reglur um þetta efni. Ákvæði eldri og yngri laganna setja í meginatriðum sömu skilyrði fyrir heimild til skuldajafnaðar. Þannig þarf kröfuhafi að hafa eignast kröfu sína á hendur þrotamanni að minnsta kosti þrem mánuðum fyrir frestdag, hvorki vitað þá né mátt vita að þrotamaður átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna. Frestdagur í þrotabúi Niðursuðuverksmiðjunnar hf. mun hafa verið 14. október 1992. Hefur ákærði ekki vísað til neinna tiltekinna krafna, sem hann hafi eignast á hendur félaginu fyrir 14. júlí 1992 með því að leysa þær til sín með greiðslu til kröfuhafa. Þá var hann gerkunnugur fjárhag félagsins sem framkvæmdastjóri þess og síðar stjórnarformaður. Er þegar af þessum ástæðum ljóst að ákærða var óheimilt að fella niður eða lækka kröfu félagsins á hendur sér með skuldajöfnuði við ótilgreindar gagnkröfur, sem hann kann að hafa eignast á síðari stigum.
Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á með ákæruvaldi að ákærði hafi með ólögmætum gerðum sínum komið því til leiðar að eign Niðursuðuverksmiðjunnar hf., sem fólst í kröfu hennar á hendur honum, kæmi kröfuhöfum ekki að gagni og þannig rýrt fullnusturétt þeirra við gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Aðgerðaleysi skiptastjóra í þrotabúinu um að koma í veg fyrir tjón með því að hlutast til um að rifta þessum ráðstöfunum þykir ekki skipta hér máli. Sama gildir um þá varnarástæðu ákærða, að ákvörðun 16. mars 1992 hafi verið tekin af stjórn félagsins, en ekki honum einum, og að aðstoðarmaður í greiðslustöðvun og við nauðasamningstilraunir hafi heimilað þetta. Reynir hér ekki á ábyrgð annarra manna, eins og ákæru er háttað. Verður því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 4. tölulið 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 samkvæmt 2. lið I. kafla ákæru.
III.
Sakargiftir samkvæmt 1. lið II. kafla ákæru lúta að ætluðum brotum ákærða sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Útgerðarfélagsins Iðunnar hf. við skil á virðisaukaskatti í árslok 1993 og byrjun árs 1994. Styður ákærði kröfu sína um vísun þessa hluta málsins frá héraðsdómi þeim rökum, að skatturinn hafi allur verið greiddur samkvæmt þeim gögnum, sem fyrir liggja, auk þess að þau séu um margt óljós.
Meðal málsgagna er viðskiptayfirlit sýslumannsins á Ísafirði 14. maí 1998 um gjöld áðurnefnds félags á þeim árum, sem hér um ræðir, þar á meðal um virðisaukaskatt. Gætir verulegs ósamræmis milli þessa skjals og skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins 27. september 1996, sem tekur meðal annars til sama efnis. Sýnir fyrrnefnda skjalið mun lægri álagningu virðisaukaskatts á árinu 1993 en hið síðarnefnda, þar sem munar rúmlega einni milljón króna. Lætur nærri að innborganir á því ári samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra hefðu nægt til að greiða upp þá skattálagningu, sem fram kemur í yfirliti sýslumanns, en ekki hefur verið skýrt við meðferð málsins í hverju misræmi þetta liggur. Þá fæst ekki séð að endurgreiddur innskattur á árinu 1994 sé færður til lækkunar skattsins í yfirliti skattrannsóknarstjóra á því ári, en ákært er fyrir vanskil á öllum virðisaukaskatti janúar- og febrúarmánaða þessa árs án frádráttar. Að öllu virtu þykir þessi þáttur málsins ekki hafa verið skýrður með fullnægjandi hætti. Verður samkvæmt því ekki komist hjá að vísa þessum lið ákærunnar frá héraðsdómi.
IV.
Samkvæmt 2. lið II. kafla ákæru er ákærða gefið að sök að hafa á árunum 1994 og 1995 ekki staðið skil á fé, sem haldið var eftir af launum starfsmanna Útgerðarfélagsins Iðunnar hf. til staðgreiðslu opinberra gjalda. Styður ákærði kröfu sína um vísun þessa þáttar málsins frá héraðsdómi samsvarandi rökum og teflt hefur verið fram að því er aðra þætti þess varðar. Hefur ákæruvaldið við meðferð málsins fyrir Hæstarétti gert fullnægjandi grein fyrir þeim atriðum í málatilbúnaði þess, sem ákærði telur óljós eða að ófullnægjandi skýringar hafi fengist á. Er krafa um frávísun þessa þáttar málsins því haldlaus.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða af ákæruefnum í 2. lið II. kafla ákærunnar.
V.
Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að hluti þeirra brota, sem getið er í 2. lið II. kafla ákæru, var framinn eftir að lög nr. 42/1995 um breyting á refsiákvæðum nokkurra skattalaga tóku gildi, en með þeim voru meðal annars viðurlög við brotum á lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda hert til muna. Taka hin breyttu refsiákvæði til vanskila á gjöldum, sem voru á gjalddaga frá og með 1. apríl 1995, eða samtals 2.150.093 krónum. Nokkur hluti þessara brota var jafnframt framinn eftir gildistöku laga nr. 39/1995, sem breyttu 262. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar verður það virt til mildunar á refsingu, að langur tími leið frá því ákærði framdi brot, sem getið er í 2. lið I. kafla ákæru, þar til ákært var fyrir þá háttsemi. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún niður falla að liðnum tveimur árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Þá greiði ákærði sekt í ríkissjóð, sem verður samkvæmt framansögðu ákveðin 4.400.000 krónur. Vararefsing verður ákveðin með sama hætti og í dómi Hæstaréttar, uppkveðnum í dag í máli nr. 327/1998. Skal hún vera fangelsi í þrjá mánuði ef sektin greiðist ekki innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa.
Ákærði verður dæmdur til að greiða þrjá fimmtu hluta sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Eiríkur Brynjólfur Böðvarsson, sæti fangelsi í sex mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði 4.400.000 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í þrjá mánuði.
Ákærði greiði saksóknarlaun í ríkissjóð vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 180.000 krónur. Að öðru leyti greiði ákærði þrjá fimmtu hluta sakarkostnaðar á báðum dómstigum, þar á meðal af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns í héraði, Sigurðar A. Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, sem eru ákveðin samtals 150.000 krónur, og af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, sem eru ákveðin alls 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 12. júní 1998.
Ár 1998, föstudaginn 12. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Vestfjarða, sem háð er í dómsal embættisins að Hafnarstræti 1, Ísafirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara kveðinn upp dómur í málinu nr. S-17/1998: Ákæruvaldið gegn Eiríki Brynjólfi Böðvarssyni, sem dómtekið var 15. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi.
Málið höfðaði Ríkissaksóknari með ákæru dagsettri 4. mars 1998 á hendur ákærða, Eiríki Brynjólfi Böðvarssyni, framkvæmdastjóra, Urðarvegi 24, Ísafirði, kt. 091156-2459, fyrir eftirgreind auðgunarbrot og brot á skattalögum.
I.
Brot framin í rekstri Niðursuðuverksmiðjunnar hf., kennitala 480269-0989, Ísafirði, sem úrskurðuð var gjaldþrota 15. október 1992.
1. Fyrir fjárdrátt, með því að hafa, sem framkvæmdastjóri félagsins á árunum 1990 og 1991, dregið félaginu og notað í rekstur þess fé sem haldið hafði verið eftir við útborgun launa til starfsmanna félagsins til greiðslu á iðgjaldshluta þeirra til lífeyrissjóða samtals kr. 2.773.998, sem hann stóð ekki lögmælt skil á. Sundurliðast fjárhæðin sem hér greinir:
Lífeyrissjóður Vestfirðinga:
|
1990 |
|
|
|
|
Október |
kr. 109.795 |
|
|
|
Nóvember |
“ 209.284 |
|
|
|
Desember |
“ 197.198 |
kr. 516.277 |
|
|
1991 |
|
|
|
|
Janúar |
kr. 87.851 |
|
|
|
Apríl |
kr. 87.851 |
|
|
|
Maí |
“ 219.306 |
|
|
|
Júní |
“ 141.911 |
|
|
|
Júlí |
“ 364.283 |
|
|
|
Ágúst |
“ 277.686 |
|
|
|
September |
“ 214.316 |
kr. 1.543.409 |
kr. 2.059.686 |
|
Lífeyrissjóður sjómanna: |
|
|
|
|
1991 |
|
|
|
|
Apríl |
kr. 119.910 |
|
|
|
Maí |
“ 189.204 |
|
|
|
Júní |
“ 146.276 |
|
|
|
Júlí |
“ 201.872 |
|
|
|
Júlí |
“ 201.872 |
|
|
|
Ágúst |
“ 57.050 |
kr. 714.312 |
|
|
|
|
|
Samtals kr. 2.773.998 |
Telst þetta varða við 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
2. Fyrir skilasvik, með því að hafa, hinn 16. mars 1992, á stjórnarfundi í Niðursuðu-verksmiðjunni hf., sem hafði heimild til að leita nauðasamninga við lánardrottna sína á tímabilinu 10. mars til 23. júní 1992, samþykkt sem stjórnarformaður félagsins ásamt tveimur meðstjórnendum, að ákærði gerði upp ótilgreinda skuld sína við félagið með þeim hætti, að greiðslur hans sem ábyrgðarmanns á tilgreindri víxilskuld Niðursuðuverksmiðjunnar hf. að eftirstöðvum kr. 1.150.000 og á kr. 4.200.000 samkvæmt tilgreindu skuldabréfi útgefnu af Arnarvör hf., dótturfélagi Niðursuðuverksmiðjunnar hf., svo og á öðrum ótilgreindum kröfum sem hann hefði ábyrgst fyrir áðurgreind félög og þyrfti að greiða, miðað að því að viðskiptakrafa félagsins á hendur ákærða, sem við greinda samþykkt nam kr. 13.067.584, kæmi ekki lánardrottnum félagsins að gagni, og með því að hafa, þegar tilraunir til nauðasamninga höfðu mistekist og ákærða var ljóst að gjaldþrot félagsins vofði yfir, rýrt fullnusturétt kröfuhafa félagsins með eftirgreindum greiðslufærslum 30. júní og 11. júlí 1992 samtals kr. 14.672.003,40 til lækkunar á viðskiptareikningsskuld sinni við félagið, sem þá nam kr. 14.054.883.
30. júní 1992:
1. Kr. 4.000.000, samkvæmt ljósritum þriggja greiðslukvittana sýslumannsins á Ísafirði, öllum dagsettum 13. apríl 1992 fyrir skattskuldum Arnarvarar hf. sem hér greinir: Virðisaukaskattur kr. 1.686.820, tryggingagjald kr. 10.737 og staðgreiðsla opinberra gjalda kr. 2.302.443.
Kr. 240.000 samkvæmt kvittun lögfræðingadeildar Landsbanka Íslands, dagsettri 11.05.1992, til ákærða fyrir greiðslu víxilskuldar.
Kr. 2.876.893, samkvæmt innheimtubréfi lögmanns Íslandsbanka hf., Ísafirði, dagsettu 4.6.1992, vegna kröfu samkvæmt víxli að fjárhæð kr. 2.000.000, útgefnum 14.1.91 af Niðursuðuverksmiðjunni hf. og samþykktum til greiðslu af ákærða með gjalddaga 17.1.91.
11. júlí 1992:
1. Kr. 6.773.214.70 samkvæmt innheimtubréfi lögmanns Íslandsbanka hf., Ísafirði, dagsettu 11.6.92, vegna kröfu samkvæmt fjórum eftirgreindum víxlum, útgefnum af ákærða, en samþykktum til greiðslu af Niðursuðuverksmiðjunni hf.: kr. 500.000 með gjalddaga 4.4.91, kr. 500.000 með gjalddaga 11.4.91, kr. 3.000.000 með gjalddaga 8.8.91 og kr. 1.300.000 með gjalddaga 25.8.91.
Kr. 781.895.70 samkvæmt innheimtubréfi lögmanns Íslandsbanka hf., Ísafirði, dagsettu 6.6.92, vegna kröfu samkvæmt skuldabréfi, útgefnu 17. ágúst 1990 af Niðursuðuverksmiðjunni hf. með ábyrgð ákærða, upphaflega kr. 611.111.20.
Telst þetta varða við 4. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II.
Brot framin í rekstri Útgerðarfélagsins Iðunnar ehf., kennitala 591192-2059, Ísafirði, sem úrskurðað var gjaldþrota 30. október 1996.
1. Fyrir stórfelld brot á skattalögum, með því að hafa, sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins eigi staðið innheimtumanni ríkissjóðs skil á virðisaukaskatti, sem félagið hafði innheimt á árunum 1993 og 1994 samtals kr. 1.619.229 og sundurliðast sem hér greinir:
|
Árið 1993 |
|
|
|
Nóvember- desember |
kr. 1.136.805 |
|
|
- innborgun |
“ 533.712 |
kr. 603.093 |
|
Árið 1994 |
|
|
|
Janúar-febrúar |
|
kr. 1.016.136 |
|
|
|
Samtals kr. 1.619.229 |
Telst þetta varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 39, 1995 um breyting á þeim lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50, 1988 um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 42, 1995, sbr. áður 1. sbr. 6. mgr. laga nr. 50, 1988.
2. Fyrir stórfelld brot á skattalögum, með því að hafa sem framkvæmdastjóri og stjórnarformaður félagsins, eigi staðið innheimtumanni ríkissjóðs skil á kr. 3.965.173, sem haldið hafði verið eftir af launum starfsmanna félagsins til staðgreiðslu opinberra gjalda þeirra og sundurliðast þannig:
|
1994 September |
kr. 295.351 |
|
|
|
- innborgun |
“ 274.967 |
kr. 20.384 |
|
|
Október |
|
“ 252.740 |
|
|
Nóvember |
|
“ 192.219 |
|
|
Desember |
|
“ 360.253 |
kr. 825.596 |
|
1995 |
|
|
|
|
Janúar |
|
kr. 240.356 |
|
|
Febrúar |
|
“ 749.128 |
|
|
Apríl |
|
“ 387.973 |
|
|
Maí |
|
“ 101.863 |
|
|
September |
|
“ 191.850 |
|
|
Október |
|
“ 370.621 |
|
|
Nóvember |
|
“ 755.788 |
|
|
Desember |
|
“ 341.998 kr |
3.139.577 |
|
|
|
|
Samtals kr. 3.965.173 |
Telst þetta varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 39, 1995 um breyting á þeim lögum, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. lög nr. 42, 1995, sbr. áður 1. sbr. 7. mgr. 30. gr. laga nr. 45, 1987.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”
Ákærði heldur upp vörnum í málinu.
I. kafli ákæru.
Með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða uppkveðnum 15. október 1992 var bú Niðursuðuverksmiðjunnar hf. tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu stjórnar félagsins. Jón Sigfús Sigurjónsson héraðsdómslögmaður var skipaður skiptastjóri í þrotabúinu. Samkvæmt skrá skiptastjóra um lýstar kröfur í þrotabúið námu þær samtals krónum 357.096.683. Meðal lýstra krafna voru krafa Lífeyrissjóðs Vestfirðinga vegna vangreiddra lífeyrissjóðsiðgjalda starfsmanna Niðursuðuverksmiðjunnar hf. frá árunum 1990 til 1992, samtals að fjárhæð krónur 7.150.141 og krafa Lífeyrissjóðs sjómanna vegna vangreiddra lífeyrissjóðsiðgjalda frá árinu 1991, samtals að fjárhæð krónur 1.689.597. Kröfurnar voru samþykktar sem forgangskröfur í þrotabúið, en ekkert fékkst greitt upp í þær við skiptalok 26. maí 1995.
Með bréfi dagsettu 5. maí 1995 tilkynnti skiptastjóri Ríkissaksóknara um framangreindar kröfur í samræmi við fyrirmæli 84. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Vakti skiptastjóri athygli á því í bréfinu, að umrædd vanskil gætu gefið tilefni til rökstudds gruns um að fyrirsvarsmenn hlutafélagsins hefðu með refsiverðum hætti brotið gegn ákvæðum almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með bréfi dagsettu 15. maí 1995 framsendi Ríkissaksóknari bréf skiptastjóra til Rannsóknarlögreglu ríkisins með ósk um opinbera rannsókn á hendur fyrirsvarsmönnum félagsins vegna ætlaðra brota á 247. gr. almennra hegningarlaga. Sætti málið síðan rannsókn af hálfu RLR, sem lauk 26. maí 1997, en svo sem áður greinir var ákæra gefin út 4. mars 1998.
1. Ætlaður fjárdráttur.
Atvikalýsing.
Samkvæmt fundargerðum stjórnar Niðursuðuverksmiðjunnar hf. tók ákærði við stöðu framkvæmdastjóra félagsins 15. september 1982 og gegndi því starfi óslitið til 1. október 1991 er Stefán Jónsson tók við stöðunni. Ákærði sat jafnframt í stjórn félagsins ásamt föður sínum Böðvari Sveinbjarnarsyni og Jóni Guðlaugi Magnússyni, sem gegndi stjórnarformennsku. Munu hvorki Böðvar né Jón Guðlaugur hafa haft bein afskipti af rekstri félagsins á því tímabili, sem ákæra tekur til.
Ákærði viðurkenndi fyrir dómi, að hafa sem framkvæmdastjóri félagsins borið einn ábyrgð á daglegum rekstri, þar á meðal fjármálastjórn, mánuðina október til desember 1990 og janúar til og með maí 1991. Sökum erfiðleika í rekstri félagsins á greindu tímabili hefði Íslandsbanki, sem verið hefði stærsti kröfuhafi félagsins, móttekið allar greiðslur fyrir afurðaframleiðslu félagsins og skammtað því peninga inn á reikning til greiðslu á útborguðum hluta launa starfsmanna og til að halda rekstrinum gangandi. Félagið hefði ekki haft aðra fjármuni til ráðstöfunar og því hefði ákærði ekki getað staðið að fullu lögmælt skil á launatengdum gjöldum, þar með töldum 4% iðgjaldshluta starfsmanna til Lífeyrissjóðs Vestfirðinga og Lífeyrissjóðs sjómanna. Vorið 1991 hefði Íslandsbanki síðan í krafti stöðu sinnar krafist þess að ákærði viki úr starfi framkvæmdastjóra. Ákærði hefði látið af störfum um mánaðamót maí/júní 1991 og Stefán Jónsson viðskiptafræðingur, starfsmaður Endurskoðunar Gunnars Hjaltalín ehf. í Reykjavík, tekið við daglegri stjórn peningamála. Um leið hefði ákærði afsalað sér lyklavöldum að skrifstofu félagsins og hætt öllum afskiptum af daglegum rekstri. Einhverra hluta vegna hefði dregist að tilkynna um framkvæmdastjóraskiptin og geta þeirra í fundargerðum stjórnar. Ákærði kvaðst engu að síður ekki bera ábyrgð á vangoldnum iðgjöldum til lífeyrissjóðanna tveggja mánuðina júní til september 1991 og krafðist sýknu af þeim hluta 1. liðar I. kafla ákæru.
Vitnið Stefán Jónsson bar fyrir dómi, að það hefði verið búið að starfa um alllangt skeið hjá Endurskoðun Gunnars Hjaltalín ehf. og hefði haft málefni Niðursuðuverksmiðjunnar hf. á sinni könnu. Vitnið hefði fylgst grannt með vaxandi samskiptaörðugleikum ákærða og fyrirsvarsmanna Íslandsbanka og í samráði við báða aðila fallist á að taka að sér daglega stjórnun Niðursuðuverksmiðjunnar, sem framkvæmdastjóri. Um leið hefði ákærði stigið niður og ekki skipt sér frekar af daglegum rekstri. Vitnið kvað framkvæmdastjóraskiptin hafa farið fram miðað við mánaðamót júní/júlí 1991. Vitnið hefði sinnt starfi framkvæmdastjóra félagsins fram í desember 1991, en þá hefðu Sölusamtök lagmetis verið komin inn í rekstur félagsins og vitnið því talið að sín væri ekki lengur þörf. Vitnið mundi ekki hvort gengið hefði verið formlega frá ráðningu þess sem framkvæmdastjóra.
Guðmundur Hólm Indriðason annaðist launaútreikning og bókhald Niðursuðuverksmiðjunnar hf. á því tímabili, sem 1. liður I. kafla ákæru tekur til. Vitnið bar fyrir dómi, að ákærði hefði gengið út úr fyrirtækinu einhvern tíma árs 1991 og Stefán Jónsson tekið við daglegri stjórn félagsins. Vitnið mundi ekki hvenær árs þetta hefði verið.
Vitnið Jón Guðlaugur Magnússon bar með líkum hætti, sem og vitnið Guðrún Ó. Guðmundsdóttir, fyrrverandi skrifstofumaður hjá Niðursuðuverksmiðjunni hf.
Álit réttarins.
Með afdráttarlausri játningu ákærða, sem stoð fær í öðrum gögnum málsins, er sannað að ákærði hafi, sem framkvæmdastjóri Niðursuðuverksmiðjunnar hf., borið ábyrgð á daglegum rekstri félagsins, þar á meðal fjárreiðum, mánuðina október til desember 1990 og janúar til maí 1991. Á greindu tímabili bar ákærða því skylda samkvæmt 2. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda til að halda eftir af launum starfsmanna félagsins 4% iðgjaldshluta þess til þeirra lífeyrissjóða, sem tilgreindir eru í 1. lið I. kafla ákæru og standa viðkomandi lífeyrissjóðum skil á honum. Með því að standa ekki lögboðin skil á umræddum iðgjöldum, samtals krónur 1.061.490 til Lífeyrissjóðs Vestfirðinga og samtals krónur 309.114 til Lífeyrissjóðs sjómanna, heldur hagnýta sér féð í rekstur félagsins, notfærði ákærði sér fjármuni, sem hann hafði í vörslum sínum, en átti ekki. Varðar sú háttsemi við 1. mgr. 247. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Með hliðsjón af vætti Stefáns Jónssonar er ljóst, að ákærði gegndi ekki starfi framkvæmdastjóra félagsins til 1. október 1991, eins og fundargerðir stjórnar félagsins bera með sér. Einnig er ljóst af vætti Stefáns og framburði ákærða að ákærði hafi hætt daglegum afskiptum af rekstri félagsins eigi síðar en 1. júlí 1991 og Stefán þá tekið við stöðu framkvæmdastjóra. Af framburði ákærða og vætti Stefáns og annarra vitna, sem leidd voru um þetta atriði við dómsmeðferð málsins, verður hins vegar engu slegið föstu um það hver staða ákærða innan fyrirtækisins hafi verið í júní 1991. Ber að virða þann vafa ákærða í hag. Samkvæmt framanrituðu og með skírskotun til 45. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að sýkna ákærða af ætluðum fjárdrætti á iðgjöldum til lífeyrissjóðanna tveggja fyrir tímabilin júní, júlí, ágúst og september 1991, en samtals nema þau krónum 1.403.394.
2. Ætluð skilasvik.
Atvikalýsing.
Samkvæmt því sem áður er rakið verður við það að miða, að ákærði hafi hætt daglegum afskiptum af rekstri Niðursuðuverksmiðjunnar hf. um mánaðamót maí/júní 1991. Í kjölfar þess tók Stefán Jónsson við starfi framkvæmdastjóra. Á stjórnarfundi 1. október 1991 var getið um framkvæmdastjóraskiptin. Jafnframt var fært til bókar, að ákærði tæki frá sama tíma við stjórnarformennsku í félaginu af Jóni Guðlaugi Magnússyni. Voru ákærða þá falin margvísleg störf, sem miða áttu að fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins, m.a. í samvinnu við Tryggva Agnarsson héraðsdómslögmann, sem ráðinn hafði verið 14. september 1991 til að koma nýrri skipan á fjármál félagsins.
Með úrskurði skiptaréttar Ísafjarðar 3. október 1991 var félaginu veitt heimild til greiðslustöðvunar í tvo mánuði. Heimildin var framlengd 4. desember 1991 til tveggja mánaða og aftur 5. febrúar 1992 til eins mánaðar. Á greiðslustöðvunartímabilinu naut félagið aðstoðar Tryggva Agnarssonar héraðsdómslögmanns.
Með bréfi lögmannsins frá 3. mars 1992 var óskað eftir heimild skiptaréttar Ísafjarðar til að leita nauðasamnings við lánardrottna félagsins. Heimild var veitt með úrskurði skiptaréttar 10. mars 1992.
Á fundi, sem haldinn var 16. mars 1992, samþykkti stjórn Niðursuðuverksmiðjunnar hf., að ótilgreind skuld ákærða á viðskiptareikningi yrði gerð upp með þeim hætti, að ákærði yfirtæki víxilskuld við Landsbanka Íslands, upphaflega að fjárhæð krónur 650.000, en að eftirstöðvum krónum 1.150.000, sem félagið var greiðandi að og ákærði ábekingur. Jafnframt yfirtæki ákærði 4.200.000 króna skuld við OLÍS. Til frádráttar á skuld ákærða skyldu hins vegar dragast ótilgreindar kröfur, sem hann hefði ábyrgst fyrir Niðursuðuverksmiðjuna hf. og dótturfyrirtækið Arnarvör hf. og ákærði þyrfti ella að greiða. Við gerð nefndrar samþykktar nam bókfærð viðskiptakrafa félagsins á hendur ákærða krónum 13.067.584.
Á fundi skiptaréttar Ísafjarðar með kröfuhöfum vegna nauðasamningsumleitana Niðursuðuverksmiðjunnar hf., sem haldinn var 2. júní 1992, var ákveðið að fresta atkvæðagreiðslu um fyrirliggjandi frumvarp til nauðasamnings að beiðni ákærða og Tryggva Agnarssonar og boðað til nýs fundar 23. júní s.á. Áður en til þess fundar kom gerðist það hinn 22. júní, að ákærði reit skiptarétti bréf og tilkynnti ákvörðun stjórnar félagsins, tekna sama dag, að afturkalla beiðni félagsins um heimild til að leita nauðasamnings, þar sem ekki hefði tekist að útvega nauðsynlegt fjármagn til að efna samningsfrumvarpið. Þá segir í bréfinu, að stjórn félagsins muni í vikunni taka ákvörðun um það hvort leitað verði gjaldþrotaskipta fyrir félagið. Daginn eftir var fært til bókar í skiptarétti, að nauðasamningsumleitunum Niðursuðuverksmiðjunnar hf. væri lokið.
Á fundi stjórnar félagsins 8. október 1992 var ákærða falið að krefjast gjaldþrotaskipta á búi félagsins. Krafa var lögð fram í Héraðsdómi Vestfjarða 14. október og bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta næsta dag.
Ákærði viðurkenndi fyrir dómi, að hafa meðan á nauðasamningstímabili stóð samkvæmt framanröktu (10. mars - 23. júní 1992) samþykkt, sem stjórnarformaður Niðursuðuverksmiðjunnar hf., að ótilgreind skuld hans á viðskiptareikningi yrði gerð upp með framangreindum hætti. Í skjóli nefndrar samþykktar frá 16. mars 1992 hefði hann síðan, eftir að heimild til nauðasamningsumleitana lauk, tvívegis falið bókara félagsins, Guðrúnu Ó. Guðmundsdóttur, annars vegar 30. júní 1992 og hins vegar 11. júlí 1992, að færa greiðslur þær sem tilgreindar eru í 2. lið I. kafla ákæru, samtals krónur 14.672.003, til lækkunar á viðskiptareikningsskuld hans, sem þá hefði numið krónum 14.054.883. Ákærði réttlætti umræddar greiðslufærslur með því að stjórn félagsins og tilsjónarmanni á nauðasamnningstímabilinu, Tryggva Agnarssyni héraðsdómslögmanni, hefði þótt sanngjarnt og réttmætt, að ákærði skuldajafnaði eðlilegum kröfum sínum á hendur félaginu á móti kröfum félagsins á hendur honum. Að öðrum kosti hefði verið unnt að sækja kröfur félagsins á hendur ákærða, en slíkt hefði verið fáránlegt að mati ákærða og stjórnar, þar sem hann hefði átt þrisvar til fjórum sinnum hærri kröfur á hendur félaginu. Ákærði skýrði þetta nánar með þeim hætti, að bókfærð skuld á viðskiptareikningi hans hefði að verulegum hluta verið til komin vegna ýmissa útgjalda félagsins, sem kvittanir hefðu glatast fyrir. Slíkar greiðslur hefðu um langt árabil safnast sem skuld á reikningi ákærða, þótt þær væru honum persónulega óviðkomandi. Við gerð nefndrar samþykktar hefði bókfærð skuld því ekki verið talin skipta máli, enda hefðu greiddar ábyrgðir ákærða vegna félagsins verið að miklum mun hærri, eða allt að 35-40.000.000 króna. Ákærði kvaðst því fráleitt hafa auðgast á greiðslufærslunum frá 30. júní og 11. júlí 1992 og benti á að vegna greiðslna sinna á kröfum lánardrottna á hendur félaginu hefði fjárhæð lýstra krafna í þrotabú félagsins orðið lægri. Með umræddum millifærslum hefði aðeins vakað fyrir honum að komast hjá því að greiða tvívegis sömu kröfur lánardrottna á hendur félaginu, en slíkt hefði steypt honum í persónulegt gjaldþrot. Að lokum hefði þó farið svo, að ákærði hefði greitt um 15.000.000 króna vegna þeirra krafna á hendur félaginu, sem lýst sé í 2. lið I. kafla ákæru. Ákærði kvað enga leynd hafa hvílt yfir greindum millifærslum og benti á að við skýrslugjöf fyrir dómi 16. október 1992 hefði hann skýrt skiptastjóra frá þeim. Skiptastjóri hefði þó ekki talið ástæðu til að höfða riftunarmál. Í ljósi framanritaðs neitaði ákærði sakargiftum samkvæmt 2. lið I. kafla ákæru.
Jón Guðlaugur Magnússon var stjórnarformaður Niðursuðuverksmiðjunnar hf. frá 1974 til 1. október 1991 og sat í stjórn félagsins fram til 15. október 1992. Vitnið kvað stjórnendur Niðursuðuverksmiðjunnar hafa vitað í ársbyrjun 1992, að ákærði væri í miklum persónulegum ábyrgðum fyrir félagið. Vitnið kvaðst hvorki muna um hversu háar fjárhæðir hefði verið að ræða né heldur hve há bókfærð skuld á viðskiptareikningi ákærða hefði verið. Stjórninni hefði hins vegar verið ljóst, að stærstan hluta þeirrar skuldar hefði mátt rekja til útlagðs kostnaðar ákærða vegna rekstrar félagsins og kæruleysis ákærða að halda utan um fylgiskjöl. Jafnframt hefði stjórninni verið ljóst, að á ákærða myndu falla verulegar skuldir félagsins. Stjórninni hefði því þótt eðlilegt að koma til móts við ákærða með þeim hætti, sem gert var í samþykktinni frá 16. mars. Vitnið kvað ákvörðun stjórnarinar ekki hafa snúist um að bjarga ákærða heldur aðeins að reyna að tryggja framtíð félagsins. Vitnið kvaðst ekki hafa fylgst með því hvenær og hvernig samþykktin kom til framkvæmda.
Vitnið Tryggvi Agnarsson héraðsdómslögmaður bar með líkum hætti um fjárhagsstöðu ákærða á greindum tíma. Vitnið kvað líklegt, að leitað hefði verið álits hjá sér fyrir gerð samþykktarinnar 16. mars 1992, en um hefði verið að ræða ,,augljóslega ívilnandi ráðstöfun” ákærða til hagsbóta. Vitnið minnti að á greindum tíma hefði það talið orka tvímælis hvort ákærða væri heimill skuldajöfnuður gagnvart félaginu, en í ljósi alvarlegrar fjárhagsstöðu ákærða og annarra stjórnarmanna vegna skuldbindinga í þágu félagsins hefði verið ákveðið að láta reyna á ætlaða skuldajafnaðarheimild. Vitnið kvaðst ekki hafa fylgst með því hvernig ákærði hefði staðið að nefndum skuldajöfnuði, en benti á að skiptastjóri í þrotabúi félagsins hefði síðar ekki hreyft athugasemdum við honum. Vitnið kvaðst telja að þrotabúið hefði ekki skaðast af umræddum greiðslufærslum, enda hefðu persónulegar ábyrgðir ákærða vegna félagsins verið slíkar, að krafa þrotabúsins á hendur honum vegna þeirra hefði verið einskis virði.
Vitnið Guðmundur Hólm Indriðason bar fyrir dómi, að það hefði annast bókhald Niðursuðuverksmiðjunnar hf. frá 1985 til haustsins 1991 er Guðrún Ó. Guðmundsdóttir hefði tekið við því starfi. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað um greiðslufærslurnar 30. júní og 11. júlí 1992 og ekki hafa vitað um skuldastöðu ákærða samkvæmt viðskiptareikningi á árinu 1992. Vitnið kvaðst hins vegar fyrir þann tíma oftsinnis hafa skuldfært á reikning ákærða ýmsar óvissar kröfur, ýmist að fyrirlagi ákærða eða vegna þess að vitnið hefði ekki vitað hverjum bæri að greiða kröfurnar. Hefði slíkt þá verið hugsað til bráðabirgða, enda hefði viðskiptareikningur ákærða verið notaður um árabil sem ,,ruslakista” þegar fylgiskjöl vantaði og hefði vitnið búist við að ákærði myndi leiðrétta færslurnar síðar.
Vitnið Stefán Jónsson bar fyrir dómi, að það hefði talið bókfærða skuld á viðskiptareikningi ákærða hjá Niðursuðuverksmiðjunni hf. vera ranga, enda hefði ákærði oft greitt reikninga fyrir félagið úr eigin vasa og ekki haldið kvittunum og reikningum til haga, svo að leiðrétta mætti bókhaldið síðar.
Vitnið Guðrún Ó. Guðmundsdóttir staðfesti fyrir dómi, að það hefði annast bókhald Niðursuðuverksmiðjunnar hf. frá hausti 1991 fram til gjaldþrots félagsins 15. október 1992 og að beiðni ákærða bókað þær greiðslufærslur, sem tilgreindar eru í 2. lið I. kafla ákæru. Vitnið kvaðst ekki muna hvernig skuld ákærða á viðskiptareikningi hefði stofnast og heldur ekki hvernig umræddur reikningur hefði verið notaður hjá fyrirtækinu.
Auk framangreindra vitna komu fyrir dóm við aðalmeðferð máls Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn, sem stýrði lögreglurannsókn málsins, og Jón Sigfús Sigurjónsson héraðsdómslögmaður, skiptastjóri í þrotabúi Niðursuðuverksmiðjunnar hf. Síðargreint vitni kvað hina ætluðu viðskiptaskuld ákærða gagnvart þrotabúinu ekki hafa verið meðal eigna búsins meðan á skiptameðferð stóð og því hefði hún ekki verið meðhöndluð sem slík. Vitnið kvað skiptum hafa verið lokið í þrotabúinu er það frétti fyrst að ætluð viðskiptaskuld ákærða hefði verið strikuð út með skuldajöfnuði. Hefði vitnið ákveðið að aðhafast ekkert í málinu.
Álit réttarins.
Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sem tóku gildi 1. júlí 1992, er viðurkenndur víðtækur réttur kröfuhafa til að skuldajafna gagnkröfu sinni á hendur þrotabúi við aðalkröfu þrotabúsins á hendur kröfuhafanum. Skilyrði slíks skuldajafnaðar eru, að kröfuhafinn hafi eignast kröfu sína áður en þrír mánuðir voru til frestdags, að hann hafi hvorki vitað né mátt vita að þrotamaður átti ekki fyrir skuldum og að hann hafi ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag. Samsvarandi regla gilti í tíð eldri gjaldþrotaskiptalaga nr. 6/1978.
Ákærði var eins og áður segir stjórnarformaður Niðursuðuverksmiðjunnar hf. frá 1. október 1991 til 15. október 1992 er bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Þar áður gegndi hann starfi framkvæmdastjóra um langt árabil. Er ljóst af gögnum málsins, að ákærða var kunnugt um verulega fjárhagsörðugleika félagsins þegar á árinu 1991 og að allar tilraunir til að koma nýrri skipan á fjármál félagsins frá hausti 1991 fram á sumar 1992 höfðu mistekist. Því til stuðnings nægir að benda á fyrrgreint bréf ákærða til skiptaréttar Ísafjarðar frá 22. júní 1992, þar sem beiðni félagsins um heimild til að leita nauðasamnings var afturkölluð vegna þess að ekki hafði tekist að útvega fjármagn til að efna fyrirliggjandi samningsfrumvarp.
Samkvæmt framanröktu hlaut ákærða að vera ljóst, að félagið átti ekki fyrir skuldum og að gjaldþrot vofði yfir þegar ákærði lagði fyrir bókara félagsins dagana 30. júní og 11. júlí 1992 að greiðslufæra þær kröfur, sem tilgreindar eru í 2. lið I. kafla ákæru til lækkunar á viðskiptareikningsskuld ákærða við félagið. Verður því ekki fallist á að ákærða hafi verið heimill skuldajöfnuður á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti.
Af framburði ákærða og vætti vitna verður ráðið, að ákærði hafi síðustu ár fyrir gjaldþrot félagsins greitt kröfur á hendur félaginu með eigin fé sínu. Óljóst er hins vegar hverjar þær greiðslur voru og hvort með þeim hafi stofnast endurkröfuréttur á hendur félaginu. Hitt er ljóst, að eftir að tilraunir ákærða og annarra fyrirsvarsmanna félagsins til nauðasamnings höfðu mistekist mátti ákærði vita, að ef til gjaldþrots félagsins kæmi yrði hann krafinn um greiðslu vegna þeirra ábyrgða, sem hann hafði tekist á hendur fyrir félagið. Með umræddum ráðstöfunum 30. júní og 11. júlí 1992, sem telja verður óeðlilegar í því ljósi, skerti ákærði rétt annarra lánardrottna til að öðlast fullnægju af eignum félagsins við gjaldþrot og olli þannig verulegri fjártjónshættu. Varðar greind háttsemi ákærða við 4. tl. 1. mgr. 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II. kafli ákæru.
Atvikalýsing.
Með bréfi dagsettu 17. janúar 1997 lagði Skattrannsóknarstjóri ríkisins fram kæru til RLR á hendur fyrirsvarsmönnum Útgerðarfélagsins Iðunnar ehf. Var þá nýlega lokið athugun skattrannsóknarstjóra á skuldastöðu félagsins, sem leitt hafði í ljós verulega skuld félagsins á afdreginni staðgreiðslu opinberra gjalda og innheimtu virðisaukaskatts fyrir rekstrarárin 1993 til 1995. Félagið, sem stofnað var 13. nóvember 1992, hætti rekstri í desember 1995. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 30. október 1996. Opinberri rannsókn á skattskilum félagsins lauk 3. febrúar 1998, en svo sem fyrr greinir var ákæra gefin út 4. mars s.á.
Ákærði viðurkenndi við rannsókn og meðferð málsins að hafa sem stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi útgerðarfélagsins Iðunnar ehf. borið ábyrgð á daglegri stjórnun félagsins, þar á meðal fjármálastjórn, á þeim tíma, sem tilgreindur er í II. kafla ákæru. Ákærði kvað félagið frá stofnun hafa innheimt lögmæltan virðisaukaskatt og staðið skil á virðisaukaskattskýrslum og sundurliðuðum skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda. Þau gögn hefðu öll verið byggð á bókhaldi félagsins og verið í fullu samræmi við það. Sökum erfiðleika í rekstri félagsins hefðu ekki verið til fjármunir til að standa skil á umræddum vörslusköttum á lögmæltum gjalddögum. Ákærði kvað vangoldinn, skilaskyldan virðisaukaskatt og vangoldna, afdregna staðgreiðsluskatta réttilega tilgreinda í ákæru. Hann kvaðst hins vegar vera ósáttur við að innborganir frá félaginu hefðu ekki verið færðar að fullu til lækkunar á höfuðstól nefndra skattskulda, heldur fyrst verið varið til greiðslu á dráttarvöxtum og álögum. Ákærði kvaðst á greindum tíma þó ekki hafa hreyft athugasemdum við Sýslumanninn á Ísafirði sem innheimtumann ríkissjóðs vegna þessa og aldrei hafa beðið innheimtumann að ráðstafa innborgunum beint upp í höfuðstól.
Álit réttarins.
Samkvæmt 24. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt bar ákærða, sem framkvæmdastjóra og stjórnarformanni Útgerðarfélagsins Iðunnar ehf., skylda til að greiða ótilkvaddur allan innheimtan virðisaukaskatt fyrir uppgjörstímabil nóvember-desember 1993 eigi síðar en 5. febrúar 1994 og fyrir uppgjörstímabil janúar-febrúar 1994 eigi síðar en 5. apríl það ár, sbr. 1. liður II. kafla ákæru. Umrætt lagaákvæði verður ekki túlkað á annan veg en að í því felist fortakslaus skylda til greiðslu fjárins á lögmæltum gjalddögum, enda heimila hvorki önnur ákvæði laganna né reglugerða settra samkvæmt þeim frávik frá þeirri reglu.
Með líkum hætti bar ákærða, sem framkvæmdastjóra útgerðarfélagsins og launagreiðanda í skilningi laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, að halda eftir opinberum gjöldum af launum starfsmanna félagsins á þeim greiðslutímabilum, sem tilgreind eru í 2. lið II. kafla ákæru og standa mánaðarlega ótilkvaddur skil á því fé til innheimtumanns ríkissjóðs samkvæmt reglum 15., 16. og 20. gr. laganna.
Samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 42/1995, er refsivert, að skattskyldur aðili afhendi ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatt, sem hann hefur innheimt. Í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, er með samsvarandi hætti lýst refsivert, að skilaskyldur aðili afhendi ekki á lögmæltum tíma staðgreiðslu opinberra gjalda, sem hann hefur haldið eftir. Eftir þessu verður unnið til refsingar með því einu að láta ógert að skila umræddum gjöldum í ríkissjóð á tilskildum tíma. Af framburði ákærða fyrir dómi, sem styðst við önnur gögn málsins, er ljóst að hann ákvað að Útgerðarfélagið Iðunn ehf. léti hjá líða að standa á réttum tíma skil á umræddum gjöldum í ríkissjóð. Þegar af þeirri ástæðu telst hér fullnægt þeim huglægu refsiskilyrðum, sem leidd verða af upphafsorðum tilvitnaðra lagaákvæða, sbr. dómar Hæstaréttar í málum nr. 344/1996 og nr. 83/1997. Ber samkvæmt því að sakfella ákærða fyrir háttsemi þá, sem lýst er í II. kafla ákæru.
Brot ákærða eru í ákæru réttilega talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 39/1995 um breyting á þeim lögum, annars vegar sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995, sbr. áður 1. sbr. 6. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, og hins vegar sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 42/1995, sbr. áður 1. sbr. 7. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987. Brot ákærða á síðastgreindum lögum eru einungis að hluta til framin eftir gildistöku laga nr. 42/1995 þann 9. mars 1995 og gildistöku laga nr. 39/1995 þann 1. júlí 1995. Verður litið til þess við ákvörðun refsingar, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Refsing og önnur viðurlög.
Fallist er á með ákæruvaldinu, að brot ákærða á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda séu stórfelld í skilningi 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Segir í 1. mgr. téðrar lagagreinar, eins og henni var breytt með lögum nr. 39/1995, að fyrir stórfelld brot á nefndum skattalögum skuli refsa með varðhaldi eða fangelsi allt að sex árum. Jafnframt er heimilt að dæma fésekt að auki samkvæmt ákvæðum nefndra skattalaga.
Ákærði er ekki aðeins sakfelldur fyrir stórfelld skattalagabrot, heldur einnig fyrir fjárdrátt og skilasvik, sem eru auðgunarbrot og geta hvort fyrir sig varðað allt að sex ára fangelsi. Með hliðsjón af því og skírskotun til ákvæða 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kemur hér ekki til álita að dæma ákærða sekt jafnframt refsivist.
Við ákvörðun refsingar ber annars að líta til þess, að með greiðum framburði við rannsókn og meðferð málsins lagði ákærði sitt af mörkum til að brot hans yrðu upplýst. Ákærði gerði sér einnig far um að bæta úr skaðlegum afleiðingum brotanna, m.a. með margra milljóna króna greiðslum eftir gjaldþrot Niðursuðuverksmiðjunnar hf. vegna ábyrgða, sem hann hafði tekist á hendur fyrir hlutafélagið og skilum á vangoldnum vörslusköttum tengdum rekstri Útgerðarfélagsins Iðunnar ehf., eftir gjaldþrot félagsins. Þá ber að horfa til þess, að engin leynd hvíldi yfir auðgunarbrotunum, óvíst er hvert tjón hefur orðið af þeim og langt er um liðið frá framningu þeirra. Loks þykir mega líta til þess, að vegna framangreindra ábyrgða er ákærði enn í dag skuldum vafinn og hefur þó fyrir sex manna fjölskyldu að sjá.
Samkvæmt framanröktu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi níu mánuði. Eftir atvikum þykir mega ákveða að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún niður falla að liðnum tveimur árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Samkvæmt 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Eru þar með talin 150.000 króna málsvarnarlaun Sigurðar A. Þóroddssonar héraðsdómslögmanns, skipaðs verjanda ákærða við rannsókn og meðferð málsins, og 100.000 króna saksóknarlaun í ríkissjóð, en Sigríður Jósefsdóttir saksóknari flutti málið af hálfu ákæruvalds.
Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur ekki verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Vegna anna héraðsdómara hefur uppkvaðning dóms dregist nokkuð.
Dómsorð:
Ákærði, Eiríkur Brynjólfur Böðvarsson, sæti fangelsi níu mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin 100.000 króna saksóknarlaun í ríkissjóð og 150.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda, Sigurðar A. Þóroddssonar héraðsdómslögmanns.