Hæstiréttur íslands
Mál nr. 17/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Gagnkvæmur samningur
- Sértökuréttur
- Réttindaröð
- Kröfugerð
- Dráttarvextir
|
|
Mánudaginn 25. febrúar 2013. |
|
Nr. 17/2013.
|
Kaupþing hf. (Anton B. Markússon hrl.) gegn The Bank of Tokyo-Mitsubishi UFJ Ltd. (Oddgeir Einarsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Gagnkvæmur samningur. Sértökuréttur. Réttindaröð. Kröfugerð. Dráttarvextir.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem viðurkennd var krafa B Ltd. samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit fjármálafyrirtækisins K hf. Krafan var til komin vegna framvirks samnings aðila um gjaldeyrisviðskipti en samkvæmt honum áttu aðilar að afhenda hvor öðrum tilgreindar fjárhæðir í erlendum gjaldeyri 9. október 2008. Aðfaranótt þess dags var K hf. skipuð skilanefnd og ákvað hún þá þegar að engar greiðslur skyldu fara frá K hf. án samþykkis hennar. Af þessum sökum stóð K hf. ekki við áðurnefndan samning aðila þótt B Ltd. efndi hann fyrir sitt leyti árla morguns 9. október 2008. Krafðist B Ltd. því skila á fjárhæðinni sem innt hafði verið af hendi samkvæmt samningnum. Í dómi Hæstaréttar kom fram að þegar K hf. var skipuð skilanefnd hefði mátt leggja réttarstöðu aðila að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi K hf. Með vísan til 95. gr. laga nr. 21/1991 hefði K hf. því ekki átt annan kost en að verða við kröfu B Ltd. um skil á fjárhæðinni sem B Ltd. hafði innt af hendi. Eðli máls samkvæmt yrði að leggja slíka kröfu að jöfnu við kröfu um skil á eign í vörslum þrotabús samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Var því viðurkennt að krafa B Ltd. nyti stöðu í réttindaröð samkvæmt því lagaákvæði. Að gættu gildissviði laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu var aftur á móti hafnað kröfu B Ltd. um dráttarvexti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. janúar 2013. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2012, þar sem viðurkennd var krafa varnaraðila að fjárhæð 47.512.950 bandaríkjadalir við slit sóknaraðila með stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Enn fremur var viðurkennd krafa varnaraðila um dráttarvexti af þeirri fjárhæð samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. október 2008 til 22. apríl 2009 og að hún nyti stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Þá voru kröfur varnaraðila um dráttarvexti af sömu fjárhæð frá 22. apríl 2009 til greiðsludags og um gengismun að fjárhæð kröfunnar viðurkenndar með stöðu í réttindaröð samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991, en kröfu hans um innheimtukostnað hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfum varnaraðila verði hafnað, en til vara að þær verði viðurkenndar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 28. desember 2012. Hann krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, að öðru leyti en því að viðurkennt verði að krafa sín um dráttarvexti frá 22. apríl 2009 til greiðsludags njóti rétthæðar samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991 ásamt kröfu um innheimtukostnað að fjárhæð 473.311,91 evra, 863.959,20 bandaríkjadalir og 70.314,89 sterlingspund. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.
Eftir uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms hefur heiti sóknaraðila verið breytt úr Kaupþingi banka hf. í Kaupþing hf.
Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 12. febrúar 2013.
I
Samkvæmt gögnum málsins eru atvik þess í stuttu máli þau að 22. september 2008 gerðu aðilar með sér framvirkan samning um gjaldeyrisviðskipti. Samkvæmt honum skyldu þeir kaupa og selja hvor öðrum bandaríkjadali og japönsk jen, annars vegar 25. september 2008 og hins vegar 9. október sama ár. Fyrri hluti samningsins var efndur eftir efni sínu, en samkvæmt síðari hluta hans átti varnaraðili að afhenda sóknaraðila 50.000.000 bandaríkjadali og sóknaraðili að afhenda varnaraðila 5.325.000.000 japönsk jen.
Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið aðfaranótt 9. október 2008 yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Strax í kjölfarið tók nefndin þá ákvörðun að engar greiðslur í erlendum gjaldeyri myndu eiga sér stað af hendi sóknaraðila án samþykkis hennar. Að morgni sama dags, klukkan 7.01, tilkynnti starfsmaður sóknaraðila með tölvubréfi, sem barst starfsmönnum greiðslumiðlunar og bakvinnslu sóknaraðila, að engar slíkar greiðslur yrðu inntar af hendi. Skömmu síðar millifærði varnaraðili 50.000.000 bandaríkjadali til sóknaraðila í samræmi við fyrrgreindan samning um gjaldeyrisviðskipti. Greiðslan fór fram með þeim hætti að féð var millifært af reikningi í eigu varnaraðila yfir á reikning í eigu sóknaraðila hjá JP Morgan Chase Bank í New York klukkan 7.48 að íslenskum tíma. Á hinn bóginn stóð sóknaraðili ekki við þá skyldu sína samkvæmt samningnum að afhenda varnaraðila 5.325.000.000 japönsk jen.
Varnaraðili krafðist þess í upphafi að sóknaraðili stæði skil á síðastnefndu fjárhæðinni samkvæmt samningi þeirra. Þegar það gekk ekki eftir krafðist varnaraðili þess með bréfi til sóknaraðila 10. október 2008 að þeim 50.000.000 bandaríkjadölum, sem hann hafði afhent daginn áður, yrði skilað til baka. Reisti varnaraðili þessa kröfu á því að hann ætti eignarréttarlegt tilkall til fjárins. Í framhaldinu freistaði varnaraðili þess að knýja kröfu sína á hendur sóknaraðila fram í Bandaríkjunum, meðal annars fyrir þarlendum dómstólum, og lauk þeim málaferlum með því, eins og rakið er í hinum kærða úrskurði, að aðilar gerðu með sér samkomulag í mars 2010. Þar skuldbatt varnaraðili sig til þess að falla frá kröfu til 2.487.050,28 bandaríkjadala, sem eftir stóðu á reikningi sóknaraðila hjá JP Morgan Chase Bank í New York, gegn því að sóknaraðili greiddi sér 1.950.000 bandaríkjadali. Með þessu féllst varnaraðili á að lækka kröfu sína á hendur sóknaraðila um 2.487.050,28 bandaríkjadali.
Eftir að lögum nr. 161/2002 hafði verið breytt með lögum nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009, var sóknaraðila skipuð slitastjórn sem gaf út innköllun til kröfuhafa. Varnaraðili lýsti kröfu á hendur sóknaraðila 29. desember 2009 um skil á 50.000.000 bandaríkjadölum. Í kröfulýsingu varnaraðila var grundvöllur fyrir þeirri kröfugerð sagður sá að sóknaraðili væri skuldbundinn til að skila (á ensku return) varnaraðila umræddri fjárhæð í samræmi við 109. gr. laga nr. 21/1991. Ætti hann fullan rétt til fjármunanna og bæri sóknaraðila að skila þeim þar sem varnaraðili væri réttur eigandi þeirra. Enn fremur var tekið fram í kröfulýsingunni að varnaraðili hefði orðið fyrir tjóni í tengslum við endurheimtu (recovery) á fjármunum sínum og bæri sóknaraðila að bæta það tjón. Krafa varnaraðila skyldi teljast eignarréttarleg krafa (proprietary claim) og njóta stöðu í samræmi við 109. gr. laga nr. 21/1991. Að auki krafðist varnaraðili dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, en til vara vaxta eftir 10. gr. sömu laga, frá 9. október 2008 til 22. apríl 2009. Enn fremur bóta fyrir nánar tilgreindan kostnað sem hann hafi haft af því að halda fram rétti sínum til fjármunanna gagnvart sóknaraðila til 22. apríl 2009. Var þess krafist að þessar kröfur nytu stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991. Einnig krafðist varnaraðili dráttarvaxta af höfuðstól frá 23. apríl 2009 til greiðsludags og bóta fyrir innheimtukostnað frá sama tíma og að þær kröfur yrðu viðurkenndar „sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga ... nr. 21/1991.“ Loks gerði varnaraðili kröfu um gengismun, ef kröfur hans yrðu umreiknaðar í íslenskar krónur, og að krafan yrði „viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 109. gr.“ sömu laga.
Með bréfi 20. júlí 2010 hafnaði slitastjórn sóknaraðila kröfum varnaraðila og mótmælti sá síðarnefndi þeirri afstöðu. Ekki tókst að jafna ágreining aðila og var því ákveðið að vísa honum til úrlausnar héraðsdóms. Við meðferð málsins í héraði lækkaði varnaraðili kröfu sína á hendur sóknaraðila um 2.487.050 bandaríkjadali í samræmi við fyrrgreint samkomulag þeirra. Nemur krafan því 47.512.950 bandaríkjadölum. Með hinum kærða úrskurði var hún viðurkennd við slit sóknaraðila og jafnframt fallist á að hún nyti stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Auk þess var þar leyst úr öðrum kröfum varnaraðila eins og gerð er grein fyrir að framan.
II
Í máli þessu gerir varnaraðili tilkall til 47.512.950 bandaríkjadala úr hendi sóknaraðila á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Lýtur ágreiningur aðilanna fyrst og fremst að því hvort skilyrði séu til að verða við þeirri kröfu.
Með áðurnefndri ákvörðun aðfaranótt 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í sóknaraðila og vék stjórn hans frá. Um leið setti það skilanefnd yfir sóknaraðila, sem fór samkvæmt 4. mgr. 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, með allar heimildir félagsstjórnar og öll málefni hans, þar á meðal að hafa umsjón með eignum og annast rekstur hans. Sóknaraðili kom á hinn bóginn ekki til slita eftir sérreglum laga nr. 161/2002 fyrr en 22. apríl 2009, þegar lög nr. 44/2009 um breyting á fyrrnefndu lögunum tóku gildi, sbr. 2. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 44/2009. Frá sama tíma hafa því gilt um sóknaraðila ákvæði 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, sem leiða til þess að reglur laga nr. 21/1991 ráða í meginatriðum hvernig fari um réttindi annarra á hendur honum. Þrátt fyrir þetta verður að gæta að því að þótt í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og hún hljóðaði samkvæmt 5. gr. laga nr. 125/2008, hafi ekki verið mælt fyrir um sérstaka málsmeðferð í framhaldi af ákvörðun eins og þeirri, sem Fjármálaeftirlitið tók um sóknaraðila 9. október 2008, voru öll málefni hans sett undir skilanefnd, sem skipuð var í skjóli opinbers valds og hlaut samkvæmt heiti sínu að hafa verið ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila sóknaraðila.
Eins og áður greinir lét varnaraðili af hendi til sóknaraðila 50.000.000 bandaríkjadali að morgni 9. október 2008 samkvæmt samningi aðila 22. september sama ár eftir að sóknaraðila hafði samkvæmt framansögðu verið skipuð skilanefnd og hún tekið til starfa. Við þessar aðstæður mátti leggja réttarstöðu aðila að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 28. nóvember 2011 í máli nr. 441/2011. Af því leiðir að beita verður meginreglum XV. kafla laga nr. 21/1991 þegar leyst er úr umræddum ágreiningi aðila. Samkvæmt 1. mgr. 91. gr. laganna er þrotabúi heimilt að taka við réttindum og skyldum þrotamanns eftir gagnkvæmum samningi sem hann hefur gert áður en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Í 95. gr. þeirra segir að nýti þrotabúið sér ekki þessa heimild sína en fái í hendur greiðslu frá viðsemjanda þrotamannsins eftir að úrskurður gekk um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta skuli það skila henni. Sóknaraðili fór ekki þá leið að efna samninginn við varnaraðila með því að afhenda honum 5.325.000.000 japönsk jen. Að þessu virtu átti sóknaraðili ekki annan kost að lögum en að verða við kröfu varnaraðila um skil á greiðslunni sem hann hafði áður innt af hendi. Í samræmi við það verður fallist á að varnaraðili eigi tilkall til 47.512.950 bandaríkjadala úr hendi sóknaraðila á grundvelli 95. gr. laga nr. 21/1991. Eðli máls samkvæmt verður að leggja slíka kröfu að jöfnu við kröfu um skil á eign í vörslum þrotabús samkvæmt 1. mgr. 109. gr. sömu laga. Af þeim sökum verður staðfest niðurstaða hins kærða úrskurðar um að viðurkenna kröfuna með stöðu í réttindaröð eins og nánar greinir í dómsorði.
III
Samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, skal sá sem vill halda uppi kröfu við slit fjármálafyrirtækis lýsa henni fyrir slitastjórn. Í 2. mgr. 117. gr. er kveðið á um hvernig kröfulýsing skuli úr garði gerð, þar á meðal skulu kröfur tilteknar svo skýrt sem verða má, auk þess sem greina ber þær málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á hendur fyrirtækinu á, svo og önnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna.
Eins og áður segir hafði varnaraðili uppi kröfu á grundvelli eignarréttar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 á hendur sóknaraðila í kröfulýsingu sinni og hefur sú krafa samkvæmt framansögðu verið tekin til greina. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2001 gilda þau lög aðeins um vexti af peningakröfum á sviði fjármunaréttar og taka því ekki til kröfu um afhendingu á eign. Engu að síður gerði varnaraðili kröfu um dráttarvexti eftir þeim lögum án þess að skýra þá kröfugerð frekar í kröfulýsingu sinni. Þar sem varnaraðili hefur ekki haft uppi annars konar kröfu vegna dráttar á afhendingu fjárins af hálfu sóknaraðila verður að gættu gildissviði laga nr. 38/2001 og vegna fyrirmæla 2. mgr. 117. gr. og 118. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, að hafna kröfu hans um dráttarvexti við slit sóknaraðila.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður einnig synjað kröfu varnaraðila um kostnað af innheimtu kröfu hans á hendur sóknaraðila. Þar sem krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila um skil á því fé, sem honum bar að afhenda samkvæmt samningi aðila 22. september 2008, hefur verið tekin til greina í bandaríkjadölum kemur ekki til álita krafa varnaraðila um gengismun.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest. Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Viðurkennd er krafa varnaraðila, The Bank of Tokyo-Mitsubishi UFJ Ltd., um skil á 47.512.950 bandaríkjadölum við slit sóknaraðila, Kaupþings hf., og nýtur hún stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Hafnað er kröfum varnaraðila um dráttarvexti og innheimtukostnað við slit sóknaraðila.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 750.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2012.
Mál þetta, sem endurupptekið var og tekið til úrskurðar 13. desember sl., var þingfest 29. júní 2011.
Sóknaraðili er Bank of Tokyo-Mitsubishi UFJ Ltd., Japan
Varnaraðili er Kaupþing banki hf., í slitameðferð.
Við endurupptöku málsins 13. desember sl. lækkaði sóknaraðili kröfur sínar. Er endanleg kröfugerð hans í samræmi við neðangreint:
I. Sóknaraðili gerir þá kröfu aðallega að krafa hans í þrotabú varnaraðila, með auðkennisnúmerið 20100110-0050 í kröfuskrá varnaraðila, um afhendingu á 47.512.950 Bandaríkjadala, að viðbættum vöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til greiðsludags verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Þess er jafnframt krafist undir þessum kröfulið að krafa varnaraðila um kostnað af innheimtu kröfunnar frá 9. október 2008 til 4. október 2011, að fjárhæð 473.311,91 evrur, 863.959,20 Bandaríkjadalir og 70.314,89 sterlingspund, að viðbættum kostnaði til greiðsludags, fylgi höfuðstól kröfunnar í skuldaröð og verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Verði ekki fallist á kröfur sóknaraðila undir þessum kröfulið um vexti og kostnað frá 8. október 2008 til greiðsludags, krefst sóknaraðili þess til vara að krafa hans í þrotabú varnaraðila nr. 20100110-0050 í kröfuskrá varnaraðila um afhendingu á 47.512.950 Bandaríkjadölum, að viðbættum vöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til og með 22. apríl 2009 og að viðbættum kostnaði frá 8. október 2008 til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 470.389,58 Bandaríkjadalir, 7.053,29 evrur og 69.331,64 sterlingspund, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Er í slíku tilviki krafist að krafa sóknaraðila í þrotabú varnaraðila um kostnað og vexti frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Verði ofangreindar fjárhæðir í þessum kröfulið umreiknaðar í íslenskar krónur gerir varnaraðili kröfu um gengismun undir þessum kröfulið. Er þess þá jafnframt krafist að sú krafa fylgi höfuðstól kröfunnar í skuldaröð og verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
II. Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans í þrotabú varnaraðila, með auðkennisnúmerið 20100110-0050 í kröfuskrá varnaraðila, um afhendingu á 47.512.950 Bandaríkjadala, að viðbættum vöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til greiðsludags verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Þess er jafnframt krafist undir þessum kröfulið að krafa varnaraðila um kostnað af innheimtu kröfunnar frá 9. október 2008 til 4. október 2011, að fjárhæð 473.311,91 evrur, 863.959,20 Bandaríkjadalir og 70.314,89 sterlingspund, að viðbættum kostnaði til greiðsludags, fylgi höfuðstól kröfunnar í skuldaröð og verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Verði ekki fallist á kröfur sóknaraðila undir þessum kröfulið um vexti og kostnað frá 8. október 2008 til greiðsludags, krefst sóknaraðili þess til vara að krafa hans í þrotabú varnaraðila nr. 20100110-0050 í kröfuskrá varnaraðila um afhendingu á 47.512.950 Bandaríkjadölum, að viðbættum vöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til og með 22. apríl 2009 og að viðbættum kostnaði frá 8. október 2008 til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 470.389,58 Bandaríkjadalir, 7.053,29 evrur og 69.331,64 sterlingspund, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Er í slíku tilviki krafist að krafa sóknaraðila í þrotabú varnaraðila um kostnað og vexti frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Verði ofangreindar fjárhæðir í þessum kröfulið umreiknaðar í íslenskar krónur gerir varnaraðili kröfu um gengismun undir þessum kröfulið. Er þess þá jafnframt krafist að sú krafa fylgi höfuðstól kröfunnar í skuldaröð og verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 2. mgr. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
III. 1. þrautavarakrafa sóknaraðila er sú að krafa hans í þrotabú varnaraðila, með auðkennisnúmerið 20100110-0050 í kröfuskrá varnaraðila, um afhendingu á 47.512.950 Bandaríkjadala, að viðbættum vöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til greiðsludags verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Þess er jafnframt krafist undir þessum kröfulið að krafa varnaraðila um kostnað af innheimtu kröfunnar frá 9. október 2008 til 4. október 2011, að fjárhæð 473.311,91 evrur, 863.959,20 Bandaríkjadalir og 70.314,89 sterlingspund, að viðbættum kostnaði til greiðsludags, fylgi höfuðstól kröfunnar í skuldaröð og verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Verði ekki fallist á kröfur sóknaraðila undir þessum kröfulið um vexti og kostnað frá 8. október 2008 til greiðsludags, krefst sóknaraðili þess til vara að krafa hans í þrotabú varnaraðila nr. 20100110-0050 í kröfuskrá varnaraðila um afhendingu á 47.512.950 Bandaríkjadölum, að viðbættum vöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til og með 22. apríl 2009 og að viðbættum kostnaði frá 8. október 2008 til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 470.389,58 Bandaríkjadalir, 7.053,29 evrur og 69.331,64 sterlingspund, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Er í slíku tilviki krafist að krafa sóknaraðila í þrotabú varnaraðila um kostnað og vexti frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Verði ofangreindar fjárhæðir í þessum kröfulið umreiknaðar í íslenskar krónur gerir varnaraðili kröfu um gengismun undir þessum kröfulið. Er þess þá jafnframt krafist að sú krafa fylgi höfuðstól kröfunnar í skuldaröð og verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
IV. 2. þrautavarakrafa sóknaraðila er sú að krafa hans í þrotabú varnaraðila, með auðkennisnúmerið 20100110-0050 í kröfuskrá varnaraðila, um afhendingu á 47.512.950 Bandaríkjadala, að viðbættum vöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til greiðsludags verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Þess er jafnframt krafist undir þessum kröfulið að krafa varnaraðila um kostnað af innheimtu kröfunnar frá 9. október 2008 til 4. október 2011, að fjárhæð 473.311,91 evrur, 863.959,20 Bandaríkjadalir og 70.314,89 sterlingspund, að viðbættum kostnaði til greiðsludags, fylgi höfuðstól kröfunnar í skuldaröð og verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Verði ekki fallist á kröfur sóknaraðila undir þessum kröfulið um vexti og kostnað frá 8. október 2008 til greiðsludags, krefst sóknaraðili þess til vara að krafa hans í þrotabú varnaraðila nr. 20100110-0050 í kröfuskrá varnaraðila um afhendingu á 47.512.950 Bandaríkjadölum, að viðbættum vöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til og með 22. apríl 2009 og að viðbættum kostnaði frá 8. október 2008 til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 470.389,58 Bandaríkjadalir, 7.053,29 evrur og 69.331,64 sterlingspund, verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Er í slíku tilviki krafist að krafa sóknaraðila í þrotabú varnaraðila um kostnað og vexti frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
Verði ofangreindar fjárhæðir í þessum kröfulið umreiknaðar í íslenskar krónur gerir varnaraðili kröfu um gengismun undir þessum kröfulið. Er þess þá jafnframt krafist að sú krafa fylgi höfuðstól kröfunnar í skuldaröð og verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
IV. Til þrautaþrautavara krefst sóknaraðili þess að krafa hans í þrotabú varnaraðila nr. 20100110-0050 í kröfuskrá varnaraðila um afhendingu á 47.512.950 Bandaríkjadölum, að viðbættum vöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til og með 22. apríl 2009 og að viðbættum kostnaði frá 8. október 2008 til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 470.389,58 Bandaríkjadalir, 7.053,29 evrur og 69.331,64 sterlingspund, verði viðurkennd sem almenn krafa í þrotabú varnaraðila samkvæmt 113. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Þess er þá jafnframt krafist að krafa sóknaraðila í þrotabú varnaraðila um kostnað og vexti frá 22. apríl 2009 til greiðsludags verði viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991.
V. Verði krafa sóknaraðila í kröfuliðum I-IV um dráttarvexti ekki tekin til greina er krafist vaxta samkvæmt 10. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Í öllum tilvikum er þess krafist að varnaraðili verði dæmdur til að greiða sóknaraðila málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi ásamt virðisaukaskatti.
Varnaraðili krefst þess aðallega að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.
Til vara krefst hann þess að krafa sóknaraðila verði lækkuð um 2.487.050 Bandaríkjadali og að hafnað verði kröfu sóknaraðila um viðurkenningu forgangsréttar fyrir kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli 109.-110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og að krafan verði aðeins viðurkennd sem almenn krafa á grundvelli 113. gr. sömu laga. Í báðum tilvikum krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati réttarins.
Málsatvik
Sóknaraðili er í eigu einnar stærstu fjármálasamstæðu í heimi, Mitsubishi UFJ Financial Group Inc. og starfar við rekstur viðskiptabanka, fjárvörslusjóða, verðbréfaumsýslu, kreditkortaútgáfu o.fl.
Hinn 22. september 2008 gerðu sóknaraðili og varnaraðili með sér framvirkan samning um gjaldeyrisviðskipti þar sem aðilarnir samþykktu að kaupa og selja Bandaríkjadali og japönsk jen á tveimur dagsetningum, 25. september og 9. október 2008. Átti samningsgerðin sér stað í gegnum rafrænt samskiptakerfi fjármálafyrirtækja, ætlað viðskiptum af þessu tagi. Fyrri hluti samnings aðila var efndur samkvæmt efni sínu þann 25. september 2008. Samkvæmt síðari hluta samningsins átti sóknaraðili að afhenda varnaraðila 50 milljónir Bandaríkjadala 9. október 2008 og varnaraðili átti á móti að afhenda sóknaraðila 5.325.000.000 jen.
Aðfaranótt 9. október 2008, skipaði Fjármálaeftirlitið skilanefnd yfir varnaraðila, sem tók samstundis til starfa. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um skipan skilanefndarinnar kom fram að það væri mat Fjármálaeftirlitsins að skilyrði 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki væru uppfyllt, í ljósi knýjandi fjárhags- og rekstrarerfiðleika varnaraðila, kerfislegs mikilvægis hans og þeirra keðjuverkandi áhrifa sem mögulegt gjaldþrot hans kynni að hafa á íslenska hagkerfið, enda teldi Fjármálaeftirlitið önnur úrræði þess ekki líkleg til árangurs.
Í skilanefnd voru skipuð Finnur Sveinbjörnsson, formaður, Guðný Arna Sveinsdóttir, Knútur Þórhallsson, Steinar Þór Guðgeirsson, og Bjarki Diego. Fyrsti fundur skilanefndarinnar var haldinn strax aðfaranótt 9. október 2008 og sendi Guðný Arna Sveinsdóttir tölvupóst þá um nóttina til Delíu Kristínar Howser, starfsmanns greiðslumiðlunar varnaraðila, þar sem kom fram að á fyrsta fundi skilanefndarinnar hefði verið ákveðið að halda gjaldeyri inni í landinu. Voru fyrirmæli Guðnýjar til Delíu þau að greiða ekki út erlendar greiðslur frá og með tímasetningu tölvupóstsins nema með samþykki skilanefndar. Þá beindi Guðný þeim fyrirmælum til Delíu að taka saman lista yfir allar greiðslur sem ætti að inna af hendi daginn eftir. Ljóst er af því sem fram kom við skýrslugjöf vitna fyrir dómi, að tölvusamskipti þessi fóru fram aðfaranótt 9. október 2008, þótt einhvers ruglings gæti í tímasetningum tölvuskeyta þeirra er send voru þessa nótt.
Að morgni 9. október millifærði sóknaraðili 50 milljónir Bandaríkjadala til varnaraðila. Greiðslan fór fram með þeim hætti að dollararnir voru millifærðir af reikningi í eigu sóknaraðila yfir á reikning í eigu varnaraðila hjá JP Morgan í New York kl. 07:48 að íslenskum tíma. Dollararnir voru sendir í gegnum svonefnt SWIFT-kerfi.
Seinna sama morgun sendi varnaraðili frá sér fréttatilkynningu um að Fjármálaeftirlitið væri búið að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila og skipa honum skilanefnd.
Sama dag klukkan 7:01, að íslenskum tíma, sendi Delía Kristín Howser tölvupóst til starfsmanna greiðslumiðlunar og bakvinnslu varnaraðila þar sem kom fram að þeim væri heimilað að senda út „cancellation requests á payments“. Í bréfinu ítrekaði hún að engar erlendar greiðslur mættu fara frá varnaraðila.
Varnaraðili stóð því ekki við samningsskyldu sína samkvæmt samningi aðilanna dags. 22. september 2008 um að afhenda 5.325.000.000 japönsk jen á móti afhendingu sóknaraðila á dollurunum sem þá þegar höfðu verið afhentir varnaraðila.
Sóknaraðili sendi bréf, hið fyrsta 10. október 2008, þar sem kom fram að hann ætti eignarrétt að dollurunum og krefðist þess að þeim yrði skilað. Samkvæmt gögnum málsins áttu starfsmenn sóknaraðila í samskiptum við starfsfólk varnaraðila um hvað gera bæri í þeirri stöðu sem upp var komin varðandi þær 50 milljónir dollara sem sóknaraðili hafði afhent varnaraðila, án þess að fá þá greiðslu jena á móti sem um hafði verið samið.
Þá sendi JP Morgan í New York, 14. október 2008, afrit af samskiptum JP Morgan og varnaraðila frá 12. október s.á. þar sem JP Morgan óskaði heimildar til að bakfæra dollarana af reikningnum hjá JP Morgan. Í skilaboðum JP Morgan kom fram að JP Morgan teldi að um væri að ræða ólögmæta auðgun varnaraðila.
Hinn 20. október 2008 lét JP Morgan sóknaraðila vita að JP Morgan hefði gert nokkrar tilraunir til að fá að bakfæra dollarana en að þann dag hefði skilanefnd varnaraðila hafnað því. Sóknaraðili reyndi að koma á fundi með varnaraðila til að fá úrlausn kröfu sinnar, en án árangurs. Þá kveðst sóknaraðili hafa rift viðskiptunum með bréfi frá 20. október 2008.
Hinn 16. október 2008 beindi skilanefnd varnaraðila þeim tilmælum til JP Morgan að koma öllum fjármunum til Íslands. Í framhaldinu voru millifærðar 75 milljónir Bandaríkjadala af reikningnum hjá JP Morgan yfir á reikning varnaraðila hjá Seðlabanka Íslands 19. nóvember 2008.
Hinn 25. nóvember 2008 fékk sóknaraðili úrskurð um kyrrsetningu hjá Hæstarétti New York fylkis vegna reiknings varnaraðila hjá JP Morgan, en dollararnir höfðu þá þegar verið færðir af reikninginum 19. nóvember 2008.
Hinn 20. apríl 2009 tóku gildi lög nr. 44/2009 um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Lög nr. 44/2009 innihalda ákvæði um slit fjármálafyrirtækis. Samkvæmt lögunum var skipuð slitastjórn yfir varnaraðila 25. maí 2009.
Sóknaraðili átti í málaferlum á hendur varnaraðila í New York, í Bandaríkjunum vegna ágreinings þess sem mál þetta á rætur að rekja til. Lauk þeim málaferlum með samkomulagi (Settlement Agreement), sem gert var í mars 2010, og samkvæmt því skuldbatt sóknaraðili sig til þess að falla frá málaferlum til heimtu á þeim 2.487.050.28 dollurum sem urðu eftir á reikningi varnaraðila hjá JP Morgan Chase í New York, gegn því að varnaraðili greiddi sóknaraðila 1.950.000 Bandaríkjadala 8. júní 2010. Með samkomulaginu skuldbatt sóknaraðili sig til að lækka fjárhæð kröfu sinnar um 2.487.050.28 Bandaríkjadala, þótt greiðsla varnaraðila hafi verið að fjárhæð 1.950.000 Bandaríkjadala, samkvæmt 6. gr. samkomulags aðila. Varnaraðili undirritaði samkomulagið fyrir sitt leyti 29. mars 2010 og sóknaraðili 8. apríl 2010.
Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði varnaraðila slitastjórn 25. maí 2009. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti 30. desember sama ár. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni svo í þeim kafla kröfulýsingar sem fjallar um upphæð og útreikning kröfunnar:
,,Krafa kröfuhafa skal teljast einkaréttarkrafa og skal hafa forgang í samræmi við 109. gr. gjaldþrotalaga. Krafan samanstendur af höfuðstól upphæðarinnar sem flutt var og uppsöfnuðum vöxtum áföllnum til og með 30. desember 2009. Kröfuhafi gerir kröfu til dráttarvaxta skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá dagsetningu yfirfærslu fjármagnsins þann 9. október 2008 til og með 30. desember 2009. Auk þess krefst kröfuhafi dráttarvaxta frá 31. desember 2009 til greiðsludags (að báðum meðtöldum.)
Kröfuhafi krefst bóta fyrir þann kostnað sem hann hefur orðið fyrir í tengslum við að halda fram rétti sínum til fjármunanna gagnvart Kaupþingi. Þessi kostnaður er lögfræðikostnaður sem er beinlínis tengdur vanefndum á endurgreiðslu fjármunanna til og með 30. desember 2009 (sjá dskj. 11 og dskj. 12). Til viðbótar krefst kröfuhafi bóta fyrir kostnað sem hann hefur orðið fyrir í tengslum við að halda fram rétti sínum til fjármunanna gagnvart Kaupþingi frá 31. desember 2009 til greiðsludags á kröfu kröfuhafa (að báðum meðtöldum.) Ef og að því marki sem kröfuupphæðin sem lögð er fram í GBP, USD eða EUR er úrskurðuð í ISK (frá 22. apríl 2009) er gerð krafa um bætur vegna hvers konar lækkunar þess hluta kröfunnar sem er í GBP, USD eða EUR sem stafar af sveiflum í gengi gjaldmiðla“.
Um forgangsröðun kröfunnar segir í kröfulýsingu í kafla 2.5.1.
,,Heildarupphæð kröfunnar fyrir hinn óuppgerða gjaldeyrisskiptasamning (að meðtöldum öllum vöxtum, dráttarvöxtum og áföllnum kostnaði til og með 22. apríl 2009 er skráður í forgangsröð í samræmi við 109. gr. gjaldþrotalaga. Krafan um bætur vegna breytinga á gengi gjaldmiðla svo og vextir og kostnaður sem áfallnir eru 22. apríl 2009 er lögð fram sem krafa með stöðu skv. 1. tölul. 1.mgr. 114. gr. gjaldþrotalaga.“
Um varakröfu segir í kafla 2.5.2.
,,Heildarupphæð kröfunnar fyrir hinn óuppgerða gjaldeyrisskiptasamning (að meðtöldum öllum vöxtum, dráttarvöxtum og áföllnum kostnaði til og með 22. apríl 2009 er skráður í forgangsröð í samræmi við 3. mgr. 110. gr. gjaldþrotalaga eða skráður í forgangsröð í samræmi við 4. mgr. 110. gr. gjaldþrotalaga. Þessi krafa er sett fram án fyrirvara um og skal ekki teljast afsal, fullnusta á eða undanþága frá kröfu kröfuhafa um íslenska dráttarvexti og er einungis sett fram til vara fari svo að krafa hans um íslenska dráttarvexti verði ekki tekin til greina.“
Með bréfi 20. júlí 2010 var sóknaraðila tilkynnt að slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni m.a. með vísan til þess að skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991 væru ekki uppfyllt. Í sama bréfi var sóknaraðila tilkynnt að slitastjórn hafnaði einnig varakröfu sóknaraðila sem lýst var á grundvelli 3. og 4. mgr. 110. gr. sömu laga þar sem skilyrði þeirra ákvæða væru ekki uppfyllt. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar til kröfunnar í bréfi til slitastjórnar sem móttekið var 17. september 2010. Haldnir voru fundir til jöfnunar ágreinings um kröfuna, 30. nóvember 2010, 17. febrúar 2011, 17. mars 2011, 13. apríl og 29. apríl 2011. Ekki tókst að jafna ágreining og var í kjölfarið ákveðið að vísa ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms samkvæmt 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Í bréfi slitastjórnar varnaraðila til dómsins kemur fram að ágreiningur aðila, sem ákveðið hafi verið að vísa til dómsins sé afmarkaður við hvort og að hvaða marki beri að viðurkenna kröfu sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila og hver skuli þá vera rétthæð kröfunnar.
Ágreiningur aðila lýtur einkum að því hvort sóknaraðili eigi eignarrétt að þeim 50 milljónum Bandaríkjadala sem hann afhenti varnaraðila samkvæmt samningi aðila þar um og geti því gert kröfu um afhendingu þeirra utan skuldaraðar. Þá er ágreiningur um það hvort skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og 110. gr. þeirra séu uppfyllt. Einnig er ágreiningur um hvort sóknaraðili geti gert kröfu um viðurkenningu kröfu sinnar sem almennrar kröfu, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, þar sem forsendur slíkrar kröfugerðar rúmist ekki innan þeirra málsástæðna sem sóknaraðili hefur fært fram til stuðnings kröfum sínum.
Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur Finnur Sveinbjörnsson, Guðný Arna Sveinsdóttir, Ólafur Frímann Gunnarsson, Iða Brá Benediktsdóttir, Guðni Aðalsteinsson, Delía Kristín Howser og Steinar Þór Guðgeirsson.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili kveðst eiga ótvíræðan eignarrétt til dollaranna. Staðfesting á millifærslu sýni það, en yfirfærslan á dollurunum hafi ekki leitt til þess að eignarréttur á þeim færðist yfir til varnaraðila, þar sem varnaraðili haldi þeim eftir með ólögmætum hætti. Eðli þeirra viðskipta sem hér um ræði sé hið sama og hefðbundinna stundarviðskipta með gjaldeyri, þ.e.a.s. aðilar skiptist á tiltekinni upphæð af gjaldmiðlum. Yfirfærsla á eignarrétti sé því bundin því skilyrði að gagnaðili afhendi umsamda fjárhæð gjaldeyris á móti.
Í fjármunarétti sé endurkröfuréttur ofgreidds fjár almennt viðurkenndur. Með endurkröfurétti er átt við þegar skuldari kröfu greiðir meira en honum ber að réttu lagi. Sú meginregla gildir, að unnt sé að endurkrefja um greiðslu umfram skyldu, ef greitt var í rangri trú.
Sóknaraðili hafi millifært dollarana í þeirri góðu trú að honum bæri samningsskylda til þess. Það reyndist vera rangt, þar sem varnaraðili hugðist halda eftir sinni greiðslu og því voru forsendur samningsins brostnar. Hér skipti einnig máli að atvik málsins sýna að varnaraðili hafði skýran ásetning um að halda greiðslu sinni eftir.
Þar af leiðandi eigi sóknaraðili skýran rétt til endurgreiðslu dollaranna samkvæmt reglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár.
Sóknaraðili byggir kröfur sínar einnig á lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000 og bendir á að undir lög um lausafjárkaup nr. 50/2000 falli öll önnur kaup en fasteignakaup, og séu umrædd viðskipti þar á meðal. Sóknaraðili hafi millifært dollarana á reikning varnaraðila hjá JP Morgan aðeins vegna þess að varnaraðili hafi ekki látið sóknaraðila vita að varnaraðili myndi ekki standa við sinn hluta samningsins. Það að varnaraðili hafi ekki látið þær upplýsingar í ljós sé brot á 28. gr. laga nr. 50/2000. Samkvæmt 28. gr. skal seljandi, ef hindrun kemur í veg fyrir að hann geti efnt kaupin á réttum tíma, tilkynna kaupanda um hindrunina og áhrif hennar á möguleika sína til að efna kaupin. Fái kaupandi ekki slíka tilkynningu án ástæðulauss dráttar frá því að seljandi fékk eða gat fengið vitneskju um hindrunina getur kaupandi krafist þess að það tjón sé bætt sem unnt hefði verið að komast hjá ef hann hefði fengið tilkynninguna með nægum fyrirvara.
Varnaraðili hafi vitað, áður en sóknaraðili millifærði dollarana á reikning varnaraðila hjá JP Morgan, að varnaraðili myndi ekki standa við sinn hluta viðskiptanna.
Fjármálaeftirlitið hafi samþykkt beiðni varnaraðila 8. október 2008 um að varnaraðili yrði tekinn til skipta, þar sem hann gæti ekki staðið við gjaldfallnar skuldbindingar sínar. Þá hafi skilanefnd varnaraðila gefið starfsmönnum sínum þau fyrirmæli að færa engan gjaldeyri af reikningum varnaraðila. Einnig hafi SMBC í Tokyo gert varnaraðila viðvart um að varnaraðili myndi ekki geta staðið við skuldbindingu sína samkvæmt samningnum milli sóknaraðila og varnaraðila, þar sem ekki væri næg innistæða á reikningi varnaraðila hjá SMBC. Varnaraðili hafi ekki látið sóknaraðila vita af þessu.
Þar sem þessi vanræksla varnaraðila sé brot á skuldbindingum varnaraðila samkvæmt lögum nr. 50/2000, hafi sóknaraðili rétt á að endurheimta dollarana. Í 1. mgr. 61. gr. laganna segi: „Ef í ljós kemur eftir kaup vegna framferðis samningsaðila eða vegna alvarlegs brests á greiðslugetu hans eða möguleikum til efnda að hann muni ekki efna verulegan hluta af skyldum sínum getur gagnaðili stöðvað efndir af sinni hálfu og haldið eftir sinni greiðslu.“ Í 2. mgr. kemur eftirfarandi fram: „Ef seljandi hefur þegar sent hlutinn og í ljós koma þau atriði varðandi kaupanda sem um getur í 1. mgr. getur seljandi varnað því að söluhlutur verði afhentur kaupanda eða búi hans. Þetta á við þótt kaupandi eða bú hans hafi veitt flutningsskjölum viðtöku.“
Samkvæmt 2. mgr. 61. gr. hafi sóknaraðili því átt rétt á því að koma í veg fyrir að dollararnir yrðu afhentir varnaraðila, jafnvel eftir að sóknaraðili hafði sent dollarana til JP Morgan. Þá hafi skilanefnd varnaraðila engan rétt haft til þess að hafna beiðnum sóknaraðila um að skila dollurunum, eða að gefa JP Morgan þau fyrirmæli að færa dollarana frá JP Morgan, og hafi þau fyrirmæli verið brot á rétti sóknaraðila samkvæmt lögum nr. 50/2000.
Að auki komi eftirfarandi fram í 4. mgr. 54. gr. laganna: „Ef kaupandi hefur þegar veitt söluhlut viðtöku getur seljandi því aðeins rift kaupunum að hann hafi gert um það fyrirvara eða kaupandi hafnar hlutnum. Í alþjóðlegum kaupum er þó unnt að rifta kaupum án slíks fyrirvara ef riftun hefur ekki áhrif á þann rétt sem þriðji maður, þ.m.t. bú kaupanda, hefur yfir hlutnum.“ Í þessu tilfelli hafi verið um að ræða viðskipti á milli íslensks og erlends banka. Í alþjóðlegum viðskiptum sem þessum hafi sóknaraðili haft, sem seljandi dollaranna, réttinn til að rifta kaupunum, og varnaraðila, sem kaupanda í vanskilum, hafi borið sú skylda að skila peningunum samkvæmt beiðni sóknaraðila. Enginn þriðji aðili hafði öðlast rétt til dollaranna, sem voru áfram á reikningi varnaraðila hjá JP Morgan. Varnaraðila hafi verið skylt að skila dollurunum.
Sóknaraðili reisir einnig kröfur sínar á lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa brotið gegn ákvæðum laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936 og gert viðskiptin þar með ógild. Þar af leiðandi sé varnaraðila skylt að leiðrétta stöðu sóknaraðila þannig að sóknaraðili verði í sömu stöðu og ef dollararnir hefðu ekki verið afhentir.
Samkvæmt 36. gr. samningalaga megi víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig. Hið sama eigi við um aðra löggerninga. Líta skuli til efnis samnings, stöðu samningsaðilja, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.
Í þessu tilfelli væri það augljóslega ósanngjarnt og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu varnaraðila að bera fyrir sig samning sinn við sóknaraðila sem réttlætingu á gjörðum sínum. Varnaraðili vissi að hann hefði engar ætlanir um að efna sinn hluta samningsins áður en sóknaraðili millifærði og afhenti dollarana, en lét sóknaraðila ekki vita og nýtti sér þá yfirburði sem fólust í því að hafa betri upplýsingar um stöðu mála. Að auki væri það andstætt góðri viðskiptavenju að varnaraðili bæri fyrir sig samninginn þar sem alþjóðleg gjaldeyrisviðskipti eru ætluð fyrir samtíða skipti og fela ekki í sér tækifæri fyrir varnaraðila til að virða einhliða að vettugi alþjóðlega venju og nýta sér tímamismun við uppgjör á samningnum. Því kveður sóknaraðili samninginn vera ógildan og þar af leiðandi hafi sóknaraðili ekki fært eignarrétt að dollurunum yfir til varnaraðila.
Þá byggir sóknaraðili á reglum um ólögmæta auðgun og bendir á að hald varnaraðila á dollurunum brjóti gegn íslenskum réttarreglum um ólögmæta auðgun. Samkvæmt dómaframkvæmd Hæstaréttar hafi aðili auðgast á óréttmætan hátt ef hann hefur öðlast yfirráð yfir eign án réttmætrar ástæðu á kostnað hins réttmæta eiganda eignarinnar. Ólögmæt auðgun leiði til þess að þeim sem hagnaðist á ólögmætan hátt sé skylt að skila eigninni til réttmæts eiganda.
Í þessu tilviki hafi varnaraðili auðgast á ólögmætan hátt þar sem hann hafi tekið við fjármunum frá sóknaraðila, þrátt fyrir að hafa ekki í hyggju að afhenda sóknaraðila þá fjármuni sem honum var skylt að afhenda í staðinn. Varnaraðila hafi jafnframt verið ljóst að sóknaraðili afhenti dollarana einungis í trausti þess að varnaraðili myndi afhenta jenin samtímis í samræmi við samning aðila.
Varnaraðili haldi dollurunum eftir á ólögmætan hátt og sé skylt að skila þeim.
Varðandi rétthæð krafna sinna bendir sóknaraðili á að skilanefnd varnaraðila hafi verið skiptastjóri í skilningi kaflans og því gildi reglur kaflans um meðferð dollaranna. Sóknaraðili kveður að líta verði svo á að eiginleg gjaldþrotaskiptameðferð hafi hafist með skipan skilanefndarinnar, að minnsta kosti að því marki sem nauðsynlegt er til að réttur kröfuhafa fari ekki fyrir bí.
Bent er á að í 3. tl. II þágildandi bráðabirgðaákvæðis laga nr. 44 frá 2009, sem komu á breytingum á lögum um fjármálafyrirtæki, komi fram að skilanefnd fjármálafyrirtækis, sem Fjármálaeftirlitið hafi skipað fyrir gildistöku laganna á grundvelli laga nr. 125/2008, skuli með óbreyttu heiti halda áfram störfum og gegna því hlutverki sem slitastjórn sé ætlað meðal annars í 1. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Ljóst sé af orðalagi þessarar greinar að löggjafinn geri ráð fyrir að skilanefndin hafi, upp að setningu laganna, haft það hlutverk sem slitastjórn tókst á hendur með setningu laga nr. 44/2009.
Sóknaraðili kveður að 9. október 2008 hafi eiginleg gjaldþrotaskiptameðferð yfir varnaraðila hafist, með skipan Fjármálaeftirlitsins á skilanefnd yfir varnaraðila. Það sé ljóst af þeim lagaákvæðum sem eigi við í málinu, sem og öllum aðstæðum málsins. Aðstæðurnar í máli varnaraðila séu eins og í venjulegri gjaldþrotaskiptameðferð og því eigi sjónarmið um flokkun kröfu sóknaraðila skv. XVII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við.
Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa verið ógjaldfæran 8. október 2008. Bréfið sem forstjóri og stjórnarformaður varnaraðila sendu til Fjármálaeftirlitsins sýni að svo hafi verið ástatt hjá varnaraðila.
Sóknaraðili bendir á að í venjulegu gjaldþroti sé frestdagur sá dagur sem miðað er við þegar athugað er hvort gerningar þrotamanns séu riftanlegir aftur í tímann. Þetta skipti máli við endurheimt verðmæta þrotabúsins.
Í lögum nr. 21/1991 séu nákvæm ákvæði um það hvað teljist vera frestdagur. Þessum ítarlegu ákvæðum sé ætlað að ákvarða hvenær hinn gjaldþrota aðili teljist fyrst vera ógjaldfær. Sé kveðið á um í XX. kafla laga nr. 21/1991 hvenær skiptastjóra sé heimilt að rifta ákveðnum gerningum, að skilyrðum ákvæðanna uppfylltum. Dagsetning sem er hliðstæð við frestdag í tilfelli varnaraðila væri dagurinn þegar forstjóri og stjórnarformaður varnaraðila hafi leitað til Fjármálaeftirlitsins, þ.e. 8. október 2008.
Samkvæmt 5. mgr. þágildandi 5. gr. laga nr. 125/2008 hafi Fjármálaeftirlitinu verið heimilt að rifta sölu eigna sem átt hefði sér stað allt að mánuði áður en Fjármálaeftirlitið greip til sérstakra ráðstafana samkvæmt greininni. Því sé ljóst að löggjafinn hefur litið á skipan skilanefndar sem tímasetningu þar sem fjármálafyrirtækið hefur verið ógjaldfært. Líta verði svo á að með skipan skilanefndarinnar hafi hafist meðferð sem jafngildi skipta- eða slitameðferð á fyrirtæki.
Aðgerðir skilanefndar í kjölfar skipunar hennar séu í samræmi við aðgerðir skiptastjóra eftir að hann hefur verið skipaður. Varnaraðili hafi lýst því yfir við sóknaraðila skömmu eftir skipan sína að hann væri einungis tilbúinn að hitta kröfuhafa í hópum. Það sé til marks um það að skilanefndin hafi viljað gæta jafnræðis kröfuhafa, sem er meginregla laga nr. 21/1991.
Auk þess beri aðgerðir skilanefndar sem leitt hafi til vanefndar á samningnum öll þess merki þess að hafa verið aðgerðir skiptastjóra, þ.e. þær aðgerðir að stöðva allar greiðslur á útleið. Ef skilanefndin hefði aðeins verið að taka yfir stjórn á fyrirtæki hefði ekki verið neinn grundvöllur fyrir slíkum aðgerðum.
Aðalkrafa sóknaraðila er sú að viðurkennt verði að krafa hans í þrotabú varnaraðila njóti rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti. Til vara gerir sóknaraðili kröfu um að krafan njóti rétthæðar samkvæmt 2. mgr. 109. gr. sömu laga.
Til að krafa um eign öðlist forgang samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 verði sóknaraðili að vera réttmætur eigandi eignarinnar og eignin verður að vera nægjanlega sérgreind í vörslum þrotabús varnaraðila. Hér að framan hafi verið sýnt fram á að engin eignarréttarleg yfirfærsla á verðmætum hafi átt sér stað frá sóknaraðila til varnaraðila. Sóknaraðili hafi afhent dollarana gegn því að varnaraðili myndi afhenta jenin á sama tíma í samræmi við samning aðila þar að lútandi. Varnaraðili hafi ekki afhent sína eign á móti og því beri varnaraðila að skila eign sóknaraðila. Þar sem sóknaraðili hafi eignarrétt að dollurunum hafi varnaraðila ætíð, síðan dollararnir komu inn á reikning varnaraðila, borið skylda til að tryggja að dollararnir væru nægilega aðskildir frá öðrum eignum á meðan beðið væri niðurstöðu um eignarhald þeirra.
Réttarframkvæmd hafi staðfest að peningar sem koma inn á reikning þrotabús eftir upphaf gjaldþrotaskipta teljist nægjanlega vel sérgreindir. Ljóst sé af staðreyndum málsins að skipti á búi varnaraðila hafi í raun hafist þegar skilanefndin var skipuð. Sóknaraðili byggir á því að ekki sé heimilt að beita lögum með afturvirkum hætti þegar um sé að ræða skerðingu á réttindum sem njóti stjórnarskrárverndar. Þegar ljóst hafi verið að varnaraðili myndi ekki standa við afhendingu á þeim gjaldmiðli sem honum bar að afhenda sóknaraðila í staðinn fyrir dollarana hafi sóknaraðili krafist þess að eign hans, dollararnir, yrði færð aftur til hans. Neitun skilanefndar varnaraðila á þeim tíma hafi ekki getað byggst á öðrum sjónarmiðum en þeim sem skiptastjórar mega hafa, þ.e. að stöðva greiðslur úr búinu. Afturvirk breyting á þeirri réttarstöðu sé ekki tæk að mati sóknaraðila þegar hún hafi í för með sér að hann er sviptur eignarréttindum sínum. Sóknaraðili telur því að þrátt fyrir ákvæði laga nr. 44/2009 sé ekki tækt að ganga út frá öðru en að gjaldþrotaskiptameðferð varnaraðila hafi í raun hafist gagnvart kröfuhöfum bankans þegar varnaraðila var skipuð skilanefnd.
Hafi varnaraðili hins vegar flutt dollarana á reikning þriðja aðila í skiptum fyrir önnur verðmæti eigi sóknaraðili rétt skv. 2. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, til greiðslunnar sem þrotabúið fékk, að frádregnum kostnaði sem búið hefur haft af varðveislu og sölu eignarinnar.
Verði ekki fallist á að eign sóknaraðila sem vísað er til í aðal- og varakröfu sé nægilega sérgreind í þrotabúi varnaraðila, krefst sóknaraðili þess að krafa hans í þrotabú varnaraðila njóti rétthæðar samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili kveður þrautavarakröfu sína setta fram ef í ljós kemur að varnaraðili hafi með því að flytja og sameina eign sóknaraðila öðrum fjármunum í vörslum þrotabúsins fyrirgert rétti og möguleikum sóknaraðila til endurheimtu á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991. Þau gögn sem sóknaraðili hafi aflað hjá varnaraðila bendi til þess að eign sóknaraðila hafi verið flutt á reikning hjá Seðlabanka Íslands en sóknaraðili hafi ekki fengið fullnægjandi upplýsingar hjá varnaraðila um hvar þessir fjármunir séu niðurkomnir eða hvernig þeir hafi verið meðhöndlaðir af hálfu skilanefndar varnaraðila frá 9. október 2008. Í þessu ljósi eigi sóknaraðili ekki annan kost en að setja þrautavarakröfu sína fram með þeim hætti sem hér sé gert.
Byggir sóknaraðili kröfu sína á því að 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 eigi við um háttsemi varnaraðila, hafi hann á annað borð skaðað hagsmuni sóknaraðila með því að láta fyrir farast að varðveita eign sóknaraðila, sem verið hafi í hans vörslu, með tilhlýðilegum hætti.
Að mati sóknaraðila hafi skiptameðferð varnaraðila í raun hafist með skipun skilanefndarinnar 9. október 2008. Samkvæmt þeim breytingum sem hafi verið gerðar á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 deili skilanefnd og slitastjórn varnaraðila ábyrgð á rekstri þrotabús varnaraðila, sem sé allajafna á hendi skiptastjóra samkvæmt lögum nr. 21/1991. Sú staða sé því mögulega uppi að annaðhvort skilanefndin eða slitastjórnin, eða báðir þessir aðilar, hafi valdið sóknaraðila skaða með því að blanda dollurunum saman við aðrar eignir búsins eða með því að færa þá yfir til þriðja aðila, sem geti fyrirgert rétti sóknaraðila til að krefjast afhendingar dollaranna skv. 109 gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafi ekki, þrátt fyrir ítrekaða málaleitan sóknaraðila, getað sýnt fram á með óyggjandi hætti, hvernig hann hafi háttað vörslum og eftir atvikum varðveislu sinni á þeirri eign sóknaraðila sem afhent var varnaraðila 9. október 2008. Sé raunin sú að misbrestur hafi orðið á þeirri varðveislu eigi sóknaraðili réttmæta kröfu um bætur á grundvelli 3. mgr. 123. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. tl. 110. gr. laganna.
Markmið 3. mgr. 123. gr. laganna sé að vernda kröfuhafa sem eigi eignir í vörslu þrotabús frá tjóni af völdum skiptastjórans.
Ljóst sé að varnaraðili vissi eða hafi mátt vita af eignarrétti sóknaraðila að dollurunum. Hafi varnaraðili ráðstafað dollurunum eða blandað þeim við aðra fjármuni í eigu varnaraðila með þeim afleiðingum að krafan fái ekki forgang skv. 109. gr. laganna skuli krafan, sbr. 3. mgr. 123. gr., hafa forgang skv. 3. tl. 110 gr. laganna
Til viðbótar þessu byggir sóknaraðili kröfu sína um forgang skv. 3. tl.. 110 gr. laga nr. 21/1991 á almennum skaðabótareglum. Í 4. mgr. 77. gr. laganna kemur fram að skiptastjóra beri að bæta tjón sem hann kann að valda öðrum í starfi eftir almennum skaðabótareglum. Því sé ljóst, að fallist dómurinn ekki á að 3. mgr. 123. gr. laganna eigi við, eigi að bæta sóknaraðila það tjón sem skilanefnd og slitastjórn varnaraðila kunni að hafa valdið sóknaraðila með saknæmum og ólögmætum hætti. Um meðhöndlun skilanefndar og/eða slitastjórnar á dollurunum gildi því hin almenna skaðabótaregla, sakarreglan.
Ljóst sé af gögnum málsins að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni sem nemi 50 milljónum Bandaríkjadala. Réttur sóknaraðila standi til að fá tjón sitt bætt, að viðbættum vöxtum og kostnaði. Sóknaraðili hafi rift viðskiptunum 20. október 2008 og því sé samningurinn ekki lengur í gildi. Í framhaldi af því beri að rétta stöðu sóknaraðila þannig að hún verði eins og gjaldeyrissamningurinn hefði aldrei verið gerður.
Eitt af skilyrðum sakarreglunnar sé að tjóni hafi verið valdið með saknæmum og ólögmætum hætti. Gögn málsins bendi til þess að skilanefnd varnaraðila sem og starfsmenn hennar hafi vitað að varnaraðili væri skuldbundinn af gjaldeyrisskiptasamningnum. Enn fremur hafi skilanefnd gefið þau fyrirmæli að vanefna samninginn við sóknaraðila og skilanefnd vissi að vanefnd á samningnum myndi leiða til þess að sóknaraðili yrði fyrir tjóni
Aðilar hafi báðir starfað í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Varnaraðili hafi átt í viðskiptum við aðila frá öllum heimshornum, þar á meðal sóknaraðila sem var með höfuðstöðvar sínar í Japan. Óljóst sé af gögnum málsins hvenær aðfaranótt 9. október varnaraðila var skipuð skilanefnd, en þó sé ljóst að beðið hafi verið með að tilkynna opinberlega um skipun skilanefndarinnar þangað til morguninn eftir. Það hefði verið í samræmi við eðlilega viðskiptahætti að tilkynna strax að ákveðið hefði verið að halda öllum gjaldeyri inni í landinu. Því hafi verið skýr athafnaskylda á skilanefnd að tilkynna um skipan sína um leið. Hefði sóknaraðili fengið veður af skipan skilanefndarinnar hefði sóknaraðili reynt að afla nánari upplýsinga um það hvort standa skyldi við hinn gerða gjaldeyrisskiptasamning eins og stóð til. Sóknaraðili hefði einnig fengið tækifæri til að halda eftir greiðslu sinni.
Aðeins tveimur dögum áður en sóknaraðili afhenti varnaraðila dollarana, 7. október 2008, hafi varnaraðili lýst því yfir að hann væri með tryggt lán frá Seðlabankanum og að ekkert annað stæði til en að halda áfram rekstri varnaraðila. Sóknaraðili hafi því verið í góðri trú og ekki vitað betur en að varnaraðili væri í fullum rekstri þegar dollararnir voru millifærðir á reikning varnaraðila í New York.
Einnig hefði skilanefndin getað gripið til annarra ráðstafana til að forða sóknaraðila frá tjóni. Skilanefnd hefði getað beint þeim fyrirmælum til JP Morgan, sem sá um reikning varnaraðila í New York, að hafna því að taka á móti greiðslunni frá sóknaraðila, eða að sjá til þess að greiðslu sóknaraðila yrði haldið sérgreindri frá öðrum fjármunum. Einnig hefði skilanefnd getað gefið fyrirmæli um bakfærslu dollaranna. Varnaraðili hafi óskað eftir því að dollararnir yrðu bakfærðir en skilanefnd hafi hafnað því.
Það tjón, sem varnaraðili hafi beðið vegna athafna skilanefndar varnaraðila, hafi verið sennileg afleiðing af háttsemi skilanefndarinnar. Skaðabótaábyrgð taki til fyrirsjáanlegra afleiðinga af háttsemi tjónvalds. Í þessu tilfelli felist hin bótaskylda háttsemi í því athafnaleysi sem skilanefnd varnaraðila viðhafði í aðdraganda þess að sóknaraðili millifærði dollarana á reikning varnaraðila. Með því að takmarka flæði gjaldeyris frá varnaraðila, og bíða með að tilkynna um skipan skilanefndarinnar, hafi skilanefnd mátt sjá fyrir að gagnkvæmir gjaldeyrisskiptasamningar myndu enda á þann veg að annar aðilinn skilaði sinni greiðslu en hinn héldi sinni eftir, með þeim afleiðingum að greiðsla annars aðilans yrði föst hjá hinum.
Sóknaraðili hafi gert allt sem hægt var að gera til að takmarka tjón sitt. Um leið og sóknaraðili hafi fenið upplýsingar um að varnaraðili hefði verið tekinn til skipta hafi sóknaraðili reynt að fá dollarana bakfærða, án árangurs.
Með hliðsjón af ofangreindu beri skilanefnd skaðabótaábyrgð samkvæmt sakarreglunni á háttsemi sinni gagnvart varnaraðila og því beri að taka til greina varakröfu sóknaraðila skv. 3. tl. 110 gr. laga nr. 21/1991. komi hún til umfjöllunar réttarins.
Fallist dómurinn ekki á kröfur sóknaraðila skv. 109. og 110. gr. laganna. gerir sóknaraðili kröfu til þrautaþrautavara um að krafa hans um afhendingu dollaranna verði viðurkennd sem almenn krafa skv. 113. gr. laganna.
Kröfur skv. 113. gr. eru almennar kröfur, það er kröfur sem njóta ekki forgangs. Ljóst sé, samkvæmt því sem að ofan greinir, að sóknaraðili eigi rétt á að fá dollarana endurgreidda, meðal annars samkvæmt reglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár og lögum um lausafjárkaup. Sóknaraðili vísar til þeirra málsástæðna hvað varðar rétt sinn til að fá dollarana endurgreidda skv. 113. gr.
Kröfu sóknaraðila hafi upprunalega verið lýst sem kröfu skv. 109. og 110. gr. laga nr. 21/1991 en ekki hafi verið gerð sérstök þrautavarakrafa á grundvelli 113. gr. laganna.
Þegar kröfu er lýst við gjaldþrotaskipti sem forgangskröfu beri kröfuhafa að taka fram rétthæð kröfunnar, sbr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Í frumvarpi til laga um gjaldþrotaskipti o.fl. kemur fram að krafa skuli vera úr garði gerð á sambærilegan hátt og kröfugerð í stefnu í einkamáli. Samkvæmt lögum um meðferð einkamála geti dómari ávallt dæmt lægri fjárhæð en krafist er ef málsástæður eru skýrar. Með sama hætti ætti skiptastjóri að samþykkja kröfu sem kröfu með lægri forgang ef hann hafnar henni sem forgangskröfu.
Sóknaraðili geri ýtrustu kröfur í máli þessu. Slík kröfugerð feli í sér allar vægari kröfur sem byggja á sömu málsástæðum og hin ýtrasta krafa. Að auki sé sóknaraðila ætlað ákveðið svigrúm við kröfugerð þegar ágreiningsmálinu er vísað til dómstóla. Að þessu virtu beri því að líta svo á að krafa um afhendingu dollaranna skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 sé innifalin í kröfum skv. 109. og 110. gr. og því beri dóminum að taka þrautavarakröfuna til greina verði ekki fallist á aðal- og varakröfuna.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili hafnar því að sóknaraðili eigi rétt til greiðslu á 50.000.000 Bandaríkjadollara úr búi varnaraðila, enda hafi sóknaraðili hvorki sýnt fram á eða sannað eignarrétt sinn að fjármununum. Þá geti varnaraðili ekki fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að hann eigi rétt til endurgreiðslu dollaranna samkvæmt reglum um endurgreiðslu ofgreidds fjár, að krafan verði grundvölluð á lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000, að viðskiptin hafi verið ógild samkvæmt ákvæðum laga um samningsgerð, umboð og aðra löggerninga nr. 7/1936 eða að um hafi verið að ræða ólögmæta auðgun varnaraðila.
Aðilar hafi ekki samið sérstaklega um skilmála viðskiptanna eða um hvers lands lögum skyldi beita um hugsanlegan réttarágreining aðila sem kynni að stofnast til vegna samningsins. Aðilar samningsins eru japanskur banki annars vegar og íslenskur banki hins vegar, efndastaðir samningsins eru annars vegar í New York og hins vegar í Tókýó, og samningurinn felur í sér rafræn viðskipti með gjaldeyri á millibankamarkaði og virðist hann komast á fyrir tilstilli miðlara hjá Dealhub á grundvelli tilboða aðila í upplýsingakerfi Reuters. Krafa sóknaraðila í málinu telst því til einkaréttarlegrar samningsskuldbindingar í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar. Þar sem ekki er ljóst af samningnum sjálfum eða atvikum málsins hvers lands lögum skuli beita um ágreining aðila skuli beita lögum þess lands sem samningurinn hafi sterkust tengsl við, sbr. 4. gr. laga nr. 43/2000. Að jafnaði skuli líta svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem aðili hafi aðalstöðvar sínar en þó skuli beita lögum þess lands þar sem samningsaðili hafi starfsstöð ef efna eigi samning á annarri starfsstöð en þar sem samningsaðili hafi aðalstarfsstöð sína. Þrátt fyrir að varnaraðili hafi átt að efna skyldu sína samkvæmt samningnum í Tókýó hafi hann ekki starfsstöð þar. Í ljósi þess telur varnaraðili að beita megi íslenskum lögum um greiðslu sóknaraðila til varnaraðila og um gagngjald varnaraðila.
Því er mótmælt að staðfesting á millifærslu dollarana sýni fram á eignarrétt sóknaraðila að fjármununum, staðfestingin sýni ekki annað en að sóknaraðili hafi efnt síðari legg samningsins fyrir sitt leyti og eignast með því að afhenda varnaraðila fjármunina, kröfu um umsamið endurgjald varnaraðila, þ.e. 5.235.000.000 japönsk jen, sem honum hafi borið að greiða sóknaraðila innan dagsins.
Með réttum efndum á síðari legg samningsins hafi áhætta flust af greiðslu sóknaraðila til varnaraðila, sem hafi frá sama tímamarki notið eignar- og umráðaréttar yfir fjármununum sem hann hafi getað ráðstafað að vild. Ekki sé fallist á þá málsástæðu sóknaraðila að yfirfærsla eignarréttar að fjármununum hafi verið bundin því skilyrði að gagngjald varnaraðila yrði innt af hendi samtímis.
Þá verði ekki fallist á að sóknaraðili hafi greitt meira en honum bar. Greiðsla sóknaraðila til varnaraðila hafi verið í fullu samræmi við gjaldmiðlaskiptasamning þeirra, sem enn sé í fullu gildi en honum hafi hvorki verið rift af hálfu sóknaraðila né hafi hann verið dæmdur ógildur. Hafa fulltrúar slitastjórnar varnaraðila ítrekað komið þeirri skoðun sinni á framfæri við sóknaraðila en samkvæmt því eigi sóknaraðili kröfu til greiðslu á jenum úr hendi varnaraðila í samræmi við ákvæði samningsins, en slík krafa nyti rétthæðar samkvæmt 113. gr. GÞL við skiptin á búi varnaraðila.
Varnaraðili telur að krafa sóknaraðila verði ekki grundvölluð á lögum nr. 50/2000 um lausafjárkaup, einkum 28. gr., 61. gr. og 4. mgr. 54. gr. laganna, eins og sóknaraðili haldi fram.
Í fyrsta lagi sé útilokað að líta svo á að varnaraðili hafi aðfaranótt 9. október 2008 haft nægilegt ráðrúm til að taka afstöðu til allra gagnkvæmra samninga bankans og gera ráðstafanir til að tilkynna öllum viðsemjendum sínum með fullnægjandi hætti um hugsanlega hindrun bankans á efndum. Þar af leiðandi sé ekki um brot gegn 28. gr. laga um lausafjárkaup að ræða.
Í málinu liggi fyrir að Fjármálaeftirlitið hafi skipað varnaraðila skilanefnd aðfaranótt hins 9. október 2008. Skilanefndin kom saman þá um nóttina til að ráða ráðum sínum og var fundi síðan fram haldið kl. 8.45 að morgni hins 9. október 2008. Kallaði skilanefndin þá ýmsa stjórnendur og starfsmenn bankans til fundar. Þá fyrst hafi skilanefndin haft raunhæft tækifæri til að taka afstöðu til einstakra gagnkvæmra samninga bankans og gera eftir atvikum viðeigandi ráðstafanir en þá hafði sóknaraðili þegar innt greiðslu sína af hendi. Ekkert liggi fyrir í málinu um að skilanefnd varnaraðila hafi verið ljóst að bankinn gæti ekki efnt gagnkvæmar skuldbindingar sínar, s.s. gjaldmiðlaskiptasamning aðila, fyrr en að morgni 9. október 2008. Fullyrðingum sóknaraðila um að SMBC í Tókýó hafi upplýst varnaraðila sérstaklega um að hann gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningi aðila áður en kom að efndatíma á síðari legg samningsins, er mótmælt sem röngum og ósönnuðum.
Þá bendir varnaraðili á að brot seljanda gegn upplýsingaskyldu um hindrun sem kveðið er á um í 28. gr. laga um lausafjárkaup, veitir kaupanda ekki rétt til þess að krefjast afhendingar greiðslu sinnar að nýju, heldur rétt til bóta vegna þess tjóns, sem hann hefði getað komist hjá ef honum hefði borist tilkynning um hindrun með nægum fyrirvara. Krafa sóknaraðila um afhendingu á dollurunum úr búi bankans utan skuldaraðar verði því ekki grundvölluð á 28. gr. laganna hvað sem líði efndum skilanefndar varnaraðila á upplýsingaskyldu sinni samkvæmt henni.
Í öðru lagi verði krafa sóknaraðila um afhendingu dollarana ekki grundvölluð á 61. gr. laga um lausafjárkaup af þeirri ástæðu að hún kveði á um rétt samningsaðila til að stöðva greiðslu vegna fyrirsjáanlegra vanefnda. Í málinu liggi fyrir að sóknaraðili efndi síðari legg gjaldmiðlaskiptasamningsins fyrir sitt leyti og greiddi 50.000.000 Bandaríkjadollara inn á reikning varnaraðila hjá JP Morgan Chase í New York í samræmi við ákvæði samningsins um efndastað og efndatíma. Varnaraðili, sem hafði forræði á reikningnum, hafði því móttekið greiðslu sóknaraðila. Af því leiði að útilokað hafi verið fyrir sóknaraðila að stöðva efndir af sinni hálfu, halda eftir greiðslu eða varna því að greiðslan yrði afhent varnaraðila. Þá er ljóst að krafa um afhendingu dollaranna úr búi bankans utan skuldaraðar verði ekki grundvölluð á 61. gr. laga um lausafjárkaup.
Í þriðja lagi telur varnaraðili að tilvísun sóknaraðila til síðari málsliðar 4. mgr. 54. gr. kpl. kröfu sinni til stuðnings eigi sér ekki nægilega stoð í lögum. Varnaraðili hafi veitt greiðslu sóknaraðila viðtöku og sé réttur sóknaraðila til að rifta kaupunum samkvæmt 4. mgr. 54. gr. laga um lausafjárkaup háður því að hann hafi gert um það fyrirvara en slíkur fyrirvari hafi ekki verið gerður af hálfu sóknaraðila. Undantekningarákvæði síðari málsliðar 4. mgr. 54. gr., um rétt til riftunar án þess að slíkur fyrirvari hafi verið gerður þegar um er að ræða alþjóðleg kaup, eigi ekki við í málinu þar sem sérreglur laganna um alþjóðleg kaup eigi ekki við þegar um er að ræða kaup á peningum, sbr. d-lið 3. mgr. 5. gr. laga um lausafjárkaup Af því leiði að heimild sóknaraðila til að lýsa yfir riftun samningsins og krefjast afhendingar dollarana verði ekki grundvölluð á 4. mgr. 54. gr. laga um lausafjárkaup.
Þá kveður varnaraðili að tilvísun sóknaraðila til 4. mgr. 54. gr. laga um lausafjárkaup, til stuðnings heimildar til riftunar samningsins stangist á við þá málsástæðu hans að eiginleg gjaldþrotaskiptameðferð varnaraðila hafi hafist við skipan skilanefndar varnaraðila hinn 9. október 2008. Vilji sóknaraðili byggja rétt sinn til riftunar samningsins á gjaldþroti varnaraðila skuli um rétt hans til þess fara eftir lögum um gjaldþrotaskipti samkvæmt 63. gr. laga um lausafjárkaup.
Þá hafnar varnaraðili því að kröfur sóknaraðila í málinu verði með réttu reistar á 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða á reglum um óréttmæta auðgun. Hafi sóknaraðili í engu sýnt fram á að skilyrðum 36. gr. laganna sé fullnægt og ljóst er að ekki getur verið um ólögmæta auðgun að ræða ef annar aðili samnings efnir hann fyrir sitt leyti og öðlast með því kröfu til samsvarandi efnda á hendur viðsemjanda sínum.
Að lokum bendir varnaraðili á að yrði á annað borð fallist á heimild sóknaraðila til að rifta gjaldmiðlaskiptasamningi aðila yrðu réttaráhrif riftunarinnar þau að skyldur beggja aðila til að efna samninginn féllu niður. Eigi það við bæði um fyrri og síðari legg gjaldmiðlaskiptasamningsins enda séu þeir tengdir órofa böndum, þ.e. efnisákvæði samningsins um efndatíma og gengi á jeni gagnvart dollar hafi verið byggð á því að báðir leggir samningsins yrðu réttilega efndir af hálfu beggja aðila. Í greinargerð sinni virðist sóknaraðili aðeins vilja rifta síðari legg samningsins, þ.e. greiðslu hans á dollurum til varnaraðila. Með vísan til meginreglna laga um réttaráhrif riftunar verði ekki fallist á þá kröfu sóknaraðila. Ef fallist yrði á rétt sóknaraðila til riftunar á annað borð yrði að láta samning aðila ganga til baka að fullu, þ.e. bæði fyrri og síðari legg samningsins. Með því kæmu dollararnir, sem voru óumdeilanlega í eigu varnaraðila fyrir gerð gjaldmiðlaskiptasamningsins, í hans hlut og jenin í hlut sóknaraðila. Af þessu leiði að riftun sóknaraðila á gjaldmiðlaskiptasamningnum geti ekki verið grundvöllur kröfu hans um afhendingu dollaranna úr búi varnaraðila.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið telur varnaraðili að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann geti gert löglegt tilkall til dollaranna á grundvelli eignarréttar og því beri að hafna öllum kröfum sóknaraðila óháð lýstri rétthæð þeirra, en þær eigi það allar sammerkt að byggja á því að sóknaraðili sé réttur eigandi fjárins. Varnaraðili telur sóknaraðila aðeins geta gert þá kröfu að fá greitt í samræmi við gildan gagnkvæman samning aðila, að teknu tilliti til hlutagreiðslu samkvæmt samkomulagi aðila en varnaraðili hafi aldrei vikist undan skuldbindingu sinni til greiðslu á þeirri kröfu sóknaraðila. Sóknaraðili hafi engu að síður kosið að lýsa aðeins kröfu um afhendingu dollaranna í bú varnaraðila. Sú krafa geti ekki falið í sér kröfu um réttar efndir samningsins, enda yrði að reisa þá kröfu á málsástæðum sem sóknaraðili hafi ekki haft í frammi auk þess sem slík krafa sé um önnur efnisleg réttindi en fjallað er um í kröfugerð sóknaraðila, þ.e. jen, ekki dollara. Af þeirri ástæðu telur varnaraðili dóminn verða að hafna öllum kröfum sóknaraðila í málinu.
Varnaraðili hafnar þeirri fullyrðingu sóknaraðila, að ákvæði XVII. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eigi við um ágreining aðila þar sem skilanefnd varnaraðila hafi gegnt hlutverki skiptastjóra í skilningi laganna og að eiginleg gjaldþrotaskiptameðferð varnaraðila hafi hafist með skipan hennar. Jafnframt hafnar varnaraðili þeirri fullyrðingu sóknaraðila að ákvæði laga nr. 125/2008 og 44/2009 brjóti á einhvern hátt gegn stjórnarskrárvörðum eignarrétti sóknaraðila.
Varnaraðili kveður lög nr. 125/2008 og 44/2009 vera stjórnskipulega gild og á þeim verði að byggja við úrlausn málsins, þ.m.t. ákvæðum þeirra um bann við fullnustugerðum, frestdag, upphaf slitameðferðar o.fl. Þannig hafi eiginleg slitameðferð varnaraðila samkvæmt sérreglum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki ekki hafist fyrr en 22. apríl 2009, þegar lög nr. 44/2009 tóku gildi, sbr. 2. tl. ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 44/2009. Frestdagur varnaraðila var ákveðinn 15. nóvember 2008, sbr. ákvæði III til bráðabirgða með lögum nr. 44/2009. Fullyrðing sóknaraðila þess efnis að frestdagur í tilfelli varnaraðila sé 8. október 2008 eigi því ekki við rök að styðjast.
Varnaraðili krefst þess að aðal- og varakröfu sóknaraðila um afhendingu á 50.000.000 Bandaríkjadala utan skuldaraðar verði hafnað og telur að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann sé réttur eigandi fjárins. Grundvallarskilyrði fyrir því að kröfunni verði skipað í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 sé því ekki uppfyllt, þ.e. sönnun sóknaraðila á eignarrétti hans að fénu. Af þeim sökum gildir einu hvort fallist verður á það sjónarmið sóknaraðila að upphaf skiptameðferðar varnaraðila eigi að miða við skipan skilanefndarinnar þvert gegn ákvæðum og tilgangi laga nr. 125/2008 og 44/2009.
Þá er því mótmælt af hálfu varnaraðila að sóknaraðili hafi nokkru sinni átt sérgreint fé í fórum varnaraðila í formi tiltekinna peningaseðla þannig að uppfyllt séu skilyrði 109. gr. laga nr. 21/1991. Jafnvel þótt fallist yrði á að sóknaraðili ætti eignarréttarlegt tilkall til dollaranna yrði ekki unnt að fallast á afhendingu þeirra utan skuldaraðar þar sem þeir hafi aldrei verið nægilega sérgreindir í búi varnaraðila. Fái framangreint jafnframt stoð í kröfulýsingu sóknaraðila þar sem aðeins sé gerð krafa um afhendingu á ákveðinni fjárhæð dollara en ekki tilteknum peningaseðlum.
Varnaraðili vísar jafnframt til meginreglu gjaldþrotaréttarins um jafnræði kröfuhafa við þá sameiginlegu fullnustugerð sem felist í gjaldþrotaskiptum/slitameðferð, þ.e. að kröfuhafar verði ekki aðeins að sanna tilvist kröfu heldur jafnframt að sýna fram á og sanna að krafan njóti rétthæðar samkvæmt 109.-112. gr. laga nr. 21/1991, umfram almennar kröfur. Varnaraðili telur sóknaraðila ekki hafa lánast sú sönnunarfærsla í málinu, hvorki að því er varðar eignarrétt sóknaraðila að dollurunum, sérgreiningu þeirra í búi varnaraðila eða að önnur verðmæti hafi komið í stað þeirra þannig að uppfyllt séu skilyrði 1. eða 2. mgr. 109. gr. laganna. Af þeirri ástæðu telur varnaraðili einsýnt að hafna verði aðal- og varakröfu sóknaraðila.
Fyrsta þrautavarakrafa sóknaraðila í málinu er að krafa hans um afhendingu dollaranna njóti rétthæðar í búi varnaraðila samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 og önnur þrautavarakrafa sóknaraðila er að rétthæð kröfunnar fari eftir 4. tl. sömu lagagreinar.
Varnaraðili kveður skilyrði þeirra ekki uppfyllt. Sóknaraðili hafi í fyrsta lagi ekki sýnt fram á að hann eigi þá kröfu sem hann krefst viðurkenningar á og ekki sýnt fram á að krafan, verði hún á annað borð viðurkennd, skuli njóti rétthæðar samkvæmt tilvitnuðum ákvæðum gjaldþrotaskiptalaganna. Varnaraðili telur sóknaraðila ekki eiga kröfu um afhendingu dollaranna úr búi bankans heldur aðeins til umsamins gagngjalds varnaraðila. Sú krafa hafi stofnast með gjaldmiðlaskiptasamningi aðila hinn 22. september 2008, löngu fyrir upphaf slitameðferðar varnaraðila 22. apríl 2009.
Varnaraðili hafnar alfarið þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hann hafi með því að flytja og sameina „eign sóknaraðila öðrum fjármunum í vörslu þrotabúsins“ fyrirgert rétti og möguleikum sóknaraðila til endurheimtu á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991. Hið rétta sé að þeir fjármunir sem sóknaraðili krefjist afhendingar á hafi aldrei verið nægilega sérgreinir í vörslum varnaraðila þannig að skilyrði 109. gr. laganna geti talist uppfyllt. Af þeirri ástæðu verði ekki litið svo á að varnaraðili hafi skaðað hagsmuni sóknaraðila með varðveislu og/eða ráðstöfun þeirra fjármuna sem sóknaraðili greiddi varnaraðila á grundvelli gagnkvæms samnings aðila. Þá stoði sóknaraðila ekki að vísa til 3. mgr. 123. gr. laganna til stuðnings kröfu sinni um viðurkenningu á rétthæð samkvæmt 3. tl. 110. gr. laganna, enda hafi sóknaraðili hvorki sýnt fram á eignarrétt sinn að fjármununum, né sérgreiningu þeirra í búi varnaraðila, né tilvist eða umfang tjóns þannig að líta megi á kröfugerð sóknaraðila sem skaðabótakröfu. Krafa sóknaraðila er eftir sem áður um afhendingu dollarana en ekki bætur á grundvelli 3. mgr. 123. gr. laganna.
Með sama hætti mótmælir varnaraðili alfarið kröfu sóknaraðila um forgang kröfunnar samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 á grundvelli almennra skaðabótareglna. Í fyrsta lagi eigi 4. mgr. 77. gr. laganna ekki við um starfsemi skilanefndar á efndadegi samnings aðila, enda hafi slitameðferð varnaraðila ekki hafist fyrr en 22. apríl 2009. Í öðru lagi hafi sóknaraðili ekki sýnt fram á að varnaraðili hafi valdið sóknaraðila tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti. Í þriðja lagi mótmælir varnaraðili þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hann hafi orðið fyrir tjóni sem nemi 50 milljónum Bandaríkjadala. Í málinu liggi ekkert fyrir um að hve miklu leyti sóknaraðili gæti fengið fullnustu á réttmætri kröfu sinni um gagngjald varnaraðila samkvæmt samningi aðila, auk þess sem sóknaraðili taki ekkert tillit til þess að varnaraðili hafi þegar greitt hluta af kröfufjárhæðinni. Yrði fallist á skaðabótakröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett kæmi sóknaraðili því til með að hagnast óeðlilega á kostnað annarra kröfuhafa varnaraðila. Í fjórða lagi hafi sóknaraðili ekki lýst skaðabótakröfu í bú varnaraðila og verði því úrlausn málsins ekki grundvölluð á skaðabótareglum.
Varnaraðili ítrekar mótmæli sín við þeirri fullyrðingu sóknaraðila að hann hafi rift gjaldmiðlaskiptasamningi aðila hinn 20. október 2008 og því sé samningur aðila ekki lengur í gildi. Hið rétta sé að engri yfirlýsingu um riftun hafi verið beint að varnaraðila, auk þess sem yfirlýsing um riftun verði hvorki grundvölluð á ákvæðum laga um lausafjárkaup né lögum um gjaldþrotaskipti. Þá bendir varnaraðili á að jafnvel þótt fallist yrði á að gjaldmiðlaskiptasamningi aðila hefði verið rift af hálfu varnaraðila yrðu aðilar því aðeins eins settir að báðir leggir samningsins yrðu látnir ganga til baka, þ.e. varnaraðili héldi dollurunum sem hann seldi sóknaraðila í fyrri legg samningsins og sóknaraðili jenunum. Krafa sóknaraðila um afhendingu dollaranna samræmist því ekki yfirlýsingu hans um riftun og þeim sjónarmiðum hans að rétta beri stöðu sóknaraðila þannig að hún verði eins og samningurinn hefði aldrei verið gerður.
Ekki sé ljóst á hvaða málsástæðum sóknaraðili grundvalli kröfu sína um viðurkenningu á rétthæð samkvæmt 4. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Það ákvæði laganna taki aðeins til krafna sem orðið hafi til eftir frestdag með ráðstöfunum skuldara sem samþykktar hafi verið af aðstoðarmanni hans við greiðslustöðvun eða umsjónarmanni með nauðasamningsumleitunum. Hvorugt eigi við í því tilviki sem hér um ræði auk þess sem frestdagur hafi verið ákveðinn 15. nóvember 2008 í tilviki varnaraðila.
Sóknaraðili geri til þrautaþrautavara þá kröfu að krafa hans um afhendingu dollaranna verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna.
Varnaraðili telur sóknaraðila ekki eiga réttmæta kröfu um afhendingu dollarana, en hann hafi aftur á móti átt réttmæta kröfu til greiðslu á gagngjaldi varnaraðila samkvæmt samningi aðila að fjárhæð 5.235.000.000 japönsk jen sem almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laganna. Þeirri kröfu hafi sóknaraðili ekki lýst í bú varnaraðila og verði hún ekki talin felast í kröfu sóknaraðila um afhendingu dollarana enda ekki um að ræða réttlægri kröfu í réttarfarslegum skilningi. Krafa sóknaraðila um greiðslu á jenum samkvæmt samningi aðila fæli í sér kröfu um önnur efnisleg verðmæti og yrði hún að byggja á öðrum málsástæðum en þeim sem sóknaraðili hafi byggt mál sitt á gagnvart varnaraðila. Af þeim sökum sé óhjákvæmilegt að hafna öllum kröfum sóknaraðila í málinu.
Varnaraðili telji þó ekki ástæðu til að mótmæla því sjónarmiði sóknaraðila að krafa hans um rétthæð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 felist í lýstum kröfum hans um rétthæð samkvæmt 109. og 110. gr. sömu laga.
Kröfum sóknaraðila um vexti af aðal- og varakröfum undir 1. og 2. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 er sérstaklega mótmælt. Ákvæði laganna geri ráð fyrir því að eign þriðja aðila sem er í vörslum þrotabús verði afhent viðkomandi utan skuldaraðar en í ákvæðinu sé ekki kveðið á um að slíkar eignir skuli bera dráttarvexti, sem þrotabúi beri að standa skil á í formi reiðufjár. Hafi sá skilningur varnaraðila á þessu ákvæði laganna verið staðfestur í dómaframkvæmd og í umfjöllun fræðimanna. Með vísan til þessa sé engin stoð fyrir kröfu sóknaraðila um dráttarvexti af aðal- og varakröfu. Þaðan af síður sé grundvöllur fyrir þeirri kröfu sóknaraðila að vextir og kostnaður fylgi rétthæð krafna sem lýst er sem sértökukröfum, enda útilokað að þær greiðslur verði sérgreindar meðal eigna búsins og afhentar sóknaraðila.
Varnaraðili bendir á að í kröfulýsingu sóknaraðila sé kröfum sóknaraðila um dráttarvexti og kostnað eftir 22. apríl 2009 lýst sem eftirstæðum kröfum samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 21/1991, en sömu kröfum sé lýst undir 109. gr. og 110. gr. laganna í greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms. Varnaraðili telur ljóst að sóknaraðili sé bundinn af kröfugerð sinni í kröfulýsingu, en í henni beri sóknaraðila að setja endanlega fram rétthæð kröfu sinnar, sbr. 117. gr. laga nr. 21/1991.
Hið sama eigi við um kröfu sóknaraðila um gengismun, sem mótmælt er sérstaklega, en í kröfulýsingu sóknaraðila sé kröfum hans um gengismun, verði kröfufjárhæðir reiknaðar í íslenskum krónum, lýst sem eftirstæðum kröfum samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 21/1991 en sömu kröfum lýst undir 109.-110. gr. laganna í greinargerð sóknaraðila til héraðsdóms. Sóknaraðili sé með sama hætti og að framan greini bundinn af lýstri rétthæð krafna sinna í kröfulýsingu og beri því að hafna kröfum hans í greinargerðinni að þessu leyti.
Vaxtakrafa sóknaraðila sé auk þess sett fram sem dráttarvaxtakrafa af skaðabótakröfu á grundvelli 9. gr. laga nr. 38/2001 í öllum liðum kröfulýsingar í greinargerð. Sú krafa sé sértaklega í ósamræmi við kröfu sóknaraðila um afhendingu fjármuna utan skuldaraðar. Þá er í aðal- og varakröfu ýmist miðað við 8. eða 9. október 2008 sem upphafsdag dráttarvaxta. Ef svo ólíklega vildi til að dómurinn féllist á að aðal- og varakrafa sóknaraðila feli í sér kröfu um skaðabætur þannig að beita mætti ákvæði 9. gr. laga nr. 38/2001 um hana þá gætu dráttarvextir ekki fallið á hana fyrr en í fyrsta lagi mánuði eftir að sóknaraðili lagði fram greinargerð sína í málinu eins og ráða megi af skýru orðalagi ákvæðisins. Varnaraðili bendir á að sóknaraðili láti hjá líða að færa rök fyrir kröfum sínum um vexti og kostnað í greinargerð sinni og séu kröfur hans að því leyti svo vanreifaðar að varðað geti sjálfkrafa frávísun frá dómi.
Varnaraðili mótmælir sérstaklega kröfum sóknaraðila um kostnað af innheimtu kröfunnar sem og að sá kostnaður fylgi höfuðstól kröfunnar í skuldaröð sem allt of háum og órökstuddum. Sá kostnaður sem sóknaraðili krefjist samkvæmt framansögðu stafi af árangurslausum tilraunum sóknaraðila til heimtu kröfunnar fyrir dómstólum í New York, en sóknaraðili hafi ekki fært nein rök fyrir því að kostnaður af þeim málaferlum eigi að greiðast úr búi varnaraðila. Þá hafi sóknaraðili lýst því yfir með samkomulagi við varnaraðila að hann muni sjálfur bera allan kostnað af málaferlum í New York, þ.m.t. vegna samningaviðræðna, undirbúnings o.fl. Sóknaraðili sé bundinn af þeirri yfirlýsingu sinni og beri því að hafna öllum kröfum hans um kostnað vegna þeirra. Bendir varnaraðili á að almennt standi ekki efni til annars en að viðurkenna eðlilegan kostnað kröfuhafa af því að útbúa kröfulýsingu og koma henni á framfæri við þrotabú sé á annað borð fallist á réttmæti kröfunnar.
Til vara krefst varnaraðili þess að krafa sóknaraðila í bú varnaraðila verði lækkuð um sem nemur 2.487.050 Bandaríkjadölum í samræmi við samkomulag aðila fyrir dómi í New York. Þá verði kröfum sóknaraðila um viðurkenningu á forgangsrétti kröfunnar samkvæmt 109.-110. gr. laga nr. 21/1991 hafnað með vísan til þeirra sjónarmiða varnaraðila sem fjallað er um hér að framan. Varnaraðili byggir einkum á því að þótt fallist yrði á að sóknaraðili ætti kröfu á hendur varnaraðila um greiðslu dollara úr búi varnaraðila gæti slík krafa aldrei notið annarrar rétthæðar en samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi sóknaraðila ekki tekist að sýna fram á að krafan eigi að njóta rétthæðar samkvæmt 109.-110. gr. laganna. Með vísan til þess sem að framan er rakið um lýstar vaxtakröfur sóknaraðila telur varnaraðili sóknaraðila ekki geta átt rétt til dráttarvaxta af varakröfunni.
Niðurstaða
Í máli þessu er til úrlausnar ágreiningur er varðar samning aðila frá 22. september 2008 um gjaldeyrisviðskipti (forward foreign currency exchange transaction). Óumdeilt er að aðilar sömdu ekki sérstaklega um skilmála viðskiptanna eða um hvers lands lögum skyldi beita um hugsanlegan réttarágreining aðila vegna samningsins. Samningurinn fól í sér rafræn viðskipti með gjaldeyri á millibankamarkaði og komst á fyrir tilstilli miðlara á grundvelli tilboða aðila. Krafa sóknaraðila telst því til einkaréttarlegrar samningsskuldbindingar í skilningi 1. mgr. 1. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar. Samkvæmt 4. gr. laganna skal beita lögum þess lands sem samningur hefur sterkust tengsl við, en að jafnaði skal líta svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land, þar sem sá aðili sem efna á aðalskyldu samningsins býr við samningsgerðina. Þegar um er að ræða fyrirtæki, félag eða aðra lögpersónu skal að jafnaði litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem aðili hefur aðalstöðvar sínar. Ef samningurinn er gerður í tengslum við atvinnu eða atvinnurekstur viðkomandi aðila skal litið svo á að samningur hafi sterkust tengsl við það land þar sem sá sem aðalskylduna ber hefur aðalstarfsstöð sína. Ef efna á samning samkvæmt ákvæðum hans á annarri starfsstöð en þar sem aðili hefur aðalstarfsstöð sína skal beita lögum þess lands þar sem sú starfsstöð er. Varnaraðili hafði ekki starfsstöð í Tókýó og verður því talið að beita skuli íslenskum lögum um greiðslu sóknaraðila til varnaraðila og um gagngjald varnaraðila.
Óumdeilt er að fyrri leggur samningsins var efndur af hálfu beggja aðila 25. september 2008 og sóknaraðili efndi síðari legg samningsins að morgni 9. október 2008, með því að millifæra af reikningi í eigu sinni yfir á reikning í eigu varnaraðila hjá JP Morgan Chase í New York 50 milljónir Bandaríkjadala. Fór greiðslan fram rafrænt, en varnaraðili efndi ekki sinn hluta samningsins með því að millifæra þá greiðslu japanskra jena, sem samningur aðila kvað á um. Bandaríkjadalir þeir sem sóknaraðili hafði millifært lágu á reikningi varnaraðila hjá JP Morgan Chase í New York, þar til þeir voru millifærðir á reikning varnaraðila hjá Seðlabanka Íslands 19. nóvember 2008. Fram að þeim tíma hafði sóknaraðili margreynt að fá afhenta fjármuni þessa, án árangurs eins og skýrlega verður ráðið af þeim bréfum sóknaraðila til skilanefndar varnaraðila sem fyrir liggja í málinu. Fram hefur komið af hálfu varnaraðila að hann viðurkennir að sóknaraðili eigi kröfu á hendur sér sem nemi greiðslu á gagngjaldi því sem samið hafði verið um, þ.e. 5.235.000.000 japanskra jena sem nyti rétthæðar sem almenn krafa í búi varnaraðila.
Sóknaraðili hefur aðallega krafist viðurkenningu kröfu sinnar sem sértökukröfu samkvæmt 109. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.
Í 109. gr. laganna er fjallað um rétthæstu kröfurnar í þrotabúi, en í ákvæðinu segir að afhenda skuli þriðja manni eign eða réttindi í vörslum þrotabús ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim. Þegar um peningafjárhæðir í vörslum þrotabús er að ræða hefur verið talið að tvö skilyrði þurfi að uppfylla til þess að ákvæðið eigi við. Í fyrsta lagi þarf sá sem krefst peningafjárhæðarinnar að sanna eignarrétt sinn að henni og í öðru lagi þarf féð að liggja sérgreint í vörslum búsins. Síðari áskilnaður hefur þó ekki verið gerður þegar atvikum hefur verið þannig háttað að peningar hafa ekki komist í vörslur þrotabús fyrr en eftir upphaf skipta, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 441/2011 sem kveðinn var upp 28. nóvember 2011.
Fyrir liggur að sóknaraðili millifærði þá 50.000.000 Bandaríkjadali sem ágreiningur málsins snýst um, gegn því að varnaraðili afhenti japönsk jen á sama degi í samræmi við samning aðila þar að lútandi. Rafræn samskipti aðila sýna, svo ekki verður um villst að 50.000.000 dollara fóru af reikningi sóknaraðila inn á reikning í eigu varnaraðila hjá JP Morgan Chase í New York kl. 7.48 að íslenskum tíma, 9. október 2008. Verður því ekki með nokkru móti séð að sóknaraðili hafi ekki sannað eignarrétt sinn að þeim Bandaríkjadölum sem millifærðir voru á fyrrgreindan reikning hjá JP Morgan. Féð lá á reikningi varnaraðila hjá JP Morgan þar til það var millifært yfir á reikning varnaraðila hjá Seðlabanka Íslands 19. nóvember 2008. Áður hafði sóknaraðili lýst yfir riftun samnings aðila, með bréfi til formanns skilanefndar varnaraðila frá 16. október 2008, þar sem tilgreind eru þrjú tilvik um gjaldeyrisviðskipti við sóknaraðila, en jafnframt segir í bréfi þessu: Þann 9. október 2008 stóð Kaupþing banki ekki heldur við að inna af hendi greiðslu á JPY 5.325.000.000 til The Bank of Tokyo-Mitsubishi, Ltd. (BTMU) í samræmi við skilmála annarra viðskipta (tilv.2008092202252). Verðákvörðunardagur 9. október 2008. Hvert þessara atvika myndaði einnig aðskilið vanefndatilvik með tilliti til hinna 3 viðskipta sem vísað er í hér að framan. Hér með er Kaupþingi tilkynnt um þessi vanefndatilvik sem leysa BTMU undan öllum skuldbindingum til að inna af hendi greiðslur til Kaupþings á dagsetningum þessara viðskipta og sem veita BTMU leyfi til að rifta þeim viðskiptum sem um ræðir, sem og er þeim hér með rift “
Verður bréf þetta ekki skilið á annan hátt en að sóknaraðili rifti samningi aðila sem mál þetta snýst um.
Af tölvuskeytasamskiptum skilanefndar varnaraðila og starfsmanna hans sem liggja frammi í málinu má ráða að skilanefndin hóf störf strax aðfaranótt 9. október 2008. Samkvæmt vitnisburði Guðnýjar Örnu Sveinsdóttur, sem sat í skilanefnd varnaraðila, var á fyrsta fundi nefndarinnar tekin ákvörðun um að halda gjaldeyri í landinu. Í vitnisburði Ólafs Frímanns Gunnarssonar forstöðumanns fjárstýringar fyrir dóminum upplýsti hann um tölvusamskipti á dómskjali 32, frá 14. október 2008. Hann bar fyrir dómi að hann væri nær fullviss um að hann hefði óskað eftir afstöðu skilanefndar til þess hvort endurgreiða ætti þá 50.000.000 Bandaríkjadali sem sóknaraðili hafði millifært á reikning varnaraðila hjá JP Morgan í New York, en ekki fengið heimild til þess.
Vitnið Delia Kristín Howser, sem var yfirmaður deildar sem sá um allar erlendar millifærslur og gjaldeyrislánaviðskipti, bar fyrir dómi að greiðslufyrirmæli til þess banka í Japan sem millifæra átti japönsk jen til sóknaraðila í samræmi við samning aðila, Sumitomi Mitsui Banking Corporation, hefðu farið frá varnaraðila tveimur dögum fyrir 9. október 2008. Greiðslan hefði hins vegar ekki verið innt af hendi, þar sem ekki hafi verið innstæða fyrir henni í fyrrgreindum banka. Hefði innstæða verið fyrir hendi hefði greiðslan á japönskum jenum verið millifærð til varnaraðila. Spurð um dómskjal 33, sem er tölvuskeyti hennar frá 14. október 2008, þar sem vitnið spurði: ,,Er okkur stætt á því að liggja með peningana þeirra og þegja þunnu eða endurgreiða“, kvaðst hún þar hafa verið að óska eftir heimild skilanefndar til að endurgreiða Bandaríkjadalina, en skilaboð frá skilanefnd hefðu verið þau að endurgreiða ekki.
Í vitnisburði Steinars Þórs Guðgeirssonar skilanefndarmanns fyrir dómi, kom fram að á fyrstu fundum skilanefndar hafi var rætt um útflæði á gjaldeyri um nóttina. Tekin hafi verið ákvörðun um að ekkert færi úr bankanum, nema skilanefndin samþykkti. Hann kvaðst muna eftir því að beiðni hafi komið frá sóknaraðila um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem innt var af hendi 9. október 2008. Spurður um grundvöll þess að því var hafnað að endurgreiða sóknaraðila fjármuni þessa, kvað hann að um hafi verið ræða greiðslur inni á innlánsreikningi og tekin hafi verið ákvörðun um að koma öllum slíkum fjármunum heim, til þess að þeir yrðu ekki frystir á innlánsreikningum erlendis, svo unnt væri að nota þá í annað. Hann kvað það hafa verið á valdi skilanefndar að ráðstafa þeim fjármunum sem voru á reikningnum.
Vitnið kvað þá fjárhæð sem varnaraðili hafi innt af hendi í tengslum við samkomulag aðila á dómskjali 60, hafa verið útlagðan kostnað.
Með hliðsjón af öllu framangreindu verður ekki önnur ályktun dregin en að varnaraðili hafi haft vitneskju um atvik sem kæmu í veg fyrir að gagngjald greiðslu sóknaraðila yrði innt af hendi, áður en sóknaraðili innti greiðslu sína af hendi að morgni 9. október 2008, en skilanefnd varnaraðila tók til starfa aðfaranótt 9. október 2008, þar sem ákvarðanir voru teknar sem miðuðu að því að halda erlendum gjaldeyri inni í landinu. Þrátt fyrir það voru engar ráðstafanir gerðar af hálfu skilanefndar varnaraðila til að koma í veg fyrir að greiðsla sóknaraðila yrði innt af hendi, heldur var við henni tekið, henni haldið inni á reikningi varnaraðila og hún færð síðar milli reikninga varnaraðila. Í ljósi þessara aðstæðna og þegar litið er til þess að sóknaraðili gat ekki vitað að varnaraðili gæti hvorki né ætlaði sér að efna samning aðila, þegar hann greiddi féð inn á reikning varnaraðila, verður ekki talið að varnaraðili hafi öðlast eignarrétt að fjármunum þessum. Þvert á móti verður talið að sóknaraðili hafi haldið eignarrétti að fjármunum þessum, sem komist höfðu í vörslur varnaraðila með því að varnaraðili upplýsti ekki sóknaraðila um hvernig atvikum var háttað. Það er samkvæmt framangreindu mat dómsins að sóknaraðili hafi sannað eignarrétt að þeim 50.000.000 Bandaríkjadölum sem millifærðir voru á reikning varnaraðila. Liggur fyrir í málinu að sóknaraðili óskaði ítrekað eftir því við varnaraðila að hann hlutaðist til um að fjármunir þessir yrðu bakfærðir, m.a. með bréfum til varnaraðila frá 10. október 2008, 30. október 2008, 22. júlí 2009, en auk þess liggja frammi í málinu tölvusamskipti milli sóknaraðila og starfsmanns varnaraðila, vegna krafna sóknaraðila um endurgreiðslu fjármunanna, og bréf lögmanns sóknaraðila til varnaraðila frá 12. ágúst 2009. Skilanefnd hafnaði þessum kröfum sóknaraðila og lét millifæra féð á reikning sinn hjá Seðlabanka Íslands.
Þegar féð var lagt inn á fyrrgreindan reikning varnaraðila hjá JP Morgan Chase í New York, hafði varnaraðila verið skipuð skilanefnd, en samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 setti Fjármálaeftirlitið skilanefnd yfir varnaraðila aðfaranótt 9. október 2008. Skilanefndin tók til starfa strax í kjölfar þess og var fyrsti fundur hennar haldinn þá um nóttina. Eftir að lögum nr. 161/2002 hafði verið breytt með lögum nr. 44/2009 sem tóku gildi 22. apríl 2009 var varnaraðila skipuð slitastjórn sem gaf út innköllun til kröfuhafa. Jafnvel þótt í 100 gr. a laga nr. 161/2002 hafi ekki verið mælt fyrir um sérstaka málsmeðferð í framhaldi af ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um skipan skilanefndar yfir varnaraðila, voru öll málefni hans sett undir þá skilanefnd, sem skipuð var í skjóli opinbers valds og hlaut að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila varnaraðila. Því verður að líta svo á að á tímabilinu eftir skipan skilanefndar, frá aðfaranótt 9. október 2008 til 22. apríl 2009, hafi varnaraðili verið í aðstöðu sem leggja megi að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans að því er varðar tilkall annarra á grundvelli eignarréttinda til peninga í vörslum hans. Þeir fjármunir sem lagðir voru inn á reikning varnaraðila að morgni 9. október 2008 komust því í vörslur varnaraðila eftir upphaf skipta, í þeim skilningi upphafs skipta sem að framan hefur rakinn. Getur því engu breytt um stöðu kröfu varnaraðila í réttindaröð hvort peningarnir sem hún beinist að hafi verið sérgreindir í vörslum varnaraðila.
Samkvæmt framangreindu er fallist á kröfu sóknaraðila um afhendingu þeirra Bandaríkjadala sem millifærðir voru á reikning varnaraðila að morgni 9. október 2008, að frádreginni þeirri innborgun varnaraðila sem samkomulag aðila frá mars 2010 kveður á um og lækkun kröfugerðar sóknaraðila gerir ráð fyrir, þ.e. samtals 47.512.950 Bandaríkjadala.
Sóknaraðili hefur krafist vaxta af kröfu sinni samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til greiðsludags og að sú krafa njóti rétthæðar á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, en til vara hefur hann krafist vaxta af kröfunni frá 9. október 2008 til 22. apríl 2009.
Eins og að framan greinir hefur krafa sóknaraðila um afhendingu á 47.512.950 Bandaríkjadala, utan skuldaraðar verið viðurkennd, samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Af því ákvæði og orðalagi 1. mgr. 114. gr. laganna má ráða að slíkar kröfur geti ekki borið dráttarvexti, sem þrotabúi ber að standa skil á í formi reiðufjár, enda er eðli þessara krafna með þeim hætti. Hins vegar liggur fyrir að fé sóknaraðila var ekki afhent, þrátt fyrir ítrekaðar kröfur sóknaraðila þar um og þrátt fyrir að varnaraðili vissi að fyrir hendi voru aðstæður sem gerðu honum ókleift að inna mótgreiðslu sína af hendi að morgni 9. október 2008. Verður því að telja að krafa sóknaraðila um dráttarvexti af kröfunni verði reist á 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, enda er krafa hans um dráttarvexti sprottin af því tjóni sem búið bakaði honum með því að neita honum um afhendingu fjárins.
Í kröfulýsingu sóknaraðila er kröfu vegna dráttarvaxta eftir 22. apríl 2009 lýst sem eftirstæðum kröfum samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laga nr. 21/1991. Er sóknaraðili bundinn af lýsingu krafna sinna við kröfulýsingu, sbr. 117. gr. laganna. Sú krafa nýtur því rétthæðar sem eftirstæð krafa.
Í samræmi við framangreint er krafa sóknaraðila um dráttarvexti af höfuðstól kröfu sinnar frá 9. október til 22. apríl 2009 viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991.
Þá hefur sóknaraðili krafist kostnaðar af innheimtu kröfunnar frá 9. október 2008 til 4. október 2011, en til vara til 22. apríl 2009. Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvernig fjárhæð umrædds kostnaðar er fengin, eða hvort hluti hans er kostnaður sem samkomulag aðila frá mars 2010 nær til. Með samkomulagi þessu lýsti sóknaraðili því yfir að hann myndi sjálfur bera allan kostnað af málaferlum í New York, þ.m.t. vegna samningaviðræðna, undirbúnings o.fl. Með vísan til framangreinds verður kröfu hans um kostnað af innheimtu kröfunnar hafnað.
Sóknaraðili hefur og krafist gengismunar, verði kröfur umreiknaðar í íslenskrar krónur og að sú krafa fylgi höfuðstól kröfunnar í skuldaröð. Kröfu þessari er í kröfulýsingu lýst sem eftirstæðri kröfu samkvæmt 1. mgr. 114 laga nr. 21/1991 og er sóknaraðili bundinn af þeim kröfum sem gerðar eru í kröfulýsingu, sbr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Kröfum hans um að gengismunur fylgi höfuðstól kröfunnar í skuldaröð og að sú krafa verði viðurkennd sem forgangskrafa, er því hafnað, en sú krafa viðurkennd sem eftirstæð krafa.
Þegar allt framangreint er virt er krafa sóknaraðila um afhendingu á 47.512.950 Bandaríkjadala viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til og með 22. apríl 2009, af þeirri fjárhæð er viðurkennd sem krafa með rétthæð samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, en krafa sóknaraðila um dráttarvexti frá 22. apríl 2009 til greiðsludags er viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfu sóknaraðila um kostnað af innheimtu kröfu sinnar er hafnað.
Krafa sóknaraðila um gengismun kröfunnar er viðurkennd sem eftirstæð krafa, samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála greiði varnaraðili sóknaraðila málskostnað, sem er hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Borgar Þór Einarsson hdl.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Guðmundur Siemsen hdl.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Viðurkennd er krafa sóknaraðila, The Bank of Tokyo-Mitsubishi UFJ, LTd að fjárhæð 47.512.950 Bandaríkjadala við slit varnaraðila, Kaupþings banka hf., og nýtur hún stöðu í réttindaröð samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Viðurkennd er krafa sóknaraðila um dráttarvexti af þeirri fjárhæð samkvæmt 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til og með 22. apríl 2009 og nýtur hún stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Krafa sóknaraðila um dráttarvexti af sömu fjárhæð frá 22. apríl 2009 til greiðsludags er viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Kröfu sóknaraðila um kostnað af innheimtu kröfunnar er hafnað.
Krafa sóknaraðila um gengismun kröfunnar er viðurkennd sem eftirstæð krafa samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 1.000.000 króna í málskostnað.