Hæstiréttur íslands
Mál nr. 622/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 8. desember 2006. |
|
Nr. 622/2006. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. desember 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. desember 2006 kl. 16 auk þess sem honum var gert að sæta geðrannsókn. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. desember 2006.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur lagt fram kröfu þess efnis að X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. desember 2006, kl. 16.00. Jafnframt er þess krafist að X verði gert að sæta geðrannsókn.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að 5. desember 2006 hafi A, [kt.], haft samband við lögreglu og óskað eftir aðstoð að heimili sínu [...]. Lögregla hafi farið á vettvang og hitt fyrir A sem hafi verið flutt á lögreglustöð, þar sem hún hafi lagt fram kæru á hendur X fyrir nauðgun, líkamsárás, heimilisofbeldi og frelsissviptingu.
Í kæruskýrslu sinni greindi kærandi frá því að um miðnætti, aðfaranótt sunnudagsins 3. desember sl., hafi hún verið að ræða við vin sinn í síma þegar kærði, sem sé sambýlismaður hennar, hafi komið heim. Kvað hún kærða hafa gengið beint að henni, rifið af henni símann og hent honum burt en síðan slegið hana með krepptum hnefa tvö högg í andlitið. Síðar hafi kærði dregið hana á hárinu inn í svefnherbergi, þar sem hann hafi fleygt henni í rúmið og sagt henni að fara úr fötunum, sem hún gerði. Í svefnherberginu hafi kærði barið hana ótal mörg högg bæði með höndum og hnífi. Hafi hann verið vopnaður stórum kjöthnífi eða kjötexi og barið hana með flötu blaði axarinnar. Hafi flest höggin komið á upphandleggi hennar og aftanverð læri. Kvað kærandi að hún teldi atlöguna hafa varað margar klukkustundir.
Kærandi kvað kærða síðar hafa farið út úr svefnherberginu og hafi hún þá tekið exina og falið hana. Kærði hafi þá sótt annan hníf, stóran búrhníf og hafi hann haldið hnífnum á lofti og hótað að ganga frá henni. Kærði hafi síðar gert stutt hlé á atlögu sinni og lagst við hlið hennar en hún ekki séð neina undankomuleið út úr herberginu. Þá kvað kærandi kærða hafa hafið atlöguna á ný og hafi hann þá m.a. barið hana marg oft með búrhnífnum og höggin einkum komið á upphandleggi hennar og læri.
Kærandi greindi frá því að er hún hefði hljóðað undan höggum kærða hafi hann tekið púða sem hafi verið í rúminu og sett yfir andlit hennar og haldið honum þar. Sagðist kærandi þá hafa fundist eins og hún væri að missa meðvitund og hafi hún brotist um. Kvað kærandi þetta hafa gerst nokkrum sinnum.
Þá greindi kærandi enn fremur frá því að kærði hafi átt við hana kynmök um nóttina og hafi búrhnífurinn þá legið á náttborði við höfðagafl rúmsins og hún ekki þorað annað en að gera eins og kærði sagði henni að gera.
Jafnframt greindi kærandi frá því að þau skipti sem hún hafi þurft að fara á salerni hafi kærði fylgt henni fram og staðið yfir henni þannig að hún hafi enga möguleika haft til að flýja burt.
Kærandi kvaðst hafa sofnað eftir klukkan átta um morguninn. Hafi hún síðan vaknað við það að kærði hafi viljað hafa við hana kynmök á ný, sem hann hafi og gert. Taldi kærandi að hún gæti ekki spornað við því enda hafi hnífurinn alltaf verið við hendina á náttborðinu. Þegar hér hafi verið komið kvað kærandi að bæði hún og kærði hafi sofnað og að þau hefðu sofið til kl. 13.30. Kærandi kvað að um klukkan 16.30 hafi kærði farið út skamma stund til að kaupa mat. Kvað kærandi að á þeim tímapunkti hefði henni liðið eins og hún vildi deyja, að hún hafi verið í eins konar móki og ekki getað farið.
Mánudaginn 4. desember kvaðst kærandi hafa farið til vinnu sinnar og leitað sér aðstoðar síðar um daginn á neyðarmóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss. Eftir skoðun á neyðarmóttökunni kvaðst kærandi hafa tekið þá ákvörðun að fara heim vegna sonar hennar sem þar býr. Sagðist kærandi hafa fengið kærða til að koma með sér í bíó um kvöldið til að þau væru í margmenni. Kvað hún þau síðan hafa gist saman í íbúðinni um nóttina en hún hafi verið búin að ákveða að leggja fram kæru hjá lögreglu.
Að morgni þriðjudagsins 5. desember kvað kærandi að hún hafi vaknað ásamt kærða og hafi hann þá farið að æsa sig á ný. Kvaðst kærandi þá hafa sagt kærða að hún yrði að ná í póstinn sinn en í raun hafi hún farið niður og hringt á lögreglu, sem hafi komið á vettvang og farið með hana á lögreglustöð en kærði hafi náð að forða sér út áður en lögreglan kom.
Lögregla handtók kærða þriðjudaginn 5. desember sl. um kl. 17.30 og var tekin skýrsla af honum þá um kvöldið. Neitar hann sök og skýrði svo frá að laugardagskvöldið 2. desember sl. hafi hann og kærandi verið að ræða saman, hafi kærandi síðan skyndilega reiðst honum og ráðist á hann með höggum sem flest hafi hæft hann í brjóstkassann en einnig hafi hún klipið hann í handlegginn. Kvaðst hann hafa beðið kæranda um að hætta þessu en hún haldið áfram og hafi hann þá reiðst, tekið á móti höggum hennar og þau farið að slást. Kvaðst hann þá hafa slegið kæranda, bæði með krepptum hnefa og flötum lófa og höggin lent á upphandleggjum hennar og öðru lærinu. Kvað hann slagsmál þeirra hugsanlega hafa staðið í um 20 mínútur og hafi þau átt sér stað seinni part aðfaranætur 3. desember sl.
Lögregla vinnur nú að rannsókn málsins. Í greinargerð lögreglu kom fram að í gær hafi verið framkvæmd húsleit á heimili málsaðila og fundust þá m.a. þeir hnífar sem kærandi lýsti að kærði hafi barið hana með og púðar, sem hún kvað kærða hafa lagt yfir andlit hennar. Rannsókn málsins sé engu að síður enn á skammt á veg komin og telur lögregla að taka þurfi skýrslur af vitnum, þar á meðal af manni sem kærandi kvaðst hafa verið að ræða við þegar kærði réðist á hana, syni kæranda, vinnufélögum kennar og nágrönnum, auk þess sem taka þarf nánari skýrslur af kæranda og kærða. Þá sé og eftir að framkvæma ýmsa tæknivinnu.
Að mati lögreglu megi ætla að ef kærði verði látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot og skjóta munum undan auk þess sem hætta sé þá á að kærða verði kleift að hafa áhrif á vitni gangi hann laus. Telur lögregla því ríka rannsóknarhagsmuni vera fyrir því á þessu stigi málsins að kærði sæti gæsluvarðhaldi.
Þá telur lögregla að fara þurfi fram rannsókn á geðheilsu kærða en hann var þann 11. október sl. dæmdur í héraðsdómi Reykjavíkur í 5 ára fangelsi fyrir brot gegn 194. gr. og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og voru málsatvik þar um margt lík og í kæru þeirri er mál þetta varðar.
Lögregla kveður að verið sé að rannsaka meint brot gegn 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 2. gr. laga nr. 40/1992, 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981 og 1. mgr. 226. gr. almennra hegningarlaga. Brot samkvæmt tveimur fyrrnefndu ákvæðunum geta varðað fangelsi allt að 16 árum ef sök sannast. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Um heimild til geðrannsóknar er vísað til d-liðar 1. mgr. 71. gr. sömu laga.
Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn málsins bera með sér er fallist á að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem varðað geta fangelsisrefsingu allt að 16 árum. Rannsókn málsins er á frumstigi og fallist er á að kærði geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni, gangi hann laus. Er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá verður kærða með vísan til d-liðar 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1991 gert að sæta geðrannsókn á gæsluvarðhaldstíma enda ber nauðsyn til að ganga úr skugga um hvort kærði gangi heill til skógar andlega.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 20. desember 2006, kl. 16.00. Jafnframt skal kærði sæta geðrannsókn á gæsluvarðhaldstíma.