Hæstiréttur íslands
Mál nr. 469/2009
Lykilorð
- Ávana- og fíkniefni
- Vörslur
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 25. mars 2010. |
|
Nr. 469/2009. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari) gegn Birni Þór Sigmundssyni (Bjarni Hauksson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Vörslur. Upptaka.
B var sakfelldur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 26,88 g af metamfetamíni, 7,04 g af amfetamíni og 0,27 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sbr. 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að það væri ekki skilyrði fyrir vörslum að vörslumaður hefði vitneskju um vörslur sínar. Fíkniefnin sem um væri fjallað í málinu hefðu verið geymd í íbúð ákærða og því í vörslum hans í skilningi framangreinds ákvæðis. Hann hefði vitað um efnin og því væri huglægum refsiskilyrðum fullnægt. Með brotinu rauf B skilorð og var sá dómurinn tekinn upp, sbr. 60. gr. laga nr. 19/1940 og refsing dæmd fyrir brotin í einu lagi, sbr. 77. gr. laganna, en refsing B þótti hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 13. ágúst 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða og upptöku fíkniefna, en að refsing verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af kröfum ákæruvalds.
Það er ekki skilyrði fyrir vörslum að vörslumaður hafi vitneskju um vörslur sínar. Fíkniefnin sem um er fjallað í málinu voru geymd í íbúð ákærða og því í vörslum hans í skilningi 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Hann vissi um efnin og er því huglægum refsiskilyrðum fullnægt. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um refsingu ákærða, upptöku fíkniefna og hlutdeild í sakarkostnaði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Björns Þórs Sigmundssonar, upptöku fíkniefna og hlutdeild í sakarkostnaði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 266.297 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. júní 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 3. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 31. mars 2009 á hendur Agnari Kristni Hermannssyni, kennitala [...], Þórufelli 4, Reykjavík, og Birni Þór Sigmundssyni, kennitala [...], Ferjubakka 4, Reykjavík, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa föstudaginn 10. október 2008 að Höfðatúni 12 í Reykjavík, haft í vörslum sínum 26,88 g af metamfetamíni, 7,04 g af amfetamíni og 0,27 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.
Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Jafnframt er þess krafist að gerð verði upptæk 26,8 g af metamfetamíni, 7,04 g af amfetamíni og 0,27 g af tóbaksblönduðu kannabisefni sem hald var lagt á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Ákæru var breytt þannig með framhaldsákæru 22. apríl 2009 að 26,88 g af metamfetamíni og 7,04 g af amfetamíni komu í stað 33,92 g af amfetamíni.
Verjandi gerir þær kröfur að ákærði Bjarni Þór verði alfarið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins en til vara krefst hann þess að ákærða verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Farið var með mál ákærða Agnars Kristins samkvæmt 164. gr. laga um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Samkvæmt skýrslu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá föstudeginum 17. október 2008 höfðu lögreglu borist upplýsingar um að ákærði Agnar Kristinn stundaði sölu á amfetamíni í nágrenni við dvalarstað sinn að Höfðatúni 12 í Reykjavík. Á þeim grundvelli leitaði lögregla eftir heimild héraðsdóms til húsleitar og hélt þangað í þeim erindagjörðum 10. október 2008 með úrskurð héraðsdóms um húsleitarheimild. Samkvæmt skýrslu lögreglu er Höfðatún 12 iðnaðarhúsnæði en á fyrstu hæð er afstúkuð stúdíó-íbúð. Lögreglumenn hittu þar fyrir ákærða Björn Þór skráðan sem húsráðanda. Fram kemur í skýrslu haft eftir ákærða Birni að hann hafi leyft meðákærða Agnari að búa hjá sér en hann væri ekki heima. Fram kemur að ákærði Agnar hafi komið á heimilið ásamt tveimur öðrum mönnum á meðan lögregla hafi verið á vettvangi. Samkvæmt skýrslu lögreglu var við húsleitina lagt hald á gulleitt efni sem geymt var í frystiskáp í tveimur kúlulaga pakkningum. Efnið reyndist vera amfetamín og metamfetamín, samtals 33,94 g. Þá var lagt hald á efni sem fannst á tölvuborði og reyndist vera 0,27 g af tóbaksblönduðu kannabisefni.
Sama dag voru teknar skýrslur af ákærðu vegna málsins. Ákærði Agnar Kristinn bar að hann hafi dvalið heima hjá meðákærða Birni Þór í Höfðatúni. Hann kvaðst vera eigandi þeirra efna sem fundust og kvað meðákærða ekki eiga neitt af þeim. Um væri að ræða 40 g af amfetamíni og smá kannabis „skaf“. Ákærði væri að selja fíkniefnin til að losna undan skuldum.
Ákærði Björn Þór bar í yfirheyrslunni að hann ætti efnin öll. Um væri að ræða 20-30 g. af amfetamíni og smáræði af „skafi“. Hann sagðist hafa ætlað að nota fíkniefnin. Inntur eftir því hvers vegna hann væri með svo mikið magn fíkniefna á heimili sínu sagðist hann nota mikið af efnum. Björn bar að meðákærði hafi fengið að dvelja hjá honum eftir sambandsslit.
Í framlagðri matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði kemur fram að styrkur metamfetamínbasa í öðru sýninu hafi verið 7,2%, sem samsvari 9,6 af metamfetamínsúlfati. Þá segir að styrkur amfetamínbasa í hinu sýninu hafi verið 3,2% sem samsvari 4,4% af amfetamínsúlfati.
Við aðalmeðferð málsins bar ákærði Björn Þór á þann veg að hann væri húsráðandi að Höfðatúni 12. Lögreglan hafi komið með húsleitarheimild og handtökuskipun vegna meðákærða. Ákærði kvaðst hafa játað brot í yfirheyrslu lögreglu í kjölfar húsleitarinnar en neitað því að hafa átt efnin allt fram að húsleitinni. Hann hafi sagt við lögreglu að hann myndi taka þetta á sig sem húsráðandi og vitað að um leið og hann játaði myndi allt ganga greiðar fyrir sig. Hugsanlega yrði þá öðrum ekki blandað í málið. Ákærði kvaðst búa í húsnæði fyrirtækis fjölskyldunnar og hafa játað verknaðinn til að forða því að það yrði vesen út af fyrirtækinu. Meðákærði væri vinur ákærða en þeir umgengjust ekki mikið eftir atburðinn. Þegar lögregla kom með húsleitarheimildina hafi meðákærði verið búinn að vera í um það bil viku hjá ákærða. Ákærði kvaðst hafa vitað að það voru fíkniefni á heimilinu og hvar þau hafi verið geymd en hann hafi vitað þetta í tvo daga í mesta lagi. Ákærði hafi sagt við meðákærða að honum væri illa við að fíkniefnin væru þarna en hann þó gefið grænt ljós á það. Ákærði bar að kvöldið áður hafi komið til tals nokkurn veginn hvert væri magn efnanna. Hann hafi aldrei haft efnin undir höndum. Ákærði kvaðst hafa neytt fíkniefna á þeim tíma sem um ræðir en væri nú edrú.
Ákærði Agnar Kristinn bar að lögregla hafi haft upplýsingar um að hann væri að selja eiturlyf, en þær upplýsingar hafi verið réttar. Hafi lögregla því komið til að leita í húsnæðinu. Meðákærði og ákærði væru vinir og meðákærði því leyft ákærða að dvelja hjá sér. Ákærði hafi fengið að hafa fíkniefnin þar en meðákærða verið illa við það. Ákærði bar að hann hafi verið einhverja daga í Höfðatúni en það hafi í mesta lagi verið í viku. Ákærði hafi ekki keypt efnið heldur verið nýbúinn að fá það í hendurnar til að selja það. Hann hafi skuldað mönnum. Um hafi verið að ræða rúm 30 g af fíkniefnum. Hann hafi geymt efnin í frysti hjá meðákærða. Ákærði kvaðst ekki nota amfetamín og því ekki hafa notað þetta efni. Hann hafi reykt mikið hass og notað kókaín en í dag væri hann edrú. Hann væri að vinna í sínum málum með meðferðaraðilum. Ákærði kvaðst hafa sagt meðákærða hvað hann hafi haft mikið magn í sínum fórum. Meðákærði hafi ekki verið sáttur þegar hann heyrði það. Meðákærði væri á skilorði og þetta gæti orðið til þess að hann yrði settur aftur í fangelsi.
Haukur Sigmarsson lögreglumaður kvaðst hafa farið að Höfðatúni vegna upplýsinga um að ákærði Agnar dveldist þar. Ákærði Björn hafi verið einn heima. Um viðbrögð ákærða Björns við fundi á fíkniefnum bar Haukur að sig minnti að hann hafi haft einhverja vitneskju um efnin. Ákærði Björn hafi viðurkennt að eiga amfetamínið. Minnti Hauk að ákærði Björn hafi ekki neitað því að eiga efnið. Ef hann hafi gert það hafi það verið tekið fram í frumskýrslu lögreglu.
Magnús Vignir Guðmundsson lögreglumaður kvaðst hafa farið á heimili ákærðu ásamt Hauki vegna upplýsinga um að ákærði Agnar væri að selja fíkniefni. Í skýrslu sem tekin var á lögreglustöð hafi ákærði Björn sagst eiga efnin. Ekki kvaðst Magnús muna hvort ákærði Björn hafi tjáð sig um fíkniefnin á vettvangi.
Jón Gunnar Sigurgeirsson lögreglumaður kvaðst hafa farið að heimili ákærðu ásamt hinum lögreglumönnunum. Hann kvaðst ekki muna hver viðbrögð ákærða Björns hafi verið þegar fíkniefnin hafi fundist.
Niðurstaða:
Með hliðsjón af játningu ákærða Agnars Kristins, sem samrýmist gögnum málsins, verður hann sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði Björn Þór neitar sök. Hefur hann dregið játningu sína hjá lögreglu til baka. Þrátt fyrir það hefur hann viðurkennt að hafa haft vitneskju um tilvist fíkniefnanna á heimili sínu. Hefur hann staðhæft að honum hafi verið það ljóst sennilega tveim dögum fyrir húsleitina að efnin væru geymd á heimilinu. Hafi hann nokkurn vegin vitað um hversu mikið magn efna væri um að ræða og hvar þau væru geymd.
Samkvæmt ákæru er ákærða Birni gefið að sök að hafa haft efnin í vörslum sínum. Hugtakið vörslur samkvæmt ákvæðum laga nr. 65/1974 er rýmra en svo að það taki aðeins til eiganda eða til þess að taka efni til geymslu fyrir annan sem er fjarstaddur. Með háttsemi þeirri sem ákærði hefur viðurkennt sem felst í því að efnin voru geymd á heimili ákærða með hans vitneskju og að hann hafi vitað um magn efnanna og geymslustað telst ákærði einnig hafa haft vörslur efnanna með höndum í skilningi 2. gr. laga nr. 65/1974. Verður hann því sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði Björn Þór er fæddur árið 1982. Hann hefur síðan hann varð 18 ára sex sinnum verið dæmdur fyrir refsiverð brot, fyrst fyrir umferðarlagabrot í september 2001. Þá var hann dæmdur 21. september 2001 í fimm mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár fyrir þjófnað, en skilorðsdómar frá árinu 2000 voru dæmdir með. Hann var dæmdur 12. febrúar 2003 til að greiða sekt fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöf og 7. apríl 2003 í átta mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár fyrir fíkniefnalagabrot og þjófnað. Var þá eldri skilorðsdómur tekinn upp, en brotin að mestu framin fyrir síðasta sektardóm, þar með talið fíkniefnabrot. Ákærði var næst fundinn sekur um þjófnað 13. nóvember 2003 en ekki gerð refsing þar sem um var að ræða hegningarauka. Loks var hann dæmdur 25. apríl 2007 í níu mánaða fangelsi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, þar af voru sex mánuðir skilorðsbundnir í þrjú ár. Dómur frá 7. apríl 2003 var tekinn upp og dæmdur með. Ákærði lauk afplánun óskilorðsbundins hluta dómsins 1. apríl 2008. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð fyrrnefnds dóms og ber því samkvæmt 60. gr. laga nr. 19/1940 að taka dóminn upp og dæma refsingu fyrir brotin í einu lagi, sbr. 77. gr. laganna. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í sjö mánuði. Ekki þykir vera unnt að skilorðsbinda refsinguna í ljósi sakaferils ákærða.
Ákærði Agnar Kristinn er fæddur 1987. Hann var dæmdur í nóvember 2004, þá 17 ára, í sjö mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár fyrir þjófnað og nytjastuld. Þá var hann dæmdur í nóvember 2005 í fangelsi í 15 mánuði fyrir þjófnað og brot gegn fíkniefnalöggjöf, en 13 mánuðir voru skilorðsbundnir í þrjú ár. Dómurinn frá nóvember 2004 var tekinn upp og dæmdur með, en einnig var um að ræða hegningarauka að hluta. Þá var ákærði dæmdur 7. september 2007 í 19 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn umferðarlögum, þjófnað og ránstilraun, en skilorð samkvæmt fyrri dómi var dæmt með. Ákærða var veitt reynslulausn 9. júlí 2008 á 190 daga eftirstöðvum refsingar skilorðsbundin í tvö ár. Ákærði gekkst undir viðurlagaákvörðun í janúar á þessu ári vegna umferðarlagabrots. Með broti sínu rauf ákærði skilyrði reynslulausnar og ber því nú í samræmi við 60. gr. laga nr. 19/1940, að ákveða refsingu í einu lagi fyrir brotið sem hann er nú fundinn sekur um og með hliðsjón af refsingu sem hann átti óafplánaða. Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt og verður það metið honum til málsbóta. Verður refsing ákveðin eftir reglum 77. og 78. gr. laga nr. 19/1940 og þykir hún hæfileg ákveðin fangelsi í sjö mánuði. Ekki er unnt að skilorðsbinda refsinguna í ljósi sakaferils ákærða.
Ákærðu verða dæmdir til að greiða óskipt 140.801 krónu í sakarkostnað sem er til kominn vegna matsgerðar. Þá skulu þeir greiða verjanda sínum 237.048 krónur í málsvarnarlaun. Ákærði Björn Þór greiði 2/3 hluta þeirra málsvarnarlauna en ákærði Agnar Kristinn 1/3 hluta. Við ákvörðun málsvarnarlauna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Önnu Barböru Andradóttur fulltrúa lögreglustjóra.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, Agnar Kristinn Hermannsson, sæti fangelsi í sjö mánuði.
Ákærði, Björn Þór Sigmundsson, sæti fangelsi í sjö mánuði.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 26,88 g af metamfetamíni, 7,04 g af amfetamíni og 0,27 g af hassi sem lagt var hald á við rannsókn málsins.
Ákærðu greiði óskipt 140.801 krónu í sakarkostnað. Þá greiði ákærðu málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Bjarna Haukssonar hæstaréttarlögmanns 237.048 krónur og greiði ákærði Björn Þór 2/3 hluta málsvarnarlaunanna en ákærði Agnar Kristinn 1/3 hluta.