Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-11
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteignasala
- Fasteignasali
- Samningur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 13. janúar 2023 leitar Gunnlaugur Hilmarsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 16. desember 2022 í máli nr. 773/2021: Gunnlaugur Hilmarsson gegn F Gimli ehf. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila á rætur að rekja til sölu fasteignarinnar Grænatúns 1 í Kópavogi 16. september 2020 sem gagnaðili hafði sem fasteignasali milligöngu um. Leyfisbeiðandi, sem starfar sem fasteignasali á annarri fasteignasölu, höfðaði mál þetta gegn gagnaðila til greiðslu söluþóknunar vegna sölu eignarinnar. Reisti hann þá kröfu meðal annars á því að hann hefði haft með höndum stærstan hluta þeirrar vinnu sem innt var af hendi vegna sölunnar.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Í dóminum kom fram að með samningi 19. júní 2020 hefði Baldur Jónsson, annar eigenda fasteignarinnar, gert fyrir hönd eigenda samning „um söluþjónustu fasteignasala“ þar sem leyfisbeiðanda var veitt umboð til að annast sölu á eigninni. Í þeim samningi hefði verið kveðið á um að eignin væri sett í almenna sölu. Rakti Landsréttur að í almennri sölu samkvæmt samningnum hefði falist að eigendur mættu bjóða eignina til sölu hjá fleiri en einum fasteignasala. Sérstaklega hefði verið tekið fram í samningnum að greiða bæri umsamda söluþóknun þeim aðila sem seldi eignina. Þá vísaði rétturinn til þess að fyrirsvarsmaður einkahlutafélags þess sem keypti fasteignina 16. september 2020 hefði borið fyrir héraðsdómi að fyrr í þeim mánuði hefði hann haft samband við fasteignasala hjá gagnaðila sem hann hefði þekkt í áratugi og óskað eftir liðsinni hans við kaup á fasteigninni. Upplýst væri að sá fasteignasali hefði í kjölfarið haft samband við annan eiganda fasteignarinnar og fengið umboð til sölu á henni. Ekki yrði séð að samningur leyfisbeiðanda og eigenda fasteignarinnar 19. júní 2020 hefði staðið veitingu þess umboðs í vegi. Loks hefði leyfisbeiðandi ekki sýnt fram á að fyrir hendi væri í íslenskum rétti meginregla laga um sölu fasteigna og góða starfshætti sem stoð ætti í siðareglum Félags fasteignasala og girt hefði fyrir, svo sem atvikum væri háttað, að eigendur fasteignarinnar veittu öðrum aðila en leyfisbeiðanda umboð til að selja eignina.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi meðal annars um túlkun á rétti til sölulauna vegna vinnu við sölu fasteignar og gildi almenns umboðs í slíkum viðskiptum. Þá reisir hann beiðnina á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína sem löggilts fasteignasala. Enn fremur hafi málsmeðferð fyrir Landsrétti verið stórlega ábótavant þar sem rétturinn hafi ekki tekið afstöðu til málsástæðna hans. Loks sé dómurinn bersýnilega rangur, meðal annars niðurstaða um gildi almenns umboðs.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.