Hæstiréttur íslands

Mál nr. 787/2013


Lykilorð

  • Samningur
  • Hlutafé
  • Hlutafélag
  • Innlausn


                                     

Fimmtudaginn 12. júní 2014.

Nr. 787/2013.

Árnason Faktor ehf.

(Ragnar Halldór Hall hrl.)

gegn

Lovísu Jónsdóttur

(Guðjón Ólafur Jónsson hrl.)

Samningur. Hlutafé. Hlutafélag. Innlausn.

L höfðaði mál gegn Á ehf. í kjölfar þess að henni var sagt upp störfum hjá Á ehf. og hlutur hennar í A ehf. var leystur til félagsins. Deildu aðilar um hvort taka ætti tillit til vaxtaberandi skulda Á ehf. við útreikning á innlausnarverðinu sem átti að byggja á núvirtu sjóðstreymi Á ehf. síðustu tvö ár og ætluðu sjóðstreymi næstu tveggja ára. Þegar L keypti hlut í Á ehf. hafði ekki verið tekið tillit til óverulegra langtímaskulda og handbærs fjár. Í dómi Hæstaréttar kom fram þótt að réttu lagi hefði borið að taka tillit til þessa, hefði það haft óveruleg áhrif á gengi hlutarins. Þá hefði L notið 15% afsláttar við kaupin. Loks hefði L engum athugasemdum hreyft við kaupverðið en hún hefði ekki getað treyst því til frambúðar að ekki yrði við innlausn tekið mið af hærri skuldum félagsins samkvæmt síðari ársreikningum. Var því ekki fallist á það með L að líta bæri fram hjá skuldum félagsins við útreikning á innlausnarverðinu. Var Á ehf. því gert að greiða L fjárhæð í samræmi við þetta.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari. 

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 27. ágúst 2013. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 20. nóvember sama ár og áfrýjaði hann öðru sinni 17. desember það ár. Endanlegar dómkröfur hans eru aðallega að honum verði ekki gert að greiða stefndu hærri fjárhæð en 1.073.423 krónur og að stefndu verði gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann lækkunar á kröfu stefndu og að málskostnaður verði felldur niður á báðum dómstigum.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi réðst stefnda til starfa hjá áfrýjanda með samningi 29. júlí 2003, en áfrýjandi hét þá A&P Árnason ehf. Hinn 30. nóvember 2006 gerðu hluthafar í áfrýjanda með sér samkomulag sem fól það í sér að helstu starfsmönnum félagsins var boðið að gerast hluthafar í því. Á þeim grundvelli gerðu aðilar með sér samning 31. desember 2006 um kaup stefndu á hlutafé í félaginu. Með honum keypti stefnda 6,5% í því á genginu 8,188, en nafnverðið var 1.300.000 krónur. Samtals var því kaupverðið 10.644.649 krónur. Jafnframt fékk stefnda kauprétt á 6,75% hlut að nafnverði 1.350.000 krónur á sama gengi og því nam kaupverðið á þeim hluta 11.053.800 krónur. Það gengi sem miðað var við mun hafa falið í sér 15% afslátt sem starfsmönnum í félaginu var boðinn af genginu 9,633. Samhliða því að gera kaupsamninginn undirritaði stefnda fyrrgreint hluthafasamkomulag. Stefnda keypti síðan það hlutafé sem hún átti kauprétt á með samningi 31. ágúst 2007. Í hinum áfrýjaða dómi eru tekin orðrétt upp þau ákvæði þessara samninga sem reynir á við úrlausn málsins.

Um mitt ár 2006 keypti áfrýjandi einkahlutafélagið Faktor einkaleyfastofu og var rekstur félaganna sameinaður í kjölfarið. Áfrýjandi mun hafa fjármagnað kaupin með langtímaláni. Eftir kaupin á félaginu var nafni áfrýjanda breytt í Árnason Faktor ehf. Félögin sameinuðust síðan á árinu 2012 undir nafni áfrýjanda.

Stefndu var sagt upp starfi sínu hjá áfrýjanda 24. nóvember 2010. Með aðilum er ágreiningslaust að stefnda hafi þá átt 11,04% hlut í áfrýjanda að nafnverði 2.208.245 krónur og að skuld hennar við félagið hafi numið 19.131.527 krónum vegna kaupanna. Í kjölfar uppsagnar stefndu leysti áfrýjandi til sín hlut hennar í félaginu en samkomulag varð ekki um innlausnarverðið. Fór svo að áfrýjandi reiknaði innlausnarverðið einhliða og lagði 3.835.884 krónur inn á reikning stefndu 20. júní 2011. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort taka eigi tillit til vaxtaberandi skulda áfrýjanda við útreikning á innlausnarverðinu.

II

Eins og rakið er í héraðsdómi bar áfrýjanda að leysa til sín hlut stefndu í félaginu við starfslok hennar. Um innlausnarverðið átti samkvæmt hluthafasamkomulaginu 30. nóvember 2006 og kaupsamningi aðila 31. desember sama ár að fara eftir útreikningi á heildarverðmæti hluta í félaginu, en sá útreikningur átti að byggja á núvirtu sjóðstreymi þess síðustu tvö ár og ætluðu sjóðstreymi næstu tvö ár, það er yfirstandandi árs og þess næsta. Verðmæti félagsins eða söluverð hluta taldist þannig vera meðaltal sjóðstreymis þessara fjögurra ára framreiknað og núvirt með ávöxtunarkröfu 15%.

Í minnisblaði endurskoðanda áfrýjanda 28. febrúar 2011 kom fram að við kaup stefndu á hlut í áfrýjanda 31. desember 2006 hafi verið miðað við sjóðstreymi samkvæmt ársreikningi fyrir árin 2004 og 2005 og áætlun vegna áranna 2006 og 2007. Framreiknað hefði virði félagsins numið 192.663.000 krónum en nafnverð hluta var 20.000.000 krónur og því hefði gengið á hlut verið 9,633. Að teknu tilliti til 15% afsláttar til stefndu hefði gengið verið 8,188. Einnig kom fram í minnisblaðinu að í árslok 2005 hefðu ekki verið fyrir hendi vaxtaberandi skuldir í félaginu og því hefði „útreiknað heildarverðmat“ verið jafnt „nettóverðmati eignarhlutanna“. Stefnda reisir málatilbúnað sinn á því að reikna eigi innlausnarverðið til hennar á sama grundvelli og þegar hún keypti hlut í félaginu og því beri ekki við útreikninginn að taka tillit til skulda félagsins. Þannig hefði hún mátt ganga út frá því að ekki yrði beitt öðrum aðferðum við útreikning á innlausnarverðinu henni í óhag.

 Í sama minnisblaði kom einnig fram að í útreikningum áfrýjanda á verðmati miðað við sjóðstreymi félagsins væri miðað við rekstrarhagnað fyrir afskriftir, vexti og skatta án tillits til endurfjárfestingar. Miðað við sjóðstreymi reiknað á þessum grundvelli samkvæmt ársreikningi fyrir árin 2008 og 2009 og samkvæmt áætlun fyrir árin 2010 og 2011 hefði virði félagsins numið 499.225.812 krónum en til frádráttar því kæmu vaxtaberandi skuldir í árslok 2009 að fjárhæð 271.721.582 krónur. Verðmæti hlutafjár næmi því 227.904.230 krónum og því væri gengið 11,3952 miðað við 20.000.000 króna nafnverð hlutafjár. Samkvæmt þessu nam virði 11,04% hlutar stefndu í félaginu 25.160.627 krónum en til frádráttar koma 1.132.228 krónur sem svara til 3,5% afsláttar og 1% umsýsluþóknunar samkvæmt fyrrgreindu hluthafasamkomulagi 30. nóvember 2006. Samkvæmt þessu nam innlausnarverðið 24.028.399 krónum. Telur áfrýjandi að honum hafi borið að leysa til sín hlut stefndu á þessum grundvelli og hefur hagað málatilbúnaði sínum í samræmi við það.

III

  Áður en stefnda höfðaði málið í héraði aflaði hún matsgerðar dómkvadds manns um tilgreind atriði varðandi kaup hennar á hlutum í áfrýjanda og útreikning á innlausnarverði þeirra. Til að taka saman matið var dómkvaddur Sturla Jónsson endurskoðandi og skilaði hann matsgerð sinni 13. desember 2011. Í forsendum hennar kom fram það álit matsmannsins að aðferðin við mat á innlausnarverði á hlut stefndu, sem skírskotað var til í hluthafasamkomulaginu 30. nóvember 2006 og kaupsamningi aðila 31. desember sama ár, væri sú sem jafnan er nefnd „aðferð frjáls sjóðstreymis“. Þeirri aðferð var síðan lýst nánar og sögð felast í mati á verðmæti félagsins út frá sjóðstreymi sem reksturinn skapi. Við þennan útreikning kæmu til frádráttar langtímaskuldir félagsins til að finna verðmæti eigin fjár, enda væri gengið út frá því að lánadrottnar þess stæðu hluthöfum framar þegar kæmi að útgreiðslu fjármuna. Í matsgerðinni var komist að þeirri niðurstöðu að virði félagsins næmi 393.200.000 krónum og að gengi hluta í því væri 19,81 ef ekki væri tekið tillit til langtímaskulda við útreikninginn. Þá kom fram að gengi hluta í áfrýjanda miðað við 31. desember 2009 hefði numið 24,96 ef það væri reiknað með sama hætti og við sölu hlutanna til stefndu 31. desember 2006, en kröfugerð hennar miðar við það gengi. Ef veittur væri 15% afsláttur, eins og stefnda naut við kaupin, væri gengið hins vegar 21,22. Loks kom fram í matsgerðinni að vaxtaberandi langtímaskuldir áfrýjanda hefðu í árslok 2005 numið 3.822.399 krónum og að ekki hefði verið tekið tillit til þeirra við kaup stefndu á hlut í félaginu.

Undir áfrýjun máls fór áfrýjandi þess á leit að matsmaður yrði dómkvaddur til að svara tilgreindum spurningum um útreikning á virði félagsins. Til að taka saman matið var kvaddur dr. Hersir Sigurgeirsson dósent og skilaði hann matsgerð sinni 10. mars 2014. Þar var því lýst hvernig virði félaga væri metið miðað við frjálst sjóðstreymi. Tók matsmaður fram að slíkur útreikningur fælist í því að meta heildarverðmæti félagins og draga síðan frá því skuldir. Þá staðfesti matsmaður að vaxtaberandi skuldir skuldir í árslok 2005 hefðu verið lægri en handbært fé. Loks kom fram í matsgerðinni að gengi á hlutum í félaginu hefði verið á bilinu 8,497 til 9,847 ef tekið hefði verið tillit til vaxtaberandi skulda og handbærs fjár við kaup stefndu 31. desember 2006.

IV

Eins og áður er rakið átti útreikningur á innlausnarverði hlutar stefndu í áfrýjanda að byggja á núvirtu sjóðstreymi félagsins síðustu tvö ár og ætluðu sjóðstreymi næstu tveggja ára, það er er yfirstandandi árs og þess næsta. Verðmæti félagsins eða söluverð hluta teldist þannig vera meðaltal sjóðstreymis þessara fjögurra ára framreiknað og núvirt með ávöxtunarkröfu 15%. Þá var tekið fram í samningi um kaup stefndu á hlut í félaginu 31. desember 2006 og í hluthafasamkomulaginu 30. nóvember sama ár að þennan útreikning á „heildarverðmæti hluta í félaginu“ ætti að leggja fram árlega á aðalfundi þess. Til að mat á hlutum í félaginu samkvæmt þessu endurspeglaði raunverulegt virði þeirra var nauðsynlegt að taka mið af skuldum þess. Að öðrum kosti hefðu auknar tekjur vegna fjárfestinga sem fjármagnaðar voru með lánum leitt til þess að virði hluta jókst í réttu hlutfalli við þær án þess að samsvarandi breyting hefði orðið á eigin fé félagsins.

 Þegar stefnda keypti hlut í áfrýjanda með samningnum 31. desember 2006 voru kaupin miðuð við síðustu tvo ársreikninga félagsins vegna áranna 2004 og 2005. Í árslok 2005 voru langtímaskuldir óverulegar en alls námu heildarskuldir félagsins 45.539.524 krónum. Handbært fé í lok þess árs nam hins vegar 37.407.960 krónum. Þótt að réttu lagi hefði borið að taka tillit til þessa við útreikning á virði félagsins eru áhrifin sem það hefði haft á gengi hluta í því óveruleg og er þess þá jafnframt að gæta að stefnda naut 15% afsláttar við kaupin. Þá er til þess að líta að hún hreyfði engum athugasemdum við kaupverðið en hún gat ekki treyst því til frambúðar að ekki yrði við innlausn tekið mið af hærri skuldum félagsins samkvæmt síðari ársreikningum. Verður því ekki fallist á það með stefndu að líta beri fram hjá skuldum félagsins við útreikning á innlausnarverðinu.

Samkvæmt útreikningi endurskoðanda áfrýjanda, sem rakin er í II. kafla dómsins, nam virði hlutar stefndu í félaginu 24.028.399 krónum eftir að tekið hafði verið tillit til umsamins afsláttar og umsýsluþóknunar. Hefur þessum útreikningi ekki verið andmælt tölulega og verður hann lagður til grundvallar dómi í málinu. Frá virði hlutar stefndu í félaginu kemur til frádráttar skuld hennar vegna kaupanna að fjárhæð 19.131.527 krónur. Verður áfrýjanda því gert að greiða stefndu 4.896.872 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði. Frá þessu dregst innborgun áfrýjanda að fjárhæð 3.835.884 krónur miðað við 16. júní 2011 en stefnda hefur lagt til grundvallar að greiðslan komi þann dag til frádráttar.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins á báðum dómstigum.mstigum falli niðurfj       

Dómsorð:

Áfrýjandi, Árnason Faktor ehf., greiði stefndu, Lovísu Jónsdóttur, 4.896.872 krónur með 5% ársvöxtum frá 28. febrúar 2011 til 2. apríl 2012, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.835.884 krónum miðað við 16. júní 2011.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. maí 2013.

Mál þetta sem dómtekið var 3. maí 2013 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 2. apríl 2012 af Lovísu Jónsdóttur, Jónsgeisla 23, Reykjavík, á hendur Árnason Faktor ehf., Guðríðarstíg 2-4, Reykjavík.

Kröfur aðila

Stefnandi krefst þess að stefnda verði gert að greiða honum 33.527.896 krónur auk verðbóta skv. neysluvísitölu frá 28.2. 2011 þ.e. 367,7 stig til stefnubirtingardags þ.e. 391 stig auk 5% ársvaxta en vanskilavaxta p.a., skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þ.d. til greiðsludags. Allt að frádregnum 3.825.884 krónum þann 16. júní 2011. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu.

Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmd til að greiða honum málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi verulegrar lækkunar á kröfum stefnanda, bæði hvað varðar fjárhæð, verðtryggingu, vexti og greiðslufyrirkomulag, og að í því tilviki verði málskostnaður látinn falla niður.

Atvik máls

Stefnandi var ráðin til starfa hjá stefnda sem vörumerkjaráðgjafi með ráðningarsamningi dagsettum 29. júlí 2003. Félagið hét þá A&P Árnason ehf. Hóf hún störf hjá stefnda 15. ágúst 2003. Um mitt ár 2006 keypti stefndi annað félag í sams konar rekstri, Faktor einkaleyfastofu ehf. (hér á eftir „Faktor“) og var rekstur þess félags sameinaður rekstri stefnda á því ári. Á sama tíma var nafni stefnda breytt í Árnason Faktor ehf. Hinn 30. nóvember 2006, eftir framangreindan samruna, gerðu hluthafar í stefnda með sér hluthafasamkomulag, sem m. a. fól í sér breytingu á innbyrðis skiptingu hlutafjár í félaginu. Tilgangur með samkomulaginu var m. a., eins og fram kemur í 5. gr. þess, að gera félaginu kleift að gefa lykilstarfsmönnum þess kost á gerast hluthafar í félaginu. Í 7. gr. hluthafasamkomulagsins er gerð grein fyrir meginforsendum þess og fyrir væntanlegri eignaraðild starfsmanna að félaginu. Ákvæðið er svohljóðandi:

Meginforsendan fyrir hluthafasamkomulagi þessu og aðild starfsmanna að félaginu er að hluthafarnir, aðrir en LOGOS séu starfsmenn félagsins og verði það áfram. Jafnframt er það forsenda að þeir veiti félaginu starfskrafta sína óskipta. Komi til þess að hluthafi láti af störfum áður en kaupverð hlutafjár hefur að fullu verið greitt, ganga kaupin sjálfkrafa til baka á þeim hluta sem ógreiddur kann að vera þegar starfsmaður lætur af störfum. Ekki skiptir þá máli hvort starfsmaður lætur af störfum að eigin ósk eða er sagt upp störfum. Þann hluta sem hefur verið greiddur leysir félagið til sín á því verði sem lýst er í 9. gr. hér á eftir með þeim skilmálum sem lýst er í 12. gr. Sama á við ef hluthafi í starfi verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss og augljóst þykir að hann muni ekki snúa til starfa eða ef hann fellur frá, þá skal gert upp við hann eða dánarbú hans með sama hætti.

Tilvitnuð 9. gr. hluthafasamkomulagsins er svohljóðandi: 

Á hverjum aðalfundi í félaginu sem halda skal fyrir maílok ár hvert, skal auk endurskoðaðs ársreiknings leggja fram útreikning á heildarverðmæti hluta í félaginu. Útreikningar þessir byggja á núvirtu sjóðstreymi félagsins reiknuðu samkvæmt fjögurra ára meðaltali, þannig:  Rauntölum síðustu tveggja ára og áætluðu sjóðstreymi næstu tveggja ára, þ.e. áætluðu sjóðstreymi yfirstandandi árs og næsta árs. Verðmæti félagsins (söluverð hluta) telst þannig vera meðaltal sjóðstreymis þessa (sic) fjögurra ára framreiknað og núvirt með 15% ávöxtunarkröfu.

Tilvitnuð 12. gr. hluthafasamkomulagsins er svohljóðandi:

Á meðan hömlur á viðskipti með eignarhluti í félaginu hafa ekki verið afnumin (sic) skuldbindur félagið sig til að kaupa eignarhluti í félaginu á því verði sem ofangreindir útreikningar, sbr. 9. gr. segja til um með eftirtöldum skilmálum:

a)     Félagið skuldbindur sig að kaupa af hluthöfum sem láta af störfum hjá félaginu á gildandi verði á hverjum tíma.

        b)     Félagið mun leita leiða til að fjármagna kaup á eignarhlutum í félaginu, þannig að unnt verði að greiða seljendum eignarhluti í félaginu innan fárra vikna.  Skuldaviðurkenningar frá kaupendum eignarhluta verða nýttar til þessa. Sé ekki unnt að staðgreiða kaupverðið er félaginu heimilt að greiða allt að 75% af kaupverðinu með skuldabréfi til fimm ára, verðtryggt með 5% föstum vöxtum og (60) mánaðarlegum gjalddögum.

        c)    Umsýsluþóknun félagsins er 1% af keyptum eignarhlut en engin þóknun er greidd við sölu.

d)     Kaupverð hluta í félaginu, sem það leysir til sín skal vera 3,5% lægra en reiknað söluverð (sölugengi).

        e)  Hluthafi sem gengur úr félaginu á engan rétt til bóka, skjala, forrita, bókhaldsgagna, höfundaréttar að verkum sem unnin hafa verið í þágu félagsins, viðskiptasambanda eða annarra eigna sem félaginu tilheyra.

Í samræmi við framangreind áform hluthafa um eignaraðild starfsmanna að félaginu gerðu stefnanda og stefndi með sér samkomulag, sem dagsett var 31. desember 2006, um kaup stefnanda á hlutafé í stefnda. Heildarhlutafé félagsins var á því tímamarki 20.000.000 króna. Samkvæmt samkomulaginu keypti stefnandi hluti í félaginu af stefnda að nafnverði 1.300.000 krónur eða 6,5% af heildarhlutafé og var kaupgengið 8,188. Kaupverðið var 10.644.649 krónur. Þá var jafnframt um það samið að stefnandi skyldi eiga kauprétt að hlutum til viðbótar að nafnverði allt að 1.350.000 krónur, eða 6,75% af heildarhlutafé, á genginu 8,188 og gæti stefnandi nýtt sé kaupréttinn á tímabilinu 1. september 2007 til 31. desember 2007. Jafnframt því að undirrita kaupsamninginn áritaði stefnandi hluthafasamkomulagið frá 30. nóvember 2006. Þau ákvæði kaupsamnings stefnanda og stefnda, sem dómurinn telur máli skipta varðandi niðurstöðu máls þessa, verða nánar rakin í niðurstöðukafla dómsins en samhengis vegna er rétt að fram komi í lýsingu málsatvika að í 6. gr. kaupsamningsins  er ákvæði um útreikning á verðmæti félagsins, sem er efnislega samhljóða 9. gr. hluthafasamkomulagsins frá 30. nóvember 2006, 8. gr. kaupsamningsins er efnislega í samræmi við 12. gr. hluthafasamkomulagins og 4. gr. kaupsamningsins efnislega í samræmi við 7. gr. hluthafasamkomulagsins. Með samkomulagi 31. ágúst 2007 nýtti stefnandi framangreindan umsaminn kauprétt á 6,75% hlut í stefnda og hækkaði hlutur hennar í félaginu við það í 13,25%. Með viðauka, 7. nóvember 2007, við samkomulag stefnanda og stefnda frá 31. desember 2006 og 31. ágúst 2007 var samið um breytingar á greiðslu umsamins kaupverðs. Stefnanda var sagt upp störfum hjá stefnda 24. nóvember 2010, með þriggja mánaða uppsagnarfresti, en ekki óskað eftir vinnuframlagi hennar á uppsagnarfrestinum. Ekki er ágreiningur um að við lok ráðningarsambands stefnanda og stefnda hafi stefnandi átt 11,04% af heildarhlutafé félagsins, að nafnverði 2.208.245 krónur. Ekki er heldur ágreiningur um að stefnandi skuldaði félaginu við uppsögnina 19.131.527 krónur af umsömdu kaupverði hlutafjárins. Með bréfi 2. desember 2010 tilkynnti lögmaður stefnda stefnanda m.a. að þar sem ekki hefði náðst samkomulag um annað myndi stefndi neyta heimildar til að leysa til sín hlutafjáreign hennar í félaginu, í samræmi við samkomulag stefnanda og stefnda þar að lútandi. Í framhaldi af þessu erindi áttu sér stað viðræður og bréfaskipti milli lögmanna aðila um útreikning á innlausnarverði hluta stefnanda í stefnda en án þess að samkomulag næðist. Laut meginágreiningur aðila að því hvort taka bæri tillit til vaxtaberandi langtímaskulda stefnda við útreikning innlausnarverðsins. Með bréfi 16. júní 2011 tilkynnti stefndi stefnanda að hann myndi, 20. júní 2011, greiða 3.835.884 krónur inn á bankareikning stefnanda og fæli sú greiðsla í sér fullnaðaruppgjör vegna innlausnar á hlut hennar í stefnda. Lögmaður stefnanda mótmælti uppgjörinu með tölvubréfi 27. júní. Með matsbeiðni, 1. júlí 2011, fór stefnandi þess á leit við Héraðsdóm Reykjavíkur að dómkvaddur yrði matsmaður til þess m.a. að meta hvert verið hefði verðmæti hlutafjár í stefnda 31. desember 2009 m.v. þá reglu sem fram kæmi í 6. gr. kaupsamnings aðila frá 31. desember 2006 og skyldi matið miða við ársreikninga stefnda fyrir árin 2008 og 2009 og rekstraráætlun fyrir árin 2010 og 2011. Matsgerð hins dómkvadda matsmanns, dags. 13. desember 2011, liggur fyrir í málinu.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvernig reikna beri út innlausnarverð þeirra hluta sem stefnandi átti í stefnda við starfslok hennar hjá stefnda þ.e. hvort taka beri tillit til vaxtaberandi langtímaskulda við útreikning innlausnarverðsins. 

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi kveður tölulega kröfugerð sína í málinu sundurliðast þannig:

1.     Verðmæti skv. mati dómkvadds matsmanns
          (matsgerð, liður 3.4, tafla 4)                                                                                                    kr.        499.225.000
2.     Hlutur stefnanda í stefnda, 13,25%                                                                                        kr.          66.147.313
3.     Hlutur stefnanda m.t.t. hluta sem fallið hafi niður við starfslok,
        ..83,33% af 13,25%                                                                                                                    kr.          55.120.556

4.     Flutt verðmæti hlutar stefnanda                                                                                               kr.          55.120.556
5.     Lækkun skv. samningi 3,5%                                                                                                     kr.        - 19.229.219
6.     Verðmæti eignarhluta stefnanda m.v. sölugengi                                                                   kr.          53.191.336
7.     Umsýsluþóknun skv. samningi 1%                                                                                          kr.             - 531.913
8.     Kaupverð eignahluta                                                                                                                  kr.          52.659.423
9.     Frá dragist skuldir                                                                                                                        kr.        - 19.131.527
        Stefnukrafa                                                                                                                                  kr.          33.527.896

Ágreiningur aðila lúti svo til eingöngu að því hvort draga beri vaxtaberandi lán frá reiknuðu innlausnarverði hluta stefnanda í stefnda og þá með hvaða hætti það skuli gert. Ekki sé deilt um hvaða samningar hafi verið gerðir og að þá beri að efna heldur um innihald þeirra og þá fyrst og fremst hvort þeir feli í sér að vaxtaberandi skuldir dragist frá matsverði félagsins. Stefnandi bendi máli sínu til stuðnings m.a. á eftirfarandi:

1.                   Um það hafi ekki verið samið að vaxtaberandi lán drægjust frá matsverði stefnda, sbr. m.a. 6. gr. kaupsamnings aðila frá 31. desember 2006.

2.                   Vaxtaberandi skuldir hafi ekki verið dregnar frá kaupverði þegar salan hafi átt sér stað til stefnanda eins og fram komi í fyrirliggjandi matsgerð.

3.                   Kaup stefnda á öðru félagi, Faktor einkaleyfastofu ehf., í júní 2006, hafi tvöfaldað áætlað EBITDA vegna ársins 2007. Af þeim sökum hafi stefnandi greitt hærra verð fyrir hlutina en ella, þótt félagið sæti uppi með langtímalán sem tekin hafi verið vegna þeirra kaupa.

4.                   Stefnandi hafi hlotið að gera ráð fyrir að ef hún neyddist til að selja hluti sína á ný til félagsins yrði ekki notuð óhagstæðari aðferð við útreikning gengis bréfa hennar heldur en þegar hún hafi keypt. Ljóst sé að báðir aðilar og ekki síst stefnandi hafi gengið til samninga á þessari forsendu. 

5.                   Stefndi hafi útbúið samninginn sjálfur og einn átt frumkvæði að viðskiptunum. Hann hafði bæði haft endurskoðendur og lögmenn sér við hlið. Einn af seljendum til félagsins hafi verið stærsta lögmannstofa í landinu. Stefnandi hafi hins vegar verið launþegi hjá félaginu. Verði því að skýra öll vafaatriði stefnda í óhag.

Auk framangreinds gangi aðferðafræði stefnda ekki upp þar sem langtímalán sé ekki lækkað um næsta árs afborganir eða með öðrum hætti tekið tillit til þess að í árslok 2009 hafi handbært fé verið 57.030.689 krónur. Þá fjárhæð beri að draga frá langtímaláninu áður en það sé dregið frá verðmæti félagsins en ella alls ekki lægri fjárhæð en nemi næsta árs afborgunum langtímaskulda þ.e. 45.020.000 krónur. Í ofanálag sé um að ræða gengistryggt lán sem tekið hafi stökkbreytingum við hrunið en vaxtakjörin séu slík að félagið sé betur sett með það en ógengistryggt lán. Óeðlilegt og ósanngjarnt sé því að miða við fulla fjárhæð lánsins við þessar aðstæður. Frekar beri að horfa til fjárhæðar lánsins m.v. endurútreikning. Svo virðist sem stefndi hafi þegar fengið leiðréttingu lánsins og sé skorað á hann að upplýsa um það. Ekki sé tekið tillit til þess að allir verðbreytingaþættir hverrar afborgunar sé ofgreitt fé sem stefndi eigi kröfu á að verði endurgreitt með vöxtum. Framangreindu til stuðnings skuli á það bent að þótt viðsemjandi stefnanda hafi verið félagið þá hafi framkvæmdastjóri þess og reyndar einnig lögfræðiskrifstofan LOGOS verið að selja sína hluti til stefnda svo það gæti ráðstafað þeim áfram til starfsmanna. Hafði Gunnar Örn Harðarson, framkvæmdastjóri, því haft beina hagsmuni af því að reikna gengi bréfanna sem hæst. Það segi e.t.v. meira en nokkuð annað að EBITDA stefnda hafi að meðaltali verið 28.290.000 krónur við kaupin en við endursölu til stefnanda 74.884.000 krónur.  Hafi EBITDA þannig hækkað 2,6 falt. Samt eigi gengi hlutanna aðeins að hafa hækkað úr 8,188 í 9,79, sem sé nánast sama gengi og hlutirnir hafi verið reiknaðir á við kaup stefnanda á hlutunum, ef ekki hefði komið til sérstaks 15% afsláttar. Endurgreiðslan sé nokkurn veginn sama fjárhæð og stefnandi hafi borgað fyrir hlutina. Í raun hafi stefndi borgað hærri fjárhæð en hún fái greidda, ef verðbætur séu reiknaðar á greiðslur hennar. Verði ekki fallist á sjónarmið stefnanda um efni umrædds kaupsamnings sé þess krafist að hann verði ógiltur og breytt með vísan til 36. gr. l. nr. 7/1936. Um rök fyrir sanngirni vísist til þess sem að framan sé rakið. Þurfi m.a. að líta til þess að skuld stefnanda sem dragist frá verðmæti hlutafjár eigi rætur að rekja til yfirverðs m.v. sjónarmið stefnda nú um hvernig verðmæti félagsins sé reiknað. Vaxtakrafan taki mið af 8. gr. kaupsamnings aðila en stefnandi telji sig eiga rétt til dráttarvaxta frá 28. febrúar 2011 og sé útreikningur því stefnda til hagsbóta. Í þessu sambandi reisi stefnandi kröfur sínar m.a. á því að samkomulag sé um rétt hennar til að krefja stefnda um alla fjárhæðina nú þegar enda sé það í sammræmi við kaupsamning aðila. Þar að auki sé á því byggt að stefndi hafi vanefnt samninginn og því leiði réttarreglur til þess að stefndi megi krefja um alla fjárhæðina nú en ella á grundvelli reglna um fyrirsjáanlegar vanefndir. Um lagarök vísi stefnandi til reglunnar um skuldbindingagildi samninga. Einnig sé vísað til þeirra reglna samningaréttarins að skýra beri samninga á þann hátt sem hagfelldast sé fyrir þann aðila sem ekki semji textann eða hafi frumkvæði að gerð samningsins og ekki njóti sérfræðiaðstoðar við gerð hans. Einnig þeirrar reglu að taka beri tillit til þess þegar launþegi geri samning við atvinnurekanda sinn. Um málskostnað vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr. Tekið verði tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og þurfi því aðfararhæfan dóm fyrir skattinum.

Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

Stefndi kveður ágreining málsaðila lúta að því hvernig reikna beri út innlausnarverð hlutafjárins. Stefnandi geri grein fyrir því í stefnu að meginefni ágreiningsins í málinu lúti að því, hvort taka beri tillit til vaxtaberandi langtímaskulda við útreikning innlausnarverðsins. Um það tilgreini hann sérstaklega fimm tölusettar málsástæður. Athugasemdir stefnda við þær séu þessar helstar:

1.            Stefnandi vísi til 6. gr. kaupsamnings aðila frá 31. desember 2006 um að ekki hafi verið samið um að vaxtaberandi lán drægjust frá matsverði stefnda. Það sé vissulega rétt, að ekkert standi um þetta í samningnum, heldur sé þar mælt fyrir um núvirt sjóðsstreymi síðustu tvö ár og áætlað sjóðsstreymi næstu tveggja ára. Stefndi telji þetta ekki útiloka að tekið verði tillit til vaxtaberandi skulda í framtíðinni, ef slíkar grundvallarbreytingar verði á fyrirtækinu eins og orðið hafi við samruna þess við Faktor.

2.            Stefnandi vísi til þess að vaxtaberandi skuldir hafi ekki verið dregnar frá kaupverði þegar salan hafi átt sér stað til stefnanda. Stefndi vísi um þetta til þess sem rakið sé í greinargerð, um stöðu langtímaskulda samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2005, sem kaupverð bréfanna hafi reiknast út frá. Þá hafi nánast engar langtímaskuldir hvílt á félaginu, eða svo óverulegar að þær hefðu vart haft mælanleg áhrif við útreikninginn. Þess vegna hafi þetta atriði enga þýðingu við úrlausn þessa máls. 

3.            Stefnandi vísi til þess að kaup stefnda á Faktor hafi tvöfaldað áætlað EBITDA vegna ársins 2007 og það hafi leitt til þess að stefnandi hafi greitt hærra verð fyrir hlutina en ella „þótt félagið sæti uppi með langtímalán sem tekin hafi verið vegna þeirra kaupa“ eins og segi í stefnunni. Stefndi telji þessa „röksemd“ gersamlega út í hött. Það sé innbyggt í regluna um kaupverð bréfanna að áætla skuli sjóðsstreymið tvö ár fram í tímann. Það hafi verið gert. Fram að höfðun máls þessa hafði enginn haldið því fram að þetta hafi ekki verið réttilega gert, þegar gengi hlutafjárins hafi verið ákveðið í upphafi. Kaupin á Faktor og samruni félaganna sé sá þáttur sem valdið hafi gríðarlegri tekjuaukningu hjá hinu sameinaða félagi, og þess vilji stefnandi njóta í sjóðsstreymisútreikningunum, en þessu hafi einnig fylgt veruleg lántaka sem stefnandi vilji ekki að komi inn í sama útreikning. Stefndi telji þetta atriði sýna rökleysu í málatilbúnaði stefnanda.

4.            Stefnandi vísi til þess að báðir aðilar hljóti að hafa gengið út frá því sem vísu, þegar stefnandi hafi keypti hlutaféð, að sama aðferð yrði notuð við innlausn bréfanna, ef til kæmi, eins og notuð hafi verið þegar hún hafi keypt þau. Stefndi byggi á því, að hann noti sömu aðferð við útreikningana með þeim breytingum sem beint leiði af því að fyrirtækið sé ekki það sama og verið hafi þegar stefnandi hafi keypt hlutaféð.  Því sé ítarlega lýst í greinargerð stefnda.

5.            Stefnandi vísi til þess að stefndi hafi útbúið samninginn og einn átt frumkvæði að viðskiptunum við stefnanda. Stefndi hafi við samningsgerðina átt greiðan aðgang að þjónustu lögmanna og endurskoðenda, en stefnandi hafi verið launþegi hjá félaginu. Stefndi taki vegna þessa fram að kaupsamningurinn hafi verið verulega ívilnandi fyrir stefnanda, og greiðslukjör sem hún hafi notið hafi verið henni verulega hagstæð. Þannig hafi hún aðeins verið búin að greiða lítið brot af kaupverði bréfanna, þegar hún hafi hætt störfum hjá félaginu. Því fari þess vegna fjarri að félagið hafi beitt stefnanda einhvers konar yfirburðastöðu. Í því sambandi verði að mati stefnda ekki framhjá því litið að stefnandi sé viðskiptalögfræðingur að mennt, hún hafði starfað hjá félaginu í nokkur ár, þegar viðskiptin hafi átt sér stað, og gert sér fulla grein fyrir því hvað falist hafi í þeim samningum sem við hana hafi verið gerðir.  Í málinu liggi fyrir ferilskrá stefnanda, sem hún hafi afhent stefnda er hún hafi sótt um vinnu hjá félaginu á sínum tíma. Þar megi m. a. sjá að í viðskiptafræðihluta náms hennar hafi hún valið sem valfag „Verðmætamat fyrirtækja“. Vafaatriði sem kunni að koma fram við túlkun samninganna verði þess vegna ekki skýrð stefnanda í hag með þeim hætti sem gerð sé krafa um  um í stefnunni. 

Stefnandi haldi því einnig fram að aðferðafræði stefnda við útreikning innlausnarverðsins gangi ekki upp þar sem langtímalán sé þar ekki lækkað um næsta árs afborganir af því. Þetta sé beinlínis rangt að mati stefnda. Jafnframt mótmæli stefndi vangaveltum stefnanda um að „óeðlilegt“ og „ósanngjarnt“ sé að miða við fulla fjárhæð langtímalánsins, sem sé í erlendum gjaldmiðli, og beri þá frekar að horfa til fjárhæðar lánsins miðað við „endurútreikning“. Skori stefnandi á stefnda að upplýsa um hvort stefndi hafi fengið lánið „leiðrétt“. Því sé til að svara að stefndi hafi á sínum tíma óskað eftir því að fá langtímalán í erlendum gjaldmiðli, og það fengist. Stefndi telji sig ekki eiga neinn rétt á „leiðréttingu“ lánsins, einfaldlega vegna þess að lánið sé ekki með ólögmætri gengistryggingu. Þess vegna hafi stefndi ekki fengið neina lækkun á fjárhæð lánsins, þó svo að það hafi hækkað verulega vegna gengisbreytinga, og telji sig ekki eiga rétt á neinum slíkum „leiðréttingum“. Til stuðnings röksemdum sínum um að forsendur útreikninga stefnanda fái ekki staðist bendi stefndi á að eigið fé félagsins í árslok 2009 hafi verið rúmar 97,2 milljónir króna. Stefnandi geri í málinu kröfu um að fá fyrir 11,04% í félaginu meira en helming þessa fjár, þ.e. 55.120.556 krónur. Til þess að unnt væri að leysa út alla hluthafana með sama hætti þyrfti eigið fé félagsins að vera 499.280.390 krónur. Fyrir höfðun máls þessa hafi stefnandi fengið dómkvaddan matsmann til að láta í té matsgerð um álitaefni sem varði útreikning á innlausnarverði hlutafjárins, sem mál þetta snúist um. Til þess að framkvæma umbeðið mat hafi verið kvaddur til Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi. Matsgerð hans hafi verið lögð fram við þingfestingu málsins. Af hálfu stefnanda sé engin grein gerð fyrir matsgerð þessari í stefnu og ekki vísað til hennar sem sönnunargagns um nein tiltekin atriði. Telji stefndi reyndar að með þessari matsgerð hafi stefnanda ekki tekist að renna frekari stoðum undir kröfugerð sína, enda séu í matsgerðinni dregin fram ýmis atriði sem styðji frekar málstað stefnda en stefnanda. Vísist um það til útlistunar í kafla 2.2 í matsgerðinni, sem hafi fyrirsögnina „Aðferð frjáls sjóðstreymis“. Í málinu liggi frammi minnisblað Einars Hafliða Einarssonar, löggilts endurskoðanda hjá Deloitte ehf., sem annast hafi endurskoðun fyrir stefnda. Þar sé gerð grein fyrir útreikningum hans á hlutafjáreign stefnanda og endurkaupsverði samkvæmt þeim samningum sem aðilar hafi gert með sér. Niðurstaða hans sé efst á bls. 3, þar sem segi: 

Heildarinnlausnarverð hlutafjárins væri á bilinu kr. 24.806.750 – kr. 28.849.001, sem væri það uppgjörsverð sem hluthafasamkomulagið gerir ráð fyrir að þyrfti að greiða LJ ef hún verði búin að greiða allan hlutinn.

Óumdeilt sé að stefnandi hafði við starfslok sín hjá stefnda aðeins eignast 83,3333% af því hlutafé sem hún hafi verið skrifuð fyrir. Þegar viðræður málsaðila um innlausn hlutafjárins höfðu siglt í strand hafi stefndi ákveðið að greiða stefnanda fyrir hlutaféð í samræmi við útreikning endurskoðandans, með þeim hætti að tekin hafi verið efri mörkin af hinum tilvitnuðu fjárhæðum. Hafi stefnanda samhliða bréfi, 16. júní 2011,  verið send greiðsla í samræmi við þetta. Við uppgjörið hafi verið dregin frá skuld stefnanda vegna viðskiptanna, svo og aðrir frádráttarliðir samkvæmt samningum aðila.  Greiðslan hafi verið að fjárhæð 3.835.884 krónur. Í bréfinu hafi verið tekið fram að félagið hefði ákveðið að nýta ekki rétt sinn til að greiða hluta fjárhæðarinnar með skuldabréfi. Með þessu uppgjöri telji stefndi að stefnandi hafi fengið umsamið verð fyrir hlutaféð að fullu greitt. Stefnandi geri kröfu til þess, verði ekki fallist á sjónarmið hans um efni samnings aðila, að samningurinn verði ógiltur eða honum breytt með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Ekki sé þó tekið fram í þeirri málsútlistun til hvers ógilding eigi að leiða, en nærtækast væri þá að ætla að báðir ættu að skila því sem þeir hefðu fengið frá hinum á grundvelli samningsins. Ef það sé réttur skilningur sé stefndi tilbúinn til samninga um það. Annars sé ekki skýrt í stefnunni hvað það sé í 36. gr. laga nr. 7/1936 sem gæti átt við í þessu máli, en stefndi telji fjarri öllu lagi að sanngirnisrök geti leitt til ívilnunar fyrir stefnanda í þessu máli. Hvað sem öllu öðru líði sé það staðreynd að þegar hún hafi hætt störfum hafi hún aðeins verið búin að greiða 3.677.375 krónur af heildarkaupverði umrædds hlutafjár, en kaupverðið hafi verið ákveðið rúmar 18 milljónir. Um það bil helmingur hinnar innborguðu fjárhæðar hafi verið greiddur með arði af hlutabréfunum, en um leið og stefnandi hafi orðið hluthafi í félaginu hafi laun hennar verið hækkuð umtalsvert til þess að gera henni kleift að standa við greiðsluskilmálana, sem samið hafi verið um. Hún geri í málinu kröfu um að fá greiddar rétt tæpar 30 milljónir króna til viðbótar þeim 3,8 milljónum sem hún hafi þegar fengið. Stefnda sé ljóst að sanngirni sé afstætt hugtak, en hann telji það ekki ná yfir málstað stefnanda í máli þessu. Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda sé þess krafist að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Sjónarmið sem að áður séu rakin til stuðnings sýknukröfu eigi einnig við um lækkunarkröfur stefnda. Sé því harðlega mótmælt að útreikningar stefnanda á stefnukröfu verði lagðir til grundvallar niðurstöðu í málinu, enda feli þeir í sér rökleysu sem enginn dómstóll geti tekið mark á. Ef fallist væri á kröfugerðina væri um leið búið að kippa fótum undan fyrirtækinu sem gæti ekki með nokkru móti staðið undir innlausnarkröfum annarra starfsmanna á hlutafé þeirra, sem búast megi fastlega við að komi fram ef kröfur stefnanda nái fram að ganga. Stefnandi geri jafnframt kröfu til þess, verði hann dæmdur til að greiða stefnanda eitthvað til viðbótar því sem þegar hafi verið greitt, að greiðslukjör þess verði ákveðin í samræmi við hluthafasamkomulag aðila, þ.e. að stefnda verði heimilað að greiða 75% heildarfjárhæðar með verðtryggðu skuldabréfi til 5 ára með föstum 5% ársvöxtum. Í þessu felst jafnframt að vaxtakröfu stefnanda sé mótmælt, enda sé hún ekki í samræmi við þá samninga sem kröfurnar séu reistar á.

Forsendur og niðurstaða

Báðir aðilar hafa í málatilbúnaði sínum ítrekað vísað til hluthafasamkomulags frá 30. nóvember 2006 máli sínu til stuðnings og hafa nokkur ákvæði þess verið tekinn upp í atvikalýsingu í dómi þessum. Stefnandi gerðist aðili að samkomulagi þessu í framhaldi af kaupsamningi hennar og stefnda 30. desember 2006. Í 12. gr. hluthafasamkomulagsins segir að verði ágreiningur um túlkun eða efndir þess skuli hluthafarnir leggja sig fram um að jafna hann. Takist það ekki skuli ágreiningurinn borinn undir gerðardóm. Þrátt fyrir framangreint snýr ágreiningur aðila fyrst og fremst að túlkun og skýringu á kaupsamningi aðila frá 30. desember 2006 en eins og rakið hefur verið voru þau ákvæði hluthafasamkomulagsins sem mæltu fyrir um kaup starfsmanna á hlutum í stefnda þ.m.t. ákvæði um skilyrði fyrir kaupum, innlausn hluta, ef starfsmaður léti af störfum, og hvernig innlausnarverðið skyldi reiknað, tekin efnislega óbreytt upp í kaupsamningnum. Er því 12. gr. hluthafasamkomulagsins ekki því til fyrirstöðu að mál þetta fái efnislega meðferð fyrir héraðsdómi.

Eins og ítrekað hefur verið rakið lýtur ágreiningur aðila að því hvernig reikna beri út innlausnarverð þeirra hluta í stefnda, sem voru í eigu stefnanda við starfslok hennar hjá stefnda. Er meginágreiningurinn um, hvort taka beri tillit til vaxtaberandi langtímaskulda við útreikning innlausnarverðsins. 

Af hálfu stefnanda er á því byggt að ekki hafi verið um það samið að vaxtaberandi lán drægjust frá matsverði stefnda, sbr. m.a. 6. gr. kaupsamnings aðila frá 31. desember 2006, og vaxtaberandi skuldir því ekki verið dregnar frá kaupverði, þegar salan til stefnanda hafi átt sér stað. Kaup stefnda á öðru félagi, Faktor einkaleyfastofu ehf., í júní 2006, hafi tvöfaldað áætlað EBITDA vegna ársins 2007. Af þeim sökum hafi stefnandi greitt hærra verð fyrir hlutina en ella, þótt félagið sæti uppi með langtímalán sem tekin hafi verið vegna þeirra kaupa. Stefnandi hafi hlotið að gera ráð fyrir að ef hún neyddist til að selja hluti sína á ný til félagsins yrði ekki notuð óhagstæðari aðferð við útreikning gengis bréfa hennar en þegar hún hafi keypt. Ljóst sé að báðir aðilar og ekki síst stefnandi hafi gengið til samninga á þessari forsendu. Þá hafi stefndi útbúið samninginn sjálfur og haft einn frumkvæði af viðskiptunum. Hann hafði bæði haft endurskoðendur og lögmenn sér við hlið við þá samningsgerð og megi í því sambandi nefnda að einn af hluthöfunum, sem selt hafi hluti til félaginu til að gera sölu á hlutum til lykilstarfmanna mögulega, hafi verið stærsta lögmannstofa í landinu. Stefnandi hafi hins vegar verið launþegi hjá félaginu. Verði því að skýra öll vafaatriði hvað skýringu kaupsamningsins varði stefnda í óhag.

Af hálfu stefnda er á því byggt að þótt í 6. gr. kaupsamnings aðila hafi ekki, samkvæmt orðanna hljóðan, verið um það samið að vaxtaberandi lán drægjust frá matsverði stefnda, hafi það ekki útilokað að tekið yrði tillit til vaxtaberandi skulda í framtíðinni, ef slíkar grundvallarbreytingar yrðu á fyrirtækinu eins og orðið hafi við samruna þess við Faktor. Þá vísar stefndi máli sínu til stuðnings til þess að samkvæmt ársreikningi stefnda fyrir árið 2005, sem kaupverð hlutanna í stefnda hafi reiknast út frá, hafi nánast engar vaxtaberandi langtímaskuldir hvílt á félaginu, eða svo óverulegar að þær hefðu vart haft mælanleg áhrif á útreikninginn. Þess vegna hafi tilvist þessara skulda enga þýðingu við úrlausn málsins. Stefndi telji þá röksemd stefnanda að við kaup stefnda á Faktor hafi áætluð EBITDA vegna ársins 2007 tvöfaldast og það hafi leitt til þess að stefnandi hafi greitt hærra verð fyrir hlutina en ella, þótt félagið, eins og segi í stefnu, sæti uppi með langtímalán, sem tekin hafi verið vegna þeirra kaupa“. Þessi röksemd fái ekki staðist enda sé það innbyggt í regluna um kaupverð bréfanna að áætla skuli sjóðsstreymið tvö ár fram í tímann. Kaupin á Faktor og samruni félaganna sé sá þáttur sem valdið hafi gríðarlegri tekjuaukningu hjá hinu sameinaða félagi og þess vilji stefnandi njóta í sjóðsstreymisútreikningunum. Þessu hafi hins vegar einnig fylgt veruleg lántaka sem stefnandi vilji ekki að komi inn í sama útreikning. Stefndi telji þetta atriði sýna rökleysu í málatilbúnaði stefnanda. Stefndi byggi á því að hann hafi notað sömu reikniaðferð við söluna til stefnanda og notuð hafi verið við útreikning á innlausnarvirðinu með þeim breytingum sem beint leiði af því að fyrirtækið sé ekki það sama við innlausnina og verið hafi þegar stefnandi hafi keypt hluti í því. Þá byggi stefndi á því að umræddur kaupsamningur hafi verið verulega ívilnandi fyrir stefnanda og þau greiðslukjör sem hún hafi notið verið henni verulega hagstæð. Þannig hafi hún aðeins verið búin að greiða lítið brot af kaupverði bréfanna, þegar hún hafi hætt störfum hjá félaginu. Því fari þess vegna fjarri að félagið hafi beitt stefnanda einhvers konar yfirburðastöðu. Í því sambandi verði að mati stefnda ekki framhjá því litið að stefnandi sé viðskiptalögfræðingur að mennt, hún hafði starfað hjá félaginu í nokkur ár, þegar viðskiptin hafi átt sér stað, og gert sér fulla grein fyrir því hvað falist hafi í þeim samningum, sem við hana hafi verið gerðir. Í málinu liggi fyrir ferilskrá stefnanda, sem hún hafi afhent stefnda er hún hafi sótt um vinnu hjá félaginu á sínum tíma. Þar megi m.a. sjá að í viðskiptafræðihluta náms hennar hafi hún valið sem valfag „Verðmætamat fyrirtækja“. Vafaatriði sem kunni að koma fram við túlkun samninganna verði þess vegna ekki skýrð stefnanda í hag með þeim hætti sem gerð sé krafa um  um í stefnunni. Hvað varði fullyrðingar stefnanda um að umrætt vaxtaberandi langtímalán sé ofreiknað, þar sem ekki sé tekið tillit til endurútreiknings vegna ólögmætrar gengistryggingar, sé því til að svara að umrætt lán sé lögmætt gengistryggt lán og því ekki að vænta neinnar lækkunar á því. Hins vegar hafi lánið hækkað verulega vegna gengistryggingarinnar. Þá sé ennfremur rangt, eins og stefnandi haldi fram, að stefndi hafi ekki fært næsta árs afborganir af láninu til lækkunar í ársreikningi 2009. Þá byggir stefndi á því að forsendur útreikninga stefnanda til grundvallar stefnukröfum hans fái ekki staðist. Eigið fé félagsins í árslok 2009 hafi verið rúmar 97,2 milljónir króna. Stefnandi geri í málinu kröfu um að fá fyrir 11,04% í félaginu meira en helming þessa fjár, þ. e. 55.120.556 krónur. Til þess að unnt væri að leysa út alla hluthafana með sama hætti þyrfti eigið fé félagsins er vera 499.280.390 krónur.

Eins og ítrekað hefur verið rakið gerðu þáverandi hluthafar í stefnda hluthafasamkomulag 30. nóvember 2006. Meginmarkmið samkomulagsins var eins og áréttað er í 5. gr. þess að gefa svonefndum lykilstarfsmönnum félagsins kost á að eignast hluti í því.  

Í 4. gr. kaupsamnings aðila frá 31. desember 2006 er gerð grein fyrir forsendunum fyrir kaupum stefnanda á hlutum í stefnda og eru þær sagðar þessar helstar:

·         Að kaupandi sé og verði áfram starfsmaður seljanda.

·         Komi til þess að kaupandi láti af störfum áður en tilgreindur eignarhlutur sé að fullu greiddur gangi kaupin sjálfkrafa til baka á þeim hluta sem ógreiddur kunni að vera, þegar kaupandi láti af störfum. Skipti þá ekki máli hvort kaupandi láti af störfum að eigin ósk eða sé sagt upp störfum.

·         Félagið endurkaupi þann hluta sem kunni að vera greiddur í samræmi við 8. gr. kaupsamningsins.

6. gr. kaupsamningsins er svohljóðandi: 

Á hverjum aðalfundi í félaginu sem halda skal fyrir maílok ár hvert, skal auk endurskoðaðs ársreiknings leggja fram útreikning á heildarverðmæti hluta í félaginu. Útreikningar þessir byggja á núvirtu sjóðstreymi félagsins síðustu 2 ár og áætluðu sjóðstreymi næstu tveggja ára þ.e.a.s. yfirstandandi árs og þess næsta. Verðmæti félagsins (söluverð hluta) telst þannig vera meðaltal sjóðstreymis þessa fjögurra ára framreiknað og núvirt með 15% ávöxtunarkröfu.

Óumdeilt er að framangreindur útreikningur var ekki lagður fram á aðalfundum félagins eða kynntur hluthöfum með öðrum hætti, á þeim árum sem hér skipta máli.

         8. gr. kaupsamningsins er svohljóðandi:

Á meðan hömlur á viðskipti með eignarhluti í félaginu hafa ekki verið afnumdar skuldbindur félagið sig til að kaupa og seljandi að selja eignarhluti í félaginu á því verði sem ofangreindir útreikningar segja til um með eftirtöldum skilmálum:

a)  Félagið skuldbindur sig að kaupa af hluthafa sem lætur af störfum hjá félaginu og hluthafinn skuldbindur sig til að selja á gildandi verði á hverjum tíma.

b)  Félagið skuldbindur sig til að kaupa af hluthöfum sem láta af störfum og seljandi    að selja með þeim hætti að staðgreiðsla geti numið allt að  25% verðmætis, en allt að 75% verði greitt með 5 ára skuldabréfi sem beri 5% fasta vexti.

c)  Umsýsluþóknun félagsins er 1% af keyptum eignarhlut en engin þóknun er greidd við sölu.

d)  Kaupverð hluta í félaginu, sem það leysir til sín skal vera 3,5% lægra en reiknað söluverð (sölugengi).

Stefndi skuldbatt sig með framangreindri 8. gr. kaupsamnings aðila frá 31. desember 2006 til að innleysa þá hluti sem stefnandi keypti af félaginu, ef til starfloka hennar kæmi, á því verði sem útreikningur samkvæmt 6. gr. samkomulagsins mælti fyrir um. Sama gilti um viðbótarhluti, sem stefnandi keypti af stefnda með samkomulagi 31. ágúst 2007. Útreikningur samkvæmt 6. gr. samkomulagsins byggir á núvirtu sjóðstreymi félagsins, reiknuðu samkvæmt fjögurra ára meðaltali, þannig:  Rauntölum síðustu tveggja ára og áætluðu sjóðstreymi næstu tveggja ára, þ.e. áætluðu sjóðstreymi yfirstandandi árs og næsta árs. Verðmæti félagsins (söluverð hluta) telst þannig vera meðaltal sjóðstreymis þessa fjögurra ára framreiknað og núvirt með 15% ávöxtunarkröfu.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að hugtakið sjóðstreymi, samkvæmt 6. gr. samkomulagsins, beri í samræmi við þá aðferð sem beitt hafi verið við kaup stefnanda á hlutum í stefnda að skýra sem beina tilvísun til EBITDA, sem við útreikning á verðmæti fyrirtækja eða greiningu á rekstri vísi til rekstrarhagnaðar án tillits til vaxta, skatta og afskrifta. Ekki er ágreiningur með aðilum um að kaupverð stefnanda hafi byggst á EBITDA stefnda og var það ennfremur staðfest í skýrslu hins dómkvadda matsmanns fyrir dómi. Samkvæmt matsgerð hins dómkvadda matsmanns var útreikningur á því gegni sem stefnandi keypti hluti í stefnda á, 31. desember 2006, byggður á veltufé frá rekstri 2004 og 2005 og áætlun um veltufé frá rekstri 2006 og 2007. Var árlegt meðaltal 28.900.000 krónur og núvirði m.v. 15% veginn fjármagnskostnað 192.664.000 krónur. Gengi hluta í félaginu var samkvæmt þessum útreikningi 9,633. Með sérstökum 15% afslætti var kaupgengi stefnanda því 8,188. Samkvæmt matsgerð hins dómkvadda matsmanns mun vera hefð fyrir því að til einföldunar sé horft til EBITDA við mat á sjóðstreymi fyrirtækja, sbr. matsgerð, bls. 6.

Í matsgerð hins dómkvadda matsmanns kemur fram sú ályktun hans að aðferðafræðin, sem fram komi í 6. gr. kaupsamnings aðila, vísi til verðmatsaðferðar sem jafnan sé nefnd „aðferð frjáls sjóðstreymis“. Matsmaðurinn skilgreinir í matsgerðinni hugtakið „frjálst sjóðstreymi“ og hvernig verðmæti félags sé fundið með þeirri aðferð, sem í frjálsu sjóðstreymi felist. Segir þar m.a. að frá núvirði frjáls sjóðstreymis, að viðbættum eignum, sem ekki geti talist til rekstrartengdra eigna, séu til að finna verðmæti eigin fjár dregnar frá langtímaskuldir félags, sbr. matsgerð bls. 5. Við framangreinda ályktun hins dómkvadda matsmanns er eftirfarandi að athuga. Matsmaður var ekki í matsbeiðni beðinn um túlkun á hugtakinu „sjóðstreymi“ í 6. gr. kaupsamnings aðila. Er ályktun hans því utan matsbeiðninnar og hefur ekki sönnunargildi á grundvelli hennar. Stefnandi hefur mótmælt framangreindri ályktun matsmannsins sem málinu óviðkomandi og stefndi byggir málatilbúnað sinni ekki á umræddri ályktun. Hefur hún því ekki þýðingu fyrir úrslit máls þessa.

Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi stefnda 2005 voru vaxtaberandi langtímaskuldir stefnda, 31. desember 2005, samtals 3.822.399 krónur. Þar af voru næsta árs afborganir 3.276.342 krónur. Óumdeilt er að ekki var tekið tillit til þessara skulda, þegar gengi hluta í stefnda og söluverð til stefnanda var ákveðið m.v. 31. desember 2006. 

Með hliðsjón af orðalagi 6. gr. kaupsamnings aðila, sem áður er rakið, því sem að framan er rakið um þá reikniaðferð, sem beitt var við kaup stefnanda á hlutum í stefnda 31. desember 2006  (EBITDA), því að áhvílandi vaxtaberandi langtímalán, sem sannanlega hvíldu á stefnda á þessum tímamarki, voru ekki reiknuð til lækkunar á kaupverðinu og að ómótmælt er að umræddur kaupsamningur var saminn á vegum stefnda, sbr. viðtekin sjónarmið  á sviði samningaréttar um contra proferentem, verður að fallast á það með stefnanda að á stefnda hvíli sönnunarbyrði fyrir því að við innlausn á þeim hlutum, sem stefnandi hafði greitt, þegar til starfsloka hennar kom, eigi að beita annarri reikniaðferð en þeirri sem beitt var við kaup stefnanda á hlutum í stefnda og áhvílandi vaxtaberandi langtímalán að reiknast til frádráttar framreiknuðu meðaltals sjóðstreymi. Þeirri sönnunarbyrði hefur stefndi ekki fullnægt og verður hann að bera hallann af því.

Af hálfu stefnda er á því byggt, eins og áður hefur verið rakið, að grundvallarbreytingar hafi orðið á rekstri stefnda við kaupin á Faktor um mitt ár 2006 og eigi þær að leiða til breytinga á umsaminni reikniaðferð við innlausn á hlutum stefnda með þeim hætti sem stefnandi byggi á þ.e. að vaxtaberandi langtímalán, sem tekið hafi verið vegna kaupanna á Faktor eigi að reiknast til lækkunar á núvirtu meðaltals sjóðstreymi. Stefndi hefur ekki stutt framangreinda málsástæðu fullnægjandi lagalegum rökum um breyttar forsendur og verður henni, með vísan til andmæla stefnanda, þegar af þeirri ástæðu hafnað.

Af hálfu stefnda hefur þeirri málsástæðu verið teflt fram að verði fallist á kröfur stefnanda um innlausnarverðið, muni það leiða til ósanngjarnar niðurstöðu enda muni stefnandi þá fá í sinn hlut mun meira af eiginfé félagsins en samsvari hlutdeild hennar í eiginfénu miðað við hún hafi átt 11,04% af heildarhlutafé félagsins. Þess hefur ekki verið krafist að hálfu stefnda, með vísan til viðeigandi réttarheimilda, að umræddu ákvæði 6. gr. kaupsamnings aðila verði breytt eða vikið til hliðar, hvað útreikning á innlausnarvirði varði, með vísan til þess að ákvæðið sé ósanngjarnt. Er þessari málsástæðu, með vísan til andmæla stefnanda, því hafnað.

Stefnandi hefur í stefnu sundurliðað stefnukröfur sínar. Hefur verið gerð grein fyrir þeim útreikningi í þeim kafla dómsins sem lýsir málsástæðum og lagarökum stefnanda. Augljós reikniskekkja kemur fram í 3. tl. útreikningsins og hefur hún verið leiðrétt í eftirfarandi útreikningi stefnukröfunnar. Leiðréttingin leiðir til lækkunar kröfunnar: 

1.     Verðmæti skv. mati dómkvadds matsmanns, sbr.
        matsgerð, lið 3.4, töflu 4                                                                                                            kr.            499.225.000
2.     Hlutur stefnanda í stefnda, 13,25%                                                                                        kr.               66.147.313
3.     Hlutur stefnanda m.t.t. hluta sem fallið hafi niður við starfslok,
        83,33% af 13,25% eða 11,04%                                                                                               kr.               55.114.440

5.     Lækkun skv. samningi um 3,5%                                                                                              kr.                -1.929.005
6.     Verðmæti eignarhluta stefnanda m.v. sölugengi                                                                   kr.               53.185.435
7.     Umsýsluþóknun skv. samningi 1%                                                                                          kr.                  - 531.854
8.     Kaupverð eignahluta                                                                                                                  kr.               52.653.581
9.     Frá dragist skuldir                                                                                                                        kr.            - 19.131.527
        Stefnukrafa                                                                                                                                  kr.               33.522.054

Óumdeilt er að hlutur stefnanda hafi við starfslok, miðað við greidda hluti, verið 11,04%, sbr. tl. 3 og hún hafi þá skuldað 19.131.527 krónur af umsömdu kaupverði, sbr. tl. 9. Þá er óumdeilt að samkvæmt 8. gr. kaupsamnings aðila frá 31. desember 2006, c- og d-liðum, beri að lækka innlausnarverð um 1% umsýsluþóknun og 3,5% sérstakan afslátt. Nafnverð útistandandi hluta skv. tl. 1 er samkvæmt útreikningi hins dómkvadda matsmanns byggt á meðalsjóðstreymi áranna 2008-2011, núvirtu m.v. 15% veginn fjármagnskostnað. Þessum útreikningi hefur ekki verið andmælt af stefnda og telst hann því réttur.   

Stefndi hefur gert þá kröfu að verði hann dæmdur til að greiða stefnanda „eitthvað“ til viðbótar því sem hann hafi þegar greitt henni verði greiðsla kröfunnar ákveðin í samræmi við „hluthafasamkomulag“ aðila þ.e. stefnda verði heimilað að greiða 75% heildarfjárhæðar með verðtryggðu skuldabréfi til fimm ára með föstum 5% vöxtum. Í  b-lið 12. gr. hluthafasamkomulagsins frá 30. nóvember 2006 segir að sé ekki unnt að staðgreiða kaupverðið sé félaginu heimilt að greiða allt að 75% af kaupverðinu með skuldabréfi til fimm ára, verðtryggt með 5% föstum vöxtum og 60 mánaðarlegum gjalddögum. Stefndi hefur ekki lagt fram gögn því til staðfestingar að honum sé ekki unnt að greiða dómkröfur stefnanda. Stefnandi hefur mótmælt kröfunni og er henni því hafnað.

Ekki eru lagaleg rök til að dæma stefnda til að greiða stefnanda verðbætur með þeim hætti sem hann gerir kröfu um í stefnu og er þeirri kröfu því hafnað. Um vexti fer sem greinir í dómsorði.  

Óumdeilt er að stefndi hafi greitt stefnanda 3.835.884 krónur vegna innlausnar á hlutum hennar í stefnda. Samkvæmt greinargerð stefnda var greiðslan innt af henti 20. júní 2011 en í stefnu er miðað við að greiðslan komi til lækkunar á stefnukröfum frá og með 16. júní. Þykir rétt að miða við það tímamark enda er það stefnda í hag.

  Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að stefndi skuli greiða stefnanda 33.522,723 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað og telst hann hæfilega ákveðinn 2.128.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til útlagðs kostnaðar stefnanda vegna þingfestingar málsins og matsgerðar og virðisaukaskatts af þóknun lögmanna.                  

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð

Stefndi, Árnason Faktor ehf., greiði stefnanda, Lovísu Jónsdóttur, 33.522,723 krónur með 5% ársvöxtum frá 28. febrúar 2011 til 2. apríl 2012 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.825.884 krónum, sem greiddar voru inn á skuldina 16. júní 2011. Stefndi greiði stefnanda 2.128.000 krónur í málskostnað.