Hæstiréttur íslands

Mál nr. 238/2007


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Bifreið
  • Galli
  • Riftun
  • Málsástæða
  • Kröfugerð
  • Dráttarvextir
  • Frávísun frá héraðsdómi að hluta
  • Gjafsókn


         

Fimmtudaginn 21. febrúar 2008.

Nr. 238/2007.

Anna Kristín Pétursdóttir

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

gegn

Ingvari Helgasyni ehf.

(Ragnar Baldursson hrl.)

og gagnsök

 

Lausafjárkaup. Bifreiðir. Galli. Riftun. Málsástæður. Kröfugerð. Dráttarvextir. Frávísun máls frá héraðsdómi að hluta. Gjafsókn.

 

A keypti bifreið af I ehf. í júní 2003 sem hún taldi að hefði verið haldin göllum. Hún krafðist aðallega að staðfest yrði „með dómi riftunarkrafa“ hennar á hendur félaginu og endurgreiðslu kaupverðsins en til vara skaðabóta af nánar tilgreindri fjárhæð. Varnir I ehf. tóku mið af því að krafist væri viðurkenningar á  riftun kaupsamnings vegna umræddrar bifreiðar og þótti því mega miða við að A krefðist viðurkenningar að riftun sem hún hafði tilkynnt I ehf. á tilteknum degi. Niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, var staðfest um að ekki væru efni til að leggja ábyrgð á I ehf. vegna ætlaðs leka á kælivatni bifreiðarinnar auk þess sem talið var að lekinn hefði ekki átt þátt í að bifreiðin varð óökufær í september 2005. Ekki var heldur fallist á, að það teldist annmarki á ástandi bifreiðarinnar, að ekki hafði verið búið að skipta um tímareim í henni þegar hún festi kaup á henni. Þá þótti sú málsástæða A, að I ehf. hefði vegna tiltekinnar áritunar í ástandsbók tekið sérstaka ábyrgð á því að skipt hefði verið um reimina áður en kaupin voru gerð, ekki hafa komið fram með þeim hætti við meðferð málsins í héraði að I ehf. hefði gefist tilefni til að taka til varna um þetta atriði. Ekki var því unnt að taka þessa málsástæðu til efnislegrar úrlausnar. Þá var talið ósannað að starfsmaður I ehf. hefði lofað að fyrirtækið myndi bera fulla ábyrgð á því ef það stæðist ekki sem stóð í ástandsbókinni um tímareimina. Félagið var því sýknað af kröfum A um annað en dráttarvexti en þeirri kröfu var vísað frá dómi þar sem í henni var hvorki vísað til ákveðins vaxtafótar né til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Talið var að A hefði uppfyllt skilyrði í leyfisbréfi um gjafsókn með því að krefjast málskostnaðar án þess þó að geta um gjafsóknina. Gjafsóknarkostnaður var því dæmdur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 4. maí 2007. Hún krefst þess aðallega að „staðfest verði með dómi riftunarkrafa“ hennar á hendur gagnáfrýjanda og að honum verði gert að endurgreiða henni kaupverð bifreiðarinnar BJ 752, 879.750 krónur „ásamt dráttarvöxtum frá kaupdegi 16.6.2003 til greiðsludags.“ Til vara krefst hún að gagnáfrýjandi greiði sér 430.000 krónur í skaðabætur „ásamt dráttarvöxtum frá 16.6.2003 til greiðsludags.“ Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 19. júlí 2007. Hann krefst sýknu af kröfum aðaláfrýjanda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Aðaláfrýjandi krefst dráttarvaxta án þess að afmarka kröfuna nánar, en í kafla um lagarök í stefnu til héraðsdóms var um vexti vísað til „III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, með síðari breytingum.“ Þau lög voru felld úr gildi með 19. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Samkvæmt d. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal í stefnu greina svo glöggt sem verða má dómkröfur þar á meðal um vexti. Sambærilegt ákvæði eldri laga var skýrt svo að dráttarvextir verði ekki dæmdir nema vaxtafótur sé tilgreindur í stefnu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 216/1982, sem birtur var í dómasafni 1983 bls. 2200. Í 11. gr. laga nr. 38/2001 er að finna heimild sem víkur frá þessum kröfum en þar kemur fram að sé krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna megi dæma slíka vexti, enda þótt hundraðshluti þeirra sé ekki tilgreindur í stefnu. Þar sem dráttarvaxtakrafa aðaláfrýjanda er hvorki afmörkuð með því að tilgreina ákveðinn vaxtafót né með vísan til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 verður ekki hjá því komist að vísa henni frá héraðsdómi án kröfu. Tekur þetta bæði til kröfu um dráttarvexti í aðalkröfu og varakröfu aðaláfrýjanda.

Aðaláfrýjandi gerir aðallega kröfu um „að staðfest verði með dómi riftunarkrafa hans á hendur stefnda ...“. Þann 21. febrúar 2006 sendi þáverandi lögmaður aðaláfrýjanda bréf til þáverandi lögmanns gagnáfrýjanda þar sem fram kom yfirlýsing um riftun kaupsamnings vegna bifreiðarinnar BJ 752 Opel Vectra árgerð 1998. Í bréfinu er tekið fram að kaupsamningurinn sem rift sé hafi verið gerður 16. júní 2003. Við málflutning fyrir Hæstarétti skýrði aðaláfrýjandi kröfu sína á þann veg að krafist væri staðfestingar dómsins á þessari riftun. Varnir gagnáfrýjanda í málinu hafa byggst á þessum skilningi á kröfunni. Þykir því mega miða við að krafan sé í samræmi við þá skýringu sem aðaláfrýjandi gaf á henni við málflutninginn.

Aðaláfrýjandi naut gjafsóknar við rekstur málsins í héraði. Í gjafsóknarleyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis 27. október 2006 var, svo sem tíðkanlegt er, tekið fram að gjafsóknarhafa bæri við rekstur málsins „að gera þá réttarkröfu að málskostnaður verði tildæmdur gjafsóknarhafa eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.“ Aðaláfrýjandi gerði kröfu um málskostnað úr hendi gagnáfrýjanda í héraði en tók ekki sérstaklega fram að hans væri krafist „eins og málið væri ekki gjafsóknarmál“, eftir að gjafsóknarleyfið hafði verið veitt, svo sem það er orðað í leyfisbréfinu. Með kröfu sinni á hendur gagnáfrýjanda um málskostnað í héraði telst aðaláfrýjandi hafa uppfyllt skilyrðið sem að þessu laut í leyfisbréfinu. Verður gjafsóknarkostnaður hennar í héraði ákveðinn í dómsorði.

II.

Svo sem fram kemur í hinum áfrýjaða dómi keypti aðaláfrýjandi bifreiðina BJ 752 af tegundinni Opel Vectra, árgerð 1998, af gagnáfrýjanda 16. júní 2003. Er óumdeilt í málinu að bifreiðinni hafði þá verið ekið rúmlega 81.000 kílómetra frá því hún var tekin í notkun. Við söluna lá fyrir skoðunarvottorð Frumherja hf. 22. maí 2003, þar sem gerðar höfðu verið athugasemdir við sjö atriði sem þörfnuðust lagfæringar í bifreiðinni, þó að þess væri ekki krafist að komið væri með hana til skoðunar á ný að lagfæringum loknum. Aðilar eru sammála um að gagnáfrýjandi hafi tekið að sér að lagfæra það sem nefnt var í vottorðinu og jafnframt að við það hafi verið staðið, þó að nokkur dráttur hafi orðið á því. Kröfur sínar byggir aðaláfrýjandi á hinn bóginn á því annars vegar að kælivatn hafi lekið af bifreiðinni og hins vegar að ekki hefði verið skipt um svonefnda tímareim. Hafi hún mátt treysta því síðarnefnda vegna handskrifaðrar áritunar í ábyrgðar- og þjónustubók í dálk, sem ætlaður hafi verið fyrir „þjónustu- og smureftirlit“ við 60.000 kílómetra akstur eða 48 mánuði, svohljóðandi: „66482 skipt um tímareim og vatnsdælu og (ólæsilegt)“. Segir aðaláfrýjandi að bókin hafi fylgt bifreiðinni er hún keypti hana. Af hálfu aðaláfrýjanda er tekið fram að hún hafi strax eftir kaupin orðið vör við vatnslekann og tilkynnt starfsmanni gagnáfrýjanda um það. Hafi hann gefið fyrirheit um að þetta yrði lagfært. Gagnáfrýjandi hefur mótmælt því að kvartað hafi verið yfir þessu strax. Hafi það fyrst verið gert „löngu, löngu seinna“, eins og Pétur Björnsson fyrrverandi sölustjóri notaðra bifreiða hjá gagnáfrýjanda orðaði það í skýrslu sinni fyrir dómi.

Aðaláfrýjandi notaði bifreið sína fram til september 2005, en segir að þá hafi bifreiðin verið orðin óökufær vegna vélarbilunar. Af gögnum málsins má ráða, að þá hafi heildarakstur bifreiðarinnar verið orðinn 116.664 kílómetrar. Hafði henni því verið ekið um 35.000 kílómetra á þeim rúmlega tveimur árum sem liðin voru frá því aðaláfrýjandi keypti hana.

III.

Í hinum áfrýjaða dómi, sem skipaður var tveimur sérfróðum meðdómendum, var komist að þeirri niðurstöðu að ekki væru efni til að leggja ábyrgð á gagnáfrýjanda vegna ætlaðs leka á kælivatni bifreiðarinnar með hliðsjón af „venjulegum endingartíma vatnskassa, svo og aldri bifreiðarinnar á söludegi“. Þá verður að skilja dóminn svo að umræddur vatnsleki hafi ekki átt þátt í að bifreiðin varð óökufær í september 2005. Verður fallist á þessa niðurstöðu dómsins.

Af héraðsdómi verður ráðið að dómendur hafi lagt þann skilning í fyrrgreinda áritun í þjónustubók að í henni fælist staðhæfing um að skipt hefði verið um tímareim í bifreiðinni við 66.482 kílómetra akstur. Töldu þeir sannað að þetta hefði ekki verið gert og því hefði bifreiðin verið haldin leyndum galla við kaupin, sem gangáfrýjandi bæri ábyrgð á. Verður dómurinn skilinn svo, að hér sé að finna orsök þess að bifreiðin varð ógangfær.

Aðaláfrýjandi hefur ekki lagt fram gögn í málinu til stuðnings sjónarmiðum sínum um að kominn hafi verið tími á skiptingu á tímareim bifreiðarinnar við þann akstur sem fyrir lá við gerð kaupsamnings. Það verður því ekki fallist á kröfu aðaláfrýjanda um að það hafi í sjálfu sér verið annmarki á ástandi bifreiðarinnar að ekki var búið að skipta um reimina, þegar hún festi kaup á henni. Aðaláfrýjandi telur að þrátt fyrir þetta beri gagnáfrýjandi ábyrgð á ástandi tímareimarinnar þar sem fyrrgreind bók með umræddri áritun hafi fylgt bifreiðinni við kaupin og teljist gagnáfrýjandi því hafa tekið sérstaka ábyrgð á því að um hana hafi verið skipt áður en kaupin voru gerð. Kemur þá til athugunar hvort málsástæða sem að þessu laut hafi verið borin upp með fullnægjandi hætti við höfðun málsins og verði svo talið, hvort fallist verði á hana að efni til.

Í stefnu til héraðsdóms segir meðal annars svo í kafla um málavexti: „Jafnframt kom fram við skoðun á ástandsbók þeirri sem fylgdi bifreiðinni, að óljóst væri hvort skipt hefði verið um tímareim, en greinilega ekki á verkstæði (stimpil vantar) og benti stefnandi á það þegar hann var að kynna sér bílinn.“ Í kafla stefnunnar undir fyrirsögninni „Málsatvik og lagarök“ er aðeins fjallað almennt um þá galla sem aðaláfrýjandi taldi vera á bifreiðinni. Þar er ekki minnst sérstaklega á tímareimina eða áritunina í fyrrgreinda bók um hana. Aðaláfrýjandi lagði ekki fram í dómi umrædda bók fyrr en við fyrirtöku málsins 19. október 2006, eða nokkru eftir að gagnáfrýjandi hafði skilað greinargerð sinni. Samkvæmt bókinni virðist síðast hafa verið farið með bifreiðina í reglubundið eftirlit í ágúst árið 2000.

Í e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið svo á að málsástæður sem stefnandi byggi málsókn sína á skuli koma fram í stefnu. Skuli lýsing málsástæðna og annarra atvika, sem greina þurfi til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé. Þá er í g. lið tekið fram að geta skuli helstu gagna sem stefnandi hafi til sönnunar um kröfur sínar. Í málatilbúnaði aðaláfrýjanda var ekki vikið neitt að því að gagnáfrýjandi teldist hafa tekið sérstaka ábyrgð á því að um tímareimina hefði verið skipt áður en kaupin voru gerð. Þá var skjalið sem þetta er sagt byggjast á ekki lagt fram með stefnunni við þingfestingu málsins og þess ekki getið að til stæði að leggja það fram. Gagnáfrýjanda gafst því ekki tilefni til að taka til sérstakra varna um þetta atriði, þegar hann skilaði greinargerð sinni. Samkvæmt þessu verður talið að umrædd málsástæða hafi ekki komið fram með þeim hætti við meðferð málsins að unnt sé að taka hana til efnislegrar úrlausnar.

Í kafla stefnunnar um málavexti segir að starfsmaður gagnáfrýjanda hafi fullvissað aðaláfrýjanda um að það sem laga þyrfti yrði lagað. „Jafnframt að ef í ljós kæmi að ekki stæðist það sem skrifað var í ástandsbókina um tímareimina myndi fyrirtækið bera fulla ábyrgð.“ Aðaláfrýjandi hefur ekki gegn mótmælum gagnáfrýjanda fært sönnur á að gagnáfrýjandi hafi gefið henni loforð um þetta. Verða kröfur hennar því heldur ekki teknar til greina á þessum grundvelli.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið verður gagnáfrýjandi sýknaður af kröfum aðaláfrýjanda. Með vísan til 3. mgr. 130. gr., sbr. og 166. gr., laga nr. 91/1991 verður málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti felldur niður. Um gjafsóknarkostnað aðaláfrýjanda í héraði fer sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Kröfum aðaláfrýjanda, Önnu Kristínar Pétursdóttur, um dráttarvexti er vísað frá héraðsdómi.

Gagnáfrýjandi, Ingvar Helgason ehf., er sýkn af öðrum kröfum aðaláfrýjanda.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður aðaláfrýjanda í héraði greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2007..

             Mál þetta var höfðað 22. maí 2006 og dómtekið 26. f.m.

             Stefnandi er Anna Kristín Pétursdóttir, Eyrarbraut 10, Stokkseyri.

             Stefndi er Ingvar Helgason ehf., Sævarhöfða 2, Reykjavík.

             Samkvæmt stefnu gerir stefnandi eftirfarandi dómkröfur:

              „Aðallega að staðfest verði með dómi riftunarkrafa stefnanda  á hendur stefnda.  Jafnframt er þess krafist að stefndi endurgreiði kaupverð bifreiðarinnar BJ-752, kr. 879.750, ásamt dráttarvöxtum frá kaupdegi 1.06.2003 til greiðsludags.

             Til vara er þess krafist að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda skaða­bætur að fjárhæð 510.000 frá 16.06.2003 til greiðsludags.

             Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda, en málskostnaðarreikningur verður lagður fram við aðalmeðferð málsins ef til kemur.  Auk þess er krafist virðis­auka­skatts af málsflutningsþóknun.“

             Endanleg dómkrafa stefnanda, eins og hún var fram sett við munnlegan mál­flutning, er óbreytt frá því sem að framan greinir að því undanskildu að höfuðstóll varakröfu var lækkaður í 430.000 krónur með því að fallið var frá 80.000 króna kröfulið vegna mats sem einnig var krafist samkvæmt framlögðum málskostnaðar­reikningi.

             Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af kröfum stefnanda og máls­kostnaðar úr hendi hans en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður látinn niður falla.

                                                                                           1

             Hin stefnda bifreiðasala seldi stefnanda bifreiðina BJ-752, Opel Vectra árgerð 1998, samkvæmt reikningi og afsali, dags. 16. júní 2003.  Stefndi mun aðeins hafa átt bifreiðina um skamma hríð og aldrei notað hana.  Kaupverðið, 879.750 krónur, var greitt með bílaláni og víxli. 

             Við söluna lá fyrir vottorð Frumherja hf. um aðalskoðun sem fór fram 22. maí 2003.  Þar voru gerðar athugasemdir um ástand bifreiðarinnar varðandi eftirtalin atriði sem lagfæra þyrfti án þess að endurskoðunar væri krafist:  Lýsing aðalljós, stöðuljós, númeraljós, hemlaljós, ójafnir hemlunarkraftar, hjólbarðar og flauta.  Samkvæmt vott­orðinu sýndi akstursmælir 81.338 km við skoðunina.  Bifreiðin var á nagladekkjum og var skipt um hjólbarða fyrir afhendingu.  Önnur atriði tók stefndi að sér að laga en þrátt fyrir eftirgangsmuni stefnanda dróst það til loka marsmánaðar 2004.  Í stefnu greinir frá því að þegar eftir afhendingu hafi komið í ljós að kælivatn hafi lækkað í vatnskassa án þess að leki sæist undir bifreiðinni og hún hafi hitnað í lausagangi.  Þáverandi sölustjóra stefnda á notuðum bifreiðum, Pétri Björnssyni, hafi verið skýrt frá þessu.  Áður en bifreiðin var afhent stefnda til viðgerðar lét stefnandi framkvæma á henni ástandsskoðun hjá Frumherja hf. 23. mars 2004.  Samkvæmt ástands­skoðunar­skýrslunni var allt óbreytt frá framangreindu skoðunarvottorði árinu áður og jafnframt var gerð athugasemd um ófullnægjandi ástand kælivökva og fleira tengt vatnskerfinu.  Stefndi lét stefnanda hafa aðra bifreið til afnota meðan viðgerð fór fram.  Samkvæmt vottorði Framherja hf. um aðalskoðun 29. mars 2004 var hún án athugasemda; staða akstursmælis sýndi þá 94.338 km.

             Stefnandi kveður sér hafa verið tjáð af starfsmanni stefnda eftir framangreinda viðgerð að ekkert hefði fundist við athugun á kælikerfinu og ætti kerfið að þétta sig.  Þegar hún hefði beðið um yfirlit yfir það sem gert hefði verið og skrá yfir prófanir hefði sér verið tjáð að tölvukerfið væri bilað.  Það ástand hafi hins vegar orðið viðvarandi að bæta þyrfti vatni á bifreiðina, u.þ.b. 1-1,5 lítra á mánuði.

             Í stefnu segir að bifreiðin sé óökufær.  Stefnandi bar fyrir dóminum að bifreiðin hefði orðið óökufær í september 2005 og númer verið lögð inn 23. júní 2006.

             Í greinargerð stefnda segir að honum hafi borist bréf stefnanda, dags. 10. maí 2005, þar sem kvartað hafi verið yfir ætluðum göllum á bifreiðinni.  Það bréf liggur ekki frammi.

             Með matsbeiðni, dags. 22. nóvember 2005, var þess farið á leit við Héraðsdóm Suðurlands, f. h. Stefnanda, að dómkvaddur yrði matsmaður til að skoða og meta vél og undirvagn bifreiðarinnar BJ-752 og láta í té ítarlega, rökstudda og skriflega álitsgerð um eftirtalin atriði: 

  1. Hverjar eru skemmdir á vél bifreiðarinnar BJ-752?
  2. Hverjar eru orsakir skemmda á vél bifreiðarinnar BJ-752?
  3. a.  Leki á kælivatni.
  4. b.  Tímareim.
  5. Hvers vegna hefur þurft að framkvæma ítrekaðar viðgerðir af hálfu matsþola?
  6. Hefur bifreiðin BJ-752 lent í tjóni áður en matsbeiðandi eignaðist hana?
  7. Var rétt gert við jafnvægisstangir?
  8. Hverjar úrbætur þarf að gera á vél bifreiðarinnar BJ-752 og öðrum göllum og hver er kostnaður?“

             Dómkvaddur var Þórhallur Steinsson bifvélavirkjameistari.  Matsgerð liggur frammi.  Hún er ódagsett er þar segir að matsfundur hafi farið fram 2. febrúar 2006.  Í henni eru gefin eftirfarandi svör við matsspurningum:

1.        „Við skoðun kom í ljós að tímareim var slitin og greinilega bognir og fastir ventlar.“

2.-4.  „a.  Leki á kælivatni.  Greinilega kælivatnsleki á elementi í vatnskassa.  B.  Tímareim.  Varðandi tímareimina er handskrifað í smur- og þjónustubók að skipt hafi verið um hana við 66482 km og einnig að skipt hafi verið um vatnsdælu og strekkjarahjól.  En enginn skrifar undir né dagsetning er á þeirri viðgerð.  Orsök er því óljós.“

5.  „Áður en umrædd bifreiðakaup áttu sér stað þann 22.05.2003 gerði matsbeiðandi athugasemdir um að gerðar hefðu verið athugasemdir af Frumherja (bifreiðaskoðun), þar á meðal mörg atriði varðandi ljósabúnað, flautu og dekk.  Síðan kemur í ljós vatnsleki á vél.  Þann 23.03.2004, tæpu ári eftir að kaupin áttu sér stað er bíllinn tekinn af matsþola til viðgerðar.  Matsmaður telur að ekki hafi tekist að lagfæra vatnsleka á vél og ekki athugað með ástand á tímareim.“

6.  „Samkvæmt (fskj. 7) er lakk misþykkt á hurðum og bendir til sprautunar á vinstri framhurð, bretti einnig að aftan vinstra megin.  Vinstri framhurð er skökk í hurðarfalsi.“

7.  „Matsmaður telur að það sé í lagi.“

8.  „Það þarf að taka upp vélina.  Kostnaður við það er á bilinu 200 til 280 þús.  Vatnskassi er ónýtur.  Kostnaður um 30 þús.“

             Hinn dómkvaddi matsmaður staðfesti matið fyrir dómi og gaf á því nokkrar skýringar.  Í matinu er ekki getið um stöðu akstursmælis.  Matsmaðurinn kvað bifreiðina hafa verið dregna til sín til skoðunar og síðan aftur í burtu.  Hann kvaðst hafa fylgst með því að hún hefði staðið óhreyfð eftir það enda óökufær.  Hann kvaðst að beiðni lögmanns stefnanda hafa aðgætt kílómetrastöðuna sem hafi verið 116.664.               Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 21. febrúar 2006, til lögmanns stefnda var lýst yfir riftun á kaupum stefnanda á bifreiðinni BJ-752.  Þar er vísað til þess að fljótlega hafi farið að bera á göllum í bifreiðinni og kaupandi hafi þá þegar haft uppi kvartanir en úrbætur stefnda hafi ekki komið að neinu gagni.  Þá hafi bifreiðin verið haldin verulegum göllum samkvæmt mati dómkvadds matsmanns.  Með svarbréfi 2. mars 2006 var riftun mótmælt.

                                                                                           2

             Stefnandi byggir aðalkröfu sína um riftun á kaupum bifreiðarinnar BJ-752 og endurgreiðslu kaupverðsins á því að bifreiðin hafi verið haldin leyndum göllum og vísar til 30.- 40. gr. kaupalaga.  Ekki hafi tekist að gera við hana þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir starfsmanna stefnda.  Stefnandi hafi orðið fyrir miklu fjárhagslegu tjóni vegna viðskipta sinna við stefnda og langt umfram það sem varakrafa hennar feli í sér en bifreiðin sé nú nánast verðlaus.

             Varakrafa stefnanda er reist á því að hún eigi rétt á skaðabótum verði ekki fallist á að skilyrði riftunar séu fyrir hendi.  Bótafjárhæðin er þannig sundurliðuð:  Viðgerðarkostnaður, sbr. mat, 280.000 krónur.  Vatnskassi, sbr. mat, 30.000 krónur.  Afnotamissir, 120.000 krónur.

             Stefndi byggir sýknukröfu sína af aðalkröfu stefnanda á því að ósannað sé að ætlaður galli á bifreiðinni hafi verið fyrir hendi þegar afhending hennar átti sér stað og þó að það teldist sannað geti hann ekki borið ábyrgð á slíkum leyndum galla í notaðri bifreið.  Stefndi byggir einnig á því að stefnandi hafi kynnt sér ástand bifreiðarinnar fyrir kaupin og vísar í því sambandi til áritunar á afsali/reikningi þar sem segir að bifreiðin sé seld í því ástandi sem hún sé og kaupandi hafi kynnt sér og samþykkt; einnig að stefnandi hafi ekki látið yfirfara bílinn af óháðum aðila á eigin vegum þrátt fyrir ábendingu um það, sbr. áritun á fyrrgreindu afsali/reikningi.  Á því er jafnframt byggt að stefndi geti ekki borið ábyrgð á ástandi bifreiðarinnar eins og því sé lýst í matsgerð þar sem ekkert komi fram um ástand hennar við söluna og upplýsingar skorti um heildarakstur á matsdegi.  Þá er á því byggt af hálfu stefnda að kvartanir stefnanda hafi komið of seint fram og riftun sé óframkvæmanleg þar sem stefnandi geti ekki skilað bifreiðinni í sama ástandi og hún hafi verið við kaupin og verði krafa stefnanda tekin til greina er þess krafist að fullt tillit verði tekið til þess að stefnandi hafi ekið bifreiðinni frá afhendingu hennar.

             Stefndi hafnar varakröfu stefnanda og telur hana vera órökstudda og ósannaða.  Stefndi hafi afhent söluhlutinn, umrædda bifreið, í samningsbundnu ástandi á réttum stað og réttum tíma í samræmi við lög um lausafjárkaup.  Ósannað sé að ætlaður galli í bifreiðinni sé vegna atvika sem stefndi beri ábyrgð á og fjárhæð skaðabótakröfunnar er mótmælt sem of hárri og órökstuddri.  Þá verði, við hugsanlega ákvörðun bótafjárhæðar, að taka tillit til þess að með því að framkvæma viðgerð í samræmi við matsgerð muni verðgildi bifreiðarinnar aukast verulega og því sé eðlilegt að stefnandi beri nokkurn kostnað af viðgerðinni.

                                                                                           3

             Við aðalmeðferð málsins kvað hinn dómkvaddi matsmaður vatnskassa bifreiðarinnar BJ-752 hafa verið mjög tærðan en skemmdir vegna steinkasts ekki sýnilegar.  Með hliðsjón af venjulegum endingartíma vatnskassa, svo og aldri bif­reiðar­innar á söludegi, verður ábyrgð ekki lögð á stefnda vegna þessa.

             Í þjónustu- og smureftirlitsbók bifreiðarinnar BJ-752, sem fylgdi henni við kaupin, var skráð varðandi 60.000 km eða 48 mánaða þjónustu- og smureftirlit án undirritunar eða stimpils viðurkennds þjónustuaðila:  „ 66482 Skipt um tímareim og vatnsdælu og . . .“  Jafnframt er merkt við að skipt hafi verið um smursíu og olíu á vél.

Samkvæmt matsgerð var tímareim slitin og ventlar bognir og fastir en þar er um að ræða afleiðingu af bilun tímareimar.  Matsmaðurinn kvaðst ekki telja að leki á vatnskassa hafi orsakað skemmdir á vélinni og annar leki hafi ekki verið sýnilegur við matsskoðun.  Hann kvað tímareimina ekki einungis hafa verið sundurslitna heldur einnig trosnaða.  Að áliti hinna sérfróðu meðdómenda sýnir þetta með vissu að ekki hafi verið skipt um tímareim og er það í samræmi við álit matsmannsins sem hann lýsti fyrir dóminum.  Ástand bifreiðarinnar við söluna er samkvæmt þessu upplýst.   Einnig er nægilega upplýst um akstur hennar á matsdegi.

             Á framangreindum leyndum galla ber stefndi ábyrgð enda var ástand bifreiðar­innar að því leyti lakara við kaupin en stefnandi mátti gera ráð fyrir.  Gallinn verður þó ekki talinn svo verulegur að fallist verði á aðalkröfu stefnanda um riftun og endurgreiðslu kaupverðsins og ber að sýkna stefnda af henni.

             Um varakröfu stefnanda vegna framangreinds galla.

             Samkvæmt dómvenju firrir eftirfarandi staðlað ákvæði í afsali/reikningi stefnda ekki ábyrgð:  „Bifreiðasali hefur bent kaupanda á að láta óháðan aðila meta ástand bifreiðarinnar.  Bifreiðin selst í núverandi ástandi sem kaupandi hefur kynnt sér og sætt sig við að öllu leyti.“  Viðgerð mun leiða til þess að bifreiðin verði ökufær en ekki er fallist á að lækka beri bætur vegna þess að viðgerðin muni auka verðgildi hennar enda verður ekki talið að verðmætið verði umfram það sem verið hefði ef bifreiðin hefði ekki verið haldin umræddum leyndum galla við kaupin.

             Samkvæmt framangreindu er fallist á, samkvæmt varakröfu stefnanda, að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda skaðabætur.  Bætur til handa stefnanda vegna viðgerðarkostnaðar, sem metinn var á bilinu 200.000 til 280.000 krónur, verða ákveðnar 250.000 krónur.  Hinir sérfróðu meðdómendur áætla hæfilegan viðgerðar­tíma 14 daga.  Fallist er á að stefnda beri að greiða stefnanda bætur vegna afnotamissis þann tíma og eru þær ákveðnar 50.000 krónur. 

             Samkvæmt framangreindu er niðurstaða dómsins sú að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda 300.000 krónur.  Stefnandi krefst ekki vaxta/dráttarvaxta sam­kvæmt varakröfu sinni.  Dóminum er ekki fært að bæta um að því leyti þótt ætla megi að um mistök sé að ræða og verða vextir ekki dæmdir. 

             Stefnandi fékk gjafsóknarleyfi útgefið af dómsmálaráðuneytinu 27. október 2006.  Þar er svofellt ákvæði:  „Við rekstur málsins ber að gera þá réttarkröfu að málskostnaður verði tildæmdur gjafsóknarhafa eins og málið væri eigi gjafsóknar­mál.“  Þessa var eigi gætt.  Litið verður svo á að hér sé um að ræða skilyrði fyrir gildi gjafsóknarleyfisins og forsendu þess að unnt sé að dæma gagnaðila til greiðslu málskostnaðar sem renni í ríkissjóð til mótvægis við greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði til handa gjafsóknarhafa.  Gjafsóknarkostnaður verður því eigi dæmdur.  Eftir úrslitum málsins ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem er ákveðinn 350.000 krónur, þar með talinn 80.000 króna matskostnaður.

             Mál þetta dæma Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari og meðdómendurnir Sigurður Helgason og Valgarður Zophóníasson bifvélavirkjameistarar.

 

                                                                               D ó m s o r ð:

             Stefndi, Ingvar Helgason ehf., greiði stefnanda, Önnu Kristínu Pétursdóttur, 300.000 krónur.

Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.