Hæstiréttur íslands
Mál nr. 98/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræði
|
|
Föstudaginn 12. mars 2010. |
|
Nr. 98/2010. |
A (Magnús Björn Brynjólfsson hrl.) gegn B og C (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Kærumál. Lögræði.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var svipt fjárræði á grundvelli a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. febrúar 2010, þar sem sóknaraðili var að kröfu varnaraðila svipt fjárræði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og að skipuðum talsmanni þeirra verði dæmd þóknun úr ríkissjóði.
Varnaraðilar eru dætur sóknaraðila, sem mun sitja í óskiptu búi eftir látinn föður þeirra. Sóknaraðili veitti syni sínum og hálfbróður varnaraðila svokallað „óafturkallanlegt allsherjarumboð“ 12. nóvember 2008 „til að sjá um öll mín mál“, eins og greinir síðan nánar í umboðinu. Þar var jafnframt tekið fram að afturkallað væri umboð sóknaraðila til varnaraðilans B, sem ráða má að hafi verið veitt annað hvort 11. október 2008 eða 10. nóvember sama ár. Fjárhagslegar ráðstafanir hálfbróður varnaraðila á grundvelli umboðsins munu síðar hafa leitt til ágreinings milli hans og varnaraðila.
Í hinum kærða úrskurði greinir frá læknisvottorði, sem þar var lagt til grundvallar niðurstöðu um að fallast á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili yrði svipt fjárræði. Fyrir Hæstarétti hefur sóknaraðili leitast við að sýna fram á að vottorðið uppfylli ekki þær kröfur, sem gerðar séu til slíkrar sönnunargagna í 11. gr. lögræðislaga. Í vottorðinu, sem er dagsett 20. janúar 2010, segir meðal annars að sóknaraðili sé andlega skert með einkenni heilabilunar og hafi borið á gleymsku, verulegum ranghugmyndum, kvíða og spennu og hún sé illa áttuð. Þá telur læknirinn, sem er yfirlæknir á hjúkrunarheimili þar sem sóknaraðili dvelur, hana vera ófæra um að taka ábyrgð á eigin fjármálum vegna veikinda sinna. Læknirinn gaf skýrslu fyrir dómi þar sem hann staðfesti vottorðið og lýsti jafnframt yfir að tilgangslaust væri að leiða sóknaraðila fyrir dóm til skýrslugjafar. Verjanda sóknaraðila gafst þar jafnframt kostur að leggja spurningar fyrir vitnið. Engir annmarkar hafa verið í ljós leiddir sem draga úr gildi nefnds sönnunargagns. Fallist verður á að skilyrði séu fyrir hendi samkvæmt a. lið 4. gr. lögræðislaga til að taka kröfu varnaraðila til greina. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og skipaðs talsmanns varnaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, en þóknunin er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hæstaréttarlögmanns og skipaðs talsmanns varnaraðila, Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur til hvors, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 2. febrúar 2010.
Með beiðni sem barst dóminum 7. janúar sl. hafa sóknaraðilarnir B, [...] og C, [...], krafist þess að varnaraðili A, [...] en dvalarstað [...], verði ótímabundið svipt fjárræði sínu með vísan til a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Ofangreindir sóknaraðilar, eru dætur varnaraðila.
Þá er þess krafist að lögmannsþóknun verði greidd úr ríkissjóði, sbr. 17. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Aðild:
Sóknaraðilar byggja aðild sína á a. lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Málavextir, málsástæður og lagarök:
Varnaraðili hefur átt heilabilunar verið ófær um að gæta hagsmuna sinna. Sóknaraðilar hafa undanfarin ár aðstoðað varnaraðila við fjármál, en á sl. ári hafi hún falið D svokallað óafturkallanlegt allsherjarumboð sem felur í sér víðtækar heimildir til þess að fara með öll mál varnaraðila m.a. varðandi fasteign hennar að [...], en fasteign þessi er hluti óskipts bús, sem varnaraðili situr í. Vegna þess að sóknaraðilar telja varnaraðila augljóslega ófæra um að annast fjármál sín lengur og telja hættu á að misfarið verði með eignir hins óskipta bús og með því valdið skaða á hagsmunum sóknaraðila fara þær fram á að varnaraðili verði svipt fjárræði. Samkvæmt vottorði Jóns Aðalsteins Jóhannssonar, yfirlæknis á [...], dags. 20. janúar sl. er varnaraðili ófær um að taka ábyrgð á fjármálum sínum vegna veikinda sinna. Jón staðfesti vottorð sitt fyrir dóminum og sagði jafnframt að tilgangslaust væri fyrir dómara að ganga á fund varnaraðila eða kveðja hana fyrir dóm en ástand hennar væri þannig að hún bæri ekkert skynbragð á umræðuna.
Við meðferð málsins fyrir dóminum var sóknaraðilum skipaður talsmaður skv. 1. mgr. 31. gr. lögræðislaga. Þá var varnaraðila skipaður verjandi úr hópi starfandi lögmanna skv. 3. mgr. 10. gr. lögræðislaga.Verjandi hafði ekki uppi andmæli við framgangi kröfunnar enda sæi hann ekki annað en að framgangur hennar væri umbjóðanda hans hagfelldur.
Niðurstaða.
Með vísan til alls framangreinds telur dómari að fallast verði á með sóknaraðilum að skilyrði a. liðar 4. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 um að varnaraðili sé ekki fær um að ráða persónulegum fjárhagshagsmunum sínum vegna veikinda sé uppfyllt og að ótímabundin fjárræðissvipting sé nauðsynlega með hliðsjón af veikindum varnaraðila.
Í skýrslu yfirlæknis á [...] sem hefur haft með ummönnun varnaraðila að gera kom afdráttarlaust fram að varnaraðili hefði enga burði til þess að annast fjármál sín og að tilgangslaust væri að leiða hana dóm.
Með vísan til 4. gr.a-liðar lögræðislaga nr. 71/1997 þykja sóknaraðilar hafa fært fram fullnægjandi rök fyrir kröfu sinni sem verður því tekin til greina.
Samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist allur kostnaður vegna málsins úr ríkissjóði þar með talin þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Inga H. Sigurðssonar hdl. og skipaðs talsmanns sóknaraðila Láru V. Júlíusdóttur hrl. eins og segir í úrskurðarorði.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
A, kt. [...], er svipt fjárræði ótímabundið frá deginum í dag að telja.
Þóknun talsmanns sóknaraðila og þóknun verjanda varnaraðila að fjárhæð 74.700 krónur til hvors um sig greiðist úr ríkissjóði. Tillit hefur verið tekið til virðisaukaskatts.