Hæstiréttur íslands
Mál nr. 654/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
|
Föstudaginn 2. október 2015. |
|
Nr. 654/2015.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sigurður Freyr Sigurðsson hdl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem því var hafnað að staðfesta ákvörðun L um nálgunarbann og brottvísun X.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2015 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að staðfesta ákvörðun hans 23. september sama ár um að varnaraðili sætti brottvísun af heimili og nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að staðfest verði fyrrgreind ákvörðun hans.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá er krafist þóknunar vegna málsins fyrir Hæstarétti.
Að virtum gögnum málsins er fallist á það með héraðsdómi að ekki sé fullnægt skilyrðum 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2011 til að varnaraðila verði gert að sæta brottvísun af heimili eða nálgunarbanni. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila í Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, Sigurðar Freys Sigurðssonar héraðsdómslögmanns, fyrir Hæstarétti 186.000 krónur greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 23. september 2015 þess efnis að varnaraðili, X, skuli sæta brottvísun og nálgunarbanni í 4 vikur þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili sitt og eiginkonu sinnar, [...], að [...], [...] og dvalarstað þeirra að [...], Reykjavík, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að varnaraðili veiti henni eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að samkvæmt upplýsingum lögreglu liggi varnaraðili nú undir sterkum grun um að hafa þann 22. september sl. ráðist á eiginkonu sína. Að sögn hennar hafi þau rifist og hann hrint henni nokkrum sinnum og sópað eldhúsmunum úr hillu á gólfið svo að þeir brotnuðu. Forsaga þess hafi verið sú að hún hafi ekki keypt fyrir hann sígarettur og hann orðið ósáttur og þau orðið viðskila. Þegar hann hafi komið heim hafi hann barið í rúðuna á baðherbergi og rifið upp útidyrnar. Hún hafi reynt að róa hann en án árangurs, hann hafi verið stífur, hreytt í hana og strunsað fram og til baka um alla íbúðina. Þegar hún hafi nálgast hann hafi hann hrint henni og verið mjög ruddalegur. Hún hafi farið inn í svefnherbergi og þegar hún hafi komið fram hafi hann tryllst við það eitt að sjá hana og hrint henni. Þá hafi hann einnig kastað glerkrukku í áttina að henni sem hafi endað við hliðina á henni.
Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að hann byggi kröfu sína á neðangreindum atvikum:
„Mál 316-2015-[...]. Þann 9. júlí 2015 var tilkynnt um heimilisófrið á [...], annarri hæð. Á vettvangi var X, eiginmaður tilkynnanda á tröppum fyrir framan húsið. X virtist pirraður og sagði að þau hjónin hafi verið að rífast. X var með plastpoka með fötum í og rifið vegabréf sem hann sagði konu sína hafa rifið. [...] var inni í húsinu og mátti sjá hluti á gólfi sem hafði verið kastað til. [...] var í uppnámi og grét mikið. Hún kvað þau X hafa verið að rífast, hún kvað pirring hafa verið að byggjast upp síðastliðnar 2 3 vikur og X verið að hringja stanslaust í hana þegar hún væri að vinna og léti spurningum rigna yfir hana og henni liði eins og hún væri undir stöðugu eftirliti. Hún tók fram að X hegðaði sér bara svona þegar hann væri undir álagi og væri stressaður. [...] kvaðst í umrætt sinn hafa verið mjög reið og farið út á bifreið þeirra. Hún hafi svo þurft að snúa aftur heim og þá hafi rifrildið haldið áfram. X hafi verið við vinnuherbergið og reynt að taka tölvu [...] og við það hafi prentarinn dottið í gólfið. X hafi svo sparkað í prentarann til að eyðileggja hann. Þá hafi hann hent fermingarkerti dóttur [...] í gólfið svo það mölbrotnaði. X hafi tekið hana taki um hálsinn og hrint henni til og sagt að þetta hafi ekki verið í fyrsta skipti sem hann hafi sýnt slíka takta. Hún kvaðst finna til eymsla í hálsi en þótti þó ólíklegt að einhverjir áverkar sæjust á henni eftir X. Um þetta leyti hafi [...] hringt á Neyðarlínuna og óskað eftir aðstoð lögreglu. Þá hafi X beðið um að fá vegabréf sitt og hún tekið það upp og rifið það og rétt honum. Hann hafi svo farið að taka saman föt og búa sig til að fara og hún þá rifið bolinn sem hann klæddist utan af honum. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að 16 ára sonur [...], [...], búi á heimilinu en hafi ekki verið heima í umrætt sinn. X kvað [...] alltaf vera að nöldra yfir því að hann gæti ekki staðið við tímasetningar. Eftir rifrildi kvöldsins hafi hann svo ákveðið að koma sér í burtu og [...] tætt vegabréf hans í sundur þegar hann bað hana um að rétta sér það. Hún hafi ýtt við honum og tekið prentarann og hent honum í gólfið. Þá hafi hún rifið af honum stuttermabolinn sem hann klæddist þegar hann var að búa sig til að fara.
Mál 316-2015-[...]. Þann 14. febrúar 2015 var tilkynnt um að X væri að leggja hendur á [...] að [...]. Við [...] hittu lögreglumenn á X sem sagði að kona hans og dóttir hennar hafi ráðist á hann og hann óskaði eftir aðstoð við að komast aftur á heimilið. [...] kvað samband þeirra hafa gengið þokkalega síðan um áramót en lögregla hefði þurft að koma að málum þeirra í byrjun desember og aftur um jólin. Hann hefði flutt suður og væri þar með vinnu og þau rætt saman símleiðis og þetta gengið ágætlega. Í dag hefði hann verið fremur órólegur og komið ölvaður heim 10 mínútum áður en hringt var á lögreglu en þá hafi þeim lent saman og hann tekið hana hálstaki. Auk þess hafi hann tekið í [...] dóttur [...] þegar [...] ætlaði að hringja í Neyðarlínuna og væri [...] aum í þumalfingri vinstri handar og með roða á brjóstkassa. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að þegar undirritaður hafi verið að ræða við [...] hafi X verið kominn á útidyrnar sem voru læstar og lætin verið slík að það hrikti í öllu. Þegar lögreglumaðurinn opnaði dyrnar til að ræða við hann hafi X ruðst inn og var þá strax tekinn tökum af lögreglu. Á meðan beðið var aðstoðar hafi X verið gersamlega stjórnlaus og öskrað á lögregluna og hafi alls ekki verið hægt að ræða við hann. Hann hafi síðan verið færður í handjárn og í lögreglubifreiðina og veitt mótspyrnu allan tímann og einnig öskrað allan tímann. Tekið er fram að við handtökuna á [...] og við flutninginn í lögreglubifreiðinni og í fangaklefanum hafi hann ítrekað reynt að skaða sig með því að reyna að slá höfðinu í gólf og veggi. Ekki hafi verið unnt að taka af honum handjárnin í fangaklefanum fyrr en eftir um 15 mínútur þar sem hann var að reyna að skaða sig. Þá hafi hann ítrekað talað um að hann ætlaði að drepa sig um nóttina. Fram kemur einnig í frumskýrslunni að áður en X rauk upp tröppurnar og réðist á útidyrnar hafi lögreglumaður verið að ræða við hann en hann skyndilega rokið út úr bifreiðinni og að húsinu.
Mál 024-2014-[...]. Þann 24. desember 2014, kl. 02:32, kom X að lögreglumönnum og óskaði eftir aðstoð. Hann kvaðst vilja fá tösku hjá eiginkonu sinni, [...], en hún hafi ekki viljað láta töskuna af hendi. Lögreglumenn fóru með X að [...] þar sem hann bjó ásamt [...]. Á sama tíma var óskað eftir aðstoð lögreglu að sama heimili. Lögreglumenn ræddu þar við [...] og dóttur hennar [...]. [...] kvaðst hafa hitt X þar sem hann var að bíða eftir strætisvagni. Hafi hún beðið hann um að skrifa undir skilnaðarpappírana áður en hann færi en hann ekki viljað það. Þau hafi síðan rætt málin á kaffihúsi í smá stund. Hann hafi viljað láta reyna á hjónabandið og hún því hleypt honum inn um kl. 01:00 og hann verið ölvaður. Hann hafi síðan krafist þess að kaupmála þeirra yrði breytt og hún tekið orðum hans sem hótun. Hann hafi síðan sópað kaffibollanum fram af borðinu svo hann flaug í gólfið og brotnaði. Þau hafi þá farið að rífast og hann gripið hana aftan frá og í öxlina á henni, ýtt í höfuð hennar og tekið í vinstri hönd hennar. Þá hafi hann hrint henni en hún náð að koma fyrir sig hendi og grípa í skáp til þess að koma í veg fyrir að hún dytti í gólfið. [...] kvaðst kenna til eymsla í vinstri síðu og í hálsi og bakvið eyrun. Hún sagðist vera með mikinn verk. Fram kemur í frumskýrslu lögreglu að [...] hafi greinilega verið mikið niðri fyrir.
Mál 024-2014-[...]. Þann 23. desember 2014 óskaði [...] aðstoðar vegna manns sem neitaði að yfirgefa íbúð hennar. Í dagbókarfærslu lögreglu kemur fram að þarna hafi verið ósætti milli hjónanna [...] og X. Þau hafi verið að kíta á meðan lögreglumenn voru þar og X verið að biðja [...] um pening svo hann gæti farið en hún neitað og sagt að hann gæti séð um sig sjálfur. [...] sagði að X hafi reiðst um kl. 01 um nóttina vegna þess að hún spurði hann um peysu sem hún vissi ekki hvar var. X hafi reiðst og sagt hana vera að tala við aðra karlmenn á netinu og alltaf að halda partý. Hann hafi unnið í Reykjavík undanfarið en væri ekki með vinnu í augnablikinu. Hún hafi hent X út fyrir nokkru síðan eftir að hann lagði á hana hendur þann 24. október 2014. Hún hafi svo hitt hann og hann lofað öllu fögru og hún leyft honum að koma heim. X ætti það til að „springa úr reiði“ eins og gerst hafi í nótt. Hún kvaðst ætla að sækja um formlegan skilnað og jafnframt að hún væri búin að sæta töluverðu andlegu ofbeldi af hálfu X. X kvað [...] hafa beðið sig um að koma [...] til sín og hann gert það. Þegar hann kom hafi verið standandi partý í íbúðinni og hann hafi átt að þrífa eftir það sem hann og hefði gert. X sagði að [...] liti á sjálfa sig sem Guð og að hann hefði nokkrum sinnum þurft að kyssa tær hennar til að þóknast henni.
Mál 024-2014-[...]. Þann 6. desember 2014, kl. 16:45, tilkynnti [...] um að maður hennar væri búinn að loka hana inni á salerni að [...]. Lögreglumenn fóru þangað og hittu fyrir [...] og X. Er lögregla kom var [...] inni á salerni með læst að sér en X í eldhúsinu og kom til dyra. Kom þá [...] fram og var mjög æst. Kvaðst hún vera ósátt við hegðun hans á heimilinu og vildi að hann flytti út hið snarasta. Síðar sama dag, kl. 19:41, hringdi [...] og kvað lætin byrjuð aftur. Þegar lögreglumennirnir komu var X að klæða sig í skóna en dótið hans lá fyrir utan á stigapallinum og í snjónum fyrir neðan. Þarna hafði orðið ósætti með þeim hjónum þar sem [...] fannst X ætla að stjórna sér einum of. Hann viðurkenndi að vera búinn að drekka tvo bjóra. Hann ætlaði að fara til bróður síns sem kom og sótti hann.
Mál 024-2014-[...]. Þann 21. ágúst 2014 kom X, sem er [...] að uppruna á lögreglustöðina á [...] ásamt tveimur [...] vinum sínum. Hann kvaðst vera hælisleitandi á Íslandi og vera búinn að vera hér á landi í 2 ár. X kvaðst búa við kúgun af hálfu konunnar sem hann búi með. Hún hafi t.d. skipað honum að þrífa klósettið. Hann hafi ekki vitað hvernig ætti að bregðast við þessu og þá farið til vina sinna til að segja þeim frá málinu og leita ráða hjá þeim um viðbrögð. Þeir hafi hins vegar verið jafn ráðalausir og því í sameiningu ákveðið að bera málið undir íslenska embættismenn. Auk þessa hafi konan nýverið hent X út úr bíl sem þau voru í þannig að hann hafi mátt skila sér heim fótgangandi.
Mál 024-2014-[...]. Þann 19. ágúst mætti [...] á lögreglustöð og tilkynnti að upp hafi komið ósætti milli hennar og sambýlismanns hennar, X. Hafi ósættið orðið til þess að X hafi í reiðikasti rekið hnefann í framrúðu bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að hún brotnaði og í kjölfarið verið með hótanir í garð [...]. Við það hafi [...] orðið svo óttaslegin að þegar þau komu á Blönduós hafi hún skilið hann eftir á Blönduósi með því að aka á brott. Á leiðinni frá Blönduósi sagðist [...] hafa fengið SMS skilaboð úr símanúmeri X þar sem fram kom að hún ætti að fara til helvítis.
Mál 024-2014-[...]. Þann 20. júlí 2014 var tilkynnt um slagsmál milli hjóna. Í dagbókarfærslu lögreglu kemur fram að þarna hafi þau [...] og X verið að rífast sem endaði með því að hún sló hann utan undir eftir að hann sakaði hana um að hafa verið að athuga með fyrrverandi í gærkvöldi. [...] sagði að X væri farinn af heimilinu að hugsa sitt mál. Fram kom að þau væru búin að vera saman í 3 mánuði og væru tiltölulega nýgift eða fyrir um hálfum mánuði síðan. Þegar lögregla kom var [...] að týna upp kryddbauka og mátti sjá plastþvottagrind hafði brotnað og sagði [...] að X hafi brotið hana.
Mál 007-2013-[...]. X var ölvaður og æstur og braut rúðu í útidyrahurð að [...]. Er lögregla hafði afskipti af honum á stigaganginum tekur hann upp hníf og skaðar sig.
Að sögn [...] hafi hún og X verið gift í rúmlega ár og hafi sambandið gengið brösuglega eftir að þau giftu sig. Sagði hún að X hafi beitt hana andlegu og líkamlegu ofbeldi. Þau X og [...] hafi gengið í hjónaband þann [...]. júní 2014. Fram komi í málinu að X sé frá [...] og tali enga íslensku og bjagaða ensku.
Í ljósi ofangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa beitt [...] líkamlegu og andlegu ofbeldi og hætta sé talin á að hann muni gera slíkt aftur og með því að raska friði [...] njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standi.“
Eins og rakið hefur verið gengu varnaraðili og brotaþoli í hjónaband í júní 2014. Vart var liðinn mánuður frá giftingunni er átök þeirra komu til kasta lögreglu. Síðan þá hefur ekki gengið á öðru milli þeirra en gagnkvæmum klögumálum eins og rakið var hér að framan. Af gögnum málsins verður ekki séð á hvorn aðila hallar frekar þegar málið er virt í heild sinni. Í 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 eru rakin skilyrði þau er þurfa að vera fyrir hendi til að hægt sé að vísa manni af heimili hans og/eða beita nálgunarbanni. Þá er í 1. mgr. 6. gr. ákveðið að þessum úrræðum verði því aðeins beitt þegar ekki þyki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Þá segir enn fremur að þess skuli gætt að fara ekki strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. Í 2. mgr. greinarinnar eru tiltekin atriði sem hafa má til hliðsjónar við mat samkvæmt 1. mgr. Þá er og til þess að líta að svo virðist sem skilnaður þeirra hjóna sé á dagskrá, að minnsta kosti hefur lögregla það eftir brotaþola. Þegar allt framangreint er virt er það niðurstaða dómsins að ekki sé fullreynt hvort ekki megi með öðrum og vægari hætti vernda friðhelgi brotaþola og þá væntanlega um leið varnaraðila. Samkvæmt þessu eru ekki skilyrði til að verða við kröfu lögreglustjóra um að vísa varnaraðila af heimili hans og banna honum að nálgast brotaþola. Kröfu lögreglustjóra er því hafnað.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um að staðfesta nálgunarbann og brottvísun X frá 23. september 2015.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sigurðar Freys Sigurðssonar hdl., 245.520 krónur, skal greidd úr ríkissjóði.
Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Lilju Margrétar Olsen hdl., 245.520 krónur skal greidd úr ríkissjóði.