Hæstiréttur íslands
Mál nr. 273/2009
Lykilorð
- Greiðsluaðlögun
- Kærumál
|
|
Miðvikudaginn 3. júní 2009. |
|
Nr. 273/2009. |
A(Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn Héraðsdómi Reykjaness |
Kærumál. Greiðsluaðlögun.
A kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hennar um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að ábyrgðarskuldbindingar hennar vegna einkahlutafélags standi ekki í vegi fyrir því að A yrði veitt slík heimild. Hins vegar skorti á að í beiðni hennar kæmu fram þær upplýsingar sem áskildar eru í 1. mgr. 63. gr. c. laga nr. 21/1991 . Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2009, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að henni yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 2. mgr. 63. gr. d., sbr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að sér verði heimilað að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði lagði sóknaraðili 27. apríl 2009 fyrir Héraðsdóm Reykjaness beiðni um að sér yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í beiðninni var meðal annars greint frá því að einkahlutafélag sóknaraðila og eiginmanns hennar, sem hafi rekið tiltekna húsgagnaverslun frá árinu 2002, hafi komist í verulega rekstrarerfiðleika og selt verslunina í desember 2007 fyrir atbeina viðskiptabanka síns, en félagið hafi síðan verið tekið til gjaldþrotaskipta snemma árið eftir. Sóknaraðili og maki hennar, sem hafi unnið við þennan rekstur, hafi eftir þetta tekið til starfa sem launþegar hjá öðrum. Þau hafi selt íbúðarhús sitt og keypt í staðinn íbúð fyrir 29.500.000 krónur, sem veðskuldir að fjárhæð um 40.000.000 krónur hvíli nú á. Að auki eigi þau sumarbústað, sem sé „að fullu veðsettur“, og að virðist eina bifreið. Verulegar skuldir hvíli að öðru leyti á sóknaraðila, sem raktar verði til ábyrgða hennar vegna atvinnurekstrar þeirra hjóna. Samkvæmt greiðsluáætlun, sem gerð hafi verið af Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna og fylgi beiðninni, sé mánaðarleg greiðslugeta sóknaraðila neikvæð um 10.640 krónur þegar gert hafi verið ráð fyrir framfærslukostnaði og „mánaðarlegum greiðsluhluta mínum af íbúðarhúsnæði“, en greiðslubyrði af öðrum skuldum sé samtals 304.147 krónur á mánuði, þar af 191.373 krónur vegna samningskrafna. Auk greiðsluáætlunar fylgdu beiðninni ljósrit fjögurra síðustu skattframtala sóknaraðila og maka hennar, svo og vottorð um hjúskaparstöðu þeirra og fjölskyldu.
Svo sem ráðið verður af framansögðu rekur sóknaraðili fjárhagsörðugleika sína öðru fremur til þess að á henni hvíli ábyrgðarskuldbindingar vegna atvinnurekstrar, sem hún hafi starfað við ásamt eiginmanni sínum. Í beiðni hennar kemur fram að nafngreint einkahlutafélag hafi haft þennan rekstur á hendi og má því ljóst vera að ábyrgðirnar, sem hér um ræðir, hljóti að hvíla á sóknaraðila á grundvelli samninga, en ekki vegna ótakmarkaðrar ábyrgðar hennar á atvinnustarfseminni. Af þessum sökum verður ekki fallist á með héraðsdómi að ákvæði 2. mgr. 63. gr. a. laga nr. 21/1991 standi því í vegi að sóknaraðila verði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.
Á hinn bóginn er þess að gæta að mjög skortir á að í beiðni sóknaraðila komi fram þær upplýsingar, sem áskildar eru í 1. mgr. 63. gr. c. laga nr. 21/1991, einkum að því er varðar eignir hennar og verðmæti þeirra, sbr. og 3. tölulið 34. gr. laganna, svo og um hvaða skuldir hvíli á sóknaraðila og hverjar á maka hennar eða eftir atvikum á þeim í sameiningu. Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings því, sem greint er frá í beiðni sóknaraðila og greiðsluáætlun, svo sem mælt er fyrir um í síðari málslið 1. mgr. 63. gr. c. laga nr. 21/1991. Þá er sá megin annmarki á greiðsluáætluninni að eingöngu er greint frá tekjum sóknaraðila, en ekki eiginmanns hennar, sem eftir fyrirliggjandi gögnum telst til heimilis með henni, og óljós er hvort áætlun um föst mánaðarleg útgjöld taki aðeins mið af þörfum sóknaraðila eða jafnframt eiginmanns hennar, sbr. 1. og 4. tölulið 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá er í yfirliti um greiðslubyrði af skuldum reiknað með mánaðarlegum greiðslum af tilteknum kröfum, sem sagt er að séu „lánsveð“, og sú athugasemd að auki gerð í einu tilviki að um sé að ræða „lán á nafni sonar“. Vegna þeirra atriða, sem hér að framan er getið, er málatilbúnaður sóknaraðila með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.
Málskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2009.
A kt. [...], [...], Kópavogi, hefur farið þess á leit með vísan til ákvæða X. kafla a 3. þáttar laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009 að henni verði veitt heimild til að leita nauðarsamnings til greiðsluaðlögunar við lánardrottna sína.
Beiðni
skuldara er dagsett 27. apríl 2009 og var hún móttekin sama dag hjá Héraðsdómi
Reykjaness.
Beiðnin
er reist á því að skuldari sé og verði um fyrirsjáanlega framtíð ófær um að
standa í skilum við skuldbindingar sínar.
Í beiðni
skuldarans kemur m.a. fram að árið 2002 hafi hún ásamt maka sínum rekið
húsgagnaverslun í X. Áður hafi hún rekið húsgagnaverslunina Y í 20 ár ásamt
öðrum. Hið nýja fyrirtækið hafi heitið Z. og hafi reksturinn gengið vel í
byrjun. Í byrjun árs 2007 hafi farið að halla undan fæti og margt hjálpast að.
Gjaldeyrisgengið hafi verið mjög óstöðugt á þessum tíma og lítið peningaflæði.
Eftir langvarandi tilraunir til að selja fyrirtækið hafi það loks selst en
aðeins fyrir 15 milljónir króna. Söluverðið hafi runnið í ógreidda leigu og í
skuldir við Landsbankann. Þau hjónin hafi selt raðhús sitt á 22 milljónir króna
og hafi andvirði þess einnig runnið til Landsbankans. Fyrirtækið þeirra hjóna
hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun árs 2008. Þá kemur fram í beiðni
skuldara að orsakir fjárhagserfiðleika hennar stafi helst af persónulegum
ábyrgðum vegna atvinnurekstrar þeirra hjóna en einnig vegna skulda sem hafi
safnast upp vegna lækkandi tekna undanfarin ár og vegna aukinna greiðslubyrða
veðlána.
Samkvæmt
2. mgr. 63. gr. a laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, sbr. 2. gr. laga nr.
24/ 2009 um breytingu á lögum um gjaldþrotaskipti, ná lögin ekki til
einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á
atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við
aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem
stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum
þeirra. Samkvæmt gögnum málsins stafa fjárhagserfiðleikar skuldara fyrst og
fremst af atvinnurekstri þeirra hjóna sem ekki gekk sem skyldi. Eru því ekki
skilyrði til að verða við beiðni skuldara samkvæmt framangreindum ákvæðum um
greiðsluaðlögun.
Gunnar
Aðalsteinsson kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Hafnað
er beiðni A um heimild til að leita nauðarsamnings til greiðsluaðlögunar
samkvæmt ákvæðum X. kafla a laga nr. 21/1991.