Hæstiréttur íslands

Mál nr. 140/2014


Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Skuldabréf
  • Gengistrygging


                                     

Fimmtudaginn 22. janúar 2015

Nr. 140/2014.

Landsbankinn hf.

(Andri Árnason hrl.)

gegn

Jóni Óskari Sæmundssyni

(Haukur Örn Birgisson hrl.)

Fjármálafyrirtæki. Skuldabréf. Gengistrygging. 

J höfðaði mál gegn L hf. og krafðist viðurkenningar á því að lán J samkvæmt skuldabréfi væri bundið ólögmætri gengistryggingu. Fram kom að þegar textaskýring skuldbindingar tæki ekki af skarið um hvers efnis hún væri hefði í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið litið til atriða sem lúti að efndum viðkomandi skuldbindingar og framkvæmdar að öðru leyti. Í því sambandi var tekið fram að LÍ hf., forveri L hf., hefði greitt fyrir skuldabréfið með því að leggja fjárhæðina inn á reikning J í íslenskum krónum. Þá hefði upphaflega verið gert ráð fyrir því að sami reikningur yrði skuldfærður fyrir greiðslum af bréfinu. L hf. hefði ekki andmælt því að J hefði verið heimilt að greiða af bréfinu í íslenskum krónum og gilti þá einu þótt hann sjálfur hefði kosið að láta skuldfæra gjaldeyrisreikninga sína í öðrum myntum en þeim sem tilgreindar væru í skuldabréfinu. Þá fengi það engu breytt þótt LÍ hf. hefði upphaflega gefið út kaupnótu vegna gjaldeyrisviðskipta eða fært fjárhæð, sem svaraði til efni skuldabréfsins, inn á gjaldeyrisreikning í aðdraganda viðskiptanna. Var því talið að skuldbinding J hefði verið í íslenskum krónum bundin gengi erlendra gjaldmiðla.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. apríl 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I         

Í mars 2007 óskaði stefndi eftir að taka lán að fjárhæð 10.000.000 krónur hjá Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt svonefndu ákvörðunarblaði 16. sama mánaðar vegna útláns til einstaklings var tilgangurinn með láninu að greiða upp lán hjá Sparisjóðnum í Sandgerði. Það lán tók stefndi með lánssamningi 17. nóvember 2003 og nam fjárhæð þess 120.000 bandaríkjadölum. Lán þetta var upphaflega tekið í útibúi Landsbanka Íslands hf. í Sandgerði, en útibúið var síðar selt sparisjóðnum sem tók yfir lánið. Á ákvörðunarblaðinu kom fram að samþykkt hefði verið að veita lánið og þar var mynt þess tilgreind í jöfnum hlutföllum í svissneskum frönkum og japönskum jenum. Jafnframt var fjárhæð lánsins tilgreind í íslenskum krónum og tekið fram að það væri gengistryggt.

Hinn 28. mars 2007 gaf stefndi út skuldabréf fyrir láninu en í yfirskrift þess sagði að það væri „í erlendum myntum“. Fjárhæð bréfsins var tilgreind 10.000.000 krónur „eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í eftirtöldum myntum og hlutföllum: JPY 50,0% CHF 50,0%.“ Lánið var til 12 ára og átti að greiða það með jöfnum mánaðarlegum afborgunum með fyrsta gjalddaga 15. apríl 2007. Um vexti af láninu sagði að greiða ætti LIBOR-vexti auk 2% álags, en með þeim vöxtum væri átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir væru auglýstir. Í bréfinu var tekið fram að skuldari gæti á gjalddaga óskað eftir breytingu á myntsamsetningu lánsins þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðuðust að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var um samið. Þá var upphaflega í texta bréfsins reikningur stefnda í íslenskum krónum hjá bankanum tilgreindur til að skuldafæra fyrir afborgunum og vöxtum, en því var síðan breytt að ósk stefnda þannig að reikningur hans í evrum yrði skuldfærður. Loks var tekið fram í bréfinu að heimilt væri að gjaldfella það, ef dráttur yrði á greiðslu afborgana og vaxta, en skuldin bæri þá dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, nema um annað yrði samið. Sama dag og stefndi gaf út bréfið ritaði hann undir lánsumsókn þar sem tegund lánsins var tilgreind „Erlent lán (100% erl. myntkarfa)“ en lánsfjárhæðin tilgreind í íslenskum krónum. Sú umsókn var hins vegar ekki í samræmi við skuldabréfið annars vegar að því er varðaði lánstíma, sem var tilgreindur 15 ár, og hins vegar að því er varðaði myntir og hlutfall þeirra, sem sagt var eftirfarandi: „EUR 45%, USD 25%, CHF 20% og JPY 10%.“ Þá var þess óskað í umsókninni að fyrrgreindur reikningur stefnda í íslenskum krónum yrði skuldfærður fyrir greiðslum af láninu.

Hinn 2. apríl 2007 lagði Landsbanki Íslands hf. 9.747.200 krónur inn á þann reikning stefnda hjá bankanum sem upphaflega var gert ráð fyrir að yrði skuldfærður fyrir greiðslu af skuldabréfinu. Sama dag gaf bankinn út kaupnótu fyrir 8.893.632 japönskum jenum og 92.013,25 svissneskum frönkum. Á kaupnótunni var tekið fram að andvirðið að teknu tilliti til kostnaðar hefði verið lagt inn á umræddan reikning stefnda og svaraði sú fjárhæð til greiðslunnar sem lögð var inn á reikninginn. Jafnfram lagði bankinn sömu fjárhæðir inn á gjaldeyrisreikninga í eigin nafni.

Fjármálaeftirlitið neytti 7. október 2008 heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, til að taka yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., víkja stjórn félagsins frá og setja yfir það skilanefnd. Í framhaldi af því var stofnaður Nýi Landsbanki Íslands hf. sem nú ber heiti áfrýjanda. Tók hann við ýmsum réttindum og skyldum eldri bankans, en þar á meðal var krafan á hendur stefnda samkvæmt skuldabréfinu 28. mars 2007.

Samkvæmt yfirlitum áfrýjanda var reikningur stefnda í evrum skuldfærður fyrir greiðslum af skuldabréfinu á tímabilinu 16. apríl 2007 til 15. október 2012. Frá 15. nóvember það ár til 19. júní 2013 var hins vegar reikningur stefnda í bandaríkjadölum í bankanum skuldfærður fyrir greiðslum af bréfinu. Þá tók áfrýjandi ákvörðun á árinu 2011 um að endurgreiða hluta vaxta til skilvísra lántakenda og var sú greiðsla til stefnda innt af hendi 4. október 2011 og 28. febrúar 2012 í íslenskum krónum með greiðslum inn á bréfið samtals að fjárhæð 184.724 krónur. 

II

Stefndi reisir málatilbúnað sinn á því að skuldabréfið sem hann gaf út 28. mars 2007 til Landsbanka Íslands hf. hafi verið í íslenskum krónum bundið gengi erlendra gjaldmiðla. Því hafi verið um að ræða tengingu höfuðstóls bréfsins við gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla, en það hafi farið í bága við ófrávíkjanleg ákvæði 13. gr. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Áfrýjandi telur aftur á móti að stefndi hafi tekið á sig skuldbindinguna í erlendum gjaldmiðlum en það stríði ekki gegn þeim lagaákvæðum.

Í dómum sínum um hvort lán sé í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundið gengi erlendrar myntar hefur Hæstiréttur fyrst og fremst lagt til grundvallar skýringu á texta þeirrar skuldbindingar sem lántaki hefur gengist undir. Þegar sú textaskýring tekur ekki af skarið um hvers efnis skuldbindingin er að þessu leyti, eins og á við um skuldabréfið sem hér reynir á, hefur verið litið til atriða sem lúta að því hvernig hún hefur verið efnd og framkvæmd að öðru leyti.

Í máli þessu var greitt fyrir skuldabréfið með því að leggja fjárhæðina inn á reikning stefnda í íslenskum krónum hjá Landsbanka Íslands hf. Þannig skipti fé í íslenskum krónum í reynd um hendur þegar bankinn efndi aðalskyldu sína í lögskiptum aðila. Í því tilliti fær engu breytt þótt bankinn hafi einhliða gefið út kaupnótu vegna gjaldeyrisviðskipta eða fært fjárhæð, sem svaraði til skuldabréfsins, inn á gjaldeyrisreikninga í eigin nafni í aðdraganda þess að andvirði skuldabréfsins var lagt inn á fyrrgreindan reikning stefnda í bankanum. Þá er þess að gæta að upphaflega var gert ráð fyrir því af hálfu bankans að sami reikningur stefnda yrði skuldfærður fyrir greiðslum af bréfinu. Hefur áfrýjandi ekki andmælt því að stefnda hafi verið heimilt að greiða af bréfinu í íslenskum krónum og gildir þá einu þótt hann sjálfur hafi kosið að láta skuldfæra gjaldeyrisreikninga sína í öðrum myntum en þeim sem tilgreindar voru í skuldabréfinu. Samkvæmt þessu verður fallist á það með héraðsdómi að skuldbinding stefnda hafi verið í íslenskum krónum bundin gengi erlendra gjaldmiðla. Verður hinn áfrýjaði dómur því staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Landsbankinn hf., greiði stefnda, Jóni Óskari Sæmundssyni, 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2013.

Mál þetta sem dómtekið var 3. desember 2013 var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 29. janúar 2013 af Jóni Óskari Sæmundssyni, Reynimel 26, Reykjavík, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík.

Kröfur aðila

Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennt verði með dómi að lán stefnanda samkvæmt skuldabréfi nr. 0142-36-7454, dagsettu 28. mars 2007, útgefnu af stefnanda til stefnda, sé bundið ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað auk virðisaukaskatts, samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda í máli þessu. Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda. Krafist er virðisaukaskatts af dæmdri málflutningsþóknun til stefnda.

Atvik máls

Með umsókn, dagsettri 28. mars 2007, sótti stefnandi um lán að fjárhæð 10.000.000 króna hjá Landsbanka Íslands hf. Umbeðinn lánstími var 15 ár. Á umsókninni kemur fram að sótt sé um erlent lán „(100% erl. myntkarfa)“ og þess farið á leit  að myntkarfan verði samsett úr eftirtöldum myntum, í eftirgreindum hlutföllum: „EUR 45%, USD 25% og JPY 10%“. Tilgangur stefnanda með umsókninni mun hafa verið að greiða upp lán sem hann var með hjá Sparisjóðnum í Sandgerði, eftir að sparisjóðurinn hafði í mars 2006 keypt útibú Landsbanka Íslands hf. í Sandgerði. Um var að ræða lán sem stefnandi hafði tekið hjá Landsbanka Íslands hf., 17. nóvember 2003, upphaflega að fjárhæð 120.000 bandaríkjadalir. Samkvæmt svonefndu ákvörðunarblaði Landsbanka Íslands hf. vegna útlána til einstaklinga, undirrituðu af starfsmanni bankans, samþykkti bankinn, 16. mars 2007, að veita stefnanda umbeðið lán. Í reit á ákvörðunarblaðinu, sem ber yfirskriftina beiðni/umfjöllun, er ritað:  ,,Jón Óskar hefur áhuga á að taka erlent lán til að greiða upp lán í USD við Sparisjóðinn í Sandgerði ... Til trygginga býður hann sjálfskuldarábyrgð Bergþórs Baldvinssonar, kt. ..., en Bergþór var einnig ábyrgðarmaður á láninu ...“ Í tillögureit ákvörðunarblaðsins er lánsfjárhæðin tilgreind 10.000.000 króna, lánstími 12 ár, vextir Libor + 2%. Þá segir að lánið sé „gengistryggt“. Í reit fyrir skilyrði kemur fram að mynt sé „50% CHF 50% JYP“. Skuldfærslureikningur er í sérstökum reit vegna fyrirmæla um ráðstöfun  tilgreindur ..., sem mun hafa verið tékkareikningur stefnanda hjá Landsbanka Íslands hf., í íslenskum krónum.  Hinn 28. mars 2007 var skuldabréf í „erlendum myntum með sjálfskuldarábyrgð“ gefið út af stefnanda til lánveitanda, Landsbanka Íslands hf., vegna framangreindrar lánveitingar. Í texta skuldabréfsins kemur fram að stefnandi viðurkenni að skulda lánveitanda 10.000.000 króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í eftirtöldum myntum og hlutföllum: JPY 50% og CHF 50%, miðað við sölugengi myntanna í Landsbanka Íslands hf. á gjalddaga. Í vexti af skuldinni eins og hún væri á hverjum tíma skyldi greiða eins mánaðar LIBOR- vexti auk 2% álags. Með LIBOR- vöxtum væri átt við vexti á millibankamarkaði í London eins og þeir væru auglýstir kl. 11:00 f.h. að staðartíma í London á BBA síðu Reuters eða sambærilega vexti eins og þeir birtust á síðu 3750 á Dow Jones Telerate skjá tveimur dögum fyrir hvert vaxtatímabil. Í texta skuldabréfsins er jafnframt tekið fram að stefnandi geti á gjalddaga óskað eftir að myntsamsetningu lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, sem skráðar séu í almennri gengistöflu lánveitanda og í öðrum hlutföllum en upphaflega hafi verið um samið. Skriflega beiðni þar að lútandi beri að senda lánveitanda með fimm daga fyrirvara. Sú takmörkun sé þó gerð að ekki sé heimilt að skulda fleiri en sex gjaldmiðla hverju sinni. Geti stefndi ekki útvegað stefnanda einhverja tiltekna mynt eða útvegun hennar hafi í för með sér verulegan kostnað fyrir stefnda sé honum heimilt að nota bandaríkjadali í stað þeirrar myntar. Einnig er tekið fram að ef dráttur verði á greiðslu afborgana og vaxta af skuldabréfinu, sé heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Beri þá skuldin dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. 2. apríl 2007 var lánsfjárhæðin að frádregnum kostnaði, samtals 9.747.200 krónur, millifærð í íslenskum krónum inn á tékkareikning stefnanda hjá lánveitanda. Upphaflega var gert ráð fyrir að sami reikningur yrði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af skuldabréfinu. Við útgáfu skuldabréfsins óskaði stefnandi þess hins vegar að í stað tékkareikningsins yrði gjaldeyrisreikningur hans hjá lánveitanda í evrum, nr. ..., skuldfærður. Var þessi breyting handskrifuð inn á bréfið og staðfest með upphafsstöfum stefnanda. Ástæðan fyrir því að stefnandi vildi nota evrureikninginn sem skuldfærslureikning, frekar en tékkareikninginn, mun hafa verið að hann fékk á þessum tíma greidda dagpeninga í evrum og taldi af þeirri ástæðu að skuldfærsla á evrureikninginn yrði honum hagstæðari en skuldfærsla á tékkareikning í íslenskum krónum. Í greiðslutilkynningum sem stefnandi fékk vegna greiðslna af skuldabréfinu var fjárhæð vaxta og afborgana tilgreind í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Jafnframt var tekið fram í greiðslutilkynningum að skuldfært yrði af evrureikningi stefnanda. Stefnandi fékk sendar kvittanir fyrir greiðslum, þar sem fram kom gjalddagi, vaxtaprósenta, vaxtatímabil, greiðslugengi og afborgun höfuðstóls, af hvorri mynt.

Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 9. október 2008, var helstu kröfuréttindum Landsbanka Íslands hf. ráðstafað til stefnda, þar á meðal kröfu samkvæmt framangreindu skuldabréfi.

Stefndi sendi stefnanda bréf í júní 2011, þar sem honum var tilkynnt að í framhaldi af niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í máli stefnda gegn þrotabúi Motormax ehf., nr. 155/2011, yrði skoðað hvort lán samkvæmt skuldabréfinu frá 28. mars 2007 félli undir fordæmisgildi dómsins. Hinn 2. janúar 2012 var stefnanda tilkynnt það mat bankans að lánið félli ekki undir efnisatriði fyrrgreinds dóms Hæstaréttar og myndi bankinn af þeirri ástæðu ekki endurreikna lánið.

Á árinu 2011 ákvað stefndi að endurgreiða þeim einstaklingum sem staðið höfðu í skilum við bankann 20% af þeim vöxtum sem greiddir höfðu verið frá 31. desember 2008 til 30. apríl 2011. Átti endurgreiðslan að koma til lækkunar á eftirstöðvum skulda viðkomandi einstaklinga við bankann. Stefndi framkvæmdi þessa sérstöku vaxtaendurgreiðslu til stefnanda 4. október 2011 og 28. febrúar 2012, í íslenskum krónum, og var hún færð til lækkunar á skuld stefnanda samkvæmt skuldabréfinu frá 28. mars 2007.

Stefnandi kvartaði, 29. mars 2012, til Úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki og krafðist þess að úrskurðað yrði að umrætt lán væri ólöglegt gengistryggt lán í íslenskum krónum. Stefndi tók til varna og krafðist þess með bréfi, 11. mars 2012, að kvörtun stefnanda yrði hafnað. Nefndin kvað upp úrskurð í málinu, 31. ágúst 2012. Komst hún að þeirri niðurstöðu að umrætt lán væri tengt gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Stefndi tilkynnti úrskurðarnefndinni með bréfi, 10. september 2012, að ekki yrði, fyrr en skýr og endanleg dómsniðurstaða þess efnis lægi fyrir, fallist á að í láni stefnanda fælist ólögmæt gengistrygging.

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort skuldabréfið, sem stefnandi gaf út til Landsbanka Íslands hf., 28. mars 2007, feli í sér skuldbindingu í erlendri mynt eða íslenskum krónum bundna við gengi erlendra gjaldmiðla, þannig að brjóti í bága við 14., sbr. 13 gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Málsástæður stefnanda og tilvísun til réttarheimilda

Stefnandi byggir á því að með dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010, nr. 153/2010, nr. 603/2010, nr. 604/2010, nr. 30/2011, nr. 31/2011, nr. 155/2011 og nr. 386/2012 hafi verið skorið úr ágreiningi lánveitanda og lántaka, sem lotið hafi að því hvort skuldbinding lántaka gagnvart lánveitanda væri ákveðin í íslenskum krónum eða erlendum myntum. Niðurstaðan hafi verið sú að um væri að ræða lán í íslenskum krónum og tenging höfuðstóls skuldabréfanna við gengi erlendra gjaldmiðla hafi verið ólögmæt. Í forsendum dómanna segi m.a. orðrétt:

Lög nr. 38/2001 heimila ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2011 eru ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verður því ekki samið um grundvöll verðtryggingar, sem ekki er stoð fyrir í lögum.

Stefnandi telji að sú skuldbinding sem hann hafi tekið á sig með útgáfu skuldabréfsins, 28. mars 2007, til forvera stefnda sé gengistryggð með framangreindum hætti.  Stefnandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort skuldbinding hans samkvæmt skuldabréfi nr. 0142-36-7454, dags. 28. mars 2007, feli í sér ólögmæta gengistryggingu eða ekki. Ljóst sé að stefnandi, sem staðið hafi samviskulega við greiðsluskyldu sína, samkvæmt skilmálum skuldabréfsins, sé langt kominn með að greiða það upp, ef viðurkenningardómur fáist um ólögmæti þess. Fjárhagslegir hagsmunir stefnanda séu því miklir af úrlausn máls þessa. Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar, sbr. meðal annars dóm réttarins frá 17. janúar 2013 í máli nr. 386/2012, byggi stefnandi á því að við úrlausn ágreiningsefnis máls þessa beri fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þess gernings sem liggi til grundvallar skuldbindingu stefnanda. Í því sambandi hljóti einkum að skipta máli hvernig skuldbindingin hafi verið tilgreind í skilmálum skuldabréfsins sjálfs. Því sé ekki þörf á að líta til þess hvernig málsaðilar hafi efnt skuldbindingar sínar í raun. Stefnandi bendi hins vegar á að síðastgreinda atriðið leiði samt sem áður til þeirrar niðurstöðu að um ólöglegt gengistryggt lán sé að ræða. Eina tilgreiningin í skuldabréfinu, á fjárhæð lánsins, hafi verið í íslenskum krónum. Hvergi sé getið um fjárhæð skuldarinnar í hinum erlendu gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföll þeirra og viðmiðun við virði íslensku krónunnar á tilteknum degi fyrir útborgun lánsins. Verði því að leggja til grundvallar í máli þessu að fjárhæð lánsins hafi í grunninn verið tiltekin í íslenskum krónum. Stefnandi telji að fyrrgreindir dómar Hæstaréttar séu fordæmisgefandi fyrir úrlausn máls þessa. Í þeim hafi tilgreining lánsfjárhæðar í skuldaskjölum verið í íslenskum krónum en ekki erlendri mynt. Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að við mat á því hvort um skuldbindingu í íslenskum krónum eða erlendri mynt væri að ræða, skipti tilgreining lánsfjárhæðar einkum máli, samanber einnig dóma Hæstaréttar í málum nr. 520/2011, nr. 551/2011, nr. 552/2011 og nr. 386/2012. Stefnandi telji það þannig leiða af dómaframkvæmd að lán stefnanda sé í íslenskum krónum bundið við gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Stefndi hafi borið því við að orðalagið ,,jafnvirði láns“ í íslenskum krónum eigi að endurspegla að skuldbindingin sé í erlendri mynt. Eins og að framan greini, skipti mestu það efni skuldabréfsins að lánsfjárhæð hafi verið ákveðin í íslenskum krónum og hana hafi borið að endurgreiða í sama gjaldmiðli. Þá hafi lánið verið bundið við sölugengi stefnda á tilteknum gjaldmiðlum, sem bendi ótvírætt til að það sé í íslenskum krónum, enda engin þörf á að kveða á um gengistryggingu ef lán sé í raun í erlendri mynt. Að mati stefnanda skipti því ekki máli að stefnandi hafi lýst því yfir í texta skuldabréfsins, að skulda í erlendum gjaldmiðlum ,,jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 604/2010, nr. 155/2011 og nr. 386/2012. Hafi ætlun stefnda verið að lána stefnanda svissneska franka og japönsk jen, hafi honum verið í lófa lagið að tilgreina fjárhæðir þessara gjaldmiðla í skilmálum skuldabréfsins og greiða hinar erlendu fjárhæðir út. Í fyrirsögn skuldabréfsins komi fram að um ,,skuldabréf í erlendum myntum sé að ræða. Í samræmi við dóma Hæstaréttar sé ljóst að við úrlausn á því hvort skuldabréf það sem stefnandi hafi gefið út til Landsbanka Íslands hf. feli í sér skuldbindingu í erlendum myntum eða íslenskum krónum, beri fyrst og fremst að skoða skilmála lánsins, m.ö.o. inntak og raunverulega tilhögun þess. Mestu máli skipti það efni skuldabréfsins að lánsfjárhæð hafi verið ákveðin í íslenskum krónum og stefnandi hafi haft heimild til að endurgreiða hana í sama gjaldmiðli. Þá hafi lánið verið bundið sölugengi stefnda á þessum tilteknu erlendu myntum, sem bendi ótvírætt til að það sé í íslenskum krónum. Stefnandi vísi einnig til þess að engu máli eigi að skipta þótt lánssamningar séu nefndir ,,skuldabréf í erlendum myntum“ eða ,,erlent lán“ eða einhverju öðru heiti. Aðalatriðið sé hvort lánsfé hafi raunverulega verið afhent í íslenskum krónum eða erlendri mynt. Vísi stefnandi til þess að það sé áralöng dómaframkvæmd í fjármunarétti að ekki skipti máli hvaða nafn menn gefi löggerningum sínum heldur hvert sé raunverulegt inntak þeirra. Hæstiréttur hafi staðfest í dómum sínum að það hafi ekki áhrif á niðurstöðu um það hvort lánssamningur teljist gengistryggður eða ekki, hvernig vextir hafi verið ákvarðaðir í samningi. Vísist um það meðal annars til dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010. Í báðum málunum hafi verið um að ræða lánssamninga, gengistryggða í erlendri mynt, þar sem greiðsla lántaka hafi tekið mið af breytingum á gengi og LIBOR-vöxtum. Sú staðreynd að skilmálar hafi kveðið á um að í vexti af skuld skyldu greiðast LIBOR-vextir, hafi ekki orðið til þess að talið hafi verið að um skuldbindingu í erlendri mynt væri að ræða heldur þvert á móti lánssamning í íslenskum krónum með gengistryggingu í erlendri mynt. Stefnanda hafi verið heimilt samkvæmt skilmálum skuldabréfsins að breyta myntum, þ.e. að óska eftir að breyta myntsamsetningu lánsins. Orðrétt segi í skilmálunum: ,,Skuldari getur á gjalddaga óskað eftir að myntsamsetning lánsins verði breytt, þannig að eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öllu leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, eina eða fleiri, og í öðrum hlutföllum en upphaflega var samið um.“ Skilmálar þessir gefi til kynna að lánið sé gengistryggt í íslenskum krónum enda segi skilmálarnir að hægt sé að greiða eftirstöðvar skuldar þannig að þær miðist við aðrar myntir. Bendi stefnandi á að hafi lánið verið í erlendri mynt hefði heimildarákvæði um breytingu á andlagi lánsfjárhæðar ekki kveðið á um breytingu á viðmiði heldur beinlínis um sölu þess gjaldmiðils sem lánaður hafi verið og kaup annars. Aðalskylda stefnda sem lánveitanda samkvæmt samningi aðila, 28. mars 2007, hafi verið efnd með greiðslu á 9.747.200 krónum inn á tékkareikning stefnanda í íslenskum krónum. Við meðferð kvörtunarmáls stefnanda hjá Úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hafi stefndi lagt fram kaupnótu, þar sem fram komi að keypt hafi verið samtals JPY 8.804.696 og CHF 91.093,12. Til þess verði að líta að mati stefnanda að umrætt skjal sé hreinn málamyndagerningur enda liggi enginn löggerningur að baki umræddri nótu. Um gildi hennar í þessu samhengi verði að líta til þess að hún sé einhliða útbúin af stefnda, án nokkurrar aðkomu stefnanda. Lánsfjárhæðin hafi verið lögð inn á tékkareikning stefnanda í íslenskum krónum. Stefndi hafi ekki lagt fram nein gögn við meðferð kvörtunarmálsins sem staðfest hafi að lántakan hafi í raun farið fram í erlendri mynt og í þeim hlutföllum sem kveðið sé á um í skuldabréfinu. Áréttað sé að hvergi sé minnst á erlenda fjárhæð í skjali því sem liggi til grundvallar skuldbindingu stefnanda. Engir erlendir gjaldmiðlar hafi verið afhentir stefnanda eða lagðir inn á gjaldeyrisreikning hans. Stefnandi byggi enn fremur, hvað kaupnótuna varði, á því að hún sé einhliða skjal stefnda, sem stefnandi hafi ekki undirritað og aldrei fengið í hendur og hafi sem slíkt því ekkert sönnunargildi í máli þessu, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 155/2011. Aðalskylda stefnanda, sem skuldara samkvæmt skuldabréfinu, hafi verið greiðsla vaxta og afborgana. Ljóst sé af ákvörðunarblaði, dagsettu 15. mars 2007, og upphaflegum texta skuldabréfsins, þar sem tékkareikningur stefnanda í íslenskum krónum hafi verið tilgreindur sem skuldfærslureikningur, að stefndi hafi búið svo um hnútana að greiðslur afborgana og vaxta á gjalddögum yrðu í íslenskum krónum. Stefnandi hafði hins vegar óskað eftir að tiltekinn gjaldeyrisreikningur yrði skuldfærður. Legið hafi fyrir að stefnandi yrði að selja evrur og kaupa krónur til að greiða afborganir af skuldabréfinu, ef upphaflegur tékkareikningur yrði notaður. Þessu fyrirkomulag hafi stefnandi ekki óskað eftir, né stefndi eða aðilar sameiginlega, eins og stefndi hafi borið við. Stefnandi hafi getað óskað eftir því að hvaða reikningur sem væri yrði skuldfærður, hvort sem um væri að ræða reikning í bandaríkjadölum, evrum eða tékkareikning í íslenskum krónum. Það að stefndi hafi setti inn í skilmála skuldabréfsins að beinlínis væri gert ráð fyrir að endurgreiðsla færi fram í íslenskum krónum, bendi til þess að aðalskylda stefnanda, sem skuldara, hafi verið greiðsla vaxta og afborgana í íslenskum krónum. Hér hljóti einnig að skipta máli, að endurgreiðslan hafi ekki farið fram í þeim erlendu myntum sem tilgreindar séu í skilmálum skuldabréfsins. Hafi erlendur gjaldmiðill verið lánaður, eins og stefndi haldi fram, og hann greiddur til baka í sömu mynt, þá sé ekki um að ræða skuldbindingu í íslenskum krónum og lagaákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu eigi því ekki við. Samkvæmt yfirliti yfir lán stefnanda, hafi það almennt verið raunin að greiðslur af láninu hafi verið inntar af hendi í evrum. Þó hafi innborganir á lánið í íslenskum krónum átt sér stað 4. október 2011 að fjárhæð 2.893 krónur og 28. febrúar 2012 að fjárhæð 181.831 krónur.  Greiðslurnar hafi verið framkvæmdar af stefnda sem endurgreiðsla vaxta en bankinn hafi endurgreitt öllum skilvísum viðskiptavinum sínum 20% af öllum vöxtum sem greiddir hafi verið á tímabilinu 31. desember 2008 til 30. apríl 2011. Verði að líta svo á að með þeirri aðgerð hafi stefndi viðurkennt að um lán í íslenskum krónum væri að ræða, bundið gengi erlendra mynta. Vaxtaendurgreiðslan, sem þannig hafi verið framkvæmd í íslenskum krónum, hafi komið til lækkunar eftirstöðva skuldarinnar. Ef komist verði að þeirri niðurstöðu að á reiki sé hvort gert hafi verið ráð fyrir að samningsaðilar skyldu efna meginskyldur sínar samkvæmt skuldabréfinu í íslenskum krónum eða erlendum gjaldmiðlum, sé ljóst að slíkan vafa beri að skýra stefnanda í hag í samræmi við sjónarmið um túlkun samninga milli fjármálafyrirtækja og viðskiptamanna sem og andskýringarreglu samningaréttarins. Telji stefnandi að líta beri í fyrsta lagi til þess að stefndi sé stofnun sem starfi í skjóli opinberra starfsleyfa og sanngjarnt sé að gerðar séu ríkar kröfur til hennar um aðgæslu og vandvirkni í samskiptum við almenna borgara. Í öðru lagi að stefndi njóti yfirburðarstöðu gagnvart stefnanda, fjárhagslega sem og með öðrum hætti og helgist það af sjónarmiðum um neytendavernd að leggja honum á herðar ríkari skyldur um aðgæslu og vandvirkni. Í þriðja lagi búi lánastofnanir á borð við stefnda að jafnaði yfir meiri sérþekkingu en viðsemjandinn sem leiði til þess að sanngjarnt sé að leggja áhættuna af óskýrleika og óvandvirkni frekar á þær. Í fjórða lagi liggi fyrir að stefndi hafi samið skilmála skuldabréfsins einhliða, þar sem skýrlega hafi verið gert ráð fyrir að aðilar ættu að efna meginskyldur sínar með greiðslum í íslenskum krónum. Samkvæmt því sem að framan hafi verið rakið þyki þannig fullljóst að lán stefnanda samkvæmt umþrættu skuldabréfi falli að öllu leyti undir efnisatriði dóms Hæstaréttar í máli nr. 155/2011. Þá styðji aðrir nefndir dómar Hæstaréttar að skuldbinding stefnanda samkvæmt skuldabréfinu sé í íslenskum krónum, bundin gengi erlendra gjaldmiðla með ólögmætum hætti. Samkvæmt 13. og 14. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu sé lánabinding eða annars konar skuldbinding í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla óheimil. Slík verðtrygging sé ólögmæt og ógild. Sé þess því krafist að viðurkennt verði með dómi að skuldbinding stefnanda samkvæmt skuldabréfi nr. 0142-36-7454, dagsettu 28. mars 2007, sé bundin ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr. fyrrgreindra laga. Krafa stefnanda byggi á lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 13. og 14. gr. laganna og meginreglum samninga- og kröfuréttar um túlkun samninga. Um málskostnað vísist til 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Hvað kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun varði sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Málsástæður stefnda og tilvísun til réttarheimilda

Stefndi byggir á því að skuldbinding stefnanda samkvæmt skuldabréfinu frá 28. mars 2007 sé sannanlega skuldbinding í erlendri mynt. Í þessu samhengi sé lögð áhersla á að í fyrirsögn lánsskjalsins segi að það sé „skuldabréf í erlendum myntum með sjálfskuldarábyrgð“. Einnig sé vísað til þess að talað sé um „jafnvirði“ íslenskra króna, sem geti ekki talist vera tilgreining á skuldbindingu í íslenskum krónum. Einnig komi fram í stefnu að á þessum tíma hafi stefnandi haft tekjur í erlendri mynt, evrum, og því hafi hann sótt um það hjá stefnda að taka lán í erlendri mynt enda hafi hann verið að greiða upp lögmætt erlent lán, sem hann hafði tekið hjá Landsbanka Íslands hf., sem flust hafi yfir til Sparisjóðsins í Sandgerði. Jafnframt sé á því byggt að skuldbindingin sé í öðrum skjölum, sem tengd séu skuldabréfinu órjúfanlegum böndum, tilgreind með hinum erlendu myntum. Í þessu samhengi sé vísað til þess að skuldbinding stefnanda hafi verið tilgreind með hinum erlendu myntum um leið og þess hafi verið kostur. Meginástæðan fyrir því að upphæð hinna erlendu mynta sé ekki sett fram í fjárhæð skuldabréfsins, heldur í hlutföllum viðkomandi mynta, sé sú að gengi hinna erlendu mynta sé og hafi stöðugt verið að breytast á gjaldeyrismarkaði. Fram komi í skuldabréfinu að lánið komi til útborgunar tveimur virkum bankadögum eftir að lántaki hafi skilað inn undirrituðum og þinglýstum lánsskjölum. Slíkt geti tekið nokkurn tíma og gengi viðkomandi gjaldmiðla þannig tekið umtalsverðum breytingum frá því skrifað sé undir skuldabréfið og þar til lánsfjárhæðin sé greidd út sem breytt hefði fjárhæð höfuðstóls lánsins. Þegar skjalagerð hafi verið lokið vegna lánsins og skilyrðum fyrir útgreiðslu fullnægt hafi fyrst verið hægt að greiða lánið út. Þá fyrst hafi legið fyrir hver höfuðstóll hinna erlendu skuldbindinga hafi nákvæmlega verið. Skuldabréfið sé dagsett 28. mars 2007 en lánsfjárhæðin hafi ekki verið greidd út fyrr en 2. apríl 2007. Kaupnóta lánsins sýni hver höfuðstóll lánsins hafi verið á útborgunardegi þess og sé skuldbinding stefnanda tilgreind þar í hinum erlendu myntum, þ.e. japönskum jenum (JPY) og svissneskum frönkum (CHF). Einnig komi fram að þar sem stefnandi hafi óskað eftir að fá andvirði lánsins inn á íslenskan tékkareikning hafi erlendu myntirnar verið seldar og því verið miðað við sölugengi hinna erlendu mynta. Stefnandi hafi fengið senda til sín kaupnótu bréfsins og hafi hann aldrei gert athugasemd við hana. Hefði stefnandi óskað eftir því að fá greiddar út hinar erlendu myntir hefðu verið stofnaðir gjaldeyrisreikningar í hans nafni og tilgreindar myntir verið lagðar inn á þá. Stefnanda hafi einnig verið sendar tilkynningar um gjalddaga af lánunum. Í þeim tilkynningum hafi skuldbindingar stefnanda einungis verið tilgreindar með hinum erlendu gjaldmiðlum. Sömu sögu sé að segja af kvittunum fyrir endurgreiðslu hvers gjalddaga. Stefnandi hafi fengið öll framangreind skjöl send og aldrei gert athugasemdir við þau. Af dómafordæmum Hæstaréttar, sbr. mál nr. 155/2011, megi ráða að þrjú atriði þurfi að vera til staðar til þess að lán teljist bundið gengi erlends gjaldeyris og sé af þeim sökum ólögmætt. Í fyrsta lagi að höfuðstóll láns sé tilgreindur í íslenskum krónum, í öðru lagi að lánið sé greitt út í íslenskum krónum og í þriðja lagi að lánið sé endurgreitt í íslenskum krónum. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 3/2012 hafi verið leyst úr ágreiningi um hvort samningur, sem gerður hafði verið um lán að „jafnvirði“ tiltekinnar fjárhæðar í íslenskum krónum, teldist vera lán í erlendum gjaldmiðlum, sem þar hafi verið tilgreindir, eða í innlendri mynt og þá háð ólögmætum skilmálum um gengistryggingu skuldar. Orðalag í samningnum, sem á hafi reynt í því máli, hafi nánast verið það sama og í lánssamningi stefnanda við stefnda frá 28. mars 2007, hvað varði heiti lánssamningsins, tilgreiningu lánsfjárhæðarinnar og vaxta og greiðslu afborgana og vaxta, ef frá séu taldar dagsetningar, erlendar myntir, bankareikningar og tilhögun útborgunar lánsfjárhæðarinnar. Niðurstaða Hæstaréttar hafi verið sú að um væri að ræða erlent lán, sbr. dóm réttarins í máli nr. 66/2012. Fyrirsögn skuldabréfsins sé „Skuldabréf í erlendum myntum með sjálfskuldarábyrgð“. Því til stuðnings sé ákvörðunarblað um útlán til einstaklinga þar sem skýrt sé tekið fram að stefnandi óski eftir erlendu láni. Stefnandi haldi því fram að fyrirsögn skuldabréfsins hafi ekki gildi um efni þess, heldur verði eingöngu að líta til skilmála lánsins um inntak og raunverulega tilhögun. Stefndi sé því ósammála þar sem fyrirsögn skuldabréfsins veiti mikilvæga vísbendingu um tilhögun lánsins og hver hafi verið raunverulegur vilji lánþega og lánveitanda við samningsgerð, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 524/2011. Stefnandi hafi borið því við að mestu skipti það efni skuldabréfsins að lánsfjárhæð hafi verið ákveðin í íslenskum krónum og að hana hafi borið að endurgreiða í sama gjaldmiðli. Óumdeilt sé að lánsfjárhæðin hafi verið greidd til stefnanda í íslenskri mynt enda hafi stefnandi óskað eftir því. Stefndi mótmæli því hins vegar að lánsfjárhæðina hafi borið að endurgreiða í sama gjaldmiðli. Í ákvörðunarblaði um útlán til einstaklinga og skuldabréfi milli stefnanda og stefnda hafi verið greint frá umsókn um erlent lán. Lánsfjárhæðin skyldi greidd í japönskum jenum og svissneskum frönkum að jafnvirði 10.000.000 króna. Í skilmálum skuldabréfsins sé hvergi gert að skilyrði að stefnandi greiði lánið upp með íslenskri mynt eins og stefnandi haldi fram. Þvert á móti skyldi stefnandi greiða lánið með erlendri mynt af gjaldeyrisreikningi sínum í evrum. Við mat á því hvers lags skuldbindingu sé um að ræða verði að líta til þess hvernig stefnandi hafi sannarlega efnt aðalskyldu sína samkvæmt skuldabréfinu. Stefnandi telji að engu máli skipti varðandi það hvort lánið teljist erlent eða íslenskt hvernig endurgreiðslu þess hafi verið háttað og vísi í þeim efnum til dóms Hæstaréttar í máli nr. 386/2012. Byggi stefnandi á því að við úrlausn ágreiningsefnis þessa máls beri fyrst og fremst að horfa til forms og meginefnis þess gernings sem liggi til grundvallar skuldbindingu stefnanda. Þessu mótmæli stefndi harðlega og bendi á þá staðreynd að lánið hafi verið endurgreitt af stefnanda í erlendri mynt. Telji stefndi að það staðfesti að skuldbindingar stefnanda samkvæmt skuldabréfinu séu í erlendri mynt en ekki í íslenskum krónum. Þá verði ályktun stefnanda með engu móti dregin af niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 386/2012. Bendi stefndi á dóma Hæstaréttar í málum nr. 332/2012, nr. 3/2012 og nr. 66/2012. Í þessum málum hafi tilgreining lánsfjárhæðar í viðkomandi lánssamningum verið í íslenskum krónum. Hæstiréttur hafi ekki eingöngu litið til tilgreiningar lánsfjárhæðar í lánssamningunum heldur einnig til þess hvernig samningsskyldum aðila hafi verið háttað. Þar sem skyldan hafi verið innt af hendi í erlendri mynt hafi Hæstiréttur dæmt viðkomandi lán lögmæt. Stefnandi hafi endurgreitt lánið án undantekningar með afhendingu erlendrar myntar af gjaldeyrisreikningi sínum. Fráleitt sé að ætla að skuldbinding sem greidd sé til baka í erlendum myntum verði metin sem skuldbinding í íslenskum krónum. Stefnandi hafi þannig efnt aðalskyldu sína samkvæmt samningnum í erlendum gjaldmiðlum. Í stefnu segi að Hæstiréttur hafi staðfest með dómum sínum að það hafi ekki áhrif á niðurstöðu um það hvort lánssamningur teljist gengistryggður eða ekki, hvernig vextir hafi verið ákvarðaðir í samningi. Stefnandi vísi til dóma Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010 þar um, sem báðir varði fjármögnunarleigusamninga. Stefndi hafni því að þeir dómar eigi við enda forsendur fyrir niðurstöðu Hæstaréttar og málsatvik allt önnur en í máli þessu. Af þeim sökum sé ekki hægt að heimfæra rökstuðning Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og nr. 153/2010 á forsendur máls þessa. Stefndi vísi til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 um ákvörðun vaxta. Vextir samkvæmt skuldabréfinu séu, til samræmis við að um erlent lán sé að ræða, tilgreindir Libor- vextir auk 2% álags, en í framangreindri niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 524/2011 hafi ein forsenda þess að Hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að lán samkvæmt skuldabréfi teldist erlent lán verið sú að vextir samkvæmt skuldabréfinu hafi verið til samræmis við að um erlent lán væri að ræða þar sem þeir hafi verið tilgreindir Libor og Euribor- vextir. Stefnandi hafi þannig ekki átt að greiða vexti á íslenskar krónur. Ef svo hefði verið hefði skuldbinding stefnanda að grunni til byggst á svokölluðum REIBOR- vöxtum og vextirnir orðið umtalsvert hærri en þeir hafi verið í raun enda Libor vextir ekki ákvarðaðir á íslenskar krónur. Skuldbinding stefnanda hafi því án alls vafa verið í erlendum myntum. Í skuldabréfinu sé að finna ákvæði sem veiti skuldara heimild til að breyta hinni erlendu mynt, sem lánið hafi upphaflega verið tekið í, að fullnægðum ákveðnum skilyrðum. Beiðni um breytingu mynta hafi þurft að setja fram með ákveðnum fyrirvara. Ástæða fyrirvarans hafi verið til að gera bankanum kleift að kaupa viðkomandi myntir eða e.a. gera skiptasamning við annan aðila um viðkomandi myntir, til að geta veitt skuldara þau vaxtakjör sem umræddar myntir bjóði upp á. Stefnandi telji að skilmálar skuldabréfsins um myntbreytingarheimildina gefi til kynna að unnt sé að greiða eftirstöðvar skuldar þannig að þær miðist við aðrar myntir þar sem í skilmálunum segi að „...eftirstöðvar skuldarinnar miðist að öðru leyti eða að hluta við aðrar erlendar myntir eða mynteiningar, ....“ Stefndi sé ósammála túlkun stefnanda á ákvæðum skilmála skuldabréfsins. Í því samhengi sem vísað sé til í skuldabréfinu vísi stefndi til þess að skýrlega megi ráða af ákvæðinu að við hugsanlega myntbreytingu á láni færu fram viðskipti með viðkomandi myntir. Sé lesið áfram segi í skilmálum skuldabréfsins: „Geti bankinn ekki útvegað lántaka einhverja tiltekna mynt eða útvegun hennar myndi hafa í för með sér verulegan kostnað fyrir bankann er honum heimilt að nota USD í stað þeirrar myntar.“ Stefndi bendi á að í orðalaginu felist að gert sé ráð fyrir því að við hugsanlega myntbreytingu eigi raunveruleg umsýsla sér stað með þær myntir sem lántaki kunni að óska eftir að umbreyta láninu í. Í sama ákvæði sé gerð krafa um að skrifleg beiðni um myntbreytingu beri að senda bankanum með fimm daga fyrirvara. Sé það sá tími sem stefndi ætli til umsýslu mynta. Meginskyldur stefnanda og stefnda samkvæmt skuldabréfinu og efnd þeirra geti haft áhrif á mat á því hvort skuldabréfið hafi falið í sér lögmætt erlent lán eða innihaldið ákvæði um ólögmæta gengistryggingu. Aðalskylda stefnda, sem lánveitanda samkvæmt samningi aðila, dagsettum 28. mars 2007, hafi réttilega verið efnd með greiðslu samkvæmt lánssamningi aðila inn á tékkareikning stefnanda. Stefnandi hafi fengið greiddar 9.747.200 krónur í íslenskum krónum, en 2. mars 2007 hafi stefnandi selt myntir fyrir tilstilli stefnda til útgreiðslu lánsins, sbr. fyrirliggjandi kaupnótu. Hinn 10. mars sama ár hafi stefnandi keypt aftur fyrir tilstilli stefnda myntir til greiðslu afborgana af láninu. Stefndi sé ósammála fullyrðingu stefnanda um að kaupnótur þær sem stefndi hafi gefið út vegna gjaldeyrisviðskipta stefnanda séu hreinn málamyndagerningur. Stefnandi hafi tiltekið gjaldeyrisreikning sinn til greiðslu lánsfjárhæðarinnar. Samkvæmt fyrirliggjandi greiðslukvittunum hafi stefnandi selt evrur af gjaldeyrisreikningi sínum fyrir japönsk jen, svissneska franka og íslenskar krónur. Án kaupa á gjaldeyri hafi stefnanda ekki verið kleift að fullnægja samningsskyldu sinni samkvæmt skuldabréfinu gagnvart stefnda. Stefndi hafni því að hafa viðurkennt að um lán í íslenskum krónum, bundið gengi erlendra mynta, hafi verið að ræða þar sem stefndi hafi endurgreitt stefnanda vexti í íslenskum krónum. Stefndi hafi ákveðið að bjóða einstaklingum í viðskiptum við bankann leiðir til að lækka skuldir sínar. Ein leiðin hafi verið sú að þeir einstaklingar sem verið hafi í skilum með skuldbindingar sínar hafi fengið endurgreitt 20% af greiddum vöxtum. Endurgreiðslan hafi komið til lækkunar eftirstöðvum skulda lántaka, eins og í tilviki stefnanda. Stefnandi hafi fengið lækkun höfuðstóls um 181.831 krónu, sem stefndi hafi lagt inn á eftirstöðvar lánsins. Þar sem úrræðið hafi náð til þúsunda viðskiptavina bankans og þar sem gjaldeyrishöft hafi verið í gildi hafi stefnda verið ómögulegt annað en að greiða inn á lánið í íslenskum krónum í stað þess að nota erlendar myntir lánsins. Bent sé á að stefndi sé ekki skuldbundinn samkvæmt skuldabréfinu til að greiða inn á lán stefnanda í erlendri mynt líkt og stefnandi sé skuldbundinn til að gera. Af öllu framangreindu megi ráða að um lögmætt erlent lán hafi verið að ræða. Lánveitandi hafi veitt lánið í erlendri mynt, þrátt fyrir að útgreiðsla þess hafi farið fram í íslenskum krónum, og lánþegi endurgreitt það með erlendri mynt. Þar af leiðandi sé sá partur gerningsins, sem hingað til hafi talist ólögmætur, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar í máli nr. 155/2011, Landsbankinn hf. gegn þrotabúi Motormax, þ.e. útgreiðsla erlends láns í íslenskri mynt og uppgreiðsla þess í íslenskri mynt, ekki til staðar í þessu máli. Stefndi vísi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir kröfuréttinda, laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009 og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sérstaklega 13. og 14. gr. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.  Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn að fá dóm fyrir skatti þessum, úr hendi stefnanda.

Forsendur og niðurstaða

Eins og rakið hefur verið lítur ágreiningur aðila að því hvort lán samkvæmt skuldabréfi, sem stefnandi gaf út til Landsbanka Íslands hf., 28. mars 2007, hafi falið í sér gilt lán í erlendum gjaldmiðlum eða lán í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, og þar með ólögmæta gengistryggingu samkvæmt 14. gr., sbr. 13. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefnandi telur að um hafi verið að ræða lán í íslenskum krónum sem bundið hafi verið gengi erlendra gjaldmiðla þannig að fari í bága við framangreind ákvæði laga nr. 38/2001 en stefndi að lánið sem stefnandi fékk hjá Landsbanka Íslands hf., 28. mars 2007, hafi verið í erlendum myntum.

Samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar Íslands ber við úrlausn framangreinds ágreiningsefnis fyrst og fremst að líta til forms og meginefnis þess löggernings eða þeirra  löggerninga, sem liggja til grundvallar lánsskuldbindingu. Í því sambandi ber einkum að líta til þess hvernig skuldbinding í lánssamningi er tilgreind, hvernig skyldur samningsaðila hafa verið efndar, heiti lánsskuldbindingar og tilgreiningar vaxta. Undirstrika fordæmin þannig meginsjónarmið íslensks réttar um skýringu og túlkun löggerninga.

Samkvæmt lánsumsókn stefnanda, staðfestri af honum 28. mars 2007, sótti hann um 100% erlent myntkörfulán hjá Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 10.000.000 króna og skyldi myntkarfan samsett úr eftirtöldum myntum, í eftirgreindum hlutföllum: evrum 45%, bandaríkjadölum 25%, svissneskum frönkum 20% og japönskum jenum 10%. Þá óskaði stefnandi eftir því að tékkareikningur hans í Landsbanka Íslands h.f. yrði skuldfærður vegna endurgreiðslu lánsins. Óumdeilt er að tékkareikningurinn var í íslenskum krónum.

Í málinu liggur fyrir svonefnt ákvörðunarblað Landsbanka Íslands hf., vegna lánsumsóknar stefnanda, áritað 16. mars 2007 um samþykki f.h. útlánaþjónustu/útibússtjóra Landsbanka Íslands hf. Á ákvörðunarblaðinu kemur fram að stefnandi hafi huga á að taka erlent lán til að greiða upp lán í bandaríkjadölum við Sparisjóðinn í Sandgerði. Umbeðin lánsfjárhæð er sögð 10.000.000 króna og heildarskuldbinding 10.350.000 krónur. Í reit sem ber yfirskriftina „tillaga“ er lagt til að stefnanda verði veitt „gengistryggt“ lán og í reit sem ber yfirskriftina „skilyrði“ kemur fram að miðað sé við 50% svissneska franka og 50% japönsk jen. Skuldfærslureikningur vegna lánsins er samkvæmt ákvörðunarblaðinu framangreindur tékkareikningur stefnanda í Landsbanka Íslands hf.  

Skuldabréfið sem stefnandi gaf út til Landsbanka Íslands hf., 28. mars 2007, ber yfirskriftina „Skuldabréf í erlendum myntum með sjálfskuldarábyrgð“. Lánsfjárhæðin er í bréfinu tilgreind 10.000.000 króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í eftirtöldum myntum og hlutföllum: JPY 50,0%, CHF 50,0%.

 Samkvæmt því sem rakið hefur verið var tilgreining lánsins í lánsumsókn stefnanda, ákvörðunarblaði lánveitanda og skuldabréfinu frá 28. mars 2007 eingöngu í íslenskum krónum en hvergi getið um fjárhæð þess í erlendum gjaldmiðlum, heldur aðeins hlutföll þeirra. Þegar svo hefur háttað til hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands verið lagt til grundvallar að orðalag skuldbindingarinnar ráði ekki eitt úrslitum heldur verði að líta til annarra atriða og þá einkum til þess hvernig gert hafi verið ráð fyrir í samningi að skyldur lántaka og lánveitanda yrðu efndar og hvernig efndir þeirra hafi í raun verið, sbr. meðal annars dóma Hæstaréttar Íslands 9. júní 2011 í máli nr. 155/2011, 15. júní 2012 í máli nr. 3/2012 og 1. nóvember 2012 í máli nr. 66/2012.

Af hálfu stefnda er á því byggt að meginástæðan fyrir því að upphæð hinna erlendu mynta hafi ekki verið sett fram í fjárhæð skuldabréfsins, heldur í hlutföllum viðkomandi mynta, sé sú að gengi hinna erlendu mynta sé stöðugt að breytast á gjaldeyrismarkaði. Fram komi í skuldabréfinu að lánið komi til útborgunar tveimur virkum bankadögum eftir að lántaki hafi skilað inn undirrituðum og þinglýstum lánsskjölum. Slíkt geti tekið nokkurn tíma og gengi viðkomandi gjaldmiðla þannig tekið umtalsverðum breytingum frá því að skrifað hafi verið undir skuldabréfið og þar til lánsfjárhæðin sé greidd út sem breytt hefði getað fjárhæð höfuðstóls lánsins. Framangreind málsástæða stefnda er haldlaus, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 155/2011, enda verður ekki fram hjá því litið að lánið var greitt úr mánudaginn 2. apríl 2007 en skuldabréfið undirritað fimmtudaginn 28. mars. Þá er ljóst að ekki þurfti að þinglýsa lánsskjölum enda lánið tryggt með sjálfskuldarábyrgð en ekki veði. 

Óumdeilt er að söluverð skuldabréfsins, 9.747.200 krónur, var greitt í íslenskum krónum inn á áðurgreindan tékkareikning stefnanda hjá Landsbanka Íslands hf.

Fyrir liggur í málinu svonefnd kaupnóta, frá útlánaþjónustu Landsbanka Íslands hf., vegna útgreiðslu lánsins. Samkvæmt henni á stefnandi að hafa selt svissneska franka og japönsk jen, 28. mars 2007, fyrir samtals 9.900.000 krónur og fjárhæðin, að frádregnu stimpilgjaldi og þóknun vegna útgáfu skuldabréfsins, verið lögð inn á  tékkareikning stefnanda. Kaupnótan er stíluð á stefnanda. Stefnandi hefur alfarið neitað því að hafa fengið kaupnótuna í hendur. Verður stefndi að bera hallann af því að lánveitandi, sem var fjármálastofnun, tryggði sér ekki sönnur fyrir því að stefnandi hefði fengið kaupnótuna í hendur og samþykkt þær upplýsingar sem í henni fólust. Þá telur dómurinn, með vísan til framanritaðs, þýðingarlaust þótt lánið kunni í kerfum lánveitanda, formlega, að hafa verið greitt út í svissneskum frönkum og japönskum jenum áður en fjárhæðinni var breytt í íslenskar krónur til greiðslu inn á tékkareikning stefnanda. Verður þannig, að mati dómsins, að leggja til grundvallar að lánið hafi verið greitt út í íslenskum krónum.

Fyrir liggur að á skuldabréfinu frá 28. mars 2007 kom upphaflega fram að stefnandi óskaði eftir að tékkareikningur hans í íslenskum krónum hjá lánveitanda, yrði skuldfærður fyrir afborgunum og vöxtum af skuldabréfinu. Var það eins og rakið hefur verið í samræmi við framangreinda lánsumsókn stefnanda og upplýsingar um skuldfærslureikning á ákvörðunarblaði lánveitanda. Þessar upplýsingar voru færðar inn á bréfið af starfsmanni lánveitanda. Númeri skuldfærslureikningsins var breytt af stefnanda, við undirritun skuldabréfsins, í gjaldeyrisreikning í evrum, sem stefnandi átti hjá lánveitanda. Er breytingin auðkennd með upphafsstöfum stefnanda. Fyrir liggur að allar greiðslur afborgana og vaxta af umræddu skuldabréfi voru frá 1. gjalddaga þess, 15. apríl 2007, til og með gjalddaga 15. apríl 2012, skuldfærðar á framangreindan gjaldeyrisreikning stefnanda, að undanskildum greiðslum 4. október 2011 og 28. febrúar 2012, sem munu hafa komið til vegna endurgreiðslu stefnda á vöxtum viðskiptavina, sem staðið höfðu í skilum við stefnda tímabilið 31. desember 2008 til 30. apríl 2011. Í skýrslu stefnanda fyrir dómi, við aðalmeðferð málsins, kom fram að hann hefði óskað eftir framangreindri breytingu á skuldfærslureikningi, þar sem hann hefði á þessum tíma haft tekjur í evrum vegna greiðslu dagpeninga og því talið skuldfærslu á evrureikninginn henta sér betur en skuldfærsla á tékkareikninginn. Stefndi hefur ekki andmælt þessum upplýsingum. Af hálfu stefnda er því teflt fram að sú staðreynd að umrætt lán hafi verið endurgreitt í erlendri mynt staðfesti að um erlent lán hafi verið að ræða. Í málinu er ekki á því byggt af hálfu stefnda að umrætt lán hafi verið erlent lán í evrum. Að því virtu þykir það ekki benda sérstaklega til þess að umrætt lán hafi verið erlent lán að stefndi greiddi af því í  evrum en ekki íslenskum krónum, af ástæðum sem raktar hafa verið.

Eins og áður er rakið undirgekkst stefnandi að greiða eins mánaðar LIBOR- vexti auk 2% álags af umræddri skuld sinni við Landsbanka Íslands hf. Hins vegar var um samið að yrði dráttur á greiðslu afborgana og vaxta, væri heimilt að fella alla skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar. Bæri skuldin þá dráttarvexti í samræmi  við ákvörðun Seðlabanka Íslands, skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af gjaldfallinni eða gjaldfelldri fjárhæð, nema um annað væri sérstaklega samið. Vaxtaákvæði skuldabréfsins frá 28. mars 2007 eru samkvæmt framangreindu misvísandi við mat á því hvort höfuðstólsskuld samkvæmt bréfinu hafi verið ákveðin í erlendum myntum eða íslenskum krónum, þótt meginvaxtaákvæðið bendi til þess að um sé að ræða lán í erlendum myntum.

Eins og áður er rakið ber umrætt skuldabréf yfirskriftina „Skuldabréf í erlendum myntum með sjálfskuldarábyrgð“. Af hálfu stefnda er á því byggt að yfirskriftin veiti mikilvæga vísbendingu um tilhögun lánsins og hver hafi verið raunverulegur vilji lánþega og lánveitanda við samningsgerð, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 524/2011. Við mat á skilmálum skuldabréfsins frá 28. mars 2007 verður að líta til efnis þess en ekki fyrirsagnar, að svo miklu leyti sem efni og fyrirsögn fara ekki saman. Ræður fyrirsögnin sem slík því ekki úrslitum í máli þessu.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru tilkynningar Landsbanka Íslands hf. og síðar stefnda um gjalddaga og  fjárhæð afborgana og vaxta af umræddu skuldabréfi sundurliðaðar í japönsk jen og svissneska franka, hvað afborganir og vexti varðaði, og íslenskar krónur hvað tilkynningar- og greiðslugjald varðaði. Greiðslukvittanir voru sundurliðaðar með sama hætti og sýndu eftirstöðvar höfuðstóls, eftir greiðslu, í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Fallist er á það með stefnda að umræddar greiðslutilkynningar og greiðslukvittanir styðji þá málsástæðu hans að lánið frá 28. mars 2007 hafi verið í erlendum myntum.

Eins og rakið hefur verið var fjárhæð lánsins í skuldabréfinu frá 28. mars 2007, umbeðin fjárhæð í lánsumsókn stefnanda og samþykkt lánsfjárhæð í svonefndu ákvörðunarblaði lánveitanda, eingöngu tilgreind í krónum. Þá er lánið á ákvörðunarblaðinu sagt gengistryggt. Bendir allt framangreint til þess að lánveitingin hafi verið í íslenskum krónum. Stefndi hefur ekki gefið viðhlítandi skýringar á því hvers vegna fjárhæð lánsins hafi á þennan hátt verið tilgreind í krónum, ef ætlun lánveitanda og stefnanda hafi verið að lánið væri í erlendum myntum. Þá var lánið eins og áður greinir greitt út í íslenskum krónum og greiðslur af því hvorki í svissneskum frönkum eða japönskum jenum. Þegar framangreint er virt í heild sinni er það mat dómsins að lán Landsbanka Íslands hf. til stefnanda, 28. mars 2007, hafi verið í íslenskum krónum, bundið við gengi erlendra gjaldmiðla, þrátt fyrir það sem að framan greinir um greiðslutilkynningar og greiðslukvittanir lánveitanda og síðar stefnda. Fór lánveitingin þannig í bága við 14. gr., sbr. 13. gr., laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Er því fallist á viðurkenningarkröfu stefnanda. Með hliðsjón af úrslitum málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað og telst hann hæfilega ákveðinn 900.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málsflutningsþóknun.

Þórður S. Gunnarsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Viðurkennt er að lán stefnanda samkvæmt skuldabréfi nr. 0142-36-7454, dagsettu 28. mars 2007, útgefnu af stefnanda til Landsbanka Íslands hf., sé bundið ólögmætri gengistryggingu í skilningi 14. gr., sbr. 13. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefndi, Landsbankinn hf., greiði stefnanda, Jóni Óskari Sæmundssyni, 900.000 krónur í málskostnað.