Hæstiréttur íslands

Mál nr. 419/2016

Ákæruvaldið (Daði Kristjánsson saksóknari)
gegn
Sigurði Steinari Konráðssyni og Ísfélagi Vestmannaeyja hf. (Finnur Magnússon hrl.)

Lykilorð

  • Fiskveiðibrot
  • Refsiheimild

Reifun

S, sem var skipstjóri á bátnum Suðurey og Í, útgerð skipsins, voru ákærð fyrir að stunda togveiðar með ólögmætum veiðarfærum. Í málinu báru S og Í fyrir sig að búið væri að fella úr gildi reglugerð þá sem bannaði veiðarnar og því bæri samkvæmt 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að sýkna þá. Í niðurstöðu Hæstaréttar var vísað til þess að ekki hefði verið hróflað við refsinæmi þess brots sem S og Í hefðu verið gefið að sök og hefði falist í því að stunda fiskveiðar með ólögmætum veiðarfærum. Í því tilliti gilti einu þótt reglugerð, sem mælt hefði fyrir um veiðarfærin hefði verið felld úr gildi í tilefni af könnun á fiskigengd á svæðinu sem fram hefði farið eftir umrædda veiðiferð. Yrði að dæma eftir þeim reglum sem í gildi hefðu verið á þeim tíma sem skipið hefði verið að veiðum. Voru S og Í því sakfelld fyrir brotið og dæmd til greiðslu sektar í Landhelgissjóð Íslands.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 18. maí 2016. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærðu verði sakfelldir samkvæmt ákæru og dæmdir til refsingar.

Ákærðu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar sem lög leyfa.

Ákærðu er gefið að sök fiskveiðilagabrot með því að ákærði Sigurður hafi aðfaranótt laugardagsins 31. október 2015, sem skipstjóri á fiskiskipinu Suðurey ÞH-009, er ákærða Ísfélag Vestmannaeyja hf. gerir út, stundað togveiðar með 135 mm poka í botnvörpu innan svæðis þar sem einungis var heimilt að nota smáfiskaskilju eða 155 mm poka í botnvörpu. Er þetta talið varða við 1. gr., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 749/2006 um bann við veiðum með fiskibotnvörpu á Vestfjarðamiðum nema notuð sé smáfiskaskilja eða 155 mm poki í botnvörpu, svo sem henni var breytt með reglugerð nr. 534/2013, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og 1. mgr. 18. gr. laganna vegna ákærða Ísfélags Vestmannaeyja hf. Ákærðu hafa gengist við því að háttseminni sé réttilega lýst í ákæru.

Eftir að höfð voru afskipti af veiðum skipsins umrætt sinn fór fram könnun 8. til 10. nóvember 2015 á fiskigengd á því svæði sem fyrrgreind reglugerð tók til. Niðurstaða hennar leiddi í ljós að hlutfall þorsks undir 55 cm að lengd hefði að meðaltali verið 7,2%, en viðmiðunarmörk til lokunar svæða voru 25% undir þeirri lengd. Af þessu tilefni lagði Hafrannsóknarstofnun til með bréfi 12. sama mánaðar, að höfðu samráði við Fiskistofu, að reglugerðin yrði felld úr gildi og var það gert með reglugerð nr. 1034/2015.

Í 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir að hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur skuli dæma eftir nýrri lögum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Þar segir einnig að hafi refsiákvæði laga fallið úr gildi af ástæðum, sem ekki bera vitni um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar, skuli dæma eftir lögum þeim, sem í gildi voru þegar brot var framið. Krafa ákærðu um sýknu er reist á þessu lagaákvæði.

Ekki hefur verið hróflað við refsinæmi þess brots sem ákærðu er gefið að sök og fólst í því að stunda fiskveiðar með ólögmætum veiðarfærum, en slík brot varða við 9. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 18. gr. laga nr. 79/1997. Í því tilliti gildir einu þótt reglugerð, sem mælti fyrir um veiðarfærin og átti sér viðhlítandi stoð í lögunum, hafi verið felld úr gildi í tilefni af könnun, sem fram fór eftir umrædda veiðiferð, á fiskigengd á hafsvæðinu, sem reglugerðin tók til. Er þess þá að gæta að reglur af þessu tagi taka breytingum frá einum tíma til annars eftir ástandi fiskistofna hverju sinni og hafa ekkert að gera með mat á refsinæmi verknaðar. Verður því að dæma eftir þeim reglum sem voru í gildi á þeim tíma sem skipið var að veiðum. Samkvæmt þessu verða ákærðu sakfelld fyrir brotið sem réttilega er fært til refsiákvæða í ákæru.

Við ákvörðun refsingar ákærðu ber að líta til þess að brotið var ekki stórfellt. Á hinn bóginn hefur ákærða Ísfélag Vestmannaeyja hf. haft ávinning af því, en andvirði aflans rann til útgerðarinnar. Að þessu virtu verður refsing félagsins ákveðin 1.100.000 króna sekt og refsing ákærða Sigurðar 400.000 króna sekt. Skulu sektir renna í Landhelgissjóð Íslands, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 79/1997.

Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti féll ákæruvaldið frá kröfu um upptöku afla og veiðafæra. Verður ákærðu því ekki gert að greiða kostnað af öflun matsgerða vegna þeirrar kröfu. Ákærðu verður hins vegar gert að greiða óskipt allan annan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns með virðisaukaskatti og útlagðan kostnað hans í héraði eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

  Ákærði, Sigurður Steinar Konráðsson, greiði 400.000 króna sekt í Landhelgissjóð Íslands innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 24 daga.

Ákærða, Ísfélag Vestmannaeyja hf., greiði 1.100.000 króna sekt í Landhelgissjóð Íslands.

Ákærðu greiði óskipt 1.375.265 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns í héraði, Finns Magnússonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur, og 62.932 krónur í útlagðan kostnað hans, svo og málsvarnarlaun verjandans fyrir Hæstarétti, 496.000 krónur.

                                                           

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 20. apríl 2016.

I

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 6. apríl sl., höfðaði lögreglustjórinn á Vestfjörðum með ákæru 2. desember 2015 á hendur ákærðu; „Sigurði Steinari Konráðssyni, kt. 310373-5679, Foldahrauni 42, Vestmannaeyjum, og Ísfélagi Vestmannaeyja hf., kt. 660169-1219, Strandvegi 28, Vestmannaeyjum (fyrirsvarsmaður Stefán Baldvin Friðriksson, kt. 311063-5029) fyrir fiskveiðilagabrot, með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 31. október 2015, ákærði Sigurður Steinar sem skipstjóri á fiskiskipinu Suðurey ÞH-009, sknr. 2020, og Ísfélag Vestmannaeyja hf. sem útgerðaraðili skipsins, stundað togveiðar með 135 mm poka í botnvörpu innan svæðis þar sem einungis er heimilt að nota smáfiskaskilju eða 155 mm poka í botnv[ö]rpu, en veiðarfærum var kastað á stað 67°05,259N – 023°45,518V.

Telst ofangreind háttsemi ákærðu varða við 1., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 749/2006, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 534/2013, um bann við veiðum með fiskibotnvörpu á Vestfjarðamiðum nema notuð sé smáfiskaskilja eða 155 mm poki í botnvörpu, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr., 16. gr. og 17. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og 18. gr. sömu laga vegna Ís[]félags Vestmannaeyja hf.

Er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Er þess jafnframt krafist að ákærða Ísfélagi Vestmannaeyja hf. verði gert skv. 2. og 3. mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og 1. mgr. 69. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 að sæta upptöku á fjárhæð sem svarar til andvirðis þeirra veiða[r]færa skipsins sem notuð voru við hinar ólögmætu veiðar og þess afla sem fékkst með ólögmætum hætti, samkvæmt mati dómkvaddra kunnáttumanna, en það var trollpoki með um 135 mm möskvastærð, 2077 kg af þorski og 91 kg af ufsa.“

Við upphaf aðalmeðferðar var af hálfu ákæruvalds lögð fram svohljóðandi framhaldsákæra, dagsett 5. apríl 2016:

„Að breyta verður ákæru lögreglustjórans á Vestfjörðum útgefinni 2. desember 2015 á hendur Sigurði Steinari Konráðssyni, kt. 310373-5679, Foldahrauni 42, Vestmannaeyjum, og Ísfélagi Vestmannaeyja hf., kt. 660169-1219, Strandvegi 28, Vestmannaeyjum, (fyrirsvarsmaður Stefán Baldvin Friðriksson, kt. 311063-5029), með eftirgreindum hætti:

Að í stað upptökukröfu á hendur Ísfélagi Vestmannaeyja hf. á grundvelli „2. og 3. mgr.“ 16. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, verði upptökukrafa á grundvelli „1. og 2. mgr. 16. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.“

Af hálfu ákærðu er þess aðallega krafist að þeir verði sýknaðir en til vara að þeir verði dæmdir til vægustu refsingar er lög leyfa og af hálfu ákærða Ísfélags Vestmannaeyja hf. er þess krafist að kröfu um upptöku andvirðis afla og veiðarfæra verði hafnað. Þá er þess krafist að sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. kostnaður vegna matsgerða.

II

Mál þetta barst lögreglu með kæru Landhelgisgæslunnar dagsettri 3. nóvember 2015. Þar kom fram að togarinn Suðurey ÞH-009 hafi laugardaginn 31. október 2015 verið staðinn að meintum ólöglegum togveiðum á Vestfjarðamiðum. Hafi hann verið að veiðum með botnvörpu innan reglugerðarhólfs, sbr. reglugerð nr. 749/2006 um bann við veiðum með fiskibotnvörpu á Vestfjarðamiðum nema notuð sé smáfiskaskilja eða 155 mm poki í botnvörpu, ásamt síðari breytingum, og hafi 135 mm poki verið í botnvörpunni. Eftirlitsmenn Landhelgisgæslunnar frá varðskipinu Þór hafi farið um borð og hafi skipverjar þá verið að ljúka við að hífa inn veiðarfærin og togarinn kominn út úr reglugerðarhólfinu. Skipstjóri tilkynnti eftirlitsmönnunum að í síðasta togi hefði 135 mm poki verið í notkun. Þegar siglingaferill togarans var skoðaður í siglingatölvu hans kom í ljós að ekki hafði verið kveikt á ferilvöktun í síðasta togi. Samkvæmt siglingaferli togarans í fjareftirliti varðskipsins Þórs og í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kom í ljós að þegar trollinu var kastað klukkan 03.48 var hann staðsettur 67°05,259N – 023°45,518V, 1,3 sjómílur inni í reglugerðarhólfinu. Samkvæmt skráningunni virðist skipið fyrst hafa togað út úr hólfinu til norðurs og síðan inn í það aftur. Stærðarmæling á möskva leiddi í ljós að meðaltal möskva var 134,7 mm. Við stærðarmælingu á þorski í veiðarfærum reyndust fjórir þorskar af 60 vera undir 55 sm eða 6,7%. Var afla sem veiddur var með ólögmætum hætti, sem síðar kom í ljós að var samtals 2.168 kg, haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins og meint ólögleg veiðarfæri innsigluð.

Eftir að málið hafði verið höfðað með ákæru voru dómkvaddir matsmenn til að meta andvirði veiðarfæra skipsins og ólögmæts afla, vegna upptökukröfu, og voru matsgerðir þeirra lagðar fram. Annars vegar er um að ræða matsgerð A, dagsetta 12. febrúar 2016, vegna afla. Þar kemur fram að hann taldi að söluverðmæti aflans hafi verið 740.110 krónur, en frá því dragist kostnaður að fjárhæð 50.757 krónur, og hins vegar B netagerðarmeistara, ódagsetta, vegna trollpoka sem hann mat á 200.000 krónur.

 

III

Ákærðu neita sök. Ákærði Sigurður Steinar Konráðsson og Stefán Baldvin Friðriksson, fyrirsvarsmaður ákærða Ísfélags Vestmannaeyja hf., lýstu því við aðalmeðferð málsins að verknaðarlýsing væri rétt í ákæru. Þeir byggja vörn sína á því að búið hafi verið að fella úr gildi reglugerð þá sem bannaði veiðarnar og því beri, með vísan til 2. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, að sýkna þá.

Í ákæru er háttsemi ákærðu talin varða við 1., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 749/2006, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 534/2013 um bann við veiðum með fiskibotnvörpu á Vestfjarðamiðum nema notuð sé smáfiskaskilja eða 155 mm poki með botnvörpu, sbr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr., 16. og 17. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og einnig 18. gr. sömu laga hvað varðar ákærða Ísfélag Vestmannaeyja hf. Með reglugerð nr. 1034/2015, dagsettri 17. nóvember 2015, um brottfall reglugerðar nr. 749/2006 um bann við veiðum með fiskibotnvörpu á Vestfjarðamiðum nema notuð sé smáfiskaskilja eða 155 mm poki í botnvörpu var reglugerð nr. 749/2006 felld úr gildi. Samkvæmt framlögðum gögnum var reglugerð nr. 1034/2015 birt 18. nóvember 2015 og tók því gildi á miðnætti aðfaranótt 19. nóvember 2015, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Reglugerðin var sett með stoð í lögum nr. 79/1997.

Með reglugerð nr. 719/2001 um bann við veiðum með fiskibotnvörpu á Vestfjarðamiðum án smáfiskaskilju, voru veiðar án smáfiskaskilju bannaðar á því svæði þar sem Suðurey kastaði. Þeirri reglugerð var breytt með reglugerð nr. 862/2004 og bannsvæðið minnkað og eftir stóð m.a. það svæði sem hér er til umfjöllunar. Þá var reglugerð nr. 719/2001 felld úr gildi með reglugerð nr. 749/2006 og voru þá veiðar á svæðinu heimilaðar með fiskibotnvörpu væri varpan búin smáfiskaskilju eða 155 mm poka í samræmi við reglugerð nr. 724/2006 um gerð og útbúnað smáfiskaskilju og notkun á 155 mm poka í botnvörpu. Reglugerð nr. 749/2006 var svo breytt með reglugerð nr. 534/2013 á þann veg að það svæði sem takmörkunin tók til var minnkað en eftir stóð það svæði sem hér er fjallað um. Samkvæmt framlögðu bréfi Hafrannsóknastofnunar, dagsettu 30. maí 2013, fór fram könnun á skiljuhólfinu dagana 25.-26. maí 2013 en ekki tókst að ljúka henni vegna afleits veðurs. Niðurstaðan á því svæði sem tókst að kanna var sú að 8% þorsks væri undir viðmiðunarmörkum sem voru 55 sm. Var það því mat stofnunarinnar að opna mætti fyrir veiðar án smáfiskaskilju innan þess svæðis sem könnunin náði til. Ókannaði hluti svæðisins yrði áfram lokaður en yrði kannaður með sambærilegum hætti áður en tekin yrði afstaða til breytinga hvað það svæði varðaði. Í kjölfar þess var reglugerð nr. 534/2013 sett. Ákvörðun um að fella reglugerð nr. 749/2006 úr gildi var einnig gerð að undangenginni rannsókn Hafrannsóknastofnunar. Í bréfi stofnunarinnar, dagsettu 12. nóvember 2005, til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis kemur fram að könnun hafi verið gerð dagana 8.-10. nóvember 2015 á því svæði sem eftir stóð eftir könnunina í maí 2013 og ákærðu eru ákærðir fyrir að hafa stundað veiðar á. Niðurstöður þeirrar könnunar sýndu að hlutfall þorsks undir 55 sm að lengd var að meðaltali 7,2% en viðmiðunarmörk til lokunar svæða séu að 25% séu undir 55 sm á lengd. Í ljósi þessa lagði stofnunin til, að höfðu samráði við Fiskistofu, að reglugerðin yrði felld úr gildi og var það gert með reglugerð nr. 1034/2015.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga skal, hafi refsilöggjöf breyst frá því að verknaður var framinn til þess er dómur gengur, dæma eftir nýrri lögunum, bæði um refsinæmi verknaðar og refsingu. Þá segir síðar í ákvæðinu að hafi refsiákvæði laga fallið úr gildi af ástæðum sem ekki bera vitni um breytt mat löggjafans á refsinæmi verknaðar skuli dæma eftir lögum þeim sem í gildi voru, þegar brot var framið. Í greinargerð sem fylgdi með frumvarpi er varð að almennum hegningarlögum segir um 2. gr. að þegar svo stendur á að ástæða þess að refsifyrirmæli laga hafa fallið niður varðar ekki mat eða álit löggjafans á refsinæmi verknaðar skuli refsa eftir þeim lögum sem í gildi voru þegar verknaður var framinn.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 79/1997 er tilgangur laganna að stuðla að viðgangi og hagkvæmri nýtingu nytjastofna innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Samkvæmt 9. gr. laganna skal ráðherra gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna og varðveislu viðkvæmra hafsvæða. Að jafnaði skal leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar áður en ákvarðanir eru teknar samkvæmt ákvæðinu. Þá segir í greinargerð með 9. gr. að eins og: ... ákvæði 9. gr. er sett fram í frumvarpinu er í raun gert ráð fyrir að ráðherra geti sett friðunarsvæði samkvæmt umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar, þegar nauðsynlegt er talið, til að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna. Geti friðunarsvæðin bæði verið með því móti að á þeim séu bannaðar allar veiðar eða veiðar með tilteknum veiðarfærum, eftir því sem þörf er talin á hverju sinni. Jafnframt er gert ráð fyrir að friðun slíkra svæða sé ekki úr gildi felld nema fyrir liggi umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar.

Frá því að ætlað brot var framið hafa ekki verið gerðar breytingar á refsiákvæðum laga nr. 79/1997 sem reglugerð nr. 749/2006 sótti lagastoð sína í. Við mat á refsinæmi háttsemi ákærðu ræður úrslitum ákvæði reglugerðarinnar sem bannaði veiðar á svæðinu án smáfiskaskilju eða 155 mm poka í botnvörpu. Eftir að reglugerðin var felld úr gildi með reglugerð nr. 1034/2015 gilda ekki takmarkanir á veiðum með botnvörpu á svæðinu. Við mat á því hvort um breytt mat löggjafans sé að ræða, sbr. 2. gr. almennra hegningarlaga, verður að líta til efnis reglugerðar nr. 749/2006. Breytt mat getur jafnt varðað ástand stofns og veiðarfæri. Reglugerð nr. 749/2006 var í gildi í um níu ár en á henni voru þó gerðar breytingar eins og hér að framan er rakið. Þróunin var í þá átt að minnka takmarkanir á veiðum með botnvörpu og leiddi að lokum til þess að þær voru felldar á brott. Eins og fram er komið byggðust ákvæði reglugerðarinnar, sem háttsemi ákærðu er heimfærð undir í ákæru, á faglegu mati Hafrannsóknastofnunar á ástandi þorskstofns á svæðinu og var hún einnig felld úr gildi á grundvelli slíks mats. Verður að telja að reglugerðin hafi verið felld úr gildi vegna breytts mats stjórnvalds, sem lögum samkvæmt hefur heimild til að setja reglur um þetta efni í því skyni að ná fram markmiði laga nr. 79/1997, sbr. 1. gr. laganna. Eftir þessu verður að telja að mat löggjafans á refsinæmi þess verknaðar sem ákært er fyrir hafi breyst. Með vísan til framangreinds ber samkvæmt 1. mgr. 2. gr. almennra hegningarlaga að dæma málið eftir þeim reglum sem nú gilda um þetta efni. Eru ákærðu því sýknaðir af öllum kröfum ákæruvalds í máli þessu.

Eftir úrslitum málsins, og með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, greiðist allur sakarkostnaður málsins, 932.932 krónur, úr ríkissjóði. Til sakarkostnaðar teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Finns Magnússonar hdl., sem þykja hæfilega ákveðin 800.000 krónur, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, útlagður kostnaður skipaðs verjanda, 62.932 krónur, og kostnaður vegna matsgerða dómkvaddra matsmanna, samtals 70.000 krónur.

Af hálfu ákæruvalds flutti mál þetta Bryndís Ósk Jónsdóttir, fulltrúi lögreglustjóra.

Dóm þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Ákærðu, Sigurður Steinar Konráðsson og Ísfélag Vestmannaeyja hf., eru sýknaðir af öllum kröfum ákæruvalds.

Allur sakarkostnaður málsins, 932.932 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu, Finns Magnússonar hdl., 800.000 krónur, útlagður kostnaður skipaðs verjanda, 62.932 krónur, og kostnaður vegna matsgerða, samtals 70.000 krónur.