Hæstiréttur íslands
Mál nr. 632/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Res Judicata
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 10. desember 2007. |
|
Nr. 632/2007. |
Víborg ehf. (Ólafur Thóroddsen hdl.) gegn Ægi Hafsteinssyni (enginn) |
Kærumál. Res judicata. Frávísunarúrskurður staðfestur.
V krafðist þess að viðurkennt yrði að Æ væri bótaskyldur gagnvart honum fyrir það að ekki varð af kaupum V á öllum hlutum í Ú ehf. Æ krafðist frávísunar málsins. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti sagði, að það lægi fyrir að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. 6280/2005 hefði verið fjallað um sömu atvik og hér væru til úrlausnar. Í því máli hefði verið gerð krafa um greiðslu tiltekinnar fjárgreiðslu en í þessu máli um viðurkenningu á bótaskyldu. Hefði í ofangreindum dómi héraðsdóms falist bindandi úrlausn um sakarefni á milli aðila í skilningi 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Yrði krafan því ekki borin aftur undir hliðsettan dómstól og yrði því að vísa henni frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. nóvember 2007, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila og Útgerðarfélaginu Báru ehf. var vísað frá dómi að því er varnaraðila varðar. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka kröfu á hendur varnaraðila til efnismeðferðar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. nóvember 2007.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefndu 19. október sl., er höfðað 6. desember 2006. Núverandi dómari í málinu fékk það til meðferðar 4. október s.l.
Stefnandi er Viborg ehf., Bæjarhrauni 2 Hafnarfirði.
Stefndu eru Ægir Hafsteinsson, Hulduborgum 13, Reykjavík og Útgerðarfélagið Bára ehf, Skagabraut 42, Garði.
Í stefnu gerir stefnandi þær dómkröfur að viðurkennt verði með dómi að stefndu séu in solidum bótaskyldir gagnvart honum fyrir það, að ekki varð af kaupum stefnanda á öllum hlutum í Útgerðarfélaginu Báru ehf. Þá gerir stefnandi kröfu um málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda Ægis Hafsteinssonar eru aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi Ægir þess að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda Útgerðarfélagsins Báru ehf. eru aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi Útgerðarfélagið Bára ehf. sýknu af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.
Einungis krafa stefndu um að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi er hér til meðferðar og er krafa stefnanda í þessum þætti málsins að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað. Þá krefjast aðilar málskostnaðar vegna þessa þáttar málsins.
Málavextir
Hinn 5. júlí 2005 fól Viborg ehf. Skipasölunni efh. að gera tilboð í alla hluti í Útgerðarfélaginu Báru ehf. Kauptilboð með fyrirvörum er dagsett sama dag og gagntilboð, undirritað af Ægi Hafsteinssyni f.h. Báru ehf. degi síðar. Daginn þar á eftir, 7. júlí 2005, var gagntilboðinu tekið.
Stefnandi kveður eignir félagsins, sem hafi átt að fylgja með í sölunni, hafa verið Mb. Góa RE-20, 2302, ásamt þar tilgreindu fylgifé, og að auki 2 frystieiningaklefar og pallbifreið af gerðinni Ford Transit árg. 2000. Samkvæmt samþykktu gagntilboði hafi verð allra hluta verið 71.600.000 krónur. Fyrirvarar hafi verið gerðir um skoðun á efnahagsreikningi félagsins og um fjármögnun og skyldu fyrirvarar hafa verið upprættir innan 7 daga frá dagsetningu gagntilboðs. Hinn 11. júlí 2005 hafi stefnandi upprætt fyrirvara varðandi ársreikning ársins 2004. Stefndi hafi ekki sent milliuppgjör fyrr en með faxi hinn 22. júlí sl., og hafi stefnandi upprætt fyrirvara þar að lútandi hinn 26. júlí sl., eftir að nákvæmlega hafi verið yfir það farið, en milliuppgjörið hafi falið í sér nokkur frávik frá gagntilboðinu. Stefnanda verði í engu kennt um drátt á milliuppgjörinu. Stefnandi hafi staðfest, í samtali við skipasöluna hinn 26. júlí, að hann teldi að allir fyrirvarar hefðu verið upprættir af hálfu beggja aðila. Þá liggi fyrir staðfesting Landsbankans frá 23. ágúst 2005 á því að stefnandi hefði fjárhagslegt bolmagn til kaupanna.
Hinn 26. júlí sl., þegar allir fyrirvarar hafi verið upprættir, hafi forsvarsmenn aðila hist í verbúð stefnda til þess að fara yfir fylgifé og búnað. Með Svavari Þorsteinssyni, fyrirsvarsmanni stefnanda, hafi verið faðir hans, Þorsteinn Svavarsson, og bróðir hans, Sigurjón Þorsteinsson. Af hálfu stefnanda hafi engar athugasemdir verið gerðar við búnað. Svavar Þorsteinsson hafi nefnt við stefnda að hann væri að fara utan og hvort það yrði í lagi að gera kaupsamning eftir rúmar tvær vikur. Stefndi hafi talið að það kæmi ekki að sök.
Svavar Þorsteinsson hafi komið heim hinn 11. ágúst og þá þegar haft samband við skipasöluna. Hafi Svavar fengið drög að kaupsamningi send hinn 15. ágúst. Daginn eftir hafi komið í ljós að allir hlutir í Útgerðarfélaginu Báru hefðu verið seldir öðrum aðila á stjórnarfundi í félaginu 10. ágúst og hafi sú sala verið tilkynnt til Hlutafélagaskrár 11. ágúst. Þann 23. ágúst hafi Ægi Hafsteinssyni verið sent símskeyti þar sem krafist hafi verið að gengið yrði frá kaupsamningi. Þá hafi Sigurði Friðrikssyni, fyrirsvarsmanni Sigurðar Friðrikssonar ehf., sem hafði keypt hluti Útgerðarfélaginu Báru ehf. skv. fundargerð á ofangreindum stjórnarfundi, einnig verið sent skeyti, þann 29. ágúst 2005.
Ofangreind skeyti stefnanda hafi verið virt að vettugi og stefnandi hafi höfðað mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Ægi Hafsteinssyni. Hafi stefnandi byggt á því að kominn hefði verið á bindandi kaupsamningur um kaup hans á öllum hlutum í Útgerðarfélaginu Báru ehf. og hefði stefnandi orðið fyrir tjóni vegna þess að ekki hefði verið staðið við þessi viðskipti. Í þeirri málshöfðun hafi verið krafist bóta vegna tjóns að tiltekinni fjárhæð, sem studd hafi verið við verðmöt skipa- og kvótasala og útskriftir frá Fiskistofu.
Dómur var kveðinn upp í málinu nr. 6280/2005 í Héraðsdómi Reykjavíkur 18. júlí 2006. Þar segir í niðurstöðum: “Ágreiningur máls þessa lýtur fyrst og fremst að því hvort bindandi samningur hafi komist á samkvæmt gagntilboði sem báðir aðilar höfðu undirritað hinn 7. júlí 2005.” Þá segir í dóminum: “Í gagntilboði því sem lagt hefur verið fram og dagsett er hinn 6. júlí 2005, eru tilboðsgjafar sagðir „eigendur af öllum hlutum í einkahlutafélaginu Báru ehf., kennitala 421091-1539“. Í upphaflegu kauptilboði var tilboðshafi tilgreindur á sama hátt. Undir gagntilboðið ritar síðan stefndi, Ægir Hafsteinsson, f.h. Báru ehf. Stefndi var því ekki persónulega aðili að gagntilboði því sem um er deilt í máli.” Stefndi var því sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.
Stefndi Útgerðarfélagið Bára ehf. kveður Sigurð Friðriksson ehf. hafa keypt alla hluti í hinu stefnda félagi með kaupsamningi þ. 10.8.2005. Með kaupsamningi dags. 21.10.2005 hafi síðan Heiðar Þorsteinsson stjórnarmaður í félaginu, keypt alla hluti í félaginu, án nokkurra kvaða.
Málsástæður stefnanda og lagarök
Stefnandi byggir kröfu sína á tjóni því sem hann hafi orðið fyrir við það að kaup hans á öllum hlutum í Útgerðarfélaginu Báru ehf. hafi ekki gengið eftir og skv. heimild í 2.mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991. Hann hafi orðið af umtalsverðri eignaaukningu/hagnaði við það að af kaupunum varð ekki. Stefnandi byggir á því efnislega að hann hafi upprætt fyrirvara samkvæmt gagntilboði og lagt fram staðfestingu banka á því að hann hefði fjárhagslega getu til kaupanna og það hafi ekki verið af hans völdum að ekki varð af kaupsamningi. Ekki hafi verið beint til hans formlegri riftun en raunveruleg riftun hafi farið fram með sölu á hlutum í félaginu til annars aðila, án nokkurrar áskorunar eða tilkynningar eða fyrirspurnar til stefnanda. Skilyrði riftunar, skv. 1. mgr. 54. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup, hafi ekki verið fyrir hendi.
Málsástæður og lagarök stefndu varðandi frávísunarkröfur
Kröfu sína um frávísun málsins byggir stefndi Ægir á því að þegar hafi verið dæmt um ágreiningsefni það sem hér er umfjöllunar, í dómi sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í málinu E-6280/2005, Viborg efh. gegn Ægi Hafsteinssyni. Dómkröfur stefnanda í því máli hafi verið að stefndi Ægir yrði dæmdur bótaskyldur fyrir það tjón sem stefnandi hafi hlotið við það að kaup hans á öllum hlutum í Útgerðarfélaginu Báru ehf. hafi ekki gengið eftir. Niðurstaða ofangreinds dómsmáls var sú að stefndi Ægir Hafsteinsson skyldi vera sýkn af öllum kröfum stefnanda Viborgar ehf. í málinu. Stefndi heldur því fram að eini munurinn á kröfugerð í ofangreindu máli sem rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og því máli sem hér er til meðferðar, sé að í hinu fyrra máli sé krafist tiltekinnar fjárhæðar í bætur, en í hinu síðara sé krafist viðurkenningar á skaðabótaskyldu.
Stefndi Ægir vísar í 116. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 þar sem kveðið sé á um að dómur sé bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og að krafa sem dæmd hafi verið að efni til verði ekki borin aftur undir sama eða hliðsettan dómstól. Nýju máli um slíka kröfu skuli vísa frá dómi.
Af hálfu stefnda Útgerðarfélagsins Báru ehf, er byggt á sömu sjónarmiðum og stefndi Ægir byggir á. Félagið telur að sömu sjónarmið og lagarök eigi við að öllu öðru leyti en því að í þessu máli sé krafist viðurkenningar á bótaskyldu en ekki krafist ákveðinnar bótafjárhæðar, en um þann réttarágreining hafi verið dæmt milli stefnanda og Ægis Hafsteinssonar í fyrrgreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Ljóst sé að hafi Ægir ekki verið ábyrgur, þá geti félagið ekki bakað sér bótaábyrgð á því sem sé því óviðkomandi. Ekkert samningssamband hafi verið á milli félagsins og stefnanda. Ljóst sé af málatilbúnaði aðila í greindu héraðsdómsmáli að þar hafi verið deilt um samskipti stefnanda og Ægis Hafsteinssonar og um hugsanlega bótaskyldu innan samninga. Ljóst sé jafnframt að félagið sem slíkt hafi aldrei komið að þeim málum.
Niðurstaða
Það liggur fyrir að í margnefndum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. 6280/2005, sem kveðinn var upp 18. júlí 2006, er fjallað um sömu atvik og hér eru til úrlausnar. Kröfugerð stefnanda í því máli var um tiltekna fjárkröfu, bætur vegna tjóns sem stefnandi hafi orðið fyrir vegna þess að kaup á hlutum Útgerðarfélaginu Báru ehf. hafi ekki gengið eftir. Niðurstaða ofangreinds dóms var að sýkna stefnda, Ægi Hafsteinsson, enda hafi hann ekki verið aðili að meintu samkomulagi um kaup á hlutum, persónulega. Í þessu máli er einungis krafist viðurkenningar á bótaskyldu, en ekki gerð fjárkrafa. Fallast verður á það með stefna Ægi að í ofangreindum dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hafi falist bindandi úrslit um sakarefnið á milli aðila í skilningi 2. mgr. 116. laga nr. 91/1991. Krafan verður ekki borin aftur undir hliðsettan dómstól og verður henni því vísað frá dómi.
Að því er varðar kröfu stefnda Útgerðarfélagsins Báru ehf, um frávísun, verður ekki séð að í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. 6280/2005, felist bindandi úrslit sakarefnis að því er varðar félagið, enda var félagið ekki aðili að því máli. Verður því að hafna kröfu um að málinu verði vísað frá dómi að því er varðar kröfu stefnanda á hendur Útgerðarfélaginu Báru ehf.
Samkvæmt þessum úrslitum málsins þykir rétt að stefnandi greiði stefnda Ægi Hafsteinssyni kr. 60.000 í málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti. Ákvörðun um málskostnað bíður að öðru leyti efnisdóms í málinu.
Anna M. Karlsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Kröfum stefnanda á hendur Ægi Hafsteinssyni er vísað frá dómi.
Frávísunarkröfu stefnda að því er varðar Útgerðarfélagið Báru ehf., er hafnað.
Stefndandi greiði stefnda Ægi Hafsteinssyni kr. 100.000 í málskostnað vegna þessa þáttar málsins, en frekari ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms.