Hæstiréttur íslands

Mál nr. 458/2013


Lykilorð

  • Endurgreiðslukrafa
  • Aðildarskortur


                                     

Fimmtudaginn 5. desember 2013.

Nr. 458/2013.

Hlédís Sveinsdóttir

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

gegn

Tryggingamiðstöðinni hf.

(Magnús Guðlaugsson hrl.)

Endurgreiðslukrafa. Aðildarskortur.

H krafði T hf. um endurgreiðslu afborgana af skuldabréfi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að samkvæmt gögnum málsins frá þeim tíma er afborganir voru greiddar hefðu greiðslur vegna skuldabréfsins verið inntar af hendi af E ehf. eða fyrir hönd þess félags, en ekki H. Var H af þeim sökum ekki bær til þess að lögum að krefja T hf. um endurgreiðslu þeirra. Með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var T hf. því sýknað af kröfu H.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. júlí 2013. Hún krefst þess að stefndi greiði sér 2.662.787 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 30. ágúst 2006 til 18. mars 2009, en framangreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram krefur áfrýjandi stefnda um endurgreiðslu afborgana af skuldabréfi sem greiddar voru á tímabilinu 30. ágúst 2006 til 18. mars 2009. Samkvæmt gögnum málsins frá þeim tíma voru þær greiðslur inntar af hendi af einkahlutafélaginu EON arkitektum eða fyrir hönd þess. Er fallist á með héraðsdómi með vísan til forsendna hans að leggja beri til grundvallar við úrlausn málsins að greiðslurnar hafi borist stefnda frá félaginu, en ekki áfrýjanda. Af þeim sökum er hún ekki bær til þess að lögum að krefja stefnda um endurgreiðslu á áðurgreindum afborgunum. Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur þegar af þeirri ástæðu.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hlédís Sveinsdóttir, greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. apríl 2013.

Mál þetta, sem var dómtekið 7. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hlédísi Sveinsdóttur, Naustabryggju 36 í Reykjavík, á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24 í Reykjavík, með stefnu birtri 18. maí 2012.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 2.662.787 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 352.000 kr. frá 30. ágúst 2006 til 25. september 2006; af 535.000 kr. frá þeim degi til 17. október 2006; af 714.651 kr. frá þeim degi til 5. janúar 2007; af 866.359 kr. frá þeim degi til 4. apríl 2007; af 1.096.290 kr. frá þeim degi til 11. júní 2007; af 1.172.769 kr. frá þeim degi til 2. ágúst 2007; af 1.251.504 kr. frá þeim degi til 6. september 2007; af 1.330.135 kr. frá þeim degi til 28. september 2007; af 1.409.539 kr. frá þeim degi til 26. nóvember 2007; af 1.490.444 kr. frá þeim degi til 12. desember 2007; af 1.569.219 kr. frá þeim degi til 1. febrúar 2008; af 1.729.633 kr. frá þeim degi til 7. maí 2008, af 2.223.099 kr. frá þeim degi til 19. september 2008 af 2.316.787 kr. frá þeim degi til 27. janúar 2009; af 2.382.787 kr. frá þeim degi til 4. mars 2009, af 2.512.787 kr. frá þeim degi til 18. mars 2009 og af 2.662.787 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta skipti 30. ágúst 2007 en síðan árlega þann dag. Þá krefst stefnandi greiðslu málskostnaðar úr hendi stefnda að mati dómsins.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og greiðslu málskostnaður að mati dómsins.

Málsatvik og ágreiningsefni aðila

Deila þessa máls er sprottin af útgáfu skuldabréfs til stefnda sem gefið var út 9. desember 2005. Skuldari samkvæmt skuldabréfinu er Galtagil ehf., fjárhæð skuldarinnar er 3.637.770 kr. sem skyldi greiða til baka með mánaðarlegum afborgunum á sex árum. Skuldabréfið er tryggt með veði á 1. veðrétti í bifreiðinni OZ-656 sem er af gerðinni BMW árgerð 2002. Stefnandi undirritar bréfið sem veðþoli en umrædd bifreið var skráð eign hennar þann 16. desember 2005. Þann 15. desember 2005 var gefin út yfirlýsing um skuldskeytingu á þann hátt að EON arkitektar ehf., urðu aðalskuldarar í stað Galtagils ehf. og stefnandi tók á sig sjálfskuldarábyrgð. Stefnandi þessa máls er annar eigenda EON arkitekta. Stefnandi undirritaði yfirlýsinguna sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Þar sem gert var ráð fyrir undirritun nýs skuldara var hins vegar ritað „EON arkitektar ehf. 501299-2279“ en að öðru leyti er yfirlýsingin ekki undirrituð af hálfu hins nýja skuldara.

Fyrsti gjalddagi afborgunar af bréfinu var 6. febrúar 2006. Á greiðsluyfirliti frá stefnda, dags. 5. október 2010, má sjá að greitt var 37 sinnum af bréfinu, allar afborganir til og með gjalddagans í október 2008 en í mörgum tilvikum hafi verið greitt eftir gjalddaga. Samtals námu greiðslurnar 2.663.327 kr. Ekki hefur verið greitt af skuldabréfinu frá því í mars 2009.

Stefndi mun ítrekað hafa reynt að fá fram nauðungarsölu á bifreiðinni en ekki fengið bifreiðina afhenta. Í maí 2010 krafðist stefndi fjárnáms hjá stefnanda sem sjálfskuldarábyrgðarmanns vegna vanskila á grundvelli beinnar aðfararheimildar í skuldabréfinu sjálfu. Í úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 13. maí 2011 í máli Y-6/2010 var staðfest ákvörðun sýslumanns um að stöðva aðfarargerðina. Segir í úrskurðinum að á skuldskeytingarskjalinu sé aðeins ritað nafn og kennitala EON arkitekta ehf. en ekki nöfn þeirra stjórnarmanna sem sé heimilt að skuldbinda félagið. Þyki skjalið þannig undirritað ekki veita stefnda skýra heimild til aðfarar gagnvart EOS arkitektum ehf. og af sömu ástæðu því ekki vera fullgild aðfararheimild gagnvart stefnanda.

Stefnandi heldur því fram að hvorki hún né EON arkitektar ehf. séu skuldarar samkvæmt umdeildu skuldabréfi heldur Galtagil ehf. sem nú sé gjaldþrota. Stefnandi kveðst hafa frá upphafi gert athugasemdir við greiðsluskyldu sína og talið skuldaskjöl þau sem hér um ræðir óskuldbindandi fyrir sig og EON arkitekta. Þá heldur hún því fram að hún hafi persónulega greitt þær afborganir af skuldabréfinu sem greiddar hafi verið en ekki EON arkitektar ehf. Það hafi hún gert til að forða sér og fyrirtækinu frá tjóni vegna innheimtuaðgerða og þvingunaraðgerða stefnda, s.s. hótunum um að færa fyrirtækið á vanskilaskrá. Krefst hún í máli þessu endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem greitt hefur verið af láninu en stefnufjárhæðin er jafnhá samtölu afborgana og vaxta af skuldabréfinu samkvæmt yfirliti stefnda.

Stefndi telur EON arkitekta ehf. vera skuldara samkvæmt umdeildu skuldabréfi og úrskurður héraðsdóms Reykjavíkur um gildi aðfararheimildar skuldabréfsins breyti engu þar um.

Við aðalmeðferð málsins gáfu skýrslu Gunnar Bergmann Stefánsson, fyrrv. eigandi EON Arkitekta, Ómar Geir Þorgeirsson bókari og Gunnar Árnason, stjórnarmaður og annar eigandi EON arkitekta ehf., auk stefnanda málsins.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfu sína á því að hún hafi ekki með gildum hætti tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna skuldar samkvæmt umdeildu skuldabréfi og greiðslur hennar á grundvelli skuldabréfsins hafi því verið ólögmætar. Í samþykktum fyrir EON arkitekta ehf., frá árinu 1999, komi fram að undirskrift tveggja stjórnarmanna sé nauðsynleg til að binda félagið. Þessar samþykktir hafi verið í gildi í desember 2005 þegar skuldskeyting á umdeildu skuldabréfi fór fram. Slík undirskrift sé ekki á yfirlýsingu um skuldskeytingu og þar sé raunar enga undirskrift fyrir hönd EON arkitekta að finna. Þá sé heldur ekki ritað undir sjálft skuldabréfið af hálfu EON arkitekta. Félagið hafi því aldrei gerst skuldari að skuldabréfi því sem Galtagil ehf. gaf út til stefnda í desember 2005 en skuldskeyting hafi verið forsenda þess að stefnandi gengist í ábyrgð fyrir skuldinni. Það hafi stefnandi ekki gert, enda komi það illa heim og saman við undirliggjandi viðskipti málsins sem hafi falið í sér að EON arkitektar fengju bifreiðina OZ-656 sem greiðslu frá Galtagili ehf. vegna hönnunar og teiknivinnu sem þau unnu fyrir Galtagil. Þetta megi sjá af því að stefndi hafi aldrei þinglýst umræddri skuldskeytingu og hafi litið áfram svo á að Galtagil ehf. væri skuldari lánsins. Þá hafi stefndi að öllum líkindum lýst kröfu í þrotabú Galtagils ehf. vegna þessa skuldabréfs en það fyrirtæki hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta í desember 2007. Þá hafi stefndi ekki áritað skuldabréfið sjálft um skuldskeytinguna eins og þó segi í skuldskeytingaryfirlýsingunni að hafi verið gert.

Þá vísar stefnandi til 49. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1994 og laga nr. 42/1903, um verslunarskrár, firmu og prókúruumboð, varðandi heimildir til að skuldbinda félög. Þar sem EON arkitektar hafi ekki orðið skuldbundnir samkvæmt skuldabréfinu hafi stefnandi ekki orðið það heldur. Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, sé kveðið á um að ábyrgðarmaður verði ekki skuldbundinn af ábyrgðarsamningi hafi lántaki aldrei orðið skuldbundinn til að inna greiðslu af hendi samkvæmt samningi við lánveitanda. Af ákvæði 12. gr. laganna leiði að ákvæði þetta gildi um ábyrgð stefnanda þótt til hennar hafi verið stofnað fyrir gildistöku laganna. Eðli sjálfskuldarábyrgðar sé þannig að ábyrgðaraðili ábyrgist réttar greiðslur skuldara, en forsenda þess að sú ábyrgð sé virk sé að hinn upphaflegi skuldari hafi sannarlega tekist á hendur umrædda skuldbindingu. Svo hafi ekki verið í þessu tilfelli og því hafi stefnandi aldrei orðið skuldbundinn.

Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á þeim ofteknu greiðslum sem stefndi hafi tekið við úr hendi stefnanda á tímabilinu frá 30. ágúst 2006 til 18. mars 2009. Stefnanda hafi ekki borið nein skylda til að inna þessar greiðslur af hendi og hafi eingöngu gert það til að sleppa við þær innheimtuaðgerðir sem hafi ítrekað verið hótað að færu af stað gegn henni og félaginu ef ekki yrði greitt og hafi farið af stað að hluta. Réttur skuldari að skuldabréfinu hafi hins vegar verið Galtagil ehf. og hafi stefnda ítrekað verið bent á það án árangurs.

Stefndi sé sérhæft fyrirtæki á sviði trygginga- og fjármálaþjónustu og hafi á þessum árum staðið fyrir umfangsmikilli lánastarfsemi á sviði bílalána. Stefnandi sé hins vegar einstaklingur sem hafi ekki sérþekkingu á fjármálum. Að sama skapi hafi EON arkitektar ekki slíka sérþekkingu á sviði fjármála þar sem félagið sé arkitektastofa. Stefnandi hafi fengið mánaðarlegar rukkanir og verið gert ljóst að afleiðingar greiðslufalls yrðu þær að hún færi á vanskilaskrá auk vandræða sem þetta ylli fyrir EON arkitekta sem myndu hafa veruleg áhrif á rekstur félagsins, svo sem að fara á vanskilaskrá og fá ekki tryggingar fyrir verkum. Þar með væri fótunum kippt undan starfseminni hjá EON arkitektum þar sem arkitektum sem ekki hafa starfsábyrgðartryggingu sé óheimilt að starfa lögum samkvæmt. Verulegur aðstöðumunur sé því á þessum aðilum og ljóst að það hafi staðið stefnda nær að haga skjalagerð og samningum þannig að enginn vafi léki á. Megi í því samhengi vísa til reglna 36. gr. og 36. gr. a-d. í lögum nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

Með ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 19. október 2010 um að hafna kröfu um fjárnám hjá stefnanda, sem var staðfest með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur, kveðnum upp 13. maí 2011 í máli nr. Y-6/2010, hafi því verið slegið föstu að EON arkitektar ehf. væru ekki réttur skuldari að skuldabréfinu. Hafnað hafi verið kröfu stefnda um fjárnám hjá stefnanda þar sem hann hafi ekki haft til þess heimild. Ljóst sé því að stefnda hafi einnig brostið heimild til að taka við greiðslum frá stefnanda. Krafa málsins sé sundurliðuð sem hér segi eftir dagsetningu greiðslna til stefnda, sem gerð sé krafa um að verði greiddar til baka: 352.000 kr. þann 30.8.2006, 183.000 kr. þann 25.9.2006, 179.651 kr. þann 17.10.2006, 151.708 kr. þann 5.1.2007, 229.931 þann 4.4.2007, 76.479 kr. þann 11.6.2007, 78.735 kr. þann 2.8.2007, 78.631 kr. þann 6.9.2007, 79.404 kr. þann 28.9.2007, 80.905 kr. þann 26.11.2007, 78.775 kr. þann 12.12.2007, 160.414 kr. þann 1.2.2008, 493.466 kr. þann 7.5.2008, 93.688 kr. þann 19.9.2008, 66.000 kr. þann 27.1.2009, 130.000 kr. þann 4.3.2009 og 150.000 kr. þann 18.3.2009. Samtals sé krafa stefnanda því að fjárhæð 2.662.787 kr.

Með viðtöku þessara greiðslna hafi stefndi tekið við fjármunum sem hann hafi ekki átt rétt á. Í kröfurétti gildi sú meginregla að endurgreiða beri fé sem ofgreitt er. Sérstaklega ríkar skyldur séu á fjármálafyrirtækjum, líkt og stefndi er, og hafi það m.a. komið fram varðandi endurgreiðslu á ofgreiddu fé vegna sjálfskuldarábyrgða sem greiddar séu af ábyrgðarmönnum að kröfu fjármálafyrirtækja en síðar hafi komið í ljós að ábyrgðin hafi verið ólögmæt. Hafi skylda fjármálafyrirtækja til endurgreiðslu í slíkum tilfellum ítrekað komið fram í úrlausnum dómstóla.

Með lögum nr. 151/2010, um breytingu á vaxtalögum, hafi sambærileg regla verið sett um endurgreiðslu fjármálafyrirtækja um greiðslur af lánum með ólögmætri gengistryggingu.

Gerð sé krafa um dráttarvexti og vaxtavexti í samræmi við ákvæði vaxtalaga.

Verði ekki talið að stefnandi eigi lögvarða endurkröfu sé á því byggt að hann eigi skaðabótakröfu á hendur stefnda allt að stefnufjárhæð eða lægri upphæð.

Stefnandi kveðst vísa til meginreglna samninga- og kauparéttar um endurgreiðslu á ofteknu fé. Vísar hann til ákvæða 36. gr. a-d laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eftir því sem við eigi um aðstöðumun milli aðila. Þá vísar stefnandi til ákvæða laga nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, eins og við eigi, einkum 10. og 12. gr. laganna. Vísar hann til laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög varðandi heimildir til að skuldbinda félag. Vísað er til laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð. Krafa um dráttarvexti byggir stefnandi á ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Krafa um málskostnað byggist almennt á ákvæðum 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafa um að tekið verði tillit til virðisaukaskatts ofan á málsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því að stefnandi eigi ekki aðild að málinu. Krafa stefnanda eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum, stefnandi hafi aldrei greitt persónulega af skuldabréfinu heldur eingöngu EON arkitektar. Þegar af þeirri ástæðu beri að sýkna stefnda samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Með undirritun á yfirlýsingu vegna breyttra skilmála á veðskuldabréfi hafi EON arkitektar tekið við þeirri skuldbindingu sem Galtagil ehf. hafi upphaflega tekið á sig samkvæmt skuldabréfinu nr. TMB14775 hinn 15. desember 2005. Það sé alveg ljóst að með skjali þessu hafi skuldaraskipti sannarlega átt sér stað enda hafi EON arkitektar greitt afborganir og vexti af bréfinu athugasemdalaust frá fyrsta gjalddaga félagsins hinn 6. febrúar 2006 allt til 6. júlí 2008 er greiðslufall hafi orðið, eða í 28 skipti.

Stefndi hafni því að stefnandi hafi, líkt og segir í málatilbúnaði hennar, strax gert verulegar athugasemdir við umrædd skjöl og talið þau óskuldbindandi frá upphafi. Engar athugasemdir hafi borist stefnda, hvorki frá stefnanda persónulega né fyrir hönd EON arkitekta, enda hafi stefnandi hvorki lagt fram gögn né annað er geri þessar fullyrðingar hennar líklegar hvað þá sanni þær.

Þvert á móti sé ljóst að EON arkitektar hafi greitt af skuldabréfinu athugasemdalaust. Þá liggi einnig fyrir að skuldabréfið sé tilgreint sem langtímaskuld EON arkitekta í ársreikningum félagsins á árunum 2006, 2007 og 2008. Ársreikningar séu samþykktir af stjórn félagsins, þar með talið stefnanda og endurskoðanda. Allt séu þetta greinileg merki um það að stefnandi og aðrir hluthafar EON arkitekta hafi talið félagið skulda stefnda þessa kröfu og að stefnandi sjálf hafi gengist í sjálfskuldar-ábyrgð.

Þá hafnar stefndi því að viðskipti stefnanda og Galtagils komi máli þessu við en í stefnu sé því lýst að stefandi hafi undirritað skuldabréfið sem veðþoli og tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð að undirlagi forsvarsmanna Galtagils á röngum forsendum. Ljóst sé að stefnandi hafi undirritað yfirlýsinguna fyrir hönd EON arkitekta. Málatilbúnaður stefnanda, þess efnis að henni hafi ekki verið ljóst fyrr en eftir undirritun skjalanna að um skuldskeytingu hafi verið að ræða, sé fjarstæðukenndur og komi ekki heim og saman við atvik máls, m..a. það að EON arkitektar greiddu af skuldabréfinu athugasemdalaust frá fyrsta gjalddaga. Greiðslurnar einar og sér séu merki um það að ætlunin hafi alltaf verið að láta EON arkitekta taka yfir skuldina samkvæmt skuldabréfinu ellegar hefði félagið ekki greitt afborganirnar og þá sérstaklega ekki athugasemdalaust.

Stefndi kveður að sjálfskuldarábyrgð eða ekki sjálfskuldarábyrgð stefnanda á skuldabréfinu breyti engu um lögmæti greiðslna aðalskuldara bréfsins. Það hafi verið EON arkitektar sjálfir sem greiddu af skuldabréfinu, ekki stefnandi. Allar kvittanir sem gefnar hafi verið út vegna afborgana af bréfinu séu á nafni EON arkitekta og hafi því ekki nokkurn tímann verið mótmælt. Ekkert bendi til þess að einhver annar en EON arkitektar hafi nokkru sinni greitt af skuldabréfinu.

Stefndi hafnar því að EON arkitektar hafi ekki orðið skuldari samkvæmt skuldabréfinu. Stefnandi sjálf undirritaði skuldskeytinguna, sem stjórnarmaður og einn af eigendum EON arkitekta. Við undirritun yfirlýsingarinnar hafi þau mistök orðið hjá stefnanda að stefnandi hafi ritað með eigin hendi aðeins „501299-2279 EON arkitektar ehf.“ en ekki nafn sitt jafnframt. Nafn sitt hafi stefnandi svo ritað fullum stöfum sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. Stefnandi hafi aldrei borið fyrir sig, þegar EON arkitektar greiddu stefnda samkvæmt skuldabréfinu, að undirritun væri ábótavant. Hafi eitthvað verið athugavert við undirskrift stefnanda fyrir hönd félagsins þá sé ljóst að eftirfarandi hegðun hennar, bæði persónulega og fyrir hönd félagsins, hafi verið með þeim hætti að jafna megi því við það að hún hafi marglýst því yfir að EON arkitektar væru réttur skuldari. Lög nr. 32/2009, um ábyrgðarmenn, komi máli þessu ekki við, enda hafi það ekki verið ábyrgðarmaður sem hafi greitt afborganir af skuldabréfinu heldur aðalskuldari sjálfur.

Stefndi hafnar því að aðstöðumunur í viðskiptum aðila eigi að leiða til þess að stefnandi geti borið fyrir sig 36. gr. a-d laga nr. 7/1936. Um venjulega viðskiptahætti hafi verið að ræða og stefndi hafi ekki nýtt sér með neinu móti aðstöðu sína. Hér sé um stöðluð skjöl að ræða, skjöl sem stefndi og fjöldi annarra aðila noti ítrekað í viðskiptum sínum við einstaklinga. Aðalskuldari sé fyrirtæki í atvinnurekstri og stefnanda hafi borið að lesa skuldaskjölin áður en hún undirritaði þau fyrir hönd fyrirtækisins. Stefndi hafi beint rukkun sinni að EON arkitektum því félagið sé aðalskuldari eftir skuldskeytinguna og hafi innheimta gegn félaginu verið með sama hætti og gagnvart öllum öðrum viðskiptamönnum stefnda sem séu í vanskilum.

Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. Y-6/2010 hafi einungis verið deilt um það hvort stefndi hefði nægilega skýra heimild til beinnar aðfarar hjá stefnanda sem sjálfskuldarábyrgðarmanni á skuldabréfi. Túlkun stefnanda á dómi þessum sé frjálsleg að mati stefnda sem hafni því alfarið að dómstóllinn hafi með úrskurði sínum slegið því föstu að EON arkitektar væru ekki réttur skuldari að skuldabréfinu.

Loks hafni stefndi því að stefnandi eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda. Ekki verði séð á hvaða grundvelli stefnandi telji sig eiga rétt til bóta eða fyrir hvaða tjón. Þá leiði stefnandi hvorki líkur að né sanni að stofnast hafi skaðabótaskylda hjá stefnda gagnvart henni. Grundvallarreglur í skaðabótarétti séu að sá sem krefjist bóta verði að sanna bæði tjón sitt og bótaskyldu þess sem krafinn er. Stefnandi í máli þessu hafi hvorugt tekist.

Að öllu ofangreindu virtu liggi fyrir, að mati stefnda, að sýkna beri hann af öllum kröfum stefnanda. Verði ekki fallist á sýknukröfu þá sé byggt á því að allar kröfur frá því fyrir 18. maí 2008 séu fyrndar, sbr. 3. gr. laga. nr. 150/2007, um fyrningu kröfuréttinda.

Varðandi lagarök byggir stefndi sýknukröfu sína á 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála og meginreglum samninga- og kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa stefnda byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krafan um að tekið verði tillit til 25,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun við ákvörðun málskostnaðar byggist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt þar sem lögmönnum er gert skylt að innheimta virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Stefndi reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og honum sé því nauðsynlegt að gætt sé þessa við ákvörðun málskostnaðar.

Niðurstaða

Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um endurgreiðslu afborgana af skuldabréfi sem greitt var af á tímabilinu 30. ágúst 2006 til 18. mars 2009. Óumdeilt er að stefnandi ritaði undir skuldskeytingu á umræddu skuldabréfi sem sjálfskuldarábyrgðarmaður þann 15. desember 2005. Hins vegar telur hún að ófullnægjandi undirritun fyrir hönd aðalskuldara, EON arkitekta ehf., á umrædda skuldskeytingu eigi að leiða til þess að hvorki hún persónulega né EON arkitektar ehf. séu skuldbundin til að greiða skuldabréfið.

Svo sem að framan er rakið er umdeild skuldskeyting undirrituð af hálfu stefnanda sem sjálfskuldarábyrðarmanns. Hins vegar er nafn EON arkitekta ehf. og kennitala rituð í reitinn sem ætlaður er undirritun aðalskuldara. Fyrir liggur að stefnandi er annar eigandi einkahlutafélagsins EON arkitekta. Á þeim tíma þegar umrætt skjal var undirritað voru eigendur félagsins tveir, stefnandi og Gunnar Bergmann Stefánsson, og skipuðu þau stjórn félagsins. Samkvæmt 16. gr. samþykkta félagsins þarf undirskrift beggja stjórnarmanna til að skuldbinda félagið sbr. og 1. mgr. 49. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Því hefðu stefnandi og meðeigandi hennar með réttu átt að undirrita skuldskeytingu þessa. Af þessu má ljóst vera að yfirlýsingin um skuldskeytingu var ekki undirrituð með fullnægjandi hætti. Stefnandi heldur því fram að þetta eigi að leiða til þess að hvorki hún né EON arkitektar hafi tekist á hendur neinar skyldur samkvæmt skuldabréfinu.

Við mat á því hvort þessi ágalli á undirskrift eigi að leiða til þess að EON arkitektar ehf. hafi aldrei orðið skuldarar að skuldabréfinu verður í fyrsta lagi að líta til þess að greitt var af skuldabréfinu í hálft annað ár alls 28 greiðslur, sumar á gjalddaga og aðrar eftir að stefndi hafði hafið innheimtutilraunir vegna greiðsludráttar. Stefnandi heldur því fram að félagið og hún hafi frá upphafi mótmælt greiðsluskyldu sinni. Ekkert í gögnum málsins styður þessa staðhæfingu stefnanda og henni er mótmælt sem rangri af hálfu stefnda. Staðhæfingar stefnanda um að greiðsluskyldu hafi verið andmælt eru því ósannaðar.

Þá bendir framsetning í ársreikningum EON arkitekta á árunum 2006-2009 til þess að félagið hafi yfirtekið skuldabréfið en skuld samkvæmt skuldabréfinu er getið sem langtímaskuldar fyrirtækisins við stefnda í ársreikningum þessara ára. Fyrir dómi bar Ómar Geir Þorgeirsson, sem annaðist gerð ársreikninga félagsins á umræddum tíma, að þessi háttur hefði verið hafður á með hliðsjón af almennum varkárnisjónarmiðum þar sem um umdeilda kröfu á hendur félaginu hafi verið að ræða. Þó er engan fyrirvara að finna í efnahagsreikningi félagsins og skuldin færð inn öll árin án athugasemda um réttmæti kröfunnar. Í ársreikningi félagsins árið 2011 er skuldarinnar hins vegar ekki getið og gaf vitnið þá skýringu á því að með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur frá 13. maí 2011 hefðu menn talið víst að kröfunni yrði ekki haldið uppi gagnvart fyrirtækinu. Verður sú skýring á breyttri framsetningu ársreiknings fyrirtækisins að teljast fremur ótrúverðug í ljósi þess að úrskurður héraðsdóms laut einvörðungu að túlkun ákvæðis skuldabréfsins um aðfararhæfi kröfunnar án undangengins dóms eða réttarsáttar.

Þá heldur stefnandi því fram að EON arkitektar hafi aldrei greitt af skuldabréfinu heldur hafi hún persónulega staðið skil á þeim greiðslum. Fyrir liggur að EON arkitektar eru skráður skuldari á grundvelli umdeildrar skuldskeytingar. Í öllum tilvikum var greiðsluseðlum og innheimtuaðgerðum beint að fyrirtækinu og allar greiðslukvittanir gefnar út til þess félags. Stefndi mótmælir því að honum hafi nokkru sinni verið gerð grein fyrir því að stefnandi væri að greiða í eigin nafni en ekki í nafni félagins. Gegn staðhæfingu stefnanda verður að leggja til grundvallar í málinu að greiðslur hafi borist stefnda frá EON arkitektum en ekki henni sjálfri.

Þegar það sem að framan er rakið er virt í heild verður að leggja til grundvallar úrslausn málsins að EON arkitektar hafi í verki tekið á sig greiðsluskyldu í samræmi við efni skuldabréfsins og yfirlýsingu um skuldskeytingu. Gallar á undirritun á skuldskeytingu hefur því hvorki áhrif á greiðsluskyldu EON arkitekta né stefnanda sjálfrar. Verður í þessu sambandi að hafa í huga að ekki er um það deilt að stefnanda, sem var annar eigandi og stjórnarmaður fyrirtækisins, var fullkunnugt um tilvist og efni skuldskeytingarinnar og undirritaði bæði upphaflega skuldabréfið sem veðþoli og skuldskeytingu sem sjálfskuldarábyrgðarmaður. Það hefur ekki þýðingu í málinu þótt umræddri skuldskeytingu hafi ekki verið þinglýst og hennar ekki getið á frumriti skuldabréfsins sjálfs. Þá er ekki hald í þeirri málsástæðu stefnanda að stefndi hafi lýst kröfum samkvæmt skuldabréfinu í bú Galtagils ehf. sem eigi að renna stoðum undir þá fullyrðingu hennar að skuldabréfið hafi í raun alltaf verið lán til þess fyrirtækis. Stefndi varð við áskorun stefnanda um að leggja fram kröfulýsingar í bú Galtagils ehf. og er þar ekki að finna kröfu samkvæmt umdeildu skuldabréfi. Þá er ekkert fram komið sem veitir vísbendingu um að ógildingarástæður 36. gr. laga nr. 7/1936 komi til álita í málinu.

Samkvæmt ofangreindu er ekki fallist á það með stefnanda að um ógilda skuldskeytingu sé að ræða og af þeim sökum er því hafnað að stofnast hafi réttur til endurgreiðslu greiddra afborgana af skuldabréfinu. Er því ekki þörf á að fjalla nánar um það hvort rétturinn til endurgreiðslu hafi flust yfir til stefnanda þegar af þeirri ástæðu að ekki er fallist á að slíkur réttur hafi yfirhöfuð stofnast. Krafa stefnanda um skaðabætur hefur ekki verið rökstudd frekar eða studd gögnum. Er henni því einnig hafnað.

Samkvæmt ofangreindu er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Með hliðsjón af úrslitum máls og vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn 350.000 kr. að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Ingibjörg Þorsteinsdóttir kveður upp dóminn.

D ó m s o r ð

Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfu stefnanda, Hlédísar Sveinsdóttur. Stefnandi skal greiða stefnda 350.000. kr. í málskostnað.