Hæstiréttur íslands

Mál nr. 152/2003


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Matsgerð
  • Meðdómsmaður
  • Heimvísun


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. nóvember 2003.

Nr. 152/2003.

Knútur Jeppesen

(Haraldur Blöndal hrl.)

gegn

Orkuveitu Reykjavíkur

(Hákon Árnason hrl.)

 

Skaðabætur. Matsgerð. Meðdómsmenn. Heimvísun.

Talið var að niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, hafi verið byggð á sjálfstæðri rannsóknarvinnu og dómarar með því farið út fyrir hlutverk sitt. Þóttu slíkir annmarkar á héraðsdómi að ekki yrði hjá því komist að ómerkja héraðsdóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. apríl 2003. Hann krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefnda vegna vatnstjóns á sumarbústað áfrýjanda á Grjóteyri „í Andakílshreppi hinum forna“ í desember 2000. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf. til réttargæslu.

Mál þetta á rætur að rekja til tjóns er varð af völdum sprunginna röra í heitavatnskerfi í sumarbústað áfrýjanda síðari hluta desember 2000. Eins og fram kemur í héraðsdómi voru dómkvaddir tveir matsmenn vegna þess vatnstjóns sem um ræðir í málinu. Eru þar raktar spurningar matsbeiðanda, sem ranglega er í héraðsdómi sagður hafa verið áfrýjandi, og svör matsmanna við þeim. Samkvæmt gögnum málsins var haldinn matsfundur að Grjóteyri 19. ágúst 2002 og könnuðu matsmenn þau gögn sem fyrir þá voru lögð. Töldu matsmenn að mestar líkur væru á því að orsök tjónsins mætti rekja til stíflu á síu í inntaki vatns í sumarbústaðnum og þar með hafi vatnsrennsli gegnum hitakerfi hússins stöðvast. Við það hafi húsið kólnað og vatnslagnir sprungið, þar á meðal inntakssía. Einnig töldu þeir að hefði bakrásarloki (slaufuloki) stíflast myndi þrýstingur í hitakerfinu hafa aukist það mikið að öryggislokar hefðu opnast og leitt vatn í niðurfall, að því tilskildu að öryggislokar væru í lagi. Hefur áfrýjandi meðal annars byggt á niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna. Stefndi hefur hins vegar vefengt niðurstöðu matsins, en hann telur að vegna bilunar í bakrásarloka hafi vatnsstreymi frá sumarbústað áfrýjanda ekki verið í lagi og ósannað sé því að tjónið megi rekja til stíflaðrar inntakssíu eða bilunar í inntaksbúnaði stefnda. Ekki var óskað eftir yfirmati til að meta þetta atriði frekar. Byggði stefndi ályktanir sínar aðallega á skýrslum Guðmundar Þ. Brynjúlfssonar verkstjóra hjá stefnda, Guðjóns Árnasonar pípulagningameistara, er hleypti vatninu á kerfið eftir viðgerðir, og Andrésar Hinrikssonar pípulagningameistara, er gaf stefnda álit sitt. Hinn síðastnefndi kom hvorki að viðgerðum líkt og hinir tveir, né var hann dómkvaddur til álitsgjafar og gaf hann ekki skýrslu fyrir dómi.

Héraðsdómur var skipaður tveimur sérfróðum meðdómsmönnum. Eins og fram kemur í endurritum frá þinghöldum fór dómurinn á vettvang að sumarhúsi áfrýjanda. Í héraðsdómi segir um þá vettvangsferð: „Við vettvangsgöngu skoðuðu hinir sérfróðu meðdómendur inntaksgrindina og þar á meðal öryggislokana. ... Á vettvangi lokuðu meðdómendur fyrir affallslögn á miðstöðvarkerfi hússins. Byggðist þá upp fullur þrýstingur á kerfinu að 6 kg/sm2. Þegar þeim þrýstingi var náð stöðvaðist rennslið. Öryggisventlar héldu, blésu ekki út. Er það álit hinna sérfróðu meðdómenda að annað hvort séu þeir fastir eða þeir þoli meiri þrýsting en er á aðveitukerfinu. Slaufuloki lokast ekki af óhreinindum, en dettur í lokaða stöðu ef aðstreymi til hans hættir. Hann opnast ekki þótt að honum komi vatn með þrýstingi, ef þreifirör er stíflað. Þegar svo er komið hleypir þrýstijafnari hækkuðum þrýstingi inn á kerfið, þangað til öryggislokar blása. Ef þeir eru fastir eða hærra stilltir en nemur þrýstingi veitunnar fer allur þrýstingur hennar inn á kerfið.” Á grundvelli þessarar athugunar hinna sérfróðu meðdómsmanna og með sérstakri skírskotun til ályktana þeirra tveggja í kjölfar skoðunar þeirra á vatnskerfi sumarhúss áfrýjanda, komust svo allir þrír dómararnir að þeirri niðurstöðu að mati hinna dómkvöddu matsmanna skyldi víkja til hliðar.

Af framlögðu endurriti úr þingbók er ljóst að vettvangsganga átti sér stað að loknum skýrslutökum fyrir dómi. Við þá vettvangsgöngu rannsökuðu sérfróðir meðdómsmenn hitakerfi hússins og gerðu á því sérstakar prófanir. Voru matsmenn og önnur vitni ekki kölluð aftur fyrir dóm í því skyni að þau yrðu þá spurð út í atriði, sem dómendur töldu sig hafa orðið áskynja við vettvangsskoðunina. Þá ber að hafa í huga að álit hinna sérfróðu meðdómsmanna byggðist ekki beinlínis á að bakrásarloki hafi verið bilaður, eins og stefndi hélt fram við meðferð málsins í héraði, heldur á því að öryggislokar hafi ekki virkað, en hvorki verður séð að um þessa öryggisloka sé svo nokkru nemi fjallað í skjölum málsins né að þeir hafi verið skoðaðir af matsmönnum. Var eins og áður segir heldur ekki beðið yfirmat eða matsmenn spurðir frekara álits.

Þrátt fyrir að lög heimili dómurum að hafa tiltekin afskipti af sönnunarfærslu fyrir dómi, er það meginregla að aðilar afli sönnunargagna og fari með forræði á sakarefni. Er dómurum ekki ætlað að gegna þessu hlutverki, hvorki á eigin spýtur, né eftir óskum málsaðila, sbr. 1. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Er sérfróðum meðdómsmönnum ekki að lögum ætlað að bæta úr annmörkum á gagnaöflun málsaðila með því að leggja á grundvelli eigin þekkingar mat á atriði, sem viðhlítandi gögn skortir um. Af því sem að framan er rakið teljast dómarar í héraði hafa farið út fyrir hlutverk sitt með þeirri sjálfstæðu rannsóknarvinnu sem dómur var síðar byggður á. Með þessu tóku dómendur í raun að sér hlutverk sem yfirmatsmenn væru, þar sem þeir skírskotuðu í niðurstöðu sinni í til álits hinna sérfróðu meðdómsmanna. Hefði dómurinn getað neytt þess úrræðis að beina því til aðila að afla frekari gagna eða mats um frárennslisútbúnað í sumarhúsi áfrýjanda, sbr. 2. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991. Samkvæmt framangreindu eru slíkir annmarkar á héraðsdómi að ekki verður hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands 29. janúar 2003.

                Mál þetta var höfðað með framlagningu stefnu í dóm 21. maí 2002. Það var tekið til dóms að lokinni aðalmeðferð 9. janúar 2003.

                Stefnandi málsins er Knútur Jeppesen, kt. 101230-8059, Dísarási 1 Reykjavík. Stefnt er Orkuveitu Reykjavíkur, kt. 551298-3029, Suðurlandsbraut 34 Reykjavík. Til réttargæslu er stefnt Vátryggingafélagi Íslands hf., kt  690689-2009, Ármúla 3 Reykjavík.

 

                Dómkröfur

                Upphafleg kröfugerð stefnanda: Hann krefst þess að stefnda greiði honum kr. 8.031.734 með  vöxtum skv. II. kafla vaxtalaga 25/1987 frá 1. janúar 2001 til 7. febrúar 2001  en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum skv.  9. gr. vaxtalaga nr. 38, 26. maí 2001 um vexti og verðtryggingu, frá þeim degi til greiðsludags, og málskostnað skv. reikningi eða mati dómsins.

                Upphafleg kröfugerð stefndu: Hún krefst þess aðallega, að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlækkaðar og málskostnaður felldur niður.

                Á hendur réttargæslustefnda eru ekki gerðar kröfur og hann gerir engar kröfur.

                Við upphaf aðalmeðferðar lýstu lögmenn aðila yfir því að þeir væru sammála um að málið yrði nú einungis flutt um meinta bótaskyldu stefndu, sbr. 31. gr. laga nr. 91/1991. Ákveðið var að skipta sakarefni þannig. Í þessum hluta máls er því kröfugerð stefnanda þannig:

                Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði skaðabótaskylda stefndu vegna vatnstjóns á sumarbústað stefnanda á Grjóteyri í Andakílshreppi hinum forna í desember 2000. Hann krefst málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins.

                Stefnda krefst þess að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda. Hún krefst málskostnaðar að mati dómsins.

 

                Málavöxtum er svo lýst í stefnu, að í lok desembermánaðar 2000 hafi orðið gífurlegt vatnstjón á sumarbústað stefnanda á Grjóteyri í Andakílshreppi hinum forna, en heitt vatn hafi þá flætt út úr sprungnum tengihlutum í stjórnbúnaði heita vatns kerfisins og inntaksgrind hitaveitunnar. Pétur Hannesson, starfsmaður Hitaveitu Borgarness og starfsmaður réttargælustefnda hafi komið á vettvang og skoðað aðstæður og tekið myndir. Í skýrslu Guðmundar Þ. Brynjúlfssonar, verkstjóra Hitaveitu Borgarness, dags. 21. febrúar 2001, segi um skemmdir m.a.: ,,Eftirfarandi tengistykki/tengingar voru sprungnar og flæddi úr: a) búnaður húseiganda: sía á bakrennsli og aftæmiloki á heitu neysluvatni auk þess hafði blöndunartæki í sturtu sprungið frá og tengirör fyrir blöndunartæki undir handlaug togast í sundur beggja megin. Úr þessum neysluvatnsstútum flæddi bæði heitt og kalt vatn. b) búnaður Hitaveitunnar: inntakssía og loki fyrir hitakerfið.”

Þá hafi einnig verið kallaður til Guðjón Árnason, pípulagningameistari í Borgarnesi, til þess að gera við búnað stefnanda.  Hann hafi gefið út vottorð um viðgerðir sínar og segi þar (orðrétt): ,,Ég var kallaður í sumarhús á Grjóteyri að kvöldi 30/12 00 vegna frostskemmda í hitaveitugrind og skipti þar um renniloka og einnig var bakrenslissía  sprungin og gerði ég við þetta og hleypti vatni á kerfið en fékk ekki vatn í gegnum kerfið fyrr en búið var að skipta um bakþrýstingsloka og tel ég að hann hafi verið orðinn fastur. “

                Þá vitnar stefnandi í framangreinda skýrslu Guðmundar Brynjúlfssonar þar sem segir: ,,Hvað þetta einstaka hús snertir kom viðgerðarmaður frá veitunni í það 19/4 1998 og 14/4 1999 í tengslum við viðgerðir á heimæð sem er sameiginleg fyrir hús Knúts og gamla bæinn. Það er föst venja í slíkum tilvikum að hreinsa síur og ganga úr skugga um að stjórnbúnaður virki eftir að hleypt hefur verið á heimæðina að nýju. Síðasta heimsókn Hitaveitunnar í húsið var þegar álestrarmaður kom þangað 20. nóv. sl. og kveðst hann ekki hafa orðið var við neitt óeðlilegt, enda venja að tilkynna strax um slíkt verði þess vart.”

                Þá segir stefnandi að með bréfi, dags. 7. febrúar 2001, hafi hann krafið stefndu um bætur vegna tjónsins. Hinn 23. febrúar 2001 hafi Hitaveita Borgarness lýst  þeirri skoðun sinni, að ekki væri um bótaskylt tjón að ræða, og hafi  það verið ítrekað með bréfi stjórnar fyrirtækisins 24. marz 2001. Hinn 20. apríl 2001 hafi lögmaður stefnanda óskað eftir því við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, að hún athugaði tengihluti og síur er höfðu skemmst í tjóninu og reyndi að leggja mat á orsakir tjónsins.

Ragnheiður Þórarinsdóttir verkfærðingur hafi unnið skýrsluna fyrir Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og lokið henni 15. maí 2001.  Í skýrslunni komi m.a. fram, að þeir hlutir sem skoðaðir voru hafi allir sprungið vegna þrýstings í kerfinu. Þá segi: “Inntakssía var illa farin, 6 cm löng sprunga að utanverðu og sían sjálf var einnig sprungin, sjá mynd 5. Sían var tærð og full af óhreinindum. Sía af bakrennsli leit betur út, sían var heil, en þó var einnig nokkuð magn útfellinga í henni sjá mynd 6.”  

Ragnheiður telji ljóst að þrýstingur í kerfinu hafi hækkað verulega með þeim afleiðingum að ýmsir hlutar kerfisins sprungu, og hafi slíkt getað gerst ef þrýstihögg hafi orðið í kerfinu eða frosið í því. Hún telji mögulegar ástæður tjónsins hafa getað verið: 1, að rennsli hitaveituvatns til hússins hafi stöðvast tímabundið; 2, að skrúfað hafi verið fyrir inntak eða úttak hússins; 3, að lokað hafi verið fyrir ofna og mikið frost hafi verið; 4, stífla í kerfinu hafi stöðvað rennsli og 5, að stjórnbúnaður kerfisins hafi bilað.  Hún telur ekki miklar líkur á skýringum 1 til 3, en um lið 4 segi hún:

,, Inntakssían var verulega tærð og full af óhreinindum. Stór sprunga var á síunni sjálfri, sem hefur að öllum líkindum myndast þegar sían sprakk. Þar sem sían var full af óhreinindum getur vatnsstreymi hafa stöðvast eða a.m.k. verið tregt áður en sían sprakk. Mögulegt er að vatnsstreymi frá húsinu hafi stöðvast. Upplýsingar fylgja um að hitakerfinu hafi verið komið á aftur eftir tjónið, en engar upplýsingar benda til þess að vatnsstreymi frá húsinu hafi þá verið í ólagi. Hafi rennsli hins vegar verið afar tregt í húsinu, t.d. vegna stíflaðrar síu getur hugsanlega hafa frosið tímabundið í frárennsli. Í framhaldinu hefur getað frosið í lögn í húsinu.”

                Stefnandi segir að Ragnheiður leggi ekki dóm á skýringarlið 5. Niðurstöður hennar séu þessar: ,,Af athugun á aðsendum síum og lokum, ásamt upplýsingum þeim sem fylgdu með þykir ljóst að innstreymi hitaveituvatns hafi stöðvast tímabundið þannig að fraus í kerfinu. Þrýstingur hefur þar með aukist með þeim afleiðingum að kerfið sprakk á nokkrum stöðum.

                Í framangreindri umfjöllun hefur verið leitast við að leita orsaka þessa og þykir flest benda til þess að stífluð sía hafi getað valdið tjóninu, þótt ekki sé hægt að útiloka hina möguleikana sem upplistaðir eru án frekari upplýsinga.”

                Þrátt fyrir þessa skýrslu og niðurstöðu hennar hafi bótaskyldu verið hafnað, og því sé málsókn óhjákvæmileg.  Stefnda og Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar hafi nú sameinast og hafi stefnda yfirtekið allar skuldbindingar Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar.

 

Í málsatvikalýsingu stefnda er frá því greint, að þriðjudaginn 30. desember 2000 hafi Blængur Alfreðsson hreingerningamaður í Borgarnesi hringt í bakvaktarmann Hitaveitu Borgarness, Pétur Hannesson, og tilkynnt honum um vatnstjónið í sumarhúsi stefnanda á Grjóteyri. Um sé að ræða gamalt timburhús. Fyrr þennan sama dag hafi lögmaður stefnanda farið ásamt öðrum manni í bústaðinn til að sækja þangað muni, en eiginkona  stefnanda sé systir lögmannsins.  Hafi bústaðurinn verið í klakaböndum er lögmaðurinn kom að og ekki unnt að komast inn. Hafi  lögmaðurinn leitað til umboðsmanns réttargæslustefnda í Borgarnesi er bent hafi á fyrr nefndan Blæng Alfreðsson. Hann hafi farið með lögmanninum á staðinn og tekist að spenna upp útidyrahurðina. Hafi bústaðurinn þá verið fullur af gufu að sögn lögmannsins og heitt vatn upp að þröskuldum, en heit buna staðið út úr inntaksröri fyrir framan gjaldmælinn. Hefði verið auðséð, að heitt vatn hefði lekið þarna um nokkurn tíma.  Pétur Hannesson hafi einnig komið á staðinn og séð að mikið tjón hafði orðið á bústaðnum við að heitt vatn hafði flætt út úr sprungnum tengihlutum í stjórnbúnaði hitakerfisins og inntaksgrind Hitaveitunnar. Vitnar stefnda síðan til lýsingar Guðmundar Brynjúlfssonar á skemmdum á tengihlutunum, sbr. tilvitnun hér að framan. Hafi Pétur fengið Guðjón Árnason pípulagningameistara, Borgarnesi, til að gera við tengihlutina er tilheyrðu húseiganda og koma hita á húsið á ný, en sjálfur hafi Pétur endurnýjað tengihluti tilheyrandi Hitaveitunni.  Sjá skriflega frásögn Guðjóns hér að framan.

Daginn eftir hafi Guðmundur Þ. Brynjúlfsson, verkstjóri Hitaveitu Borgarness, farið ásamt Pétri Hannessyni til eftirlits í bústaðinn. Þá hafi komið í ljós að tveir ofnar við norðurhlið láku lítillega, og hafi þeir skrúfað fyrir ofnana.  Varðandi spurninguna um það, hvað hefði valdið því að vatnsrennsli stöðvaðist inn á kerfið með þeim afleiðingum að fraus í kerfinu og tengibúnaðurinn sprakk, þá hafi verkstjórinn talið nokkuð ljóst, að tengistútur niður úr membru bakþrýstingslokans [þ.e. neðan í slaufulokanum] (sem tilheyrir húseiganda) hefði lokast að fullu (stíflast) og rennslið stöðvast af þeim sökum með fyrrgreindum  afleiðingum.  Sé mjög algengt, að ryðmyndun (útfelling) verði í þessum tengistútum á þeim membrum sem komnar séu til ára sinna. Hafi verkstjórinn ritað skýrslu um atvik og orsök tjónsins, dags. 21. febrúar 2001, þar sem þetta komi fram.

Með bréfi 7. febrúar 2001 til réttargæslustefnda hafi af hálfu stefnanda verið gerð sú krafa, að tjónið á sumarbústaðnum yrði bætt úr vátryggingu Hitaveitu Borgarfjarðar hjá réttargæslustefnda. Hafi stefnandi talið, að ástæða þess að kerfið lokaðist hefði getað verið sú, að aðkomuefni hefði borist með heitavatninu og það stíflað bakþrýstingslokann [Svo í grg. Rétt mun vera inntakssíuna. Aths. dómenda] auk þess sem rör fyrir framan hitaveitugrind hefði gefið sig. Mætti þannig rekja vatnstjónið til ástæðna sem Hitaveitan bæri ábyrgð á (dskj. 5). Hitaveitan hafi hins vegar talið á grundvelli áðurnefndrar skýrslu Guðmundar Þ. Brynjúlfssonar verkstjóra, að  tjónið væri að rekja til stíflu í búnaði í eigu húseiganda og ekki um að ræða tjón, sem Hitaveitan gæti borið ábyrgð á. Var bótakröfu stefnanda að svo komnu hafnað. Stefnandi hafi þá leitað til Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins um athugun á viðkomandi tengihlutum og mat  á orsökum tjónsins.  Vísar stefnda til skýrslu stofnunarinnar, Ragnheiðar Ingu Þórðardóttur verkfræðings, dags. 14. maí 2001, sem lýst er hér að framan.  Verkfræðingnum hafi þótt fyrstu þrjár tjónsásæður ekki mjög líklegar, flest benda til fjórðu tjónsástæðu, en til fimmtu tjónsástæðu hafi hún ekki tekið afstöðu.  Tekur stefnda upp niðurstöður Ragnheiðar sem gerð er grein fyrir í málavaxtalýsingu stefnanda, og einnig það sem þar er haft eftir henni um fjórðu tjónsástæðuna, að inntakssían hafi verið verulega tærð og full af óhreinindum og gæti vatnsrennsli af þeim sökum hafa stöðvast, eða a.m.k verið tregt áður en sían sprakk. Hafi stór sprunga verið á síunni, sem hafi að öllum líkindum myndast er sían sprakk.  Þá segir verkfræðingurinn einnig mögulegt, að vatnsstreymið frá húsinu hafi stöðvast.  Upplýsingar fylgi um að hitakerfinu hafi verið komið á aftur eftir tjónið en engar upplýsingar bendi til þess, að vatnsstreymi frá húsinu hafi þá verið í ólagi .  Virðist verkfræðingurinn skv. þessu ekki hafa haft undir höndum skýrslu Guðjóns Árnasonar pípulagningameistara, þar sem  komi fram að ekki hafi verið hægt að fá vatn gegnum kerfið fyrr en skipt hafði verið um bakþrýstingsloka.  Þá segi verkfræðingurinn, að hafi rennsli hins vegar verið afar tregt í húsinu, t.d vegna stíflaðrar síu geti hugsanlega hafa frosið tímabundið í frárennsli. Í framhaldinu hafi getað frosið í lögn hússins. Er niðurstaða verkfræðingsins sú, að innstreymi hitaveituvatns hafi stöðvast tímabundið þannig að fraus í kerfinu.  Þyki honum flest benda til þess að stífluð sía hafi getað valdið tjóninu, þótt ekki sé hægt að útiloka hina möguleikana.

Að fengnu þessu áliti stofnunarinnar hafi réttargæslustefndi leitað álits Andrésar Hinrikssonar, pípulagningarmeistara, á orsökum tjónsins. Hafi hann talið, eftir að hafa skoðað gögn málsins, að ástæðan fyrir því að vatnsrennslið í bústaðinn stöðvaðist væri bakþrýstingslokinn, þ.e. að membran hefði stíflast, þar sem þreifirör eða stútur neðst í membru hefði lokast vegna ryðs eða útfellinga. Þá hafi pípulagningameistarinn talið algert skilyrði, þar sem þetta væri ekki heilsársbústaður, að miðstöð væri á lokuðu kerfi og hægt að loka fyrir og tæma neysluvatnslagnir eftir notkun.  Réttargæslustefndi hafi einnig leitað frekari skýringa hjá Hitaveitunni, sem verið hafi sömu skoðunar og áður um ástæður tjónins, þ.e. að tjónsorsök væri ekki óhreinindi í inntakssíunni, heldur stíflan í þreifararörinu fyrir bakrennslislokann.  Einnig var bent á, að Hitaveitan hreinsaði inntakssíuna, ef kvörtun kæmi frá húseiganda um slakt heitavatnsrennsli eða heimæð bilaði, eða aðrar vísbendingar væru um að veruleg óhreinindi gætu borist í inntak.  Að þessu virtu og þar sem því áliti Hitaveitunnar og Andrésar Hinrikssonar pípulagningameistara um að tjónsorsök væri ekki óhreinindi í inntakssíunni, heldur stífla í membru [þ.e. þreifiröri. Aths. dómenda] bakþrýstilokans, hefði ekki verið hnekkt með skýrslu Rannsóknastofnunarinnar, þá hefði bótakröfu stefnanda áfram verið hafnað.

 

                Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja málsókn sína því að rekja megi tjón það, er varð á sumarbústað hans, til þess að þeir hlutar í inntaki hitaveitulagnarinnar, sem stefndi ber ábyrgð á, hafi bilað, sbr. 8. gr. reglugerðar um Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar nr. 664/1995, sbr. ályktarorð Ragnheiðar Þórarinsdóttur í skýrslu hennar, sem rakin eru framar í dóminum. Því er haldið fram, að 22. gr. reglugerðarinnar hafi ekki lagastoð, en reglugerðin sé eingöngu sett á grundvelli orkulaga nr. 59, 29. apríl 1967, en í 82. gr. þeirra laga, sem reglugerðin styðst við, séu engin ákvæði sem heimila takmörkun bótaskyldu.  En jafnframt er því haldið fram, að tjónið verði ekki rakið til neinna þeirra atvika, sem þar eru upp talin.  Þvert á móti sé það ljóst af lýsingu á inntakssíu hússins, að eftirliti með síunni hafi verið ábótavant, þar sem hún hafi verið full af óhreinindum. Hafi aðrir hlutar inntakskerfisins stíflast, þá hafi það verið bein afleiðing stíflunnar í inntakssíunni. Þá sé þess enn að geta, að hafi stífla orðið fyrst í bakrennslissíu eða bakþrýstiloka, hefði það leitt til þess, að vatn hefði kólnað í átt að inntakinu og ofnar sprungið eða leiðslur rifnað, áður en inntakslokinn sprakk, enda bæði ofnar og lagnir úr mun veikara efni en inntakslokinn. Þá hefði heitt vatn átt þar greiðan aðgang í gegn, og þrýstingnum hefði létt á inntakslokanum. Það, að lokinn hafi sprungið, bendi ótvírætt til þess, að hann hafi stíflast og síðan sprungið vegna frostþenslu, eða galli hafi verið í lokanum, en ábyrgðin sé stefnda, hvort heldur sem væri. Þegar þrýstingur hafi fallið af kerfinu, hafi síðan orðið smávægilegar frostskemmdir á tveimur ofnum, en ekkert tjón orðið af því.

Við aðalmeðferð var að hálfu stefnanda vísað til matsgerðar dómkvaddra matsmanna til stuðnings málsástæðum hans. 

Stefnandi krefst málskostnaðar  með vísan í málskostnaðarkafla einkamálalaga nr. 91/1991.

Málinu er stefnt inn á brotavarnarþingi.

 

Málsástæður og lagarök stefndu

Sýkukrafa stefndu er á því byggð, að ekki sé sannað að hið umstefnda tjón á sumarbústað stefnanda sé að rekja til atvika, sem stefndi geti borið á skaðabótaábyrgð að lögum.

Stefnda telur að í áliti Ragnheiðar Ingu Þórðardóttur, verkfræðings hjá Rannsóknastofnun Byggingariðnaðarins,  um líklega tjónsorsök felist ekki sönnun þess, að tjónið sé að rekja til stíflaðrar inntakssíu svo sem verkfræðingnum þyki “flest benda til”. Mótmælir stefnda álitinu sem röngu og ófullnægjandi.  Á því sé sá megingalli að verkfræðingurinn hafi þar ekki tekið afstöðu til þeirra orsakamöguleika sem Guðmundur Þ. Brynjúlfsson hjá Hitaveitunni og Andrés Hinriksson pípulagningameistari töldu að valdið hefðu tjóninu, sem séu að vatnsstreymi frá húsinu hafi stöðvast sökum þess að tengistútur í þreifiröri bakþrýstilokans hefði stíflast.  Komi og fram í álitsgerð verkfræðingsins, að hún hafi ranglega staðið í þeirri trú að ekkert benti til þess að vatnsstreymi frá húsinu hafi verið í ólagi, þegar hitakerfinu var komið á aftur, en Guðjón Árnason pípulagningameistari, sem hleypti vatninu á, hafi einmitt sagst ekki hafa getað komið vatninu gegnum kerfið fyrr en hann hefði skipt um bakþrýstingslokann.  Sé þannig ljóst að vatnsstreymið frá húsinu hafi ekki verið í lagi. Svo virðist sem verkfræðingurinn hafi ekki vitað um þetta. Álitsgerð verkfræðingsins sé haldlaus sem sönnunargagn vegna framangreindra annmarka.  Við aðalmeðferð var einnig af hálfu stefndu mótmælt niðurstöðu dómkvaddra matsmanna um orsök vatnstjónsins. Ekkert liggi  fyrir um að inntakssían hafi verið stífluð þó óhreinindi hafi verið í henni.  Ekkert hafi heldur komið fram sem bendi til bilunar í inntaksbúnaðinum tilheyrandi Hitaveitunni. Sé því ósannað að tjónið sé að rekja til stíflaðar inntakssíu eða til bilunar í inntaksbúnaði Hitaveitunnar, svo sem stefnandi heldur fram.  Standi óhögguð  sú skýring þeirra Guðmundar og Andrésar að tjónið sé að rekja til bakþrýstilokans, en hann tilheyri alfarið stefnanda.

 

Þá segir stefnda það rangt, sem stefnandi haldi fram, að eftirliti með inntakssíunni hafi verið ábótavant.  Ekki hvíli á Hitaveitunni skylda til að halda uppi sjálfstæðu eftirliti og viðhaldi á inntaksbúnaði einstakra húseigenda, heldur beri eigandinn ábyrgð á búnaði og lögnum Hitaveitunnar innanhúss (eins og sínum eigin) og beri að láta Hitaveituna vita, ef vart verður bilunar eða óhreininda í inntaki, sbr. 15. gr. rgj. nr. 664/1995.  Sé það skilyrði eftirlits og viðhalds af hálfu Hitaveitunnar að húseigandi fylgist með búnaðinum og tilkynni Hitaveitunni ef eitthvað er öðruvísi en á að vera.  Inntakssían hafi verið hreinsuð 1998 og 1999 í tengslum við viðgerðir á heimæð og við álestur Hitaveitunnar skömmu fyrir tjónið eða 20. nóvember 2000 hafi einskis óeðlilegs orðið vart.  Við stefndu sé því heldur  ekkert að sakast um tjónið.

Hins vegar sé ljóst að stefnandi eigi sjálfur sök á því að tjón þetta varð.  Sumarbústaðurinn hafi ekki verið með lokað kerfi með frostlög á ofnum. Það sé sjálfsögð varúðarregla, þegar sumarbústaður er yfirgefinn að vetri til, að loka fyrir vatnsrennsli og tæma neysluvatnslagnir.  Það hafi stefnandi vanrækt og því farið sem fór, þegar heitavatnskerfið stöðvaðist.  Eigi stefnandi þar ekki við aðra að sakast en sjálfan sig. Sýndi hann með þessari vangæslu verulegt gáleysi og verði því að bera tjón sitt sjálfur.

Loks byggir stefnda á því, að hún sé undanþegin bótaábyrgð á tjóninu, hvað sem öðru líði, skv. 22. gr. rgj. nr. 664/1995, en þar er Hitaveitan m.a. undanþegin tjóni vegna frostskemmda eða annarra óviðráðanlegra atvika.  Engin ákvæði séu í lögum, sem banna takmörkun á bótaábyrgð einstakra stofnana eða fyrirtækja með reglugerð, auk þess sem viðskiptavinir Hitaveitunnar undirgangist reglugerðina af frjálsum vilja við að gerast notendur Hitaveitunnar, og gagnvart þeim hafi reglugerðin því einnig samningsgildi ekki síður en lagagildi.  Sé stefnandi þannig bundinn af ákvæðum reglugerðarinnar.

 

               

Matsgerð

                Undir rekstri málsins  beiddist stefnandi þess af dóminum að dómkvaddir yrðu tveir sérfróðir og óvilhallir matsmenn til þess að meta eftirfarandi:

Hver er orsök hins umstefnda vatnstjóns í sumarbústað stefnanda? Hver er aðalorsök vatnstjónsins, ef orsakir eru fleiri en ein? Hefði verið hægt og þá hvernig að koma í veg fyrir að tjónið varð?

Matsmenn voru dómkvaddir 11. júlí 2002, þeir Karvel Karvelsson pípulagningameistari og Sigurður Þorleifsson byggingatæknifræðingur. Matsgerð þeirra er dagsett 26. september og var lögð fram í dómi 28. október 2002.

                Í matsgerð er spurningum matsbeiðni svarað í þeirri röð sem þær eru skráðar hér að framan, þannig:

                ,,Aðalorsök vatnstjónsins er að lagnir (vatnslagnir) ,,frostsprungu" vegna þess að vatnsrennsli gegnum hitakerfi hússins hefur tregðast verulega og að lokum stoppað.

                Samkvæmt skoðun okkar á staðnum, skoðun á sprungnum hlutum í vörslu héraðsdóms Borgarnesi, lestur skýrslu bæði Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins og aðkomulýsingar Guðjóns Árnasonar pípulagningameistara, þá teljum við mestar líkur á að sía í inntaki hafi stíflast og þar með hafi vatnsrennsli gegnum hitakerfi hússins stöðvast. Í framhaldinu hafi húsið kólnað niður og vatnslagnir sprungið, þar á meðal inntakssía og þar með hafi vatn átt greiða leið inní húsið. Það styður grunsemdir okkar að samkvæmt skýrslu Guðmundar Þ. Brynjúlfssonar þá hafði farið fram viðgerð á heimæð að sumarhúsinu og gamla bænum á Grjóteyri. Sennilegt er að óhreinindi hafi þá borist inní aðveitulögnina. Við teljum að hefði bakrásarloki (slaufuloki) stíflast þá hefði þrýstingur í hitakerfinu aukist það mikið að öryggislokar, sem eru tveir á kerfinu, hefðu opnast og leitt vatn í niðurfall. Að því tilskildu að öryggislokarnir séu í lagi þá hefðu lokar og síur í mælagrind væntanlega ekki frostsprungið. En sennilega hefði húsið kólnað það mikið að ofnar og neysluvatnslagnir hefðu frostsprungið. Við teljum einnig að líkurnar á því að bakrásarsía hafi stíflast vegna óhreininda vera nánast engar, þar sem að við skoðun virtist ekki vera þannig að rennsli hafi tregðast verulega vegna þess.

                Þar sem við komum að hitaveitulögnum í sumarhús og orlofshús þar sem ekki er stöðug búseta eða umferð um, þá leggjum við til að frágangur sé með þeim hætti að: Hitakerfið sé lokað frostlögskerfi með hringrásardælu. Inntökum og forhitara (millihitara) sé komið þannig fyrir að ekki sé hætta á að bústaðurinn skemmist vegna veituvatns. Annað hvort með því að koma inntökum og forhitara fyrir í lokuðu hólfi undir húsi eða í sérhúsi/kassa utanvið hús. Einnig er æskilegt að á sama stað sé tæming fyrir neysluvatn bústaðarins. Sé hlutum þannig fyrir komið og umgengni með eðlilegum hætti er nánast útilokað að vatnstjón verði vegna frostskemmda."

 

                Skýrslur fyrir dómi

                Matsmenn komu fyrir dóm og staðfestu matsgerð sína. Vitni báru einnig Guðmundur Brynjúlfsson pípulagningameistari, starfsmaður stefndu, Guðjón Árnason pípulagningameistari og Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir verkfræðingur hjá Rannsóknastofnun byggingaiðnaðarins, sem staðfesti skýrslu sína, sbr. atvikalýsingu hér að framan.

 

                Forsendur og niðurstöður

                Stefnandi byggir málsókn sína á því að rekja megi tjón það, er varð á sumarbústað hans, til þess að þeir hlutar í inntaki hitaveitulagnarinnar, sem stefndi ber ábyrgð á, hafi bilað, sbr. 8. gr. reglugerðar um Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar nr. 664/1995. Í 1. mgr. nefndrar greinar reglugerðarinnar segir að Hitaveitan leggi, kosti og eigi allar lagnir veitukerfisins, aðveituæðar, stofnæðar, dreifiæðar, heimæðar og lagnir innanhúss að og með mæligrindum ásamt tilheyrandi búnaði. Hún annist rekstur og viðhald eigin veitukerfis.

Stefnandi telur að ljóst sé af lýsingu á inntakssíu hússins, að eftirliti með síunni hafi verið ábótavant, þar sem hún hafi verið full af óhreinindum. Hafi aðrir hlutar inntakskerfisins stíflast, þá hafi það verið bein afleiðing stíflunnar í inntakssíunni. Ekki er um það deilt að inntakssía þessi er á þeim hluta heita vatns kerfisins, sem stefnda á.

                Ágreiningslaust er að aðalorsök vatnstjónsins hafi verið sú að vatnslagnir sprungu af frostþenslu vegna þess að smám saman hægði á vatnsrennsli gegnum hitakerfi sumarhússins og það stöðvaðist að lokum. Sjá matsgerð.

                Um orsök þess að vatnsrennsli stöðvaðist segja matsmenn að þeir telji ,,mestar líkur á að sía í inntaki hafi stíflast og þar með hafi vatnsrennsli gegnum hitakerfi hússins stöðvast. Í framhaldinu hafi húsið kólnað niður og vatnslagnir sprungið, þar á meðal inntakssía og þar með hafi vatn átt greiða leið inní húsið." Matsmenn nota hér orðalagið mestar líkur, en í næstu efnisgrein eftir þessari tala þeir um að það styðji ,,grunsemdir okkar að samkvæmt skýrslu Guðmundar Þ. Brynjúlfssonar þá hafði farið fram viðgerð á heimæð að sumarhúsinu og gamla bænum á Grjóteyri."

Skýrsla Guðmundar Þ. Brynjúlfsonar er í bréfi hans til Hannesar Frímanns Sigurðssonar, dags. 21. febrúar 2001. Hannes Frímann var yfirmaður fyrirtækjasviðs Akranesveitu, sem þjónaði Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, sem stefnda yfirtók um áramótin 2001/2002, skv. vætti Guðmundar. Í bréf þetta er vitnað í atvikalýsingu hér að framan. Kemur þar fram að síðast var gert við heimæð 14. apríl 1999. Frá þeirri viðgerð til þess tíma er vatnsskaðinn varð leið meira en hálft annað ár. Fram kom hjá báðum matsmönnum í vætti þeirra að þegar inntakssía stíflast af óhreinindum gerist það smám saman. Karvel Karvelsson sagði að yfirleitt gerðist þetta hægt, það smákólnaði í húsi og þrýstingur á hitakerfi félli. Sigurður Þorleifsson sagði að tregða á rennsli ætti að koma í síuna fljótt eftir að óhreinindi bærust í hana, en svo þéttist þetta smám saman, og alltaf bættist eitthvað við, því að ávallt væru einhver óhreinindi í vatninu. Með dómendum vaknar sú spurning hvernig það mátti vera að ekki varð vart við tregðu í hitavatnsrennsli í sumarhúsinu, ef orsök stöðvunar á því var sú sem matsmenn telja líklegasta. Ekkert liggur reyndar fyrir um veru manna í húsi þessu, en vitnið Guðmundur Þ. Brynjúlfsson kvaðst þó hafa fengið ábendingu um að í það hefði verið komið um miðjan desember 2000, eða um hálfum mánuði áður en vart varð við vatnstjónið.

Matsmaðurinn Sigurður Þorleifsson kvaðst hafa starfað við hönnun burðarvirkja og lagna í nær aldarfjórðung. Hann sagðist aðspurður ekki muna eftir dæmi þess að inntakssía hefði stíflast algjörlega á því svæði sem hann ynni mest á, þ.e. á Reykjavíkursvæðinu. Matsmaðurinn Karvel Karvelsson er pípulagningameistari og vinnur á Akranesi, í Reykjavík og víðar. Hann kvaðst þekkja dæmi þess að inntakssíur hefðu algjörlega stíflast, yfirleitt vegna þess að óhreinindi hefðu komist í lögnina, stundum vegna ryðflagna og líka útfellinga í vatninu. Vitnið Guðmundur Þ. Brynjúlfsson pípulagningameistari kvaðst engin dæmi þekkja um þetta. Hann sagðist hafa starfað hjá Hitaveitunni (Hitaveitu Akraness og Borgarfjarðar, Hitaveitu Borgarness og síðast stefndu, Orkuveitu Reykjavíkur) í 11 ár.

Matsmenn telja að orsök þess að heita vatns rennsli stöðvaðist hefði ekki getað verið sú að bakrásarloki (slaufuloki) hefði stíflast. Ef svo hefði verið, segja þeir, ,,þá hefði þrýstingur í hitakerfinu aukist það mikið að öryggislokar, sem eru tveir á kerfinu, hefðu opnast og leitt vatn í niðurfall." Karvel Karvelsson skýrði þetta svo: Þegar slaufloki stíflast eykst þrýstingur inni á kerfinu og þá fer öryggisloki að blása, annað hvort sá sem er á inntaki eða sá sem er á bakrás. Ef öryggisloki á bakrás hefði farið að blása, hefði hann virkað eins og slaufuloki.  Hjá Sigurði matsmanni kom fram að matsmenn þrýstiprófuðu ekki öryggislokana.

Við vettvangsgöngu skoðuðu hinir sérfróðu meðdómendur inntaksgrindina og þar á meðal öryggislokana. Vitnið Guðmundur Þ. Bryjúlfsson sagði aðspurður fyrir dóminum að þrýstingur í aðveitukerfinu væri 6 kg/sm2. Á vettvangi lokuðu meðdómendur fyrir affallslögn á miðstöðvarkerfi hússins. Byggðist þá upp fullur þrýstingur á kerfinu að 6 kg/sm2. Þegar þeim þrýstingi var náð stöðvaðist rennslið. Öryggisventlar héldu, blésu ekki út. Er það álit hinna sérfróðu meðdómenda að annað hvort séu þeir fastir eða þeir þoli meiri þrýsting en er á aðveitukerfinu.

Slaufuloki lokast ekki af óhreinindum, en dettur í lokaða stöðu ef aðstreymi til hans hættir. Hann opnast ekki þótt að honum komi vatn með þrýstingi, ef þreifirör er stíflað. Þegar svo er komið hleypir þrýstijafnari hækkuðum þrýstingi inn á kerfið, þangað til öryggislokar blása. Ef þeir eru fastir eða hærra stilltir en nemur þrýstingi veitunnar fer allur þrýstingur hennar inn á kerfið.

Af framanrituðu verður dregin sú ályktun að ekki sé unnt að útiloka að orsök þess að heita vatns rennsli stöðvaðist hafi verið að slaufuloki (bakarásarloki) hafi fest í lokaðri stöðu, svo sem fram kemur með öðru orðalagi í fyrrnefndu bréfi Guðmundar Þ. Brynjúlfssonar frá 21. febrúar 2001. Guðmundur staðfesti þá ályktun sína fyrir dóminum. Að mati hinna sérfróðu meðdómenda styður það ályktun Guðmundar að Guðjón Árnason pípulagningameistari fékk ekki rennsli um hitakerfið fyrr en hann hafði skipt um slaufulokann. Þetta staðfesti hann fyrir dómi.

Niðurstaða þessa dóms verður samkvæmt því sem hér er að framan ritað að ósannað sé að orsök þess að heita vatns rennsli stöðvaðist í sumarhúsi stefnanda hafi verið sú að inntakssía hafi stíflast, þótt ekki verði heldur útilokað að svo hafi verið. Er þá og ósannað að vatnstjónið í sumarhúsinu hafi orðið fyrir atvik sem stefnda, Orkuveita Reykjavíkur, bar ábyrgð á. Verður því stefnda sýknuð af kröfu stefnanda í þessu máli.

 

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

 

Málið sótti Haraldur Blöndal hrl. f.h. stefnanda, en Svanhvít Axelsdóttir hdl. v. Hákonar Árnasonar hrl., hélt uppi vörn fyrir stefndu og réttargæslustefnda.

Dóminn kveða upp Finnur Torfi Hjörleifsson héraðsdómari, dómsformaður,  Bjarni Kristjánsson vélaverkfræðingur og Samúel V. Jónsson pípulagningameistari.

 

D Ó M S O R Ð

 

Stefnda, Orkuveita Reykjavíkur, skal vera sýkn af kröfu stefnanda, Knúts Jeppesen, í þessu máli.

Málskostnaður fellur niður.