Hæstiréttur íslands

Mál nr. 36/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Þriðjudaginn 18. janúar 2011.

Nr. 36/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

X var gert  að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Páll Hreinsson og Viðar Már Matthíasson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. janúar 2011 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 11. febrúar 2011 klukkan 16.  Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að hann verði látinn sæta farbanni í stað gæsluvarðhalds. Að þessu slepptu krefst hann þess að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Atvikum málsins er lýst í hinum kærða úrskurði. Fallist verður á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot sem samkvæmt 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 getur varðað allt að 16 ára fangelsi. Hið ætlaða brot felst í að hafa fylgt konu sem var ofurölvi inn á salerni veitingastaðar og haft þar kynmök við hana án þess að hún hefði vegna ölvunarinnar möguleika á að sporna við verknaðinum. Talið verður að þetta ætlaða brot feli í sér svo grófa árás á persónu brotaþola og frelsi til líkama síns að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Samkvæmt þessu eru skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 uppfyllt fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi varnaraðila og verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, til föstudagsins. 11. febrúar 2011 kl. 16:00. 

Í greinargerð lögreglu kemur fram að laugardaginn 8. janúar sl. um kl. 6:00 hafi A komið í fylgd tveggja kvenna á slysadeild vegna grunsemda um nauðgun. Meint brot hafi átt sér stað á skemmtistað í miðbænum en konurnar hafi komið að henni rænulausri vegna ofneyslu áfengis á salerninu. Hafi sokkabuxur og nærbuxur verið dregnar niður um hana að hluta til. Þær hafi mætt kærða á leiðinni út af salerninu og átt  orðaskipti við hans. Muni hann hafa gefið í skyn við aðra þeirra að hann hefði haft samræði við A á salerninu.

Rætt hafi verið óformlega við A og fleiri vitni á slysadeild. Vegna ölvunarástands A hafi hún ekki munað eftir því sem gerst hafði. Vitni hafi getað gefið greinargóða lýsingu á kærða.

Skoðaðar hafi verið upptökur af skemmtistaðnum en myndavél sé staðsett þannig að sjá megi mannaferðir inn á gang er liggi inn á salerni. Á upptöku hafi kærði og A sést ganga inn ganginn og sé A áberandi ölvuð.

Við yfirheyrslu hafi kærði neitað sök. Hann kvaðst ekki þekkja A og hefði ekki haft við hana samræði eða önnur kynferðisleg samskipti. Kærði hafi þó þekkt sjálfan sig á upptökunni frá skemmtistaðnum en hafi engar skýringar getað gefið á því hvers vegna hann hafi sést þar með A.

Skýrslur hafi verið teknar af vitnum í málinu. Staðfesti tvö vitni að þau hafi séð kærða koma út af salerninu en A hafi verið þar innandyra, rænulaus vegna áfengisneyslu.

Þá hafi verið tekin skýrsla af A sem hafi munað eftir sér á skemmtistaðnum og kveðst þá hafa fundið fyrir miklum áfengisáhrifum. Hún muni hins vegar hvorki eftir samskiptum við kærða né eftir því að hafa farið á salernið. Hafi hún ekki komið til sjálfrar sín fyrr en á slysadeild og komi það heim og saman við framburð vitna sem kveði hana hafa verið óviðræðuhæfa lengi vel.

Rannsókn tæknideildar á lífssýnum úr A hafi farið fram. Hafi mátt sjá nýlegar sáðfrumur, sem ekki séu taldar meira en sólarhrings gamlar, í sýni, sem tekið hafi verið úr leggöngum A. Hún hafi borið um að sáðfrumurnar geti ekki verið úr eiginmanni hennar. Lífssýni verði nú send á rannsóknarstofu í Svíþjóð til DNA rannsóknar. Rannsókn málsins að öðru leyti sé á lokastigi.

Kærði sé [...] ríkisborgari búsettur í [...] og hafi staðið til að halda þangað aftur.  Ætla megi að kærði muni reyna að komast úr landi gangi hann laus.

Að mati ákæruvaldsins sé kominn fram sterkur grunur um að kærði hafi framið brot gegn 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1944, sem varði allt að 16 ára fangelsisrefsingu. Sönnunargögn málsins þyki benda sterklega til sektar kærða en um alvarlegt brot sé að ræða og hátt stig ásetnings þar sem kærði notfæri sér ölvunarástand ókunnugrar konu til þess að hafa við hana samræði. 

Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna, b liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess krafist að gæsluvarðhaldskrafan nái fram að ganga.

               Kærði hefur mótmælt framkominni kröfu.

               Með hliðsjón af rannsóknargögnum málsins þykir fram kominn sterkur grunur um að kærði hafi framið það brot sem honum er gefið að sök og sem getur varðað fangelsisrefsingu.  Rannsókn málsins mun vera á lokastigi að öðru leyti en því að beðið er eftir niðurstöðu DNA rannsóknar á lífssýnum.  Kærði erlendur ríkisborgari, búsettur í [...] og mun hafa staðið til að hann færi þangað.  Er samkvæmt framansögðu fallist á að skilyrði b. liðar 1. mgr. 95. gr. og 2. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 séu uppfyllt, svo úrskurða megi kærða í gæsluvarðahald.   Er því fallist á kröfuna eins og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykja efni til að hafa gæsluvarðhaldstímann styttri en krafist er.

Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kærði X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins. 11. febrúar  2011 kl. 16:00.