Hæstiréttur íslands

Mál nr. 426/2009


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni


Fimmtudaginn 21. janúar 2010.

Nr. 426/2009.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Jakub Pawel Rzasa

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

Ávana- og fíkniefni.

J var sakfelldur fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa gert tilraun til að móttaka og hafa í vörslum sínum 955,92 g af amfetamíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi. Þá var J jafnframt sakfelldur fyrir vörslu á 86,66 g af kannabis og umferðarlagabrot. Var J dæmdur í 12 mánaða fangelsi. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. júlí 2009 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur um sakfellingu ákærða og upptöku fíkniefna, en að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst sýknu af 1. tölulið ákæru og að refsing verði milduð.

Þegar litið er til þess hvernig ákærði bar sig að við að ná í póstsendinguna sem um ræðir í 1. lið ákæru og skýringa sem hann gaf fyrir dómi á þessari háttsemi sinni verður ekki vefengt mat héraðsdóms um að hafna framburði ákærða. Héraðsdómur verður því staðfestur um sakfellingu ákærða. Einnig þykir mega una við ákvörðun héraðsdóms um refsingu ákærða, þó þannig að draga ber frá gæsluvarðhaldsvist er hann sætti í átta daga. Ákvæði héraðsdóms um upptöku og sakarkostnað verða staðfest.

Eftir þessum úrslitum verður ákærði dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti svo sem greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður, að öðru leyti en því að frá refsingu ákærða, Jakub Pawel Rzasa, skal með fullri dagatölu draga gæsluvarðhaldsvist er hann sætti 13. til 20. febrúar 2009.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 239.962  krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 200.800 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. júní 2009:

Ár 2009, fimmtudaginn 25. júní, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara,  kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 673/2009:  Ákæruvaldið (Kolbrún Sævarsdóttir) gegn Jakub Pawel Rzasa (Hilmar Ingimundarson hrl.) sem tekið var til dóms hinn 18. júní sl. að lokinni aðalmeðferð.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 11. júní sl. á hendur ákærða, Jakub Pawel Rzasa, kt. 200687-3029, pólskum ríkisborgara með lögheimili þar í landi, „fyrir eftirfarandi brot, framin föstudaginn 13. febrúar 2009:

1.                  Stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa gert tilraun til að móttaka og hafa í vörslum sínum 955,92 g af amfetamíni, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi. Ákærði sótti, að því að hann taldi, framangreind fíkniefni, sem send höfðu verið R, Hraunbæ 107, Reykjavík, með pósti frá Póllandi, í póstmiðstöðina Stórhöfða 32, Reykjavík, en lögregla hafði þá fjarlægt efnin úr sendingunni.

Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

2.                  Fíkniefnalagabrot með því að hafa í vörslum sínum 86,66 g af kannabis, á þáverandi dvalarstað sínum að Ljárskógum 13, Reykjavík.

Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

3.                  Umferðarlagabrot, með því að hafa ekið bifreiðinni PX-927, sviptur ökurétti, um götur í Reykjavík og Kópavogi, þar til lögregla stöðvaði akstur hans á Hlíðardalsvegi á móts Laxalind, Kópavogi.

Telst þetta varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar. Þá er þess krafist að framangreind fíkniefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.“

  1. ákæruliður

Málavexti

Fyrir liggur að þriðjudaginn 10. febrúar sl. varð leitarhundur tollvarða í póstmiðstöðinni við Stórhöfða var við fíkniefni í böggli sem borist hafði frá Póllandi.  Böggullinn var stílaður á pólskan mann, R, Hraunbæ 107 í Reykjavík, og sendandi sagður vera Z, heimilisfang [...] í Póllandi.  Í bögglinum voru matvæli, þar á meðal niðursuðudósir.  Í dósum þessum reyndist einnig vera falið fíkniefni það sem um ræðir í málinu.  Samkvæmt rannsókn Jakobs Kristinssonar dósents við Háskóla Íslands í eiturefnafræði var styrkur amfetamínbasa í sýnishornum af efninu á bilinu 29 – 32% sem er vel yfir meðalstyrk slíks efnis sem til rannsóknarstofunnar hafa komið undanfarin ár.  Lögreglumenn fóru í Hraunbæ 107 sem er fjölbýlishús.  Nafn R var ekki að finna þar á neinum póstkassa en aftur á móti var einn kassinn merktur tveimur pólskum nöfnum.  Var skilinn eftir upplýsingamiði í þessum kassa sem var óhreyfður í kassanum í þrjá daga en þá var búið að líma á einn kassann miða með nöfnunum R og B.  Var upplýsingamiði þá settur í þann kassa og samdægurs kom ákærði í póstmiðstöðina við Stórhöfða að vitja um pakkann.  Framvísaði hann skilríkjum R og tók pakkann, en þá höfðu fíkniefnin verið fjarlægð úr honum.  Ákærði ók á brott með pakkann en lögreglumenn veittu honum eftirför og handtóku hann og lögðu hald á pakkann. 

Ákærði hefur búið hér á landi í 3 ár og unnið ýmis störf.  Hann hefur búið á ýmsum stöðum, þar á meðal bjó hann í Hraunbæ 107 í um eins árs bil, þó ekki á þeim tíma sem um ræðir.  Ákærði neitar sök og kveðst hafa vitjað um pakkann fyrir kunningja sinn, Igor nokkurn frá Litháen, sem hann getur ekki sagt nánari deili á en þeir hafi kynnst á einhverjum skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur í fyrra sumar.  Hafi þeir hist nokkrum sinnum en það hafi ávallt verið fyrir tilviljun.  Sé þetta sköllóttur maður, um 170 cm á hæð, á að giska 90 kg að þyngd og á þrítugsaldri.  Igor þessi hafi verið með símanúmer ákærða en ákærði kveðst aftur á móti ekki vita númer Igors.  Það hafi svo gerst að þeir Igor hafi hist á skemmtistað í bænum sem oftar.  Hafi Igor þá beðið ákærða um að sækja fyrir sig pakka á pósthúsið, þar sem hann væri sjálfur að fara úr bænum.  Hann kveðst ekki hafa átt að fá neitt fyrir greiðann.  Ákærði kveðst ekki hafa vitað hvað væri í pakkanum sem hann gerði ráð fyrir að væri venjulegur pakki með fatnaði og fleiru og ekki hafi hann grunað að fíkniefni væru í honum.  Ákærði segist ekki vita deili á R en skilríkin hafi hann fengið hjá Igor þegar hann bað ákærða um þennan greiða.  Ákærði kveðst kannast við konu að nafni N sem fram er komið í málinu að var gift margnefndum R.  Kveðst hann hafa verið í tygjum við þessa konu í tvær vikur fyrir ári síðan.  Ákærði kannast við að hafa verið í Póllandi í janúar í vetur.  Meðal gagna málsins er yfirlit um bankareikning ákærða árið 2008 og fram til 17. febrúar á þessu ári.  Kemur þar fram að á þessu tímabili var 96 sinnum millifært af reikningum einstaklinga á reikning ákærða, allt frá fáeinum þúsundum króna til þess að skipta tugum þúsunda, samtals nærri 1 ½ milljón krónur.  Ákærði kannast við að hafa verið í Póllandi frá 10. desember 2008 til 27. janúar sl. 

Kristinn Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður í fíkniefnadeild, sem hafði með rannsókn þessa máls að gera, hefur komið fyrir dóminn.  Hann segir að reynt hafi verið að finna Igor þann frá Litháen, sem ákærði segist hafa sótt pakkann fyrir, en sú eftirgrennslan hafi engan árangur borið. 

A, einn af þeim sem lögðu inn hjá ákærða, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hann hafi keypt leikjatölvu af ákærða fyrir um 50.000 krónur í vetur leið.  Hann er spurður út í 7.000 króna millifærslu á reikning ákærða 8. desember sem hann hafði sagt hjá lögreglu að hefði verið fyrir fíkniefni.  Segir hann nú að þetta muni hafa verið lokagreiðsla fyrir tölvuna og hafi hann misminnt um það þegar hann talaði við lögregluna.      

M sem lagði rúmar 400.000 krónur í mörgum millifærslum inn á reikning ákærða hefur komið fyrir dóminn.  Hann var í yfirheyrslu hjá lögreglu spurður út í þessar greiðslur og sagði þá að 2/3 hlutar þessara greiðslna hefðu verið fyrir fíkniefni.  Fyrir dóminum hefur hann breytt framburði sínum og sagt að þetta hafi að mestu verið endurgreidd lán sem ákærði hefði lánað honum af gæsku sinni.  Þriðjungur hafi þó verið fyrir kannabisefni.  Þeir hafi verið saman um það að kaupa fíkniefni og hann verið þarna að greiða ákærða það sem hann hefði lagt út í því sambandi.  Hann kveðst hafa verið í fullri vinnu á þessu tíma. 

Margnefndur R hefur ekki komið fyrir dóminn, en hann hefur verið framseldur til Póllands.

Niðurstaða

Ákærði kveðst ekki hafa vitað að fíkniefni væru í margnefndri póstsendingu.  Frásögn hans af Litháanum Igor, kynnum þeirra og samkomulagi er með talsverðum ólíkindablæ.  Þá neitar ákærði því að þekkja til R  en fyrir liggur að hann framvísaði skilríkjum þess manns í póstafgreiðslunni.  Jafnframt kannast hann við að hafa verið í tygjum við konu hans um skeið.  Þá er þess að gæta að pakkinn var stílaður á Hraunbæ 107 þar sem ákærði hafði átt heima áður og þess að ákærði var í Póllandi skömmu áður en sendingin barst þaðan.  Loks liggur það fyrir að ákærði hefur játað á sig fíkniefnabrot og það sem rakið var um reikningsyfirlitið og viðskipti hans við þá A og M þykir veita sönnur fyrir því að hann hafi stundað viðskipti með fíkniefni.  Vegna alls þessa ber að hafna skýringum ákærða og telja sannað að hann hafi vitað að fíkniefni væru í sendingunni sem hann vitjaði um í póstmiðstöðinni við Stórhöfða í umrætt sinn.  Hefur ákærði orðið sekur um tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots og brotið gegn þeim ákvæðum sem tilfærð eru við þennan ákærulið.

  1. og 3. ákæruliður

Ákærði hefur skýlaust játað þau brot sem hann er saksóttur fyrir í 2. og 3. lið ákærunnar.  Hefur hann orðið sekur um athæfi það sem lýst er í þessum ákæruliðum og réttilega er þar fært til refsiákvæða.

Viðurlög og sakarkostnaður

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.  Frá refsingunni ber að draga sjö daga gæsluvarðhaldsvist sem hann hefur sætt vegna málsins.

Þá ber, með vísan til þeirra lagaákvæða sem tilgreind eru í ákærunni, að gera upptæk 955,92 g af amfetamíni og 86,66 g af kannabisefni.

Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl, 630.000 krónur í málsvarnarlaun, sem dæmast með virðisaukaskatti.

Annan sakarkostnað, 657.368 krónur, ber að dæma ákærða til þess að greiða.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð:

Ákærði, Jakub Pawel Rzasa, sæti fangelsi í 12 mánuði.  Frá refsingunni dregst sjö daga gæsluvarðhaldsvist.

Ákærði sæti upptöku á 955,92 g af amfetamíni og 86,66 g af kannabisefni.

Ákærði greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 630.000 krónur í málsvarnarlaun.  Þá greiði ákærði 657.368 krónur í annan sakarkostnað.