Hæstiréttur íslands

Mál nr. 361/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald


                                                                                              

Miðvikudaginn 28. maí 2014.

Nr. 361/2014.

Ákæruvaldið

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Stefán Karl Kristjánsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2014 þar sem varnaraðila var gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans, þó eigi lengur en til föstudagsins 20. júní 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði var mál höfðað á hendur varnaraðila með ákæru 20. mars 2014 og var það dómtekið 15. maí sama ár. Því stendur 4. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 ekki í vegi þess að varnaraðila verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi þótt það hafi staðið lengur en í tólf vikur. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.  

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2013.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að [...] verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 20. júní 2014, kl. 16.00, á grundvelli  c.-liðar 1. mgr. 95. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur  frá  25. apríl síðastliðnum nr. R-115/2014 hafi ákærða verið  gert að sæta áfram­hald­andi gæsluvarðhaldi til dagsins í dag. Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi síðan 14. febrúar, sbr. úrskurði hd. Rvk,  R-90/2014 frá 28. mars,  R-53/2014 frá 28. febrúar  og R- 40/2014 frá 14. febrúar sl., sem staðfestur hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 116/2014, 19. febrúar 2014. Ákærði hafi fyrst verið úrskurðaður í  gæslu­varð­hald á grund­velli rannsóknarhagsmuna og síbrota, sbr. a- og c. lið  1. mgr. 95. gr. saka­mála­laga, og síðar á grundvelli c. liðar sömu laga.

Með ákæruskjali lögreglustjórans 20. mars 2014 hafi ákærði verið ákærður fyrir nokkurn fjölda auðgunarbrota, þjófnaði, hylmingu, gripdeild, einn og einnig  í félagi með öðrum, jafnframt var kærði ákærður fyrir  skjalabrot, nytjastuld, líkams­árás, fíkniefna- og umferðarlagabrot frá lok október 2013 til 13. febrúar sl.,  allt sbr. 244. gr., 245., gr. 254. gr.  157. gr.,  259. gr.,  217. gr. og 233. gr. almennra hegningar­laga  og umferðar- og fíkniefnalagabrot, einkum 1. mgr. 45. gr. a og 1. mgr. 10. gr.  sbr. 1. mgr. 100. gr.  umferðarlaga nr. 50/1987 og fíkniefnalögum 2., sbr. 5. og 6. gr. laga nr. 65/1974. Þann 15. maí hafi farið fram framhaldsaðalmeðferð við Héraðsdóm Reykja­víkur í máli ákærða vegna framangreindar ákæru og málið (S-324/2014) dóm­tekið. Verði kveðinn upp dómur 5. júní nk. 

Brotaferill ákærða hafi verið samfelldur frá byrjun nóvember og fram til 13. febrúar sl. er  kærði hafi verið handtekinn.  Ákærði hafi sagt að hann hafi verið í neyslu fíkniefna. Það virðist því vera að ákærði hafi framfleytt sér með afbrotum og til að fjármagna ætlaða fíkniefnaneyslu.

Það sé mat lögreglustjóra að yfirgnæfandi líkur séu á því að ákærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna og það sé brýnt fyrir lögreglu að geta lokið þessum málum á ákærða fyrir dómi. Ákærði hafi nú rofið skilyrði tveggja dóma sem ákærði hlaut, annars vegar dóm nr. 39/2012 frá 21. febrúar 2012 við Héraðsdóm Reykja­víkur og hins vegar dóm Hæstaréttar Íslands nr. 361/2012, frá  19. júní 2012, en þar hafi ákærði hlotið skilorðsbundna fangelsisdóma fyrir auðgunarbrot til tveggja ára. Það sé mat lögreglu og ákæruvalds að ákærði muni ekki fá skilorðsbundinn dóm, nema þá að hluta vegna fjölda málanna og alvarleika brotanna.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og c.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88, 2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga eins og hún er sett fram.

Niðurstaða:

         Ákærði hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 14. febrúar sl., fyrst á grundvelli a- og c-liða 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 en síðar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 95. gr. Af framlögðum gögnum má ráða að uppi sé rökstuddur grunur um að ákærði hafi, áður en til gæsluvarðhaldsins kom, gerst sekur um fjölda brota sem varðað geta fangelsisrefsingu og að hann hafi með þeim rofið skilorð eldri refsidóma.  Ákæra hefur verið gefin út á hendur honum og bíður mál hans dóms. Gert er ráð fyrir að dómur fallið 5. júní nk. Að þessu athuguðu og í ljósi sakaferils og fjölda ákæruliða er það niðurstaða dómsins að  fullnægt sé skilyrði c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, þar eð ætla megi að ákærði muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið.  Verður því fallist á kröfu lögreglustjóra eins og í úrskurðarorði greinir.

         Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákærði, [...], kt. [...],[...] í [...], skal áfram sæta gæsluvarðhaldi uns dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til föstudagsins 20. júní 2014, kl. 16.00.