Hæstiréttur íslands
Mál nr. 637/2014
Lykilorð
- Landamerki
- Samningur
|
|
Fimmtudaginn 10. september 2015. |
|
Nr. 637/2014.
|
Dagbjartur Bogi Ingimundarson og Rafn Ingimundarson (Sigurður Sigurjónsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) og gagnsök |
Landamerki. Samningur.
Eigendur jarðanna Brekku og Snartarstaða í Norðurþingi greindi á um landamerki milli jarðanna. Í málinu lá ekki fyrir landamerkjalýsing Brekku en hins vegar lá fyrir ljósrit af tveimur landamerkjabréfum fyrir Snartarstaði, annars vegar frá janúar 1884 og hins vegar frá apríl sama ár. Samkvæmt endurriti bréfanna hafði hið yngra verið lesið á manntalsþingi í júní 1884 en hið eldra í maí 1885. Bréfin voru orðrétt samhljóða að því frátöldu að í eldra bréfinu sagði að merkin lægju „beint upp í stein í Reiðgarði, þaðan í [Kollufjall] og svo í Klíningsskarð“ en í yngra bréfinu sagði að merkin lægju „beint upp í stein í Reiðgarði og þaðan í Kollufjall, þaðan og sunnanvert í Klíningsskarð“. Í dómi Hæstaréttar kom fram að það leiddi af framangreindum mun á landamerkjabréfunum að merki Snartarstaða lægju samkvæmt yngra bréfinu sunnar en samkvæmt því eldra en við það minnkaði land Brekku sem því næmi. Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar í máli nr. 360/2013 og af ákvæðum eldri laga um landamerki nr. 5/1882 var talið að líta yrði svo á að með því að eldra landamerkjabréf Snartarstaða hefði verið afhent til þinglýsingar tæpu ári eftir að því yngra var þinglýst, að komist hefði á samningur milli eigenda Brekku og Snartarstaða um að merki milli jarðanna skyldu eftirleiðis vera þau sem í eldra bréfinu frá janúar 1884 greindi. Bæri því að leggja það landamerkjabréf til grundvallar við úrlausn ágreiningsins enda hefði ekki fram komið í málinu að þeim merkjum hefði verið breytt með síðari ráðstöfunum. Um afmörkun merkjanna milli jarðanna sagði í dómi Hæstaréttar að þótt ekki væri tekið svo til orða í landamerkjabréfi Snartarstaða að sjónhending réði merkjum milli þeirra staða, sem í því væru nefndir, yrði að miða við að átt hefði verið við röð sýnilegra kennileita sem rekja hefði mátt merkin eftir frá einum stað til annars, án þess að styðjast við uppdrætti eða hnitasetningar. Samkvæmt orðalagi landamerkjabréfsins frá janúar 1884 færu merkin í Klíníngsskarð en ekki sunnanvert í skarðið. Samkvæmt því og í ljósi staðhátta var að öllu verulegu leyti fallist á kröfugerð D og R um landamerki jarðanna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Viðar Már Matthíasson og Þorgeir Örlygsson.
Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 29. september 2014. Þeir krefjast viðurkenningar á því að landamerki jarðanna Snartarstaða og Brekku í Norðurþingi liggi eftir línu sem dregin er frá punkti A við sjávarkambinn í Syðranesi, hnit: X615132 og Y646599, að punkti B sem er steinn í Reiðgarði, hnit: X615568.92 og Y646712.43, þaðan í punkt C sem er varða efst á Kollufjalli, hnit: X616903 og Y647334, þaðan í punkt D í Klíningsskarði, hnit: X618816 og Y648312, og þaðan í punkt E í Hólsstígsþjóðvegi, þar sem hann fer í Blikalónsdal á vestari dalbrún, hnit: X625465.80 og Y650881.30. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi skaut málinu fyrir sitt leyti til Hæstaréttar 18. nóvember 2014. Hann krefst aðallega viðurkenningar á því að landamerki milli framangreindra jarða liggi um línu sem dregin er milli eftirtalinna punkta: Frá punkti 1 miðað við tréstaur við sjávarkamb við Syðranes, hnit: X615140.12 og Y646541.20, þaðan í punkt 2 í stein í Reiðgarði, hnit: X615568.92 og Y646712.43, þaðan í punkt 3 sunnan við Beltisvatn, hnit: X625169.81 og Y650536.94, og þaðan í punkt 4 þar sem Hólsstígsþjóðvegur liggur niður í Blikalónsdal, hnit: X625465.80 og Y650881.30. Til vara krefst hann þess að viðurkennd verði landamerki jarðanna eins og í aðalkröfu greinir að hnitapunkti 2, þaðan að hnitapunkti 2a sunnanvert við Klíningsskarð, hnit: X618935.68 og Y648140.89, og þaðan í hnitapunkta 3 og 4 eins og þeir eru auðkenndir í aðalkröfu. Að þessu frágengnu krefst hann staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í öllum tilvikum krefst hann málkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómendur fóru á vettvang 2. september 2015.
I
Í máli þessu er ágreiningur um landamerki milli jarðar aðaláfrýjanda, Brekku, og jarðar gagnáfrýjanda, Snartarstaða, í Norðurþingi, sem áður tilheyrðu Presthólahreppi í Norður-Þingeyjarsýslu, en merki jarðanna liggja frá sjó í vestri í Blikalónsdal í austri. Eiga Snartarstaðir land norðan merkjalínunnar en Brekka sunnan hennar. Í málinu liggur ekki fyrir landamerkjalýsing Brekku en hins vegar hefur verið lagt fram í málinu ljósrit af landamerkjabréfi fyrir Snartarstaði sem gert var á Akureyri 16. janúar 1884. Undir það rituðu vegna Snartarstaða Stephan Stephensen umboðsmaður jarðeigna ríkisins og Ingimundur Rafnsson sem á þeim tíma var eigandi og ábúandi Brekku. Undir nafnritun þeirra stendur að Leirhöfn og Blikalón séu ásamt Snartarstöðum eign landsjóðs. Samkvæmt framlögðu ljósriti úr landamerkjabók Þingeyjarsýslu var þetta bréf lesið á manntalsþingi að Presthólum 18. maí 1885.
Svo virðist sem annað landamerkjabréf hafi verið gert fyrir Snartarstaði árið 1884. Ljósrit þess hefur verið lagt fyrir Hæstarétt en samkvæmt endurriti bréfsins úr landamerkjabók Þingeyjarsýslu hefur það bréf verið gert að Snartarstöðum 1. eða 7. apríl 1884. Endurritið ber með sér að undir það hafi ritað sem fyrr Stephan Stephensen vegna Snartarstaða og Ingimundur Rafnsson vegna Brekku og að auki Sigurður Rafnsson ábúandi Snartarstaða, Jón Pétursson ábúandi Blikalóns og Kristján Þorgrímsson ábúandi Leirhafnar. Sagði í endurritinu að bréfið hefði verið lesið „á manntalsþingi að Presthólum 26. júní 1884 og ómótmælt.“ Bréfin eru orðrétt samhljóða að því frátöldu að í eldra bréfinu sagði að merkin lægju „beint upp í stein í Reiðgarði, þaðan í Kötlufjall og svo í Klíningsskarð“ en í yngra bréfinu sagði að merkin lægju „beint upp í stein í Reiðgarði og þaðan í Kollufjall, þaðan og sunnanvert í Klíningsskarð“. Ágreiningslaust er að Kötlufjall í eldra bréfinu er sama fjallið og nefnt er Kollufjall í yngra bréfinu og málsgögnum að öðru leyti.
Í kröfugerð aðaláfrýjenda felst að þeir krefjast þess að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að því er varðar landamerki Snartarstaða og Brekku frá sjávarkambi í Syðranesi að steini í Reiðgarði og þaðan í vörðu á toppi Kollufjalls en breytt á þann veg að frá vörðunni liggi landamerkin um línu að hnitapunkti D í kröfugerð þeirra og þaðan í beinni línu yfir hæð ofan við mynni Klíningsskarðs í hnitapunkt E. Með sama hætti felst í aðalkröfu gagnáfrýjanda að héraðsdómi verði breytt til samræmis við kröfugerð hans að því er varðar landamerkin frá sjávarkambi í Syðranesi að steini í Reiðgarði en að þaðan verði merkjalínan dregin í hnitapunkt 3 sunnan við Beltisvatn og þaðan í hnitapunkt 4.
II
Það leiðir af þeim mun á landamerkjabréfum Snartarstaða sem að framan greinir að merki þeirrar jarðar liggja samkvæmt yngra bréfinu sunnar en samkvæmt því eldra en við það minnkar land Brekku sem því nemur. Eins og greinir meðal annars í dómi Hæstaréttar 18. september 2014 í máli nr. 360/2013 eru landamerkjabréf í eðli sínu samningar séu þau samþykkt af eigendum eða umráðamönnum aðliggjandi jarða. Landamerkjabréf Snartarstaða voru gerð í tíð eldri laga um landamerki nr. 5/1882. Samkvæmt 3. gr. þeirra var eiganda eða umráðamanni hverrar jarðar skylt að skrásetja nákvæma lýsingu á landamerkjum jarðar sinnar eins og hann vissi þau réttust. Merkjalýsingu þessa skyldi hann sýna hverjum þeim er land átti til móts við hann og skyldu þeir rita á lýsinguna samþykki sitt, hver fyrir sína jörð, nema þeir teldu hana ranga. Að þessu loknu skyldi landeigandi samkvæmt 4. gr. fá merkjalýsingu sýslumanni í hendur til þinglesturs á næsta manntalsþingi. Þá sagði í sömu lagagrein að væri landamerkjum breytt frá því sem verið hefði, með samningi eða á annan hátt, skyldi sá er land hafði fengið við breytinguna, láta þinglýsa gjörningi þeim á manntalsþingi hinu næsta á eftir. Í 6. gr. kom fram að sýslumaður skyldi hafa löggilta landamerkjabók til að rita í allar merkjalýsingar, samninga og dóma um landamerki sem á þingi væru lesnir. Með því að eldra landamerkjabréf Snartarstaða var afhent til þinglýsingar í samræmi við ofangreindar reglur laga nr. 5/1882 tæpu ári eftir að því yngra var þinglýst verður að líta svo á að komist hafi á samningur milli eigenda Brekku og Snartarstaða um að merki milli jarðanna skyldu eftirleiðis vera þau sem í eldra bréfinu frá 16. janúar 1884 greindi. Ber því að leggja það landamerkjabréf til grundvallar við úrlausn ágreinings um merki milli jarðanna enda er ekki fram komið í málinu að þeim merkjum hafi verið breytt með síðari ráðstöfunum.
III
Með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að merki milli Brekku og Snartarstaða liggi eftir línu sem nær frá punkti A við sjávarkambinn í Syðranesi, sem hefur hnitin X615132 og Y646599 samkvæmt kröfugerð aðaláfrýjenda, í punkt B samkvæmt sömu kröfugerð, en það er steinn í Reiðgarði með hnitin X615568.92 og Y646712.43. Þá er og með vísan til forsenda héraðsdóms staðfest sú niðurstaða að úr punkti B liggi merkjalínan í punkt C samkvæmt kröfugerð aðaláfrýjenda en það er varða sú sem er efst á Kollufjalli með hnitin X616903 og Y647334.
Í landamerkjabréfi Snartarstaða frá 16. janúar 1884, sem eins og fyrr greinir var lesið á manntalsþingi 18. maí 1885, sagði að úr Kötlufjalli færu merkin í Klíningsskarð. Staðháttum við skarðið er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Kröfugerð aðaláfrýjenda tekur mið af því að merkjalínan liggi frá vörðunni á toppi Kollufjalls í skarðið að vestanverðu, þar sem það opnast séð frá vörðunni á Kollufjalli, en það er punktur D í kröfugerð aðaláfrýjenda með hnitin X618816 og Y648312. Frá þeim punkti draga aðaláfrýjendur beina línu yfir hæð ofan við mynni Klíningsskarðs til austurs eftir að skarðið sveigir til suðausturs. Aðalkrafa gagnáfrýjenda tekur á hinn bóginn mið af því að merkjalínan liggi úr steininum í Reiðgarði á stað í Klíningsskarði, sem er um það bil 270 metrum sunnar en sá staður sem aðaláfrýjendur miða við, og er þar stuðst við landamerkjabréf Snartarstaða frá því í apríl 1884. Í varakröfu sinni fyrir Hæstarétti miðar gagnáfrýjandi hins vegar við að línan liggi nokkru norðar í Klíngingsskarði.
Þótt ekki sé tekið svo til orða í landamerkjabréfi Snartarstaða að sjónhending ráði merkjum milli þeirra staða, sem í því eru nefndir, verður eins og í héraðsdómi greinir að miða við, að átt hafi verið við röð sýnilegra kennileita, sem rekja hafi mátt merkin eftir frá einum stað til annars, án þess að styðjast við uppdrætti eða hnitasetningar. Samkvæmt orðalagi landamerkjabréfsins frá 16. janúar 1884 fara merkin í Klíningsskarð en ekki sunnanvert í skarðið. Samkvæmt því og að því gættu að til Beltisvatns sést frá þeim stað á hæð ofan við mynni skarðsins, sem aðaláfrýjendur miða kröfugerð sína við, er í ljósi staðhátta fallist á með þeim að merki milli Brekku og Snartarstaða liggi um punkt D í kröfugerð þeirra. Loks er með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfest sú niðurstaða að úr punkti D í Klíningsskarði liggi merkjalínan í austur og komi að Beltisvatni sunnanvert við það, sem er í samræmi við kröfugerð gagnáfrýjanda, að punkti 3 í kröfugerð hans sem hefur hnitin X625169.81 og Y650536.94. Þaðan liggur merkjalínan í punkt E samkvæmt kröfugerð aðaláfrýjenda, þar sem Hólsstígsþjóðvegur liggur niður í Blikalónsdal að vestanverðu, en sá punktur hefur hnitin X625465.80 og Y650881.30.
Að fenginni framangreindri niðurstöðu hefur gagnáfrýjandi í öllu verulegu tapað málinu og verður hann því dæmdur til að greiða aðaláfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennt er að landamerki milli Brekku og Snartarstaða í Norðurþingi liggja eftir línu, sem dregin er frá hnitapunkti A í kröfugerð aðaláfrýjenda, Dagbjarts Boga Ingimundarsonar og Rafns Ingimundarsonar, við sjávarkambinn á Syðranesi, í hnitapunkt B samkvæmt kröfugerð þeirra, sem er steinninn í Reiðgarði. Þaðan liggur merkjalínan í hnitapunkt C samkvæmt kröfugerð aðaláfrýjenda, sem er varða efst á Kollufjalli. Úr vörðunni liggur merkjalínan í mynni Klíningsskarðs í hnitapunkt D samkvæmt kröfugerð aðaláfrýjenda, úr honum í hnitapunkt 3 samkvæmt kröfugerð gagnáfrýjanda, íslenska ríkisins, og þaðan í hnitapunkt E samkvæmt kröfugerð aðaláfrýjenda, þar sem Hólsstígsþjóðvegur liggur niður í Blikalónsdal að vestanverðu.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjendum samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júlí 2014.
I.
Mál þetta, sem var dómtekið 20. júní sl., er höfðað 20. mars 2013 af Dagbjarti Boga Ingimundarsyni, Brekku í Norðurþingi, og Rafni Ingimundarsyni, Grófarsmára 5 í Kópavogi, gegn íslenska ríkinu. Með gagnstefnu 16. maí 2013 höfðaði íslenska ríkið gagnsök í málinu gegn þeim Dagbjarti Boga og Rafni.
Kröfur aðalstefnenda eru þær að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli jarðanna Brekku annars vegar og Snartarstaða hins vegar liggi frá punkti A á sjávarkambi við Syðranes, hnitamerki X=615132 og Y=646599, í punkt B, stein í Reiðgarði, hnitamerki X=615568.92 m og Y=646712.43 m, þaðan í punkt C, vörðu á Kollufjalli, hnitamerki X=616903 og Y=647334, þaðan í punkt D í Klíningsskarði, hnitamerki X=618816 og Y=648312 og þaðan í punkt E í Hólsstígsþjóðveg, þar sem hann fer í Blikalónsdal á vestari Dalbrún, hnitamerki X=625465.80 m og Y=650881.30 m. Þá krefjast aðalstefnendur málskostnaðar að mati réttarins og að við ákvörðun málskostnaðar verði tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Gagnstefnandi krefst sýknu af kröfum aðalstefnanda í aðalsök auk málskostnaðar. Í gagnsök gerir hann kröfu um að viðurkennt verði með dómi að landamerki milli jarðanna Brekku annars vegar og Snartarstaða hins vegar, liggi frá punkti 1 miðað við tréstaur við sjávarkamb við Syðranes, hnitamerki X=615140.12 m og Y=646541.20 m, þaðan í punkt 2 í stein í Reiðgarði, hnitamerki X=615568.92 m og Y=646712.43 m, þaðan í punkt 3 í syðsta hluta Beltisvatns, hnitamerki X=625169.81 m og Y=650536.94 m, en þaðan í punkt 4 þar sem Hólstígurinn liggur niður í Blikalónsdal, hnitamerki X=625465.80 m og Y=650881.30 m, sbr. uppdrátt á landamerkjakorti, dags. 3. nóvember 2011. Jafnframt krefst gagnstefnandi málskostnaðar.
Aðalstefndu krefjast sýknu af kröfum gagnstefnanda í gagnsök.
Aðalstefnandi lýsti því yfir í upphafi aðalmeðferðar að þar sem ekki væri ágreiningur með aðilum um tvo landamerkjapunkta, annars vegar stein í Reiðgarði og hins vegar þar sem Hólstígsþjóðvegur liggur niður í Blikalónsdal, þá samþykki aðalstefnendur hnitamerki þeirra punkta eins og þeir komi fram í gagnstefnu.
Dómari, lögmenn og aðalstefnendur gengu á vettvang 18. júní sl. ásamt Helga Árnasyni, ábúanda á Snartarstöðum, Óskari Páli Óskarssyni frá fjármálaráðuneytinu og Sigurgeiri Skúlasyni landfræðingi.
II.
Snartarstaðir í Norðurþingi, áður Núpasveit, er bújörð í eigu gagnstefnanda. Ábúandi jarðarinnar eru hjónin Helgi Árnason og Sigurlína Jóhanna Jóhannesdóttir og búa þau á Snartarstöðum II.
Sunnan við Snartarstaði er bújörðin Brekka. Aðalstefnandi, Dagbjartur Bogi, á 2/3 hluta jarðarinnar og býr hann á jörðinni. Bróðir hans, aðalstefnandi Rafn, á 1/3 hluta jarðarinnar. Áður bjuggu foreldrar þeirra á Brekku, hjónin Ingimundur Jónsson og Guðrún Dagbjartsdóttir, ásamt bróður Ingimundar, Kjartani Jónssyni. Dagbjartur Bogi mun hafa tekið við eignarhluta föður þeirra um 1980, en Ingimundur lést árið 2001. Í landi Brekku, rétt sunnan við land Snartarstaða stendur Garður, en samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi var þar búrekstur fram yfir síðustu aldamót.
Í málinu hafa aðalstefnendur lagt fram landamerkjabréf fyrir Snartarstaði sem gert var á Akureyri og er dagsett 16. janúar 1884. Lýsingin er undirrituð af Stephán Stephensen, umboðsmanni jarðeigna ríkisins. Á bréfið ritar einnig nafn sitt „I Rafnsson“, en á þessum tíma bjó Ingimundur Rafnsson, langafi aðalstefnenda, á Brekku. Fram kemur á bréfinu að það hafi verið lesið á manntalsþingi að Presthólum 18. maí 1885 og ritað í landamerkjabók Þingeyjarsýslu. Í landamerkjalýsingunni segir eftirfarandi um mörk jarðanna Snartarstaða og Brekku:
Að sunnan megin milli Brekku og Snartarstaða úr tréstaur, sem settur hefir verið niður við sjó, þaðan beint upp í stein í Reiðgarði, þaðan í Kötlufjall og svo í Klíningsskarð, þaðan sunnan við Beltisvatn og síðan í Blikalónsdal þar sem Hólstígsþjóðvegur liggur yfir Blikalónsdalinn.
Gagnstefnandi hefur lagt fram handskrifað endurrit þessarar sömu landamerkjalýsingar og er það merkt nr. 50. Annað endurrit, sem er merkt nr. 2 og lýsir merkjum jarðarinnar Snartarstaða, hefur einnig verið lagt fram í málinu af gagnstefnanda. Sú landamerkjalýsing var gerð að Snartarstöðum 1. apríl 1884. Samkvæmt endurritinu skrifa Sigurður Rafnsson, ábúandi að Snartarstöðum, Ingimundur Rafnsson og Stephen Stephensen, umboðsmaður jarðeigna ríkisins, undir landamerkjalýsinguna, ásamt ábúendum Leirhafnar og Blikalóns, sem voru í ríkiseigu eins og Snartarstaðir. Fram kemur í afritinu að landamerkjalýsingin hafi verið lesin á manntalsþingi að Presthólum 26. júní 1884 og að henni hafi verið „ómótmælt“. Í þessari lýsingu segir eftirfarandi um mörk jarðanna Snartarstaða og Brekku:
Að sunnan milli Brekku og Snartastaða úr tréstaur, sem settur hefir verið niður við sjó, og þaðan beint upp í stein í Reiðgarði og þaðan í Kollufjall, þaðan og sunnan vert í Klíningsskarð, þaðan beint austur sunnan við Beltisvatn, þaðan og beint í Blikalónsdal þar sem Hólstígsþjóðbraut liggur yfir dalinn.
Í málinu liggur ekki fyrir landamerkjalýsing jarðarinnar Brekku sem gerð hefur verið eftir fyrirmælum landamerkjalaga. Hins vegar hefur gagnstefnandi lagt fram skjal sem ber yfirskriftina „Landamerkjaskrá fasteignamatsnefndar 1920 / 9. Brekka með Garði“. Skjalið er handskrifað og óundirritað. Þar segir eftirfarandi:
Landamerki eru:
„Að norðan úr steini er stendur í Garði við Reiðgötu og réttsýnis á heiði norður fyrir sunnan Klíningsskarð að Ormarsá.
[...]“
Bæði í gögnum málsins og við skýrslutökur hefur komið fram að Rafmagnsveitur ríkisins (RARIK) hafi reist spennistöð á áttunda áratug síðustu aldar á spildu sem Ingimundur Jónsson taldi vera í landi Brekku. Í stefnu og skýrslu aðalstefnanda, Dagbjarts Boga, kemur fram að faðir hans, Ingimundur, hafi verið andvígur því að spennistöðin risi í landi Brekku, en að sú hafi þó orðið raunin. Í málinu liggur fyrir bréf, dags. 30. júní 1998, til aðalstefnanda, Dagbjarts Boga, frá þáverandi lögmanni hans. Í bréfinu eru hugleiðingar um rétt til endurgjalds og fébóta fyrir mannvirkjagerð RARIKs. Þar kemur fram að af hálfu RARIKs hefðu verið boðnar ríflega 300 þúsund krónur í bætur fyrir spilduna.
Aðalstefnendur hafa lagt fram handritað skjal frá svipuðum tíma eða 7. nóvember 1998. Skjalið virðist vera skráð af Ingimundi Jónssyni, en það er jafnframt undirritað af Ingimundi Pálssyni. Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi ólst Ingimundur Pálsson upp hjá Guðmundi Ingimundarsyni á Garði, en Guðmundur var afabróðir aðalstefnenda. Eins og áður segir stóð Garður í landi Brekku suður af landi Snartarstaða. Skjalið ber yfirskriftina „Um landamerki Brekku og Snartarstaða“, og er svohljóðandi:
Sagnir eru um að rekamark hafi verið varða á bakka við sjóinn. Brimaldan skolaði bakkanum og vörðunni burt. Þá var settur tréstaur sem fór sömu leið. En frá þessu marki eru landamerkin í stein í Reiðgarði, sem er norðanvert við íbúðarhúsið í Garði, þaðan í vörðu á toppi Kollufjalls í Klíningsskarð, þaðan bein lína austur, sunnan við Beltisvatn og síðan þar austur yfir Blikalónsdalinn þar sem vegurinn liggur.
Lögmaður aðalstefnenda ritaði RARIK bréf 11. mars 2002 þar sem færð voru rök fyrir því að spennistöðin væri í landi Brekku, þrátt fyrir að hún væri í fasteignamati skráð í landi Snartarstaða. Þar er vísað til fyrirliggjandi landamerkjalýsingar frá 16. janúar 1884 og því meðal annars haldið fram að frá steini í Reiðgarði beri að miða við vörðu efst á Kollufjalli. Í bréfinu eru lagðar til ákveðnar leiðir til lausnar á ágreiningnum út af spennistöðinni.
Árið 2006 var af hálfu jarðadeildar Landbúnaðarráðuneytisins afmörkuð 5.600 m² lóð úr landi Snartarstaða undir aðveitustöð. Um nánari afmörkun lóðarinnar var vísað til meðfylgjandi uppdráttar sem dagsettur var 13. september 1978. Skjalinu var þinglýst á jörðina 23. janúar 2007.
Í kjölfar þessa gernings reis ágreiningur að nýju um merki jarðanna með tilliti til spildunnar sem spennistöðin stóð á. Að beiðni skrifstofustjóra landbúnaðarráðuneytisins var Sigurður Þór Guðmundsson héraðsráðunautur fenginn til þess að leggja mat sitt á ágreiningsefnið. Í greinargerð hans, dags. 25. ágúst 2008, er vikið að því að ágreiningur sé milli ábúenda Snartarstaða og eiganda og ábúanda Brekku um hvar á Kollufjalli miða skuli landamerkjalínuna. Haldi ábúendur Snartarstaða því fram að miða eigi við vörðu sunnan til í Kollufjalli, en Dagbjartur Bogi telji að miða eigi við topp fjallsins. Þessi ágreiningur valdi því að báðir telji spennistöðina standa í sínu landi. Taldi Sigurður sig ekki hafa forsendur til þess að skera úr um hvor hefði rétt fyrir sér um túlkun landamerkjalýsingarinnar.
Lögmaður aðalstefnanda áréttaði afstöðu eigenda Brekku með bréfum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins 15. október og 12. nóvember 2008. Í málinu liggja fyrir athugasemdir Helga Árnasonar og Sigurlínu Jóhönnu Jóhannesdóttur, ábúenda á Snartarstöðum, dags. 14. desember 2008, við afstöðu aðalstefnenda. Þar er því haldið fram að á sínum tíma hafi Ingimundur Jónsson synjað RARIK um spildu fyrir spennistöð, sem hafi þá leitað eftir því að hún risi í landi Snartarstaða. Hún hafi svo verið reist þar án þess að Ingimundur hefði gert athugasemdir við það. Við afmörkun lóðarinnar hafi verið miðað við vörðu í sunnanverðu Kollufjalli sem þá hafi verið auðsjáanleg frá steini í Reiðgarði. Nú sjáist hins vegar aðeins vörðubrot þegar komið sé upp á fjallið. Til stuðnings því að miða eigi við þessa vörðu er í bréfinu vísað til ummæla Péturs Einarssonar, ábúanda í Garði, sem hafi m.a. vitnað um þetta til föður síns, Einars Benediktssonar, sem hafi verið bóndi í Garði á undan honum. Í bréfinu er því einnig haldið fram að Klíningsskarð sé allt í landi Snartarstaða en það samrýmist ekki því sem eigendur Brekku haldi fram.
Að beiðni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins var óskað eftir því með bréfi 14. september 2009 að sýslumaðurinn á Húsavík hlutaðist til um að leita sátta vegna ágreinings um landamerkin, sbr. 3. mgr. 6. gr. landamerkjalaga. Í gerðabók sýslumanns 25. júní 2010 kemur fram að efnislegur ágreiningur væri um túlkun og gildi ýmissa þeirra gagna sem lægju fyrir. Hafi samningatilraunir milli aðila ekki borið árangur. Óumdeilt sé þó að landamerkin gangi beint úr steini í Reiðgarði og að þau „fari um Kollufjall og Klíningsskarð“. Þá sé í landamerkjalýsingum og öðrum heimildum vísað til þess að landamerki jarðanna liggi „sunnan við Beltisvatn“. Sýslumaður tekur jafnframt fram að fyrir liggi gervitunglamynd sem Sigurgeir Skúlason landfræðingur hafi teiknað línur og punkta á. Varð það sáttatillaga sýslumanns að landamerkin skyldu halda áfram í beinni línu frá steini í Reiðgarði, um Kollufjall og Klíningsskarð og áfram beina línu sunnan við Beltisvatn, eins og hún væri dregin á fyrrgreindri yfirlitsmynd Sigurgeirs.
Nokkur samskipti áttu sér stað milli lögmanns aðalstefnenda, ráðuneytisins og sýslumannsembættisins í kjölfarið. Af þessum samskiptum verður ráðið að aðalstefnendur hafi talið sáttatillögu sýslumanns stangast á við framlögð gögn. Hins vegar gat ráðuneytið fellt sig við tillöguna. Frekari sáttatilraunir hafa ekki skilað árangri og var málið höfðað 20. mars 2013, eins og áður greinir.
III.
1. Málsástæður og lagarök aðalstefnenda í aðalsök
Aðalstefnendur vísa til þess að í málinu liggi fyrir lögboðnar landamerkjalýsingar frá árinu 1884 sem hafi verið gerðar á grundvelli eldri landamerkjalaga, nr. 5/1882. Þessar lýsingar séu gerðar af réttum aðilum, þ.e. fulltrúa eiganda Snartarstaða og eigenda Brekku. Þær hafi á sínum tíma verið færðar í landamerkjabók lögum samkvæmt, verið þinglýst á viðkomandi jarðir og aldrei sætt neinum andmælum um form eða efni. Telja stefnendur að ekki séu fyrir hendi neinar aðrar löglegar og bindandi lýsingar merkja. Aðalstefnendur mótmæla því að uppskriftir eða afritun af umræddu landamerkjabréfi hafi gildi eða víki til hliðar sjálfu landamerkjabréfinu frá árinu 1884.
Aðalstefnendur byggja á því að umræddar landamerkjalýsingar falli að kröfugerð þeirra í málinu.
Varðandi punkt A í kröfugerð aðalstefnenda taka þeir fram að í landamerkjalýsingu sé miðað við tréstaur sem hafi verið settur niður við sjó. Tréstaurinn sé horfinn en í örnefnaskrá, sem liggi fyrir í málinu, sé lýsing á landamerkjum. Þar sé merkjalínan sögð liggja litlu sunnar en frá því þar sem Snartarstaðalækur fellur í sjó og þá á Syðranesi. Vísa aðalstefnendur um þetta til framlagðrar loftmyndar þar sem merktur er punktur A á sjávarkambinum, en stefnendur telja að merki þetta sé í samræmi við landamerkjalýsingu.
Þaðan telja aðalstefnendur að línan liggi í punkt B, sem sé steinn í Reiðgarði. Enginn ágreiningur sé um það merki, en steinninn blasi við. Um þetta merki vísa aðalstefnendur til fyrirliggjandi loftmyndar og ljósmyndar af steininum.
Aðalstefnendur taka fram að í landamerkjalýsingu komi fram að merkjalínan liggi frá steini í Reiðgarði í Kollufjall. Punktur C sé hnitsettur á fyrirliggjandi loftmynd og sé hann í gamalli vörðu á toppi Kollufjalls. Varða þessi sé augljóst kennileiti og um það vísað til fyrirliggjandi ljósmynda. Á þetta merki hafi gagnstefnandi ekki viljað fallast. Hafi starfsmaður gagnstefnanda þess í stað dregið línu sunnan í hlíðar Kollufjalls án þess að nein rök standi til þess. Hafi því verið haldið fram að steinahrúga sé landamerki sem miða beri við. Hafi verið upplýst að verið sé að draga beina línu frá steini í Reiðgarði sunnanvert í Kollufjall og suður fyrir Beltisvatn.
Aðalstefnendur kveða línuna liggja þaðan samkvæmt landamerkjabréfi í Klíningsskarð. Klíningsskarð blasi við af toppi Kollufjalls. Punktur D, sbr. fyrrgreinda loftmynd og ljósmyndir af skarðinu, sé í Klíningsskarði eins og lýst sé. Lína gagnstefnanda sé langt frá Klíningsskarði og ekki í neinu samræmi við landamerkjalýsingu.
Frá Klíningsskarði segi í landamerkjalýsingunni að línan liggi „þaðan sunnan við Beltisvatn og síðan í Blikalónsdal, þar sem Hólsstígsþjóðvegur liggur í Blikalónsdalinn“. Punktur E sé staðsettur þar, sbr. fyrirliggjandi loftmynd og ljósmyndir er sýna staðhætti. Aðalstefnendur kveða engan ágreining með aðilum um hvar þessi staður sé enda blasi það við. Aðila greini hins vegar á um staðsetningu merkjalínu við vatnið. Aðalstefnendur reisi kröfur sínar á merkjalínu sem sé bein lína frá punkti D til punkts E. Þegar horft sé til Beltisvatns af fjallinu austan við Klíningsskarð, eins og sjáist af fyrirliggjandi ljósmyndum, þá sjáist vel til Beltisvatns, sem þá liggi norðan við punkt E. Aðalstefnendur telja óhætt að fullyrða að þessi sýn hafi ráðið lýsingu og orðalagi í landamerkjabréfinu, þar sem segi „sunnan við Beltisvatn“. Lögskýringar, efnis- og orðalagsskýringar taki mið af fyrri tíð en ekki nútímaúrræðum í formi loftmynda og GPS tækjabúnaðar. Línan fari þá yfir syðsta hluta vatnsins þ.e. rana, sem gangi út úr vatninu og nes, en Beltisvatn sé í laginu eins og hóffar. Línan sé þannig sunnan við sjálft vatnið. Aðalstefnendur taka í því sambandi fram að Beltisvatn sé með leirbotni og sé allgrunnt. Það sé breytilegt að stærð og geti þornað upp syðst í rönum.
Aðalstefnendur halda því fram að engin gögn styðji á einn eða annan veg að þeir eða fyrri eigendur Brekku hafi samið sig undir ný landamerki jarðarinnar eða afsalað landi með breyttum merkjum frá lögformlegum lýsingum í landamerkjabréfi frá árinu 1884. Í þeim efnum taka aðalstefnendur fram að lega girðinga breyti engu í málinu, enda hafi girðingunum ekki verið ætlað að gefa til kynna merki jarðanna.
Aðalstefnendur taka fram að farið hafi verið yfir meint landamerki í greinargerð ráðgjafa gagnstefnanda frá 25. ágúst 2008. Heimildarmenn hans séu þar tilgreindir ábúendur í Hjarðarási. Þar sé vísað til girðingar milli Garðs og Snartarstaða og gerð grein fyrir því á mynd 1 í skjalinu að girðingin sé ekki á landamörkum að áliti beggja aðila. Það sé rétt, en um sé að ræða túngirðingu, sem bóndinn á Garði hafi reist með leyfi aðila. Í skjalinu sé síðan vikið að myndum 2 til 3 og fullyrt að um merkjagirðingar sé að ræða. Því hafna aðalstefnendur sem röngu eða telja að um misskilning sé að ræða hjá viðkomandi. Umrædd girðing sé sauðfjárveikivarnargirðing sem ekki hafi verið sett upp á landamerkjum jarðanna. Girðingarnar hafi verið settar upp af Sauðfjárveikivörnum ríkisins undir stjórn Sæmundar Friðrikssonar, forstjóra Sauðfjárveikivarna ríkisins, á árunum 1939-1940. Aðalstefnendur geta þess að umrædd girðing hafi legið frá húsi á Kópaskeri sem hafi verið kallað Aðalsteinn þvert yfir Melrakkasléttu til sjávar við Krossavík í Þistilfirði. Girðingarstæði hafi ekki tekið mið af landamerkjum heldur hafi það verið valið með tilliti til snjóalaga til að létta viðhald og fjárheldni girðingarinnar.
Aðalstefnendur taka fram að á mynd 4 í fyrrgreindri greinargerð sé fjallað um „vörðubrot“ á suðuröxl Kollufjalls. Þar sé því haldið fram af ábúendum Hjarðaráss að þau „telja að ávallt hafi verið miðað við vörðu sunnan til í Kollufjalli“. Um þetta atriði taka aðalstefnendur fram að ekki sé unnt að reisa úrlausn máls þessa á áliti samtímafólks, sem þar að auki hafi öðlast hagsmunalega stöðu með samningum við stefnda um ábúð á hluta Snartarstaða. Þau vísi til fyrri ábúanda að Garði, sem sé úr landi Brekku, en hann telji án vissu að túngirðingin við Garð hafi að hluta til verið í landi Snartarstaða. Aðalstefnendur telja að slíkar vangaveltur séu ekkert innlegg í ágreiningsmál þetta.
Aðalstefnendur árétta í þessu sambandi að á toppi Kollufjalls sé varða frá ómunatíð eins og sjá megi á framlögðum ljósmyndum. Aðalstefnendur fullyrða að faðir þeirra og feður þeirra hafi ávallt kveðið vörðuna vera merki milli jarðanna. Þeir telja hins vegar að meint „vörðubrot“ sem vísað sé til sunnan undir Kollufjalli beri alls ekki með sér að hafa verið varða. Steinahrúga þessi gefi ekki til kynna að þarna hafi verið varða í skilningi landamerkjalaga nr. 5/1882, hvorki varðandi lögun, grunnsetningu né annað. Frá steinahrúgunni sjáist alls ekki í Klíningsskarð eins og við blasi frá vörðu á toppi fjallsins. Þá gefi augaleið að hvergi í landamerkjalýsingu beri lýsing það með sér að landamerki séu sunnan til í Kollufjalli heldur þvert á móti sé tekið fram að landamerki sé í Kollufjall. Aðalstefnendur telja að það beri að skýra sem svo að átt sé við topp fjallsins.
Um lagarök vísa aðalstefnendur til þess að byggt sé á framlögðu landamerkjabréfi frá árinu 1884 með vísan til laga nr. 5/1882, sem þá hafi verið í gildi, og til laga um landamerki nr. 41/1919, einkum 1., 2., 3. og 5 . gr. laganna. Þá vísa stefnendur til laga um skráningu og mat fasteigna nr. 6/2001 og skipulagslaga nr. 123/2010, einkum 47. og 48. gr. og til jarðalaga nr. 81/2004. Aðalstefnendur vísa einnig til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, þ.e. til 2. mgr. 25. gr. laganna um viðurkenningu á eignarréttindum, til 3. mgr. 33. gr. laganna um varnarþing og 1. mgr. 130. gr., sbr. 4. mgr. 129. gr. um málskostnaðarkröfu sína, sem og til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt með áorðnum breytingum.
2. Málsástæður og lagarök gagnstefnanda í aðalsök og gagnsök
Gagnstefnandi tekur fram að handhafi ríkisjarða landbúnaðarráðuneytisins sé nú fjármála- og efnahagsráðuneytið fyrir hönd Ríkissjóðs Íslands, sbr. e- og f-liði 3. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 66/2013.
Gagnstefnandi vísar til fyrrgreindrar landamerkjalýsingar Snartarstaða í Prestóhólahreppi, dags. 16. janúar 1884. Hann hafi sett fram kröfu um landamerki í gagnsök og hnitasett hana. Jafnframt krefst hann sýknu af kröfum aðalstefnenda. Gagnstefnandi kveður landamerkjakröfu sína byggjast á túlkun hans sem landeiganda á landamerkjalýsingunni, gögnum, upplýsingum ábúenda og vitnisburði staðkunnugra og vísar þar til bréfs ábúenda á hluta Snartarstaða frá 14. desember 2008.
Gagnstefnandi kveður landamerkjabréf Snartarstaða hafa að geyma fjóra punkta gagnvart Brekku sem hafi verið staðsettir. Fyrsti punkturinn sé tréstaur niður við sjó, en hann sé löngu týndur og ekki sé vitað hvar hann hafi verið nákvæmlega. Annar punkturinn sé steinn í Reiðgarði, þekktur punktur og óumdeildur. Þriðja punktinn kveður gagnstefnandi vera sunnan við Beltisvatn. Það sé ekki nákvæmur punktur, en þó án vafa sunnan við vatnið. Fjórði og síðasti punkturinn sé þar sem Hólsstígurinn liggur niður í Blikalónsdalinn. Gagnstefnan lúti að þessum punktum og í kröfugerð hans séu þeir hnitsettir.
Gagnstefnandi kveður málsástæður í gagnsök endurspegla varnir sínar í aðalsök og ástæður þess að hann telur kröfur aðalstefnenda ekki eiga við rök að styðjast. Því sé óhákvæmilegt að fjalla saman um þessar málsástæður.
Fyrst sé borið niður við tréstaur niður við sjó en gagnstefnandi kveður hann löngu týndan. Ekki sé vitað hvar hann hafi nákvæmlega verið. Gagnstefnandi telur hins vegar að eðlilegt sé að staðsetja hann með því að framlengja landamerkjalínuna frá punkti nr. 2 og niður í sjó þar sem ekki komi fram að línan eigi að beygja við stein í Reiðgarði, sem sé óumdeildur punktur. Í landamerkjalýsingu standi að línan fari í Kollufjall en ekki sé frekari lýsing á því hvar hún fari yfir fjallið. Síðan segi að hún fari um sunnanvert Klíningsskarð, en sveigur sé í skarðinu þannig að það liggi nánast í „S“ í gegnum fjallsranann. Gagnstefnandi fellst ekki á túlkanir aðalstefnenda á landamerkjalýsingunni varðandi þessi kennileiti. Hann mótmælir því að varða sú sem aðalstefnendur miði við geti verið merkjavarða eða að hún samræmist landamerkjalýsingu. Gagnstefnandi telur einboðið að hafi átt að miða við vörðu í fjallstoppi hefði það komið fram í landamerkjalýsingunni með því að getið hefði verið um vörðu, en það sé ekki gert. Eigendur Snartarstaða og ábúendur hafi miðað við vörðuna sunnan til í fjallinu. Eigendur Brekku hafi ekki gert við þetta athugasemdir fyrr en síðar, svo sem fram komi í gögnum málsins. Aðalstefnendur hafi hvergi rökstutt hvenær umrædd varða á toppi fjallsins hafi komið til eða verið gerð. Orðalagið „í Kollufjall“ bendi ekki til þess að um sé að ræða topp fjallsins, hvað þá vörðu þar. Línan sé bein í gegnum Kollufjall og áframhaldandi í sunnanvert Klíningsskarð, áfram í punkt sunnan Beltisvatns og þaðan í Hólsstíg. Ekki sé þó miðað við vörðu í fjallinu í kröfugerð gagnstefnanda enda hvergi á vörðu minnst í landamerkjalýsingu. Telur gagnstefnandi það samræmast best landamerkjalýsingunni að um sé að ræða beina línu á þessum kafla sem fari í fjallið, í sunnanvert Klíningsskarð og í punkt sunnan Beltisvatns. Frá hlíðinni sem miðað sé við í Kollufjalli sjáist áfram inn í landið og í Klíningsskarð.
Gagnstefndi kveður þriðja punktinn samkvæmt landamerkjalýsingunni vera sunnan við Beltisvatn. Það sé ekki nákvæmur punktur, en á því sé byggt að hann sé án vafa sunnan við vatnið. Punktur nr. 3 sé settur eins nálægt vatninu og hægt sé, en þó þannig að hann uppfylli lýsinguna, þ.e. að línan sé sunnan við vatnið, en ekki yfir vatnið. Loks sé punktur nr. 4 þar sem stígurinn fari ofan í dalinn, en samkomulag sé um hvar hann sé.
Gagnstefndi bendir á að fyrir liggi loftmyndir af Beltisvatni frá Landmælingum Íslands frá árunum 1946, 1960, 1984 og 1990. Myndirnar sýni að vatnið virðist hafa tekið mjög litlum breytingum a.m.k. á síðustu 67 árum. Gagnstefndi hafnar því að línan fari yfir vatnið. Engin rök standi til þess og það geti að mati stefnda ekki samrýmst landamerkjalýsingunni. Órökstutt sé með öllu að vatnið hafi tekið slíkum breytingum eða sé þess eðlis að línan fari yfir það.
Með vísan til þessa mótmælir gagnstefnandi hnitum þeim sem komi fram í stefnu. Svo sem að framan greini standi ágreiningur öðru fremur um það hvort línan fari í fjallstopp eða ekki og síðast en ekki síst hvar staðsetja eigi merki sunnan við Beltisvatn.
Gagnstefnandi kveður þau hnit, sem dómkröfur hans byggjast á, vera túlkun hans sem landeiganda á fyrirliggjandi landamerkjalýsingum og á grundvelli annarra fyrirliggjandi gagna auk vitnisburðar staðkunnugra. Í greinargerð sinni í aðalsök gerir hann grein fyrir efni þessara gagna. Þar ber hæst fyrirliggjandi landamerkjalýsingar Snartarstaða frá 16. janúar og 1. apríl 1884 og lýsingu á landamerkjum Brekku í landamerkjaskrá fasteignamatsnefndar 1920.
Gagnstefnandi telur enn fremur að í greinargerð Sigurðar Þórs Guðmundssonar frá 25. ágúst 2008 séu tilgreind atriði sem styðji kröfur gagnstefnanda þó hann treysti sér ekki til þess að álykta á grundvelli þeirra.
Gagnstefnandi vísar einnig til greinargerðar Helga Árnasonar og Sigurlínu Jóhönnu Jóhannesdóttur sem séu ábúendur á Snartarstöðum. Þau bendi meðal annars á að vegna andstöðu Ingimundar Jónssonar, þáverandi bónda á Brekku, við byggingu aðveitustöðvar Rafmagnsveitu ríkisins á árunum 1978 og 1979 og fyrri samskipta hans við Rafmagnsveitu ríkisins, hafi veitan ákveðið að leita eftir samkomulagi við eiganda og ábúanda Snartarstaða um að byggja stöðina á landspildu í Snartarstaðalandi. Það hafi verið gert m.a. í samræmi við lóðaruppdrátt og afstöðumynd frá árinu 1978 án þess að Ingimundur hafi gert athugasemdir við það, hvorki á byggingartíma mannvirkisins né síðar. Þá segi þau að landamerkjavarðan í sunnanverðu Kollufjalli hafi verið augljós frá byggð á byggingartíma aðveitustöðvarinnar og um langan tíma á eftir. Gagnstefnandi bendir á að Helgi hafi verið búsettur að Hjarðarási með foreldrum sínum, en þeirri jörð hafi verið skipt út úr Snartarstaðalandi.
Þá vísar gagnstefnandi til ummæla Péturs Einarssonar sem hafi verið ábúandi í Garði. Hann staðfesti að hin umdeildu landamerki séu með þeim hætti sem Helgi og Sigurlína telji vera rétt. Í skriflegri yfirlýsingu Péturs komi fram að hann hafi vitneskju sína um landamerkin meðal annars frá látnum föður sínum, Einari Benediktssyni, sem hafi verið bóndi á Garði. Þá hafi Guðni Ingimundarson, fyrrverandi bóndi á Hvoli, sem hafi verið fæddur á Snartarstöðum 1903, lýst landamerkjum með sama hætti.
Gagnstefnandi telur því ekki rétt að aðeins sé byggt á heimildum samtímafólks. Hugmynd aðalstefnenda um að miða eigi við vörðu á toppi Kollufjalls eigi sér enga stoð í landamerkjalýsingu. Engan veginn fái staðist að lýsingar ábúenda séu litaðar af samningsstöðu þeirra við gagnstefnanda, heldur sé hún reist á því hvað þeir hafi talið rétt merki.
Gagnstefnandi vísar í þessu sambandi einnig til sáttatillögu sýslumannsins á Húsavík sem og til yfirlýsingar Sigurgeirs Skúlasonar landfræðings frá 29. mars 2012. Þar komi fram landfræðileg rök fyrir hnitpunktum við Beltisvatn og þar sem Hólsstígur fari niður í Blikalónsdal. Hann bendi m.a. annars á að þegar komið sé að Beltisvatni sjáist til Klíningsskarðs. Þegar haldið sé áfram í austur sé farið yfir smáhæð áður en komið sé að þeim stað þar sem stígurinn fari ofan í Blikalónsdal. Frá stígnum á þeim stað sjáist ekki lengur til skarðsins né hæðanna þar sunnan við. Þá sé enginn vafi á því hve vatnið nái langt í suður. Sigurgeir telji mjög eðlilegt að Beltisvatn komi fyrir í landamerkjalýsingu með þeim hætti sem fyrir liggi, en þar segi að mörkin séu sunnan við vatnið. Það sé mjög skýrt kennileiti í landinu og eins sjáist þaðan til skarðsins. Að líkindum sé það ástæðan fyrir því að landamerkjalínan sé sögð sunnan Beltisvatns, enda sjáist þaðan til skarðsins og í stíginn þar sem hann fari niður í dalinn, en þá sé Klíningsskarð horfið sjónum. Þá bendi Sigurgeir á að vatnið sé mun meira og varanlegra kennileiti í landslaginu en niðurgangan í dalinn.
Gagnstefnandi telur þessa lýsingu ganga þvert á fullyrðingar í stefnu um að línan fari yfir vatnið og mótmælir hann því sem röngu og órökstuddu, enda sé hún í andstöðu við landamerkjalýsingu. Telur hann vatnið ekki breytast með þeim hætti sem fullyrt sé í stefnu og vísar því til stuðnings til fyrirliggjandi loftljósmynda af vatninu.
Gagnstefnandi kveðst byggja kröfur sínar á landamerkjalýsingu, nærtækri túlkun hennar og eldri heimildum, þ. á m. upplýsingum frá eldri ábúendum. Þá sé byggt á staðháttum og landfræðilegum gögnum eins og fram hafi komið.
Með vísan til framangreinds krefst gagnstefnandi sýknu í aðalsök. Kröfur gagnstefnanda í gagnsök eru reistar á sömu röksemdum og krafa hans í aðalsök. Til frekari stuðnings kröfum gagnstefnanda í aðalsök og í gagnsök vísar hann til landamerkjalýsingar og ákvæða landamerkjalaga frá 1882 og laga nr. 41/1919. Til stuðnings kröfum um málskostnað vísar gagnstefnandi í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um heimild sína til að hafa uppi gagnkröfu til sjálfstæðs dóms vísar gagnstefnandi til 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um sé að ræða deilu milli aðila um landamerki sem ekki hafi náðst sátt um. Gagnstefnandi kveðst hafa uppi þær kröfur sem greini í gagnstefnu, en að hann muni jafnframt krefjast sýknu í aðalsök. Af því leiði að svigrúm gefist til þess að ákvarða merki jarðanna á annan hátt ef dómurinn fellst ekki á ýtrustu kröfur aðila.
3. Málsástæður og lagarök aðalstefnenda í gagnsök
Í gagnsök taka aðalstefnendur fram að vísað sé til landamerkjabréfsins frá 16. janúar 1884 í gagnstefnu og réttilega rakið að það liggi til grundvallar úrlausn í máli þessu. Telja þeir þetta skjal vera frumskjalið. Önnur tilvitnuð skjöl séu eftirritanir, mismunandi nákvæmar og undirritaðar af öðrum en eigendum jarðanna. Kröfur gagnstefnanda séu hins vegar í allri útfærslu reistar á sjónarmiðum sem eigi litla stoð í landamerkjabréfum. Í stað þess að fylgja kennileitum landamerkjabréfsins frá vestri til austurs sé sett upp tilbúin lína og vitna aðalstefnendur í því sambandi til tiltekinna ummæla í gagnstefnu þar um. Þeirri lýsingu fylgi síðan hnitamerki sem sé uppistaða í gagnkröfu gagnstefnanda.
Aðalstefnendur telja óhjákvæmilegt að gera eftirfarandi leiðréttingar og athugasemdir við þessa kröfugerð, forsendur og útskýringar gagnstefnanda:
Aðalstefnendur telja það vera rangt sem haldið sé fram að einhverjir fjórir punktar séu í landamerkjabréfi Snartarstaða gagnvart Brekku. Upplýst sé að áður fyrr hafi verið settur niður tréstaur niður við sjó, sem muni nú vera horfinn. Það sé rangt að ekki sé vitað hvar hann hafi nákvæmlega verið. Umræddur tréstaur hafi verið á sjávarkambi í Syðranesi við Snartarstaðalæk. Telja aðalstefnendur að glögglega megi sjá það í örnefnalýsingu þeirra Guðna og Sigurðar Ingimundarsona á Snartarstöðum. Hnitapunktur A í stefnu X=615132 og Y=646599 sé því rétt hnitamerki. Tilbúin hnitamerki í gagnsök séu hins vegar röng. Á bls. 3 í gagnstefnu gefi að líta forsendur gagnstefnanda, en þar segi að punktinn við sjó „sé eðlilegt að setja með því að framlengja landamerkjalínuna frá punkti númer 2 niður í sjó“. Þetta útskýri kröfugerðina, en upplýsi um leið hversu fráleitar forsendur liggi til grundvallar kröfugerð gagnstefnanda.
Þá gera aðalstefnendur athugasemd við fjórða punktinn í gagnsök, sem sé sagður „ekki nákvæmur punktur“, en að hann sé staðsettur sunnan við Beltisvatn með tilgreindu hnitamerki. Aðalstefnendur telja þennan punkt ekki eiga neina stoð í landamerkjalýsingu og að hann sé hreinn tilbúningur gagnstefnanda.
Í greinargerð aðalstefnenda var gerð athugasemd við hnitamerki gagnstefnanda á öðrum punkti í gagnsök, steini í Reiðgarði, en eins og áður segir er ekki lengur ágreiningur við um hnitsetningu hans. Sama á við um fjórða punktinn þar sem Hólsstígur liggur niður í Blikalónsdal.
Aðalstefnendur telja framangreinda kröfugerð gagnstefnanda reista á hugmynd starfsmanns fjármálaráðuneytisins um það hvernig aðalstefndi gæti hugsað sér að landamerkin yrðu. Augljóst sé að inn á loftmynd hafi verið færð bein lína frá steini í Reiðgarði sunnan undir Kollufjalli, langt sunnan Klíningsskarðs og suður fyrir Beltisvatn, en þar sé búið til kennileiti til þess að sveigja til norðurs á Hólstígsveg, þar sem hann liggi í Blikalónsdal, til þess að ná lendingu í kennileiti samkvæmt landamerkjabréfi.
Aðalstefnendur benda á að bændur 19. aldar hafi ekki notast við loftmyndir við samninga um landamerki jarða og fráleitt sé að túlka eldri landamerkjabréf með þeim hætti í dag. Telja þeir að það sé grundvallarvilla að túlka landamerkjabréf frá 16. janúar 1884 með öðrum hætti en rakið sé í bréfinu sjálfu, þ.e. eftir efni þess og orðanna hljóðan. Landamerkin eigi þannig að rekja frá sjó í vestri til Hólsstígsvegs í Blikalónsdals í austri. Kennileiti birtist jafnharðan og gengið sé á landamerki. Það sé rangt, sem fullyrt sé í gagnstefnu, að landamerkjabréf og landamerki verði rakin frá austri til vesturs.
Á því er byggt af hálfu aðalstefnenda að í landamerkjabréfi séu merki rakin frá staur við sjávarkamb, þaðan sem sjáist til steins í Reiðgarði og þá í Kollufjall. Af Kollufjalli sjáist í Klíningsskarð og upp af Klíningsskarði megi sjá í Beltisvatn. Sú lína sem gagnstefnandi reisi kröfur sínar á fari frá Reiðgarði um Kollufjall sunnanvert. Frá þeim stað sjái alls ekki í Klíningsskarð, sem sé afdráttarlaust kennileiti í landamerkjabréfi. Telja aðalstefnendur gagnstefnanda raunar virða það kennileiti algjörlega að vettugi og búi til línu langt sunnan Klíningsskarðs að Beltisvatni eins og áður segi.
Í greinargerð gagnstefnanda í aðalsök og í gagnstefnu sé vísað til yfirlýsinga utanaðkomandi og óskyldra aðila auk þess sem þar gefi að líta fullyrðingar um það hvað einhverjir núverandi ábúendur á Snartarstöðum og jarðarpörtum Snartarstaða hafa talið varðandi landamerki Brekku og Snartarstaða. Aðalstefnendur telja ljóst að landamerkjabréf frá 16. janúar 1884, undirritað af forráðamanni Snartarstaða og eiganda Brekku, liggi til grundvallar um úrlausn ágreinings aðila í máli þessu. Að þeirra mati skipti engu hvað núverandi leiguliðum eiganda Snartarstaða finnist eða sýnist þar um, en þeir telji sig hafa þekkingu sína frá Guðna og Sigurði Ingimundarsonum, sem séu höfundar að framlagðri örnefnaskrá.
Þá mótmæla aðalstefnendur því að vangaveltur og línusetning Sigurgeirs Skúlasonar landfræðings hafi nokkurt gildi í máli þessu. Óhjákvæmilegt sé að leiðrétta fullyrðingar sem þar komi fram „að þegar komið sé að Beltisvatni sjáist til Klíningsskarðs“. Það sé alrangt að mati aðalstefnenda, en fjall sé fyrir austan skarðið sem beri þar á milli, svo og Skarðsbrekkan.
IV.
Í máli þessu greinir aðila á um landamerki milli jarðanna Snartarstaða og Brekku í Norðurþingi, áður Núpasveit. Ágreiningur aðila nær frá sjávarkambi í vestri allt austur í Blikalónsdal, sem er sigdæld á miðri Melrakkasléttu, 15 til 20 km löng, og liggur til norðurs í Skálavík vestur af Rifstanga. Tveir punktar á kröfulínum aðila eru ágreiningslausir. Annars vegar greinir aðila ekki á um hvar steinn í Reiðgarði er, en hann stendur svo að segja í hlaðinu á íbúðarhúsinu að Garði nálægt suðvesturhorni trégirðingar sem umlykur Snartarstaðakirkju og gamla skólahúsið sunnan við kirkjuna. Hins vegar er lokapunktur kröfulínu beggja aðila á sama stað, en þar kveða aðalstefnendur að Hólstígsþjóðleiðin liggi niður í Blikalónsdal. Við vettvangsferð mátti glögglega greina hvar stígur lá þar niður í sigdældina.
Þess ber að geta að girðing skilur að tún Snartarstaða og Brekku austan við húsið á Garði, skólahúsið og Snartarstaðakirkju. Liggur girðingin í austur frá suðausturhorni fyrrgreindrar trégirðingar í áttina að spennistöð Rafmagnsveitu ríkisins. Upplýst er að girðing þessi er sauðfjárveikivarnargirðing sem lögð var áfram norður fyrir Kollufjall. Ágreiningslaust er að girðing þessi hafi ekki verið reist á landamerkjum Brekku og Garðs annars vegar og Snartarstaða hins vegar, enda fylgir hvorug kröfulínan girðingunni. Girðingin stendur þannig á þrætulandi miðju. Eftir sem áður ræður hún hvernig tún eru nytjuð, en upplýst var við aðalmeðferð að ábúandi Snartarstaða slær túnið norðan girðingar meðan Brekkubændur slá það sunnan hennar. Einnig liggur girðing í vestur frá sömu trégirðingu, nálægt steini í Reiðgarði, og fram á sjávarkambinn. Aðila greinir heldur ekki á um að þessi girðing ráði ekki landamerkjum milli jarðanna, en gagnstefnandi hefur ekki látið kröfulínu sína fylgja henni. Af framangreindu leiðir að lega þessara girðinga og þau landnot sem aðilar hafa haft á þrætulandinu hefur ekki þýðingu við ákvörðun landamerkja jarðanna.
Þær landamerkjalýsingar sem liggja fyrir um mörk milli Brekku og Snartarstaða eru raktar orðrétt í kafla II. Draga verður þá ályktun að endurritin, sem gagnstefnandi lagði fram af landamerkjabréfunum frá 16. janúar 1884 og 1. apríl 1884, séu úr landamerkjabók sýslumanns sem skylt var að halda samkvæmt 6. gr. landamerkjalaga nr. 5/1882. Verður að ganga út frá því að landamerkjabréfin hafi verið réttilega færð til bókar, enda ekki sýnt fram á annað. Engin skýring liggur fyrir hvers vegna tvö landamerkjabréf voru gerð fyrir jörðina Snartarstaði með svo skömmu millibili. Síðara bréfið, sem er samkvæmt landamerkjabók áritað um samþykki bæði ábúenda jarðanna og eigenda eða fyrir þeirra hönd, var þinglesið skömmu eftir að það var ritað, eða 26. júní 1884. Eldra bréfið, sem er undirritað af eiganda Brekku og umboðsmanni þjóðjarðanna Snartarstaða, Leirhafnar og Blikalóns, var þinglesið síðar, eða 18. maí 1885. Ekki er því útilokað að sjálft bréfið hafi verið ranglega ársett 1884 í stað 1885 þó að ekki sé unnt að slá neinu föstu um það.
Landamerkjabréfin greina frá merkjum sem ganga frá einu kennileiti til annars frá vestri til austurs. Kennileiti þessi eru þekkt og augljós í landslaginu nema tréstaur niður við sjó, sem mun hafa horfið sökum ágangs sjávar. Þannig er vitað hvar Kollufjall er, sem hlýtur að vera það fjall sem átt er við þegar vísað er til Kötlufjalls í landamerkjabréfinu frá 16. janúar 1884. Sama á við um Klíningsskarð og Beltisvatn. Ágreiningur aðila lýtur aftur á móti að því hvar merkin komi á þessi kennileiti.
Þótt ekki sé tekið svo til orða í landamerkjabréfunum að sjónhending ráði merkjum milli þessara staða verður að gæta að því að við gerð þeirra hlýtur að hafa verið miðað við röð sýnilegra kennileita sem rekja hafi mátt merkin eftir frá einum stað til annars án þess að styðjast við uppdrætti eða hnitasetningar. Þó að ekki sé útilokað að við samningu landamerkjalýsingarinnar hafi verið leitast við að draga beina línu frá upphafspunkti til síðasta kennileitisins verður að leggja landamerkjabréfin til grundvallar þannig að mörkin liggi milli kennileitanna sem koma þar fram með þeim brotum sem þar kunna að verða á mörkum.
Eins og fyrr greinir er steinn í Reiðgarði þekkt og óumdeilt kennileiti í landamerkjabréfunum. Í þeim segir að frá steininum liggi mörkin „í Kötlufjall“ eða „í Kollufjall“. Í hvorugu bréfanna kemur fram að mörkin liggi um vörðu á fjallinu. Fjallið er lágt, 124 metrar yfir sjávarmáli, og reglulegt í lögun. Sé horft frá steini í Reiðgarði er toppur þess fyrir miðju fjallinu. Í heild sinni er Kollufjall sýnilegt og augljóst einkenni í landslaginu, en á því eru að öðru leyti engin sérkenni sem auðvelt er að miða merki við. Nærtækt hefði því verið að geta þess í landamerkjabréfunum hefðu merkin átt að koma á vörðu í hlíðum Kollufjalls. Með þetta í huga og þar sem ekki segir í landamerkjabréfunum að merkin liggi um sunnanvert fjallið, þar sem lína gagnstefnanda liggur, telur dómurinn að líkur séu á því að merkin eigi að liggja frá steini í Reiðgarði í mitt Kollufjall og upp á topp. Af þessum sökum ber að leggja sönnunarbyrðina á gagnstefnanda um að merkin, eins og þeim er lýst landamerkjabréfunum, liggi annars staðar um fjallið. Sú sönnun hefur ekki tekist. Því er fallist á kröfugerð aðalstefnenda um punktinn C.
Samkvæmt landamerkjabréfinu frá 16. janúar 1884 liggja merkin „og svo í Klíningsskarð“. Í landamerkjabréfinu frá 1. apríl 1884 er þetta orðað þannig að merkin liggi „þaðan og sunnanvert í Klíningsskarð“.
Klíningsskarð gengur inn í syðsta hluta Leirhafnarfjalla. Nokkru norðan við skarðið eru Fjallsendar, sem svo eru nefndir á atlaskorti Landmælinga Íslands, en sunnan við það er lágt fell sem á sama korti segir að sé 135 m hátt en ber þar ekkert heiti. Frá mynni skarðsins að vestanverðu, sem blasir við frá toppi Kollufjalls, liggur það milli fjallanna með stefnu í norðaustur, en tekur síðan fljótlega sveig til suðausturs þar til komið er út úr því að austanverðu. Kröfulína aðalstefnenda liggur um mynni skarðsins, þar sem kröfupunktur D er staðsettur, og þaðan beina línu upp hlíðar fjallsins austan við punktinn, eftir að skarðið sveigir til suðausturs. Kröfulína gagnstefnanda liggur um það bil 270 metrum sunnar.
Eins og áður segir ber að leggja lýsingu landamerkja samkvæmt landamerkjabréfum, sem gerð voru í samræmi við landamerkjalög, til grundvallar við úrlausn ágreiningsins þannig að mörkin liggi milli þeirra kennileita sem þar koma fram. Í báðum landamerkjabréfunum sem fyrir liggja um mörk jarðanna segir að þau liggi í Klíningsskarði, en ekki við skarðið. Frá Kollufjalli sést í mynni skarðsins að vestanverðu. Norðurhlíðin í fellinu sunnan skarðsins lokar hins vegar fyrir sýn um aðra hluta skarðsins, en hlíðin hallar til norðnorðvesturs frá tveimur skerjum efst á fellinu. Suðurhlíðar fjallsrana sem gengur úr Fjallsendum, norðan skarðsins, halla í öfuga átt. Saman mynda hlíðarnar lægð sem ber við himin frá Kollufjalli. Eins og áður segir er kröfulína gagnstefnanda sunnan við skerin efst á fellinu sunnan Klíningsskarðs. Hún er því utan við sýnileg kennileiti sem afmarka Klíningsskarð eins og þau koma fyrir sjónir frá Kollufjalli. Þá má sjá af loftmyndum að línan er nokkru sunnar við þann stað þar sem skarðið opnast til suðausturs. Kröfugerð gagnstefnanda á sér því ekki stoð í landamerkjabréfunum.
Í landamerkjabréfinu frá 16. janúar 1884, sem þinglesið var 18. maí 1885, er ekki lýst hvar í Klíningsskarði mörkin liggja. Aftur á móti kemur fram í landamerkjabréfinu frá 1. apríl 1884, sem var þinglesið 26. júní sama ár, að mörkin séu í sunnanverðu Klíningsskarði, eins og rakið hefur verið. Landamerkjabréf fyrir Brekku liggur ekki fyrir og virðist það aldrei hafa verið gert í samræmi við landamerkjalög. Í kafla II er aftur á móti gerð grein fyrir handrituðu skjali fatseignamatsnefndar þar sem lýst er landamerkjum jarðarinnar. Efni þess ber með sér að vera úr gjörðabók fasteignamatsnefndar í Norður Þingeyjarsýslu vegna fasteignamats sem fram fór á árunum 1916 til 1918 á grundvelli laga nr. 22/1915 um fasteignamat. Samkvæmt 8. gr. þeirra laga bar að tilgreina landamerki jarða þegar mat færi fram í fyrsta sinn. Ekki liggur fyrir hvaðan fasteignamatsnefnd hafði lýsingu landamerkja Brekku. Eftir sem áður getur sú lýsing verið til fyllingar því sem segir í landamerkjabréfunum um mörkin í skarðinu. Þar segir að merki Brekku að norðan liggi sunnan Klíningsskarðs að Ormarsá. Punkturinn D í kröfugerð aðalstefnanda er í mynni skarðsins að vestanverðu. Þar sem skarðið sveigir síðan til suðausturs er punkturinn í raun í norðanverðu skarðinu. Með hliðsjón af framangreindum gögnum, sem gefa til kynna að merkin eigi ekki að liggja þar, heldur um sunnanvert skarðið, og með vísan til þess að frá punkti D sést ekki til næsta kennileitis til austurs í landamerkjalýsingunum, hafa aðalstefnendur ekki sýnt fram á réttmæti kröfugerðar sinnar hvað þennan punkt varðar.
Hvorug kröfulína aðila fær því staðist að mati dómsins eins og þær eru dregnar um Klíningsskarð. Ekki verður þó hjá því komist að ákveða hvar landamerki jarðanna liggja í skarðinu. Eins og rakið hefur verið verður að líta svo á að merkin liggi í sunnanverðu skarðinu. Þegar litið er til staðhátta eins og þeir horfa við af Kollufjalli er nærtækt að álykta að línan fari um þá lægð sem ber við himin þar sem hlíðarnar norðan- og sunnanmegin skarðsins skarast. Lætur nærri að það sé ofan við þann stað þar sem skarðið opnast til suðausturs. Ekki nýtur við hnitamælingar á þessari staðsetningu, en af ljósmyndum og kortum sem fyrir liggja má draga þá ályktun að línan, sem þannig er dregin um skarðið, fari um punkt sem liggur um 135 metrum sunnan við punkt D í kröfugerð aðalstefnenda. Er það miðja vegu milli kröfulína beggja aðila og verður við þann punkt miðað.
Í landamerkjalýsingunni fyrir Snartarstaði frá 16. janúar 1884 segir að merkin liggi frá Klíningsskarði „þaðan sunnan við Beltisvatn og síðan í Blikalónsdal, þar sem Hólsstígsþjóðvegur liggur yfir Blikalónsdalinn“. Í lýsingunni frá 1. apríl 1884 segir um þessi merki að þau liggi „þaðan beint austur sunnan við Beltisvatn, þaðan og beint í Blikalónsdal þar sem Hólstígsþjóðbraut liggur yfir dalinn“.
Aðalstefnendur telja að lýsingin frá 16. janúar 1884, sem þeir byggja alfarið á, gefi til kynna að merkjalínan liggi í beinni línu frá Klíningsskarði að þeim stað þar sem þjóðleiðin liggur niður í Blikalónsdal. Því til stuðnings benda þeir á að frá þeim stað í skarðinu sem þeir miða við sjáist aðeins í norðanvert Beltisvatn. Því sé eðlilegt að lýsa þessari línu þannig að hún liggi sunnan við vatnið þó að sjá megi að hún fari yfir tvær víkur syðst á vatninu þegar línan er dregin á loftmynd. Þá sé yfirborð vatnsins breytilegt og því þorni stundum í víkunum.
Lögun vatnsins er í meginatriðum eins á loftljósmyndum frá 1946, 1960, 1984 og 1990, sem og á þeim loftmyndum sem kröfulínur aðila hafa verið dregnar. Við vettvangsathugun sáust ummerki um að þornað geti alveg syðst í austari víkinni þar sem grynnst er. Ekkert liggur hins vegar fyrir um að víkurnar sjálfar, þar sem kröfulína aðalstefnenda liggur, geti þornað upp, en ekki hefur verið upplýst um nein dæmi þess frá því að landamerkjalýsingarnar voru ritaðar.
Eins og landamerkjabréfin eru orðuð verður að leggja til grundvallar að merkjalínan liggi um punkt sem er sunnan við vatnið og að þaðan taki hún stefnuna á þann stað þar sem þjóðleiðin liggur niður í Blikalónsdalinn. Línan liggur því ekki beina leið frá Klíningsskarði yfir víkurnar sem ganga suður af meginvatninu, eins og aðalstefnendur halda fram. Kröfulína gagnstefnanda liggur um punkt sem er við vatnsbakkann syðst við austari víkina. Sú staðsetning samræmist best fyrirliggjandi landamerkjalýsingum og verður á hana fallist. Lokapunktur í kröfulínum beggja aðila, þar sem þjóðleiðin liggur niður í Blikalónsdal, er óumdeildur eins og áður segir.
Að lokum verður að ákvarða staðsetningu landamerkja jarðanna til vesturs frá steini í Reiðgarði. Landamerkjabréfin vísa þar til tréstaurs við sjó sem er horfinn vegna ágangs sjávar eins og áður er getið. Aðalstefnendur gera kröfu um að miða skuli við punkt við sjávarbakkann skammt sunnan við Snartarstaðalæk. Styðja þeir þennan kröfupunkt við örnefnaskrá fyrir Snartarstaði. Hún er sögð styðjast við lýsingu Ara Gíslasonar sem hafi stuðst við lýsingar Skúla Skúlasonar og Skúla Þorsteinssonar. Þá segir þar að Sigurður Ingimundarson hafi farið yfir lýsinguna með Ara. Sumarið 1973 hafi Kristján Eiríksson síðan borið lýsingu Ara undir Guðna Ingimundarson að Snartarstöðum. Hann sé fæddur 3. febrúar 1903 að Snartarstöðum og hafi búið þar uns hann hafi stofnað nýbýlið Hvol árið 1936. Þá hafi Kristján borið lýsingu Ara undir bróður Guðna, Sigurð Ingimundarson á Snartarstöðum. Sigurður hafi verið fæddur árið 1913 og hafi alla tíð átt þar heima. Hafi þeir bræður aukið mikið við lýsinguna og gert ýmsar athugasemdir.
Í örnefnaskránni segir orðrétt: „Bæirnir á Hvoli og Snartarstöðum standa skammt norðan við merkin móti Brekku og Garði; þeir standa þar á láglendi. Merkjalínan að sunnan liggur litlu sunnar en frá því þar sem Snartarstaðalækur fellur í sjó og norðaustur í Kollufjall (2).“ Nokkru síðar segir eftirfarandi í örnefnaskránni um Snartarstaðalæk: „Lækur þessi er talsvert vatnsmikill. Syðranes (5) er kallað sunnan við lækinn við merkin og Ytranes (6) norðan við hann.“
Eins og rakið hefur verið komu fyrrum ábúendur Snartarstaða, sem þar höfðu búið um langa hríð, að samningu örnefnaskrárinnar. Þar sem ekki er við önnur gögn að styðjast um mörkin við sjávarbakkann telur dómurinn rétt að taka tillit til þess sem þar greinir um mörkin. Leggja verður þann skilning í þá lýsingu að mörkin eigi að vera rétt suður af ósnum þar sem Snartarstaðalækur rennur til sjávar. Ekkert nes er sunnan við lækinn. Lækurinn er bugðóttur vestan þjóðvegar. Eftir að hafa runnið þar til suðurs tekur hann stefnuna í suðaustur en sveigir síðan beint til vesturs uns hann rennur til sjávar. Þar hallar strandlínan til norðvesturs. Við það myndast einsog svolítill tangi við sjávarbakkann sem markast af læknum að norðan og ströndinni að suðvestan. Miðað við staðhætti má ætla að þetta sé sá staður sem kallaður er Syðranes í örnefnaskránni. Samkvæmt henni eru mörkin á þessum tanga rétt sunnan við Snartarstaðalæk. Kröfupunktur A í aðalsök er á þessum stað, en kröfupuntur 1 í gagnsök er talsvert sunnar. Í þessu ljósi ber að fallast á kröfu aðalstefnenda um staðsetningu markalínunnar frá steini í Reiðgarði til sjávar.
Samkvæmt framansögðu er fallist að hluta á kröfur aðalstefnenda og að hluta á kröfur gagnstefnanda. Þá eru merkin um Klíningsskarð ákveðin milli kröfulína beggja aðila. Í því ljósi, og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, þykir rétt að hvor aðila beri sinn hluta að þeim kostnaði sem þeir hafa haft af rekstri málsins.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Landamerki jarðanna Snartarstaða og Brekku liggja eftir línu sem nær frá punkti við sjávarkambinn á Syðranesi (X=615132 m og Y=646599 m) að steini í Reiðgarði (X=615568.92 m og Y=646712.43 m), þaðan í vörðu efst á Kollufjalli (X=616903 m og Y=647334 m), þaðan í punkt sem liggur 135 metrum sunnan við kröfupunkt D í aðalsök, þaðan í punkt sunnan við Beltisvatn (X=625169.81 m og Y=650536.94 m) og þaðan í punkt þar sem Hólstígsþjóðleið liggur niður í Blikalónsdal (X=625465.80 m og Y=650881.30 m).
Málskostnaður milli aðalstefnenda, Dagbjarts Boga Ingimundarsonar og Rafns Ingimundarsonar, og gagnstefnanda, íslenska ríkisins, fellur niður bæði í aðalsök og gagnsök.