Hæstiréttur íslands
Mál nr. 202/2003
Lykilorð
- Fjársvik
- Skjalafals
- Skilorð
- Hegningarauki
- Brotasamsteypa
|
|
Fimmtudaginn 6. nóvember 2003. |
|
Nr. 202/2003. |
Ákæruvaldið(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari) gegn Aðalsteini Ólafssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Fjársvik. Skjalafals. Skilorð. Hegningarauki. Brotasamsteypa.
Í samræmi við játningu A var hann sakfelldur fyrir brot gegn 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing A var tiltekin eftir ávæðum 60. gr. og 78. gr. laga nr. 19/1940, jafnframt því sem litið var til ákvæða 77. gr. sömu laga. Var A dæmdur í 10 mánaða fangelsi, skilorðsbundið að hluta.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. maí 2003 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en einnig af hálfu ákæruvalds, sem nú krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð með þeim hætti að hún verði að öllu leyti skilorðsbundin.
Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi hlaut ákærði 29. janúar 2003 fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir skjalafals. Brot ákærða, sem nú eru til umfjöllunar, eru öll framin áður en sá dómur gekk. Verður refsing ákærða því tiltekin eftir ákvæðum 60. gr. sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, jafnframt því sem litið verður til ákvæða 77. gr. sömu laga, en hinn áfrýjaði dómur er vegna fleiri en eins brots ákærða. Af hálfu ákærða hefur sérstaklega verið skírskotað til hegðunar hans að undanförnu og að alllangt sé liðið frá því að brotin voru framin. Þegar hins vegar er litið til eðlis og umfangs brota ákærða, sem ekki mun hafa greitt dæmdar bætur, verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Aðalsteinn Ólafsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. apríl 2003.
Mál þetta var höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 25. febrúar sl., á hendur, Aðalsteini Ólafssyni, [ . . . ], „fyrir fjársvik með því að hafa, föstudaginn 26. apríl 2002, blekkt starfsmann Íslandsbanka, Smiðjuvegi 1, Kópavogi, símleiðis til að auka heimild til yfirdráttar á reikningi K, hjá bankanum nr. [ . . . ] um 100.000 kr. með því að segjast vera K og fengið starfsmanninn til að millifæra heimildarlaust 90.000 kr. inn á reikning ákærða nr. [ . . . ] hjá Íslandsbanka og slegið eign sinni á peningana.
Þetta er talið varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákæruvald krefst þess að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu er af hálfu Íslandsbanka, kt. 421289-4769, krafist skaðabóta 90.000 kr. auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26.5.2002 og síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga til greiðsludags."
Með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 21. mars sl., á hendur, sama, „fyrir skjalafals á árinu 2001 með því að hafa selt í Búnaðarbanka Íslands, Háaleitisútibúi, Suðurlandsbraut 2, Reykjavík veðskuldabréf og víxil, sem ákærði hafði falsað með áritun á nafni G, svo sem rakið er:
1.
Í febrúar skuldabréf [ . . . ] að fjárhæð 1.250.000 kr., sem ákærði gaf út til Búnaðarbanka Íslands, Háaleitisútibús, þann 7. sama mánaðar með veði í íbúð að [ . . . ] Reykjavík, og falsaði jafnframt með áritun á nafni G sem sjálfskuldarábyrgðarmanns.
2.
Í maí víxil [ . . . ] að fjárhæð 300.000 kr., gefinn út af Þ 9. maí 2001 og samþykktan af ákærða til greiðslu 9. júlí sama ár, sem ákærði hafði falsað með áritun á nafni G sem ábekings.
Telst þetta varða við 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar."
Ákærði kom fyrir dóm 21. mars sl. og játaði brot sín eins og þeim er lýst í ákærum. Eru játningar hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sín, en þau eru í ákæru réttilega færð til refsiákvæða.
Ákærði gekkst undir sekt vegna umferðarlagabrots 24. október 2001. Hinn 29. janúar sl. hlaut ákærði 4 mánaða skilorðsbundinn dóm í 2 ár fyrir skjalafals. Ber því að taka þá refsingu upp og dæma ákærða í einu lagi nú fyrir bæði málin, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til þess að ákærði hefur ekki áður sætt refsingu fyrir hegningarlagabrot og með vísan til 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing hans hæfilega ákveðin 10 mánaða fangelsi. Fresta skal fullnustu 7 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði hefur fallist á að greiða Íslandsbanka hf. skaðabætur eins og krafist er í málinu. Skaðabótakrafan er tekin til greina með vöxtum og dráttarvöxtum eins og segir í dómsorði.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 45.000 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Guðjón Magnússon fulltrúi.
Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Ákærði, Aðalsteinn Ólafsson, sæti fangelsi í 10 mánuði. Fresta skal fullnustu 7 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og skal sá hluti refsingarinnar falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði Íslandsbanka hf. 90.000 krónur í skaðabætur með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. apríl 2002 til 6. september s.á. en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hrl., 45.000 krónur.